Mold

Arndís Þórarinsdóttir

Prófessorinn var farinn til Kaliforníu. Ingibjörg kvaddi hann á janúarmorgni, þar sem hann leit út eins og mistök frá búningadeild alheimsins, skælbrosandi, á ljósum jakkafötum, í myrkrinu og slabbinu.
 Sjálfsagt myndi hann láta hvítta tennurnar á meðan dvölinni vestra stæði, hugsaði hún. Hún hafði lesið að eiginlega allir í Kaliforníu væru með bláhvítar tennur.
 Hann benti í allar áttir. Þau áttu að fylgjast með glugganum í stofunni sem stundum lak. Þau áttu að hringja í rafvirkja ef það kæmu neistar út úr innstungu sem var samt mjög ólíkleg til þess að verða með einhvern derring. Þau áttu að slá grasið þegar voraði. Þau áttu að fara mjög varlega með olíubornu gólffjalirnar, sagði prófessorinn, þær litu kannski út eins og parket en um þær giltu allt önnur lögmál og ef ein fjöl yrði fyrir tjóni væri, sagði hann, eiginlega allt gólfið ónýtt.
 Það hvarflaði að Ingibjörgu að hún hafði ekki rætt við hann um það hvernig ábyrgð á húsinu væri háttað.
 Hún hafði raunar ekki hugleitt það fyrr en nú að þau Pedro gætu eyðilagt gólfefnið. Þau voru ekki þess háttar leigjendur sem rústa íbúðum. Eða það hélt hún, áður en hún fékk fyrirlesturinn um olíubornu fjalirnar. Nú virtist allt mögulegt.
 Hún hafði ekki orku í að spyrja prófessorinn, sem hafði hent til hennar lyklunum og var að hlaupa upp í snjóugan bíl þar sem eiginmaður hans og synir biðu eftir honum, út í þetta með ábyrgðina.
 Og svo var Ingibjörg ein eftir í húsi prófessorsins.
 Hann yrði gestakennari í heilt ár í Kísildalnum. Þurfti að koma húsinu í útleigu á meðan fjölskyldan var í burtu. Hann bauð Ingibjörgu og Pedro gott verð. Sagði að sér liði betur með að leigjendurnir væru einhverjir sem hann þekkti, það væri mikilvægara en að rukka upp í topp.
 Ingibjörg hlustaði á þögnina í húsi prófessorsins. Hún stóð grafkyrr á gólfinu miðju með lyklana greypta í lófann og virti fyrir sér myndirnar á veggjunum, bækurnar í hillunum og dáðist að olíuborna parketinu.
 Hluta af henni langaði til þess að leggjast upp í sófa, slengja löppunum upp á borð og þykjast eiga heima þarna, en tilfinningin um að hún væri gestur var of yfirþyrmandi, hættan á því að fjölskyldan hefði gleymt einhverju og lykill myndi stingast í skrána á hverri stundu of raunveruleg. Hún gæti sett lappirnar upp á borð þegar vélin væri komin á loft, ákvað hún með sjálfri sér.
 Eða þegar fyrsta myndin frá Kaliforníu yrði komin upp á samfélagsmiðlana. Kannski þá.
 Ætli það væru margir með lykla að húsinu?
 Kannski hafði einhver ættingi fengið það hlutverk að fylgjast með málum í fjarveru fjölskyldunnar? Kannski myndi Ingibjörg koma úr sturtu, stíga blautum tám á ómetanlegt gólfefnið og horfast á sömu stundu nakin í augu við móðursystur í eftirlitsferð?
 Hún vissi að þetta voru órökrétt hugsanamynstur. Hún vissi alveg að ef hún hefði lagt sig fram við hugrænu atferlismeðferðina gæti hún rofið þau, ef hún hefði verið aðeins duglegri við verkefnin frá sálfræðingnum væri þetta ekki lengur vandamál. Hún vissi að með því að velja að leggja sig ekki fram hefði hún valið alveg sjálf að detta í svona pytti.
 Auðvitað myndi enginn koma inn í húsið án þess að ræða það við þau Pedro. Prófessorinn var venjulegur maður sem fór eftir venjulegum samskiptareglum. Hann var að gera henni greiða, ekki að reyna að veiða hana í gildru.
 Hún hafði bara tvisvar komið í húsið áður. Einu sinni hafði prófessorinn boðið hópi af nemendum í drykk eftir ráðstefnu og svo fyrir skemmstu þegar þau Pedro komu að skoða húsið og skrifa undir leigusamning.
 Henni leið eins og hún væri enn í kokteilboðinu. Eins og það væri óviðeigandi að leggja töskuna sína á mitt gólfið.
 Hún gerði það samt og dró upp í minnisbók sem hún hafði keypt í sérverslun fyrir japönsk ritföng. Muna, skrifaði hún efst á nýja blaðsíðu. Glugginn. Gólfið. Grasið. Sjálfsagt myndi prófessorinn vera aftur í sambandi við hana, til að nefna fleira sem þau þyrftu að hafa í huga. Þá gæti hún bætt á listann.
 Huggulegri birtu stafaði af útilýsingu í garðinum og hún gekk að glugga og pírði augun út. Gamall verkfæraskrúr stóð úti í horninu á garðinum. Þar gátu þau fundið sláttuvélina, hafði prófessorinn sagt.
 Á svefnherbergisganginum var hjónaherbergi, barnaherbergi og skrifstofa. Pedro hafði sagt að það væri skrýtið að drengirnir þyrftu að deila herbergi svo pabbi þeirra gæti haft skrifstofu. Íslenska ríkið kostar fyrir hann stóra skrifstofu í þriggja kílómetra fjarlægð! sagði Pedro. Hann fær þá tvö og hálft herbergi fyrir sig, en allir aðrir í fjölskyldunni bara hálft á mann?“
 Ingibjörg hafði flissað. En þetta hentaði þeim Pedro ekkert illa, það var gott fyrir hana að hafa aðstöðu hérna í húsinu til að vinna að lokaverkefninu.
 Hún ætti að hringja í Pedro.
 Athuga hvort hann væri á leiðinni eða hvort hann þyrfti aðstoð við að koma dótinu þeirra á staðinn. Ræða við hann um þrif á íbúðinni þeirra áður en þau skiluðu henni af sér.
 Henni leið eins og hún væri stödd á hótelherbergi í stórborg. Augnablikið þegar dyrnar að herberginu opnast og allt er óaðfinnanlegt – en svo rogast gestirnir inn með ferðatöskur, innkaupapoka, hálfétinn súkkulaðipakka og gosdósir og byrja að spýta tannkremi í vaskinn af miklum móð, svo fullkomleikinn bráðnar og ekkert stendur eftir nema snjáð náttborðshorn og slitið gólfteppi.
 Hún vildi geyma tilfinninguna um fullkomnun aðeins lengur.
 Hún var fín kona í einbýlishúsi.
 Hún var metnaðarfullur fræðimaður sem myndi sitja við skrifborðið á skrifstofunni í algjörri einbeitingu í þrjár klukkustundir fyrir hádegi og aðrar þrjár eftir hádegi. Tveir tímar yrðu eyrnamerktir heimildaöflun, tengslamyndun og tölvupósti. Mánudaga til fimmtudaga. Á föstudögum yrði hún með vinnuaðstöðu í stórfyrirtækinu sem var í samstarfi við háskólann um að fóstra lokaverkefni.
 Vikan myndi ganga eins og úrverk, þar sem hver tönn tannhjólsins dytti óhjákvæmilega á réttan stað.
 Rannsóknarniðurstöðurnar myndu hrannast upp, eftirvænting myndi skapast í fræðasamfélaginu þegar verkefnið færi að kvisast út og þegar kæmi að því að skila húsinu um næstu áramót yrði hún útskrifuð með fjölda náms- og atvinnutilboða að velja úr.
 Eftir örfá ár gæti hún valið á milli þess að kaupa sér svona hús í Skerjafirði með hreindýrsfeldi á gólfinu eða mínímalíska glæsiíbúð í skýjakljúfi í útlöndum.  Síminn hringdi og nafn Pedros birtist á skjánum og blekkingin hrundi.
 Hún horfði á skjáinn í lófanum í drykklanga stund áður en hún svaraði.
 Hæ, elskan, sagði hún og óraunveruleikatilfinningin rann frá henni. Hún var aftur bara Ingibjörg og í símanum var Pedro, sem gerði fyrir hana kolkrabbapasta úr pylsum og spaghetti þótt hún væri tuttugu árum of gömul fyrir svoleiðis.
 Um kvöldið, þegar eigur þeirra voru komnar út um allt húsið, sokkar í skúffur og matvörur í ísskápinn, hafði Ingibjörg góða tilfinningu fyrir komandi mánuðum.
 Daginn eftir fór Pedro í vinnuna og Ingibjörg varð ein eftir í húsi prófessorsins. Hún klæddi sig um leið og Pedro, hún ætlaði að taka vinnuna alvarlega, hún meinti eitthvað með þessu. Hún ætlaði ekki að þvælast inn á skrifstofu prófessorsins á náttfötunum.
 Hún greiddi hárið, setti á sig maskara og fór meira að segja í sokka við buxurnar. Eins og ef hún væri mætt í gömlu sumarvinnuna sína, að svara í símann hjá ráðuneytinu.
 Svo settist hún við skrifborð prófessorsins og opnaði tölvuna.
 Músarbendillinn hikaði fyrir ofan möppuna sem innihélt verkefnið.
 Hún ætti eiginlega að skrifa prófessornum fyrst. Bara til að vera næs. Fullvissa hann um að húsið væri í öruggum höndum og að hún vonaði að ferðin hefði gengið vel.
 Hún opnaði spjallglugga og bað gervigreindina að setja saman tölvupóst. Tók fram að tónninn ætti að vera hlýlegur. Ingibjörg vissi að hún ætti að vera hlýleg en hún vissi ekki alltaf hvernig átti að fara að því. Gervigreindin, blessunarlega, vissi það alveg.
 Hún lagfærði orðalag textans sem gervigreindin hafði skilað henni á tveimur stöðum og sendi póstinn.
 Hún starði aftur á möppuna.
 Svo stóð hún upp.
 Í ráðuneytinu hafði hún oft staðið upp frá borðinu sínu og það hafði verið fullkomlega í lagi. Ekkert óeðlilegt við að fara á klósettið eða sækja sér vatnsglas. Það væri fráleitt að nota strangari kröfur hér en giltu þar.
 En svo stóð hún bara á miðju gólfi í stofunni sem veisla prófessorsins hafði verið haldin í og vissi ekki hvert hún átti að fara.
 Það var enn myrkur úti, yrði enn lengi myrkur úti, og henni leið eins og fyrir utan væri eitthvað sem horfði inn.
 Hún hafði aldrei búið svona nálægt jörðinni áður, hugsaði hún. Ekki nema bara í sumarbústað, eða tjaldferðum. Einhver gæti bankað á stofugluggann hvenær sem var.
 Hún settist í sófann og fiktaði við símann sinn. Hún fór ekki aftur inn á skrifstofuna. Hún skoðaði blogg frá fræðimanni á hennar sviði, svo þetta var eiginlega vinna, sagði hún sjálfri sér, þótt hún hefði ekki haft langa viðdvöl á blogginu.
 Smám saman bjarmaði af degi og hún sá loksins út í garðinn. Það hafði rignt um nóttina og pallurinn var auður, fyrir utan nokkra gamla snjóskafla. Kannski leifar af snjókörlum eða snjóhúsum drengjanna.
 Hún ætti að fara út, sagði hún sjálfri sér.
 Hún ætti að kanna húseignina alveg. Það væri rétt að vera með allt á hreinu, ef.
 Ef.
 Hún vissi ekki alveg hvert ef-ið væri, en hún vildi samt ekki láta það grípa sig í bólinu.
 Hún ætti að minnsta kosti að kanna þennan skúr. Athuga með heita pottinn.
 Ef, hugsaði hún.
 Ef það kæmi sprengigos í Hellisheiðinni. Og eldský myndi ryðjast yfir bæinn. Þá yrði gott að geta leitað skjóls í heita pottinum. Þau Pedro gætu verið meðal örfárra sem lifðu af hörmungarnar, af því þau hefðu haft vit á því að hoppa í pottinn, draga djúpt andann og leita skjóls undir yfirborðinu.
 Myndi heita vatnið sjóða?
 Hún var ekki viss. Færi sjálfsagt eftir því hvað eldskýið færi hratt yfir.
 Hún fálmaði eftir tölum í höfðinu – hita á gjósku, hraða, magni vatns í svona potti og hluti hugans japlaði á þessu reikningsdæmi þar sem allar stærðir voru óþekktar, um leið og annar hluti hrópaði í örvæntingu: Heldur þú í alvöru að ef Hellisheiðin myndi springa þá myndi hún hinkra á meðan þú værir að fylla pottinn? Og jafnvel þótt hún myndi doka við, væri þetta plan virkilega besta nýtingin á þeim gálgafresti?
 Ingibjörg hristi höfuðið.
 Órökréttu hugsanirnar áttu oft einhverja fótfestu í veruleikanum. Ef það kæmi eitthvað upp á með lagnirnar í húsinu væri í öllu falli gott að geta bent því fagfólki sem yrði kallað til á heita pottinn og sagt því hvernig hann virkaði. Það var aldrei slæm hugmynd að kanna aðstæður.
 Hún sótti vetrarskóna sína og hélt jafnvægi á þröskuldinum þar sem hún potaði sér í þá, án þess að snerta parketið. Fetaði sig svo út á pallinn.
 Hvað væri hún búin að skrifa mörg orð í morgun ef hún hefði opnað möppuna um leið og hún settist niður?
 Hún skimaði yfir heita pottinn án þess að staldra við hann. Svona pottar voru allir eins, var það ekki? Ef Pedro vildi skoða stjörnur og norðurljós úr pottinum gætu þau fundið út úr því saman.
 Það var garðskýlið sem dró hana að sér. Lyklarnir að húsinu gengu líka að skránni og Ingibjörg svipti upp hurðinni.
 Það var ekkert áhugavert þar inni. Skýlið var gluggalaust og nokkrar hillur voru meðfram öðrum langveggnum. Tvö hlaupahjól stóðu upp við endann, sláttuvél tók megnið af gólfplássinu og garðverkfærum var þokkalega snyrtilega raðað þarna upp. Garðslanga var tengd við krana, svo þarna virtist vera rennandi vatn, þótt ekki væri hiti.
 Útihitari á stórri súlu var í einu horninu. Væntanlega svo hægt væri að sitja á sólpallinum á vorin og haustin og njóta útiloftsins þótt enn væri kalt í veðri.
 Ætli hann væri gasknúinn?
 Í einu horninu stóð hvít stytta af garðálfi. Það kom Ingibjörgu á óvart. Það var ekki margt í húsinu sem minnti á þennan garðálf. Hann stakk í stúf. Hún gat ekki ímyndað sér að mennirnir sem höfðu innréttað húsið hefðu keypt hann. Hann hlaut að vera gjöf.
 Álfurinn var með púkalegt glott á andlitinu og hafði leyst niður um sig buxurnar og virtist vera að ganga örna sinna þarna í horninu.
 Ingibjörg starði á álfinn sem horfði ögrandi til baka.
 Hún bakkaði út úr skúrnum og fór aftur inn í hús, eftirlitsferðin afstaðin. Skyldum hennar sem leigjanda hlaut að teljast fullnægt.
 Gönguferð, hugsaði hún, þegar hún dró af sér skóna á þröskuldinum og bar þá varlega inn í forstofu aftur. Gönguferð myndi gera henni gott.
 Pedro kæmi heim í kvöld og þá yrði gott að geta sagt honum að hún hefði unnið og farið í göngutúr. Það hljómaði rétt.
 Þau höfðu verið saman í bráðum tvö ár. Hann var ágætur maður. Ingibjörg sá stundum fyrir sér að hún gæti skrifað fínt meðmælabréf um hann þegar þau hættu saman.  Þau myndu auðvitað hætta saman.
 Þau töluðu ekki um það, en það blasti við. Hann var svona háskólakærasti. Þau hvísluðu hvort að öðru á nóttunni að þau elskuðu hvort annað, hann hrópaði það stundum þvert yfir bílastæðin í Kringlunni eða þéttpakkaða Laugardalslaug, og Ingibjörg hló og sendi honum fingurkoss, en þau yrðu samt tæpast saman ævina á enda.
 Hann myndi vilja fara aftur heim, fljótlega eftir að námi lyki. Hún myndi ekki vilja þurfa að taka ákvörðun um að elta hann þangað. Hann myndi ekki vilja elta hana í doktorsnám, þegar hans námi var lokið. Þau myndu skilja í góðu.
 Eða ef þetta færi að dragast á langinn hjá þeim, færi hann á endanum að tala um börn. Þau myndu skilja í góðu.
 Pedro var of góður maður til þess að skilja í illu.
 Hún myndi sérstaklega taka það fram í meðmælabréfinu.
 Hún skellti á eftir sér útidyrahurðinni og hélt út í myrkrið. Skálmaði eftir göngustíg meðfram sjónum. Þótt það væri farið að birta var þetta svona dagur þar sem myrkrið hafði ekki alveg gefið eftir. Ég er hérna, hvíslaði það, ég vék mér frá eitt andartak, en ég kem aftur.
 Þung ský á himninum hótuðu meiri rigningu. Hálkubunkar voru hér og hvar á stéttinni.
 Ingibjörg íhugaði að setja podcast í eyrun, en skammaði sig svo. Hún var að hugsa um lokaverkefnið. Hún var að nýta ferska loftið og dagsbirtuna í að búa til andlega lista.
 Síminn tísti og hún bannaði sér að kíkja á hann.
 Listar.
 Ingibjörg var framúrskarandi námsmaður. Það var það sem var svo ergilegt við þessa óvæntu verkfælni. Ef það voru einhver verðlaun í boði fyrir námsárangur hafði hún einsett sér að hljóta þau, og það hafði yfirleitt tekist. Heima, í barnaherberginu hennar, var hilla sem innihélt ekkert annað en bækur áritaðar frá ýmsum skólum og kennurum sem hún hafði fengið afhentar við skólaslit eftir skólaslit.
 Ingibjörg lagði sig alltaf alla fram. Hún skildi ekki samnemendur sem skiluðu ritgerðum seint eða illa. Hún botnaði ekkert í fólki sem byrjaði að læra daginn fyrir próf, rétt eins og allir dagarnir þar á undan hefðu ekki verið til. Hún vann sín verkefni, hún skilaði sínum ritgerðum, hún lærði fyrir sín próf.
 Hún setti sér markmið.
 Nú var markmiðið að verða í hópi brautryðjenda þegar hún kæmi út á vinnumarkaðinn. Gera eitthvað nýtt, afla sér sérþekkingar sem myndi gera hana að eftirsóttum starfskrafti. Þróunarmöguleikar gervigreindar voru augljós kostur. Og Ingibjörg hafði kortlagt bransann, kortlagt akademíska starfsmenn og kortlagt helstu vaxtarsprota og þess vegna valdi hún þessa námsleið. Hún valdi að útskrifast með ágætiseinkunn úr grunnnáminu, svo hún gæti skrifað mastersverkefni hjá einmitt þessum prófessor, sem hafði tengsl víða um heim. Hún ætlaði að ljúka þessu verkefni og fara svo til útlanda í doktorsnám.
 Ingibjörg kunni að skrifa ritgerðir.
 Það var ekkert mál.
 Í fyrra fór hún meira að segja með skólasystur sína í sumarbústað eina helgi og barið hana í gegnum skrif á lokaverkefni í grunnáminu. Ingibjörg tók símann hennar í gíslingu, stillti eggjaklukkur og sá fyrir stöðugum straumi næringar. Skammaði og hrósaði á víxl.
 Það þarf ekki að vera gott, hafði Ingibjörg sagt ákveðin. Þetta á ekki einu sinni að vera frumlegt. Þú þarft bara að ná orðunum á blaðið, þar sem þú segir hvað annað fólk hefur uppgötvað, og skila svo. Vinkonan umlaði eitthvað um að nota gervigreindina til að hjálpa sér, en Ingibjörg hvæsti á hana. Settu bara orðin á blað. Enginn fellur á lokaritgerð, nema hún sé svindl.
 Á einni helgi skrifaði vinkonan tíu þúsund orð og útskrifaðist á réttum tíma. Hvað með það þótt hún hefði fengið 6,5 fyrir ritgerðina, sagði Ingibjörg, þótt hún hefði sjálf frekar dáið en að útskrifast með ritgerð upp á 6,5. Það sér það enginn. Aldrei. Það eina sem vinnuveitendur sjá er rétt dagsetning á réttri háskólagráðu. Það er það eina sem skiptir máli. Ingibjörg kunni þetta.
 Þegar hún kom inn úr gönguferðinni stóð hún á þröskuldi skrifstofunnar og starði inn. Lokaverkefni úr framhaldsnámi átti að vera frumlegt. Skapa nýja þekkingu. Móta framtíðina, sagði prófessorinn.
 Hún ákvað að fara í sturtu áður en hún byrjaði.
 Þegar Pedro kom heim úr vinnunni var hún búin að elda pottrétt. Hafði staðið í eldhúsinu og flysjað gulrót eftir gulrót, brytjað niður brokkólí og blómkál, marið hvítlauk og raspað engiferrót.
 Pedro brosti út að eyrum, svolítið hissa, en glaður að finna ilminn upp úr pottinum.
 Ingibjörg var líka glöð.
 Nú var hún með eitthvað á hreinu. Þetta með að byrja vinnuna með trukki hafði aðeins tafist, en hún var að minnsta kosti kona sem ræktaði líkama og sál. Það var nú fyrir mestu.
 Um kvöldið horfðu þau á sjónvarpið og Pedro nefndi ekkert um að horfa á stjörnurnar úr heita pottinum.
 Myndi sjónvarpstækið bráðna, hugsaði Ingibjörg, þegar eldhnötturinn færi yfir?
 Það voru auðvitað engin sjónvarpstæki í Pompeii. Sjálfsagt hafði þol þeirra gagnvart gjóskuhlaupum ekki verið fullrannsakað.
 Hún hjúfraði sig upp að Pedro og ímyndaði sér vandaðan vísindamann að hella gifsi inn í holrúmið sem líkamar þeirra hefðu skilið eftir sig. Mikið voru þau ástfangin, myndi vísindamaðurinn segja – myndu allir segja – þegar askan yrði varlega fjarlægð frá gifsmótinu.
 Daginn eftir skrifaði Ingibjörg ekkert. Hún hitti mömmu sína á pítsustað í hádeginu, hún fór með skóna sína til skósmiðs og hún pantaði eyrnatappa á netinu, sem lofuðu ofureinbeitingu.
 Í tölvupóstinum hennar var skeyti frá tengilið hennar hjá samstarfsfyrirtækinu. Ingibjörg svaraði honum með þremur línum og fannst eins og hún hefði unnið stórvirki.
 Hún laug að Pedro.
 Laug líka að mömmu sinni.
 Notaði sömu setningarnar, þar sem hún sagði hlæjandi að ef hún hefði haft svona fína skrifstofu fyrr, þá væri hún nú aldeilis búin að afkasta! Að hugsa sér, sagði hún við þau, þetta væri allur munurinn.
 Hún vissi að hún þyrfti bara að byrja að skrifa lista. Það væri ekki flóknara en það. Ekki bara í höfðinu, samt, það var ekki nóg, heldur á blaði. Ef hún væri farin að skrifa niður hvað líkanið hennar ætti að gera, hvaða upplýsingar hún vildi fá út úr því, þá gæti hún byrjað að eiga við það.
 Á föstudaginn átti hún að kynna verkefnið fyrir deildinni í fyrirtækinu. Segja þeim hvernig gervigreindin myndi kollvarpa – nei, rangt orð – umbylta starfseminni hjá þeim. Prófessorinn hafði sagt henni að hún yrði að segja þeim að vera ekki fordómafull í garð nýrrar tækni, án þess þó að nota orðið fordómar, af því starfsfólk tæknifyrirtækja hefði ekki þá sjálfsmynd að það væri afturhaldssamt og að ef hún gæfi það í skyn fengi hún alla upp á móti sér.
 Hún laumaðist á Þjóðarbókhlöðuna til að reyna að vinna þar, eins og áður, en það var verra en hús prófessorsins. Allt sem hún gerði var verra. Á föstudagsmorgni hljóp Pedro út, svolítið seinn, eftir að þeim hafði dvalist í hjónarúminu, og Ingibjörg sagði sjálfri sér áveðin að hún yrði að geta tjaldað einhverju til eftir heila vinnuviku.
 Um leið og hann var farinn skrifaði Ingibjörg póst til tengiliðsins hjá fyrirtækinu. Því miður, sagði hún, væri hún orðin lasin. Kynningarfundurinn yrði að frestast til næsta föstudags. Hún renndi textanum í gegnum gervigreindina, sem bætti því við frá eigin brjósti að Ingibjörg væri með magapest. Hún lét það standa og sendi póstinn.
 Hún starði á sjálfa sig í spegilgljáandi eldhústækjum prófessorsins. Hún leit út eins og afturganga.
 Ég þarf bara að meðhöndla sjálfa mig eins og latan nemanda, sagði hún sjálfri sér. Ég set sjálfa mig í bústað. Engin nettenging.
 Hún dröslaði eldhússtól út á pall. Svo reif hún upp dyrnar að garðskýlinu og dró stólinn inn. Það var varla pláss þarna við hliðina á sláttuvélinni.
 Það skipti ekki máli.
 Hún kom tölvunni fyrir á neðstu hillunni og lokaði að sér.
 Það var algjört myrkur í skúrnum, eina birtan kom frá tölvuskjánum. Hún var utan við þráðlausa netið – það var gott.
 Það lýsti af berum rassi garðálfsins í horninu.
 Lista, hugsaði Ingibjörg. Ég get skrifað þennan lista.
 Hún opnaði ekki möppuna með öllum heimildunum.
 Hún opnaði tómt skjal og byrjaði að skrifa það sem hún sagði prófessornum þegar hún sannfærði hann um að taka við sér í leiðsögn.
 Sex efnisgreinar fóru á listann. Sex stuttar hugleiðingar. Ekki merkilegar, en hún var búin að skrifa 273 orð.
 Núll og upp í 273 var óendanleg aukning. Hún var komin í gírinn – nú þurfti hún bara að elta andagiftina áfram. Það erfiðasta var búið. Hún gat haldið áfram inni í húsinu, eins og siðuð manneskja. Nú var næsti föstudagur orðinn gerlegur. Hún gæti búið til glærur, hún gæti útskýrt rannsóknina fyrir starfsfólkinu.
 Hún tók tölvuna í aðra höndina og stólinn í hina og sparkaði hurðinni á eftir sér þegar hún hélt aftur inn.
 Fimm klukkustundum síðar var orðafjöldi listans enn þá 273 orð og hún hafði ekki opnað glærugerðarforritið. Pedro var væntanlegur heim innan klukkutíma. Sjálfsagt með vínflösku og pítsu, til að gleðjast yfir verðskuldaðri helgi eftir góða vinnuviku.
 Skúrinn virtist stækka þar sem hann stóð á pallinum.
 Þú ert ekki nógu góð fyrir þetta hús, sagði lág rödd úr skúrnum. Það er vandamálið. Þú verðskuldar ekkert betra en að vera hér hjá mér, með kóngulónum, og þú veist það.  Ingibjörg hrukkaði ennið.
 Henni leiddist rassvasasálfræði – sérstaklega þegar eitthvað virtist til í henni. Stundum grunaði hana að öll sálfræði væri rassvasasálfræði. Hún hafði sagt það í síðasta tímanum hjá sálfræðingnum. Það átti að vera grín, en konan hafði greinilega móðgast. Sagði eitthvað um að fólk úr verk- og raunvísindunum ætti oft erfitt með önnur fræðasvið.
 En hún varð að byrja á þessari glærukynningu og Pedro og pítsan nálguðust óðfluga, svo hún lét sig hafa það að drösla stólnum aftur út í skúrinn. Hún færði sláttuvélina aðeins, til að búa til betra rými, og opnaði forritið. Hún bjó til glæru með mynd af sjálfri sér. Aðra með mynd af prófessornum. Þetta var byrjun.
 Þegar þau stóllinn og tölvan héldu aftur inn lenti vatnsdropi á parketinu, sem Ingibjörg þurrkaði snarlega upp með sokknum.
 Þegar Pedro kom með pítsuna fannst Ingibjörgu hvort tveggja í senn: Að hún verðskuldaði hana virkilega fyrir þessar miklu framfarir dagsins, og að hún væri auðvirðilegur aumingi að vilja verðlauna sig fyrir það gríðarmikla afrek að skrifa sex minnispunkta og gera tvær glærur.
 Hún dró upp símann og spurði gervigreindina hvort væri réttara viðhorf.
 Gervigreindin sagði henni að það væri spurning um sjónarhorn, en að fólk sem tileinkaði sér jákvæða afstöðu til lífsins mældist jafnan hamingjusamara. Það væri því ekkert unnið með fyrri afstöðunni en ákveðinn ávinningur falinn í þeirri síðari.
 Ingibjörg þakkaði henni fyrir og bauð góða nótt.
 Alla helgina gjóaði hún augum að skúrnum.
 Hana dreymdi hann jafnvel. Dreymdi að innsti veggurinn opnaðist og fyrir innan væri ævintýraland. Ingibjörg gat ekki séð hvernig ævintýraland þetta var, en var þó ekki í vafa um það hvað þetta væri. Garðálfurinn hló í horninu.
 Þau Pedro fóru í Kringluna og Ingibjörg læddi lítilli rafhlöðuknúinni ljósaseríu í kápuvasann. Hún gat ekki hugsað sér að ganga með hana að kassanum og þurfa að útskýra fyrir Pedro af hverju hún væri að kaupa hana. Þótt hann hefði sjálfsagt ekkert yfirheyrt hana um það.
 Á mánudagsmorgni kom Ingibjörg seríunni fyrir inni í skúrnum. Hann var mun huggulegri þannig.
 Það bættust sex glærur við kynninguna.
 Á þriðjudegi reif Ingibjörg tvo plastpoka af rúllu sem var í hillu skúrsins og breiddi þá á gólf barnaherbergisins. Svo ók hún sláttuvélinni inn í herbergið og lokaði á eftir henni. Á parketinu voru tvær yrjóttar rákir eftir hjól sláttuvélarinnar, sem Ingibjörg þurrkaði upp með tandurhreinu viskustykki.
 Pedro hrósaði Ingibjörgu fyrir hvað hún væri snyrtilegur fræðimaður. Sagði henni hlæjandi að skrifborðið hans í háskólanum væri nú heldur daprari sýn en skrifborð prófessorsins.
 Ingibjörg hló og sagði að það væri munurinn á þeim tveimur í hnotskurn.
 Hún nefndi ekkert um skúrinn.
 Hún var farin að dvelja þar stóran hluta dagsins.
 Hún var farin að bjóða garðálfinum góðan dag, þegar hún kom með skrifborðsstólinn á morgnana.
 Partur af henni var farinn að óttast að hann myndi svara.
 Þegar kom aftur föstudagur afboðaði hún sig aftur í fyrirtækið.
 Stundum vaknaði hún á nóttunni og íhugaði að laumast út í skúr. En tilhugsunin um að þurfa að útskýra fyrir Pedro hvað hún væri að gera var óbærileg, svo hún beit á jaxlinn og starði út um myrkvaðan glugga prófessorsins. Taldi niður þangað til hann færi út.
 Hún vann jú aðeins í verkefninu. Fiktaði svolítið í líkaninu.
 En þegar hún var í skúrnum var verkefnið einhvern veginn ekki lengur það mikilvægasta í veröldinni. Hún skrifaði líka dagbókarbrot í japönsku stílabókina, lagði kapal í tölvunni og hugleiddi.
 Stundum gerði hún líkamsæfingar.
 Kannski, sagði hún við garðálfinn sem húkti á hækjum sér, get ég gert þig gervigreindan.
 Þvættingur, svaraði hann innan úr myrku horninu. Þú þykist vera mikill vísindamaður en grautar samt saman ímyndunarafli einnar konu og sannri gervigreind. Auðvitað getur þú látið mig segja eitthvað, en það er ekki gervigreind – það er bara venjuleg greind. Mögulega í bland við smá geðveiki.
 Ingibjörg kinkaði kolli. Það var auðvitað rétt hjá honum.
 Prófessorinn birti myndir á Instagram af eilífu sólskini og pálmatrjám. Hann skrifaði um það þegar fjölskyldan sá Ben Affleck á bensínstöð. Eða að minnsta kosti mann sem var sláandi líkur honum.
 Prófessorinn sagði ekki þetta síðarnefnda. Hann virtist alveg viss um að þetta hefði verið Ben Affleck. Ingibjörg var ekki alveg jafnsannfærð.
 Það var kominn rakablettur í parketið við svalahurðina.
 Pedro var ekki búinn að taka eftir honum.
 Ingibjörg hafði reynt að vera varkár en daglegar ferðir með eldhússtólinn í janúarveðrinu hlutu að hafa afleiðingar.
 Það er ekkert mál að gera svona verkefni, sagði garðálfurinn með þunga. Hvaða rugl er þetta? Sendu póst með einhverjum hugleiðingum til Kaliforníu. Það hjálpar þér að fá einhver viðbrögð. Kemur þér í gírinn.
 Þú ert ekki gervigreindur, muldraði Ingibjörg. Ekki einu sinni greindur.
 Ef þú myndir spyrja gervigreind myndi hún segja þér það sama og ég! pípti garðálfurinn.
 Ert þú ekkert að verða búinn, spurði Ingibjörg á móti, og bandaði í átt að berum afturenda hans.
 Hann sneri upp á sig og svaraði ekki.
 Ingibjörg spurði gervigreindina hvað kona í hennar stöðu ætti að gera. Gervigreindin sagði marga háskólanema glíma við erfiðleika af þessu tagi og hvatti Ingibjörgu til þess að hafa samband við leiðbeinanda sinn, námsráðgjafa við skólann og íhuga samtalsmeðferð.
 Næst þegar Ingibjörg fór í skúrinn tók hún ekkert með sér nema eina prentaða bók úr bókasafni prófessorsins. Hún var mjög fræðileg og fór djúpt ofan í bæði teoríu og praktík gervigreindar.
 Áður en Pedro kom heim var Ingibjörg búin að hengja upp óteljandi japanskar trönur úr lofti garðskýlisins.
 Hún skrifaði á minnislistann fremst í dagbókinni að hún þyrfti að panta nýtt eintak af fræðilegu bókinni. Bóksalan ætti að geta útvegað hana.
 Hún velti fyrir sér hvort hún ætti að grafa jarðhús í garðinum, þegar færi að þiðna.
 Kannski væri hægt að gera það án þess að það sæist? Þannig að prófessorinn myndi aldrei komast að því? Það yrði ósýnilegur hleri yfir opinu, sem enginn vissi af nema hún, falinn undir grasinu. Og ef eldgosið kæmi, ef loftsteinninn lenti, þá gæti hún gengið að skjólinu vísu? Þótt hún væri flutt héðan, þá myndi jarðhýsið bíða hennar.
 Moldin var svöl og örugg. Og það var augljóslega fljótlegra að fara ofan í jarðhýsi en að fylla heita pottinn og fara svo ofan í hann. Og auðveldara að anda.
 Hún gæti falið vatnsbrúsa þar. Og ljós. Og útvarp sem maður trekkti upp með lítilli sveif.
 Nei.
 Auðvitað ekki.
 Ekkert útvarp.
 Það yrði ekkert útvarp eftir heimsendi.
 Kæmi ég með? spurði garðálfurinn yfir öxlina á sér.
 Nei, sagði Ingibjörg.
 Það væri nú notalegra fyrir þig að hafa einhvern að tala við, muldraði hann.
 Eins og hann vissi að hún myndi annars fara ein í jarðhýsið. Jarðhýsi og grafhýsi voru óþægilega lík orð.
 Lík.
 Það yrðu allir liðin lík.
 Brunnin.
 Afmynduð.
 Og enginn eftir til að sjá það, engin vitni til að meðtaka hryllinginn.
Nema kannski hún, þegar hún stigi upp úr jarðhýsinu.
 Jú, ef þetta væri eldhnötturinn úr Hellisheiðinni, þá yrðu nú fleiri. Þá kæmi fréttafólk frá útlöndum. En fréttafólkið frá útlöndum gæti aldrei miðlað til heimsbyggðarinnar lyktinni sem myndi liggja yfir Íslandi öllu. Ingibjörg fór inn úr garðskýlinu til þess að komast í netsamband svo hún gæti athugað með það hvernig best væri að grafa jarðhýsi án þess að það félli saman.
 Hún spurði gervigreindina. Sagðist þurfa að grafa kalda geymslu. Fannst betra að gervigreindin héldi að Ingibjörg ætti slík ógrynni af kartöflum og sultukrukkum að það rúmaðist ekki í ísskáp.
 Þær gervigreindin bjuggu til lista. Ingibjörg safnaði saman í pöntun hjá Byko og bað um að fá hana heimsenda.
 Heimsenda.
 Þegar bíllinn bakkaði upp að einbýlishúsinu leiðbeindi hún bílstjórunum að setja birgðirnar inn í barnaherbergið, við hlið sláttuvélarinnar. Það sem rúmaðist ekki á gólffletinum fór upp í annað rúmið.
 Hún gat ekki byrjað strax. Það var of mikið frost. En um leið og það færi að þiðna yrði hún tilbúin.
 Hún hjúfraði sig upp í skúrnum þar til Pedro var næstum væntanlegur heim.
 Hún laug að honum einhverju um að hún væri farin að fá gögn frá starfsmönnum fyrirtækisins eftir því sem þeir væru farnir að láta reyna á líkanið.
 Hann trúði henni og henni fannst hún heyra hæðnislegan hlátur garðálfsins utan af pallinum.
 Prófessorinn sendi póst nokkrum dögum seinna og spurði hvernig gengi með verkefnið. Það var samt meira í framhjáhlaupi, því hann var fyrst og fremst að biðja hana um að vera fulltrúi nemenda þegar kynna átti námsframboð háskóla fyrir væntanlegum háskólanemum.
 Tónninn í tölvupóstinum var hressilegur, hann notaði orðalag eins og að vilja að hún væri andlit fagsins og andlit framtíðarinnar.
 Hún velti fyrir sér hvort það væri af því að hún var stelpa. Kynjahlutföllin í faginu voru að breytast hratt, en fyrir alla svona kynningarstarfsemi var enn tilhneiging til þess að setja stelpur í öndvegi. Andlit framtíðarinnar.
 Hún ímyndaði sér stofuna sem kynningin færi fram í. Sá fyrir sér vatnið flæða yfir þröskuldana, fyrst eins og litla polla, svo þannig að viðstaddir væðu vatnið í ökla, svo myndi straumurinn aukast, aukast, aukast og stofan yrði full af tæru vatni upp í rjáfur og hún sjálf flyti í miðri stofunni og brosti til áhugasamra framhaldsskólanema á meðan smáar loftbólur slyppu út um munnvikin.
 Hún svaraði póstinum og sagði að auðvitað myndi hún gera deildinni þetta viðvik. Ekki málið.
 Hún sagði að gagnasöfnunin færi vel af stað.
 Bað að heilsa til Kaliforníu.
 Fór svo beint út í skúrinn.
 Hún hafði dregið hreindýrshána út í skúrinn fyrir nokkrum dögum. Nokkrum kexpökkum hafði hún staflað á eina hilluna og tók oft með sér kaffi á brúsa þegar hún fór út. Hún var hætt að drösla stólnum aftur inn – Pedro virtist ekki taka eftir því þótt eldhússtólunum hefði fækkað um einn. Þau notuðu hvort sem er aldrei nema tvo.
 Í dag var hún með prjónana með sér. Hún hafði verið að læra handbragðið af YouTube, rifja upp hálfgleymd handtök frá því í grunnskóla. Eitthvað varð til úr engu í höndunum á henni og þótt hún prjónaði misfast og grunaði að garnið og prjónarnir væru ekki fyllilega hentug hvort öðru, þá hélt hún áfram.
 Kalt, hérna, finnst þér ekki, heyrðist úr horninu.
 Farðu í buxurnar, svaraði Ingibjörg. Það myndi leysa mest af þínum vanda, almennt talað.
 Þú gætir kveikt á hitaranum, sagði garðálfurinn. Til að hafa virkilega kósí.
 Ég er ekki fáviti, sagði Ingibjörg. Gasið myndi drepa mig. Ef það kviknaði ekki í.
 Eldur, hvíslaði garðálfurinn. Endalok. Það er eitthvað kosmískt við það, er það ekki? Gas og bruni, eins og úr stjörnufræðinni. Eins og gjóskuhlaup úr ofhlaðinni eldstöð. Stærra en maður sjálfur.
 Ingibjörg þagði.
 Ég segi nú bara svona, bætti garðálfurinn við.
 Ef gervigreindin tæki yfir, sagði Ingibjörg, væri hún líka berskjölduð gagnvart kosmískum öflum. Á endanum.
 Fer eftir því hvað væri liðinn langur tími, sagði garðálfurinn. Ef gervigreindin hefði nógu langan tíma til að þroskast áður en allt færi til andskotans gæti hún forðað sér milli sólkerfa eftir þörfum.
Ingibjörg hafði hingað til ekki íhugað að losa sig við garðálfinn.
 En það voru komnar skemmdir í gólfefnið og hreindýrið var verulega farið úr hárum, svo hvaða máli skipti einn garðálfur úr þessu? Garðálfur sem hlaut eiginlega að vera erfðagóss eða gjöf sem enginn vildi hafa fyrir augunum.
 Jarðhýsi
 Grafhýsi
 Jarðsetning
 Kviksetning.
 Og hann var ekki einu sinni kvikur. Ekki þannig.
 Hún stóð hægt upp og gekk inn í hús og í barnaherbergið.
 Það var enn of mikið frost í jörðu til þess að hún gæti grafið út manngenga holu, en lítil hola, það gat gengið. Það gat mögulega gengið.
 Fyrst sótti hún fötu eftir fötu af heitu vatni. Rogaðist með hana yfir stofugólfið að hurðinni út á pall og skeytti ekkert um það þótt vatnið skvettist yfir gólffjalirnar.
 Hún hellti heitu vatninu á grasið, útskýrði fyrir moldinni að hún þyrfti að gefa eftir. Náði svo í stunguskófluna í barnaherbergið.
 Birtan í garðinum var skjannahvít, það var hádegi og skýjað og það var þung lykt af moldinni þegar hún stakk hana upp.
 Hún var sveitt og skórnir hennar voru ónýtir.
 Þú verður öruggur hér, sagði hún garðálfinum, þegar hún bar hann öskrandi út úr garðskýlinu. Moldin er trygg. Moldin verndar þig. Moldin bjargar þér.
 Hún þjappaði blautri og kaldri moldinni þétt að honum, þar sem hann lá á hlið ofan í grunnri holunni.
 Flóð, hvíslaði hún. Eldur. Loftsteinar. Endalokin. Þau ná ekki til þín undir moldinni. Þetta er þér fyrir bestu.
 Áður en allt fer til andskotans.
 Hún hafði lesið að það væri gott fyrir geðheilsuna að vinna í garðinum. Efni í moldinni voru heilnæm, og líkaminn tók þau upp í gegnum húðina á höndunum.
 Það voru djúpar sorgarrendur undir nöglunum á henni.
 Rödd garðálfsins kæfðist fyrst, og þagnaði svo.
 Hún setti túnþökuna aftur ofan á sárið í sverðinum.
 Í sumar gæti enginn séð hvað var hérna.
 Á morgun var föstudagur og hún þurfti að klára glærusýningu um gervigreindarlíkanið.