Breytingaskeiðið

Þórdís Helgadóttir

Það var á bak við rúm dóttur minnar sem ég fann hunangsgreifingjann. Ég var að sópa saman smádóti af gólfinu svo hægt væri að ryksuga þegar ég rak augun í svartan og hvítan hnullung. Fyrst hélt ég að ég væri að horfa á lopapeysu sonar míns, sem hafði óvart lent í þvottavél og stóð núna sjálf. En lopapeysur rísa víst ekki og hníga ef enginn er í þeim.
 Greifinginn hafði hringað sig saman og svaf vært þrátt fyrir skarkalann sem fylgdi tiltektinni. Frammi í stofunni voru græjurnar stilltar nógu hátt til að yfirgnæfa ryksuguna en skepnan vissi sem var að henni stafaði engin ógn af snemmmiðaldra tveggja barna móður í Kópavogi sem reyndi að nýta tímann þegar loksins viðraði nógu vel til að börnin gætu hoppað á trampólíninu.
 Dóttir mín þvertók fyrir að hafa komið inn með dýrið. Sonur minn svaraði spurningunni ekki beint en muldraði eitthvað í hálsakotið á systur sinni, hún kinkaði kolli og staðhæfði síðan að hann væri líka saklaus. Þau eru með sínar eigin samskiptaleiðir. Hún fullyrðir að þau skilji hvort annað fullkomlega og ég hef ekki enn séð neitt sem bendir til annars.
 Úr því að greifinginn var einu sinni kominn grátbáðu þau samt um að fá að eiga hann. Eins og ég hefði svo sem getað sagt mér sjálf.
 Skynsamlegu viðbrögðin hefðu auðvitað verið að segja þvert nei. Skynsamlegu viðbrögðin hefðu verið að loka og læsa dyrunum að herbergi dóttur minnar og hringja á meindýraeyði. En. Það er eitt sem ég hef verið að hugsa um undanfarið: Hvernig ég ofvernda börnin mín. Maðurinn minn hefur oft bent mér á þetta. Þegar við erum á fjölförnum stöðum gríp ég fast utan um framhandleggina á þeim og æpi þegar þau nálgast umferðargötur. Þegar þau fá vini í heimsókn á ég það til að voma fyrir utan herbergin þeirra og halda niðri í mér andanum, taugarnar spenntar, reiðubúin að grípa inn í á því augnabliki sem gestkomandi barnið gerir sig líklegt til að fara yfir strikið gagnvart mínu.
 Ég átta mig á því að þetta er ekki alls kostar heilbrigð hegðun. Maðurinn minn vill meina að ég þvælist fyrir eðlilegum þroska krakkanna. Þau þurfi að fá að reka sig á, finna sín eigin mörk og yfirstíga hindranir. Það sé eina leiðin fyrir þau að byggja upp raunverulegt sjálfstraust, segir hann.
 Samt missti hann sig yfir þessu með greifingjann.
 „Þetta er villidýr!“ hrópaði hann. „Þú veist ekki einu sinni hvaða tegund! Hefur þér dottið í hug að þetta gæti borið með sér sjúkdóma?“
 En það var ekki rétt. Ég vissi vel hvaða tegund þetta var. Ég var með aðgang að internetinu eins og aðrir. Ég mundi vel eftir myndbandsbrotunum úr náttúrulífsmyndum sem gengu manna á milli fyrir nokkrum misserum. Þegar ég bar þau saman við skepnuna á bak við rúmið fór ekki á milli mála hvað þetta var. Myndbrotin sýndu reyndar aðeins grimmilegustu hliðar hunangsgreifingjanna, þar sem þeir rifu í sig geitur, bitu kóbraslöngur á barkann eða murkuðu lífið úr ungum krókódílum. En ég hafði kynnt mér málið. Þetta var eins og með hákarlana, þótt orðsporið væri slæmt voru líkurnar á því á þeir réðust á manneskju minna en einn á móti milljón. Svo lengi sem þeim var ekki ógnað eða að sálast úr hungri létu þeir fólk í friði.
 Og. Hvort okkar var það sem skutlaði krökkunum kútalausum út í djúpu laugina í sundi? Hvort okkar var það sem ákvað einn daginn að þau væru nógu stór til að fara ein út í búð með þeim afleiðingum að við leituðum um allt hverfið í örvæntingu í heilan klukkutíma áður en þau fundust úti á róluvelli? Hvort okkar var alltaf að reyna að skikka strákinn til að sýna meira frumkvæði og stelpuna til að hafa betri stjórn á tilfinningum sínum?
 En maðurinn minn var ekki að hlusta.
 „Hvernig komst hann einu sinni hingað? Við verðum að hringja í Matvælastofnun.“
 „Matvælastofnun? Hvað heldurðu að þetta sé, alifugl?“
 „MAST sér um svona, Heiða. Sjáðu þetta! Sýnist þér þetta vera dýr sem lifir villt á Kársnesinu undir venjulegum kringumstæðum?“
 Að mínu viti var það nú frekar augljóst hvernig greifinginn hafði komist hingað. Einhver hafði smyglað honum inn í landið, einhver annar keypt hann dýrum dómum til að hafa fyrir framandlegt gæludýr – og svo hafði hann sloppið. Þetta eru klárar skepnur.
 Maðurinn minn átti ekkert svar við þessu. Hann sagði bara að ef ég ætlaði ekki að hringja þá myndi hann gera það. En hann komst víst aldrei í það, því strax helgina eftir var hann fluttur til mömmu sinnar og ég get ekki með góðri samvisku sagt að það hafi ekki stefnt í það í þónokkurn tíma, að minnsta kosti töluvert löngu áður en hunangsgreifinginn kom til skjalanna.

Sannleikurinn, sem ég gat auðvitað ekki sagt honum, var þessi: Ég fékk það einfaldlega ekki af mér að neita börnunum um dýrið. Alveg síðan við misstum köttinn höfðu þau verið í djúpri sorg. Dóttir mín hafði misst stjórn á sér þegar ég stakk upp á því, nokkrum vikum eftir að Kisi hvarf, að við kíktum í Kattholt. Bara til að skoða. Athuga hvort þar leyndist kannski einhver ljúf lítil kisa sem þau gætu mögulega hugsað sér að bjóða nýtt heimili.
 Ég beit mig fast í tunguna á meðan hún reyndi að ná andanum milli ekkasoga og öskra. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég gerði þessi mistök: Að láta eins og tilfinningalega flóknar aðstæður væru einfaldar. Að ég gæti hókuspókusað sorg og sársauka í burtu. Það versta var að ég vissi upp á hár hvað það var sem truflaði hana svona mikið í þetta skiptið. Vanvirðingin sem fólst í þessari uppástungu. Að skipta látnum ástvini einfaldlega út fyrir nýjan. Eins og ég hefði aldrei elskað Kisa. Ofan á það bættist svo þessi ómögulega krafa, að eiga að velja eitt dýr til að bjarga og labba síðan burt undan brostnum augum allra hinna, þeirra sem enginn vildi eiga.
 Ég skil hana miklu betur en hún gerir sér grein fyrir. Á hverjum einasta degi upplifi ég eitthvað svipað. Vanmátt. Það er líklega rétta orðið. En. Um leið finnst mér ég verða að kenna börnunum að það megi ekki lamast. Hættan á að kremjast undir heiminum vofir alltaf yfir. Maður leysir aldrei úr neinu. Til að ganga vel í lífinu er nauðsynlegt að valta bara stundum yfir núansana, taka ákvarðanir í óvissu og standa síðan við þær. Þar hefur maðurinn minn rétt fyrir sér.
 Það sem ég óttast, kannski meira en allt annað, er að mér mistakist að miðla þessu til barnanna. Að ég sé sjálf of óstöðug, óviss og hrædd. Ég veit ekki hvenær ég fór að verða svona taugaveikluð.
 Maðurinn minn hafði strax bent mér á mistök mín. Í stað þess að setja börnin í þessa ómögulegu stöðu hefði ég einfaldlega átt að útvega nýjan kött og bjóða svo ekki upp á frekari umræðu um málið.

Hunangsgreifinginn fékk semsagt að vera og maðurinn fór.
 Ímyndunarafl barnanna minna er óþrjótandi en þau virðast einhverra hluta vegna ekki vilja beita því við nafngiftir gæludýra. Nýi fjölskyldumeðlimurinn fékk þannig nafnið Greifsi. Sonur minn fann óopnaða magnpakkningu af kattakexi inni í skáp. Dóttir mín bannaði honum að nota matarskál Kisa og sótti í staðinn venjulega undirskál. Greifsi tók strax þennan fyrsta morgun hraustlega til matar síns.
 Kannski hefði þetta allt saman verið auðveldara ef við hefðum fengið að vita hvað kom fyrir Kisa. Fyrrverandi vildi meina að sorg barnanna hefði átt auðveldara með að umbreytast í sátt ef þau hefðu getað séð það með eigin augum að hann væri dáinn.
 Ég sá fyrir mér klístraðan feld, útflattan lítinn kropp með hjólbarðaprenti. Sprunginn belg sem ældi gulgljáandi görnum og klepruðum bleikum líffærum út um gat sem ekki átti að vera þarna.
 Ég sá fyrir mér kramdar hauskúpur barnanna minna, beyglaða líkama, óþekkjanlega nema á pallíettuskreyttum strigaskónum, Among Us-peysunni, kirsuberjaeyrnalokkunum.
 „Værir þú rosa sáttur ef þetta væri síðasta minningin okkar um þau?“ hafði ég hreytt út úr mér.
 En það var hvort sem er aldrei valkostur. Eina nóttina hafði malandi þunginn einfaldlega lyftst upp af bringunni á mér í þann veginn sem ég var að festa svefn. Ég sá köttinn fyrir mér halda áfram að lyftast og svífa sífellt hærra, upp í himininn og renna á endanum saman við mjúk og drifhvít ský. Í öllu falli sáum við hvorki tangur né tetur af honum framar. Dóttir mín ljósritaði auglýsingar og hengdi upp í hverfinu. Sonur minn setti út mat á hverju kvöldi í þrjár vikur. Þau færðu hann í tal oft á dag, sveifluðust á milli vonar og angistar, uppteknari af honum liðnum en þau höfðu nokkurn tíma verið þegar hann var hjá okkur.
 Það tók mig dálitla stund að átta mig á því en það var ástæða fyrir því að krakkarnir voru svona ákafir í að halda Greifsa. Í þeirra augum hafði hann komið og beðið okkur að vera fjölskyldan sín. Hann var ekki staðgengill neins. Það hefði verið óbærilegt ef við hefðum fengið okkur hann. En það var ekki þannig. Hann valdi okkur.
 Auðvitað fylgdist ég vel með dýrinu til að byrja með. Klærnar á framfótunum voru eins og sett af japönskum hnífum.
 „Þetta eru pæjuneglurnar hans!“ hrópaði dóttir mín.
 Þegar Greifsi var staðinn að því að tæta í sundur tuskudýr og peysur siðuðu þau hann til, mjúkrödduð:
 „Stopp, litli Greifsi! Svona má ekki! Sussussuss.“
 Mér vöknaði um augun þegar ég sá hvað börnin mín gátu verið þolinmóð og blíð, meira að segja við villidýr sem sýndi þeim enga ástúð á móti.
 „Hann er bara svo sætur,“ sagði stelpan þegar Greifsi hrifsaði blóðugan kjötbita úr lófa hennar.
 „Greifsi má,“ sagði strákurinn þegar skepnan hafði klórað sundur rúmdýnuna hans og gert sér bæli inn á milli gormanna. Hann fjarlægði sængina varlega úr rúminu og svaf næstu nætur á vindsæng á gólfinu.
 Við reyndum að gefa honum hunang, en hann vildi ekki sjá það. Enda kom í ljós, þegar við flettum upp á netinu, að nafngiftin byggði á misskilningi. Á gresjum og í skógum sunnan Sahara sást gjarnan til greifingjanna vaða í býflugnabú, opna þau og moka út innvolsinu með þykkum hrömmunum. En þeir voru ekki á höttunum eftir hunangi heldur feitum lirfunum sem kúrðu bjargarlausar í hólfum sínum. Feldurinn var svo þykkur að þeir gátu verið óhræddir við stungur og þótt þeir sættu sig við að éta nánast hvað sem var voru lirfurnar eftirlætisfæða þeirra, á eftir eyðimerkursnákum.
 Hunangsgreifingjar voru líka alls óskyldir venjulegum greifingjum. Nafngiftir geta verið villandi. Hlutirnir eru ekki alltaf eins og þeir sýnast. Munið það, krakkar mínir.
 Greifsi svaf inni í þvottahúsi fyrstu næturnar. Bara ef ske kynni að honum dytti í hug að ráðast á okkur í svefni. Ég er ekki gjörsamlega ábyrgðarlaus. Bakdyr hússins opnast úr þvottahúsinu og út í garð. Á þeim er kattalúga, svo Greifsi gat komið og farið eins og honum sýndist. Það var aldrei þannig að við héldum honum óviljugum hjá okkur. En á morgnana þegar ég opnaði fram beið hann yfirleitt við þvotthúsdyrnar, lést ekki sjá mig en paufaðist beina leið að kattamatnum. Hann var vissulega grimmur en umfram allt greindur. Hann hafði áttað sig á því að við værum þægileg, áreiðanleg mataruppspretta sem honum stóð engin ógn af.
 Hins vegar fórum við reglulega að finna illa útleikin hræ af fuglum og músum í garðinum og einu sinni eitthvað sem virtist hafa verið minkur.
 Við brunuðum í Fiskó, þar sem dóttir mín valdi neonbleika hálsól alsetta semilíusteinum. Sonur minn prófaði allar bjöllurnar þar til hann fann þá háværustu. Þegar afgreiðslukonan spurði hvaða tegund hundurinn okkar væri svaraði dóttir mín „púðla“ og við hlógum okkur máttlaus.
 Auðvitað yrði hann aldrei raunverulegt gæludýr. Ekki í þeim skilningi að hann kúrði í fanginu á okkur, lærði að fylgja skipunum eða leyfði okkur að klappa sér. Ég las á netinu að af þúsundum spendýrategunda á jörðinni væru í mesta lagi hundrað sem mannfólki hafði tekist að halda og þar af færri en tuttugu sem kalla mætti tamin. Hunangsgreifinginn var ekki eitt af þeim.
 Greifsi var á stærð við smáhund, stuttfættur og þéttur á velli. Líkamsgerðin minnti á otur, feldurinn þéttur og grófur, hárin næstum broddar. Óvenjulega þykkt skinnið gerði hann ekki bara hérumbil ónæman fyrir stungum og bitum, heldur hékk það laust á líkamanum til að auðvelda honum að snúa sig úr rándýrshrömmum og gildrum. Augun voru lítil og illskeytt, kjafturinn gleiður og vígtenntur. Hann var svartur en með breiða skunkslega rönd á bakinu, eins og einhver hefði strokið honum með hvítmálaðri hönd frá enni niður á rófu. Ekki það að hann leyfði neinum að snerta sig. Kisi hafði verið orðinn gamall og fúll en hann kunni þó að meta gott klapp. Greifsi glefsaði í áttina að hverjum þeim sem seildist of nálægt honum með krumlurnar. En það var bara í viðvörunarskyni. Ef einhver alvara hefði búið að baki hefðum við öll fljótlega verið nokkrum fingrum fátækari.
 Ég hafði gert áætlun um hvernig ég myndi festa ólina á dýrið. Ég ætlaði að nálgast hann í svefni, klædd skíðagleraugum, úlpu og þykkustu vinnuhönskunum mínum. En það kom aldrei til þess. Þegar við komum úr Fiskó fór sonur minn beinustu leið inn í herbergið sitt og stuttu síðar trítlaði Greifsi þaðan út með ólina um hálsinn og bjölluna klingjandi í hverju skrefi. Dóttir mín skríkti af ánægju og myndaði hann í bak og fyrir.
 Krakkarnir brugðust líka fumlaust við þegar Greifsi tók upp á því að gera þarfir sínar inni í íbúðinni. Stelpan sótti það sem við kölluðum jógaspreyið mitt inn í fataskáp og síðan sátu þau um greifingjann og sættu lagi næst þegar hann gerði sig líklegan til að míga undir borði. Ég missti andann þegar strákurinn lét gusur af vatnsblönduðum lavenderdropum ganga yfir greifingjann en hann hristi sig bara, hundskaðist burt og sinnti upp frá því kalli náttúrunnar utandyra.
 Og þannig fór ég smám saman að treysta Greifsa betur. Við leyfðum honum að valsa um húsið nokkurn veginn eftir hentisemi. Stuttvaxinn líkaminn sópaði með sér rykinu þar sem hann leið yfir gólfið eins og kústur. Stundum sótti hann sér millimál í ávaxtaskálina, stundum baðaði hann sig í bala sem við höfðum komið fyrir í þvottahúsinu. Ef eitthvað var fyrir honum á gólfinu brölti hann hiklaust yfir það, meira að segja krakkana þegar þau flatmöguðu á mottunni yfir Andrésblaði eða iPad. Hann virtist óttalaus með öllu. Ekkert kom honum úr jafnvægi, hvorki börn eða ryksugur, bílaumferð eða grátköst.

Ég átti erfitt fyrstu dagana eftir að maðurinn flutti úr. Ekki af því að ég væri einmana eða ætti erfitt með að útskýra stöðuna fyrir börnunum. Það var mér einfaldlega ofviða að sjá um heimilið ein. Ég kom heim úr vinnunni, þvoði og þreif, keypti inn og eldaði, útbjó nesti og sundpoka, tíndi saman leikföng og lagðist svo úrvinda á koddann á kvöldin. Börnin fundu hvað ég var máttlaus og ég leyfði þeim að vaða yfir mig. Þau vissu alltaf nákvæmlega hvað þau vildu. Og nú var enginn þarna til að leggja línurnar. Það var svo ótrúlega margt sem minn fyrrverandi hafði verið með á hreinu. Áður en ég kynntist honum vissi ég til dæmis ekki að ein leið væri betri en önnur til þess að skera lauk.
 „Sjáðu,“ sagði hann. „Eins og þú skerð þetta þá verða bitarnir ójafnir. Og þá steikjast þeir líka ójafnt. Snúðu þessu svona og skerðu fyrst langsum. Nei, ekki svona, komdu með hnífinn, ég skal sýna þér.“
 Hann kunni líka betri leið til að stilla hliðarspeglana í bílnum. Ég var víst vanalega með þá stillta þannig að það myndaðist hættulegur blindur blettur.
 „Þetta eru mjög algeng mistök,“ sagði hann einu sinni þegar ég var á leið út úr dyrunum að hlaupa.
 „Ha?“
 „Þú færð blöðrur ef þú ert með reimað svona.“
 „Svona hvernig?“
 Og hann sýndi mér bestu aðferðina til að reima á sig hlaupaskó.
 Hans aðferð var sannarlega betri. Hans aðferðir voru alltaf betri. En ég varð bara svo óþægilega meðvituð um sjálfa mig þegar hann benti mér á eitthvað svona sem ég hafði aldrei leitt hugann að áður. Stundum voru það ekki einu sinni tilteknir hlutir sem ég var að gera vitlaust. Bara eitthvað við mig. Lítil atriði sem voru augljós um leið og einhver benti á þau, en ég hafði aldrei tekið eftir fyrr, sem fyllti mig bæði óöryggi og ákveðinni skömm.
 Eins og það hvernig ég hélt á skeið. Eða þetta með naflann.
 Naflinn á mér er óvenjulega djúpur. Ég held að ég hafi haldið að allir væru svona þangað til fyrrverandi benti mér á þetta. En nei, þetta var bara ég. Eins og það var bara ég sem sveiflaði handleggjunum svona þegar ég gekk. Það var ekki eins og hann væri að gagnrýna mig eða gera sérstakt mál úr þessu. En. Í hvert skipti sem hann benti mér á eitthvað nýtt breikkaði aðeins bilið. Á milli konunnar sem hann bjó með og konunnar sem bjó með honum.
 Það er lítil húðfelling sem strekkist þversum yfir naflann á mér, svo hann líkist dálítið lokuðu auga. Mér hefur alltaf þótt gott að láta snerta mig þarna og stundum bað ég fyrrverandi að strjúka þessa fellingu á meðan hann sleikti mig. Þetta var áður en hann fór að vekja máls á því að naflinn væri óvenjulega djúpur. Sem hann er. Ég sá það auðvitað greinilega um leið og ég byrjaði að bera mig saman við hann og krakkana og konur sem ég sá í sundi og myndir á netinu. Meira að segja þegar ég gekk með börnin þá flattist naflinn ekki út eða small á rönguna eins og vill víst stundum gerast, heldur hélst hann lokaður og djúpur.
 Fyrrverandi fékk þetta á heilann. Sem hefði getað verið rómantískt. Að ástmaður minn væri sífellt að hugsa um dularfullan leynistað á líkama mínum sem enginn annar vissi af. Ef hann hefði bara ekki alltaf verið að færa þetta í tal. Og ekki bara við mig. Í fertugsafmæli mágkonu minnar kom svili minn upp að mér eftir nokkur freyðivínsglös og spurði hvort hann mætti athuga hversu djúpt honum tækist að pota fingrinum ofan í þennan margumtalaða botnlausa nafla.
 „Ekkert mál,“ sagði ég. Ég veit ekki alveg hvað kom yfir mig. „Bara ef ég fæ fyrst að prufa hvað ég get komið billjardkjuða langt upp í rassgatið á þér.“
 Þetta var svona undir það síðasta. En ég hafði satt að segja aldrei átt mikla samleið með tengdafjölskyldunni. Þau voru öll svo viljasterk. Það sló mig út af laginu hvað þau vildu alltaf hlutina af mikilli festu. Alveg ákveðið hundakyn. Alveg ákveðinn bíl. Ekkert kom til greina annað en nákvæmlega þetta loftljós í stofuna. Þau voru mjög sannfærandi þegar þau útlistuðu ástæðurnar. Öll voru þau í eigin rekstri, sem útheimti takmarkalaust vesen, en þau virtust líka þrífast á því að gera og græja, sýsla með eitthvað, hvort sem það voru peningar, byggingar, hlutir eða fólk. Enginn í fjölskyldunni hafði nokkurn tíma keypt íbúð án þess að rífa tafarlaust allt innan úr henni og endurinnrétta.
 Fyrst þegar við kynntumst var ég bergnumin af ákveðni míns fyrrverandi. Hann, sem vildi ekkert nema það besta, vildi mig. Og þar sem hann gerði aldrei neitt að óathuguðu máli þá efaðist ég heldur ekki um dómgreind hans. Ég trúði því bara í blindni að ég væri eins og hann segði, falleg, góð og heil.
 Ég bjóst við að háðsglósan um billjardkjuðann myndi baka mér óvinsældir tengdafólksins, en mér að óvörum sprakk öll veislan úr hlátri. Þau voru í sjöunda himni með þessa óvæntu nýju hlið á tengdadótturinni og upp frá því var ég þessi með grófa húmorinn. Sjálf vissi ég ekki hvað mér átti að finnast. Mér leið eins og ég þekkti sjálfa mig verr en áður.
 Eitt kvöldið fljótlega eftir að fyrrverandi flutti til mömmu sinnar klippti ég neglurnar alveg stuttar áður en ég fór í háttinn. Í fyrsta skipti í langan tíma togaði ég bolinn upp og strauk mér um magann undir sænginni. Fyrst til að byrja með var snertingin æsandi, en um leið og ég laumaði fingurgómi undir húðfellinguna sökk ég ofan í djúpt slökunarástand. Fingurinn smaug inn án mótstöðu, upp að fyrstu kjúku og svo annarri. Vellíðanin var einföld og tær. Það var engu líkara en að ég hefði fundið takkann sem slökkti á tilvistarangistinni sem suðaði í eyrunum á mér allan sólarhringinn. Ég veit ekki hversu lengi ég lá þarna án þess að gera neitt nema njóta sjálfrar mín en á endanum gleypti svefninn mig, djúpur, tómur og nærandi.

Ég myndi ekki segja að ég hafi gefist upp á að halda reglu á heimilinu. En ýmsir hlutir sem áður höfðu verið mikilvægir hættu bara smám saman að skipta máli. Bollarnir þurftu ekki allir að snúa eins í skápunum. Föt gátu alveg farið í þurrkarann án alvarlegra afleiðinga og stundum voru skyndinúðlur bara fullkomlega ásættanlegur kvöldmatur.
 Þegar ljóst var að engar hörmungar myndu fylgja í kjölfarið á leti minni fór ég að færa mig upp á skaftið. Ég tróð airfryernum og espressóvélinni inn í geymslu og eftir stutta umhugsun henti ég súru handverkskaffibaununum sem fyrrverandi hafði haldið svo mikið upp á og keypti ódýrt kaffi í rauðum poka. Ég vanrækti garðinn með öllu, þangað til ég fékk skyndihugdettu á góðviðrisdegi snemma vors og ákvað að útbúa leiksvæði handa Greifsa. Ég klambraði saman girðingu í kringum skjólsælan skika og byrjaði að bisa við að hlaða gisinn vegg úr hraungrjóti þar sem hann gæti átt fylgsni. Greifsi tók strax að troða sér inn og út um glufurnar í veggnum, börnunum til mikillar kátínu. Hann virtist líka sæmilega sáttur með svínseyrun, gúmmíleikföngin og klóruprikið sem við gerðum okkur ferðir í Fiskó til að kaupa handa honum. Auðvitað hélt hann samt áfram að spæna upp blómabeð og tæta í sundur tuskudýr barnanna. Skemmdarfýsnin var honum víst í blóð borin.
 Enda voru krakkarnir fljótir að læra að þau gætu kennt honum um allt. Hver hafði klárað allt kexið úr skálinni áður en gestirnir mættu? Nú, Greifsi. Af hverju voru allir útiskórnir okkar á víð og dreif um eldhúsgólfið? Klárlega Greifsa að kenna. Og yfirleitt var það rétta skýringin. Greifsi klóraði í sundur baðmottuna, tuggði sómakólfinn niður í rót, át legókubba af gólfinu. En í rauninni truflaði það mig sáralítið. Ég hafði verið orðin þreytt á að reyna að halda lífi í pottaplöntunum. Baðmottuna, ásamt sturtuhenginu og handklæðunum, hafði fyrrverandi valið af kostgæfni fyrst þegar við fluttum inn. Ég notaði tækifærið til að fleygja þessu öllu og keypti nýtt dót, í litum sem hefðu án efa sært viðkvæm augu hans – og algjörlega án þess að bera saman verð og gæði. Ég var farin að venjast því að taka ákvarðanir hratt og án þess að hugsa.
 Hvað legóið varðaði, þá var Greifsi kærkomið liðsinni við uppeldið. Börnin voru snögg að átta sig á því að ef þau vildu sjá barbískóna, pleimóvopnin og sælgætismolana sína aftur þá var þeim hollast að ganga jafnóðum frá eftir sig. Greifsi knúði óafvitandi fram hegðunarbreytingar sem áralangt nöldur foreldranna hafði ekki getað áorkað.
 Ég kunni samt síður að meta það þegar Greifsi fór að láta mína hluti hverfa. Farið eftir giftingarhringinn var enn hrátt þegar hringurinn gufaði upp af náttborðinu – á vinstri baugfingri var eins og sneið af grennri, yngri og aumari fingri hefði verið splæst inn í minn. Börnin bentu strax á skepnuna.
 „Skamm, Greifsi,“ sagði dóttir mín með uppgerðargremju.
 Næst hvarf íþróttatoppur. Ég hafði reyndar ekki notað hann um nokkurt skeið en það sveið þegar ég mundi hvað ég hafði borgað fyrir hann. Hverrar krónu virði, hafði fyrrverandi fullvissað mig um. Fyrirtækið væri með einkaleyfi á þessari einstöku hönnun. Mig hryllti við tilhugsunina um hunangsgreifingjann að tæta í sundur þrefalt teygjuefnið, bryðja smellurnar og kokgleypa hlýrana. Ég leitaði að tætlunum í hinum ýmsu bælum Greifsa en fann ekkert.
 Síðan fór fjarstýringin fyrir snjallljósaperurnar. Það var sök sér, hugsaði ég, það var hægt að stýra þeim úr símanum. Svo var líka orðið svo bjart úti. Ég kveikti á lömpum og frestaði því til haustsins að læra á appið.
 Það var verra með heyrnartólin mín. Þetta voru airpods, síðasta afmælisgjöfin frá fyrrverandi. Ég hafði skilið þau eftir á borðstofuborðinu að kvöldi, innan um hrúgur af drasli sem krakkarnir höfðu bjargað af gólfinu, en morguninn eftir voru þau týnd og tröllum gefin.
 Ég velti því fyrir mér af hverju Greifsi tæki einmitt þessa hluti frekar en einhverja aðra. Hvernig valdi hann?
 „Það er svo góð lykt af þínu dóti,“ sagði dóttir mín. „Mömmulykt.“
 Var það hugsanlegt að dýrið rynni á lyktina af mér og safnaði ilmandi gersemum saman á vel völdum felustað? Hugsanlegt – já. En ósennilegt miðað við hinn kostinn: Að anganin fyllti hann einmitt slíkum viðbjóði að hann sæi sig knúinn til að tortíma hlutum sem lyktuðu eins og ég.
 Fyrrverandi hafði reyndar líka átt það til að láta hluti hverfa. Eftir dauðaleit kom til dæmis í ljós að bæði uppáhaldskaffibollinn minn og púði sem hafði fylgt mér frá unglingsárum höfðu miskunnarlaust verið sendir í Sorpu.
 „Þessi púði var orðinn ógeðslegur,“ sagði hann þegar ég bar þetta upp á hann. Réttilega.
 „Og bollinn?“
 Hann leit á mig með hrylling í svipnum.
 „Heiða. Maður drekkur ekki úr skörðóttum bolla.“

Loks kom að því að Greifsi hvarf sjálfur. Einn morguninn beið enginn við dyrnar þegar ég opnaði fram í þvottahús. Ég sagði börnunum að hann hlyti að hafa drifið sig út að leika í maísólinni en eftir að þau voru farin í skólann leitaði ég að honum í öllum skúmaskotum innan dyra og utan, árangurslaust.
 Matardiskurinn var enn ósnertur þegar við komum heim í lok dags. Ég dró andann djúpt og bjó mig undir nýtt sorgarferli. Velti fyrir mér hvernig ég ætti að útskýra að við gætum ómögulega límt upp myndir af kolólöglega gæludýrinu okkar á ljósastaura og í sjoppum. Undurvarlega viðraði ég við þau þann möguleika að Greifsi gæti hafa fundið sér nýtt heimili. Kannski hafði hann flutt inn á einhverja aðra fjölskyldu eins og hann hafði á sínum tíma komið til okkar.
 Ég nefndi ekki líklegustu skýringuna: Að yfirvöld hefðu loks haft hendur í hári hans og aflífað hann á snyrtilegan, mannúðlegan hátt.
 Börnin voru pollróleg.
 „Greifsi kemur,“ sagði dóttir mín ákveðin. Sonur minn kinkaði kolli og brosti út að eyrum. Það lágu auðvitað engar góðar ástæður að baki þessari sannfæringu. Þau voru bara viss.
 Ég öfundaði þau. Síðustu árin hafði ég aldrei tekið ákvörðun eða svo mikið sem myndað mér skoðun án þess að afla mér fyrst upplýsinga, fletta upp gögnum og rökum, vega svo og meta. Ekki að það væri mikil hjálp í því. Einhver sagði að þessi ryksuga, þessi sólarvörn, þessir hlaupaskór væru hinir einu réttu, annar gaf þessu öllu falleinkunn. Eftir því sem ég reyndi að grafast meira fyrir varð ég bara ringlaðri. Á endanum missti ég einbeitinguna, smellti á eitthvað annað og áður en ég vissi af var ég búin að verja klukkutíma í að lesa greinar um hvaða dýr hefðu minnsta heilann miðað við líkamsþyngd (fiskur af oddsporðaætt) eða hversu margar tegundir af sjálfslýsandi sveppum væru til (sjötíu).
 Ég reyndi að muna hvenær ég hafði síðast treyst mínu eigin innsæi. Kannski var það fyrir níu árum þegar við ákváðum að stofna fjölskyldu. Þetta hafði verið rétti tíminn. Fyrrverandi var búinn að tryggja sér góða vinnu. Ég var að ljúka meistaranáminu, gat lokið við ritgerðina á meðgöngunni og nýtt svo orlofið til að svipast um eftir starfi. En það voru ekki þessi praktísku atriði sem sannfærðu mig heldur tilhugsunin um að byrja á einhverju alveg nýju. Að taka þessari áskorun, meðvituð um að hún myndi umbylta lífi mínu – og sjálfri mér. Ég sá fyrir mér barn í fanginu á mér og mig svimaði. Ég var tilbúin.
 Mér hafði liðið vel á meðgöngunni og fór inn í fæðinguna full sjálfstrausts. Fyrrverandi hafði útvegað öruggasta bílstólinn, besta vagninn og svo framvegis og ég gat einbeitt mér að hinu líkamlega. Ég þurfti ekki að læra að fæða til að kunna það. Líkami minn tókst á við þrekraunina eins og líkamar allra formæðra minna höfðu gert. Dóttir mín kom í heiminn og það var ekki bara ástin á henni sem þyrmdi yfir mig heldur líka óstjórnlegt stolt. Ef ég gat þetta þá gat ég allt.
 En ég gat ekki gefið brjóst. Mjólkin kom hægt og barnið virtist aldrei fá nóg. Hún var óvær, tók geirvörtuna vitlaust og þyngdist hægt. Ég fékk stálma og síðan sýkingar. Ljósmæðurnar mæltu með þurrmjólk. En fyrrverandi tók það ekki í mál. Brjóstamjólk var besta næringin fyrir nýburann og tryggði honum öll mótefni móðurinnar. Konur höfðu alltaf haft börnin sín á brjósti. Hann keypti sérstakar pillur fyrir mig, gúgglaði réttu tæknina og lét sig ekki.
 Ég nærði dóttur mína, og seinna son minn, á þurrmjólk í laumi. Það var auðveldara en að hnika sannfæringu mannsins um að alltaf væri hægt að besta alla hluti og að öðruvísi myndi manni aldrei ganga vel í lífinu.
 Allan þann tíma sem ég þekkti hann hafði hann sofið eins og ungbarn allar nætur.

Á föstudagskvöldi var dyrabjöllunni hringt. Börnin voru farin til pabba síns yfir helgina og hringingin glumdi í tómu húsinu. Á dyraþrepinu stóð áhyggjufull unglingsstúlka ásamt fullorðnum manni. Þau voru að leita að týndum hundi.
 „Afsakaðu ónæðið,“ sagði stúlkan. Hún var döpur og fullorðinsleg og mig langaði til að faðma hana. „Hundurinn okkar hann Dexter slapp út í morgun. Hann er rosalega heimakær og við erum hrædd um að hann sé villtur eða hafi kannski lokast einhvers staðar inni. Gætirðu nokkuð tékkað í geymslunni og þvottahúsinu og þannig?“
 Hún rétti mér útprentaða mynd af fallegum litlum terrier-hundi með gólfsíðan feld. Ég lofaði að hafa augun opin.
 Ég kveikti á kertum, skenkti mér rauðvín í glas og lagðist í sófann. Það var samt einhver óeirð í mér. Ég greip símann til að senda krökkunum skilaboð, hrúgaði yfir þau hjörtum og faðmlögum, bauð góða nótt og þvingaði mig síðan til að leggja símann frá mér. Tómar hendurnar fikruðu sig ósjálfrátt í átt að maganum. Ég lyfti peysunni en um leið og fingurgómarnir snertu naflann laust niður í mig einhverju sem ekki var hægt að kalla annað en sýn: Ég sá sjálfa mig fyrir mér, rotaða af nautn og skeytingarlausa um umhverfi mitt í miðju eldhafi. Íbúðin stóð í ljósum logum, kertin höfðu brunnið niður og logarnir læst sig í teppi, bækur, gluggatjöld. Allt sem ég átti, allt sem börnin mín áttu, fuðraði upp á augabragði meðan ég lét vel að sjálfri mér.
 Ég stökk á fætur, blés á kertin og reif mig í að taka til.
 Barnaherbergin voru undarlega snyrtileg á yfirborðinu, en um leið og ég opnaði skúffu eða skáp kom óreiðan flæðandi á móti mér. Börn eru safnarar að eðlisfari. Í eigu sonar míns eru grjóthnullungar frá öllum stöðum sem hann hefur heimsótt á sinni stuttu ævi og líklega hátt í þúsund legókarlar. Hann hefur minni áhuga á að byggja úr legókubbum en að eignast eintak af hverjum einasta haus, hatti, búk og löppum sem fyrirtækið hefur framleitt. Þótt þetta endi allt í hrúgu einhvers staðar þá man hann alltaf nákvæmlega hvað hann á og hvað vantar, án þess að þurfa að raða öllu skipulega upp, eins og sálfræðingarnir virðast gera ráð fyrir. Hann passar ekki í nein greiningarviðmið, sama hvað pabbi hans reynir að komast til botns í því hvað sé eiginlega að honum og hvaða meðferð þurfi til að leiðrétta það.
 Dóttir mín safnar líka hlutum: Límmiðum, tuskudýrum, derhúfum.
 Ég fór skipulega í gegnum herbergin þeirra. Skóflaði í ruslið brotnu og beygluðu dóti, bréfsnifsum og umbúðum og kom skítugum fötum í þvott. Mig langar svo mikið til að kenna börnunum mínum að ná stjórn á óreiðunni sem er óumflýjanleg í lífinu. Samt vil ég forðast að grípa sífellt fram fyrir hendurnar á þeim. Ég gengst við því að eiga erfitt með að finna hvar mörkin liggja. Þegar ég reyni að skoða hvatirnar að baki því hvernig ég kem fram við krakkana finn ég fyrst og fremst ótta. Það er líkt og ég sé að reyna að steypa þau í eitthvert mót sem ég ímynda mér að muni vernda þau þegar upp er staðið. En hvaða umboð hef ég eiginlega til að taka af þeim hluti sem þeim eru kærir? Ég vil ekki senda þau skilaboð að þeirra dómgreind sé ekki treystandi. Hvernig sem ég sný mér þá finnst mér ég eiga á hættu að skaða þau fyrir lífstíð.
 „Er þetta ekki bara eitthvað snemmbúið breytingaskeið?“ spurði karlinn þegar ég opnaði mig um tilfinningaóreiðuna í kollinum á mér.
 Þetta var stuttu eftir athugasemdina um billjardkjuðann. Hann vildi meina að ég hefði verið óvenjulega geðvond mánuðina á undan.
 „Ég veit það ekki,“ svaraði ég. „Mér líður stundum eins og öll … dulúð hafi smám saman gufað upp úr heiminum.“
 Hann sprakk úr hlátri.
 Ég sneri mér að rúmunum. Skipti fyrst um rúmföt inni hjá stelpunni og sneri dýnunni við.
 Það heyrðist plonk.
 Á gólfinu lá hringur. Ég tók hann upp. Þetta var vandaður gullhringur, einfaldur og fíngerður. Hann líktist giftingarhringnum mínum en áletrunina vantaði og svo virtist hann minni. Ég mátaði og hann passaði á litla fingurinn á mér. Þetta hlaut að vera eitthvað sem dóttur minni hefði áskotnast einhvers staðar.
 Ég kláraði tiltektina, gekk frá í eldhúsinu og stofunni. Gekk úr skugga um að það væri örugglega slökkt á kertunum. Þetta voru falleg kerti, pastelbleik og snúin, sem ég hafði fundið í einhverri skúffu. Mig rak ekki minni til þess að hafa keypt þau en ég hlaut samt að hafa gert það, því það var víst áreiðanlega ekki karlinn. Nema við hefðum fengið þau að gjöf.
 Ég skreið upp í rúm en tókst ekki að festa svefn. Loks byrjaði ég að strjúka mér um magann í von um að finna ró. Ég smeygði einum fingri inn í naflann, síðan öðrum. Velti fyrir mér hversu djúpt ég þyrfti að bora eftir botninum. Naflinn þrengdist en samt mjakaðist fingurinn sífellt lengra inn. Það var líkt og hinum megin við hann opnaðist inn í annan maga, galtóman og ýlfrandi. Inn í eitthvert óþekkt holrými sem hafði gapað allt frá því að klippt var á strenginn.
 Nafli á að vera ör. Ummerki um aðskilnað. Einhverra hluta vegna hefur minn aldrei gróið.

Morguninn eftir hefur rignt. Heimurinn er hreinn og litirnir tærir. Ég hef ekki hugmynd um hvað klukkan er. Börnin eru klukkan mín, þeirra taktur mitt tímaskyn. Án þeirra virðist dagurinn óhugnanlega formlaus. Ég mun þurfa að læra að vera ein.
 Ég sest út í garð með morgunkaffið. Allt er blátt og grænt. Gulir fíflar hafa stungið sér upp á grasbalanum. Fyrsti sumardagurinn.
 „Sæl,“ segir einhver.
 Þetta er nágranni minn, pabbi stelpunnar með týnda hundinn. Hann stendur við grindverkið sem vísar út að gangstéttinni. Kannski er ómögulegt fyrir hann að sleppa morgungöngunni þótt enginn sé hundurinn. Kannski er hann enn að leita.
 Hann brosir og virðist glaður að sjá mig.
 „Hæ,“ segi ég. „Ég hef því miður ekki séð hundinn ykkar.“
 Hann kinkar kolli en hreyfir sig ekki frá grindverkinu.
 „Skemmtilegur garður,“ segir hann svo.
 „Já?“ segi ég. „Takk? Þetta er fyrir köttinn? Sko.“
 „Já, ókei,“ segir hann. „Mjög sérstakt. Flott. Hmm. Ég vissi ekki að þú værir með kött.“
 „Við vorum með kött.“
 „Þið … eruð þið mörg í heimili?“
 „Bara við krakkarnir. Núna. En svo týndist Kisi.“
 „Æ, en leitt að heyra.“
 Hann hallar sér yfir grindverkið og gerir sig skilningsríkan í framan. Dökkt hárið fellur fallega yfir ennið.
 „Ekki var það þessi svarti og hvíti?“
 „Ha?“
 „Við sáum auglýsingarnar. Hvað heitir það, plakötin. Í ísbúðinni. Og Bónus. Og …“
 „Já, við veggfóðruðum hverfið.“
 „Einmitt. Dóttir mín er svo mikill dýravinur.“
 „Ókei.“
 Hann bandar frá sér með hendinni eins og til að gera lítið úr hrósi sem ég hef ekki gefið honum.
 „Fannst hann aldrei?“
 „Nei nei, hann er klárlega dauður.“
 „Æ,“ segir hann.
 „Já, það eru komnir margir mánuðir.“
 Það kemur fát á hann.
 „Það er nú samt alltaf gott að geta haldið í vonina,“ maldar hann í móinn.
 „Þetta var reyndar frekar leiðinlegur köttur,“ segi ég. Ég ætti að draga í land. Segja eitthvað hugulsamt um týnda hundinn. En mig langar ekki til þess.
 „Úti í náttúrunni eru dýr alltaf að drepast,“ held ég í staðinn áfram. Ég er að hugsa upphátt. „Berjast um yfirráð, éta eigin unga, þú veist … sníkjudýr að verpa í görnina á hýslinum og éta heilann í honum innan frá. Þetta er allt ógeðslegt. Ofbeldi allan daginn og dauði og svo ertu sjálfur étinn. Einhver svona hrein og sæt, vinaleg gæludýr – það er eiginlega bara fáránleg afskræming á veruleikanum.“
 Ég sé að maðurinn hefur hörfað aðeins frá girðingunni.
 „Viltu tylla þér hérna?“ spyr ég. „Ég er með heitt á könnunni.“
 „Nei takk,“ segir hann stuttaralega. „Ég þarf að drífa mig. Við erum enn að leita.“
 „Ókei, kannski seinna,“ segi ég. En hann er að drífa sig of mikið til að svara.
 Ég klára kaffið, fer inn og gufast um íbúðina. Reyni að halda áfram að taka til en verður lítið úr verki. Í símanum sé ég að fyrrverandi fer offari á samfélagsmiðlum til að reyna að sýna hvað hann sé góður pabbi. Ís í gær, ís í dag. Húsdýragarður, sund, bíó. Börnin munu eiga erfitt með að sofna í kvöld, uppgefin en oförvuð og úrill. Strákurinn mun fá í magann.
 Í andartak gleðst ég yfir því hvað pabbi þeirra stendur sig illa.
 Síðan hata ég mig fyrir það.
 Síðan fer ég í Smáralindina.

Ég hrekk upp einhvern tíma um lágnættið. Birtan er sú sama og þegar ég fór að sofa. Ég er ringluð og það tekur mig dálitla stund að átta mig á því hvað vakti mig. Ég ligg og hlusta. Það er umgangur í húsinu. Brölt. Krafs. Ég staulast á fætur eins hljóðlega og ég get og læðist fram í eldhús.
 Greifsi situr við skálina sína og bryður kattamat af áfergju. Hann er tætingslegur og ég sé ekki betur en að hann hafi horast. Í dálitla stund stend ég og fylgist með honum meðan augun í mér venjast hálfnættinu. Þegar hann hefur klárað matinn paufast hann í burtu og ég sé að hann skilur eftir sig drulluga slóð á gólfinu. Ég beygi mig niður til að þurrka hana upp.
 Það kemur rautt í tuskuna.

Ég vakna úthvíld næsta morgun, í geislabaði. Sólin hefur brotist inn á milli gluggatjaldanna og hitað líkama minn upp eins og brauð í ofni.
 Íbúðin er tandurhrein og falleg. Ég skil ekki í því hvernig ég fór að því að sjá óreiðu í öllum hornum í gær. Ég hlýt að hafa verið með eitthvað í augunum.
 Ekki einu sinni óvænt símtal frá mömmu getur slegið mig út af laginu. Hún hefur frétt af skilnaðinum og vill að ég leiðrétti snarlega þau óheppilegu mistök að sleppa takinu af svona traustum og duglegum manni. Það fær dálítið á hana þegar ég gríp af henni orðið og skipti um umræðuefni.
 „Naflinn?“ spyr hún. „Óvenjulegur hvernig? Er þetta ekki bara eftir meðgöngurnar?“
 Ég útskýri fyrir henni að ég hafi verið svona frá því ég man eftir mér. Ég veit allt um það hvernig kviðvöðvarnir geta gliðnað sundur á meðgöngu. Það heitir diastasis recti. Systir mín fékk það þegar hún var ólétt. Ekki ég.
 Mamma jæjavinar mig í smástund og spyr svo um börnin. Og hvað þau hljóti að eiga erfitt núna, litlu skinnin.
 Ég gríp fyrsta tækifæri sem gefst til að kveðja og leggja á.
 Pabbi barnanna kemur snemma að skila þeim. Ég ligg í sófanum með tölvuna í fanginu, spila netskrafl, drekk te og borða ódýrt súkkulaði. Á borðstofuborðinu stendur vasi af liljum, sem ég mundi allt í einu að eru uppáhaldsblómin mín. Á milli þess sem ég á að gera skoða ég samfélagsmiðla. Efsta innleggið í hverfisgrúppunni er hlaðið hjörtum:
 „Uppfært! Dexter okkar er fundinn, heill á húfi. Takk þið öll sem hjálpuðuð við leitina.“
 Svo opnast útidyrnar og börnin koma hlaupandi inn.
 „Vá!“ hrópar dóttir mín. Hún kastar frá sér húfunni, símanum og tveimur nýjum leikföngum og tekur stefnuna beint á blómvöndinn eins og býfluga.
 Sonur minn skríður í upp í fangið á mér, eins og hvolpur sem áttar sig ekki á því hversu mikið hann hefur stækkað. Sjálfri finnst mér hann stærri en síðast þegar ég faðmaði hann.
 „Hæ,“ segir pabbi þeirra. Hann stendur í dyragættinni og fitjar upp á nefið. Hann þolir ekki lyktina af liljum. Segir að hún minni sig alltaf á jarðarfarir.
 „Hæ,“ segi ég.
 Hann leggur frá sér farangurinn og skimar yfir stofuna. Ósjálfráð gretta fer um andlitið eins og jarðskjálftabylgja með hverri breytingu sem hann tekur eftir. Augun staðnæmast við vinstri höndina á mér sem ég er að strjúka yfir hárið á stráknum. Ég horfi á hendurnar á honum. Hann er enn með sinn hring.
 „Hvenær varstu að spá í að koma og sækja eitthvað af dóti?“ spyr ég og nikka í áttina að bókahillunum hans.
 „Ehm,“ tafsar hann. „Ég er náttúrulega bara hjá mömmu eins og er …“
 Sonur minn slítur sig frá mér og börnin vappa inn í herbergin sín, flissandi og nánast eins og í vímu. Tveggja sólarhringa fjarvera er nógu til að gera hið kunnuglega nýtt og framandi.
 Feit þögn hlammar sér niður á milli okkar um leið og þau eru farin.
 „Heiða mín,“ byrjar hann svo. „Krakkarnir voru að segja að þið séuð ennþá með … dýrið þarna. Þau segja að þetta sé greifingi.“
 „Reyndar ekki.“
 „Þú verður að losa þig við þetta … Hvað ertu eiginlega að pæla?“
 „Ég er að pæla í að fá mér fleiri.“
 „Ha? Veistu, ég prófaði að gúggla …“
 Hátíðniöskur úr herbergi sonar míns sker aftan af setningunni. Fyrrverandi hrekkur við og ætlar að æða þangað en ég stöðva hann. Ég þekki gleðiskrækina í dóttur minni þegar ég heyri þá.
 Hún kemur hlaupandi fram með augun á stærð við undirskálar.
 „Ó! Mæ! Gad!“ hrópar hún. Svo snýr hún sér við.
 Strákurinn er fyrir aftan hana. Hann stígur varfærnislega yfir þröskuldinn, fer fetið án þess að sleppa augunum af því sem hann er með í fanginu. Þetta er gamalt ungbarnateppi, þvælt og blettótt. Hann heldur því uppvöðluðu eins og tifandi sprengju. Iðandi, tifandi, tístandi sprengju.
 Fyrrverandi stendur eins og negldur við gólfið. Ég fikra mig í áttina til sonar míns og tek við vöndlinum. Dóttir mín er samstundis komin þétt upp við hlið mér.
 „Ooooo!“ segir hún. „Sjáðu hvað þeir eru sætir!“
 Og það er ekki alls kostar rangt hjá henni. Agnarsmáar skepnurnar eru hrábleikar og blindar. Eyrun litlir rauðir separ, feldurinn eins og dúnn. Fremst á loppunum eru klærnar enn mjúkar og deigar en af hlutfallslegri stærð þeirra miðað við líkamann má ráða hvers konar morðtól þær munu verða með tíð og tíma.
 Börnin geisla af hamingju.
 „Hvað eiga þeir að heita?“ spyr stelpan.
 „Loppi,“ segir strákurinn.
 „Já,“ svarar hún ákveðin. „Og Skotta. Loppi og Skotta.“
 „Já.“
 „Ég ætla að hringja í MAST,“ segir pabbi þeirra.
 „Hvað er það?“ spyr dóttir mín og horfir inn í hjartað á pabba sínum.
 Sonur minn beygir sig yfir ungana og strýkur einum smágerðum fingri yfir kollinn á þeim – þetta er mýksta snerting sem mannshöndin er fær um.
 Stelpan er búin að gleyma eigin spurningu. Hún hringsnýst í kringum sjálfa sig, valhoppar inn í herbergi bróður síns, kemur svo til baka og tilkynnir að Greifsi hafi gert sér hreiður ofan í rúmdýnunni.
 „Það þarf allavega …“ segir pabbi hennar. „Að minnsta kosti dýralækni. Það hlýtur að þurfa að gefa sprautur og tékka á hundaæði og …“
 „Þeir geta búið í Barbíhúsinu!“ segir dóttir mín.
 „Það þarf bara að gera hlutina almennilega,“ segir hann. „Til að …“
 „Ganga vel í lífinu,“ botnar hún. „Bæ, pabbi!“
 „Bæ,“ segir sonur minn.
 Göngulagið þegar hann byrjar að feta sig í átt að útidyrunum er eins og hann gangi á sundlaugarbotni. En. Ég hef áttað mig á einu: Besta ákvörðunin er ekki endilega rétta ákvörðunin. Og þar af leiðandi er besti maðurinn ekkert endilega rétti maðurinn. Ég er búin að vera að hugsa um náttúruna. Og dýrin sem vita alltaf hvað þau eiga að gera. Og án þess að hugsa of mikið um það þá rétti ég syni mínum ungana aftur. Við læðumst inn í drengjaherbergið og hann kemur þeim fyrir hjá móður sinni aftur án þess að hún vakni. Svo skipa ég þeim að fara inn á bað og þvo og spritta á sér hendurnar og aldrei þessu vant hlýða þau möglunarlaust. Ég þvæ mér í eldhúsvaskinum.
 Út um gluggann sé ég að bíll mannsins míns er ennþá í innkeyrslunni. Hann situr í bílstjórasætinu og er í þungum þönkum. Hann er með símann í hendinni, ringlaður á svipinn. Bugaður, eins og hann viti ekki hvert hann eigi að fara.
 Þegar ég skrúfa fyrir finn ég skyrtuna límast við magann. Það hlýtur eitthvað klístur að hafa verið á vaskbrúninni. Ég toga flíkina frá líkamanum. Hvað svo sem þetta er þá hefur það klínst gegnum efnið og á bera húðina fyrir innan. Ég snerti klessuna og ber fingurinn upp að nefinu. Lyktin er sæt. Ég rek tunguna örsnöggt út úr mér eins og froskur.
 Hunang.