Ármann Jakobsson
Mamma las bækurnar um múmínsnáðann fyrir hann tíu ára þó að hann gæti vel lesið sjálfur en hann vildi láta lesa fyrir sig og hún valdi þessar bækur. Aldrei sagðist hún vera múmínmamma eða hann múmínsnáðinn en samt fannst honum að sá væri leikur þeirra. Flestar voru fyndnar en sú sem leitaði mest á hann núna var tregablandna bókin þar sem múmínsnáðinn vaknar um veturinn og þarf að lifa hann af aleinn, fjölskylda hans steinsofandi og kunnuglegt heimilið á valdi annarra.
Um hvað fjallar þessi saga? hafði hann spurt mömmu.
Þú ert skrítið barn, hafði hún sagt. Sögur eru um það sem þær eru um.
En hann hafði ekki gefist upp og kveðið sjálfur upp úr með það:
Múmínsnáðinn er einmana. Hann saknar fjölskyldunnar. Mömmu sinnar.
Hann lærir að vera án þeirra, sagði mamma þá. Hann fær að sjá allan heiminn í nýju ljósi og tekur út þroska. Þroskuð manneskja er ekki einmana.
Skynjaði mamma ekki þjáninguna eða vildi ekki ræða hana? Eftir sat að hvergi yrði snáðinn meira einmana en á eigin heimili innan um sofandi ástvini; minningarnar um horfnar hamingjustundir kæfandi, engar jafn þrúgandi hillingar ástarinnar að finna á ókunnum stöðum.
Núna löngu síðar sá hann að sagan um vökuveturinn var full af dæmum um flókna, sársaukafulla og hverfula vináttu og það hvarflaði að honum að höfundurinn hlyti að hafa kynnst útskúfun og félagslegri einangrun. Hún hafði sennilega orðið þrítug og séð vinina halda sína leið. Horft ráðalaus á eftir þeim og ekki haft hugmynd um hvað ætti að gera.
Ekki elta fólk, hafði mamma sagt. Láttu fólk eltast við þig.
Sem gæti verið gott ráð í einhverju samhengi en eins og staðan var núna var niðurstaðan sívaxandi og sligandi einsemd.
Hann hlaut að hafa misst af í skólanum þegar þeim var kennd listin að láta fólk elta sig og eftir alla skólagönguna var hann enn ekki einhver sem fólk elti. Hann hafði auðvitað gluggað í leiðtogahandbækur sem snerust um nákvæmlega þetta en leið þá eins og hann lægi á gægjum því að þær voru augljóslega ætlaðar öðruvísi týpum.
Hvað ætli klukkan sé? Hann langar ekki til að vita það. Síminn titrar, það glamrar í tómu glasinu við hliðina og hann þykist vita að senn sé morgunn. Vill ekki á fætur. Gæti dvalið að eilífu undir sænginni.
Það þýðir ekkert að setja traust sitt á fólk, hafði mamma sagt. Manni á að líða best einum.
Ég vil vera ein, hafði Greta Garbo sagt. Mamma talaði oft um hana full aðdáunar. En hvernig hafði henni tekist til? Hafði hún verið ein? Er fólk eitt ef það sést ekki á fréttaljósmynd á árinu? Stundum hlýtur Garbo að hafa langað til að segja frá skondnu atviki eða óvæntum fróðleik. Æsku sinni á Blekingegatan eða þegar faðir hennar dó úr spænsku veikinni. Ef til vill hafði hún rætt þetta við pípulagningamanninn og póstinn. Eða legið í símanum til annarra gleymdra Hollywoodstjarna. Nema hún hafi gengið til sálfræðings eins og tíðkaðist hjá þeim frægu í Vesturheimi. Ef hann minntist sjálfur á einsemd var viðkvæðið gjarnan að hann ætti að leita til sálfræðings. Þótt það væri skrítið að borga manni til að hlusta á sögu af skondnu atviki eða ræða Gretu Garbo við hann.
Hafði Greta Garbo verið jafn ein og múmínsnáðinn vakandi í fullu húsi af sofandi ættingjum og vinum? Eða hann sjálfur í húsi andanna þar sem hver einasta mynd á vegg minnti á mömmu og pabba? Húsið fullt af andardrætti fólks sem aldrei mun anda framar.
Hver einasti munur. Hver einasta bók. Hvert einasta húsgagn. Veggirnir. Gólfið. Brotna rúðan í stofuhurðinni sem fékk að vera brotin áfram í áratug vegna þess að rétt tegund af gleri hafði ekki fengist á landinu árið 2003.
Hví er ég einn? spurði hann sig stundum en þá var eins og mömmu skyti í hans haus og segði: það er ekki spurningin heldur hvers vegna þér finnst óþægilegt að vera einn? Hann var kominn með fáein svör sem hugsanlega væru nógu skynsamleg. Eitt var: ég er ekki Garbo. Annað: maður er manns gaman. Ímyndaða mamma hristi höfuðið. Alvöru spurningum á ekki að svara með auglýsingafrösum, jafnvel dýrt stolnum úr Hávamálum, frasasafni asíska höfðingjans sem þóttist vera guð.
Drauga-Mamma minntist þó ekki á Jesús. Þó að hann væri augljós kostur því að Jesús er einmitt vinur þeirra sem eiga enga vini. Sem er líklega helsti tilgangur allra guða. Hví náði hann engu sambandi við hinn krossfesta?
Eða gæti ekki einu sinni hringt í hinn jafn munaðarlausa Batman úr blökusíma? Grímuklæddir glæpamannaskelfar fást auðvitað ekki við spurningar af þessu tagi. Það hefði mamma getað sagt honum. Hún kallaði reyndar leðurblökur fljúgandi rottur og hlustaði aldrei þegar hann reyndi að fræða hana um að þetta væri algengur misskilningur: leðurblökur væru sérstakur ættbálkur dýra og ekkert skyldari rottum en prímötum.
Það hafði tekið á að dingla einn eins og milljónungurinn Batman í hversdagslegu húsi með of mörgum herbergjum og húsgögnum sem foreldrar hans höfðu haft sinn undarlega smekk fyrir, að ógleymdum sjötíu smáum uglum sem mamma hafði safnað en engum auðfundnum kjallara með leðurblökum og sportbíl þannig að stundum reyndi hann frekar að vera Greta, einkum þegar hann vaknaði í bítið og hlustaði á þögnina. Hafði hún alltaf munað í morgunsárið að hún var Garbo en ekki aðeins lítið sandkorn í geimnum?
Hann hafði búið í 50 fermetrum í miðbænum áður en hann varð óvænt eigandi þessa einbýlishúss á ásnum ofan við dalinn en í bænum hafði aldrei ríkt þessi djúpa þögn sem var honum framandi; þau höfðu ekki flutt hingað fyrr en hann var 19 ára og andlega floginn úr hreiðrinu. Hafði á þeim árum bægt þögninni frá með tónlist í eyrunum.
Húsið stóð í hlíð í skógi vöxnu íbúðahverfi og inni varð ekki vart við neitt utandyra. Tilgangurinn eflaust að þykjast búa í sveit fjarri asa heimsins. Sjálfan hefði hann aldrei dreymt um að búa á slíkum stað en samt hafði hann dregist hingað inn þegar þau voru ekki lengur til, næstum eins og svipleg örlög þeirra væru aðdráttargeislinn úr Star Wars sem Obi Van fórnaði lífinu til að slökkva á. Hann ætlaði fyrst aðeins að dvelja hér í mánuð og taka til. Hafði jafnvel ímyndað sér að hann slakaði á og fyndi innri frið sem hann skorti átakanlega. Auðvitað hafði lítill smeykur púki birst rétt áður en hann flutti inn og hásróma varað við þessu auða húsi fullu af draugslegum minningum. Hús hafa sterka nærveru, hvæsti púkinn. Hann hafði kveðið púkann í kútinn og sagt hlæjandi við þennan ráma talandi fingur sinn að þrátt fyrir alla gróðursæld væru engir þyrnirunnar að stinga sig á og í kjölfarið sofa óstýrilátum svefni í eina öld en þó hafði honum líklega einmitt tekist að stinga sig á svefnþorni og nú rataði hann ekki út.
Greta Garbo þurfti ekki á fólki að halda. Hún heillaði milljónir með augnaráðinu einu. Jafnvel núna næstum einni öld síðar hafði myndband á netinu af henni næstum 140 þúsund áhorf. Hún var í gervi Kristínar Svíadrottningar horfandi dulræð í fjarskann. Illu heilli hafði hann reynt að stæla svipinn við spegil en speglar eru verstu óvinir fegurstu sjálfsblekkinga og sýndu honum aldrei nema tekinn og væskilslegan miðaldra mann að geifla sig, ekki forkunnarfagra kvikmyndastjörnu.
Hann hafði aldrei verið einn þeirra sem speglar elska, hvað þá myndavélar. Í stað þess gerðists hann þreyttur og að lokum útbrunninn fangavörður sem sá til þess að unglingar villtust ekki á glapstigu með því að kenna þeim þýska sagnbeygingu og lesa með þeim léttlestrarbækur um morð vegna þess að jafnvel Dürrenmatt og Max Frisch voru orðnir of erfiðir fyrir ungviðið.
Svipur Garbo gleymdist ekki en hann dinglaði öllum gleymdur í þessari grafhvelfingu, ekki sérdeilis Garbolegur, líkari veslings gamla riddaranum í Indiana Jones myndinni sem hafði staðið vörð um gralinn í átta aldir til þess eins að láta þennan svokallaða fornleifafræðing rústa pleisinu á hálftíma. Æði snjallt af gamla manninum annars að vera með nokkra bikara til að villa óverðugum sýn og þannig náði hann að fara illa með fégíruga Ameríkanann sem hafði elst leitursnöggt með tæknibrellum en þó ekkert ósvipað því þegar áður hressilegt fólk er skyndilega orðið aldrað á örfáum vikum í raunheimum.
Greta Garbo og gralriddarinn voru ef til vill alein en samt með hlutverk. Fólk mundi eftir henni og það voru alltaf einhverjir á leiðinni til hans með ærinni fyrirhöfn. En honum sjálfum barst ekki einu sinni póstur af því að pabbi vildi ekkert ónæði í kastalanum og átti box á pósthúsinu sem hafði nú verið lagt niður eða í orði kveðnu sameinað öðru pósthúsi lengst í fjarska en á gamla póstinum hafði pabbi þekkt allar konurnar og ræddi þær iðulega við soninn eins og hann ætti að þekkja þær líka.
Pabbi hafði aldrei efast um að hann þekkti fólk. Ef til vill höfðu þau mamma bæði haft þá náðargáfu að sjá inn í sálir annarra og bera kennsl á innsta eðli þeirra. Lengi hafði hann talið sig eins; hann hafði skilið krakkana sem hann kenndi fyrstu árin í skólanum og þau höfðu kunnað vel við hann. Uns dag einn voru allir sem hann hitti framandi. Eins og hann hefði vaknað horfinn úr tegundinni og búinn að gleyma hvernig mannfólk hugsar. Hefði ferðast til framtíðar í tímavél og verið skilinn þar eftir innan um elóa og mólóka. Hvernig hugsa slíkar verur? Er eitthvað við þær að ræða? Hefur hann sjálfur svo sem eitthvað við manneskjur að ræða?
Hann hafði lengi hugsað um sjálfan sig sem vinmargan og ímyndaði sér að aðrir héldu hið sama. En þegar vinirnir draga saman seglin kom í ljós hverjir voru mikilvægastir og það var ekki hann. Nema þetta hefði verið á hinn veginn. Hann hafði misst sambandið við gömlu vinina vegna þess að þau urðu leiðinleg og hann gat ekki litið fram hjá því. Ætti ekki að sakna þeirra. Verst hve erfitt honum fannst að eignast nýja vini.
Hrapið ofan í einveruna hófst fyrir tæpum áratug. Fyrst þegar hann hætti að drekka en versnaði margfalt þegar hann gafst upp á að fara út að skemmta sér í kjölfarið og síðan vegna alls konar óviðráðanlegra aðstæðna, eins og það hét í fréttatilkynningum. Á vinnustaðnum voru fylkingar: annars vegar yngra fólk sem vildi djamma en hins vegar fólk á hans aldri sem ræddi helst bleyjutegundir og nöldraði yfir því að eiga krakka. Sjálfur féll hann milli stafs og hurðar eins og allir sem ekki falla að hinu viðtekna. Hann hafði fyrst reynt að tilheyra yngra fólkinu. Hafði hann trúað því að þau samþykktu hann? En leið óþægilega í hópnum, fannst hann frekar umborinn en vel liðinn. Hann heyrði þau stundum hæðast að körlum á fertugsaldri sem ýmist væru lifandi dauðir eða hallærislegir pervertar sem sæktust á vandræðalegan hátt eftir félagsskap hinna yngri. Þessum sögum var ekki beint til hans en samt leið honum eins og boðflennu þegar hann heyrði þær enda varla sérstaklega kúl fyrir sinn aldur.
Stundum ímyndaði hann sér að það hefði verið best að vingast við krakkana sem hann kenndi. Þau voru iðulega skemmtilegri en samkennarar hans en það mátti auðvitað ekki hanga með krökkum; enginn Robin fyrir þennan Batman. Samt var honum alltaf boðið í partýin fyrir árshátíðina þegar mátti bjóða kennurum en hann afþakkaði vandræðalega. Ekki vegna þess að hann langaði ekki heldur þvert á móti. Að lokum fékk hann engin boð lengur og ímyndaði sér að það væri vegna þess að hann væri nú orðinn gamall og leiðinlegur.
Ég skil ekki fólk sem alltaf hangir með stúdentsárganginum sínum, sagði mamma oft. Hefur það ekkert þroskast og þróast?
Síðan hafði hún sent honum þýðingarmikið augnaráð. Hann hafði aldrei lært að leita sér að vinum eins og kom nú á daginn. Hann átti alltaf sömu vinina og aðallega Dagmar sem hann ímyndaði sér að mömmu hefði aldrei líkað við. Hann hafði reynt að koma í veg fyrir að þær hittust eftir fyrsta skiptið. Stundum fannst honum að þessi vinátta væri misheppnuð uppreisnartilraun. Auðvitað voru það aðallega Dagmar og Raggi sem höfðu slegið eign sinni á hann, hringdu í hann þegar þeim hentaði, en ekki honum. Voru það þeirra nöfn sem glóðu á skjá titrandi símans núna? Varla.
Hann átti líklega enga vini lengur, ekki ef vinir eru skilgreindir sem fólk sem maður hittir í hverri viku. Dag einn voru þeir gufaðir upp. Það mátti skýra sem röð hendinga sem höfðu raðast illa upp en önnur túlkun var möguleg sem snerist um að maður sem allir sem þekkja hann best kjósa að yfirgefa geti ekki verið skemmtilegur eða geðþekkur. Allir beri nokkra ábyrgð á eigin örlögum og enginn sé yfirgefinn án þess að eiga nokkra sök á því sjálfur. Fyrst er þetta óljós tilfinning aftast í kollinum en smám saman læðist hún framar og fer stækkandi uns hún verður yfirþyrmandi. Skrímsli í höfuðkúpunni urrar grimmdarlega á hann: Þau fóru frá þér af því að þú varst ekki góður vinur. Menn uppskera eins og þeir sá til. Sagði Kristur sjálfur ekki eitthvað á þá vegu í einni dæmisögunni og varla laug hann? Enginn verður vinalaus sem allt er í lagi með.
Sönnunargögnin lágu fyrir og eftir stóð aðeins að skilgreina hvað væri að manninum. Var hann ófyndinn og óáhugaverður? Skeytingarlaus og sjálfselskur? Ófríður og sjarmalaus? Honum fannst eiginlega ekkert athugavert við sig en hvernig gat annars staðið á því að líf hans hafði tæmst af vinum og vandamönnum? Gat verið að það væri vetur í Múmíndal en síðan sneru vinirnir aftur? Voru þeir kannski þegar hér en honum ósýnilegir?
Strax á unglingsárunum tók að ganga verulega á þolinmæði hans gagnvart pabba og mömmu. Meðal annars vegna þess að þau hældu honum aldrei eða studdu. Létu sér fátt um finnast þegar hann lauk prófi. Fannst sjálfsagt að hann fengi góða vinnu og voru áhugalaus þegar hann lýsti henni. Engan skilning höfðu þau á verkefnum hans eða þeim trúnaði sem honum hafði verið sýndur. Almennt hlustuðu þau næsta lítið á hann. Spurðu hann aldrei um skoðanir hans né tilfinningar. En raunar hafði hann ekki heldur sýnt þeirra hugðarefnum mikinn áhuga. Smám saman hafði hann farið að trúa því að þau væru frekar leiðinlegt fólk en núna hugleiddi hann æ oftar að sjálfum kippti honum í kynið og væri jafnvel enn leiðinlegri.
Hafði hann verið ósanngjarn? Nú hegndist honum fyrir. Var 37 ára barn sem kann ekki að fóta sig án foreldranna sem hann hafði ekki kunnað að meta meðan þau lifðu.
Hann hafði átt vini í barnaskóla og menntaskóla en látið þá gossa og það var ekki létt að taka upp þráðinn eftir langt hlé, þau höfðu vaxið hvert í sína átt og líf flestra troðfullt af fjölskyldu og hugðarefnum sem þeim hefði fundist fáránleg forðum. Eftir sat hann vinnufíkinn og hobbýlaus; afslöppun taldist víst ekki með sem áhugamál. Hann hafði hugleitt að fara að spila golf með gömlum bekkjarbróður en var skrambi óhittinn og auk heldur átti sá aðra félaga sem ekki voru skemmtilegir. Óhittni golfarinn, hafði hann hugsað með sér. Sem er daglegur gestur á vellinum en talar við fáa og fyrir vikið ber golfheimurinn óttablandna virðingu fyrir honum. En hann hafði glúpnað á að taka hlutverkið að sér.
Eitt haust fór hann að syngja í kór af því að mælt hafði verið með því en eftir tvo mánuði var hann enn utanveltu. Hann hafði verið settur í 2. bassa og söng aðallega bomm bomm bomm. Sem gerði minnst til en verra var hve erfitt hann átti með að brydda upp á samræðum við kórfélagana sem voru áhugasamir um prjónaskap, matargerð, garðrækt og fleira sem hann fékk sig ekki til að fá áhuga á og hann treysti sér ekki til að ræða við neinn um Batman eða Garbo. Fyrst reyndi hann að tala um tónlistina en þau reyndust hafa takmarkaðan áhuga á henni. Hann hafði reynst vera á röngum aldri. Kórinn átti að vera skemmtilega blandaður en allir nema hann voru undir þrítugt eða yfir fimmtugt. Ef til vill hafði hann ekki valið rétta kórinn.
Hann heyrði oft talað um gönguklúbba og matarklúbba sem að lokum tóku yfir allt annað félagslíf líka en í þeim voru aðeins hjón og hann útilokaður. Yfir þessu kvörtuðu margir á netinu en svarið virtist yfirleitt vera að komast á deit og það réð hann ekki við. Hann hafði reynt þrisvar fyrir þremur árum og í öll skiptin staðið eftir slyppur og tæmdur.
Smám saman varð fólkið á samfélagsmiðlunum of óraunverulegt til þess að hann gæti fylgst með lífi þeirra. Í staðinn hlustaði hann á tónlist allan daginn og fannst hún bjarga sér frá því að sökkva. Lengi vel. Horfði á Netflix eða lá á netinu. Varð æ betur heima í annarra manna sögum á flótta undan eigin söguleysu.
Þetta var hið röklega samhengi. En innra með sér velti hann fyrir sér hvort útlegðin væri ekki einfaldlega eðli hans. Batman var útlagi. Eina virðingarverða hlutskiptið. En útlagi með tilgang og hæfileika og samfélagslegt vægi; fólk þarfnaðist hans þó að það óttaðist hann. Svo hafði hann félaga til að deila með sinni mikilfenglegu útlegð. Hafði tekist að sveipa sína eigin útlegð glæsibrag. Maður verður að takast á við aðstæður, hafði mamma oft sagt. Hann seig aftur á móti æ neðar, fjarlægðist glæsibraginn í hverju skrefi og líka þeim sem hann ekki tók. Eins og sá sem er byrjaður að síga niður fjallshlíð en ekki farinn að hrapa.
Uns hann auðvitað fór að hrapa.
Fyrir einni öld höfðu öll hótel verið full af ríkum einhleypingum sem sennilega höfðu einmitt misst foreldra sína af slysförum nýlega og erft stórhýsi. Þeir höfðu flakkað um heiminn í leit að einhverju óhöndlanlegu sem gæddi lífið inntaki. Fyrir skömmu hafði hann gripið úr hillunni Dauðann í Feneyjum eftir Thomas Mann sem gerðist einmitt á ferðalagi. Nú var hún á náttborðinu, stöðugt áreitt af símanum sem lá ofan á henni. Þetta var bók sem pabba hafði verið tíðrætt um og hann sjálfur hafði margoft verið hvattur til að lesa. Sem auðvitað dugði til að hann treysti sér alls ekki til að opna hana, ekki einu sinni þegar hann átti að lesa hana í háskólanum en las í kringum hana á netinu í staðinn. Fyrr en núna þegar pabbi var horfinn, þá var eins og hún hafi skyndilega runnið í hendur hans þegar hann var að skoða bókaskápana. Eintakið lúið eins og uppáhaldsbækur verða. Fimmtíu ára gömul bók á ensku, útgefandi Knopf í New York. Sennilega hafði pabbi keypt hana um tvítugt. Á ensku þó að hann kynni þýsku mætavel en líklega geymdi hann bókina vegna þess að þetta voru fyrstu kynni hans af Thomas Mann. Gæti hann sjálfur sem kenndi táningum tungumálið verið þekktur fyrir að lesa bók eftir þýskt Nóbelsskáld á ensku? Jafnvel þótt þetta væri eintakið hans pabba?
Pabbi hafði sjaldan lesið fyrir hann eða horft á sjónvarp með honum. Stundum höfðu þeir farið saman í bíó en pabbi aldrei rætt myndina á leiðinni heim. Hann talaði aðeins um örfáar bækur en ein þeirra var Dauðinn í Feneyjum. Löngu ræðurnar um þessa bók höfðu líklega farið inn um annað eyrað og út um hitt; hann mundi ekki lengur hvað átti að vera frábært við hana og þegar hann fór að lesa hana í leit að pabba reyndist erfitt að sjá nokkur spor hans. En bókin fangaði hann eins og pabba sem hafði alla jafna ekki lesið skáldsögur oft.
Á netinu kom í ljós að Mann hafði samið bókina 37 ára og ef til vill þess vegna virtist hann skilja hvernig er að komast á þennan aldur fastur á endastöð í eyðilegu borgarhverfi. Mann hafði raunar átt stóra fjölskyldu en þó skynjaði hann hvernig þeim líður sem hefur misst æskuna en ekki fundið í staðinn neitt verðugt verkefni til að helga líf sitt. Auðvitað hafði hann ekki verið nógu kjarkaður til að viðurkenna að þannig væri líf hans sjálfs orðið svo að hann lét sögupersónuna vera aðeins eldri en 37 ára. Við erum öll á flótta, hugsaði munaðarleysinginn í kastalanum og brosti að kjarkleysi skáldsnillingsins.
Það var engin mamma lengur til að spyrja um hvað sagan væri. Eða til að segja honum að hætta að hugsa um það.
Í bókinni sagði frá Gustav von Aschenbach fimmtugum rithöfundi í tilvistarkreppu nýkomnum til Feneyja en undir niðri virtist hún fjalla um ástina og dauðann sem tvær hliðar sömu myntar. Sá sem leitar ástarinnar er á flótta undan dauðanum eða í leit að lífinu. Lífinu fyrir dauðann þá. Því að jafnvel hinn lifandi maður trúir því ekki alveg að hann sé í raun og veru á lífi. Eiga ekki allir að lifa lífinu lifandi? En hvað var það? Fara í teygjustökk? Teldist fólk ekki lífs nema stökkva niður í tómið?
Í tilviki Aschenbachs í sögunni fólst þessi leit í því sígilda ráði að verða upptekinn af annarri manneskju sem þá á sennilega að vera álfkonan sem breytir spítukalli í lifandi strák. Maður er manns gaman hét það í frasabók Óðins en merkti frekar að maður væri manns bjargræði. Þess vegna líklega hét bókin Dauðinn en ekki Ástin í Feneyjum. Af því að ástin skiptir aðallega máli sem aðferð til að lifa raunverulegu lífi í stað grárrar hálftilvistar. Thomas Mann lét þennan miðaldra höfund uppgötva ástina í líki pólsks táningspilts sem fráleitt var að hann tæki upp samband við. Þessi þrá gæti virst hlægileg en var það ekki í sögunni, ekki einu sinni þegar þráhyggja mannsins varð allri skynsemi yfirsterkari og hann fór að elta pólska unglinginn á röndum. Mann hafði líka þann næma skilning á ástinni að unglingspilturinn virðist aldrei sjá rithöfundinn þannig að hann gæti verið viss um það. Hann var alstaðar en ósnertanlegur og milli hans og rithöfundarins aldrei ótvíræð tengsl. Þetta var líklega ekki sem verst lýsing á ástinni. Sá elskaði aldrei til í alvörunni eða að minnsta kosti hálfur tilbúningur þess sem þráir hann.
Svo hét bókin Dauðinn í Feneyjum af því að það er veiki á sveimi og rithöfundurinn virðist fyrst og fremst hræddur við að drengurinn deyi. Hafði hann sjálfur kynnst slíkri óeigingjarnri en samt eigingjarnri ást þar sem önnur manneskja er hafin upp á stall og tilbeðin en þó eiginlega sem hluti af manni sjálfum? Líklega ekki. Hafði Greta Garbo kynnst slíkri ást? Mamma og pabbi?
Samkvæmt Mann vorum við öll í lífshættu sem er hluti af tilverunni en höfundurinn í sögunni var líka í kreppu með skáldskap sinn sem virtist vera sá dauði sem listamaðurinn óttast mest: að geta ekki lengur fangað tilvist sína í orðum og ljáð henni merkingu. Listin átti þá greinilega að vera hliðstæð ástinni og snerist um að finna líf fyrir dauðann sem á dulrænan hátt gæti orðið um leið að lífi eftir dauðann.
Hann er kominn til Feneyja. Þar er stæk díkjalykt. Með stafprik og kúluhatt trítlar hann um góður með sig. Finnur þó seiðing í hnénu úr steininum í þrepunum. Hvar ætli Tadzio sé? Hvort er betra að spássera um stefnulaust eða leita hans? Nú getur hann valið um að fara til vinstri eða hægri og valið skiptir engu nema hann ímyndi sér að í annarri hvorri áttinni sé pólskur táningur. Óþolandi titringurinn í símanum dregur hann til baka frá borginni við Adríahafið og aftur í formlausan líkamann.
Hafði pabba fallið við þessa sögu út af hörmulegum endi hennar? Aschenbach festist í ástinni sem heldur honum í Feneyjum reikandi um á eftir ósnertanlegu pólsku ungmeni í óljósum tilgangi. Ef til vill í leit að æskunni sem hann hefur misst eða listinni sem hann hefur tímabundið misst tökin á eða hinni óhöndlanlegu erlendu manneskju sem hann aldrei talar við og kannski er fulltrúi alls fólksins í heiminum sem maður þekkir ekki. Þetta var óhugnanlega líkt einhverju sem hann hafði sjálfur lifað án þess að muna hvað.
Hafði höfðað til pabba að sagan kemur fyrir Aschenbach en hann er sjálfur óvirkur frá upphafi til enda: bíður, vonar og þráir en lifir ekki? Það var engin leið að valdefla sig með þessari sögu, hvetjandi sögur snúast um að þrá geti orðið að veruleika en þrá Aschenbachs var vonlaus. Hin heillandi æska pólska drengsins er honum sjálfum horfin og kannski var Mann líka að gefa í skyn að listamaðurinn geti tímabundið hrifið aðra með sér en þó ekki höndlað neitt sem er æðri en hann sjálfur. Hugmyndin um listina sem handan mannsins var þá ef til vill hliðstæð goðsögninni um hið lifandi líf.
Hann velti því fyrir sér hvort þessi undarlega þráhyggja sögumannsins væri á einhvern hátt hliðstæð hans eigin ótta eða fælni við unglinga. Ef hann mætti unglingahópi gekk hann stundum yfir götuna. Samt vissi hann af sér sjálfum klæddum nokkurn veginn eins og þeir og margir sem sáu hann úr fjarska héldu að hann væri miklu yngri, jafnvel táningur. Líklega hafði hann gengið enn lengra en rithöfundurinn í sögunni í að þykjast vera ungur. Hann velti fyrir sér hvort það væru þá ekki ósvipuð viðbrögð innst inni að reyna að sjá ekki ungmenni eða að góna á þau eins og Aschenbach. Og alveg eins og pólski unglingurinn sá ekki fimmtuga manninn, vissi hann að unglingarnir sem hann sjálfur forðaðist sæju hann ekki heldur. Þeim var öllum alveg sama um svona gamalt fólk. Líklega hafði Thomas Mann 37 ára fundist það óbærilegt, eins og honum fannst oft.
Honum var hálfillt í bakinu og fannst hann þurfa að pissa aftur. En gat ekki hreyft sig af ótta við að gleyma öllu. Hann hafði ekki farið út úr húsi í marga daga, hann vissi ekki sjálfur hve marga, og nú komst hann ekki úr rúminu, ekki til að pissa, ekki til að taka upp símann.
Það var erfitt að skilja hvað pabbi hefði séð í Aschenbach en sjálfur var hann ekki ólíkur persónunni að því leyti að almennt féll honum betur að hlusta og hugsa sitt en hafa hátt og láta horfa á sig. Hann hafði tekið eftir að sum önnur börn þoldu illa annað en að vera stanslaust með orðið og athyglina en fyrirleit þá þörf álíka mikið og mamma. Hann hafði aftur á móti lært að segja fátt en drekka í sig allt sem aðrir sögðu án þess að það sæist á honum. Og muna allt. Eflaust hafði það síðan komið honum vel í starfi sem snerist um að skilja hvernig fólk hugsar. Fremsti kennarinn sá sem hlustar best og skilur allt.
Eftir því sem drengnum í sögunni var lýst oftar varð honum hugsað til pólska þjónsins á hótelinu sem hann hafði sótt eitt sumar fyrir þremur árum og setið þar yfir kaffi af því að það var eini staðurinn þar sem honum fannst á þeirri stundu ekki vandræðalegt að sitja einn. Oft höfðu þeir verið einir á staðnum. Pólski þjónninn hét Sebastian, ekki unglingur en þó tíu árum yngri en hann sjálfur, grannur og liðugur í hreyfingum og ungæðisleg sveifla í göngulaginu. Þar að auki léttur í fasi og brosmildur, eins og honum hefði tekist að fresta endalokum unglingsáranna. En samt hægur og kyrrlátur, eins og unglingar urðu stundum þegar þeir voru einir en ekki í háværum hópi félaganna.
Í upphafi hafði hann ekki verið kominn á þennan stað til að sjá Sebastian líða um hótelbarinn eins og balletdansari en líklega var ekki með öllu útilokað að hann hefði snúið aftur meðal annars til þess. Án þess að hann skildi endilega hvort eða hvernig eða hvers vegna hinn maðurinn dró hann að sér.
Sebastian hunsaði hann eins og Tadzio hafði hunsað Aschenbach. Brosti fallega þegar hann pantaði kaffið og þegar hann færði honum það. Þess á milli var eins og gesturinn sæti þarna ósýnilegur. Sebastian á ferð og flugi, leit aldrei til hans nema eldsnöggt ef vera kynni að hann skorti eitthvað. Öfugt við í sögunni var það fullkomlega rökrétt og í samræmi við kröfur atvinnulífsins: þjónar eiga að sýna kúnnanum natni þegar viðskiptin fara fram en þess á milli hunsa hann því að kúnninn vill auðvitað ekki vera undir eftirliti eða á leiksviði. Sebastian kunni sitt fag og því varð rúmlega þrítugi maðurinn sem alltaf sat einn aðalatriðið í lífi hans eina örskotsstund þegar hann pantaði drykk en gufaði upp þess á milli.
Einu sinni hafði hann spurt Sebastian hvaðan hann kæmi. Tók áhættu því að sumir fyrtust við slíkar spurningar. En Sebastian leit greinilega á smáspjall við kúnnann sem eðlilegan hluta af starfinu og upplýsti vinsamlega að hann kæmi frá Kraká sem væri stórkostlega falleg borg í mikilli sókn. En samt ertu hér, hafði hann hugsað en ekki þorað að spyrja hvers vegna. Þeir höfðu ekki talast við síðan því að litlu síðar hætti honum að finnast þægilegt að koma á einmitt þetta hótel án þess að skilja af hverju og fann sér annan stað fjarri alfaraleið.
Hafði hann þráð Sebastian eða að vera hann? Ef til vill þráð áratuginn sem hann hafði misst en Sebastian átti fyrir höndum. Nema hann þráði þennan austur-evrópska léttleika sem norræna manninum var ekki eðlislægur og honum sjálfum hafði mistekist að rækta með sér. Greta Garbo hefði skilið það. Sú sem yfirgaf heimsfrægðina og sneri aldrei aftur sama hvað var í boði var frábært dæmi um norrænan viljastyrk lausan við léttúð.
Eina nóttina meðan hann var að lesa bókina hafði hann dreymt sjálfan sig að leita að Sebastian. Hann hafði leitað hans í fjölmennu partíi og elt hann úr einu herbergi í annað án þess að ná til hans eða vita hvað hann hygðist þá gera.
Stundum hvarflaði að honum að ef hann hafði eitthvað sagt við Sebastian umfram kurteisishjal þá hefði ef til vill allt breyst. Samt hafði hann næstum gleymt Pólverjanum áður en þessi bók rataði skyndilega í hendur hans og hann fór að hugsa: af hverju talaði ég ekki meira við hann? Hið augljósa svar: af því það var ekki viðeigandi. Hann lifði í stöðugum ótta um að fólk liti á hvert orð hans, augnatillit eða snertingu sem áreiti. Þannig hafði það lengi verið; hann hafði eitt sinn heyrt mömmu ræða hræðslu hans við ókunnuga við ömmu. Slík fælni var eðlileg hjá börnum en í hans tilviki hafði hún enst fram á fertugsaldurinn.
Óviðeigandi. Það hélt hann en sannast sagna hafði honum alltaf reynst erfitt að skilja hvað væri viðeigandi og hvaða leiðir mætti feta í gegnum lífið. Sennilega alltaf svolítið áttavilltur. Ekki hafði pabbi hins vegar virst það og því kom dálæti hans á þessari bók á óvart. Nema hann hefði skilið hana allt öðruvísi en sonurinn. Hann hélt þó ekki og það var að gefnu tilefni.
Þegar hann var næstum kominn á enda uppgötvaði hann að á auðri síðu aftast hafði verið skrifað með blýanti: Tekst á við angistina með orðum. Hann sá ekki betur en þetta væri rithönd pabba. Ekki virtist þetta vera þýðing á neinu sem stóð í bókinni og það kom honum á óvart að pabbi hefði hugsað svona. Aldrei hafði hann minnst á angist öll þessi ár.
Hafði hann dottað á ný eða horfið inn í eigin hugarheim? Ekki leið honum lengur eins og horfinni Hollywoodstjörnu enda höllin hrunin. Einhver barði á útidyrnar. Barði húsið að utan og hrópaði nafn. Kannski hans nafn sem hann mundi ekki í svipinn. Þögn. Enginn var að koma inn. Hann var horfinn sjónum. Þá dæi hann kannski. Einhver skrifaði langan pistil á samfélagsmiðlana sem hæfist á „Nú get ég ekki orða bundist“ og síðan yrði að frétt um hvernig kerfið hefði gleymt manneskjunni sem allir aðrir höfðu áður gleymt. Fólkið sem skrifar athugasemdir við fréttir yrði yfir sig hneykslað. Enginn kenndi sjálfum sér um. Sekt annarra snýst um sakleysi sjálfsins.
Enda væri engum um að kenna nema honum sjálfum. Hann hafði sjálfur fælt frá sér vinina, sagt upp vinnunni, flutt inn í hús sem reyndist vera grafhýsi. Það var líka honum sjálfum að kenna og engum öðrum.
Hann gæti staðið upp. Það væri aðeins spurning um vilja. Ef hann gleymdist í þessu rúmi, væri enginn annar ábyrgur. Engum öðrum um að kenna. Hver ber ábyrgð á eigin dauða. Var einhver að berja á dyrnar? Berja og berja og reyna að brjóta hurðina.