Tíðasöngur

Steinunn G. Helgadóttir

Raddirnar komu nú nær, þær hækkuðu og jafnframt var einhverjum áhöldum slegið saman þar til hávaðinn varð ærandi. Á hæðinni vestan við klaustrið var hópur af æstum bændum. Og þeir voru með upprúllaðan hampkaðal sem þeir veifuðu ótt og títt.
 Sækið syndarann! hrópaði einhver. Hræsnarann sem tælir saklausar dætur okkar og barnar þær. Hengjum hann!
 Ég þekkti röddina. Þetta var faðir hennar Aifric, tilvonandi afi barnsins míns og ég var fljótur að átta mig.
 Hér skilja leiðir Tadhg! hrópaði ég yfir hávaðann og faðmaði hann. Þú ert góður drengur, besti myndskreytirinn í landinu, og ég er stoltur af þér!
 Svo þerraði ég lítið tár áður en ég greip með mér kálfskinnsrúllu og litla skinnpoka með rauðu bjölludufti, saffrani og fagurbláum möluðum lapis lazuli og kastaði yfir mig brúnu ullarkápunni um leið og ég læddist út um bakdyrnar.
 En Tadhg elti. Hann hljóp af stað með marglitaða beltið sitt í hendinni og þar sem hann var frár á fæti náði hann mér strax.
 Þegar við komum æðandi niður að ánni var báturinn hans Cathals að leggja frá. Skipverjar voru undrandi þegar þeir urðu varir við hamaganginn og dokuðu við á meðan við stukkum um borð, en svo ýttu Flann og Brjánn strax frá landi og otuðu mjóum árunum að þeim sem reyndu að ná til okkar.
 Ég horfði aftur fyrir mig og naut þess að sjá klaustrið, hráan sívaxandi plágukirkjugarðinn og hópinn sem steytti hnefana og sveiflaði kaðlinum á árbakkanum fjarlægjast. Seglið var niðri og enginn réri, en það kom ekki að sök því straumurinn bar okkur í burtu. Brjánn brosti svo að skein í stórar hvítar tennur sem ég hafði aldrei séð áður og rétti okkur brauð og öl, en Cathal spurði einskis þó hann gæti ekki leynt því hvað hann var kátur að fá okkur með um borð.
 Velkomnir kæru bræður, sagði hann og faðmaði okkur. Herran hefur fært ykkur til mín og nú siglum við til Suðureyja Deo gratias.
 Amen, sögðu Flann og Brjánn.
 Og Amen, sögðum við Tadhg þó ég efaðist um að æðri máttarvöld ættu einhvern þátt í þessum látum, en ferðaáætlunin hentaði mér prýðilega og ég ákvað strax að láta mig hverfa þarna á Suðureyjum. Búa þar með munkum eða piktum og jafnvel höggva grjót.
 Þegar Cathal hafði hringt litlu ferköntuðu járnbjöllunni og valið viðeigandi sálm sigldum við syngjandi niður þennan kunnuglega þjóðveg, framhjá fyrstu hóffíflunum sem gægðust upp úr grasinu á árbakkanum og hópum af svörtum nautgripum og mórauðu sauðfé sem var á var beit í vorsólinni. Það eina sem skipti máli var að straumurinn sem gældi kumpánlega við húðirnar sendi okkur í burtu.
 Eða áfram.
 Og þó jafnvel mig grunaði að þessar gælur væru bara byrjunin, að þær ættu eftir að breytast í högg, þá lagðist ferðalagið vel í mig. Ég leyfði mér að að slaka á í augnablik, lagðist niður í bátinn og horfði upp í himininn þar sem örn sveif tignarlega yfir og fylgdi okkur áleiðis. Hugsunin um Aifric leitaði á mig en ég ýtti henni strax frá mér. Það var ekkert sem ég gat gert, hugsaði ég og þetta var alveg jafn mikið henni að kenna. Kannski meira.

Flann og Brjánn voru vanir siglingum og Cathal kunni ýmislegt fyrir sér líka þó hann væri farinn að eldast, en það kom strax í ljós að við Tadhg höfðum ekki reynslu af sjómennsku. Enginn lét okkur þó gjalda þess.
 Hinar helgu eyjar Barinthusar og Brendans bíða okkar þarna úti, sagði Cathal ánægður og kipraði augun í áttina að sjóndeildarhringnum um leið og hann stakk upp í sig síðustu bitunum af blóðpylsunni og lauknum og þurrkaði fingurna með grófu brauðinu.
Og nú munum við einnig skrásetja okkar ferðir og myndskreyta dýrlega, því Drottin færði mér ykkur svo þið gætuð lýst furðunum sem bíða okkar þegar orð duga ekki lengur yfir það sem augað sér.
 Cathal fékk sér sopa af ölinu, ropaði og brosti föðurlega til okkar Tadhgs.
 Eyjar eru svo forvitnilegar, sagði Tadhg og horfði feiminn niður á tærnar á sér, en hann var greinilega ánægður með þessa lýsingu á okkar hlutverki.

Þegar víkingarnir komu og brenndu bæinn og klaustrið í Wicklow byrjaði bróðir Cathal að tala um siglingar heilags Brendans. Þráhyggja hans fyrir þessum ferðalögum birtist í endurtekningarsömu og ruglingslegu sagnastagli og ræðuhöldum í glundroðanum sem ríkti í klaustrinu þessar hræðilegu vikur þegar vindurinn bar óþefinn af brunarústum og sviðnu holdi alla leið til okkar.
 Sjálfsagt hefur Cathal alltaf haft áhuga á þessum ferðum Brendans og líklega greip hann bara tækifærið um leið og kvíðinn flæddi um klaustrið, frá bræðrunum í ysta hringnum sem sáu um kornræktina og búfénaðinn og alla leið inn í hjartað, turninn sem reis upp úr miðri þyrpingunni eins og áminning. Tímasetningin var fullkomin á þessum dögum óttans þegar skelfingarópin bárust eins og keðjusöngur upp eftir ánni ef framandi skip sást við sjóndeildarhringinn.
 Víkingarnir koma! ómaði úr öllum áttum og hringjari klaustursins, sem átti eftir að deyja úr hóstanum síðar um veturinn, sveflaðist í strengnum með kuflinn á lofti en við hinir flúðum í skelfingu upp í turninn með handritin og allar gersemar sem við gátum borið áður en við drógum upp stigann á eftir okkur. Fyrir mína parta varð þetta næstum hversdagslegt, og ég var orðinn leiður á þessum endurteknu truflunum og hamagangi þó aldrei þyrði ég að verða eftir niðri í skrifsalnum. Mér fannst skiljanlegt að víkingarnir væru sólgnir í dýrgripina sem klaustrin geymdu en sárnaði um leið hvernig þessir ribbaldar spilltu daglegri iðju og glaðværð klausturlífsins.
 Nú hvíldi drungaleg ró yfir héraðinu, fólk ferðaðist sjaldnar og það var ekki eins gestkvæmt því þeim fækkaði sem heimsóttu okkur í leit að hvíld frá heiminum, matarögn, yfirbót og bænum eða hugljómun.
 Reyndar gat ég aldrei ímyndað mér að svona lagað gæti komið fyrir okkur, svona hryllingur gerðist annarstaðar en það leyndi sér ekki að eftirlæti ábótans, bróðir Cathal, var á öðru máli og hann lýsti því yfir að ekki væri spurning um hvort, heldur hvenær útlendingarnir kæmu til okkar.
 Og á sjálfri föstunni, þegar við minntumst dauða frelsarans, klifraði karlinn upp á lága pallinn í matsal klausturbyggingarinnar eftir aftansönginn og boðaði bræðrunum ægileg endalok í bland við hetjulegar ferðasögur úr fortíðinni á meðan þeir tvístigu órólegir í kringum hann.
 Hvar ætlið þið að fela ykkur þegar víkingar koma hingað, brenna kirkjuna og klaustrið og myrða alla sem þeir ekki geta nýtt sem þræla!? spurði hann og hvessti á þá augun. Ætlið þið að bíða hér eins og geldfé með óttann að stöðugum fylgisveini? Ætlið þið að liggja andvaka í sellunum og svipast um eftir skuggum sem hugsanlega skríða eftir veggjunum, sperrandi eyrun við minnsta gelt, minnsta marr? Ég segi ykkur að við þurfum ekki að hafa þetta svona, við getum farið! Við getum siglt í burtu eins og bræðurnir sem fóru áður, þeir sem jafnvel gerðust einsetumenn í Guði þó ekkert ógnaði þeim.
 Eins og Barinthus sem heimsótti ábótann Brendan og sagði honum frá klaustrinu í Mernócs, þar sem bræðurnir lifðu saman í auðmýkt og einni trú og hlupu fagnandi á móti honum eins og býflugnasvermur hver úr sinni sellu þegar hann heimsótti þá.
 Eins og heilagur Brendan sem sigldi þar til hann fann fyrirheitna landið, land dýrlinganna og hélt alltaf áfram að sigla þar til Drottinn kallaði hann til sín, níræðan!
 Rödd Cathals var alltaf mjó og þunn og hljóðvistin í salnum gerði ekkert fyrir hana, en smám saman kviknaði samt eitthvað í augum bræðranna og ég var farinn að velta fyrir mér hvort áhugi þeirra væri kannski ekki uppgerð. Voru þeir virkilega svona hræddir við útlendingana eða áttu þeir þessa trú, þessa fullvissu sem ég hafði aldrei fundið?
 Ef við bíðum hér munum við allir farast! hrópaði Cathal og engin þorði að segja neitt á meðan reipið sem hann hafði hnýtt um snjáðan kirtilinn losnaði í æsingnum, rann neðar með hverri setningu og endaði að lokum undir vömbinni og ofan á rasskinnunum. Sjálfur tók hann ekki eftir þessu, geiflaði bara víðan munninn og svipbrigðin liðu eins og skýafar yfir andlitið á meðan munnvatnsdropar lentu á þeim sem stóðu fremstir.
 Þeim var nær, hugsaði ég og forðaði mér.
Lágu þeir kannski í myrkrinu á stráfletunum, andvaka og óttaslegnir eftir ræðuhöldin, klórandi sér undan iðandi óværunni? Var það bara ég sem hló hæðnislega í huganum? Ég sem gat leyft mér það því þegar, og ef, víkingarnir kæmu yrði ég farinn. Mér leiddist klausturlífið og var að undirbúa ferðalag þangað sem meira var að gerast. Ég ætlaði að fara með pílagrímum og skoða veröldina, þessa áþreifanlegu, því þrátt fyrir kuflinn trúði ég fáu.
 Þetta með trúleysið var almennt vitað en ábótinn og hinir munkarnir umbáru mig því ég var besti myndskreytir sem völ var á, eftir að forveri minn og kennari Fionn lést fyrir tíu árum. Ég var sex ára þegar hann fór með mig í klaustrið þar sem hann menntaði mig í listinni og seinna fékk ég svo minn eigin lærling, Tagh sem kom til mín sjö ára gamall, fínlegur og smávaxinn og minnti helst á lítinn prins þar sem hann stóð einn á steingólfinu með aleiguna, allt of stórt, litríkt belti hnýtt um mjótt mittið. Okkur kom strax vel saman og fljótlega vissi ég að hann yrði sá allra færasti í greininni. Þannig komu örlögin mér fyrir á milli tveggja stærstu myndskreytanna í sögu klaustursins, en ég hef aldrei tekið það nærri mér því ég er góður, nógu góður, einn af þeim bestu og myndlýsingarnar í handritunum okkar eru víðfrægar.
 Auðvitað var ég líka þægur, lét mig hafa að taka þátt í bænahaldi og tíðasöng sjö sinnum á sólarhring og þó hinir bræðurnir segðu mig hrokafullan var mér sama.

Með tímanum efldist Cathal allur í ræðuhöldunum, hann varð að lokum óstöðvandi og talaði nú yfir bræðrunum tvisvar á dag.
 Hann var líka kominn með kerfi í þetta, því hann byrjaði alltaf á að hræða munkana með voðalegum frásögnum af grimmd víkinganna, frásögnum sem hann fygldi eftir með bulli um ævintýralegar ferðir og ævi ábótans Brendans og andagiftin var svo mikil að jafnvel ég hreifst með óðamála röddinni sem leitaði alla leið að skrifpúltinu mínu. Ég gat ekki annað en hlustað.
 … og Barinthus sagði Brendan frá gjörningaþokunni sem umlukti skipið, svo þykk að bræðurnir sáu ekki hvor annan, því hvergi er myrkrið svartara en einmitt á milli okkar og fyrirheitna landsins. Cathal hóstaði svolítið áður en hann hélt áfram. Um leið og þeir brutust út úr sortanum og inn í birtuna, fóru þeir úr einni tilveru í aðra og við þeim blöstu endalaus frjósöm engi þung af gróðri og ávöxtum, því á þessum stað eru allar jurtir í eilífum blóma og árstíðirnar sem við þolum vegna erfðasyndarinnar eru ekki þar. Á miðri eyjunni fundu bræðurnir líka fljótið helga sem rennur frá austri til vesturs og fleygar hana, en yfir það hefur enginn maður nokkurn tíma komist.
 Cathal þagnaði og þó ég væri ekki þarna fann ég alla leið inn til mín hvernig bræðurnir sperrtu eyrun. Við höfðum allir heyrt þessar sögur áður, en Cathal má eiga það að hann bætir alltaf einhverju við, breytir aðeins, bætir í og segir aldrei alveg sömu söguna tvisvar.
 Eftir stutta en áhrifamikla þögn hélt hann áfram. Þegar Brendan heyrði frásögn Barinthusar ákvað hann og að sigla sjálfur og skoða þessi undur og þegar hann sagði bræðrunum þetta vildu allir fylgja honum, því ábótinn var verndari þeirra og foringi og þeir treystu honum. Að lokum valdi Brendan fjórtán munka til fararinnar en vonbrigði þeirra sem eftir sátu voru mikil og sár.
 Cathal þagnaði aftur. Þó hann væri ekki ábóti vildi hann líklega fullvissa sig um að samlíkingin kæmist til skila og ég gat ekki stillt mig um að læðast fram og kíkja á karlinn þar sem hann horfði föðurlega yfir rytjulegan áheyrendahópinn. Undir brúnum skikkjunum voru allir magrir, flestir aldraðir og nokkrir bæklaðir eða lasnir, en allir hlustuðu af athygli.
 Þess vegna vinir mínir og bræður, sagði Cathal, þess vegna ætla ég ekki að bíða hér eftir þessum afkvæmum Lúsifers. Sjálfur mun ég fara að dæmi Brendans og sigla ásamt þeim sem vilja fylgja mér, en því miður geta þeir þó ekki orðið fleiri en fjórtán.
 Þögn.
 Bræðurnir voru greinilega að meta líkurnar. Ég var ekki sá eini sem átti bágt með að trúa að þessir ræningjar gætu brotist inn í rammgerða turninn okkar og allir litu undan, allir nema tveir af bændamunkunum, bræðurnir Flann og Brjánn bróðir hans sem alltaf héngu í kuflfaldi Cathals.
 Við förum með þér, sagði Flann sem hafði orð fyrir þeim. Ég og Brjánn.
 En, mæla klausturreglurnar ekki gegn því að við yfirgefum staðinn? tautaði ég úr fylgsni mínu við dyrnar en ég hefði alveg eins getað hrópað þetta í hvellu hljóðrýminu innan klausturveggjanna.
 Allra augu hvörfluðu til mín og þegar Cathal gerði sig líklegan til að svara forðaði ég mér aftur upp í skrifsalinn. Í örygginu við púltið blandaði ég í ostruskel verdigris við grænan leir og eggjahvítur þar til ég náði litarrafti vængjaða púkans sem flaug hlægjandi niður í víti með örvæntingarfullan bláhvítan og nakinn syndara í klónum.
 Lyfta penslinum, aldrei snerta húðina með fingrunum. Það var gott að gleyma sér, ofbeldinu, Cathal og sögunum af Barinthusi og Brendan, svo ég einbeitti mér að mínum eigin orðaforða, fínlegu línunum og fjársjóði litanna sem lifnaði á björtu skinninu og þegar ég loks lygndi aftur augunum, lagði frá mér pensilinn og lét fingurgóm svífa yfir sveigðar brúnir síðunnar fann ég að húðin var af hálsinum.

Loksins fékk Cathal leyfi frá ábótanum til að sigla ásamt fjórtán bræðrum og hann fór rakleiðis til smiðsins þar sem hann pantaði þrjá þrjátíu og sex feta báta.
 Sá brást fljótt og vel við og til hægðarauka reisti hann, með aðstoð munkanna, stóra skemmu á árbakkanum norðan megin við klaustrið þar sem hann gat athafnað sig ásamt þeim aðstoðarmönnum sem hann taldi sig þurfa.
 Þetta voru mikil umsvif. Askur úr héraðinu og sérvalin eik af norðurhlið trjástofnsins var sótt í mastrið og grindina auk mikils magns af mjóum hrosshúðarlengjum, fitu og vaxi til að bera á samskeyti.
 Tvöhundruð nautshúðir voru líka sendar að sunnan, óskemmdar af flugnabiti og öðrum meinum og þær voru lagðar í eikarbörk í tólf mánuði, baðaðar heitri ullarfitu.
 Ekkert bólaði á útlendingunum voðalegu, en óþefurinn frá skemmunni lá eins og fordæming yfir klaustrinu.

Ég var þó ósnortinn af öllu þessu tilstandi enda upptekinn við annað.  Aifric var dóttir bónda sem bjó rétt utan við klaustrið. Hún var svo ljós að það var næstum yfirnáttúrlegt og eiginlega var ég saklaus af því sem gerðist. Það var hún sem tældi mig, bara með því að vera nálægt mér. Með því að ilma öðru vísi en allt sem ég hafði fundið áður og ég varð að vera hjá henni.
 Helst alltaf.
 Hittu mig hjá korngeymslunni niðri við ána eftir sólsetur, bað ég.
 Þú ert enginn munkur, sagði Aifric og hló stríðnislega. Þú ert syndugri en nokkur maður sem ég hef kynnst.
 Ég viðurkenndi það og við héldum áfram að hittast í laumi. Bara einu sinni enn, hugsaði ég alltaf, en ég var ekki fyrr kominn heim en mig langði til hennar aftur. Hvernig átti ég líka að standast hana? Aifric var að springa úr lífsgleði og hún var svo dásamlega ólík hljóðlátu bræðrunum heima í klaustrinu þar sem Cathal var sá eini sem hækkaði röddina.
 Mér var þó aldrei alveg rótt þegar ég var með Aifric, sem virtist ekki óttast neitt, ekki einu sinni Guð. Hún var verri en ég.
 Ég trúi ekki svona bulli, sagði hún.
 Þeir sem tala svona skipta um skoðun ef þeir verða hræddir, sagði ég. Til dæmis ef víkingarnir koma.
 Allir trúa á Guð þegar víkingarnir koma, svaraði hún hæðnislega.
 Sá eini sem mér stóð virkilega stuggur af var drykkfelldur faðir hennar þó stórvöxnu bræðurnir gætu líka verið hættulegir því þeir voru fljótir að reiðast.
 En mér var alltaf sama þó Liam, vonbiðill Aifric af næsta bæ, fylgdist með okkur. Hann grunaði áreiðanlega ýmislegt og augnaráðið sem hann sendi mér var ekki fallegt en Liam var ekki hættulegur, hann var bara sorgmæddur og hann var hræddur við mig eins og alla sem voru stærri en hann.

Það sýndi sig að þrátt fyrir ræðuhöld og litríkar ferðalýsingar voru það bara þeir Flann og Brjánn sem höfðu áhuga á að taka þátt í þessari siglingu Cathals og ábótinn ákvað að einn bátur yrði að nægja.
 Cathal gafst þó ekki upp og hélt áfram að reyna að kveikja áhuga hinna bræðranna með ferðasögum. Það eru dýrgripir þarna úti, sagði hann. Gersemar. Og á einni eyjunni tók stór hundur tók á móti þeim Brendan og bauð bræðrunum inn í stóran sal þar sem borðin svignuðu undan kræsingunum, eldsteiktri villbráð, lambi, kökum og drykkjum þó engin manneskja væri sjáanleg.
 Sísvangir munkarnir sperrtu eyrun.
 En eftir að þeir höfðu borðað nægju sína kom Satan þar að og freistaði yngsta bróðursins og fékk hann til að stela. Og þó Brendan og bræðrunum tækist að lokum með heitri ást og viðurkenndum kristilegum aðferðum að reka djöfulinn úr syndaranum, þá var Lúsifer svo rammur að yngsti bróðirinn lét lífið í átökunum. Til allrar hamingju náði hann þó að lofa Guð og fá fyrirgefningu fyrir síðasta andvarpið og Brendan lét jarða hann á staðnum áður en þeir sigldu burt.
 Nokkrir munkanna, sérstaklega þeir yngri, voru nú farnir að mjaka sér hljóðlega í áttina að dyrunum og Cathal hækkaði röddina.
 Hún var líka undursamleg páskaveislan sem þeim Brendan var boðið til hjá mállausu munkunum í St. Ailban.
 Þögn og nú beygði Cathal höfuðið og lækkaði aftur röddina, það var eins og hann ætlaði að segja þeim leyndarmál og áheyrendurnir námu staðar.
 Í St. Ailban er málum nefnilega þannig háttað að þar eru haldnar dýrlegustu páskaveislur sem um getur. Þrír hópar munka búa þarna, hver á sínu fjalli, hinir elstu vestast, þeir sem eru miðaldra í miðjunni og yngstu bræðurnir austast. Enginn þeirrra mælir nokkurn tíma orð, en öll tjáskipti fara fram með sálmasöng og kórarnir syngjast guðlega á yfir dalverpin. Þarna hafa munkarnir líka náð þvílíkri fullkomnun í tilbeiðslunni að þeir eldast ekki.
 En þrátt fyrir þetta lýsti enginn áhuga á að slást í för með Cathal þegar hann þagnaði og matsalurinn tæmdist á örskotsstund.

Ferðafélagarnir ákváðu að fara að dæmi Brendans og fasta tvisvar í fjörutíu daga með þriggja daga millibili og varð andrúmsloftið í klaustrinu leiðinlegt á meðan, enginn sagði sögur og það vantaði eitthvað í tíðasönginn. Ég reyndi að heimsækja Aifric en ábótinn varð var við það og tók alveg fyrir að ég yfirgæfi klaustrið svo ég sökkti mér í myndskreytingarnar.
 Dagarnir voru stuttir og kaldir og fátt til skemmtunar. Þegar ég kvartaði undan þessu eftir fyrstu fjörutíudaga föstuna, áminnti Cathal mig.
 Aðrir hafa fórnað meiru, sagði hann strangur, allar götur frá Jóhannesi skírara, okkar fyrsta bróður. Og þarf ég að minna þig á að þegar Brendan heimsótti einsetumanninn Pál, bjó dýrlingurinn einn á ókleifum kletti i miðju úthafinu, aðeins klæddur sínu síða hári sem hann sveipaði um líkamann, en otur færði honum næringu?
 Ég nennti ekki að ræða þetta frekar og það var léttir þegar síðari föstunni lauk og þeir félagar fóru til St. Edna til að fá blessum ábótans þar fyrir ferðalagið.

Um leið og ég gat hljóp ég til Aifric sem var glöð að sjá mig aftur og dró mig strax að korngeymslunni. Eftir fyrstu fagnaðarfundina sá ég þó að eitthvað var breytt og gekk á hana. Elskarðu mig ekki lengur? spurði ég stríðnislega og dró í reimina í bolnum hennar.
 En hún hló ekki.
 Ég er ófrísk, sagði hún.
 Ský dró fyrir kalda marssólina og ég átti erfitt með að hugsa rökrétt.
 Ertu viss? stamaði ég.
 Auðvitað er ég viss, svaraði hún.
 Þetta er hræðilegt. Þú verður að gera eitthvað í þessu.
 Ég? Aifric var reið, óþarflega reið fannst mér, eiginlega ógnvekjandi.
 Ja, þú veist að mín staða er vonlaus. Ég er munkur. Ef þetta fréttist er ég búinn að vera.
 Hún sýndi þessu engan skilning og sagði ekkert, starði bara fyrirlitlega á mig, sem horfði á alla mína drauma hverfa. Ábótinn var ekkert lamb að leika sér við, hann myndi ekki styrkja mig til pílagrímsferðar þegar þetta fréttist og sennilega reka mig úr klaustrinu. Það eina sem ég kunni var að myndskreyta. Ég var ekki bóndi, ekki veiðimaður, ekki handverksmaður. Ég færi á vergang.
 Allt í einu laust hugmynd niður í höfuðið á mér, og þó hún væri óguðleg bar ég hana undir Aifric.
 Liam! Hann vill þig. Þú gætir láti undan honum. Bara einu sinni. Þá mætti kannski telja honum trú um að hann eigi barnið og við gætum jafnvel haldið áfram að hittast.
 Aifric hljóp í burtu án þess að kveðja og síðan hefur ekkert verið eins.

Loksins var farið að vora, dagarnir urðu lengri og í sal Computusbræðranna, þar sem almanakið er skráð, var löngu vitað hvenær fyrsta sunnudag eftir fullt tungl að liðnum vorjafndægrum bæri upp. Klaustrið iðaði af undirbúningi fyrir páskana, þessa stærstu hátíð hins kristna heims og andrúmsloftið var gott.
 Sjálfur tók ég lítinn þátt í þessu en hélt mig til hlés eins og venjulega, reyndi að gleyma Aifric og umgekkst næstum bara Tadhg, sem nú var orðinn fjórtán ára og alltaf jafn fagur. Hann var byrjaður að spila á lýru og eins og allt annað sem hann gerði þá hljómaði það dásamlega, það spillti heldur ekki fyrir að hann leit út eins og engill. Þetta með útlitið hafði reyndar stundum verið varasamt á svona stað og þegar drengurinn kom til mín og sagði að tveir af eldri munkunum væru að snerta sig ákvað ég að láta Tadhg sofa inni hjá mér.
 Stóri dagurinn hans Cathals rann loksins upp og fagurskapaður báturinn skoppaði eins fjörug ílöng heslihneta við litlu bryggjunna í ánni. Allir sem vettlingi gátu valdið fóru úr klaustrinu til að kveðja þá félaga, sem höfðu byrgt sig vel upp af öli, höfrum, hænsnum, þurrkuðu kjöti og korni. Sumir sögðu að meiri matur væri í bátkrílinu en klaustrinu öllu, í litlum leðurskjatta voru líka geymd eldfæri og kol og undir gömlu skinni voru net, lítil öxi, leðurreimar, aukahúð og feiti til að bera á húðir skipsins og samskeyti og seglið.
 Djásnið um borð var þó fagurlega skreyttur kistill með Gamla testamentinu, tíðabjöllu, vígðu vatni, grískum fjögurra arma trékrossi, kertum, messuvíni í krukku sem var vafin inn í kaðal og hvítt hveiti í obláturnar. Á bak við kistilinn með skarlatsrauðu blóði frelsarans og snjóhvítt verðandi holdið var svo akkerissteininn geymdur undir öftustu þóftinni.
 Þar sem þetta uppátæki Cathals hafði aldrei heillað mig ákvað ég að verða eftir í skrifsalnum og Tadhg varð eftir hjá mér. Okkur vannst vel í notalegri þögninni sem ríkti eftir að klaustrið tæmdist og mér hitnaði um hjartað þegar ég horfði niður á lærlinginn og við mér blasti rakaði þríhyrninginn efst á höfðinu og síða hárið sem var snyrtilega bundið í tagl við hnakkann.
 Fyrir framan hann á púltinu var teikning af boðun Maríu og ég sá að engillinn líktist Tadhg sjálfum. Gamli meistarinn minn sagði einu sinni að við værum alltaf að gera eftirmyndir af okkur sjálfum, en að mikilvægt væri að þegja um það.
 Tadhg brosti þegar ég sagði honum þetta og ætlaði að segja eitthvað en þá barst fjarlægur kliður inn um gluggann. Við litum út og sáum ógnandi múginn nálgast klaustrið. Fremstur í flokki var faðir Aifric og það fór ekkert á milli mála hvað hann ætlaði að gera við kaðalinn sem hann sveiflaði í áttina að glugganum.
 Það var kominn tími til að fara.

Ég var feginn að sjá klaustrið hverfa þegar við sigldum niður ána og Cathal tók upp línbútinn sem sýndi hvernig fljótið rann í áttina að Atlantshafinu og leiðina til Suðureyja.
 Já, við ætlum að heimsækja margar eyjar og þær eru svo sannarlega dularfullar og dásamlegar en þið verðið þó að hafa í huga að þær geta líka verið varasamar og sumar eyjar eru ekki einu sinni neinar eyjar, sagði Cathal og lyfti vísifingri. Stundum eru þær eitthvað allt annað. Eins og til dæmis Jakoníus.
 Hvað er Jakoníus þá? spurði Brjánn þó hann hljóti að hafa heyrt frásögnina oft áður.
 Jú, sjáið þið til, það atvikaðist þannig að laugardag fyrir páska leituðu Brendan og hans menn að landi til syngja vesper. Þá komu þeir auga á gljáandi svarta klettaeyju og lögðu að henni. Þarna lögðust þeir á bæn og þökkuðu Guði og Brendan söng messu til að fagna þjáningum frelsarans, en þegar þeir ætluðu að matast og kveiktu eld sökk eyjan.
 Það kom í ljós að hún var lifandi, þetta var Jaskoníusarhvalurinn. Cathal gaf frá sér eitthvað sem hefði hljómaði eins og fliss ef það hefði komið frá öðrum.
 Það er alltaf róandi að hlusta á sögu sem þú þekkir og þetta var notaleg stund.
 Um nóttina létum við strauminn flytja bátinn í gegnum myrkann birkiilminn frá árbakkanum og söng þrastanna sem tóku sér ekki hvíld nema rétt um miðnættið. Nóttin var undarlega heit, við sváfum bara í línklæðunum og mér brá þegar bræðurnir Flann og Brjánn stóðu allt í einu upp, stukku fyrir borð og hurfu. Fljótlega birtust þeir þó aftur í glitrandi vatnsyfirborðinu, hlæjandi og kátir og klifruðu upp á árbakkann þar sem þeir söfnuðu netlum.
 Þetta heldur okkur öllum hraustum, sagði Flann þegar þeir komu aftur um borð og þó hann væri bara einn af bændabræðrunum þá var Flann óneitanlega glæsilegur þarna í tunglskininu með línskyrtuna límda við stæltan bolinn.
 Þaðan sem þeir bræður koma syndir fólk, sagði Cathal og mér fannst það hljóma eins og honum fyndist það miður.
 Síðasta nóttin á ánni var stjörnubjört. Úlfar spangóluðu í fjarska og þegar Cathal skoðaði áttirnar heyrði hann undarleg hljóð frá árbakkanum áður en steinn þaut framhjá stefninu. Fleiri steinar fylgdu strax á eftir en sem betur fór sluppum við óskaddaðir og Cathal söng prím, tók fram Gamla testamentið, gerði krossmark yfir því og kyssti kápuna á meðan svöluhópur flaug inn í landið samtaka eins og ein skepna.
 Fiat voluntas tua.
 Það var undarleg tilfinning að sleppa takinu á landi og leggja út á hafið sem mér virtist endalaust. Við settum upp seglið sem var saumað úr fjórum brúnum húðum og vindurinn fyllti það strax.
 Höfrungar léku sér í kringum okkur fyrsta daginn og þar sem við vorum vanir því í klaustrinu að sofa aðeins fjóra tíma í einu reyndust vaktirnar auðveldar. Siðir munkanna fylgdu okkur um borð og bænir og tíðasöngur voru á sínum stað í sólarhringnum.
 Matudinum, laudes, prim, ters, sext, nona, vesper, completorium …
 Þannig óx klaustrið og breiddi úr sér þar til það náði yfir alla náttúru í veröldinni.

Við Cathal vorum með sjóriðu þegar við komum í land á Suðureyjum þar sem bræðurnir tóku vel á móti okkur.
 Hýbýlin voru alveg þokkaleg, greinilega enginn skortur á mat og þarna gat ég vel hugsað mér að dvelja.
 Þó skynjaði ég fljótlega að líklega væru heimsóknir sjaldgæfar á þessum stað, þagnir voru áberandi og talsvert var um hýðingar. Bræðurnir kvörtuðu líka mikið undan piktum. Trúvillingarnir brugga seið og formæla klaustrinu, sagði ábótinn.
 Öll hús á eyjunni voru reist úr steinum því ekki var mikið um trjágróður þarna, en ábótinn, sem var fölur og grár jafnvel þó hann skartaði skarlatsrauðum og hvítröndóttum kyrtlinum, bauð okkur til veislu þar sem veitt var vel og þeir Cathal ræddu saman langt fram á nótt. Hingað hefur aldrei nokkur kona komið, heyrði ég ábótann segja og það var stolt í röddinni. Klaustrið er hreint.
 Já, sagði Cathal smjaðurslega, enda konan misheppnuð útgáfa af karlmanninum og aðeins hæf til barneigna.
 Það þyrmdi yfir mig þegar ég heyrði þetta. Minningin um Aifric varð svo sterk að það var næstum óþolandi. Og hvað yrði um þetta barn hennar sem ég var viss um að væri drengur. Myndi hann lifa? Og ef svo væri, myndi Liam þá ala hann upp? Eða yrði hann kannski sendur í klaustur?
 Ég vonaði það.
 Eftir að ég kynntist þessari reglu betur fannst mér eins og að munkarnir þarna hlytu að eiga sér skuggalegri fortíð en okkar bræður, því margir gengu í hárskyrtum og lífið virtist aðallega snúast um þjáningu, iðrun og yfirbót. Við heimsóttum líka nokkra einsetumenn sem bjuggu í nágrenninu og gamall munkur sýndi okkur kastalarústir og höggmyndir piktanna.
 Þegar við gengum ásamt ábótanum og nokkrum af eldri bræðrunum eftir grýttri fjörunni í skoðunarferð um eyjuna varð berfættum bróður á barnsaldri það á að kvarta undan hvössum steinnibbunum.
 Af hverju ertu ekki í skóm? spurði ég áður en Cathal náði að hnippa í mig og um leið sló ábótinn drenginn svo fast að hann féll við. Mér brá og ég fann að Cathal tók kipp. Við vorum þrír sem deildum þessum kinnhesti.
 Þeir Brendan rákust á sæskrímsli á ferðum sínum sem réðist á minnsta bróðurinn og blóðgaði hann, hvíslaði Cathal. Og þeir drápu skrímslið og átu.
 Þetta var alla vega ekki rétti staðurinn fyrir mig. Mér var ekki ætlað að gera hér ævilanga yfirbót í hárskyrtu vegna Aifric. Henni leiddist örugglega ekkert. Líklega var hún nú gift Liam.
 Vonandi?

Hafið var blýgrátt morguninn sem við héldum út í óvissuna. Líndúkurinn sem Cathal hafði notað til að sigla eftir og finna Suðureyjarnar kom ekki lengur að gagni, við vorum að sigla út af honum og það var hrollur í okkur þrátt fyrir ullarfötin. Þegjandi horfðum við á landið hverfa þar til þoka skall á, svo svört að við tókum niður seglið og létum örlögin og almættið ráða stefnunni.
 Ég held að við séum á leið í vesturátt þar sem ævintýrin bíða okkar, sagði Cathal hikandi, en í nótt dreymdi mig drottninguna á Eyju lystisemdanna og það boðar aldrei gott.
 Hvaða eyja er það? spurði Tadhg forvitinn og hætti í augnablik að hreinsa tennurnar og gómana með litla ullartuskunni sinni.
 Tír na nÓg heitir hún, stundum líka kölluð Eyja eilífrar æsku, svaraði Cathal. Brendan komst aldrei þangað, en hetjan Brân kynntist henni illu heilli. Cathal dæsti.
 Brân dreymdi nefnilega að fögur kona kom til hans og sagði honum hvar alla fegurð í veröldinni, hamingju og eilíft líf væri að finna. Og þegar hann vaknaði gat hann auðvitað ekki gleymt þessari konu svo hann sigldi af stað með mönnum sínum í leit að drottningunni og hirð hennar. Þetta var viðburðarík ferð og mörg undur og kraftaverk gerðust á leiðinni.
 Þeir hittu líka aðra hetju, Manannán mac Lir sem ók gullkerru og hafði séð margt merkilegt. Meðal annars sagði hann þeim að hafið væri í reynd víðfeðmt engi þar sem glæsivagnar, ósýnilegir mönnum, óku á æsilegum hraða í endalausri keppni hvor við annan.
 Kvöld eftir kvöld bauð hann þeim til veislu þar sem hann veitti vel og sagði þeim frá öllum furðum veraldarinnar þar til drottningin varð að lokum óþolinmóð og kastaði töfrahnykli frá Eyju lystisemdanna til Brâns sem greip þráðinn og fylgdi honum ásamt mönnum sínum þar til þeir fundu eyjuna.
 Þarna var mikið um dýrðir, dásamlegur matur og drykkir, dans og gleði og allar konur fagrar og blíðar. Sjálf var drottningin fegurst af þeim öllum og aðra eins konu höfðu þeir aldrei augum litið. Húðin og hárið var gullið, framkoman tígulleg og röddin unaðslega ójarðnesk þegar hún söng fyrir þá.
 Flann hnippti í Brján sem hnippti í hann á móti og þeir brostu dreymnir. Getum við ekki reynt að finna þessa eyju? spurði Flann. Okkur Brjáni finnst þetta vera staðarlegasta eyjan sem þú hefur sagt okkur frá.
 Það er ekki allt gull sem glóir Flann, sagði Cathal strangur en hélt svo áfram með söguna.
 Þarna undu þeir Brân og hans menn í sælu og vellystingum í heilt ár, en þá fengu þeir heimþrá og vildu fara.
 Drottningin var treg til að sleppa þeim, hún reiddist og þegar þeir yfirgáfu eyjuna þrátt fyrir mótmæli hennar formælti hún þeim.
 Þeir töldu sig hafa sloppið vel en þegar Brân og félagar hans ætluðu heim komust þeir að því að eitt ár á Eyju lystisemdanna eru hundrað ár samkvæmt okkar tímatali. Ef þeir snéru aftur yrðu þeir að dufti um leið og þeir snertu írska jörð og þeir gátu því aðeins farið heim sem goðsagnir af sjálfum sér.
 En kannski hefðu þeir bara átt að vera áfram á þessari eyju, sagði Flann og Brjánn kinkaði ákafur kolli.
 Cathal svaraði ekki en mér varð hugsað til Aifric. Ég var nokkuð viss um að hún formælti mér. Var hugsanlegt að hún hefði lagt einhvern óþverra á mig? Var ekki amma hennar frá Mön? Hún var til alls vís.
 Tadhg var brugðið eftir að hafa hlustað á ófarir Brâns og félaga hans. Ég er of ungur fyrir þetta, sagði hann dapur og þagði svo það sem eftir var dagsins nema rétt á meðan við sungum sálamana. En reyndar þögðum við allir og þessa nótt hreyfðum við okkur ekki nema rétt til að gera þarfir okkar yfir borðstokkinn.
 Eftir náttsönginn, þegar ég var að sofna sá ég að Cathal settist hjá Tadhg.
 Ekki vera hræddur, hvíslaði hann. Við siglum ekki á sömu slóðir og Brân. Við stefnum í gagnstæða átt þar til við finnum þetta sem okkur er ætlað að skrásetja og myndskreyta.

Daginn eftir lentum við í gjörningaveðri. Stormurinn barði húðirnar, sjórinn rauk og við urðum sjóveikir. Þar sem ekki hafði verið reiknað með okkur Tadhg í þessa ferð voru bara þrjú sett af olíubornum gæruskikkjum og höttum um borð.
 Flann og Brjánn sögðust ekki þurfa á þessu að halda og létu okkur Tahg eftir sínar yfirhafnir, en þegar við ætluðum að þakka þeim fyrir, hristi Flann höfuðið. Erum við ekki bræður? sagði hann. Kristið fólk? Mér leið undarlega, en kannski var það bara sjóveikin sem var farin að láta á sér kræla.
 Fárviðrið geysaði í fjóra daga og stundum langaði mig að kasta mér fyrir borð þegar litla skipið hrundi af öldutoppunum niður í dalina.
 En á meðan þetta gekk yfir stóðu Flann og Brjánn uppi, sjólagið hafði engin áhrif á þá og þeir hlúðu að okkur hinum um leið og þeir sigldu bátnum, reyndu að sinna tíðasöngnum og rauluðu sálma af veikum mætti til að gleðja Cathal.
 Tadhg og Cathal urðu verulega veikir, sérstaklega Cathal og eitt kvöldið, þegar hann var slæmur, gaf hann mér merki um að koma til sín.
 Ef ég lifi þetta ekki af tekur þú við, hvíslaði hann undan daunillri ullargærunni sem einhver hafði breitt yfir hann.
 Ég?! svaraði ég hneykslaður.
 Þú ert á réttum aldri og ófyrirleitnastur af ykkur, sagði hann og leið svo út af.
 Um leið veðrið skánaði hresstumst við og Tadhg fór að suða um sögur. Flann og Brjánn sögðust engar muna og ég aftók með öllu að verða við þessu, en þegar Cathal rankaði við sér reyndi hann af veikum mætti að gleðja unga manninn. Frásagnirnar voru þó snubbóttar og óvandaðar í byrjun og það vantaði neistann í þær.
 Brendan og hans menn komu að eyju þar sem fyrir var mikill fiskur og lindir sem svæfðu þá. Þar sváfu þeir í sjö daga, hvíslaði Cathal þreytulega.
 Tadhg geispaði.

Eftir nokkurra daga siglingu sáum við móta fyrir svartri þúst sem virtist svífa í þokuslæðunum við sjóndeildarhringinn.
 Þetta er eyja stórvaxna fjárstofnsins! hrópaði Cathal æstur á meðan við leituðum lendingar þar sem helst virtist möguleiki til þess. Ábótinn talaði mikið um þessa eyju, bætti hann við, lygndi aftur augunum og nuddaði saman höndunum um leið og hann talaði, en við hinir börðumst við grynningarnar.
 Þeir Brendan komu að grösugri klettaeyju þar sem stórir flokkar af snjóhvítu og gæfu fé á stærð við nautgripi var á beit. Þetta var skírdagur og þarna dvöldu munkarnir í góðu yfirlæti til laugardags fyrir páska þegar til þeirra kom maður, sem kallaði sig Formann og benti þeim á að sigla til annarrar eyjar þarna rétt hjá og dvelja þar yfir hátíðarnar. Bræðurnir fylgdu fyrirmælum Formanns og héldu páskadag heilagan á eyjunni þar sem þeir snæddu agnus immaculatus, flekklaust lamb úr hjörðinni sem var svo meyrt að það bráðnaði á tungunni …
 Cathal þagnaði en við fengum allir vatn í munninn við lýsingarnar. Þegar okkur hafði loksins tekist að lenda bátnum við örmjótt skarð í klettinn og klifra við illan leik upp á grasbalann efst, kom í ljós að þarna voru bara nokkrar örreytisþúfur og einstaka rolla, smávaxin og fremur horuð innan um holurtina og giljaflækjurnar. Vonsviknir leituðum við að sæmilega þurrum sprekum, sem var tímafrek iðja og við orðnir svangir.
 Þetta getur ekki verið rétta eyjan, sagði Flann og það kom hik á okkur alla en Cathal virti hann ekki svars.
 Loks gripum við þó einn lambhrútinn, slátruðum honum undir sálmasöng og tilreiddum þarna í fjörukambinum.
 Það er ekkert mark takandi á þessum Brendan, sagði ég önugur á meðan við vorum að elda magurt lærið yfir logandi sprekum og þurrum þara.
 Það er bara svo langt síðan hann var hér, sagði Cathal friðsamlega. Hlutirnir breytast. En hér í nágrenninu er líka Paradísareyja fuglanna samkvæmt Brendan. Bíðið bara þangað til við komum þangað. Þar gerðust mörg kraftaverk.
 Hvernig ætlarðu að þekkja þessa Paradísareyju frá hinum skerjunum þarna? spurði ég og benti á sjóndeildarhringinn.
 Ég þekki þá eyju þegar ég sé hana, sagði Cathal og þerraði munninn með erminni.
 Og það gerði hann.
 Þarna! hrópaði hann þegar við komum að óvenju stórum og grónum kletti á fjórum sérkennilegum stöllum sem minntu á borðfætur. Fýlan varð næstum óbærileg þegar við nálguðumst, klettarnir hvítir af driti og fuglagargið ærandi því þarna var allt fullt af svartfugli.
 Þetta lagðist vel í mig. Við getum náð í egg og máfakjöt, sagði ég spenntur.
 Þú snertir ekki fuglana hér, sagði Cathal strangur. Þetta eru ekki fuglar, þetta eru englar.
 Ég varð fyrir vonbrigðum, en beit á jaxlinn um leið og við rérum að þunnri strandræmu sem virtist eina mögulega lendingin þarna og hlustaði með öðru eyranu á söguna sem Cathal sagði, um leið og hann starði einbeittur í land.
 Brendan sigldi að Paradísareyjunni fuglanna sem rís fjórfætt úr úthafinu og þar sem fuglar búa í risaeik á miðri eyjunni og syngja inn tímann. Þessir fuglar tóku á móti þeim bræðrum með fögrum sálmasöng og saman lofuðu þeir Guð og páskahátíðina. Svo flaug einn fuglinn til Brendans og talaði til hans með rödd sem var hljómfögur eins og klausturbjalla.
 Hér höldum við til, föllnu englarnir. Þessir sem lentu á milli þegar styrjöldin mikla geysaði í himnaríki og Lúsifer var varpað niður til jarðarinnar. Við vorum hlutlausir, studdum hvorki Drottinn né Lúsifer og tókum ekki afstöðu fyrr en eftir fall Lúsifers, en þá fylgdum við Drottni. Og nú sýnir hann okkur náð, sagði fuglinn. Enn fáum við að vera í návist Guðs og ferðumst holdlausir í gegnum loft og jörð, en á helgum dögum eins og í dag erum við fuglar og getum sungið Skaparanum til dýrðar.
 Rödd Cathals titraði svolítið þegar hann sagði síðustu orðin. Okkur setti hljóða eftir þessa frásögn og þegjandi drógum við bátinn ofar í fjöruna, en við fundum enga risaeik á þessari illalyktandi eyju og gargið í sjófuglunum átti ekkert skylt við englasöng og klausturbjöllur.
 Ég held að okkur sé alveg óhætt að narta aðeins í þessa máva, sagði ég friðsamlega.
 En Cathal var ekki viss.
 Við viljum engin slys hér, sagði hann. Við getum ómögulega vitað hverrar náttúru þessir fuglar eru, hvort þetta eru fuglar eða englar.
 En það er ekki helgur dagur í dag, sagði Brjánn. Og englarnir því ekki í holdinu.
 Þetta áttu til, hugsaði ég fullur aðdáunar, þó ég segði ekki neitt og fljótlega vorum við komnir með tólf svartfuglsbringur og töluvert af eggjum.
 Þetta espaði upp í okkur græðgina og Flann og Brjánn rifu sig úr skónum, óðu út í öldurnar og snéru aftur með lax sem var blóðgaður á staðnum og skellt á eldinn.
 Nú höldum við í vestur, sagði Cathal eins og hann vissi hvert við værum að fara, og við vorum svo saddir að enginn kom með efasemdir.

Í viku sigldum við úfinn sjó þar til við komum auga á land í fjarska á bak við öldutoppanna. Þegar við nálguðumst ströndina blöstu við mikil fjöll og upp úr einu þeirra gekk mikill reykur.
 Engum leist á þetta nema Cathal.
 Þetta er fordyri vítis, sagði Tadhg skelkaður. Hvað sagði Brendan aftur um þessa eyju? Hvarf ekki einn af mönnum hans þarna?
 Ég reyndi að bera mig vel til að hræða ekki Tadhg og þagði.
 Nei, kæru bræður. Við höfum fundið fyrirheitna landið dýrlinganna. Landið þar sem sendiboði Guðs bauð Brendan að taka með sér alla ávexti og gimsteina sem hann gat borið þegar hann sigldi aftur heim, sagði Cathal ánægður.
 Þarna ætla ég ekki að dvelja, hugsaði ég um leið og brotið skall á okkur og veröldin hvarf.

Með ofbirtu í augunum og í yfirþyrmandi þögn skreið ég upp svarta fjöruna, sannfærður um að þetta væri búið, að ég væri dáinn.
 En þaralyktin og sársaukinn í öxlinni tilheyrðu lífinu, og eins mávagargið og ölduniðurinn sem varð smám saman til þegar heyrnin kom aftur. Þessi strandlengja var það síðasta sem við sáum og fordyri vítis, gígurinn, en nú uppgötvaði ég líka þétt, fjölgrænt kjarrlendi við fjólubláar fjallshlíðar sem titruðu í tíbránni. Það var kvöld en þó bjart og mér létti þegar ég sá að við vorum þarna allir fimm, undir þessum svala og tæra himni. Ég var svo ringlaður að í augnablik datt mér í hug að kannski hefði Cathal haft rétt fyrir sér. Var þetta fyrirheitna landið sem dýrlingurinn skrifaði um, apokalypsis, sjálf afhjúpunin?
 Ógleðin og gargandi kríur, sem voru nú orðnar aðgangsharðar og hnituðu hringi yfir okkur, voru hversdagslega jarðneskar þó rödd Cathals, sem barst til mín á meðan ég ældi héldi öðru fram.
 Samkvæmt mínum útreikningum er Hvítasunnudagur, sagði hann. Lofum Guð fyrir að leiða okkur hingað! Þetta er landið sem við leituðum að, hér er enginn og hér getum við helgað líf okkar bænum og sálmasöng.
 Ertu viss? spurði Flynn. Kannski er annað fólk hér einhversstaðar? Hann leit í kringum sig og mér fannst ég greina vonarneista í röddinni.
 Nei, þetta er eyjan. Sú sem heilagur Brendan skrifaði um og hér eru ekki aðrir, sagði Cathal ákveðinn.
 Nei, líklega ekki, segir Flynn og andvarpaði. Þetta er fremur eyðilegt.
 Bræðurnir sungu á meðan ég hélt áfram að kúgast og horfðist í augu við þá staðreynd að líklega hefði Cathal rétt fyrir sér, að héðan í frá yrðu þessir mjóróma söngfélagar minn eini félagsskapur.
 Þegar ég loksins jafnaði mig hallaði ég höfðinu að svörtum kletti og virti samferðarmenn mína fyrir mér undan hálfluktum augunum. Jafnvel eftir þessa hrakninga var Tadhg undurfallegur. Rakt hárið liðaðist og bærðist í léttum andvaranum og fínlegir fingurnir gældu við þetta belti sem hann var svo stoltur af, þetta belti sem var aleiga Tadhgs. Ég var feginn að hann tapaði því ekki í látunum, en varð strax dapur við tilhugsunina um að sennilega ættu ekki aðrir en við eftir að fá að dást að því hér.
 En, þú sagðir að við myndum sigla í kjölfar Brendans og hann fór heim aftur, sagði Flynn feimnislega og gjóaði augunum á Cathal áður en hann beindi þeim niður fyrir sig á iðandi, sterklegar hendurnar. Ég man ekki eftir að þú hafir talað um að við ættum að gerast einsetumenn, bætti hann við.
 Við komumst ekki héðan því báturinn er ónýtur, sagði Cathal glaðlega og mér kólnaði þegar ég sá ánægjuna í augunum á honum.
 Þetta er helgun, sagði hann hátíðlega. Vígsla.
 Guð er vígi mitt minn miskunnsami Guð, tautuðu bræðurnir óöruggir.
 Minn miskunnsami Guð, hvíslaði Tadhg svo lágt að það heyrðist varla.
 Ég þagði.
 Var Cathal kannski ekki þessi rugludallur sem ég hafði alltaf talið hann vera? hugsaði ég. Var þetta heilagur maður?
 Við horfðum allir yfir fjöruna. Hinu megin við þanglínuna var brakið úr bátnum, seglið, eitthvað af verkfærum, kistan fína og blautur pokinn með eldfærum og handan við þetta allt saman var meinleysislegur hafflöturinn þar sem ekkert minnti lengur á ofsann í brotinu sem skellti okkur upp á þessa strönd.
 Flynn leit undan og stór líkaminn seig saman. Brjánn, bróðir hans, sagði ekkert en líkamstjáningin var sú sama. Stundum var eins og þessir stóru menn hreyfðu þeir sig við einhvern takt sem þeir einir skynjuðu.
 Svo stóðu þeir upp og drógu það sem eftir var af bátnum og farminum lengra upp á land. Hinu megin við stóran kletta fann Brjánn nokkra steina og byrjaði að hlaða hring þar sem gras og bleikar þúfur tóku við af sandmölinni.
 Hann ætlaði að kveikja eld.
 Enginn sagði neitt en augu okkar þriggja sem eftir sátum beindust að álft sem kom fljúgandi og settist spök og óhrædd hjá okkur.
 Cathal teygði höndina rólega í átt til fuglsins, greip hann svo og snéri úr hálsliðnum.