Gerður Kristný
Ég fékk efri kojuna! Nafnið mitt var skrifað á límmiða á einum stólpanum og fyrir neðan það stóð Þóra. Ég hafði svo sannarlega færst upp virðingarstigann frá því sumarið áður þegar ég svaf í neðri koju.
„Hver er Þóra?“ spurði ég systur Regínu sem bjástraði við að setja utan um kodda innst í svefnskálanum. Hún gerði hlé á vinnu sinni og svaraði með sterkum þýskum hreim: „Ljóshærð og …“ Hún fann ekki orðið sem hana vantaði svo hún dró höndina út úr koddaverinu til að gera hringi í kringum augun með vísifingrinum. „Er hún með gleraugu?“ spurði ég og bætti svo við: „Eða er hún panda?“
„Panda með gleraugu,“ svaraði systir Regína og hló svo undirhakan kreistist fram undan gráu höfuðfatinu.
Ég var staðráðin í að kynnast pöndunni sem deildi með mér koju. Enn staðráðnari var ég í að finna Agnesi. Hún hafði verið besta vinkona mín í sumarbúðunum í fyrra. Við hittumst strax á fyrsta degi og lékum okkur saman frá morgni til kvölds í tvær vikur. Þá var ég sótt en Agnes fékk að vera viku lengur því foreldrar hennar höfðu farið til útlanda. Mínir höfðu bara verið heima í friði. Sá friður var helst fenginn með því að ég færi í burtu. Nú vildu þau vera í mjög miklum og djúpum friði því bróðir minn var sendur með mér. Hann hafði runnið á hrópin af fótboltavellinum um leið og hann steig út úr bílnum og varla gefið sér tíma til að kveðja pabba og mömmu. „Bróðir þinn leikur við sína vini og þú við þína. Ég vona að þetta gangi,“ sagði mamma á leiðinni að svefnskálanum. Hún varð jú að bera töskuna hans þangað fyrst hann var farinn út á völl. Ég lét vera að spyrja hana hvort hún héldi að ég hefði farið í sumarbúðir til að leika við bróður minn sem ég lék mér hvort sem er aldrei við heima. Furðulegt líka að hann skyldi fara í mínar sumarbúðir þegar hann vildi ekki hafa mig nálægt sér.
Bróðir minn hafði reyndar farið í aðrar árið áður en þar hafði víst ekki verið gaman. Samt voru þær aðeins fyrir stráka svo hann hafði aldrei þurft að óttast að hitta neina stelpu þar, hvorki mig né aðrar. Eitt kvöldið þegar við sátum yfir grjónagraut og slátri var hringt frá strákasumarbúðunum. Pabbi svaraði en sótti svo mömmu. Hún hálfhljóp í símann þegar hún heyrði hvaðan var hringt og sneri ákaflega þungbúin til baka.
„Er eitthvað að?“ spurði ég.
„Borðaðu matinn þinn,“ sagði hún.
Ég sat því uppi með getgáturnar sem eru oft mun skemmtilegri en sannleikurinn. Líklega hafði bróðir minn fengið að hringja og vildi nú láta sækja sig. Það var óhugsandi að starfsfólkið vildi losna við hann því allir héldu svo upp á hann. Þegar kennarar eða nágrannar heyrðu að hann væri bróðir minn sögðu þeir alltaf glaðir: „Ó, ertu systir hans?“ Hann virtist aldrei hafa hrint þeim í skafl og ausið snjó niður um hálsmálið á þeim. Aldrei hafði hann kallað þetta fólk asna, dýrkað upp lásinn á herberginu þeirra í stað þess að banka eða undið sér að vinkonum þeirra til þess eins að sparka í þær. Þótt mér bæri að sjá bróður minn í friði var ekki innifalið í samkomulaginu að hann sæi mig í friði.
Ég rölti upp að hvítu húsi sem eitt sinn hafði verið heimili venjulegrar fjölskyldu. Nú hýsti það allflest sem við krakkarnir tókum okkur hér fyrir hendur. Þar var eldhús, matsalur og rúmgóð stofa þar sem við föndruðum og héldum kvöldvökur. Þá var farið í leiki og stóru krakkarnir sýndu stundum leikrit. Gráklæddar nunnur voru á þönum á milli húss og skála með sængurver og handklæði í fanginu. Á stéttinni heilsaði María forstöðukona hverju barni fyrir sig með bros á vör og sannfærði foreldrana um að því væri óhætt. Þetta var stuttklippt grönn kona sem keyrði hendurnar ofan í peysuvasana eins og henni væri kalt á höndunum í júníblíðunni. Pabbar sóttu töskur í bílskottin og skelltu þeim aftur með sömu festu og þeir klöppuðu sonum og dætrum á axlirnar áður en þeir stigu aftur inn í bílinn. Fyndist þeim mömmurnar of lengi að leggja krökkunum lífsreglurnar lögðust þeir á flautuna. Þá smelltu þær kossi á vanga og hröðuðu sér aftur inn í bílinn. Þær voru ekki fyrr sestar en þær rúlluðu niður rúðunni til að geta kallað: Talaðuviðforstöðukonunaefþérverðurilltímaganum. Skrifaðubréf. Þúáttaðverameðnógafsokkum. Ein mamman hafði galað: Maðurskiptirumnærbuxurannanhverndag að stelpu með fléttur. Sú var fljót að láta sig hverfa á bak við hús þar sem hún beið þangað til foreldrarnir voru farnir.
Nýju krakkarnir gengu hikandi um og gjóuðu tortryggnir augum hver á annan. Líklega vonuðust þeir til að einhver fullorðinn birtist og leiddi þá saman í leik en hér sá hver um sig. Á róluvellinum voru rólur, vegasalt og kofi þar sem við Agnes höfðum hniprað okkur saman og hlustað á eldri krakkana segja hryllingssögur. Flestar voru þær um barnapíur sem virtust bestu skinn en um leið og foreldrar barnsins sem þær gættu brugðu sér af bæ gerðu þær sér lítið fyrir og steiktu krakkann á teini. Allan veturinn hafði ég hugsað um þessar hræðilegu barnapíur þegar mamma sendi mig niður í dimman kjallarann að sækja sultu.
Agnes var ekki úti á róló og þegar ég stalst til að líta í áttina að fótboltavellinum voru auðvitað bara strákar þar. Kannski sat hún inni og teiknaði á meðan hún biði þess að ég birtist. Í gættinni stóð María á spjalli við mömmu tveggja bræðra í samstæðum bláum peysum. Hún tók við litakössunum þeirra en við höfðum öll verið beðin um að koma með bæði vaxliti og vatnsliti. Kassanna biðu merktar skúffur og María endurtók nöfn strákanna nokkrum sinnum: „Helgi og Birgir. Birgir og Helgi.“ Ég heyrði hana biðja mömmuna um að hafa ekki áhyggjur. „Það verður svo gaman. Ekki satt, strákar?“ og þeir kinkuðu feimnislega kolli. Svo leiddust bræðurnir saman út á stétt og litu forvitnir yfir rólóinn og upp í klettana. Köllin frá fótboltanum virtust ekki freista þeirra.
Innan úr eldhúsi barst skark í pottum og á ganginum sat ljóshærð stelpa við símaborð og dinglaði fótunum. Önnur buxnaskálmin var brett upp svo plástrað hnéð blasti við. Á útleið mætti ég Maríu sem kvatt hafði mömmu bláklæddu bræðranna. Við fylgdumst með henni setjast inn í gamlan gulan Saab og aka með miklum skellum niður heimreiðina. Synirnir örkuðu að skálanum með íþróttatöskurnar sínar eins og hirðar með þæg lömb í fanginu. Allt í einu tók María eftir því að ég stóð þarna hjá henni. „Ég man eftir þér frá í fyrra! Gott að sjá þig aftur?“ sagði hún og brosti svo sást í allar tennurnar í henni.
„Gott að sjá þig!“ sagði ég. „Er Agnes ekki komin?“
„Hver er það?“ spurði María og keyrði axlirnar upp að eyrum eins og hrollur færi um hana. Líklega var mun kaldara á gangstéttarhellunni sem hún stóð á en minni.
„Agnes er vinkona mín. Hún var hér í fyrra, aðeins hærri en ég, skolhærð og oft í rauðri rúllukragapeysu,“ sagði ég eins hratt og ég gat því fleiri bílar komu aðvífandi og bráðum þyrfti María að sinna fleiri krökkum.
„Ég skal athuga,“ sagði hún og skaust inn.
Stelpan með plásturinn tróðst fram hjá mér og þaut yfir á róluvöllinn þar sem hún settist í aðra róluna. Um leið og hún var komin á ferð byrjaði hún að syngja Ó, Jósep, Jósep.
Eins og rússneskur njósnari gægðist ég örsnöggt fyrir hornið, kom auga á bróður minn í græna fótboltabúningnum sínum, lét hann algjörlega í friði eins og mér hafði verið uppálagt og skaust síðan aftur fram fyrir húsið. Þar stóð María með blað í hendinni og skimaði eftir mér. „Þarna ertu,“ sagði hún, grúfði sig yfir blaðið og lét fingurinn reika yfir nafnalista.
„Véný, Guðbjörg, Erla, Sirrí, Ásdís …,“ muldraði hún en sagði svo festulega: „Nei, það er engin Agnes hér. Ætlaði hún að koma?“
„Mamma sagði að hún yrði hér,“ sagði ég en hvað vissi hún um það? Hún þekkti Agnesi ekki neitt. Ég hafði trúað henni því mig langaði svo til að hún segði satt. „Þú finnur aðra stelpu að leika við,“ sagði María og kuðlaði nafnalistann ofan í peysuvasann. Fólk steig út úr bílum og hún varð að rjúka.
Rólan við hliðina á þeirri plástruðu var laus svo ég settist í hana. Ég var svo leið að mig langaði aftur heim. Best væri að fá far til baka strax með einhverjum foreldrunum. Stelpan hélt áfram að þýfga Jósep um að giftast sér en loks þagnaði hún, stöðvaði róluna með tánni og leit á mig. „Ég heiti Þóra,“ sagði hún. Þetta var þá gleraugnapandan! Ljós þvertoppur náði niður að rauðum plastumgjörðum utan um kámug gleraugu. „Við sofum í sömu koju,“ sagði ég og Þóra sagði: „En gaman! Það verður skemmtilegasta kojan! Syngdu líka!“
Síðan sungum við einu sinni enn um hann Jósep áður en við snerum okkur að Money, Money, Money. Karlmenn og peninga, takk, óskuðum við okkur á þessum stað þar sem fátækar reglusystur réðu ríkjum.
Þegar hóað var í kvöldmat höfðum við Þóra sagt hvor annarri frá öllum krökkunum í bekkjunum okkar og kennurunum og talið upp hrekkjusvínin. Ég vissi upp á hár uppáhaldslit nýju vinkonu minnar – gulan – og hún vissi að minn var grænn. Ég vissi líka hverjar voru uppáhaldsbækurnar hennar – allar sem hún komst yfir um músina Pipp – og hún vissi að ég hafði lesið allar Fimmbækurnar. Hún átti eldri systur sem var í fimleikum en Þóra var í frjálsum og spilaði líka á fiðlu. Ég sagðist eiga bróður en þagði yfir því að hann væri líka hér í sumarbúðunum. Þá myndi hún kannski vilja hitta hann sem var erfitt þegar ég mátti ekki koma nálægt honum. Í staðinn sagði ég Þóru að ég hefði komið hingað líka í fyrra og þá hefði besta vinkona mín heitið Agnes. „Nú hefur hún örugglega fengið að fara með pabba sínum og mömmu til útlanda.“ Um leið og ég sagði þetta sá ég Agnesi fyrir mér fljóta á vindsæng í sundlaug sem var eins og höfrungur í laginu. Sundbolurinn var bleikur og hárspöngin græn. Nú hét besta vinkona mín í sumarbúðunum Þóra og ég varð að fá að vita hvers vegna hún væri með plástur á hnénu. „Ég datt hér úti á mölinni en meiddi mig samt ekkert. Ég er harðhaus,“ sagði Þóra.
Við sátum auðvitað hlið við hlið yfir steikta fisknum. Okkur fannst báðum tómatsósa góð en ekki remúlaði. Okkur fannst líka gott að sofa á maganum. Um það þurftum við ekki að ræða því það sá ég þegar ég kíkti á Þóru niður úr kojunni minni um kvöldið.
Daginn eftir fann ég snúsnúband inni í leikfangageymslunni innan um bolta, skóflur og húlahringi. Ég rétti Þóru annan endann og teymdi hana út á róluvöll. Um leið og við byrjuðum að snúa dreif hinar stelpurnar að. Þær röðuðu sér upp og stukku hver á fætur annarri yfir bandið sem hýddi mölina í hröðum takti. Einmitt þegar Guðbjörg og Sirrí höfðu tekið til við að snúa og kominn var tími til að við Þóra fengjum að hoppa var kallað á hana. María kom fyrir húshornið og veifaði til okkar. „Komdu, Þóra, komdu!“ hrópaði hún. „Ég þarf að fara í Hveragerði í búð. Þú mátt koma með.“
Þóra leit tvístígandi á mig en rétti mér loks sinn enda snúsnúbandsins og hraðaði sér á eftir Maríu að grænu fólksvagenbjöllunni hennar.
Enn var stokkið um stund en skyndilega fengum við um annað að hugsa því hundur með brúnan feld og hvítan kraga kom hlaupandi yfir til okkar með nokkra yfirspennta stráka á hælunum. „Komdu, hvutti! Sæktu!“ gjömmuðu þeir og hentu spýtu út í móana. Hundurinn gleymdi um leið hvert hann hafði verið að fara og geystist af stað á eftir prikinu.
„Á ég þá ekki að snúa núna?“ spurði Mónika, harðmælt stelpa að norðan sem var endalaust gaman að heyra kynna sig. Það var ekki fyrr en þá sem ég áttaði mig á að Sirrí var farin. Ég skimaði í kringum mig en nei, hún var ekki hér. Í því kom dökkhærður strákur með freknumstráð nef á harðahlaupum til okkar.
„Hvar er Sirrí?“ spurði hann hastur og hvessti grá augun á okkur stelpurnar.
„Hún hljóp inn í kofann!“ svaraði Mónika og benti.
„Ef hundurinn kemur, ekki láta hann elta okkur!“ sagði strákurinn og hljóp að kofanum. Ég elti. Þessu varð ég að fylgjast með. Inni í kofamyrkrinu sat Sirrí í hnipri og grét. Strákurinn hafði lagt handlegg yfir axlirnar á henni og hvíslaði: „Svona, svona, hundurinn kemur ekkert hingað.“
Þetta var svo viðkvæmt augnablik að mér fannst ég standa á gægjum eins og dóni. Áður en mér tókst að rjúka í burtu kom strákurinn auga á mig. „Vertu hjá Sirrí. Ég ætla að passa að hundurinn komi ekki nálægt henni,“ sagði hann og skreið út. Ég tróð mér inn, settist gegnt Sirrí og dró undir mig fæturna. Mölin undir okkur var hörð og köld. „Hvað var þetta?“ hvíslaði ég.
„Ég er svo hrædd við hundinn,“ sagði Sirrí og saug upp í nefið. Svo bætti hún snöktandi við: „Mér var strítt með hundum þegar ég var lítil.“
Það var samt ekki það sem ég vildi vita. „Hvaða strákur var þetta …“ Hvernig átti ég að orða þetta? „… sem hélt utan um þig?“
Sirrí skimaði út um litla kofagluggann til að fullvissa sig um að dýrið væri hvergi nálægt. Tár rann niður kinnina og sveigði inn á jafnfreknumstráð nef og á stráknum. „Siggi, bróðir minn,“ svaraði hún lágt.
Stelpa á sama aldri og ég hafði rétt í þessu setið í fangi bróður síns og grátið upp við gallajakkann hans. Honum hafði verið alveg sama. Hann hafði hvorki ýtt henni frá sér né sagt henni að hún væri aumingi. Hvaðan komu svona systkini?
„Í hvaða skóla eruð þið?“ afréð ég að spyrja.
„Fellaskóla,“ sagði Sirrí. „Ég fer í níu ára bekk næst en Siggi er að verða 12 ára. Það eru engir hundar í götunni okkar.“
„Eigið þið fleiri systkini?“
„Já, Helga er þriggja ára. Hún er samt ekkert hrædd við hunda. Það er bara ég sem er svo hrædd við þá,“ svaraði Sirrí. Hún togaði dökkan hárlokk í munnvikið og saug hann.
Mér var alveg sama um þessa hunda. Allir voru hræddir við eitthvað. Ég var hrædd við bróður minn. Hann var minn hundur. Hræddust var ég við allt sem hann sagði um mig við mömmu mína. Það eitt að koma að þeim saman á tali gat gert mig skíthrædda. Léti ég í mér heyra í brennó í frímínútum eða bæði um aðra kökusneið í afmæli gat ég átt á hættu að hann klagaði mig. „Það eru svo mikil læti í henni! Hún þarf alltaf að láta bera á sér!“ segði hann. Mamma hafði hótað að koma út í skóla og fylgjast með mér úti í frímínútum. Hún stæði við girðinguna, hafði hún sagt. Samt fór hún sjaldnast út úr húsi nema á bíl og þá með pabba því hún hafði ekki bílpróf.
Ég átti ekki að rétta upp hönd og segja neitt í tímum. Ég mátti ekki fara með vinkonum mínum í skátana og ekki heldur mæta á opið hús. „Þarft þú að fara?“ spurði mamma þegar ég sagði henni að það væri skemmtun úti í skóla. Það var eins gott að ég hafði ekki verið send í danstíma eða tónlistarskóla. Þá þyrfti ég að taka þátt í sýningum og tónleikum og hætt við að bæri á mér.
Ég hafði reynt að vera í brennó án þess að hrópa: „Hingað! Gefðu á mig!“ en það var erfitt. Allar hinar stelpurnar hrópuðu líka í hita leiksins. Næði bróðir minn að sannfæra mömmu um að ég hefði hagað mér illa talaði hún ekki við mig dögum saman. Ég náði ekki einu sinni augnsambandi við hana fyrr en henni var runnin reiðin. Ég lærði ekkert af þessu. Brennó hélt áfram að vera brennó og kökur héldu áfram að vera gómsætar. Ef ekki voru rúsínur í þeim var ég alveg til í aðra sneið, takk!
„Hundurinn er farinn! Einhver karl kom með hann og nú er hann farinn aftur með hann. Þér er óhætt núna, Sirrí!“ kallaði Siggi fyrir utan kofann og teygði höndina eftir systur sinni. Svona hefði bróðir minn bara sagt við mig ef hundurinn biði örugglega urrandi fyrir utan. Ég hefði aldrei treyst honum en Sirrí greip í hönd Sigga sem studdi hana á fætur. Ég tók aftur við snúsnúbandinu og leyfði henni að hoppa með hinum stelpunum. Hún jafnaði sig hægt og rólega og smám saman fór hún aftur að brosa.
Þóra birtist ekki aftur fyrr en síðdegis. Við settumst í rólurnar og dingluðum fótunum. Tærnar á strigaskónum rétt náðu niður á jörðina. „Hvernig var í bíltúrnum?“ spurði ég.
„Fínt,“ sagði hún. „Ég fékk nammi.“
„Áttu eitthvað eftir af því?“
„Nei, ég varð að borða það strax og mátti heldur ekki segja neinum frá því.“
„Svo þið María eigið leyndó,“ sagði ég stríðnislega.
„Já, en það er líka annað leyndó,“ sagði Þóra og mér sýndist hún dularfull á svipinn en var ekki viss því gleraugun voru svo óhrein. „Það verður danskeppni á kvöldvökunni á laugardaginn.“
Ég lét eins og ég væri hissa en ég hafði rekið augun í dagskrá innan á hurðinni í svefnskálanum. Þar hafði staðið: Kvöldvaka: Danskeppni – Leikir – Keppni.
„Við ættum að leika leikrit. Ég og þú,“ sagði Þóra.
Auðvitað ættum við að leika leikrit! Ég sagði strax já. Síðan teygði ég mig í gleraugun hennar Þóru og tók þau varlega af henni. Hún var með blá augu undir ákaflega ljósum augabrúnum. Ég andaði nokkrum sinnum á glerin, veiddi nærbolinn minn fram undan peysunni og pússaði þau áður en ég skellti gleraugunum aftur á nefið á henni. „Takk!“ sagði hún. „Við skulum ekki segja neinum frá leikritinu okkar. Við látum Maríu og nunnurnar ekkert vita fyrr en á laugardaginn. Það á að koma á óvart.“
Gott að Þóra ætti ekki bara leyndó með Maríu, heldur líka með mér. Við veltum því fyrir okkur hvað við gætum leikið. Þóra kunni alls kyns leikrit sem höfðu verið flutt í skólanum hennar en ég þekkti þau ekki. „Hvað með að leika eitthvert ævintýri?“ stakk ég upp á.
„Þyrnirós?“ spurði Þóra og ég sagði ókei. Þar með var það ákveðið.
Aftur heyrðist María kalla en nú var það ekki á Þóru, heldur Birgi, annan bræðranna í bláu peysunum. Nú var hann reyndar á gulum stuttermabol með Dýra úr Prúðuleikurunum framan á. Hann sat með bróður sínum og fleiri strákum og tálgaði en reis strax á fætur og hljóp til Maríu sem stungið hafði höfðinu út um eldhúsgluggann. „Hvað?“ spurði hann forvitinn. María rétti honum disk með leifum af gúllasinu sem hafði verið í hádegismat. Þegjandi fylgdumst við vinkonurnar með Birgi taka við disknum og stinga upp í sig matnum þar til ekkert var eftir. María blikkaði okkur glöð á svip. „Hann er alveg eins og ruslatunna!“ sagði hún og tók við tómum disknum. Birgir sneri aftur til strákanna eilítið þyngri á sér.
Það var ekki fyrr en ég sá hann setjast við hliðina á Helga að það þyrmdi yfir mig. Bróðir minn yrði auðvitað á kvöldvökunni og sæi mig þá leika. Hann segði mömmu að ég hefði látið á mér bera. Það yrði samt ekkert fyrr en ég kæmi heim – ég taldi á fingrum mér – tveimur dögum eftir leiksýninguna. Ég léti mig hafa þetta.
„Það er samt eitt, Þóra,“ sagði ég. „Við verðum að leika Þyrnirós hægt og rólega. Það mega ekki vera nein læti.“
„Hvað áttu við? Ertu með einhvern sjúkdóm?“ spurði Þóra og ýtti gleraugunum ofar á nefið á sér með því að skella lófanum þvert yfir glerin. Þau urðu strax aftur skýjuð.
„Nei, ég á bróður,“ glopraði ég út úr mér. Hún brá ekki svip, rótaði í mölinni með tánni og blés toppnum frá enninu á sér. Ég yrði að útskýra þetta aðeins betur. „Hann er líka hér í sumarbúðunum og það er mjög erfitt fyrir hann ef aðrir taka eftir mér.“
„Það er alltaf tekið eftir öllum sem eru lifandi og þú ert lifandi. Þú getur ekkert gert að því,“ sagði Þóra. Annað augað var alveg horfið á bak við fituský. Hitt fylgdist athugult með mér. Hún áttaði sig engan veginn á vandamálinu. Á hinn bóginn virtist hún heldur ekki hafa neinn áhuga á að hitta bróður minn.
Ég sagði Þóru að í fyrra hefðum við Agnes komið fram í dansatriði hjá eldri stelpunum. Þar næst sýndi ég henni hvernig við hefðum sveiflað höndunum eins og þær höfðu kennt okkur.
Þá hafði ég ekki velt því fyrir mér eitt andartak hvort ég ætti að vera með eða ekki, heldur slegið strax til. Nú þegar bróðir minn var staddur hér líka var eins og ég hefði aldrei farið að heiman. Ég var enn á skólavellinum með hann og klögurnar yfir mér. Kvíðinn lá eins og skán á húðinni og ég gat ekki þrifið hana af meðan hann væri hér. En já, ég var lifandi.
„Veistu hvað allir eiga síðan eftir að sjá á kvöldvökunni?“ spurði Þóra.
Ég hristi höfuðið svo ískraði í keðjum rólunnar sem ég hélt mér í báðum höndum.
„Okkur! Allir taka alltaf eftir þeim sem eru frábærir og leikritið okkar verður frábært. Bróðir þinn má engjast yfir því. Komdu!“ sagði Þóra og stóð á fætur. Ég elti hana út á grasbala þar sem við settumst á þúfur og rifjuðum upp söguna af prinsessunni sem stingur sig á snældu og sefur í hundrað ár.
Það var dimmt yfir næsta dag og strax að loknum morgunmat tók María Þóru með sér á Selfoss. Á meðan teiknaði ég með hinum krökkunum. Guðbjörg kenndi okkur Móniku að föndra gogg. Nunnurnar sátu hjá okkur, spjölluðu saman og prjónuðu.
Bróðir minn hafði sest eins langt frá mér og hann gat og var tekinn til við að líma saman marglita pappírsrenninga. Hann var ekki á heimavelli í föndri og ekki að sjá að hann hefði haldið áður á límtúbu. Einbeitingin var svo mikil að hann virtist ekki taka eftir því hvernig strákarnir sitt hvorum megin töluðu alltaf yfir hann. Það var erfitt að horfa upp á klaufaganginn og enn erfiðara að geta ekki bent bróður mínum á að honum gengi betur ef hann notaði minna af líminu.
Siggi og Sirrí sátu hlið við hlið og hjálpuðust að við að klippa og lita. Þau spjölluðu saman, skiptust á tússlitum, skærum og lími og hrósuðu hvort öðru: „Flott hjá þér!“ og „Hvernig ferðu að því að klippa svona beint?“ og „Ég skal sýna þér hvernig maður gerir.“
Þegar Þóra kom til baka var hún með munninn fullan af hlaupi. Andardrátturinn ilmaði af jarðarberjum.
„Var gaman?“ spurði ég og hún kinkaði kolli, enda kom hún ekki upp orði fyrir tuggunni. Ég skildi ekki hvað var gaman við að sitja með Maríu í bíl fyrst ekki var farið í sund.
„Áttu eitthvað eftir af namminu?“
Þóra hristi höfuðið.
Ég tók til við að kenna henni að gera gogg. Maður braut saman blað eftir kúnstarinnar reglum, skrifaði tölustafi utan á flipana og skemmtileg skilaboð innan á þá. Þú ert skemmtileg. Þú ert sniðug. Þú ert hugrökk.
Ég var niðursokkin í að finna fleiri hugmyndir þegar hönd var lögð á öxlina á mér. Ég leit upp. Þar stóð María. „Ég frétti að þið stelpurnar ætluðuð að leika Þyrnirós,“ sagði hún. Ég kinkaði kolli.
„Ég hlakka til að sjá leikritið,“ sagði María og gekk burt.
Ég hafði haldið að leikritið væri leyndarmálið okkar Þóru og ætlaði að fara að spyrja hana hvers vegna hún hefði sagt Maríu frá því þegar ég tók eftir því að hún hafði þrifið nýja gogginn minn og rak hann nú upp undir nefið á systur Regínu. Það var of seint að stöðva hana.
„Veldu þér lit!“ gall í Þóru og systir Regína benti hýr á svip á bláan.
„Veldu númer!“ sagði Þóra þá og systir Regína vildi þristinn.
Lok. Opn. Lok. Þóra fletti flipanum. „Þú varst að prumpa!“ las hún.
„Þetta er ekki fyndið!“ sagði systir Regína sem var alrangt því ég hló svo dátt að ég varð að skríða undir borð þar sem ég þóttist vera að leita að einhverju. Þóra skreið á eftir mér og þar lágum við í kút þangað til við höfðum jafnað okkur. Af og til gægðist einhver hinna stelpnanna til okkar og spurði hvort allt væri ekki í lagi. „Jú, við erum bara að leita að tússlit,“ svaraði Þóra á milli hláturshviða.
„Var Þyrnirós samt ekki leyndarmálið okkar?“ spurði ég hana þegar við treystum okkur loks til að setjast aftur. Systir Regína var á bak og burt og illúðlegur svipur bróður míns fór ekki framhjá mér. Fyrst hláturskast og síðan léki ég leikrit. Hann átti ekki von á góðu.
„Við María vorum að tala saman í bílnum þegar þetta datt allt í einu upp úr mér. Rétt eins og ég var allt í einu búin að …“ Og Þóra lækkaði röddina. „… segja systur Regínu að hún hefði prumpað.“
„Næst býrðu til þinn eigin gogg,“ sagði ég og aftur byrjuðum við að flissa.
„Nei, ég ætla að föndra fugla,“ sagði Þóra og teygði sig í vaxlitina sína. „Þeir verða leikmyndin okkar. Við hengjum þá upp í loftið inni í stofu og þá verður eins og við séum staddar úti í skógi.“
Næsta klukkutímann föndraði hún tuttugu gula fugla og ég annað eins af grænum.
Síðar um daginn laumuðumst við inn í svefnskálann. Þar bærðist stelpa með flensu undir sæng í einni kojunni. Ég kom mér fyrir úti á gólfi og ruddi upp úr mér ævintýrinu um Þyrnirós. Þóra brá sér samstundis í hlutverk prinsessunnar og þá vantaði bara prinsinn. Ég var hann. Það eina sem ég þurfti að gera var að finna sokkabuxur í farangrinum mínum og klæða mig í stuttbuxurnar yfir.
Þegar við sögðum einum rómi „Endir!“ í lokin reis veika stelpan upp við dogg og sagði rámri röddu: „Ekki segja endir. Allir þekkja ævintýrið og vita hvenær því er lokið. Þetta er samt mjög flott hjá ykkur.“ Svo fleygði hún sér aftur út af og sneri sér til veggjar.
Það var engin leið að sofna um kvöldið. Ylurinn og róin af faðirvorinu sem María hafði beðið með okkur voru löngu horfin. Allar stelpurnar voru í fastasvefni og andardráttur þeirra varð að jöfnu öldufalli. Líklega fengi bróðir minn að hringja heim strax annað kvöld til að segja mömmu tíðindin. Hún yrði þá þegar með allt á hreinu þegar hún sækti okkur og gæti vandað sig þessi ósköp við að virða mig ekki viðlits. Líklega var best að segja honum sem fyrst frá því sem hann átti von á, storma út á fótboltavöllinn á morgun og viðurkenna yfirvofandi glæp. Að ég væri lifandi og í mér heyrðist.
Nei, Þóru þætti ég algjör bleyða og það vildi ég ekki. Ég skyldi verða harðhaus eins og hún. Það var líka engum blöðum um það að fletta að mig langaði til að leika leikrit með henni. Kannski yrði ég leikkona þegar ég yrði stór. Maður lærði bara hlutverk, færi í búning og svo beint út á svið!
Stelpurnar voru þegar komnar í fötin sín þegar ég vaknaði næsta dag, grútsyfjuð eftir andvökurnar. Þetta var sólríkur og hlýr laugardagur. Umferðin hafði þegar aukist úti á veginum. Fólk þeyttist í sumarbústaðina sem uxu upp úr kjarrinu út um alla sveit. Alveg var ég viss um að flestir krakkar vildu frekar vera hér í sumarbúðunum að róla og leika sér, heldur en með foreldrum sínum í einhverjum bústað. Aldrei hugsaði ég um annað þegar ég var í okkar bústað en hvenær við færum aftur heim. Mamma vildi lesa, ráða krossgátur og vera í friði en pabbi fór stundum með okkur út á vatnið að veiða. Þá beið ég róleg á meðan þeir bróðir minn renndu fyrir silung. Mér fannst skemmtilegast þegar báturinn var á ferð. Það var hægt að sigla undir kletta og það var gaman. Þegar við stigum svo út úr bílnum við bústaðinn manaði pabbi okkur í kapp. Bróðir minn þaut af stað en ég lallaði á eftir honum. Hann gat orðið svo reiður ef ég vann hann.
Við Þóra tókum eina lokaæfingu úti á túni og allt gekk eins og í sögu. Prinsessan stakk sig á snældunni og féll endilöng í grasið. Nornin rak upp andstyggðarhlátur sem hljómaði eins og þegar kló krafsar bárujárn. Öll hirðin lak niður steinsofandi en loks bar prins að garði og þá var ekki að sökum að spyrja.
María gaf okkur leyfi til að fara inn í stofu til að klæða okkur í búningana og hengja upp fuglagerið með orðunum: „Auðvitað og, Þóra mín, ég veit þetta verður dásamlegt leikrit hjá þér!“
„Veit hún ekki að við erum báðar í leikritinu?“ spurði ég þegar María var farin.
„Jú, jú, þetta er bara eitthvað sem hún segir,“ sagði Þóra og yppti öxlum.
Litlu síðar flugu grænir og gulir fuglar um stofuna. Skógur hafði sprottið upp. Leikmyndagerðin varð til þess að við komum of seint í kvöldmat, lifur með kartöflumús. Það var líf og fjör við matarborðið. Fótboltastrákarnir töluðu hver upp í annan og ráku upp hvella hlátra. Allt í einu byrjuðu þeir að söngla nafnið á bróður mínum sem varð eldrauður í framan en sýnilega mjög glaður. Í ljós kom að hann hafði skorað sigurmark í fótboltaleik. Enn vissi hann ekki hvað beið hans og maginn í mér engdist sundur og saman af samviskubiti. Ég kom engu niður af kvöldmatnum. Annað en Þóra. „Þetta er rosalega góður matur,“ sagði hún með kartöflustöppu á gleraugunum. Hún kreisti á mér höndina undir borðinu og bætti við: „Bráðum leikum við leikrit! Besta leikrit í heimi!“
Fuglarnir voru það fyrsta sem krakkarnir ráku augun í þegar þeim var loks hleypt inn í stofuna. Sumir teygðu sig í þá en aðrir blésu létt á þá svo þeir titruðu. Tvær stólaraðir höfðu verið myndaðar meðfram veggjunum og svo yrði leikið í miðjunni. Þóra hafði tekið frá fyrir okkur sæti og stungið kórónunum undir þau. Við sátum beint á móti hvor annarri. María settist við hliðina á Þóru, lagði annan handlegginn yfir axlirnar á henni og hvíslaði einhverju að henni sem fékk hana til að brosa. Úti við vegginn gegnt mér sat bróðir minn í hópi vina sinna. Þeir vildu örugglega frekar vera úti á fótboltavelli í náttleysunni en hér. Ég vonaði að hann hefði ekki tekið eftir kórónunni undir stólnum eða að ég væri í stuttbuxunum yfir sokkabuxunum.
Fyrsta skemmtiatriðinu stýrði María sjálf. Hún byrjaði á að draga hendurnar upp úr peysuvösunum, benda út í salinn og óska eftir sjálfboðaliða. Þóra rétti strax upp hönd en María hristi höfuðið hægt. Þóra mátti ekki bjóða sig fram. Þá rétti Helgi upp hönd og María brosti breitt. „Gott, Helgi, sjáðu nú hvað ég geri!“ sagði hún.
Hún sótti stafla af matardiskum og raðaði þeim eftir gólfinu. „Þú átt að stika eftir gólfinu með bundið fyrir augu og mátt alls ekki brjóta neinn disk,“ hélt hún áfram.
Helgi leit undrandi til skiptis á diskana og Maríu. Tennurnar í henni voru svo jafnar að þær minntu á skot í byssubelti. Við krakkarnir teygðum fram álkurnar og fylgdumst forvitnir með. Ég var varla sú eina sem velti því fyrir mér hvað yrði gert við Helga ef honum yrði á að brjóta disk. „Farðu nú fram með systur Regínu. Hún ætlar að binda fyrir augun á þér,“ sagði María og systir Regína leiddi Helga þögul fram á gang. Um leið og dyrnar lokuðust að baki þeim fleygði María sér á fjóra fætur og tíndi aftur saman diskana. Kliður fór um krakkahópinn og einhver spurði: „Hvað ertu að gera?“
María lagði fingur á varir. „Ekki segja neitt! Ekki múkk!“
Helgi var leiddur aftur inn og nú með kyrfilega bundið fyrir augu. „Bannað að kíkja,“ sagði María við Helga og leit sposk til okkar krakkanna. Nunnan leiddi hann út á gólfið þar sem diskaslóðin hafði legið. „Nú máttu byrja!“ sagði María mjúkmál en bætti strax hvöss við: „Passaðu þig samt að brjóta ekki stellið mitt!“
Helgi, sem rétt hafði náð að teygja fram fótinn, kippti honum strax að sér aftur. „Svona, svona, hún er að grínast,“ sagði systir Regína lágt. Strákurinn rétti aftur úr fætinum, steig varfærnislega fram og léttirinn yfir að lenda ekki á disk og finna hann brotna undir ilinni á sér var auðsjáanlegur. Nú var sjálfstraustið meira og Helgi lék aftur sama leikinn. Það var eins og ósýnilegur danskennari stýrði honum: Fram með fótinn! Rétta úr tánni! Stíga niður!
Þetta var varfærinn og yfirspenntur dans. Það litla sem sást af andlitinu á Helga var eldrautt og svitablettir höfðu myndast á röndóttum stuttermabolnum. Kannski hafði Jesús einmitt fetað sig svona varlega áfram þegar hann gekk á vatninu, ekki alveg viss um að það héldi. Mér varð litið á Maríu. Hún var sest aftur og hélt fyrir munninn til að skella ekki upp úr. Loks var Helgi nær kominn út að vegg og engum duldist feginleiki hans þegar María kallaði: „Stopp! Þú mátt taka frá augunum!“
Helgi stóð grafkyrr og gleiðfættur eins og kúreki í einvígi með klútinn í höndunum og sneri sér hægt við. Hláturinn lék um Maríu eins og krampi. Hún rykktist fram og til baka. Enginn annar hló. Ekki nunnurnar. Ekki við krakkarnir og alls ekki Helgi. Hann þurrkaði svitann af enninu með klútnum og settist þegjandi við hliðina á Birgi, bróður sínum. „Hvað var þetta?“ spurði hann lágt og bróðirinn svaraði með því að yppa öxlum.
„Nú megið þið!“ sagði María við Þóru og þurrkaði sér um augun með handarbökunum. Það var komið að Þyrnirós! Þóra var þegar komin með kórónuna á kollinn og ég fálmaði eftir minni undir stólnum. Hún var horfin! Það var ekki fyrr en strákarnir fyrir aftan mig fóru að flissa að ég sneri mér við. Siggi hafði krýnt sig kórónunni og beið þess að upp um hann kæmist. Hann brosti kankvís og blikkaði mig með krosslagða arma á brjósti þegar ég tók kórónuna af honum. Heit í kinnum dreif ég mig út á gólf þar sem Þóra beið. Við tókum okkur stöðu og ég hóf upp raustina: ,,Einu sinni voru konungshjón sem þráðu að eignast barn …“
Krakkarnir, sem iðað höfðu eins og ormar á eldi nokkrum andartökum fyrr, fylgdust nú þöglir með þegar litla dóttirin birtist í brúðulíki og álfkonurnar komu hver á fætur annarri til veislu þar sem þær óskuðu henni heilla. Við Þóra undum okkur úr hlutverkum sögumanns og drottningar og urðum bljúgar og blíðar álfkonur þar til ég yggldi mig, lét augabrúnirnar síga og sveipaði um mig gráu teppi. Þar með steig sú fram sem ekki var boðið til veislunnar. „Stelpan á eftir að stinga sig á snældu og detta niður dauð!“ hvein í mér. Því næst fleygði ég frá mér teppinu og við Þóra gripum um höfuðið eins og við fyndum fyrir nístandi sársauka áður en við féllum í gólfið. Ég var fyrri til að rísa á fætur og var nú aftur orðin sögumaður. „Þyrnirós óx úr grasi og þegar hún var orðin fögur, stálpuð stúlka var hún eitt sinn á gangi …“
Út undan mér sá ég bróður minn skáskjóta á mig augunum undan hártoppnum á milli þess sem hann skimaði yfir krakkahópinn. Það var eins og hann tryði því ekki að hann væri staddur í krakkahópi sem fylgdist með mér flytja leikrit. Honum var nær að koma í sumarbúðirnar mínar! Ég var ekki lengur stelpa sem aldrei hagaði sér rétt og var þess vegna í lagi að fella í snjóinn. Ég var nornin sem situr við rokk og spinnur ull þegar Þyrnirós kemur aðvífandi. Þótt snældan væri ósýnileg fann ég greinilega fyrir henni í hendi mér þegar ég stakk henni í sólbrenndan handlegginn á Þyrnirós. Þar með hneig prinsessan sofandi í gólfið og þá kóngurinn, drottningin, kokkurinn, eldabuskan og bakaradrengurinn. Fyrst við vorum með bakaradreng fannst okkur í lagi að fáein íkornabörn slæddust með. Þyrnirós lá endilöng og svaf og sögumaðurinn var farinn að dotta líka þegar prinsinn birtist. Hann hélt fast um tauminn á viljugum hesti og varð að grípa í kórónuna svo hún fyki ekki af. Þegar yngri krakkarnir hlógu tók ég aukahring á fáknum um salinn og gaf aðeins í ólætin. Þá hlógu þeir enn meira.
En hvað var nú þetta? Sofandi prinsessa! Þarna lá hún og hafði víst gert lengi! Ég sá augun í Þóru bærast undir augnlokunum í gegnum kámug gleraugun. Ég laut niður að henni og bjó mig undir að reka henni kossinn sem allir biðu eftir. Þess í stað tók ég gleraugun af prinsessunni, pússaði þau á prinsastuttbuxunum mínum og setti þau svo aftur framan í hana. „Bara svo prinsessan sjái mig þegar hún vaknar!“ sagði prinsinn í trúnaði við áhorfendur sem skellihlógu. Svo smellti hann kossi á kinnina á henni. Þyrnirós settist upp við dogg og leit vönkuð í kringum sig. Prinsinn var ekki ofurseldur tvínóninu, heldur kynnti sig með hraði og bað hennar. Þyrnirós velti málinu eilítið fyrir sér áður en hún sagði: „Til í það!“
Leikritinu var lokið. Krakkar og nunnur klöppuðu en María gólaði: „Bravó!“ Hún stóð upp úr sætinu og klappaði eins og sæljón í sirkus, hægt en ákaft. Þetta var leiksigur og ekkert minna. Verst að við höfðum ekkert æft okkur í að hneigja okkur. Ég lét nægja að hneigja mig einu sinni og settist síðan aftur. Þaðan fylgdist ég með vinkonu minni hneigja sig aftur og aftur. Þegar hún leit upp beindust augu hennar aðeins að einni manneskju í áhorfendaskaranum, Maríu. Hún var bara að hneigja sig fyrir henni og María var bara að klappa fyrir Þóru. Ég hafði aftur á móti leikið fyrir sjálfa mig og á meðan ég brá mér í öll þessi hlutverk hafði ég loksins verið ég sjálf, stelpa sem stóð óhrædd fyrir framan annað fólk og sagði sögu.
Loks settist Þóra og stakk kórónunni aftur undir sætið sitt. Ég tók mína af mér, sneri mér við og setti hana á höfuðið á Sigga. „Þú ert svo flottur með hana!“ sagði ég. Bróðir minn hvessti á mig augun. Ég hafði talað við einn strákanna. Kannski voru þeir vinir. Ég horfði óttalaus á móti. Hér var ég á heimavelli. Ekki hann. Hinir krakkarnir kunnu vel við mig.
María var komin út á gólf. „Þetta var dásamlegt leikrit!“ sagði hún, spennti greiparnar og bar þær upp að brjósti sér. Hún stóð með lokuð augun eins og hún færi með hljóða bæn. Krakkarnir horfðu eilítið gáttaðir á hana en einmitt þegar skvaldrið tók að aukast opnaði María aftur augun. Þau voru tárvot. „Alveg dásamlegt,“ hvíslaði hún og ræskti sig. „Nú er komið að danskeppninni. Allir eiga að vera með. Við stöndum upp og gerum tuttugu sinnum svona.“ Hún hóf handleggina upp í loft og sveiflaði líkamanum, fyrst til hægri og síðan til vinstri. Þetta gat ég! Þetta yrði gaman! María sýndi líka fáein spor og þau voru heldur ekkert flókin. Keppnin sjálf gekk ekki út á að dansa fallega heldur að dansa sem hraðast. „Tuttugu sinnum með hægri, tuttugu sinnum með vinstri og svo með fótunum!“ sagði María og bað systur Regínu að kveikja á kassettutækinu. Systir Regína ýtti á einhverja takka en samt heyrðist engin tónlist. María reyndi að aðstoða hana og á meðan þær bjástruðu við tækið sá ég bróður minn standa á fætur. „Þá ætla ég að byrja,“ sagði hann við sessunaut sinn og það gerði hann. María og systir Regína sneru í hann baki og sáu því ekki hvernig hann hamaðist. Líklega átti þessi hraði betur við á fótboltavelli en dansgólfi. Það var ekki fyrr en Sir Duke með Stevie Wonder byrjaði loks að óma að María og systir Regína sneru sér við og sáu hvar bróðir minn stappaði niður fótunum. „Átján nítján tuttugu,“ taldi hann og settist svo aftur sigri hrósandi. „Vann!“
María virti hann ekki viðlits. „Jæja, ég tel,“ sagði hún og það gerði hún: „Einn og tveir og þrír!“ Þar með stóðum við öll á fætur og hófum dansinn – öll nema bróðir minn. Ég horfðist í augu við Þóru og saman töldum við í hljóði. Fyrir aftan mig heyrði ég Sigga hlæja með vinum sínum. Þeir höfðu engan áhuga á að sigra en því meiri á að skemmta sér.
Loks varð Ásdís, ein af eldri stelpunum, fyrst til að renna í gegnum dansinn. Hún var brúneygð með sítt dökkt hár í tagli sem féll yfir aðra öxlina. María klappaði aftur saman lófunum. Við hin lukum við dansinn og tjúttuðum síðan frjálst þangað til laginu lauk. Það var orðið heitt inni hjá okkur og létt svitalykt lá í loftinu.
María lét Ásdísi hneigja sig og kallaði hana „dansgyðju“. Hún stillti sér upp fyrir aftan hana og strauk henni um axlir og hár á meðan hún spurði hana hvort hún æfði kannski dans. Og jú, Ásdís var einmitt í dansi! María réði sér ekki fyrir gleði. „Mér sýndist það líka! Við erum með dansara á meðal okkar!“ hrópaði hún. Aftur klöppuðum við og það var ekki fyrr en þá sem ég veitti því athygli að bróðir minn grét. Hann sat kýttur í sætinu sínu og nötraði af gráti. „Það var ég sem vann,“ sagði hann lágt á milli ekkasoganna. Sessunauturinn benti á bróður minn með þumlinum og sagði vandræðalegur við Maríu: „Hann segist sko hafa unnið.“
„Hvaða vitleysa! Það var ekkert búið að telja í dansinn!“ sagði Ásdís hvöss svo taglið sveiflaðist.
„Já, þú svindlaðir,“ sagði María ísköld við bróður minn. Krakkarnir horfðu hljóðir á hann, sumir undrandi en aðrir hneykslaðir. Loks gekk systir Regína yfir til hans, studdi hendi á öxlina á honum og sagði: „Svona, svona.“ Bróðir minn brá handarbakinu undir hor sem lak úr nefinu á honum. Eitt andartak horfði hann yfir til mín en ég leit undan. Óvænt samúð hafði kviknað innra með mér en rétt eins og ég hafði þurft að bægja hatri hans frá mér skyldi ég flæma hana burt.
„Komdu og taktu við verðlaununum þínum!“ tilkynnti María og Ásdís tók stolt við súkkulaðiplötu. Þá var ekkert annað eftir en að standa öll á fætur og fara sama saman með faðirvorið. Þar með var kvöldvökunni lokið.
Við Þóra leiddumst saman út í svefnskálann. „Þetta var alveg jafngaman og ég hélt að það yrði,“ sagði hún. „Og takk fyrir að þrífa gleraugu prinsessunnar!“
Bróðir minn dróst aftur úr. Þótt hann væri hættur að gráta héldu hinir strákarnir sig í öruggri fjarlægð. Hann yrði að skora fleiri mörk til að öðlast aftur aðdáun þeirra.
Algjör stilla ríkti yfir sveitinni. Vegurinn auður. Fuglar þögðu.
Einhver kom aftan að mér svo ég sneri mér snöggt við. Það var Siggi sem skellti kórónunni á höfuðið á mér. „Þú átt hana skilið. Þú varst æði,“ sagði hann og flýtti sér að bæta við: „Og þú líka, Þóra!“ Svo tók hann á sprett inn í strákaskálann.
Ég var ekki bara systir bróður míns. Ég var vinkona Sigga og ég var vinkona Þóru en líka sögumaður, norn og prins. Ég gat valið sjálf hver mig langaði að vera næst.
Daginn eftir bauð María Ásdísi í sunnudagsbíltúr. Við Þóra róluðum okkur án þess að segja margt. Eitthvað braust um í kollinum á henni. Það var ekki fyrr en hún fann karamellu í jakkavasanum að hún varð aftur eins og hún átti að sér að vera. „Viltu?“ spurði hún og veifaði namminu framan í mig.
„Þú mátt alveg borða hana sjálf,“ svaraði ég.
Þóra tók utan af karamellunni og stakk henni upp í sig. Ég hóf upp raustina og söng ein um Jósep þar til hún hafði kyngt tuggunni og gat loksins tekið undir með mér.