Ragnheiður Harpa Leifsdóttir
1.
Bátsmaðurinn segist aldrei áður hafa komið með gesti á eyjuna. Við heyrum lítið hvort í öðru fyrir mótornum sem rýfur kyrrðina í firðinum. Dóttir mín situr við hliðina á mér og virðist hverfa ofan í skærbleiku dúnúlpuna sína. Litur og áferð yfirhafnarinnar eru í æpandi mótsögn við stórskornu fjöllin og dimmbláa sjóinn. Eldrauða hárið hennar flaksar í vindinum, eins og skjöldur um andlitið, sem er órætt og óáhugasamt. Þegar hún var minni naut hún þess að ferðast með mér, að vera með mér. Ég spurði mig í morgun þegar ég leit í spegilinn og reyndi að hemja þetta sama hár og hún hefur erft, hvort þetta væri allt hreinlega aumkunarverð tilraun til þess að endurheimta hana.
Í hvössu morgunbirtunni virðist hún miklu yngri en þrettan ára. Hún er höfðinu hærri en ég, samt mótar enn fyrir smáum líkama hennar fanginu mínu, eins og fingrafari í leir. Ég sé tímann æða áfram á hrukkunum í andlitum vina minna, finn það í stífum mjöðmum á morgnana en hún er helsta áminningin. Eftir augnablik verður hún flogin.
Bátsmaðurinn snýtir sér hressilega í samankuðlaðan vasaklút. Stóru hendurnar, í þéttprjónuðum ullarvettlingum, halda fast um stýrið. Við skerum spegilslétta vatnsflötinn í tvennt. Hrjúf, froðukennd slóð gárar vatnið. Fyrir aftan okkur eru fjöllin, mosagræn og björt í kaldri sumarbirtunni. Framundan er ekkert nema endalaus blámi.
Og eyjan.
Hún er lítil. Minni en mig minnti. Þegar ég var barn og gat ekki sofnað í efri kojunni í bústaðnum ímyndaði ég mér að eyjan væri bátur sem vaggaði í öldunum. Niðurinn í vatninu var stöðugur, eins og hroturnar í pabba úr næsta herbergi. Á daginn buslaði ég í fjörunni og synti nakin í sjónum á meðan mamma fylgdist með og prjónaði eða las. Á nóttunni hlustaði ég á hroturnar renna saman við vatnsgutlið, og síðan hef ég átt erfitt með að aðskilja þessi hljóð hvort frá öðru. Nú virðist hafið kalt og fráhrindandi.
Bátsmaðurinn veður fyrstur í land. Hann er stórvaxinn og stækkar enn frekar við að standa upp. Hann vippar okkur yfir á sandinn svo að við blotnum ekki í fæturna. Snertingin er óvænt og góð. Það er langt síðan einhver hefur haldið fast utan um mig.
Við göngum upp hólinn í átt að bústaðnum. Hann er þar sem hann hefur alltaf verið, en það er eitthvað öðruvísi við hann; hrörlegri og drungalegri en í minningunni. Lerkið grátt, og veðrað. Ég lá tímunum saman á gömlum, röndóttum sólbekkjadýnum á þessum sama palli og las Andrésblöð. Þau sömu, aftur og aftur. Fyrir aftan húsið má enn greina leifar af garðinum hennar. Þegar ég var fimm ára var húsið málað heiðblátt að innan sem utan, og þess vegna virtust skilin milli úti og inni óljós. Nú hefur saltið étið málninguna og liturinn dofnað. Húsið, smíðað úr gömlu skipsbraki, blístraði í stormunum. Ég varði heilu dögunum í að strjúka veggjum í leit að naglaförum. Köngulóarvefirnir sem umlykja bústaðinn eru til marks um hversu langt er síðan einhver hefur verið hérna. Ætli pabbi hafi aldrei komið hingað án mín? Hann hlýtur að hafa sent einhvern til að gæta hans, allavega fyrst um sinn. Áður en hann fór að gleyma. Vefirnir mynda hjúp utan um fjölskyldu sem er ekki lengur til. Ég ýti við einum þeirra með priki, og sé þá hvernig átta augu fylgjast grannt með hverri hreyfingu minni.
Vissuði að köngulóarvefur er eitt sterkasta og léttasta efni veraldar? spyr bátsmaðurinn annars hugar á meðan hann ber töskurnar okkar upp á pallinn.
Það þyrfti aðeins að taka til hendinni hérna, bætir hann við og hlær, eins og hann sé að biðjast afsökunar á að hafa komið með okkur hingað.
En það var ég sem fékk hann til þess.
Einhvers staðar inni í firðinum heyri ég í fugli kvaka. Ískaldur straumur ferðast niður hryggjarliðina.
Hvað verðiði lengi? spyr hann.
Ég greini hreim í orðum hans, söng sem tilheyrir ekki tungumálinu.
Í viku, svara ég.
Mig langar til að segja honum að vera áfram. Að skilja okkur ekki eftir einar, ekki svona lengi. Mig langar að segja honum að ég og dóttir mín kunnum ekki lengur að vera saman tvær. En reyni að brosa. Hann brosir á móti. Tennurnar skakkar og ankannalega stórar. Hann réttir mér matarpokana.
Ég hafði verslað inn fyrir viku. Staðið í Bónus og talið máltíðir, snarl og drykkjarföng fyrir okkur mæðgur. Eitthvað sem myndi ekki skemmast hratt, væri hægt að elda á prímus, ef eldavélin virkaði ekki. Ég reyndi að finna eitthvað sem henni þætti líka gott en mundi ekki alveg hvað hún var að borða þessa stundina, það breyttist ört. Ég pakkaði kertum, vasaljósum, tuskum, sóp, svefnpokum og bókum án þess að vita út í hvað ég var að fara.
Þegar pabbi dó arfleiddi hann mig að gulnuðum eignasamningi og gömlum, ryðguðum lykli. Ég bjóst aldrei við að koma hingað aftur.
Ég sæki ykkur þá um þetta leyti, segir bátsmaðurinn, annars hringirðu bara.
Það er reyndar ekki rafmagn í bústaðnum en síminn ætti að endast eitthvað næstu daga, svara ég.
Hann horfir á mig og ég sé hugsun flökta um andlitið sem hann orðar ekki. Í staðinn sækir hann penna úr vasanum og rífur blað úr lítilli svartri stílabók. Þessir smáu hlutir verða kómískir í höndum hans. Eins og þeir séu ætlaðir dúkkum. Hann réttir mér blaðið. Á því er nafn og símanúmer. Davíð. Gleymdi ég að kynna mig í morgun?
Ronja, segi ég og tek í höndina á honum, eins og ég sé að hitta hann í fyrsta skipti. Ég hef gleymt að kynna mig. Fyrirgefðu.
Það þurfti ekki, ég vissi hver þú varst. Feður okkar þekktust, þú manst kannski ekki eftir því en ég kom stundum hingað til ykkar í heimsókn.
Er það?
Það er langt síðan, segir hann hálfafsakandi. Við vorum bara börn.
Ég … man ekki, segi ég.
Mig langar að segja honum að ég muni varla neitt úr æsku minni, að það sem ég man sé hjúpað kámugum fingraförum og blárri móðu. Nema það sem viðkom henni. Ég tel mig muna það flest.
Ertu viss um að það verði í lagi með ykkur hérna? spyr hann. Þið eruð náttúrlega ekki með bát eða neitt. Ég get alveg komið við í vikunni ef þið viljið.
Ég brosi hughreystandi til hans. Eins og ég sé að sannfæra hann, en ekki sjálfa mig, um að allt verði í lagi. Dóttir mín kinkar kolli til hans, hún sýnir hvorki undrun né reiði yfir því að vera komin. Hún hefur ekki sagt orð við mig síðan í morgun. Hún er ekki í sumarbúðunum með vinkonum sínum. Hún er hér með mér.
Já, það verður í lagi, segi ég.
2.
Gamli lykillinn rennur mjúklega inn í skráargatið. Dyrnar opnast með ískri, og mér bregður við að finna að lyktin er sú sama og hún hefur alltaf verið. Lyktin af bústaðnum, mömmu, falin undir mörgum lögum af ryki. Sumstaðar hefur veggfóðrið flagnað af en að öðru leyti virðist bústaðurinn í ágætu standi. Opin matreiðslubók liggur á eldhúsborðinu. Rauða mottan í stofunni er orðin upplituð og ljósbleik. En hann er eins og ég man hann. Hver hefur verið að hugsa um bústaðinn? Og hver hafa fyrirmælin verið fyrst að tíminn virðist hafa staðið í stað? Ég býst næstum við að sjá mömmu reka höfuðið úr eldhúsinu og tilkynna að hún ætli að henda í pönnukökur. En sú mynd af henni er fjörutíu ára gömul, og ég man ekki til þess að hún hafi nokkurn tíma gert pönnukökur.
Dóttir mín kíkir inn en hóstar og hristir höfuðið. Ég sé orðið nei leita fram á varirnar en hún kyngir því og horfir í staðinn hvasst á mig áður en hún gengur í átt að garðinum. Ég hafði ekki beinlínis útskýrt hvert við værum að fara. Sagði henni að við hefðum eignast sumarbústað sem við þyrftum að kanna, að hún kæmist ekki í sumarbúðirnar. Ég hef ekki talað mikið um mömmu við hana, hún lærði snemma að spyrja ekki þegar afi hennar var hjá okkur. Og ég man ekki hvernig það gerðist að hún hætti því alveg.
Ég byrja á því að þrífa. Sópa út í hvert horn. Bið köngulærnar afsökunar í huganum á meðan ég eyðilegg vefnaðinn þeirra. Hún úti í sólinni og les, hefur ekki enn farið úr dúnúlpunni. Ég vildi óska þess að hún myndi öskra á mig frekar en þessa afskiptalausu þögn.
Við borðum samlokur sem ég keypti handa okkur á bensínstöðinni í kvöldmat, erum of uppgefnar til að elda. Áður en við skríðum upp í rúm læsi ég glugganum. Við sofum í gamla hjónaherberginu. Svefnpokarnir virðast of stórir í rúminu. Hefur allt stækkað nema þessi staður? Þvottaefnislyktin úr nýþvegnum svefnpokunum tekur á móti okkur. Heimilið í borginni rennur saman við þennan stað sem ennþá tilheyrir fortíðinni. Í dýnunni eru dældir eftir líkama foreldra minna. Það er skrítið að leggjast í mót móður sinnar, og finna að það passar ekki lengur. Ég man næturnar sem ég skreið upp í til að finna öryggi í líkama hennar og lykt. Þá passaði ég á milli þeirra, eins og púsl í púsluspili.
Góða nótt, hvísla ég þó að ég búist ekki við svari.
Ég heyri á andardrættinum að hún er þegar sofnuð. Á vissan hátt dáist ég að seiglunni í henni, að tala ekki við móður sína. Hún minnir mig á sjálfa mig. Á mömmu mína. Herbergið verður loftlaust þegar líður á nóttina. Ég vakna hóstandi með gamalkunnugt bragð af sagi í hálsinum. Hún hefur hringað sig saman eins og kuðungur. Hiti streymir frá henni. Í huganum reyni ég að frysta þessa stund. Að fá að vera svona nálægt henni, svona lengi, hefur ekki gerst í óratíma.
Næturþögnin er rofin af mávagargi við útvegginn. Hljóðin ágerast og virðast skera sér leið inn að höfuðgaflinum á rúminu.
3.
Í bústaðnum kenndi mamma mér nöfn fuglanna af svo mikilli ástríðu að það var eins og hún vissi hvað myndi verða.
Hettumávur, þúfutittlingur, stari, brandugla.
Í fyrsta skiptið sem ég áttaði mig á því að ég væri að missa hana var ég sjö ára. Ég man það vegna þess að hárið var stuttklippt og framandi, eftir að ég flækti fjólublátt tyggigúmmí í því í afmælisveislu minni. Ég vaknaði um miðja nótt til að fara að pissa, og heyrði að einhver var í stofunni. Þar stóð mamma, kviknakin í vetrarrökkrinu. Birtan frá ljósastaurunum lýsti upp andlit hennar, ávöl brjóst og læri. Svaladyrnar stóðu galopnar og herbergið var jökulkalt. Hún virtist ekki finna fyrir kuldanum, talaði út í nóttina, en orðin skildi ég ekki. Hún tísti, sönglaði, kvakaði. Hélt höndunum upp fyrir höfuð svo brjóstin skoppuðu fram og aftur fyrir ofan mjúkan magann.
Heiðlóa, gráþröstur, álka, jaðrakan.
Ég hef reynt að gleyma nöfnum allra fugla. Ég veit að verkefnið er ómögulegt en ég reyni hvað ég get að grafa hvern þeirra djúpt ofan í óminninu. Ég lagði mig fram um að kenna dóttur minni um trjátegundir, iðandi skógarbotna og sveppi en aldrei um það sem flýgur. Fuglar hafa lítið þróast síðan á risaeðluöld. Þegar ég lærði þetta fannst mér þeir enn skelfilegri.
Að reyna að gleyma nöfnunum þeirra var tilraun til að afmá það sem ég sá þessa nótt, gleðina sem glampaði í augum hennar þegar hún talaði til þeirra. Óvænta brosið þegar hún virtist í örstund takast á loft, rétt áður en ég kveikti ljósið.
4.
Daginn eftir vöknum við seint. Sólin hefur risið upp úr sjónum, kannski er hádegi. Ég er ekki viss. Dóttir mín vill kúra lengur og leyfir mér að strjúka sér um hárið áður en hún leggst á hina hliðina. Ég ræðst á eldhúsið í uppþvottahönskum. Vatnið í fötunni verður brúnna eftir hverja umferð yfir gólfið. Ég skrúbba þar til loks sést í fötubotninn. Eldföstu mótin og pönnurnar eru á sama stað, og sápulögurinn skolar hirðuleysið burt. Ofninn virðist meira að segja virka, þó að ljósið kvikni ekki lengur. Ég smyr form fyrir lavenderköku. Þá sömu og hún bakaði alltaf. En þá tíndi hún lavender úr garðinum, ég keypti þurrkaðan, með einmitt þessa stund í huganum. Sár eftir þrifin á höndunum svíða þegar ég kreisti sítrónur í djúpa skál. Ilmurinn fyllir upp í gamla bústaðinn.
Umbreytir honum, um stund, í heimili.
5.
Daginn sem mamma hvarf var vatnið í blómavasanum á stofuborðinu brúnt. Hún hafði yndi af blómum. Fagurlitaðar samsetningar sem hún tíndi vandlega kynntu mig fyrir blæbrigðum lita, áferðar og lyktar. Blómvendirnir teygðu sig eftir sólinni. Þeir voru miðja heimilisins, eins og hún.
En þennan dag lágu hortensíur og orkídeur skrælnaðar á stofuborðinu.
Mánuðum saman hafði ég dregið hana niður á ökklunum. Fjörutíu og níu ára fang hennar rúmaði enn átta ára dóttur í græna hægindastólnum í stofunni. Ostruskel um perlu, hvíslaði hún stundum meðan ég plokkaði af henni fjaðrir. Nuddaði límið burt með vaselíni og volgu vatni. Á hverju kvöldi áður en ég fór að sofa fyllti ég skóna hennar, úlpu og buxnavasa af steinum í von um að halda henni á jörðinni.
Pastelbleikt umslag með lykt af gerviblómum lá við hlið vasans. Skriftin var óstöðug, ólík ákveðnum línum mömmu. Fyrir ári síðan hafði allt í fasi hennar skinið af öryggi. Hvernig hún klæddi sig í sterka liti, gekk ákveðnum skrefum eftir hellulögðum gangstéttum. Lófi hennar var heitur og hélt þétt utan um minn. En á þessu eina ári hafði mamma verið eins og fjall sem molnaði stöðugt úr, slóðin var kornóttur sandur sem ég sópaði burt til að fela ummerkin fyrir sjálfri mér.
Bréfið í umslaginu var þríbrotið. Pappírinn gulleitur og þykkur, vandaður.
Þar stóð: Ég er flogin, ástin mín (Á-ið var stærra en hinir stafirnir, ég-ið lítið, afsakandi). Skildu svaladyrnar eftir opnar svo ég megi heimsækja þig í birtingu.
Þín, (og ekkert)
Seinna finnst mér eins og þetta bréf hafi aldrei verið til. Eins og blómin hafi verið lifandi en ekki dáin. Hvarf hún þegar orðin brugðust henni eða var hún þá þegar farin?
Það er sagt að efni hverfi aldrei alveg heldur umbreytist. Meir að segja þegar við deyjum er óútskýrð þyngd sem lyftist af brjóstum okkar.
Fjaðurstafur og neglur eru úr sama efninu, sagði mamma mér einhvern tímann þegar hún kom enn með mér í göngutúra í fjörunni. Hún brosti í hvert sinn sem ég færði henni fjöður úr þessum ferðum. Eldhússkúffan geymdi þær í hundraðatali. Ég passa mig á því að klippa alltaf neglurnar við kviku svo fiður birtist aldrei.
Núna sé ég fyrir mér stofuna. Opna gluggann. Bréfið og fjaðrirnar sundurtættar frá stofuborði að svaladyrum. Enn þann dag í dag skil ég ekki hvað gerðist.
6.
Út um eldhúsgluggann sé ég að dóttir mín hleypur. Hún hefur verið í fimleikum síðan hún var barn, en ég veit að hún nýtur þess mest að hlaupa. Þannig hefur það alltaf verið, frá því hún lærði að ganga hefur hún hlaupið.
Fótatakið ferðast í hringi kringum bústaðinn. Hverfur um stund þegar fæturnir mæta grasinu og bankar aftur um leið og hún kemur upp á pallinn. Fyrst hægt, svo hraðar og hraðar. Síðan byrjar hún að öskra. Hljóðin virðast ekki geta átt upptök í svona fíngerðum líkama. Samt koma þau, vella upp úr henni, eins og hún hafi þurft að kæfa þau. Kraumandi kvika sem ryður öllu burt. Með hverjum hring umhverfis húsið virðast hljóðin renna saman. Ómurinn verður að suði.
Ég er fegin að fá að vera innan í hringnum. Hún veit af mér hér. Það freyðir í skítugu uppvasksvatni meðan ég hlusta og þríf leirtau, lampa, styttur og gömul hnífapör.
7.
Eftir að mamma hvarf sat ég tímunum saman við gluggann til að fylgjast með ferðum fugla. Beið þess að hún kæmi til baka. Ég lét svaladyrnar standa opnar í öllum veðrum pabba til mikillar armæðu. Leitaði uppi öll teikn um að hún myndi snúa við. En hún kom aldrei.
Við hættum að koma í bústaðinn og lengi vel var ég ekki viss um hvort minningarnar sem áttu sér stað hér hefðu verið uppspunnar eða sannar. Við töluðum aldrei um hann, eins og við töluðum aldrei um mömmu. Árin liðu og ég varð fullorðin, eignaðist mitt eigið hús og mitt eigið barn. Fann hvernig lífið gat teygt og togað, flætt yfir barma, þrýst undir iljar og brennt.
8.
Um leið og hún hættir að hlaupa verður þögnin framandi. Eins og þegar ísskápur hættir skyndilega að óma. Hvað hefur liðið langur tími? Ég klæði mig úr uppþvottahönskunum og stíg út fyrir. Tek fagnandi á móti kaldri sumargolu og vef peysunni þéttar að mér. Ég kem að henni sofandi á bak við hól í bjartri sóleyjabreiðu. Djúpgrænir stilkarnir mynda fíngerðan vefnað utan um höfuðið. Sóleyjar eru mitt uppáhalds blóm, hvernig þær taka á móti vindi án þess að brotna. Að fræ skuli spíra ofan í mold og vita í myrkrinu í hvaða átt birtuna er að finna þykir mér ótrúlegt. Ég sé fyrir mér þunnu, kræklóttu ræturnar, hvernig þær teygja sig dýpra og dýpra ofan í jörðina og breiði ullarpeysuna mína yfir sofandi stelpuna mína.
Þegar hún var nýfædd gat ég ekki elskað hana. Ég hélt um brjóstmylkinginn og fann ekkert nema sársauka í aumum geirvörtum og slitnum kviðvöðvum. Það var eitthvað að mér. Í heilt ár var ég mjólkandi brjóst og sært hjarta. Og loksins þegar hún var eins árs, og tungumálið að opnast fyrir henni, breyttist eitthvað. Ég fylgdist með líkamanum anda að sér málinu. Orð urðu saltkaramellur og sítrónumarens sem bráðnuðu í gráðuga munninum. Hún meðtók þau öll af áfergju, bragðaði á þeim, saug fast þannig að þau flæddu inn um bragðlauka og taugavefi.
Ég hóstaði sagi þegar ég vildi tjá ást mína til hennar. Líkaminn sýndi merkin en orðin voru strönduð skip í flæðarmáli. Ég brá á það ráð að leggja sóley undir kodda hennar á kvöldin í von um að hún skynjaði væntumþykjuna. Þannig elskaði ég hana lengi í hljóði þar til mér tókst loksins að segja það upphátt.
Mér er sagt að börn muni ekki þennan tíma, en ég fæ sting í hvert sinn sem ég hugsa um hann. Þá vona ég að sóleyjarilmur minni hana á móðurástina, sem var alltaf til staðar þó að ég hafi ekki verið það.
⁂
Mamma byrjaði að veikjast um mitt sumar. Við ætluðum alltaf að koma til baka. Að uppáhalds veiðihattur pabba skuli liggja kæruleysislega á stólbaki er til marks um það.
Þegar ég opna skúffurnar í kommóðunni flæða gamlar sængur, margþvegin föt og löngu gleymt barnadót upp úr þeim. Bækur með þvælda kili og óbrotnar síður. Mér finnst ég taka upp áhyggjur hennar og krumpaðan sjálfsefa undan ónotuðum hekluðum tuskum. Af hverju tímdum við aldrei að nota þær? Af hverju geymdum við þær ofan í kommóðu í öll þessi ár? Ég handleik hverja þeirra og man hvernig mamma heklaði ferning eftir ferning í kvöldrökkrinu. Ég sofnaði út frá hljóðinu í nálinni sem færði garn fram og aftur, eins og ár í báti.
Þegar rökkrið læðist inn um nýþvegnu gluggana hef ég búið til fjall í stofunni af löngu gleymdum hlutum. Dóttir mín kom inn þegar hún vaknaði og borðaði þögul kvöldmat með mér, áður en hún sofnaði aftur í rúminu okkar og ég dróst aftur að hlutunum.
Í hrúgunni eru ljósmyndir af ættingjum sem ég man ekki hverjir voru. Í neðstu skúffu finn ég óopnaðan pakka stílaðan á mig. Í kort er orðsending skrifuð af henni: Til hamingju með afmælið, elsku dóttir, megi gæfa og gleði fylgja þér alla tíð, þín mamma og pabbi. Það skrjáfar í gömlum, silfurlituðum pappír meðan ég tek slaufu í sundur og opna. Í honum er falleg postulínsstytta af heiðlóu. Hún situr á grein og syngur.
Ég finn velgjuna leita upp hálsinn en kyngi fast.
Gjöfin ljóstrar á undarlegan hátt upp um hverfulleika tímans: Að rykið sé örþunnt setlag á síbreytilegri kvikunni. Í smástund verð ég aftur barnið sem átti að fá þessa gjöf. Held aftur af tárunum. Ég er ekki tilbúin að fyrirgefa.
Inn í herberginu þar sem hún sefur umlykur blá kvöldbirta hana. Líkaminn andar, lyftist hægt og hnígur niður á þann hátt sem aðeins er hægt í svefni. Draumar flæða yfir andlitið í bylgjum. Augun hreyfast undir hálflokuðum augnlokum. Frá því hún fæddist hefur mér fundist hún fallegust í svefni.
9.
Mamma sagði mér að höfuðverkirnir væru fuglsungi, of stór í skurnina. Lyktin í dimmu herbergi þeirra var af jarðarberjaís sem hún skorðaði á milli höfuðs og handa til að kæla
þrúgandi verkina. Farið á koddanum var ljósbleikt og klístrað.
Öll þurfum við að þjást til að skynja þjáningu annarra, sagði hún stundum eins og til að afsaka verkina. Oftar þegar nær dró hvarfinu. Ég stóð í dyragættinni og horfði á hana undir sænginni í mykrinu og óskaði þess að sársaukinn gæti flætt burt eins og vatn, að hann myndi umbreytast í þennan sæta vökva sem lak niður í lakið. Verða að þessum ís, að rjóma, sykri, eggi, ljósbleiku litarefni.
Þaðan sem ég stóð fannst mér eins og unginn væri að horfa á mig úr herberginu. Augnaráðið ógnandi og biðjandi í senn. Ég hallaði dyrunum.
⁂
Læknirinn hikaði þegar hann sá að ég var með föður mínum á biðstofunni. En pabbi kinkaði kolli til hans og tók við blaðinu, við því sem mér fannst vera landakort af huga hennar. Svart blek á beinhvítum, þunnum pappír. Ofnæmi fyrir sársauka heimsins, heyrði ég hann segja, eða var það ónæmi? Ódýra blaðið í hrjúfum höndum pabba geymdi ljósmynd af heilahvelum hennar. Ég vissi það og mig langaði að fá að sjá hvar höfin voru og löndin sem gutluðu um inni í höfuðkúpunni. Þeir fóru afsíðis og ég sat eftir. Fæturnir náðu ekki niður að gólfi og ég starði á reimuðu skóna mína en leit svo í átt til þeirra. Ég sá pabba stinga blaðinu í vasann, andlitið fölt og sorgmætt. Við fórum til hennar í sjúkrarúmið. Hún sat og borðaði banana, rúmið á einkennilegan hátt of stórt fyrir hana.
10.
Nóttin á eyjunni er ólík öllu öðru sem ég hef upplifað. Myrkrið er algjört. Ljósastaurar, götustræti, næturumferð svo óralangt í burtu. Skilin á milli sjávar og himins, fjalla og túna mást út um leið og sólin sest. Í kvöld er tunglið meira að segja horfið. Birtan er engin utan kertalogans sem flöktir á litla eldhúsborðinu. Endurspeglun glampar í glugganum, og þaðan sem ég sit er eins og logarnir séu tveir að dansa hvor við annan. Ég heyri í dóttur minni sofa. Hroturnar hljóðar en ég greini þær vel. Heyrnin margfaldast þegar augun hafa ekkert hlutverk lengur.
Þrýstingurinn sem ég hef fundið fyrir undir iljunum undanfarna mánuði hefur slaknað. Ég tek fyrst eftir því núna. Tilfinningin hefur verið eins og heitu lofti væri blásið undir fæturna. Á meðan eru hendur mínar enn rauðþrútnar brunarústir. Ekki út af eldi, heldur einhverju innvortis, hafði læknir útskýrt.
Við vitum ekki alveg hvað þetta er, sagði hann, en algengt hjá konum á þínum aldri.
Og þar með upplýsti hann um svartholið í læknisfræðinni þegar kemur að kvenlíkamanum. Mér hefur í senn fundist ég vera að brenna upp og svífa. Mamma sagði mér að nornir væru mæður sem losnuðu af jörðinni. Í örvæntingu sinni toguðu börn þeirra þær niður á ökklunum, settu grjót í svuntur þeirra. Í kvöld rifjast þetta upp fyrir mér. Var hún að tala um sig?
Ég er á sama aldri og ég man hana síðast.
Ég blæs á logann og í einni hendingu er eins og slökkt hafi verið á heiminum. Þreifa mig áfram eftir veggjunum í átt að hrotunum og hjúfra mig upp að heitum líkama dóttur minnar.
Mig dreymir baðherbergisvaskinn af æskuheimili mínu. Hann er umvafinn daufbleikum flísum. Það fossar úr krananum og höfði mínu er rykkt ofan í vatnið. Með augun opin ofan í vatninu sé ég blóðtaum hjúpa æðarunga. Fuglarnir mynda skjaldborg um hann og syrgjandi móðurina. Í örstund sé ég mömmu minni bregða fyrir í augum hennar. Og spyr mig hvort ég sé þá unginn.
Ég ríf mig úr draumnum og gríp andann á lofti. Í myrkrinu skiptir ekki máli hvort ég opna eða loka augunum. Landamæri á milli draums og minninga skolast saman. En hún liggur enn þá sofandi við hliðina á mér. Hún hefur varla gert annað en að borða og sofa, nema þegar hún hljóp. Ég heyri þegar rigning skellur fyrirvaralaust á bústaðnum. Fellur eins og þungt leiktjald á tómt svið. Það rignir eins og hellt sé úr gríðarstórri fötu ofan á þakið. Ég finn tárin koma, ár myndast niður kinnar, háls og brjóst. Loksins. Salt situr á vörum mínum, en ég get ekki hætt að gráta.
Þegar ekkert er eftir er ekkert eftir. En undir rifbeinunum hefur myndast óvænt pláss. Á stað sem ég vissi ekki að væri ennþá til.
Augnlokin, þung af þreytu, lokast.
⁂
Hún vekur mig. Og það fyrsta sem ég tek eftir er að hún er að hún brosir. Ég teygi mig í vatnsglasið sem hefur staðið nóttina á náttborðinu. Nudda á mér augun, þau eru þurr og mig verkjar af þorsta.
Andlit hennar er eins og nýtt.
Vá, hvað ég var þreytt mamma.
Velkomin aftur, segi ég.
Hún leyfir mér að halda um sig. Segir mér frá skólanum, og spyr mig um þennan stað. Spyr mig um mömmu mína, og af hverju við höfum aldrei komið hingað áður. Hún er mjúk, eins og sængin sem enn hjúpar okkur. Við tölum saman þar til við finnum að við erum að farast úr hungri. Ilmurinn af hári hennar er blandinn mold og nótt.
11.
Dagurinn líður. Á eyjunni erum við eins og bráðið smjör. Í einni eldhússkúffunni hafði ég fundið fræ. Garðurinn hennar var þarna falinn, merktur í litlum pokum með fíngerðri rithönd.
Þaðan sem við sitjum ofan í óræktinni og rífum upp arfa sjáum við að jörðin undir okkur er dimmbrún og næringarmikil. Hún er í bleiku dúnúlpunni með bera fætur á kafi í moldinni að rífa upp illgresi. Hún er sterk og ég dáist að því hvernig hún gengur til verka. Ég fer að hugsa um eitthvað sem mamma sagði þegar hún var í garðinum, að manneskjan væri bara þunn slikja, amaba sem ferðast á milli fortíðar og nútíðar, sársauka og undrunar, og er þess vegna aldrei alveg á staðnum. Og þegar ég segi það upphátt hlær hún bara, og segir:
En það var hún, ekki við. Nú erum við bara hér, mamma.
12.
Bátsmaðurinn kemur að sækja okkur í dag. Davíð. Vikan hefur liðið og við erum hérna enn. Bústaðurinn hefur eignað sér okkur að nýju og við hann. Köngulærnar hafa enn gætur á okkur en þær spinna ekki vefina af eins mikilli áfergju.
Ég hef skráð alla fugla sem hafa heimsótt okkur á eyjuna. En mamma hefur aðeins birst í nokkrum þeirra.
Í gær var hún grágæs. Flaug ein síns liðs og lenti hranalega í garðinum. Vænghafið dimmur skuggi. Hún þvaðraði á meðan hún át villt jarðarber upp til agna og starði á húsið eins og við værum bílar á vegi hennar við Tjörnina. Við heyrðum þegar flokkurinn kallaði hana aftur í oddaflugið. Hún svaraði hásri röddu og elti.
Í morgun var hún aftur mávur, eins og fyrstu nóttina okkar hér, og lamdi á bústaðinn. Hljómurinn ærandi. Hún skildi eftir djúpar dældir í viðnum. Ég stjakaði henni burt með sóp og bað hana um að koma ekki aftur.
Um hádegi, þegar hljóðin í mótor bátsins rjúfa værðina sem við erum orðnar vanar, lendir hún mjúklega á pallinum. Heiðlóa. Hvít rönd liggur á milli svartra fjaðra og gulflekkóttra á bakinu. Augun, svartar, glóandi tjarnir, stara beint í mín.
Og ég horfi til baka í hennar.