Maó Alheimsdóttir
Við Bragi stöndum fyrir utan kaffihús. Í vösum okkar liggur heill rafrænn hnöttur. Allir vinir okkar eru þar líka í betri útgáfu af sjálfum sér, tilbúnir til að svara einsemdarútkalli. Ég horfi á Braga með nikótínfíkn í augum og samhygð í hjarta. Fimm deyfðar mínútur sem við deilum án þess að dæma hvort annað fyrir að vera ekki sterkari. Ég spyr hann ekki hvenær hann byrjaði aftur. Ég segi honum ekki frá því að mig langi að hætta. Í fimm mínútur upplifi ég eitthvað meira en örbylgjur snjallsímans míns. Við höldum áfram að reykja undir gráleitum janúarskýjum, fylgjumst með síðustu regndropum morgunsársins sem renna letilega niður húsveggi, bílrúður, kinnbein. Bragi flýtir sér ekki að segja neitt. Ég veit ekki heldur hvort mig langi að tala við hann í dag. Fyrir tveimur dögum fékk ég taugaáfall. Ég efast um að það sé efni í kaffispjall við mann sem ég þekki ekki það vel. Hann þekkir mig reyndar betur en flestir samfélagsmiðlavinir mínir. Hann þekkir tungumál líkama míns og blæ raddar minnar þar sem við höfum hist næstum því á hverjum degi síðan í haust. Við mælum okkur aldrei mót. Við drekkum aðeins kaffi á sama tíma á sama kaffihúsi áður en við höldum áfram í mismunandi áttir, hvort á sinn vinnustað. Bragi segir mér stundum frá vinnunni sinni. Ég segi honum stundum frá því sem ég geri. Við heilsum upp á aðra viðskiptavini á leiðinni inn og út af kaffihúsinu. Öðru hverju hægir einhver gestanna á sér eða jafnvel stoppar hjá okkur til að skiptast á skoðunum um eitthvað sem við erum að ræða. Við Bragi tölum sjaldan um samskipti og sambönd við annað fólk. Ég man reyndar mjög vel eftir einu fyrsta samtali okkar sem var smá vandræðalegt. Við sátum við útiborð kaffishússins í septembersólinni.
Ég þarf að mæta á foreldrafund í dag. Ég nenni samt ekki að fara. Það eina sem mig langar að gera í dag er nákvæmlega það sem ég er að gera núna.
Bragi horfir brosandi á mig og fær sér kaffisopa. Ég svara honum með brosi líka svo spyr ég hann hvað dóttir hans heiti.
Úa, hún verður sjö ára á sunnudaginn. Átt þú börn?
Nei, en ég á kött. Hann er reyndar köttur fyrrverandi kærasta míns, segi ég og átta mig á sama tíma að það hljómar eins og ég sé að tilkynna að ég sé á lausu eða að gæludýr og börn séu það sama. Mig langar að bæta einhverju við, einhverju sem myndi mála betri mynd af sambandsleysi mínu, gildi gæludýra og barna og koma í veg fyrir spurningar um hvers vegna ég endaði með kött fyrrverandi. En áður en ég næ að finna viðeigandi orð gerir Bragi það enn verra með því að segja,
Ég fíla ketti, en konan mín er með ofnæmi fyrir þeim.
Hvorugt okkar segir neitt meira í góða stund. Ég reyni að sannfæra sjálfa mig um að það sé mjög eðlilegt að Bragi hafi sagt mér frá því að hann sé í sambandi og að hann hafi ekki gert það af því að ég sagði að ég væri það ekki.
Klukkan hvað er foreldrafundurinn? spyr ég alveg ákveðin í að best sé að hætta að tala um ketti og eiginkonur.
Hálf fimm, svarar Bragi og lítur um leið á klukkuna, en þangað til verð ég líka að gera eitthvað í vinnunni. Það var gott að sjá þig Nína, við sjáumst.
Bragi yfirgefur kaffiskjól okkar á undan mér í dag. Ég sit áfram úti, ein og fylgist með fólki gangandi upp og niður verslunargötu borgarinnar. Önnur hver manneskja er með snjallsíma í hendi. Sumir reyna að átta sig á staðsetningu og næsta áfangastað, aðrir tala í símann eða taka myndir með honum. Einn og einn maður, óhræddur við að lenda í slysi við ljósastaur eða við aðra gangandi manneskju, skrifar skilaboð og gengur samtímis. Ég tek upp símann líka og fer að skoða færslur og myndir á samfélagsmiðlum, hugsandi um hvernig ég kann varla lengur að vera ein með sjálfri mér, símalaus. En jafnvel á meðan ég er í símanum líður mér ekki minna einmana.
⁂
Á Valentínusardegi vakna ég með hausverk og beinverki. Það er reyndar engin þörf á að aflýsa ástarplönum. Mér var hvort eð er ekki boðið á neitt stefnumót. Þrátt fyrir flensueinkenni og Valentínusarvonbrigði er löngun í kaffi frá kaffihúsinu mínu mjög sterk. Ég skelli mér í vetrarkápu utan yfir bol og föðurland og með bankakort í vasanum flýti ég mér að bílnum mínum sem er á kafi í snjó. Eftir að hafa hreinsað bílrúðurnar sest ég í bílinn, set hann í gang og rýf skjannahvíta morgunþögn götunnar minnar. Ég virðist vera ein á leið á þessum laugardagsmorgni. Hverfið mitt sefur rótt undir hvítum púðursængum sem fylla hverja rönd í bárujárnsþökum og þær eru breiddar yfir jafnvel mjóstu trjágreinar. Ég keyri hægt og varlega þar sem ég finn fyrir hálku undir þykku lagi af nýföllnum snjónum. Á rauðu ljósi á horni Ægisgötu og Mýragötu horfi ég á bryggju fulla af snjó. Ég horfi á dökkblátt vatnið sem vaggar rólega litlum fiskibátum, hugsandi um hvað það væri yndislegt að eiga skútu eða bát og geta siglt á sumrin í kringum landið, frá firði til fjarðar, frjáls frá bílaumferð og ferðamönnum.
Ég næ ekki að kafa dýpra í rómantískum pælingum um hið fullkomna ferðalag þar sem mér bregður við hljóðið í bílflautu einhvers sem ólíkt mér er með athyglina, á veginum. Ég keyri áfram í gegnum byggingarsvæði með stórum hálfkláruðum hótel- og verslunarbyggingum sem taka yfir útsýni og miðbæinn. Gler og steypa í miklu magni mynda ferköntuð ópersónuleg form sem hafa meira með græðgi borgarstjórnar að gera en arkitektúr gamla miðbæjarins. Ég finn bílastæði rétt hjá kaffihúsinu. Í búðarglugga við hliðina hangir hjarta úr rauðu plasti og undir hjartanu standa tveir miðlungs stórir gervisvanir horfandi framan í hvorn annan. Við glugga kaffihússins sitja maður og kona á þrítugsaldri sem horfa hvort á annað eins og gervisvanaparið, dáleidd og frosin. Á meðan ég fylgist með kaffiþjóni fylla götumál með ómjólk heyri ég kunnuglega rödd.
Sæl Nína,
Hæ Bragi, segi ég og sný höfðinu í átt til hans. Til hamingju með daginn, bæti ég við án nokkurrar gleði í röddinni. Bragi færir mér bros ásamt sömuleiðis svari og pantar kaffi. Ég set lok á götumálið og fer að dyrunum.
Nína, ertu að flýta þér?
Nei, ég ætlaði að fá mér að reykja áður ég keyri heim.
Sjáumst eftir smá, segir Bragi og snýr sér aftur að afgreiðslumanninum til að klára kaffiviðskipti sín. Um leið og ég kveiki í sígarettu byrja snjókorn að falla til jarðar. Fyrst eru snjókornin fá og feimin svo smám saman fjölgar þeim og þau stækka en enginn vindur truflar komu þeirra. Bragi kemur út með bollann sinn og við stöndum og störum bæði tvö á ástarskrautið í búðarglugganum við hliðina.
Í gamla daga veiddu Íslendingar álftir til matar, segir Bragi allt í einu.
Borðaði fólk svani?
Já, ég hef lesið og heyrt sögur um það. Það er að sjálfsögðu ólöglegt í dag. Álftin er friðuð þó að sumir bændur séu alls ekki ánægðir með það. En það er vegna tjóns á túnum af völdum álftanna, og gæsa reyndar líka.
Það þurfti þá að drepa þær alltaf í pörum svo þær enduðu ekki einmana eða frekar einsvana, segi ég.
Einmitt, þær velja sér maka fyrir lífstíð, ekki eins og við, eða sumir okkar.
Það heyrist hik í rödd Braga og mér sýnist að það sé eitthvað meira sem hann vill segja mér frá en eftir greinilega langa þögn blæs hann aðeins sígarettureyknum út úr sér og horfir í fjarskann. Ég er alveg að drepast úr beinverkjum, segi ég til að koma í veg fyrir frekari þögn og um hvaða suma ertu að tala spurningunni sem mig langar að spyrja. Sjáumst á morgun? spyr ég hann í staðinn og dríf mig inn í bílinn minn sem byrjaður er að hverfa í snjónum á ný.
⁂
Vetrarmyrkrið gefur eftir en það er enn langt í sumarhita. Ég skil samt bílinn eftir heima og ganga á vinnustofu mína. Það er hvort eð er ekki um langa leið að ræða. En það er leti í mér við að ganga á móti köldum vindi og á klaka sem myndast á gangstéttum tekur oft yfir umhverfisvakningu og almenna skynsemi um að hreyfa sig reglulega. Það er reyndar þurrt á götunum í dag þar sem allur snjórinn í borginni bráðnaði nýlega. Ég geng upp aðalgötuna og mæti varla kunnuglegu andliti. Ég horfi með söknuði í átt að byggingu sem var skjól fyrir bréf og sendingar í hundrað og fimmtíu ár. Í fréttunum kom fram að flutningur pósthússins væri vegna slæms aðgengis, að það væri ekki nóg af bílastæðum við Pósthússtræti. Svo var líka sagt að á nýjum stað yrði betri aðbúnaður starfsmanna. Á hverju ári fjölgar veitingahúsum í verslunargötum miðbæjarins og mörkuðum með útivistafatnaði fyrir illa klæddu ferðamennina sem vilja endilega eiga praktískan minjagrip frá norðurheimskautslandi. Það fjölgar einnig klassískum minjagripabúðum sem flagga flíslundum og víkingahjálmum í gluggum sínum. Hófstilltir túristar sem tíma ekki að eyða tugþúsundum króna í íslenskan regnjakka upp á nýjasta móðinn geta í staðinn keypt segul með gamalli mynd af litla fiskiþorpinu sem Reykjavík var fyrir hundrað árum. Á Skólavörðustíg fer ég framhjá verkstæði úrsmiðsins sem þurfti að gefa sig fyrir hagnaðarþróuninni og stjórnarleysi pólitíkusa. Flestum smáverslunum og litlum verkstæðum í miðbænum var lokað eða þau neyddust til að flytja vegna uppsprengds leiguverðs. Eigandi uppáhaldskaffihússins míns er sem betur fer eigandi rýmisins þannig að hann þurfti ekki að yfirgefa miðbæjarsvæðið eins og margir aðrir. Á kaffihúsinu næ ég í kaffiklippikort sem hangir við hliðina á klippikortum annarra fastakúnna sem borga fyrir tuttugu kaffibolla í einu þannig að í mánuð eða tvo geta þeir gengið inn á kaffihúsið veskislausir og samt fengið kaffi. Ég set kaffibollann minn og smjördeigshorn á hátt borð við spegilvegg þar sem blöðin liggja. Fasteignasöluauglýsingar sem ég rekst á í einu blaðanna kalla fram óbragð í munninn. Flokkahatur í pólitík og blekkingatal blaðamanna í greinum á næstu síðum hjálpar mér að láta blöðin alveg í friði. Ég sötra kaffið og glápi að dyrunum í von um að sjá kaffifélagann minn. Ég verð ekki fyrir vonbrigðum þar sem Bragi kemur inn áður en ég er búin með kaffið. Á sama tíma og kaffið hans Braga er tilbúið losna tvö sæti við gluggann sem eru í rauninni einu sætin á kaffihúsinu. Við grípum tækifærið og færum okkur að glugganum. Bragi segir mér frá sumarbústaðarferð sinni í síðustu viku, hvað það var gott að fara út úr bænum í smá stund og þurfa ekki að vera í síma í nokkra daga, vera virkilega einn. Við tölum líka um enn eina lægð á leiðinni og um veturinn sem tekur aldrei enda. Ég segi honum frá skáldsögu sem ég las um daginn, hann sýnir mér myndir og myndband sem hann tók í sumarbústaðnum. Við hlæjum að selfímyndböndum Braga þar sem hann útskýrir með miklum húmor fyrir sjálfum sér hvernig á að kveikja í kamínu og opna vínflösku án tappatogara. Svo er klukkan orðin of margt fyrir mig til að halda áfram spjallinu þó að mig langi alls ekki að hætta. En ég verð að fara í vinnuna.
⁂
Mars. Yfirvaraskegg og framtalsskil. Það gengur næstum því betur með skeggið en hitt. Þó að X-kynlitningurinn hafi ráðið í sameiningu kynfruma foreldra minna. Ég gæti kannski nýtt hárvöxtinn framan í mér til að sýna karlmönnum sem greinast með krabbamein samstöðu. En ég get ekki lengur horft framhjá ókláraðri skattskýrslunni. Að vinna sem verkataki og launþegi til skiptis flækir tiltölulega málið þegar kemur að útreikningi á árlegri innkomu. Að vinna ekki nóg til að tíma að borga einhverjum öðrum fyrir útreikninginn endar með pirringi og höfuðverk ár eftir ár.
Mígrenimars í staðinn fyrir mottumars, tilkynni ég Braga yfir kaffibolla, ert þú búinn að skila framtali?
Ekki ennþá, svarar Bragi og bítur í sætabrauð.
Ég er reyndar búin að fylla út flest en ég er svo stressuð um að hafa skáldað allt of mikið í nokkrum reitum.
Ég þarf einmitt að kíkja á frænda á eftir, skila síðustum reikningunum til hans, bætir Bragi við.
Frænda?
Ég sé móður mína að setja gleraugun á sig og fara einbeitt yfir allar skýrslur frændfólksins. Reyktungur rísa upp úr öskubakka sem stendur við hliðina á blaðabunka með endalausum bláum og grænum reitum. Myndin af móður minni hverfur um leið og Bragi heldur áfram að tala. Ég er komin aftur í íslenskan veruleika sem móðir mín hefur aldrei kynnst.
Hann er bókhaldari, hann Jón frændi, hann er alveg frábær. Ég er nokkuð viss um að hann gæti kíkt á skýrsluna þína og skoðað framtalsnýyrði þín.
Heldurðu að það sé ekki nóg að gera hjá honum? spyr ég feimin.
Það er alltaf fullt að gera hjá honum samt hefur hann alltaf tíma, segir Bragi með bros á vörum sér.
Þú gætir þá kannski spurt hann hvort hann væri til í að fara yfir framtalið mitt og hvenær ég gæti farið til hans. Ef hann hefur tíma.
Bragi stendur upp með kaffibolla í annarri hendinni og sígarettu í hinni. Ég stend líka upp og fylgi honum út.
Hefur þú tíma í hádeginu í dag? spyr hann allt í einu.
Já, af hverju?
Ég sæki þig þá í hádeginu og við förum saman til frænda. Hvert viltu að ég sæki þig?
Óðinstorg.
Ég horfi á Braga og reyni að átta mig á hvað hafi gerst. Ég er hissa hvað ég þáði boð hans án mótmæla. Var það vegna þess hve eðlilegt það hljómaði eða var það ákveðnin í rödd Braga eða bæði samtímis?
Við sjáumst á eftir, korter yfir tólf, segir Bragi og skilur mig eftir með hugsunum mínum.
⁂
Ég kíki á klukkuna í símanum. Tuttugu mínútur yfir tólf. Ég stend á Óðinstorgi með fartölvu í töskunni óviss um hvort ég eigi að bíða lengur eða fara aftur inn á vinnustofuna. Í sama mund sé ég gamlan Grand Vitara hægja á sér og stöðvast við hliðina á mér.
Afsakaðu biðina, Bragi opnar farþegahurðina að innan, ég var að leita að reikningum, hélt að allt væri á sínum stað en svo var auðvitað ekki.
Allt í góðu, ég sest inn í bílinn og við keyrum af stað. Í gegnum einstefnugötur miðbæjarins og rauð ljós Miklubrautar hlusta ég á Braga tala í símann við einhvern sem virðist vera dóttir hans.
Fyrirgefðu, ég þurfti að taka þetta símtal. Dóttir mín er búin að vera í sífelldu uppnámi síðan ég flutti út.
Við keyrum fram hjá áttatíukílómetrahraða skilti og ég átta mig á því að Bragi hafi ekki minnst neitt á heimilisstöðu sína við mig fyrr en núna. Ég hef reyndar ekki spurt heldur. Kannski hefur hann reynt að segja mér það þegar við ræddum ástarlíf svana en ég lét mig hverfa í flýti heim. Kannski var hann að reyna að segja mér frá konunni sinni sem var að halda fram hjá honum eða einhverju sem hann hafði gert sem leiddi að þessum flutningum. Steypuferningar íbúðablokka og verslana birtast og hverfa jafnóðum báðum megin við þreföldu akbrautina. Mig langar að spyrja hvenær hann flutti út og hvers vegna en ég geri það ekki. Eitthvað í mér segir mér að það sé ekki rétti tíminn til þess. Mig langar að segja eitthvað uppbyggjandi eða kærleiksfullt en í staðinn segi ég aðeins,
Já, ég skil.
Í fjarlægð glitra víkurvötn. Kranar og flutningagámar eru á stærð leikfangakubba. Bláir, mórauðir, hvítir. Uppi í Ártúnsbrekku rís Esja, og Móskarðshnúkar og Akranesfjöll. Í fjallshlíðum þeirra sé ég snjóskafla sem eru öll í lagi eins og brostið hjarta Braga, barnsmóður hans, sjö ára dóttur þeirra, mitt eigið.
Hvar er skrifstofa frænda þíns? spyr ég Braga á meðan hann beygir inn á grátt Höfðasvæði.
Hún er á bak við bogabygginguna en það er algjör krókaleið að komast þangað.
Ertu búinn að vera lengi með þinn eigin rekstur?
Bragi segir mér frá því hvernig hann byggði upp fyrirtækið á síðustu þremur árum og hvað frændi hans hafi verið duglegur að passa upp á skattpeningana.
Skrifstofa frændans er hvít og lítil, með ópersónulegum húsgögnum og fjölskyldumynd við hliðina á stórum tölvuskjá. En frændi Braga er hlýr og með stórt hjarta. Hann skoðar framtalið mitt og lagar tvennt á nóinu en neitar að fá nokkuð greitt fyrir það.
Þetta var ekki neitt, segir hann brosandi, viljið þið kaffi?
Ég afþakka kurteislega og afsaka sjálfa mig þar sem síminn minn hringir. Ég fer út á gang til að svara.
Sæl Nína, rödd fyrrverandi eiganda kattarins, ómar í símanum, getum við talað aðeins saman?
Aðeins, ég er hjá bókhaldara.
Ertu komin með bókhaldara?
Nei, já, ég hugsa með mér að ég hafi engan áhuga á að útskýra smáatriði hvað varðar framtalið mitt og frænda Braga fyrir manninum sem skildi mig eftir með brostið hjarta og köttinn, tvisvar. Þó að ég hafi ekkert á móti því að hann skyldi skilja köttinn eftir. Ég veit ekki hvers vegna ég svara honum heldur, en ég geri það, næstum því í hvert skipti sem hann hringir í mig. Ég hlusta á hann og með hverju orði gefur verndarbjarg sem hefur myndast í kringum hjartað mitt eftir undan tilfinningahafi. Hurðin að skrifstofunni opnast og Bragi ásamt frænda birtast í gættinni.
Ég heyri í þér betur á eftir, ég þarf að fara. Ég set símann í vasann og fer nær hurðinni til að kveðja bókhaldarann og þakka honum einu sinni enn fyrir hjálpina. Um leið og Bragi opnar bílinn hringir einhver í hann sem virðist í þetta skipti vera barnsmóðir hans. Hann segir hljóðlaust afsakaðu í mína átt án þess að gera sér grein fyrir því að ég er fegin að hann sé í símanum. Ég svara líka allt í lagi á sama hljóðlausa hátt og set heyrnatól í eyrun. Ég horfi í gegnum bílrúðuna á úthverfi og sjóndeildarhring hafsins. Við Eiríksgötu leggur Bragi símann frá sér. Ég slekk líka á tónlistinni og við skiptumst á nokkrum afsakandi orðum um að hafa verið svo mikið í símanum.
Takk fyrir að fara með mig til frænda þíns. Ég get loksins andað léttar aftur, segi ég við Braga þegar hann stöðvar bílinn á Óðinstorgi, við sjáumst.
Við gerum það, segir Bragi upptekinn við hugsanir sínar.
Þó að marsmánuður taki bráðum enda skellur enn öðru hverju á stormur. Snjókoma og svell taka yfir borgina í tvo daga svo hlýnar og hann rignir þar til allt bráðnar á þriðja degi. Í næstu tvo sólarhringa getur maður rétt úr sér og gengið úti án þess að bölva yfir vetrinum og vorkenna sjálfum sér. Svo á fimmta eða sjötta degi kemur önnur lægð og óveður tekur við á ný. Það er reyndar ekkert óeðlilegt við slíkt veður á þeim árstíma. Það eru enn þrjár vikur í sumardaginn fyrsta sem hvort eð er er engin staðfesting á að sólardagar án úrkomu verði ríkjandi. En í dag er einn af þessum betri millidögum með vindhraða varla upp á átta metra á sekúndu og úrkomulausum skýjum. Í tilefni millidagsins ákveð ég að yfirgefa íbúðina mína rúmlega klukkan korter í átta sem er hálftíma á undan venjulegri áætlun. Ég skipti líka um leið sem ég fer yfirleitt og geng að gamla kirkjugarðinum. Á bak við hlið kirkjugarðsins bíður mín annar heimur. Í grafa- og trégöngunum gleymi ég öllum vandamálum og áhyggjum. Ég les nöfn þeirra sem voru einu sinni eins og ég að fara í vinnuna í gegnum kirkjugarðinn. Þeir voru líka að horfa á mosa vaxa á legsteinum, bíða eftir björkum og reynitrjám að vakna undan löngum vetri. Svo liggja þeir núna kyrrir og líflausir að breytast í ösku og beinahrúgu. Ég geng út úr garðinum við Suðurgötu og held áfram niður Skothúsveg. Á brú á Tjörninni stoppa ég í smá stund. Ég fylgist með máfum taka hringi fyrir ofan vatnið. Ég horfi á víðmynd miðbæjarins. Hvert skipti sem ég stend á þessari brú líður mér eins og ég sé aðeins áhorfandi lífsins sem gerist innan og á milli margra bygginga sem sjást svo vel héðan. Og að í öllum bílum sem fara framhjá mér þegar ég geng áfram að umferðarljósum við Sóleyjargötu sitji fólk sem, ólíkt mér, er með alvöru plön og alvöru áfangastaði og að allt sem þetta fólk geri sé mikilvægt og meiki sens. Á meðan ég snýst í hringi líkt og máfarnir. Áætlunarlaus, haldin einfaldri frumstæðri löngun um að fá mér kaffi úr nýmöluðum kaffibaunum, hitta Braga, tala um ekki neitt, fá mér sígarettu. Ég geng upp Þingholtsbrekku og stari í glugga gömlu húsanna og á falið líf á bak við gluggana. Ég hef alltaf gert þetta síðan ég man, alls staðar sem ég bjó. Mig langaði oft að banka upp á hjá ókunnugu fólki og bjóða sjálfri mér inn heim til þeirra, að sitja við ókunnuglegt eldhúsborð með rjúkandi kaffi á könnunni. Ég vildi vita hvernig það er að tilheyra, að vera með, í alvöru. Ég opna glerdyrnar að kaffihúsinu og sé Braga að snúa við blaðsíðu í bók.
Loksins gott veður, segi ég við kaffiþjón á meðan ég rétti þjóninum klippikortið mitt.
Heldur betur, segir Bragi og horfir upp úr bókinni sinni. Fórstu í göngutúr?
Ég kinka kollinum og brosi til hans.
En þú?
Ég ætla á eftir, þegar ég er búinn með kaffið. Ég ákvað að sleppa að fara í vinnuna í dag.
Ekki slæm hugmynd. Það er algjör synd að sitja inni þessu fáu óveðurslausu daga.
Viltu ekki að sleppa því að fara í vinnuna líka og koma með mér í göngutúr?
Ég get það ekki, því miður, ég þarf að mæta á fund í dag.
Við Bragi förum út saman til að fá okkur að reykja og höldum áfram að tala aðeins um millidaganna. Svo þegar Bragi er búinn með sígarettuna sína, óskar hann mér góðs fundar og hverfur handan við hornið. Ég fer aftur inn til að taka á móti tilbúnum kaffibolla mínum, hugsandi um hvað ég væri til í að fresta fundinum og fara með Braga að rölta í hverfinu. En fyrir utan að það væri ekki mjög skynsamlegt og fagmannlegt þá er það líka of seint. Bragi er farinn.
⁂
Lokað tímabundið vegna kórónufaraldurs. Hvítt tilkynningarblað hangir í glugga uppáhaldskaffihússins míns. Sólin skín ófeimin á götuna og óákveðna mig. Hvert fer ég? Laugardagsmorgunn í allri sinni nekt fullur af valmöguleikum og vonbrigðum. Annaðhvort get ég farið heim eða leitað að öðru kaffihúsi, stærra og háværara, líklega með hugsjónamiklum einstaklingum sem hópast í kringum borð til að ræða samsæriskenningar og gildi bólusetninga. Hvergi annars staðar í borginni finnst eins lítið og þægilegt kaffihús sem býður upp á fínasta kaffi en engar margradda umræður. Ég stend áfram á örgangstéttinni sem er í réttu hlutfalli við rými kaffihússins. Eftir góða stund sest ég á almenningsbekk hinum megin við kaffihúsið og kveiki í sígarettu. Ég lygni augunum og leyfi sólinni að leika sér að augnlokunum. Rauður, appelsínugulur, gulur, flekkóttur rauður. Kalt. Ég opna augun. Einsamalt ský búið að taka yfir sólarljósið. Ég drep í sígarettunni, ákveðin í að fara heim. Í gegnum Þingholtin rölti ég niður brekku beint að almenningsgarði. Skýið yfirgaf kuldaleik og ég finn aftur fyrir sólargeislum. Ég geng meðfram tjörninni, mæti hundafólki og ferðamönnum. Kirsuberjatrén eru byrjuð að blómstra. Það styttist í Hanami. Ég hlakka til lautarferðar þar sem íslensk-japanska félagið mun eflaust vera með skemmtiatriði og hressingu að japönskum sið. Líkt og í fyrra og hittifyrra. Kannski gæti gæti kannski boðið Braga með. Eða bara nefnt við hann að það verði opin samkoma undir kirsuberjatrjám og gaman yrði að sjá hann. Ég vil ekki að hann haldi að ég sé að reyna við hann þó að mér finnist hann mjög skemmtilegur og aðlaðandi. Mér sýnist að við Bragi séum bæði tvö í einhvers konar sambandslimbói. Bragi er nýbúinn að skilja við barnsmóður sína og ég er ennþá að tala við fyrrverandi kærasta, óákveðin hvað ég vilji frá honum, ringluð hvað hann vilji frá mér. Ég væri samt til í að kynnast Braga betur og á annan en tilviljunarkenndan hátt. Rétt hjá ráðhúsinu hætti ég við að fara strax heim. Löngunin í kaffi er of sterk, ég er líka svöng. Ég geng á brúnni í átt að byggingu sem stendur við Vonarstræti. Fyrir hundrað árum var Vonarstræti sérstaklega erfitt yfirferðar vegna bleytu, í dag er það erfitt vegna óendanlegra framkvæmda og rútuumferðar. Ég opna þungar dyrnar og geng inn í Iðnó. Kaffi- og matarlykt tælir mig á stundinni til að velja mér sæti við glugga án þess að athuga eða spyrja nokkurs fyrst. Ég þarf ekki að bíða lengi eftir þjónustu og að auki brosir fallega manneskjan til mín á meðan hún tekur við pöntun minni, sem í þessari borg gerist jafn oft og sólskin á veturna. Eftir að hafa fengið mér kaffi prófa ég einn fáu réttanna á matseðlinum. Í fyrsta skipti lengi finnst mér maturinn vera í jafnvægi, ekki of saltur, ekki of bragðsterkur, ekki með neinni sósu eða grænmetismauki. Meðalstórt lambastykki í miðju skálar, umkringt alls konar grænmeti, soðnu, súru, fersku. Ég er bæði hissa og glöð þegar ég finn undir kjötinu hýðishrísgrjón. Skammturinn samsvarar fullkomlega hádegismatarþörfum mínum þó að það sé enn klukkutími í hádegið. Ég fæ mér ábót á kaffið og horfi södd á ömmur, afa og barnabörn að gefa fuglum síðustu brauðsneiðarnar fyrir sumarið.
⁂
Ég geng um hálftómar götur borgarinnar og fylgist með hundafólki, einum og einum manni sem svífur um eins og draugur með dapurlegan svip og tómt augnaráð. Flest kaffihús eru lokuð, þar á meðal mitt vegna þess að rými kaffihússins býður ekki upp á tveggja metra fjarlægð á milli manna. Tveir metrar til að minnka hættu á smiti. Tveir metrar til að hlúa að lífi þeirra viðkvæmustu. Ég geng hraðar til að losa mig við fyrirsagnir frétta um atvinnuleysi, sóttkví og handþvott sem blikka í höfðinu á mér við hvert skref. Ég er löngu hætt að lesa hvað stendur undir fyrirsögnunum og tölulegar upplýsingar um hve margir hafi smitast frá því í gær, um hve mikið hafi fjölgað á gjörgæslu Landspítalans eða um hversu margir létust af völdum veirunnar síðasta sólarhringinn í heiminum. Ég geng enn hraðar til að gleyma þeim kórónuveruleika sem við búum í. En kórónuveiran fylgir mér alls staðar sem ég fer. Ég sé hana í kyrrð borgarinnar, í einnota gúmmíhönskum á höndum þeirra fáu sem ég mæti í matarbúðum, í endurspeglun minni í plexigleri sem var sett upp við kassa til að verjast smiti. Ég fer heim og þvæ mér um hendur, ég geng frá matvörum sem ég keypti og þvæ mér um hendur. Ég helli upp á kaffi, tek tússpenna og málband. Ég teikna á gólfið í stofunni hring með tveggja metra radíus. Svo annan. Ég næ í kaffibolla og sest í miðju annars hringsins. Ég fletti upp á Braga í símaskránni og ýti á græna takkann.
Sæll Bragi, Nína hér, segi ég mjög formlega þó að mig langi að skella upp úr.
Sæl og blessuð, hvað segir þú í dag? svarar Bragi á mögulega eðlilegasta hátt sem hægt er, eins og hann hafi búist við að ég hringdi, eins og við værum alltaf að hringja hvort í annað.
Ég er búin að teikna tvo hringi í stofunni hjá mér, held ég áfram án þess að velta fyrir mér hvað Braga myndi finnast um mig. Með tveggja metra radíus, bæti ég við, sit svo í einum þeirra og drekk kaffi.
Vantar þig einhvern í hinn hringinn? spyr Bragi hlæjandi.
Já, staðfesti ég ófeimin, mig bráðvantar einhvern til að drekka kaffi með, einhvern sem er ekki í sóttkví og vill tala um eitthvað annað en sóttkví.
Ég er alveg til í að vera sá einhver, ég sit í stofunni minni hringlaus og leiður á sjálfum mér, segir Bragi og spyr mig svo hvar ég eigi heima. Ég segi honum það og kveð hann með sjáumst eftir smá. Svo fer ég að hugsa hvernig kórónuveruleikinn breytir öllu og hvort ég myndi bjóða manni heim sem ég veit í raun ekkert um undir venjulegum kringumstæðum. Ódrukkin um hábjartan dag. Öfugt við hvernig ég kynntist fyrrverandi eiganda kisunnar minnar. Faraldurinn hefur gert okkur að hittast ekki, þar sem hann er búsettur erlendis og þannig fastur heima hjá sér. Ég hugsa um hvað verður í matinn og hvort það sé nóg af sápu og hversu lengi við munum lifa með samkomubanni og innan lokaðra landamæra. Á meðan hugurinn veltist í hringi, þá er bankað á dyrnar. Ég stend upp og stíg út úr hringnum.