Gæludýramissir

Jakub Stachowiak

„Hvar heldurðu að Pétur Pan sé niðurkominn?“ spurði Saga og ók sér á rauðum stól.
 „Hver? Æ … vertu kyrr, Saga mín, annars klippi ég eyrnasnepil af þér,“ sagði Jean-Pierre. „Það viljum við ekki, sæta mín,“ bætti hann við og smellti skærum fyrir framan nefið á henni. Klipp. Klipp.
 Saga greip um skeljalaga eyrnalokk í hægra eyra líktog til að fullvissa sig um að hann væri ennþá þar. Síðan horfði hún niður á gráa svuntu og taldi ljósu lokkana. Einn, tveir, þrír, fjórir. Skærin dönsuðu í gegnum hárið á henni í samræmi við lágstúf sem Jean-Pierre raulaði fyrir munni sér. Klipp. Klipp. Klipp.
 „Voilà!“ hrópaði hann og sneri henni í hring á stólnum. Saga hataði þegar hann gerði þetta.
 „Hvernig líkar yður hárgreiðslan, madame?“ spurði hann og rétti henni lítinn, kringlóttan baðherbergisspegil.
 Hún klappaði saman höndunum svo nokkur hár féllu á gólfið.
 „Þetta er nákvæmlega einsog mig dreymdi um. Svona Sinéad O’Connor dæmi,“ svaraði hún og hugsaði um plakat af söngkonunni sem hékk á veggnum í herbergi hennar. Nú yrðu allar bekkjarsysturnar öfundsjúkar. Hún brosti við tilhugsunina, en brosið hvarf þegar hún hugsaði um tómt búrið fyrir neðan plakatið. Skelfilega tómt.
 „Magnifique!“ sagði Jean-Pierre, myndaði stút á vörunum og smellti fingrum einsog hann væri að hrósa einstaklega gómsætum mat.
 „Er þetta búið, Jean?“ spurði hvöss karlmannsrödd fyrir aftan rakarann. „Ég er nú þegar seinn í vinnuna.“ Jón leit óþólinmóður á úrið sitt.
 „Að sjálfsögðu, monsieur. Afsakaðu seinkunina, en hárgreiðslukúnst krefst síns tíma, rétt einsog hver önnur listgrein,“ svaraði Jean-Pierre íhugull og kinkaði kolli. Ljósaperuljós glampaði á hárlausu höfði hans.
 „Jæja,“ svaraði Jón og bandaði út höndum. „Hvað borga ég mikið?“ Hann sótti svart, þrútið seðlaveskið upp úr fínlegum jakkafötum.
 „Ah, sama og venjulega, monsieur,“ sagði rakarinn annars hugar.
 Meðan mennirnir gengu frá borgun horfði Saga í kringum sig. Stofan var ælugræn með svarthvítum myndum af Eiffelturninum og gömlum leikkonum á borð við hlæjandi Marilyn Monroe. Kannski var það þess vegna sem faðir hennar dró hana hingað í hverjum mánuði, en aldrei á aðra stofu í borginni. Gamlir menn blómstra í beði minninga. Sögu líkaði samt við Jean-Pierre. Hann var afbragðsrakari og skynjaði alltaf hvaða hárgreiðslu hún vildi helst, einsog hann hefði fæðst með dularfullt aukaskilningavit.
 Það klingdi í kassanum og Saga hrökk í kút. Hún snerist á hæli og gekk til föður síns.
 „Komið endilega aftur,“ sagði Jean-Pierre. „Bon voyage!“ öskraði hann svo og veifaði þeim með hundraðkrónuseðlunum.
 Þau gengu út í bjartan júnídag, sólin gnæfði yfir þeim, bátur úr ljósi. Í fjarska glampaði á hafinu, öldur sungu eitthvert neðansjávarlag. Bílarnir keyrðu framhjá á rúntinum á Vesturgötunni, reyndu að flauta burt tilgangsleysi lífsins, enda ekkert meira spennandi að gera á sunnudegi sem slíkum.
 Jón kraup á hné sér:
 „Saga, elskan mín, þú getur ekki bara spurt hvaða manneskju sem er um Pétur Pan. Ég veit að þú saknar hans, en … sorg annarra er einkamál, skilurðu mig? Hún kemur Jean-Pierre ekkert við, gerir hann bara órólegan.“
 Saga reyndi að vefja hárlokki um vísifingur einsog alltaf þegar hún varð vandræðaleg, en mundi svo að hún hafði verið rökuð fyrir nokkrum mínútum síðan.
 „En pabbi …“ mótmælti hún.
 „Ekkert en-pabbi, elskan mín. Komdu hér.“ Hann faðmaði dóttur sína innilega að sér, svo leit hann aftur í ólívugræn augun. „Þetta verður allt í lagi, ástin mín, ég lofa.“
 Honum varð litið á úrið sitt, gyllt með brúnni leðuról. „Æ … ég er að verða seinn á vaktina. Hvar er hún nú?“ Hann skimaði í kringum sig, augun pírð í eilífri sólinni. „Þarna ertu!“ hrópaði hann í átt að konu í grænni kápu sem gekk á móti þeim. Með henni var stúlka, á svipuðum aldri og Saga.  „Ah, Jón … afsakaðu hvað ég er sein … ég var …“ byrjaði hún en hann greip fram fyrir henni.
 „Ég er að verða seinn á vaktina,“ sagði hann aftur líktog hann ætti von um að þessi orð hægðu á tímanum því oftar sem hann endurtæki þau. Hann kraup á hné sér einu sinni enn og setti lykil á snúru um háls Sögu.
 „Elsku Saga mín. Verið nú góðar hvor við aðra á meðan við tvö erum á bráðamóttökunni. Manstu hvað þú átt að gera?“
 Saga kinkaði kolli. „Koma heim um eittleytið.“
 „Nákvæmlega, elskan mín. Og mundu að afi þinn heimsækir okkur í dag!“ Hann kyssti hana á ennið.
 Hún dæsti. „Ég veit pabbi, ég veit…“ svaraði hún í takt við fótatak föður síns sem fjarlægðist.
 „Vá, en kúl hárgreiðsla!“ Stúlkan benti á höfuðið á Sögu, opinmynnt. „Alveg einsog …“
 „Hún Sinéad, Jóna. Já, ég veit,“ svaraði Saga og brosti til hennar. „Þess vegna bað ég Jean-Pierre um að klippa mig svona. Hugsaðu bara hvað stúlkurnar segja þegar ég mæti svona í Landó eftir sumarið!“ Hún renndi hendinni um skollóttan hausinn.
 „Allavega, Jóna, hvað viltu gera í dag?“ spurði hún og leit á vínkonu sína. Hún var klædd í léttan hermannajakka með of síðum ermunum, ljósbrúnar gallabuxur og með tyggjó í munninum sem bombaði út í loftið með háværum skelli.
 Hún yppti öxlum. „Ég veit það ekki. Getum bara hangið saman á bláa róló, ef þú vilt.“ Jóna smellti tyggjóinu út í loftið.
 „Æ … ekki gera þetta,“ sagði Saga. „Jú, getum alveg farið þangað, hangið þar.“ Þær fóru af stað. Vindurinn lék sér mildilega með dimmljóst hárið á Jónu sem fossaði niður axlirnar þegar hún gekk. Hún leit á snoðaða vinkonu sína með blik í brúnum augum, en sagði ekkert. Allsstaðar í kringum þær voru mæðgur á ferð, fjölskyldur og flissandi börn, himinninn heiðskýr í æpandi mótsögn við gráar byggingar hverfisins. Þegar þær komu á róluvöllinn var hann furðulega tómur.
 Jóna spýtti tyggjóinu út úr sér og klessti það með svörtum hermannastígvélum á gangstéttina. Þær settust á bekk. Jóna sótti rauðan sígarettupakka í vasann og otaði honum að Sögu, sem hristi höfuðið. Hún yppti öxlum og kveikti sér í þykkri, gulri sígó. Saug reykinn alla leið niður í magann og hóstaði örlítið. Púaði svo reykinn.
 „Jæja,“ sagði hún. „Segðu mér nú hvað er að.“
 Saga lyfti augabrúnum. „Hvað meinarðu? Það er ekkert að.“
 „Ekki bullshitta mig, kæra mín.“ Jóna kveikti sér í annarri sígarettu. „Þú hefur verið óvenjuþögul alla leiðina. Kommon, þú mátt alveg segja mér hvað angrar þig.“
 „Jú, það er bara að …“ Saga teiknaði hring í sandinn.
 Jóna lyfti hendinni upp í loft. „Ég mun ekki hlæja. Tíu fingur upp til Guðs.“
 Saga horfði á vinkonu sína einsog til að ganga úr skugga um hvort hún væri örugglega ekki að grínast. Eftir nokkrar mínútur í þögn hvíslaði hún:
 „Viltu gefa mér sígarettu?“
 „Sjálfsagt.“ Jóna rétti henni pakkann og kveikti í. Saga saug að sér reykinn og hóstaði og hóstaði og hóstaði.
 Jóna klappaði henni á bakið. „Fyrsta skiptið er alltaf svona. Svo verður það einfaldara og einfaldara.“ Hún kveikti sér í þriðju sígó. Andlit Sögu hvarf bakvið reykinn.
 „Pétur Pan dó,“ hvíslaði hún.
 „Pétur Pan?“ át Jóna upp eftir henni. „Naggrísinn þinn? Þessi með hvítbrúna feldinn? What happened?“
 „Ég veit það ekki, ég skil það ekki. Á föstudaginn ætlaði ég að gefa honum að borða og hann lá bara þarna hreyfingarlaus í búrinu sínu. Hreyfði sig ekki, þó að ég kallaði og hóaði á hann, hreyfði sig ekki neitt, lá bara við hliðina á hjólinu sínu sem hann hafði alltaf svo gaman af!“ Hún reykti hraðar, hóstaði meira.
 „Vá …“ sagði Jóna. „Kannski dó hann bara af því að eldast?“
 Saga hristi höfuðið, sígarettan hálfnuð. „Hann var ekki nema tæplega eins árs.“
 „Og … og … hvað gerðirðu?“
 „Ég bara … pabbi var aftur á tólfstundavakt … Pétur gat ekki bara legið í búrinu og beðið komu hans … svo ég bara tók stóran eldspýtustokk … og setti Pétur ofan í hann … og tók svo skóflu … og … og … gróf holu í bakgarðinum.“
 „Vá … alvöru jarðarför?“ spurði Jóna. Augun í henni gljáðu.
 Saga kinkaði kolli og kastaði sígarettustubbnum á jörðina. Trampaði á glóðinni með gúmmískónum sínum.
 „Viltu samt ekki vita hvað gerðist?“ spurði Jóna íhugulum rómi.
 „Hvað meinarðu? Ég er ekki dýralæknir.“
 „Jú. Ég veit það, en …“ Hún gerði hlé. „Það eru aðrar leiðir.“
 Saga horfði skelkuð á vinkonu sína. „Þú ert ekki að stinga upp á því að við g … g …gröf …“ Hún gat ekki fengið sig til þess að segja þetta orð upphátt.
 Jóna horfði á hana með eldingu í augasteinum. „Kannski. En viltu vita það?“
 „Jú, ef ég get fengið einhver svör,“ sagði Saga hikandi, og leit svo á úrið sitt. „Ó mæ, ég þarf að þjóta, hún er fimm í eitt. Sjáumst seinna!“ hrópaði hún er hún hljóp aftur sömu leið, niður Bræðraborgarstíg.

Þegar hún opnaði dyr íbúðarinnar tók á móti henni kunnuglegur ilmur. Lykt af ýsuflaki og ofsoðnum kartöflum, það eina sem faðir hennar kunni að elda, en klúðraði samt alltaf. Hún sparkaði af sér skónum, leit inn í spegil í forstofunni og renndi hendinni um slétt höfuðið. Hvað mun afi segja um þetta? datt henni í hug.
 Hún labbaði inn í bjarta stofuna, hvítir veggir, borðstofuborð með fjórum stólum. Á einum þeirra sat afi hennar og pírði augun á hana í sterku sólskininu.
 „Góðan og blessaðan daginn, elskan mín,“ sagði hann djúpum rómi og lagfærði prestakragann sinn lítið eitt.
 „Hæ afi,“ svaraði hún og settist á stólinn við hliðina á honum. Hjartað í henni hamaðist á ljóshraða.
 Afi renndi augunum eftir henni, svo sótti hann velktan vasaklút og þerraði svita af enni sér. Hann losaði aðeins um prestakragann og ræskti sig.
 „Hvað segirðu gott, Saga mín?“
 Hún ók sér í sætinu. „Bara allt gott. Við Jóna vorum að hanga saman á róló áðan.“ Hún horfði upp til hans á svipbrigðalaust skeggjað andlitið.
 „Nú, og hvað er að frétta af henni?“ spurði hann og þerraði fleiri svitadropa sem láku niður andlitið. Saga velti fyrir sér af hverju hann kæmi undantekningalaust í prestkuflinum í matarboðin til þeirra, en þá mundi hún að það var sunnudagur og líklegast brjálað að gera hjá honum.
 „Bara allt gott, hún er farin að …“ byrjaði hún, en þá fann hún skugga gnæfa yfir sér.
 „Gjörið svo vel,“ sagði pabbi hennar og setti disk með rjúkandi heitum fiski fyrir framan hana. Svo setti hann niður tvo aðra diska og vatnskönnu á miðju borðsins og settist, enn með svuntuna á sér. Hann leit á tifandi stofuklukkuna og sagði:
 „Ég þarf að vera kominn aftur í móttökuna eftir 40 mínútur. En … skál fyrir þessum fundi,“ sagði hann og lyfti glasinu klaufalega upp.
 „Skál,“ sögðu afi og Saga í kór. Í smástund ríkti þögn í stofunni, rofin af og til þegar klingdi í göfflum og hnífum og vatnsþambi í þyrstum afa. Hann ræskti sig og brosti til Sögu.
 „Þú varst að segja áðan … hvað er að frétta, elskan? Hvernig líður Pétri Pan?“
 Saga fraus með höndina á lofti.
 „Hann er dáinn, afi,“ hvíslaði hún. „Dáinn,“ endurtók hún enn hljóðlegar.
 Hann lyfti augabrúnum. „Nú? Hvað gerðist?“
 „Ég veit það ekki. En hann er dáinn.“ Hún tók stóran sopa af ísköldu vatni og leit svo beint í andlit afa síns. Svitadropar ferðuðust ofan í snjóhvítt skegg.
 „Hvert heldurðu að …“ byrjaði hún, en þá lyfti pabbi hendinni:
 „Ekki þetta aftur, elskan mín, við erum búin að tala um það. Kannski vill afi þinn ekki …“
  Afi greip fram í fyrir honum. „Það er í lagi. Eðlilegt að spyrja.“
 Saga greip andann djúpt. „Hvar heldurðu að sálin hans sé núna?“
 „Hvað meinarðu? Gæludýr hafa engar sálir. Þau eru ekki mannverur.“
 „Engar sálir? Hefurðu aldrei horft í hvolpsaugu eða glyrnur í ketti?“ sagði hún og fann hvernig röddin byrjaði að skjálfa lítið eitt.
 Afi kom sér betur fyrir í stólnum. Hann losaði aðeins betur um prestakragann.
 „Jú,“ sagði hann. „En það er samt ekki það sama. Samkvæmt Biblíunni.“
 „Biblíunni? Þú sagðir það sjálfur að í himnaríki væri pláss fyrir alla.“
 „Paradís er fyrir manneskjur, ekki fyrir skepnur.“
 „En … en … það getur bara ekki verið að Pétur Pan sé …“ Nú var röddin í henni afkastamikill jarðskjálfti. Hún barðist við að halda aftur af tárum. „Það getur bara ekki verið …“ endurtók hún.
 Afi horfði á hana ástúðlega. „Saga, elskan mín, dýr fara hvergi eftir dauðann. Svona er þetta bara.“
 Hún hristi höfuðið, varirnar herptar saman. „Nei, nei, það er ekki satt!“ æpti hún, stóð upp og hljóp út úr stofunni. Áður en hún skellti dyrunum á eftir sér, heyrði hún öskruð samtalsbrot:
 „Þú veist að þessi naggrís var síðasta gjöfin frá Völu, áður en hún …!“
 „Nú, hvað myndi hún Vala mín segja um svona lesbískt útlit? Hún myndi aldrei leyfa dóttur sinni að …!“

Hún hljóp, og hljóp, og hljóp, sá ekkert fyrir heitum tárum sem þrýstu sér úr augunum, láku niður andlitið, heyrði varla umferðarnið fyrir eigin ekkasogum, líkaminn reyndi að skjálfa frá sér reiðina, hún hljóp áfram í endalausri gleðibirtu sem umlukti borgina einsog faðmur himinsins, þangað til hún heyrði bjöllu dingla, kling, kling.
 Hún staðnæmdist og þerraði tárin með ermunum, saug upp í nefið. Leit í kringum sig, og sá að hún hafði brotist áfram alla leið inn í Pétursbúð. Hún andaði að sér kunnuglegum sjoppuilmi, og lykt af sælgæti. Í nokkrar mínútur stóð hún þögul og horfði sljólega á snyrtilega uppröðuð tímarit í hillum, kartöfluflögupakka, og annað slíkt.
 Hvernig gat hann verið svona miskunnarlaus, hann afi? Hefur hann aldrei horft í augun á dýrum? hugsaði hún á meðan andardrátturinn róaðist aðeins.
 „Saga, almáttugur, hvað gerðist?“ heyrði hún skyndilega fyrir aftan sig. Hún sneri sér við og sá Jónu. Hún var enn klædd í hermannajakkann frá því fyrr um daginn og hélt á appelsínugulum kartöfluflögupakka.
 „Það er afi minn, hann er algjörlega sálarlaus!“ sagði Saga reiðum rómi.
 „Ah, presturinn.“ Hún kinkaði kolli. „Hvað sagði hann?“
 „Að dýr hafi engar sálir. Að þau deyi bara!“ Saga kreppti hnefann.
 „Fáviti!“ sagði Jóna og rétti fram pakkann.
 „Aumingi!“ svaraði Saga og tók handfylli af flögum upp úr skrjáfandi pokanum. „Ég bara skil ekki …“ bætti hún við.
 Jóna yppti öxlum. „Hvað svosem getur hann annað sagt? Hann er svartklæddi maðurinn eftir allt saman. Öllu í heilanum hans er raðað eftir Biblíunni.“ Hún þagði. „Svona fólk hefur enga samúð whatsoever.“ Hún rannsakaði stóra flögu sem hún veiddi upp úr pokanum líktog um sjaldgæfa dýrategund væri að ræða. Nartaði í hana.
 Jóna leit beint inn í augu vinkonu sinnar. „Ég trúi því að dýr hafi sál, eða allavega einhverja meðvitund. Ef þú villt vita hvert dýrasálir fara, þá veit ég um konu sem gæti líklegast hjálpað þér.  Saga varð eitt spurningarmerki í framan.
 „Þú veist hvern ég er að tala um,“ sagði Jóna með leynilöggurómi.
 „Madame Silfurbirtu?“ giskaði Saga og lyfti augabrúnum.

Sólsetur gyllti krónur trjánna yfir Öskjuhlíðinni þegar þær bönkuðu á viðardyrnar á vagninum. Þær opnuðust dálítið með lágu skrölti og út um rifuna gægðist hettuklætt höfuð.
 „Hvað viljiði hér, telpur?“ sagði konan grunsamlega. Hún mældi þær út. Augun í henni voru litlaus, með slikju fyrir sem minnti Sögu á þoku að morgni til.
 „Madame Silfurbirta,“ sagði Jóna og hneigði sig. Hún gaf Sögu olnbogaskot og hún gerði slíkt hið sama. „Við erum hér til að spyrja þig um nokkuð.“
 Madame Silfurbirta hnyklaði brýnnar. „Nú,“ sagði hún. „Og eigið þið peninga til að borga fyrir þjónustu mína?“
 Jóna kinkaði kolli og benti á vasann á jakkanum sínum með höfuðhreyfingu.
 „Núnú, komið inn,“ skrækti Madame og lokaði dyrunum. Hún rjátlaði við þær og svo opnaði hún upp á gátt. Stelpurnar smeygðu sér inn. Saga fann hvernig hjartslátturinn í líkamanum jókst með hverju litlu skrefi sem hún tók innar.
 Madame Silfurbirta var smávaxin og aldurhnigin með kryppu á bakinu sem bogaðist út í loft. Hún var ævagömul, kannski eins gömul og Reykjavík sjálf, Saga var ekki viss. Enginn vissi hvaða nafni hún hét, allir krakkarnir í skólanum kölluðu hana Madame Silfurbirtu vegna skærs silfurljóss sem stafaði frá gamaldags vagninum á dimmum vetrarkvöldum. Madame settist við kringlótt borð, bauð þeim að setjast andspænis sér og kastaði hettunni af sér. Í ljós kom að hún var eins sköllótt og Saga. Hún setti olnbogana á dúkalagt borðið og krækti saman löngum, hnýttum fingrum.
 „Jæja, hvað get ég gert fyrir ykkur telpurnar?“ spurði hún einbeitt á svip.
 „Ég vil vita um sálarfarir eins dýrs,“ sögðu þær báðar í kór. Saga leit á vinkonu sína með þakklætisblik í augum. Jóna ræskti sig.
 „Já, við viljum vita um …“ en Madame Silfurbirta greip fram í fyrir henni.
 „Ekkisvonahratt, telpa. Fyrst peningar. Annars er samningurinn milli okkar ógildur.“
 Hún rétti fram gráðuga hönd. Fingurnir skriðu á borðinu einsog eitruð naðra á meðan konan taldi seðlana, hummandi fyrir munni sér.
 Vinkonurnar þögnuðu og Saga leit í kringum sig. Spákonuvagninn var snyrtilegur, með mjúkt teppi yfir brakandi gólfinu. Á veggjum báðum megin voru hillur með allskonar bókum. Saga renndi yfir nokkra titla. Draumafræði fyrir byrjendur, Svefntákn fyrir lengra komna, Stjörnuspeki: Himingeimurinn og þú. Á hillunum voru líka glerkrukkur, sumar með glærum vökva inni í, aðrar tómar. Hún sá krummafót, hvítar fjaðrir og þurrkuð blóm á milli. Saga hryllti sig, horfði upp, yfir þeim var hringlaga glerþak, væntanlega til þess að spá í ferð himintungla.
 Madame Silfurbirta klappaði saman höndunum, svo Saga hrökk við.
 „Jájá,“ sagði konan og stakk seðlunum í vasann. Hún leit beint á Sögu:
 „Það ert samt helst þú sem vilt skyggnast fyrir um sálarferðir þessa dýrs. Sýndu mér hendurnar með lófana upp.“
 Saga gerði það.
 „Hmm …“ hummaði hún. „Svona ungar, iðandi hendur, ég var með mjög svipaðar fyrir aldalöngu,“ hvíslaði hún. „Það kraumar reiðihaf inni í þér, öldurnar brjótast um strendur sorgar sem þú vissir ekki að byggju innra með þér. Hingað til.“ Hún leit á Sögu sínum litlausu augum. „Hann hét Pétur Pan, naggrísinn þinn, heitinn.“
 Saga kinkaði kolli, steinþögul. Madame opnaði litla skúffu fyrir framan sig og sótti tarotspilastokk. „Þar sem hendurnar eru merkingarbærasti hluti líkamans,“ byrjaði hún, „þarftu að draga þrjú spil með þeim.“ Hún stokkaði spilin í nokkrar sekúndur og rétti fram höndina.
 Saga kyngdi hátt og leit á Jónu sem kinkaði kolli með samanherptar varir.
 Saga valdi þrjú og setti mjúklega á borðið.
 „Hmm,“ sagði Madame djúpt hugsi. „Sláttumaðurinn, þrjú sverð, þrír bikarar. Vegurinn framundan er enn hulinn mistri, en þetta er mistur dagrenningar.“
 „Hvað þýðir þetta?“ spurði Saga titrandi röddu.
 „Að ég þarf að sækja meiri upplýsingar, telpa,“ muldraði Madame. Hún erfiðaðist upp úr sætinu og skjögraði í átt að hillunum. Blés ósýnilegt rykið af glærri kristalkúlu og setti hana á borðið. „Hún ætlar að vera leiðtogi okkar í kvöld,“ sagði hún blíðlega.
 „Hvað þurfum við að gera?“ spurði Jóna. Rödd hennar var spennt og undrandi barnsleg.
 „Sitjum í hring og höldumst í hendur. Þetta síðasta er mikilvægt, þið megið ekki sleppa takinu, sama hvað gerist. Skiljið þið? Hendur eru okkar helstu tengsl við veruleikann, ef þið sleppið þá getið þið endað hinum megin og aldrei fundið leiðina út aftur.“
 Stelpurnar kinkuðu kolli báðar samtímis og þær tókust allar þrjár í hendur. Madame byrjaði að vagga sér fram og til baka og umla óskiljanlega, frá kúlunni stafaði silfurskærri birtu. Madame vaggaði sér, hraðar og hraðar og hraðar, þangað til að hún öskraði þrumuröddu: „Lokaðu augunum, telpa!“

Þegar Saga opnaði augun var hún ekki lengur í spákonuvagninum, heldur umlukin háum trjám. Tré, hvert sem hún leit. Skrjáfandi og ilmandi bylgjuðust þau í miskunnarlausum vindi. Hún hlustaði á þennan trjásöng, fuglatíst, og svo stóð hún upp af naktri jörðinni, leit í kringum sig, sá hvorki Madame Silfurbirtu né Jónu. Skógarstígurinn lá framundan, einsog boð inn í annan heim, og hún byrjaði að ganga áfram, skref fyrir skref. Sólin lágt á lofti, himinninn eldrauður, bleik roðaský ráfuðu um hann einsog í leit að merkingu lífsins.
 Skuggi Sögu lengdist eftir því sem hún gekk lengra inn í skóginn, sprek brustu undan fótum hennar. Hún hallóaði: „Jóna, Jóna!“ en fékk ekkert svar fyrir utan litríkan laufdans á trjánum. Hún gekk dágóðan spöl þangað til að hún heyrði blístur, ekki einsog í vindi, heldur einsog suð í pirraðri býflugu. Saga staðnæmdist og hlýddi á. Það var ekki um að villast, hljóðið var veiklulegt, en greinilegt. Hún lyfti augabrúnum og elti það, kom inn í stærðarinnar rjóður, með litríkum blómum sem hún kunni ekki nöfn á. Saga rak upp stór augu. Í miðjunni var trjábolur, og á honum sat enginn annar en rakarinn Jean-Pierre. Saga stóð í stað, steinruninn gapandi tröllastelpa.
 „Oui oui, monsieur, oui oui,“ hvíslaði Jean-Pierre. Hann var með gráa vinnusvuntu og hélt á suðandi rakvél. Hún var tengd með rafmagnssnúru í innstungu á trjábolnum. Milli læranna sat hræddur, rauðhærður íkorni sem Jean-Pierre rakaði, muldrandi sífellt við sjálfan sig: „Oui oui, monsieur, oui oui! Þú verður ánægður með útkomuna, oui oui.“
 Saga hristi höfuðið og ræskti sig: „Jean-Pierre, hvað ertu að gera hér? Láttu íkornann í friði!“
 Hann leit upp, horfði forvitinn í kringum sig, renndi augunum eftir Sögu. „Vindurinn er óvenjuhávaðasamur í dag, finnst þér það ekki, vinur minn?“ Hann horfði á dýrið í skauti sér. Íkorninn leit á hann betlaraaugum, svo í kringum sig í leit að útgönguleið.
 „Láttu ekki svona, einsog þú heyrir ekki í mér!“ Saga stappaði fætinum. Nokkur blóm lutu höfði sínu. Hún andaði djúpt, fikraði sig í átt að Jean-Pierre. „Láttu hann í friði!“ sagði hún og rétti hendurnar í átt að íkornanum. En þegar hún ætlaði að grípa hann fóru hendurnar í gegnum dýrið. Hún rak upp hljótt öskur og greip fyrir munni sér. Prófaði einu sinni enn, með sömu afleiðingunum. Jean-Pierre hryllti sig einsog hann stæði í skyndigusti. Hvað er að gerast? hugsaði Saga. Er ég dáin?
 „Hann heyrir ekki í þér. Og sér þig ekki,“ sagði reykmettuð rödd fyrir aftan hana. Hún leit við.
 „Jóna!“ öskraði hún og hljóp í átt vinkonu sinnar, faðmaði hana en fór í gegnum kroppinn líka. „Hvað er að gerast, Jóna? Erum við dánar? Og hvar er Madame Silfurbirta? Er þetta Öskjuhliðarskógurinn?“ flæddi upp úr henni.
 Jóna hugsaði sig um. „Ég er ekki viss,“ sagði hún án þess að varirnar hreyfðust. „Þetta getur verið einhvers konar draumveröld, eða astral-ástand sem við erum komnar í.“ Hún rétti fram höndina. „Komdu, þú þarft að sjá eitthvað, kannski munt þú meika sens úr þessu. Ég skil það ekki, allavega“  Þær gengu í átt að einu horni rjóðursins. Saga sá að skuggi hennar hafði lengst, en þegar hún leit upp var sólin ennþá á sama stað og áðan.
 „Hún sest aldrei hér, sólin. Ég er búin að vera hér allavega í nokkurn tíma, en þessi eldhnöttur, hann neitar að færa sig um set,“ útskýrði Jóna fyrir henni. Hún klóraði sér í kinnina, fingurnir hurfu ofan í andlitið. „Ég botna ekki neitt í þessu öllu saman. Hér erum við,“ sagði hún og benti í átt að manninum fyrir framan þær. „Þú þekkir eflaust þennan.“
 „Pabbi!“ æpti Saga. „Hvað ertu að gera hér? Halló?“
 „Hann heyrir ekki í þér. Horfðu.“
 Þær þögðu. Faðir Sögu var klæddur í skítugar buxur, grænn jakkinn þakinn moldarblettum og húfu sem minnti Sögu á skógarhöggsmann. Hann hélt á skóflu og raulaði fyrir munni sér, um leið og hann gróf holu. Á bakvið hann var röð af trjám og við eitt þeirra hrúga af illa lyktandi hræjum. Saga pírði augun og áttaði sig á því að þetta voru refir og tófur. Rauð, brún, hvít hræ af öllum mögulegum stærðum og gerðum. Faðir hennar tók eitt upp og fleygði því másandi ofan í holuna, skóflaði svo moldinni ofan á. Svo tók hann næsta og næsta og næsta.
 „Hvað er hann að gera?“ spurði Saga.
 „Ég held hann sé að taka grafir fyrir refina,“ svaraði Jóna.
 „Týpískt hann. Alltaf í vinnunni. Kannski erum við í hugarheimi hans?“
  Jóna hristi höfuðið. „Ég er ekki viss. Það er ekki bara hann sem ég sá hér.“
 „Nú. Hverja fleiri sástu?“
 „Afa þinn,“ svaraði Jóna og tvísteig vandræðalega. „Hann er miklu skrýtnari en pabbi þinn.“
 „Hvað meinarðu, Jóna?“
 „Ég meina …“ byrjaði hún, en þá heyrðust kirkjuklukkur. Saga hrökkti við.
 Hún lyfti augabrúnum. „Kirkja í skóginum? Hvar er hún, Jóna?“
 Þær fóru út úr rjóðrinu, aftur á skógarstíginn sem Saga hafði labbað áðan. Gengu hljóðar, hlið við hlið. Skuggar þeirra lengdust æ meira. Saga horfði upp í himininn. Skýin voru ennþá böðuð bleikroðanum, en höfðu breytt um lögun. Nú líktust þau litlum spendýrahjörtum. Saga lokaði augunum í vantrú sinni, en þegar hún opnaði þau aftur héngu hjörtun enn á himninum. Henni virtist sem hún heyrði hvernig þau hömuðust í reglulegum takti, í samræmi við brak í sprekum undir iljum hennar.
 „Við erum hér,“ tilkynnti vinkona hennar. Saga horfði beint fram fyrir sig. Þær voru komnar í enn annað rjóður, nema í þetta sinn stóð lítil kirkja í miðjunni. Hún var úr ljósum viði, með einum stuttum turni sem trónaði einsog áminning um eftirlíf. Hann minnti Sögu á gamla kirkju sem hún hafði séð einu sinni í Vík í Mýrdal.
 Frá byggingunni heyrðist ýlfur, einsog í hungruðum úlfi. Saga skalf. „Eru úlfar inni?“
 Jóna kinkaði kolli. „Já. En mundu að þeir geta hvorki séð okkur, né heyrt, né snert. Við erum safe,“ sagði hún með áherslu á enska orðið.
 Inni var sterk viðarlykt, röð af snyrtilegum bekkjum og kross á altari. Á bekknum sátu úlfar og gáfu frá sér skerandi hljóð af og til. Á altarinu hafði verið komið fyrir hásæti og í því sat enginn annar en afi hennar. Saga fann hvernig reiðin blossaði upp í henni, hún skalf enn meira, og otaði hnefanum upp í loft, en mundi svo að hún hafði ekkert vald hér.
 Afi var klæddur í hátíðlegan, svartan prestabúninginn. Hann rétti fram hægri hönd, á henni var stærðarinnar gullhringur skreyttur demöntum. Fyrir framan hann var röð af úlfum sem komu einn og einn og sleiktu hringinn, guðhræddir.
 „Þetta er ógeðslegt!“ öskraði Saga og kúgaðist af eldgosareiði.
 Jóna tók í höndina á henni, hendurnar runnu saman í eitt. „Það er ekkert sem við getum gert, allavega í okkar ástandi,“ sagði hún. „Komdu, við skulum fara út.“
 Saga stóð undir berum himni og reyndi að róa sig, andaði djúpt ofan í lungu, fann hvernig hennar eigin hjartsláttur byrjaði að hægja á sér. Hún leit á vinkonu sína sem gróf höndina í vasanum á ælugrænum hermannajakkanum.
 „Hvað ertu með í vasanum?“ spurði hún.
 Jóna stjáklaði vandræðalega. „Saga mín, það er eitt annað sem ég þarf að sýna þér.“
 Hún rétti fram höndina, hélt á glerkrukku. Hvernig gat hún komið fyrir heilli krukku þarna inni? datt Sögu í hug. Svo sá hún að inni í henni var einhvers konar olía og í honum örlítill naggrís.
 „Pétur Pan!“ hrópaði hún. „Varstu með þetta í vasanum allan þennan tíma?“
 Jóna kinkaði kolli. „Þegar ég vaknaði í skóginum fann ég þessa krukku við hliðina á mér. Ákvað að taka hana með og leita að þér.“
 Saga brosti, þótt hún skildi ekki hvernig stóð á því að krukkan var það eina sem hún gat haldið á með höndum sínum. Hana gleðisvimaði. Hún skoðaði naggrísinn í krukkunni gaumgæfilega. Pétur Pan var furðulega lítill og hárlaus og á floti í einhverjum feitum vökva. Þá áttaði hún sig á því. Þetta var ekki beinlínis naggrís, heldur naggrísafóstur.
 „Held ég viti hvað við eigum að gera með þetta,“ sagði hún við Jónu.
 „Hvað er það?“ spurði hún.
 „Komdu.“
 „Hvað ætlarðu að gera, Saga? Þú ert með skelfilegt blik í augunum.“
 „Treystu mér. Ég veit hvað ég er að gera. Komdu.“
 Þær sneru við og fóru sömu leið og áður, aftur að fyrra rjóðrinu. Fundu pabba Sögu. Hann var ennþá að grafa holur með skóflunni, óstöðvandi og sýndi engin þreytumerki.
 „Þetta er það sem mig vantar.“ Saga benti á skófluna og tók hana úr höndum föður síns. Hann hélt áfram að moka einsog ekkert hefði í skorist. Saga gekk spölkorn frá honum og fór að grafa sína eigin holu. Jóna stóð álengdar og hélt á krukkunni með naggrísafóstrinu, sem á brothættu postulíni. Þegar Saga var búin að grafa nógu djúpa holu settu þær krukkuna á botninn og byrjuðu að moka moldinni yfir.
 Sólin settist loks bakvið róleg tré þegar hún skóflaði síðusta moldarlaginu ofan á og gerði hátíðlegt krossmark. Hún tók í höndina á vinkonu sinni. Í þetta sinn fann hún fyrir snertingu aftur. Allt varð furðulega hljótt, skýjuðu dýrahjörtun slógu ekki lengur á himninum.