Friðgeir Einarsson
Í nótt dreymdi mig að við hefðum fengið tilboð í nýja eldhúsinnréttingu. Tilboðið var yfir tuttugu milljónir. Mér blöskraði í draumnum og var létt að vakna. Ef þú ert að lesa þetta í framtíðinni þarftu að vita að þetta er fáránlega há upphæð. Hún er það allavega fyrir okkur, mig og konuna mína. Ég var að vonast til að þetta yrði í kringum milljón, allavega undir tveimur. Ég er enn að vona það. Við höfum vel að merkja enn ekki kallað eftir tilboðum. Ég vil að við gerum það þegar við erum alveg tilbúin. Það fer að verða tímabært. Þegar við fluttum í íbúðina fyrir fjórum árum ákváðum við að við myndum fara að huga að því að taka eldhúsið í gegn eftir þrjú ár. Íbúðin var eins nálægt „draumaíbúðinni“ og við höfðum efni á á þeim tíma, en eldhúsinnréttingin var og er hreinasta hörmung. Mörgum þætti þetta full djúpt í árinni tekið, það er í sjálfu sér ekkert að henni. Hún er bara komin til ára sinna og ljót, mér finnst það. Þau sem bjuggu hérna á undan okkur létu lappa upp á hana áður en þau settu íbúðina á sölu, vafalaust fyrst og fremst til að eldhúsið myndi líta vel út á myndunum í fasteignaauglýsingunni og auka þannig verðgildi íbúðarinnar. Þau máluðu skáphurðirnar í sorglegum gráum lit sem ég geri ráð fyrir að hafi verið valinn til að passa við hvaða vegglit sem er, og létu setja nýja borðplötu úr plasthúðuðu límtré. Þetta er ódýr plata, sjálfsagt ódýrasta týpan, maður finnur það þegar maður snertir hana. Undir plasthúðinni er gráyrjótt munstur sem sjálfsagt á að líkja eftir steini en blekkir engan.
Ég skil að fólkið sem bjó hérna á undan okkur hafi ekki viljað spandera háum fjárhæðum í innréttingu fyrst þau voru hvort sem er að fara að flytja, en óska þess stundum að þau hefðu látið sér nægja að rífa gömlu innréttinguna úr og skilið eftir opið sárið, tóm sem hefði verið aðkallandi fyrir okkur að fylla upp í þegar við fluttum inn. Þá værum við ekki í þessari stöðu í dag.
Það kemur samt fyrir að gestir hrósi innréttingunni, segi að þeim finnist hún vera smart. Það getur verið að þeim finnist það í raun og veru, en líklega eru þeir bara að reyna að vera kurteisir, eru að leita eitthvað uppi til að hrósa eins og gesta er von og vísa. Þá kinka ég kolli eins og ég sé sammála, eða allavega ekki ósammála, en óska þess auðvitað að þau segi satt, þegi að öðrum kosti. Ég get ekki trúað að einhverjum finnist þetta fallegt, þessi litur, þessi form. Hönnunin er öll hin nytsamlegasta, það verður ekki frá henni tekið. Lægsti samnefnari fyrir meðalmanneskjur. Allt á sínum stað, allt þetta helsta, ódýr eldavél, skítsæll vaskur, uppþvottavél sem þvær illa, gömul og skítug vifta, ljótur ísskápur. Enginn stíll yfir neinu. Engin hugsun. Þetta er lítið annað en starfsstöð sem dugar til að elda einfaldar máltíðir, þar sem metnaðarlaust fólk getur leyst þá lífsnauðsyn eins og hverja aðra skyldu.
⁂
Auðvitað veit ég að það er vel hægt að eyða tuttugu milljónum í eldhús. Það er ekki einu sinni erfitt, ekki síst ef maður á viðskipti við þær verslanir sem ég hef skoðað í. Vafalaust spandera margir þess háttar upphæðum án þess að blikka auga. Fólk með þess háttar kaupgetu. Fólk sem sér ekkert því til fyrirstöðu að nota fjármuni sína til að bæta lífsgæði fjölskyldunnar. Þetta skil ég vel. Ég myndi fara eins að ef ég ætti efni á því. Eldhúsið er fyrir augum manns á hverjum degi, það herbergi sem maður ver hvað mestum tíma í fyrir utan svefnherbergið. Í fljótu bragði get ég ekki ímyndað mér betri ráðstöfun á tuttugu milljónum.
Það er grátleg kaldhæðni að fólk sem á tuttugu milljónir á lausu sé sennilega það fólk sem hefur einna minnst gagn af eldhúsi, fólk sem getur einfaldlega leyft sér að snæða á veitingahúsum eða hafa manneskju í vinnu til að sjá um matseldina. Ég ímynda mér að ríkt fólk geri ekki annað í eldhúsinu en að sækja sér dýra, lífræna, innlenda jógúrt úr tvöföldum ísskáp með frönskum hurðum. Eða kannski að láta sjálfvirka kaffivél með kvörn útbúa fyrir sig heitan drykk.
Við leyfum okkur sjaldan þann munað að borða úti, ég og konan mín. Að fara á veitingahús er ofmetið þó að það geti verið notalegt. Konan mín segir iðulega að það sem við fáum á veitingahúsum jafnist ekki á við það sem ég elda heima. Oftast er ég sammála, þó að ég segi sjálfur frá. Þetta er fyrst og fremst spurning um rétt hráefni og rétta meðhöndlun. Ef maður kann til verka er óþarfi að borga fólki úti í bæ fyrir að gera það. Það þarf varla að taka fram að ég er mikill áhugamaður um mat og matargerð, grúska mikið, ligg í bókum. Í eldhúsinu sem ég sé fyrir mér verður bókahilla. Þegar við viljum gera okkur dagamun, ég og konan mín, reyni ég að finna spennandi uppskrift sem við höfum aldrei smakkað áður. Gef mér góðan tíma í að tína saman bestu hráefnin og nostra við framsetninguna. Ég spyr konuna mína gjarnan hvað hún haldi að hún þyrfti að borga fyrir tiltekna máltíð á veitingastað. Það er skemmtilegur leikur. Sparnaðinn má síðan með góðri samvisku leggja fyrir, láta ganga upp í nýja innréttingu.
⁂
Í draumi snerti ég borðplötuna. – Þetta er vökudraumur sem ég hef samið sjálfur og rifja upp að minnsta kosti einu sinni á dag til að hann gleymist ekki, en líka af því að hann er notalegur. Ég kann betur að meta dagdrauma en þá sem mann dreymir þegar maður er sofandi. Draumar sem mann dreymir á nóttunni eiga það til að enda öðruvísi en maður hefði viljað, byrja kannski ágætlega en sveigja síðan af braut og enda í einhverju stressi og hryllingi. Það finnst mér synd því draumar gætu verið svo ágætur griðastaður frá raunveruleikanum; í þeim getur bókstaflega allt gerst: sóðalegar kynferðisfantasíur geta ræst án þess að sárindi eða vandræðagangur hljótist af, maður getur troðið í sig viðbjóðslega óhollum mat án þess að þurfa að fást við afleiðingarnar. Af hverju má maður ekki njóta þess?
Mínir draumar – þeir sem mig dreymir meðan ég sef – einkennast flestir, ef ekki allir, af kvíða, vænisýki og sektarkennd. Mjög oft hef ég framið einhvern óræðan glæp og lagt á flótta. Sem endurspeglar alls ekki þann veruleika sem ég upplifi meðan ég er vakandi. Í draumnum sem ég smíða sjálfur hef ég stjórn, þarf ekki að upplifa neitt slæmt. –
⁂
Í draumnum mínum – þessum sem ég hef samið – snerti ég borðplötuna. Ég legg flatan lófa á hana, strýk fingrunum eftir henni eins og ég sé að lesa eitthvað um hana, eins og það sé skrifað með mjög grunnu blindraletri. Hún segir mér hvar hún hefur verið, hvernig hún komst til mín. Við myndum tengsl. Efnið skiptir öllu máli. Ryðfrítt stál er praktískt, á meðan viður, til dæmis eik, gefur hlýlegan og notalegan blæ. Plast kemur ekki til greina. Steinn hefur meiri vigt, ekki bara bókstaflega heldur finnur maður það, með skynfærunum, augunum og húðinni, að hann er kominn til að vera, hann endist.
Ef ég ætti tuttugu milljónir myndi ég hins vegar velja ítalskan marmara. Allt við marmara er í efsta stigi, hann er sléttastur, hvort tveggja í senn harðastur og mýkstur, náttúrulegastur, varanlegastur. Menningararfleifð Vesturlanda er varðveitt í marmara. Vissulega er auðveldara að þrífa og meðhöndla önnur yfirborð. Hann tekur í sig lit sem næst illa úr, í sumum tilfellum alls ekki. Túrmerik borgar sig til dæmis ekki að nota í kringum marmara. Og Guð hjálpi þér ef þú hellir sítrónusafa eða öðrum súrum vökva á hann. Marmari er ekki efnið sem maður velur sér ef maður á börn sem bráðum fara að hjálpa til í eldhúsinu, jafnvel að fara að myndast við að bjarga sér sjálf. Auk þess sem ég sé ekki hvernig við kæmum gegnheilli marmaraplötu gegnum öll stigaop og alla leið upp á fjórðu hæð til okkar.
Ég geri ráð fyrir að við yrðum eina fólkið í blokkinni með eldhúsplötu úr marmara. Það er engin skynsemi í því. En í draumnum mínum er það marmari. Hann talar til mín eins og aðrar steintegundir gera ekki. Það er söngur í honum. Í draumnum legg ég eyrað að borðplötunni og hlusta.
Söngur.
⁂
Ég hef verið mun meira í eldhúsinu eftir að ég hætti í vinnunni. Hætti eða sagði upp, það fer eftir því hvernig þú lítur á það. Formlega var þetta „gagnkvæmt samkomulag.“ Ástæðan var „samskiptavandamál“ eins og fyrrverandi yfirmaður minn orðaði það. Ég held það þýði að henni hafi ekki líkað við mig, fyrrverandi yfirmanni mínum.
Hvað sem því líður var niðurstaðan sú að ég fékk greiddan uppsagnarfrest og hefur þess vegna ekki legið á að finna nýja vinnu. Það hefur reynst mér mikilvægt fyrir mig, að geta leyft mér að vera heima með sjálfum mér og fara yfir stöðuna. Ég mæli raunar með að þetta geri sem flestir á nokkurra ára fresti. Að böðlast ekki í gegnum ævina eins og hverja aðra akkorðstörn án þess að staldra nokkurn tímann við. Án þess að hugsa um hvað skipti máli. Ég er ekki trúaður maður, en ef ég væri það myndi ég sjálfsagt líta á þennan greidda uppsagnarfrest sem gjöf frá almættinu. Hvort sem hann er það eða ekki hef ég ákveðið að vera þakklátur, ég lít á þetta sem tækifæri og áskorun til að vinna í sjálfum mér.
Til dæmis hef ég hlaðið niður nýju appi í símann sem telur hitaeiningar í mat. Maður slær inn hvað maður étur í hverri máltíð og hversu mikið, tvö hundruð grömm kjúklingabringur, þrjár meðalstórar gulrætur, kálblað, ein matskeið af dressingu, og svo framvegis. Appið leggur á móti fram upplýsingar um hversu margar kaloríur maður hefur innbyrt og styðst í þeim efnum við heljarinnar gagnagrunn sem það er tengt við. Appið telur manni jafnframt til tekna ef maður hreyfir sig, fer í leikfimi eða bara gengur fram og til baka. Síminn telur skrefin sem maður tekur og þegar maður fer yfir ákveðinn skrefafjölda má maður borða fleiri kaloríur, fær verðlaun, dálítið eins og í tölvuleik.
Þessi stúdía mín hefur auðvitað það í för með sér að ég er nánast öllum stundum í eldhúsinu að vigta mat og rýna í uppskriftir, læra að sjóða kínóa þannig að það sé eitthvað bragð að því eða baka pönnukökur úr höfrum og banönum í staðinn fyrir hveiti. Ég geri ráð fyrir að markmið flestra sem nota appið sé þyngdartap. Þannig er það kynnt, það á að hjálpa manni að léttast. Og því verður ekki neitað, ég hef lagt af þótt það verði ekki sagt að ég hafi verið feitur. Það sem ég hef þó frekar áhuga á er þyngdarstjórn, að öðlast yfirsýn yfir hvað ég set ofan í mig og ekki skoppa upp og niður í þyngd eins og hvert annað dufl. Inntaka fæðu hefur ekki bara áhrif á tölurnar á vigtinni og hvernig maður lítur út – heldur ekki síður á það hvernig manni líður. Og þar með hvað maður gerir, hvaða ákvarðanir maður tekur, bæði stórar og smáar. Hver maður er. Það er stórlega vanmetið í nútímasamfélagi.
⁂
Þegar maður ver stórum hluta dagsins í eldhúsinu byrjar maður að taka eftir hlutum sem maður gaf engan gaum áður. Af hverju er vaskurinn ekki undir glugganum? Þá getur maður horft út í garð meðan maður skolar af diskunum. Af hverju er eldavélin ekki nær ísskápnum, ef maður skyldi þurfa að ná í eitthvað úr kæli meðan maður brasar á pönnunni? Af hverju er eldhúsplatan svona neðarlega? Er það af því að sögulega séð eru eldhús hönnuð með konur í huga og þær eru almennt lágvaxnari en karlar? Í sögulegu samhengi eru karlar nýfarnir að hasla sér völl í hinu íslenska fjölskyldueldhúsi. Getur verið að hönnun eldhússins taki ekki mið af líkama karlmannsins? Hver segir að hlutirnir eigi að vera eins og þeir hafa alltaf verið? Af hverju eru uppþvottavélar alltaf hafðar niðri á gólfi? Sláni eins og ég þarf að beygja mig niður til að raða diskunum. Það er ekki nógu gott fyrir bakið. Það fæli auk þess í sér vinnusparnað að hafa uppþvottavélina upp á borði þar sem ég gæti raðað beint inn í hana og raðað beint upp úr henni í skápana án þess að beygja mig. Hvernig getur sjónarhorn karlmannsins bætt eldhúsið? Fyrir bæði kyn. Fyrir öll kyn. – Þetta segi ég sem jafnréttissinni. Það er jafnréttismál að karlmaðurinn láti sig eldhúsið og innviði þess varða. En þá þarf honum líka að líða eins og hann sé velkominn þar.
⁂
Það hefur óneitanlega skapað spennu á heimilinu að ég hafi ekki enn fundið mér nýtt starf. Konan mín virðist ekki treysta því að ég komist út á vinnumarkaðinn og hefur bætt við sig vinnu, tekur að sér allar aukavaktir sem henni bjóðast. Þetta hefur það auðvitað í för með sér að heimilisstörfin falla flest mér í skaut, þrif, matargerð, umhirða barna. Þegar konan mín er á annað borð heima er hún of þreytt til að gera neitt nema glápa á sjónvarpið. Ef ég hef orð á þessu við hana verður hún stygg og byrjar að tala um afborganir. Heldur hún að ég viti ekki um þær? Heldur hún að ég hafi ekki áhyggjur líka? Hvernig eiga draumar okkar að rætast ef það eru ekki til peningar? Ég er ekki í afneitun hvað það varðar. Ég kann að meta að hún tækli reikningana meðan ég er tekjulaus, en vil líka að hún sjái hvað ég geri á heimilinu meðan hún er úti. Hún þarf ekki að þakka mér fyrir, bara að sjá það og bera kennsl á að framlag mitt skiptir máli.
Stundum festist ég í hringrás neikvæðra hugsana, festist í að hugsa um til hvers ég sé að leggja þetta á mig. Af hverju ég sé að þvo þvott sem verður jafnóðum skítugur aftur, af hverju ég sé að rembast við að taka til þegar það sér aldrei högg á vatni, af hverju ég sé að ganga frá í eldhúsinu og þurrka af borðinu þegar aðrir heimilismenn ganga um eins og skepnur í stíu. Og uppsker ekki einu sinni þakklæti.
Ég hef sett disk í vél og fundið um leið sterka löngun til að gá á símann minn, eins og hann héldi einhvers konar skrá um heimilisstörf sem ég sinni, og að tilsettu marki náðu fengi ég einhvers konar verðlaun. Sem hann gerir auðvitað ekki. Þess háttar app er ekki til.
Ætli þetta sé ekki spurning um að stilla af væntingar. Ég þarf að breyta því hvernig ég horfi á þetta, æfa mig í því. Ég þarf að átta mig á að verðlaunin leynast í verknaðinum sjálfum: verðlaunin eru að fá að inna verkin af hendi. Að fá að eiga fjölskyldu. Að fá að eiga skyldum að gegna. Að fá að gleyma sér í hversdagslegu amstri. Það eru verðlaunin.
⁂
Í draumnum mínum á fjölskyldan margar samverustundir í eldhúsinu. Við söfnumst saman kringum eldhúseyjuna eins og langeld, nærumst saman, bæði á líkama og sál, tölum saman hlýtt og innilega. Og þegar börnin eru farin að heiman verðum við tvö þarna, ég og konan mín. Það er það sem ég sé fyrir mér.
⁂
Ég er kominn með nokkuð góða mynd af því í huganum hvernig eldhúsið okkar á að líta út. En ég vil ekki afla tilboða fyrr en myndin er orðin alveg skýr. Það ætti í sjálfu sér ekki að vera mikið mál að panta aðila heim til að mæla eldhúsrýmið. Sennilega gæti ég leyst það sjálfur. Fá svo sérfræðingana í búðunum til að teikna þetta upp. Flestar búðirnar bjóða upp á þess háttar þjónustu. Það er meira að segja hægt að sjá það á nokkurs konar ljósmynd hvernig nýja eldhúsið kemur til með að líta út. Fyrir mig, kaupandann, er þetta þá bara spurning um að velja efni og liti, kannski höldur. Skáparnir koma í stöðluðum einingum, plöturnar eru sagaðar til á verkstæði.
En af því að hugmyndir mínar samræmast ekki þeim stöðlum sem búðirnar vinna út frá þyrfti ég að fara aðra leið. Helst myndi ég vilja teikna þetta upp sjálfur en skortir kunnáttu til þess. Þyrfti helst að fá einhvern sniðugan smið til að hjálpa mér. Eða kannski er til einhvers konar teikniforrit sem er svo einfalt að jafnvel apakettir eins og ég geta notað það. Mér finnst mikilvægt að ég komi að borðinu með eins skýra hugmynd og mögulegt er áður en ég legg inn pöntun og allt fer af stað. Það er skilvirkara og minni hætta á að ég þurfi að gera málamiðlanir.
⁂
Auðvitað hef ég farið í búðirnar, þessar helstu, skoðað mig um. Sú sem mér líst best á selur þýskar innréttingar og er nokkuð dýr. Það sem ég kann einna best við er hversu áhugalaust starfsfólkið er um mig. Oftast er enginn þarna nema önug kona á mínu reki sem situr við tölvu nálægt innganginum, starir þungbúin á skjáinn eins og henni leiðist agalega að vera þarna. Fyrstu skiptin sem ég kom spurði hún hvort hún gæti aðstoðað mig, en nú er hún farin að þekkja mig og veit að ég vil bara fá að vera í friði innan um innréttingarnar.
Í öðrum búðum rekur starfsfólkið upp stór augu þegar ég strýk innréttingunum en hún virðist skilja af hverju ég þarf að gera það, lætur það í það minnsta ekki trufla sig á nokkurn hátt. Það er mikilvægt fyrir mig að fá næði til að upplifa efni og áferðir. Smáatriðin. Hvernig skúffa dregst út. Hvað heyrist. Í þessari búð er góð hljóðvist, það er þögult; konan virðist ekki kæra sig um að hafa kveikt á útvarpi, auk þess sem það er sjaldnast nokkur annar þarna en ég og hún, þannig að ekki er ónæði af öðru fólki.
Í draumnum mínum geng ég inn í þessa búð, þessa sem selur þýsku innréttingarnar, býð góðan daginn og skelli teikningunum á borðið hjá konunni. Konan lítur yfir gögnin, slær eitthvað inn í tölvuna, hrósar vinnubrögðunum, segist sjaldnast fá svo vandvirka kúnna, gott ef það örlar ekki á sjaldséðu brosi. Svo gefur hún mér verð í þetta, hún hefur hent inn góðum afslætti, auk þess sem ég þarf ekki að borga fyrir teikningu og hönnun – ég hef séð um það sjálfur. Verðið er vel undir tveimur milljónum. Afhendingartíminn er líka með hagfelldasta móti. Í draumnum gerist þetta oftast svona. Allt gengur upp.
Þó kemur það fyrir, einkum ef er ég illa upp lagður eða næ af einhverjum ástæðum ekki að einbeita mér eins vel og æskilegt væri, að draumurinn tekur aðra og neikvæðari stefnu. Búðarkonan gaumgæfir teikningarnar, jafn alvarleg á svip og þegar hún horfir á tölvuskjáinn.
„Guð minn góður,“ segir hún. „Þú hefur greinilega aldrei stigið fæti inn í eldhús. Elsku karlinn.“ Eitthvað í þá veruna. Svo hlær hún. „Uppþvottavélin getur ekki verið uppi á borðinu.“
„Af hverju ekki?“ spyr ég. Það hefur þykknað í mér. Ég kann ekki við að það sé talað svona við mig.
„Uppþvottavélin þarf að vera á gólfinu. Hún er of þung til að vera upphækkuð.“
„Er það ekki bara spurning um undirstöður, að hafa nógu þungan sökkul?“ segi ég.
Hún svarar því ekki, finnst greinilega ekki taka því. Ég veit ekki hvernig hún kæmi orðum að því, en hún myndi einhvern veginn gefa í skyn að ég hefði ekki vit á þessu af því að ég er karl.
„Það vill svo til að ég vinn langflest húsverkin á mínu heimili,“ segi ég. „Fyrir utan garðverkin. Sem eiga sér auðvitað stað úti og flokkast því tæplega sem húsverk.“
Hún segir eitthvað eins og að það sé alveg eftir okkur körlunum að vorkenna okkur. „Karlar fá að gera nákvæmlega allt sem þá langar til. Ef þeim dettur í hug að þá langi til að elda endrum og sinnum, leggja þeir undir sig eldhúsið eins og hverja aðra nýlendu. Ef þeir nenna ekki að elda þarf konan að sinna því.“
„Það er ekki mín upplifun,“ myndi ég segja. „Karlar þurfa að gera allt, því ef karl biður konu sína – sé hann í sambúð með konu – um að taka til hendinni, þá er hann tilætlunarsöm karlremba. Hann þarf því bæði að sinna hefðbundnum kvennastörfum – taka til, vaska upp, þrífa, þvo þvott – og hefðbundnum karlastörfum – skrúfa upp snaga, losa stíflur, lappa upp á reiðhjól, og svo framvegis. Ég þarf að vera bæði konan og karlinn, meðan konan mín, hin líffræðilega kona, vinnur frameftir og horfir á glæpaþætti í sjónvarpinu.“
„Ekki það að þetta séu karlastörf og kvennastörf,“ dettur mér í hug að bæta við. „Þetta eru einfaldlega störf, þeim þarf að sinna.“
Þegar hér er komið sögu í draumnum hef ég yfirleitt alls enga stjórn lengur á því sem gerist. Ég stend andspænis búðarkonunni eins og þvara, fullur efasemda um að ég geti staðið við það sem ég hef sagt. Eða sé öllu heldur eftir því hvernig ég sagði það, finnst ég kannski hafa verið of aggressívur í tóni, beinlínis ógnandi. Í draumnum langar mig að rjúka út en geri það ekki. Hugsa um að biðjast afsökunar, geri það heldur ekki.
Í sumum útgáfum draumsins stendur búðarkonan skyndilega upp, teygir sig eftir jakkaboðungunum mínum og dregur mig að sér, rekur tunguna upp í mig. Þetta er auðvitað ekki rökrétt atburðarás miðað við það sem á undan hefur gengið en þetta er nú eftir allt saman draumur. Það er ekki gott bragð af konunni, eins og hún hafi ekki borðað neitt þann daginn, ekki látið neitt ofan í sig nema kaffi.
Þó að það sé óviðeigandi og mig langi ekki beinlínis til þess kyssi ég hana til baka. Í öfgakenndari útgáfum draumsins færist leikurinn yfir í eina af sýningarinnréttingunum. Að hennar ósk hjálpa ég henni upp á eldhúsbekkinn sem er ýmist úr tré eða steini eftir því hver gállinn er á mér. Svo hneppi ég frá blússunni, færi hana úr buxunum og hef við hana samræði. Þetta gerist með ýmsum tilbrigðum, einkum hvað varðar stellingar, þó að í megindráttum spilist þetta yfirleitt alltaf nokkurn veginn svona.
Mér finnst ég ekki þurfa að segja konunni minni frá því að ég hafi hugsað þetta. Þá síður konunni í búðinni. Þetta er minn draumur. Það þarf ekki að skaða neinn þó að ég ímyndi mér svona nokkuð. Ég er ekki beinlínis stoltur af því en skammast mín ekki heldur. Þetta er mitt mál.
Engu að síður birtist konan mín stundum í fantasíunni, hún er sem sagt persóna í draumnum þótt hún viti ekki af því sjálf. Hún kemur inn í eldhúsið af því að hún á þangað eitthvert erindi, ætlar að ná í eitthvert áhald eða setja disk í vaskinn, kemur þannig að okkur, mér og búðarkonunni. Hún hefur ekki í hyggju að skakka leikinn, segist raunar alls ekki vilja trufla. Það truflar mig samt að hún sé þarna. Ég spyr hana af hverju hún skilji diskinn eftir í vaskinum, hvort hún vilji ekki bara klára að skola af honum og setja hann í uppþvottavélina. Eða hvað heldur hún að gerist? Hver heldur hún að eigi á endanum eftir að ganga frá þessu? Þessu svarar hún engu.
Stundum hef ég reynt að gera konuna mína að þátttakanda í atlotunum milli mín og búðarkonunnar. En það virkar einhvern veginn ekki heldur. Það er ekki afbrýðisemi eða neitt slíkt; það bara eru hreinlega engir straumar á milli okkar þriggja þegar hér er komið við sögu. Auk þess sem það er á þessum tímapunkti orðið mjög óskýrt hvort þetta gerist í innréttingaversluninni eða heima hjá okkur, mér og konunni minni, og af hverju starfskonan í innréttingaversluninni væri þá komin þangað.
Þessi óskýrleiki slekkur í mér alla löngun. Fantasíur þurfa að vera nákvæmar og upp að vissu marki raunhæfar til að koma mér til.
⁂
Þannig lýkur draumnum. Hann bara fjarar út. Endar ekki beint. Hann á vonandi eftir að taka á sig skýrari mynd eftir því sem ég vinn meira í honum. Maður getur alltaf bætt sig.