Skyrtan

Bragi Ólafsson

FYRRI HLUTI

(Aðalpersónur: tveir karlmenn og ein kona. Öll stödd í höfuðborg Tékklands, Prag; ég ímynda mér að þetta gerist í júní eða júlí. Annar mannanna er Þjóðverji að nafni Bastian, á miðjum fimmtugsaldri. Hann er ferðamaður í borginni, nýskilinn við eiginkonu sína eftir tuttugu ára barnlaust hjónaband. Þegar hann birtist fyrst á þessum blaðsíðum gefur yfirbragð hans til kynna að hann njóti þess að vera einn og ekki upp á aðra kominn; frjáls til að taka ákvarðanir sem honum leyfðist ekki að taka í sambúðinni við eiginkonuna fyrrverandi, meðal annars þá hversdagslegu ákvörðun sem óbeint leiðir til þess að hann kynnist annarri af hinum aðalpersónunum.
 Þær persónur, maðurinn og konan, eru hjón frá Íslandi, einnig gestir í Prag. Þau eru á svipuðum aldri og Þjóðverjinn Bastian; þau dvelja á fallegu hóteli í miðborginni, eru nýkomin til landsins og ætla sér í framhaldi af vikulangri Prag-dvölinni að taka lest niður til Vínar í Austurríki, þar sem þau fá afnot af íbúð í eigu vinnufélaga mannsins. Hjónin eiga hvort sitt barnið heima á Íslandi, dóttur og son á miðjum þrítugsaldri – saman eiga þau engin börn. Konan heitir Aðalbjörg, kölluð Allý; hún starfar sem hárgreiðslukona á stofu í svokölluðu fjármálahverfi Reykjavíkur; hann, maðurinn – Lárus, kallaður Lalli – er einhvers konar ráðgjafi hjá eignarhaldsfélagi í sama hverfi. Þau kynntust fyrir þremur árum á kaffihúsi í hverfinu, og hafa búið saman í rúmt ár, í Vesturbænum, þar sem börn þeirra búa einnig; dóttir Aðalbjargar og sonur Lárusar, hvort um sig með manneskjum af sama kyni og þau sjálf.
 Sem sagt: allt fremur nútímalegt. Líka það sem snýr að Þjóðverjanum Bastian. Öðru gildir um það sem á eftir að gerast á næstu blaðsíðum – á einhvern hátt finnst mér eins og það eigi heima í mun eldri sögu, þótt þetta eigi að gerast í nútímanum. Jafnvel titillinn, Skyrtan, hljómar eins og titill á rússneskri smásögu frá því um þarsíðustu aldamót eða fyrr; en einnig nær í tíma, til dæmis frá neðanverðri tuttugustu öldinni – mér verður í því sambandi hugsað til hinnar örstuttu smásögu rússneska metsöluhöfundarins Mikhails Zostsjenko um týnda stígvélið. Og líka – sem ég man allt í einu eftir núna – enn styttri sögu sama höfundar um skyrtuna sem hljóp í þvotti, sem skrapp saman um heil 6 númer, frá 38 niður í 32.
 Ég hafði upphaflega ætlað mér að kalla þessa sögu mína þeim grípandi titli Ég hitti mann; en fyrst ég hef núna sagt frá þeirri hugmynd minni, og þar með látið uppi, að minnsta kosti gefið í skyn, að einhver persóna sögunnar „hitti mann“, er ég sáttur við hinn látlausa titil Skyrtan. Hæfilega óspennandi, og verður jafnvel enn meira svo þegar kemur að því að lýsa lit skyrtunnar sem um ræðir. Reyndar er ekki alveg rétt að aðalpersónurnar séu þrjár, því undir lokin bætist við sú fjórða, sem ég hef enn ekki mótað í huganum eins skýrt og hinar þrjár, þótt ég viti hvert hlutverk hennar er.)

1. kafli

Lárus og Aðalbjörg eru nýkomin inn á hótelherbergið. Þau taka upp úr töskunum, hengja skyrtur og jakka á herðatrén í fataskápnum; fara saman í sturtu, og í framhaldi af því í rúmið. Slík er ánægja þeirra með herbergið – og hvort annað í brakandi ferskum og hvítum sængurfötunum – að þau fresta því að fara í bæinn, eins og þau höfðu talað um að gera sem fyrst. Þau langar til að liggja lengur í rúminu, að byrja dvölina í borginni á því að fara á kojufyllerí um miðjan dag. Sú ákvörðun kallar aftur á móti á eitthvað til að drekka; þau höfðu ekki keypt neitt vín í fríhöfninni, nema sterkt, og í staðinn fyrir að „rústa míníbarnum“ tekur Lalli að sér að skreppa út í kjörbúð sem þau höfðu séð í næstu götu, þegar þau nálguðust hótelið í leigubílnum.
 „Bara eitthvað vín og smá osta,“ segir Allý, á meðan Lalli gerir sig kláran til að fara út. „Og freyðivín. Helst kalt. Og kannski gos og safa til að eiga í kælinum.“

Þegar Lalli á aðeins nokkra metra eftir að kjörbúðinni kemur hann auga á búð hinum megin götunnar, sem lítur út fyrir að selja notuð föt. Á slá fyrir utan búðina hanga jakkar og skyrtur í mun fleiri litum en regnboginn telur; og án þess að hugsa sig lengi um ákveður Lalli að kíkja þarna inn – bara rétt að reka inn nefið, sem ætti ekki að taka nema tvær til þrjár mínútur. Þegar hann opnar dyrnar á vel upplýstri búðinni tekur á móti honum kunnugleg lykt – lykt sem hann hefur þó ekki fundið lengi, enda langt síðan það hefur hvarflað að honum að skoða eða kaupa, og þaðan af síður klæðast einhverju notuðu, einhverju sem áður hefur hulið nekt annarrar manneskju.
 Hið þunga sambland fúkka og ilmvatns – eða kannski öllu heldur fúkka og þvottaefnis – fer með hann í huganum ofan í kjallara á Vesturgötu (gott ef sú búð hét ekki einfaldlega Kjallarinn), þar sem hann keypti síðast notaða flík. Það gerðist fyrir um það bil aldarfjórðungi, þegar hann keypti dökkbrúnar flauelsbuxur og mosagræna hermannaskyrtu – skyrtu sem móðir hans hafði fleygt í ruslið stuttu síðar, án þess að láta hann vita. Hún hafði síðan játað fyrir honum verknaðinn, og látið hann hafa margfalda þá upphæð sem hann borgaði fyrir skyrtuna, til að hann gæti keypt sér eitthvað nýtt, eitthvað sem ekki lyktaði eins og hann kæmi frá heimili þar sem hreinlæti væri ábótavant. Móðir hans hafði auk þess lýst yfir vanþóknun sinni á því að sonurinn bæri utan á sér þýska fánann, en á báðum ermum skyrtunnar var það tákn saumað í efnið.
 Það vill svo til að ein af fyrstu flíkunum sem fangar athygli Lalla þegar hann gengur inn í búðina er sambærileg skyrta og móðir hans hafði fleygt, nema að þessi sem hann sér er blá, augljóslega upplituð; og litlu pjötlurnar með þýsku fánalitunum hafa greinilega verið plokkaðar af; þær hafa skilið eftir sig dökkan blett sem ekki hefur náð að upplitast.
 Lalli spyr sjálfan sig þeirrar spurningar hvort hann hefði áhuga á svona skyrtu núna, aldarfjórðungi síðar; og svarar henni með því að hugsa til Allýjar.
 Nei.
 Eða jú. Hann hefði sjálfur ekkert á móti því að eiga svona skyrtu. Að vísu væri hún of þykk og hlý fyrir loftslag Mið-Evrópu á þessari stundu, og skynsemin segir honum að líta frekar á þynnri skyrtur sem hann sér á langri slá við vegginn hægra megin í rýminu. Þegar hann flettir í gegnum úrvalið gýs upp enn sterkari fúkkalykt en áður. Honum finnst það reyndar góð lykt, en minnir sig aftur á hver viðbrögð Allýjar yrðu ef hann mætti með svona flík upp á hótelherbergi – þau höfðu einmitt talað um hversu góð og fersk lyktin væri þar: einhvers konar blanda af sítrónu og kryddi, sem hvorugt þeirra kom fyrir sig hvað gæti verið.
 Flestar skyrturnar á slánni líta út fyrir að hafa verið framleiddar fyrir hrun kommúnismans í Evrópu – sumar þeirra vekja bros í huga Lalla – en þegar hann kemur út á enda slárinnar staldrar hann við skyrtu sem samstundis vekur upp í honum ótta við að hann muni ekki geta hugsað sér að yfirgefa búðina án þess að kaupa eitthvað. Þetta er ljósblá eða daufgræn flík, svolítið eins og sápa á litinn; og þegar hann lyftir henni á herðatrénu af slánni og strýkur efnið segir hann með sjálfum sér að svona efni myndi henta mjög vel fyrir hitann úti á götu. Það er í raun fínt og gróft í senn, og létt eins og fis. Það lítur heldur ekki út fyrir að vera gerviefni. Fliparnir að vísu svolítið stórir, og dökkrauðar tölurnar í einhverju furðulegu ósamræmi við litinn á efninu. En samt. Honum finnst þetta falleg skyrta – það er eitthvað sérstakt við hana, sem hann tengir bæði eigin æsku og liðnum tíma í Mið- eða Austur-Evrópu – og tilhugsunin um að kaupa notaða flík á þessum slóðum finnst honum ekki minna spennandi.
 Skyrtan kostar ekki nema sjö evrur. Þegar Lalli skoðar miðann með upplýsingum um stærð, efni og þvott, sér hann að skyrtan er í stærðinni medium, úr 80% bómull á móti tuttugu prósentum af einhverju efni sem hann veit ekki hvað er. Ef hann léti eftir sér að kaupa skyrtuna gæti hann laumað henni óséðri inn á hótelherbergið, því nánast ekkert færi fyrir henni ef hann bryti hana saman. Hann myndi síðan koma henni fyrir í efra hólfi ferðatöskunnar, sem er lokað með rennilás, og lítil hætta á að Allý fari með fingur sína eða augu þangað. Hún þyrfti ekki að komast að kaupunum fyrr en hann klæddi sig í skyrtuna einhvern tíma síðar – og kannski best að leyfa svolitlum tíma að líða þangað til. En auðvitað þyrfti hann þá að útskýra hvaðan flíkin kæmi; og ef hann segði henni sannleikann, hvað þá?
 Hann nemur staðar í þessum hugsunum; hann veit að þær leiða ekki til neins – ekki til annars en þess að þegar á hólminn kæmi yrði hann beðinn um að losa sig við skyrtuna – hann myndi í raun hafa farið á bakvið Allý. Hún – skyrtan – yrði þó allavega komin í höfn, hvað sem síðan gerðist.
 Orðið höfn minnir Lalla á að hann getur ekki leyft sér að tefja lengur í búðinni. Hann verður að koma sér aftur yfir götuna, og helst að vera snöggur – Allý hlaut að búast við honum á hverri stundu.
 Kjörbúðin stenst allar væntingar, þótt hún sé lítil og þröng. Lalli er fljótur að velja vörurnar í körfuna, og enn fljótari að láta afgreiða sig, því einhverra hluta vegna er eins og maðurinn við kassann – Kínverji, ímyndar Lalli sér – vilji losna við hann úr búðinni sem fyrst. Sá fyrrnefndi gefur sér ekki einu sinni tíma til að þakka fyrir viðskiptin. Lalli gengur síðan út með kippu af tékkneskum bjór og fjórar vínflöskur í tveimur þunnum plastpokum, þar á meðal freyðivínsflösku með miða sem hann er viss um að sé á litinn eins og skyrtan í búðinni hinum megin götunnar, þessi flík sem enn er efst í huga hans; sem í raun lætur hann ekki í friði. Ofan í pokunum er líka ostur og saltkex til að hafa með ostinum. En ekkert gos eða safi – hann gerir sér grein fyrir því þegar hann gengur inn um hóteldyrnar.

2. kafli

Í lyftunni upp á fjórðu hæð verður Lalli samferða manni sem er á leiðinni upp á sömu hæð; einstaklega myndarlegum, hávöxnum og vel klæddum manni, sem býr til þá mynd í huga Lalla að hann sé í senn kvennamaður og útfararstjóri. Það er eitthvað í fari þessa manns – hvernig hann stendur sperrtur og beinn í baki – sem fær Lalla til að sjá hann fyrir sér leiða göngu með kistu látinnar manneskju í átt frá altarinu. Hann er í ljósgulum eða drapplitum hörjakkafötum, dökkbláum bol og hvítum strigaskóm – og hvernig hann heilsar Lalla brosandi gefur í skyn óbilandi sjálfstraust. „Þetta er maður sem hefur ekki tölu á öllum þeim konum sem hann hefur sofið hjá um ævina,“ hugsar Lalli, um leið og hann kímir yfir þeirri hugsun að maðurinn starfi sem skipuleggjandi útfara, á milli þess sem hann heillar og sogar til sín konur, oftar en ekki með því að láta þær vita við hvað hann vinni. Hann er ekki beinlínis dökkur yfirlitum, en þó með svart, þykkt hár og dökka skeggrót; hann er líklegri til að vera frá Norður- en Suður-Evrópu – sem svo staðfestist í huga Lalla þegar þeir stíga út úr lyftunni, og maðurinn þakkar honum fyrir – fyrir hvað? Lalli lætur sér detta í hug að þetta sé Þjóðverji eða Hollendingur.
 Þeir ganga síðan samhliða eftir hótelganginum – það kemur í ljós að maðurinn er í næsta herbergi við þau Allý.
 „See you later,“ segir hann, þegar hann opnar hjá sér dyrnar; og Lalli tekur undir það:
 „Yeah, sure,“ segir hann. Og hleypir sér síðan sjálfum inn.

„Þú varst ekki lengi,“ segir Allý glaðhlakkalega, þegar Lalli kemur með plastpokana inn á herbergi.
 „Nú, var það ekki? Ég þurfti einmitt að bíða svo lengi í búðinni. En veistu hvað? Við erum með útfararstjóra hérna í næsta herbergi.“
 „Hvernig veistu?“
 „Ég hitti hann í lyftunni. Hann var að gera mér tilboð.“
 „Í útför?“
 „Okkar beggja. Hann bauð mér tvær á verði einnar. En sjáðu hérna,“ heldur Lalli áfram, og lyftir freyðivínsflöskunni upp úr öðrum pokanum. „Hvað finnst þér um þennan lit?“
 „Af hverju spyrðu að því?“
 „Bara. Þetta er svo fallegur litur. Ég sé hann einhvern veginn fyrir mér á bol eða skyrtu.“
 „Þetta er bara eins og freyðibað, “ svarar Allý, og vill fá að vita meira um manninn í næsta herbergi.
 „Hann var jafn beinn í baki og viðskiptavinir hans eru framlágir. Reyndar ekki í eins formlegum klæðnaði og þeir.“
 Það hvarflar að Lalla að segja henni frá skyrtunni sem hann skoðaði, en hann lætur nægja að segja henni frá búðinni; að hann hafi séð second-hand-fatabúð handan götunnar við kjörbúðina, sem hafi virkað svolítið spennandi utan frá – hvort það væri ekki gaman að kíkja þangað saman, til dæmis seinna um daginn?
 „Hún lokar klukkan sex,“ bætir hann við.
 „Fórstu inn í hana?“
 „Nei. Ég sá bara yfir götuna að þetta var svona second-hand búð. Það voru föt á slá fyrir utan.“
 „Væntanlega hengd þar til að ná mestu fúkkalyktinni úr þeim.“
 Viðbrögð Allýjar koma Lalla ekki sérlega á óvart.
 „Þetta leit allt mjög snyrtilega út,“ segir hann, en fær þá það svar að hann líti mjög snyrtilega út – „hvers vegna að reyna að eyðileggja það með einhverjum fötum af dauðu fólki?“ Og þegar hann reynir að malda í móinn, án þess þó að virka of ákafur – það sé ekki mjög líklegt að hann sé að fara að kaupa föt þarna – svarar Allý:
 „Hefur þú, Lárus Óskarsson, einhvern tíma séð mig í einhverju second-hand? Ég er ekki að líkja mér við hana móður þína, en …“ Hún ákveður að hafa ekki setninguna lengri.
 „Ég á einmitt inni svona second-hand skyrtu,“ segir hann. „Ég hef ekki beðið þess bætur að henni var fleygt í ruslið.“
 „Þú fékkst þó að halda buxunum sem þú keyptir – sagðirðu mér það ekki?“ spyr Allý brosandi, og minnir Lalla á að þau séu að fara á kojufyllerí. „Með viðkomu í freyðibaði. Þeir eru með svoleiðis sápu inni á baði, sástu það?“
 Lalli rifjar upp með sjálfum sér lyktina í fatabúðinni, og á meðan hann setur bjórinn og hvítvínið í ísskápinn – og samþykkir hugmynd Allýjar um freyðibaðið – lætur hann fylgja með, eins og í aukasetningu, að þau kíki allavega í þessa búð daginn eftir.
 „Láttu bara renna í baðið,“ segir Allý skipandi. „Og opnaðu flöskuna.“

3. kafli

Þau vakna mjög snemma morguninn eftir, enda höfðu þau sofnað fljótlega eftir kvöldverð á veitingastað í nágrenni hótelsins, uppgefin eftir fyrsta dag dvalarinnar. Sem var vel heppnaður dagur, eins og þau rifja upp nývöknuð; þau höfðu „staðið sig vel“ á kojufylleríinu; klárað þrjár af flöskunum fjórum – freyðivínið í baðinu – og farið snemma út að borða, til að koma sér á réttan kjöl eftir allt vínið.
 Fyrst á dagskrá þessa nýja dags er að fara í morgunverð, síðan á safn um sögu tékknesks kommúnisma; og því næst í fatabúðina, sem Lalli gantast með að sé stórhættuleg ákvörðun í framhaldi af heimsókninni í safnið; þau muni örugglega finna einhver föt frá sovéttímanum og freistast til að kaupa minjagrip í formi notaðrar skyrtu eða jakka.
 En fyrst: morgunverðurinn.
 „Ég er ekki að fara að kaupa neitt í þessari búð,“ segir Allý, og stingur upp í sig sneið af hálfbrenndu fleski. „Og þú ekki heldur,“ bætir hún við. „Ætlarðu að lofa mér því?“
 En Lalli lofar engu. Hann lætur nægja að senda Allý fingurkoss yfir borðið, og bendir henni á að þurrka fitu við munnvikið.

Sýningin um kommúníska Tékkóslóvakíu gleður þau mikið, ekki síst í ljósi þess að þjóðirnar tvær, Tékkar og Slóvakar, séu í dag frjálsar undan hinu fjögurra áratuga oki sem sýningin fjallaði um. En fyrst og fremst finnst þeim áhugavert og fyndið að skoða yfirbragð og útlit þeirra tíma – þau hrífast einna mest af kjörbúðarinnréttingu frá áttunda áratugnum, þar sem mest lítið er á boðstólum, og ráðandi litur ekki ósvipaður og á skyrtunni sem væntanlega bíður enn eftir Lalla í fatabúðinni, falin undir hinni skyrtunni sem hann hafði breitt yfir hana.
 Það er ekki nema fimm mínútna labb í búðina frá safninu. Fatasláin fyrir utan vekur sérstaka athygli Allýjar, því þar hangir meðal annars svipaður pels og hún á heimafyrir. Hún lyktar af pelsinum, eflaust í þeirri von að finna einhverja gamla lykt; en það er ekki fyrr en þau koma inn í búðina að hún minnist á eitthvað slíkt – og Lalla kemur skemmtilega á óvart að heyra hana játa fyrir sjálfri sér að þetta sé „nú svolítið fyndin lykt“; það gefur honum veika von um að hún verði jákvæðari gagnvart því að kaupa eitthvað.
 Á meðan Allý skoðar slár með kvenfötum framarlega í rýminu fer Lalli rakleiðis í að kanna hvort þetta „eitthvað“ sem hann hefur í huga sé nokkuð horfið; og sér að skyrtan er enn á sínum stað, þótt hin sem hann hafði breitt yfir hana virðist vera farin. Hann tekur ljósbláu skyrtuna af herðatrénu, brýtur hana saman, og ákveður að leyfa smá tíma að líða þar til hann sýnir Allý hana. Hann staldrar aðeins við hjá jakkaúrvalinu, og því næst hjá slá með frökkum, sem flestir líta út fyrir að hafa verið notaðir í hernaði á fyrri hluta síðustu aldar. Hann lítur um öxl, og þegar hann horfir á baksvip Allýjar nálægt afgreiðsluborðinu, og sér að tjaldið fyrir mátunaraðstöðunni innst fyrir miðju er dregið frá, bregður hann sér inn í klefann.
 Á snögum vinstra megin við spegilinn hanga nokkrar flíkur, þar á meðal dökkblá gallaskyrta, sem um leið og Lalli lyftir henni af snaganum byrjar að freista hans. Ekki nema fimmtán evrur, segir á miðanum sem hangir niður úr innanverðum flipanum. Hann ákveður að máta þessa fyrst, en heyrir þá rödd Allýjar.
 „Lalli!“
 Hann dregur frá tjaldið og nær athygli hennar.
 „Verð enga stund,“ segir hann hálfhvíslandi.
 „Hvað ertu að gera?“ spyr hún.
 „Bara upp á sportið,“ svarar hann brosandi, og fylgist með Allý taka stefnuna í átt að útidyrunum, áður en hann dregur tjaldið aftur fyrir.
 Dökkbláa skyrtan smellpassar. Það hvarflar að honum að ef til vill ætti hann frekar að biðja um samþykki Allýjar fyrir þessari skyrtu; hann gæti byrjað á að sýna henni hina – sem hann er þegar byrjaður að máta – og notað þá taktík að fyrst hann megi ekki kaupa þessa ljósbláu fái hann hina í staðinn (jafnvel þótt hún sé átta evrum dýrari, sem er auðvitað engin upphæð).
 En svo kemur í ljós að sú ljósbláa fer honum enn betur en gallaskyrtan. Það er eins og þessi litfagra og létta skyrta hafi beðið eftir honum sérstaklega, hugsar hann; hann ákveður að segja við Allý að hann hafi beinlínis fæðst inn í þessa skyrtu – hann ímyndar sér að slík vísun til barnæsku sinnar geti haft áhrif. En fyrst hyggst hann sýna Allý hina skyrtuna. Hún er komin út á gangstétt, og hann skilur báðar skyrturnar eftir ofan á stafla af ljósbláum Levi´s-gallabuxum nálægt dyrunum. Svo biður hann Allý að kíkja inn með sér í hálfa mínútu.
 Hún lætur það eftir honum með semingi; og þegar hann sýnir henni dýrari skyrtuna – „Hugsaðu þér: ekki nema fimmtán evrur,“ segir hann – mætir honum ákveðinn svipur, sem síðan er ítrekaður með því að hrista höfuðið.
 „Nei, Lalli. Why?“
 „Af því hún er flott.“
 „Hún er ekki flott, Lalli.“
 Hann veit að þessi fyrri hluti baráttunnar er tapaður, og dembir sér í þann seinni, áður en Allý brestur þolinmæðina.
 „En sjáðu þessa,“ segir Lalli, án þess að láta það hljóma of áhugasamt. Hann lyftir ljósbláu skyrtunni upp að brjóstinu. „Það er beinlínis eins og ég hafi fæðst inn í hana.“
 Allý virðir skyrtuna fyrir sér, og eitt augnablik eygir Lalli örlitla von. En ekki nema augnablik.
 „Þú varst ekki fæddur þegar þessi skyrta var búin til,“ segir Allý þreytulega. „Og sá sem átti hana ábyggilega dauður.“
 „Er þetta ekki sami litur og á freyðivínsflöskunni frá í gær? Þetta minnir líka á búðina á safninu.“
 „Jú, Lalli. Þetta minnir líka á ýmislegt annað.“
 „Eins og hvað?“
 „Það er einhver ógæfa yfir þessum lit.“
 „En finndu efnið í henni. Þú finnur ekki svona efni allsstaðar.“
 „Nei, alveg örugglega ekki. En þú finnur það hér í Prag. Í búð sem selur gömul föt.“
 „En finndu þetta,“ ítrekar Lalli.
 „Mér nægir að horfa,“ segir Allý. „Ég þarf ekki að snerta þetta. Ég skil við þig ef þú kaupir þessa skyrtu.“
 Hin léttvæga merking þeirra orða, þegar horft er á þau á prenti, verður öllu þyngri með þeim svip Allýjar sem fylgir orðunum; svip sem Lalla hefur fyrir löngu lærst að felur í sér alvöru.
 „Hún kostar ekki nema rúmlega þúsundkall íslenskar,“ heldur hann áfram, en veit um leið að þau rök eru einskis virði í huga Aðalbjargar Höskuldsdóttur.
 „Þetta er ekki spurning um hvað hún kostar,“ segir hún. „Ég ætla ekki að koma í veg fyrir að þú kaupir þessa hræðilegu flík, en ef ég sé þig í henni, þá er ég farin.“
 „Farin hvert?“
 „Bara farin.“
 „Upp á hótel?“
 „Fyrst þangað, já.“
 „Og hvað ætlarðu að gera þar?“
 „Pakka niður.“
 „Fara frá mér?“
 „Já. Á eitthvert annað hótel. Nema að það verðir þú sem ferð á annað hótel. Með þessa skyrtu þína.“
 „Ég er ekki ennþá búinn að kaupa þessa skyrtu, Allý.“
 Líklega er óþarfi að halda áfram með þetta samtal þeirra hjóna – og sömuleiðis nokkuð sjálfgefið hvaða tilfinningar bærast í brjósti þeirra hvors um sig – en niðurstaðan verður sú að Lárus skilur báðar skyrturnar eftir í búðinni. Hann leggur jakkaskyrtuna frá sér ofan á slána með léttari skyrtunum, en treður þeirri ljósbláu undir gallabuxnastaflann. Allý bíður eftir honum í sólskininu á gangstéttinni fyrir utan, og þau verða sammála um að setjast niður á krá um það bil miðja vegu milli hótelsins og búðarinnar. Þau dvelja ekki lengi á kránni, og gæta sín á að ræða ekki frekar þá ógn sem virtist stafa af löngun Lárusar til að kaupa notuðu skyrtuna; en eitthvað óþægilegt liggur í loftinu.

4. kafli

Þegar þau koma aftur á hótelið er staddur í móttökunni tíu til fimmtán manna hópur japanskra karlmanna – engin spurning að þeir eru Japanir – sem allir virðast vera að bíða eftir að tala við þá tvo starfsmenn sem standa hinum megin við borðið. Allý hafði ætlað sér að spyrja þau í móttökunni um eitthvert atriði (sem er óþarft að nefna hér), svo þau ákveða að bíða eftir að Japanirnir fái leyst úr sínum málum. Þau veita athygli manni í hópnum, sem klæddur er köflóttum buxum og pólóbol, eins konar golfklæðnaði, en augljóslega ofurölvi – hann stendur varla í lappirnar. Hann er ítrekað við það að missa jafnvægið, án þess að fá stuðning frá félögum sínum, sem standa þó nokkuð þétt saman við móttökuborðið. Þau láta sér detta í hug að Japaninn hafi fengið sér of mikið í flugvélinni – hópurinn hefur greinilega verið að koma til landsins, því til hliðar við móttökuna, á ganginum inn að veitingastaðnum og lyftunum, er fjöldi stórra ferðataska, nánast allar af sömu stærð og í sama lit.
 Lalli fær þá hugmynd, sem hann orðar við Allý, að fá sér einn snaps á barnum gegnt móttökunni; þau sjá fram á að þurfa að bíða svolitla stund. „Ókei, ég bíð hérna,“ segir Allý, og Lalli færir sig yfir á barinn og biður um eitthvað sterkt, eitthvað tékkneskt. Barþjónninn gefur sér tíma til að velja réttu flöskuna, og þegar hann hellir einhvers konar perulíkjör í staup fylgir því skilningsríkt bros; og með vísun til þess að Lalli sé greinilega að bíða eftir afgreiðslu í móttökunni:
 „On the house.“
 „Takk fyrir það.“
 En Lalli hefur vart sleppt orðinu þegar hann sér að inn um hóteldyrnar kemur maðurinn sem hann hitti í lyftunni daginn áður – útfararstjórinn. Lalli lætur sér detta í hug að maðurinn muni taka eftir sér við barborðið, að þeir muni ef til vill eiga svolítið spjall, en það verður strax ljóst að þessi nágranni þeirra Allýjar á fjórðu hæðinni á greinilega eitthvert erindi við móttökuna, því hann horfir yfir að borðinu, reynir að veifa öðrum starfsmanninum, sem er of upptekinn við að hjálpa Japönunum til að taka eftir honum. Svo tekur hann sér stöðu um það bil tvo metra frá Allý, og virðist ætla að bíða eins og hún. Lalli dreypir á sterkum snapsinum, og virðir fyrir sér bakhlið eiginkonu sinnar og útfararstjórans. Sítt, gulleitt hár Allýjar hylur efri hluta baksins, sem hinn þunni og gegnsæi sumarkjóll hennar gerir ekki fyrir mjóbakið; og í gegnum kjólinn sjást útlínur svörtu nærbuxnanna utan um fremur flatan en fallegan rassinn. Maðurinn við hlið hennar er ekki síður sumarlegur, jafnvel sportlegri en í gær; hann er í þröngum, hvítum gallabuxum, dökkbláum síðerma bol, og berfættur í leðursandölum. Hann heldur á stórum poka úr pappír með höldum, merktum einhverju ítölsku tískuhúsi.
 Lalli fær sér annan sopa úr staupinu, og lítur á sjálfan sig í speglinum hinum megin við barborðið. Hann er í sömu síðerma skyrtunni og í gær. Og – sem spegillinn sýnir ekki – sömu svörtu gallabuxunum og dökkbrúnu mokkasíunum. Hann er meira að segja í sokkum.
 Þegar hann snýr sér aftur í átt að móttökunni tekur hann eftir að útfararstjórinn hefur fært sig nær Allý; hann er byrjaður að tala við hana. Og hún við hann. Lalli fylgist með henni brosa til mannsins; hún segir eitthvað sem framkallar bros á vörum hans; en þá gerist það – alveg fyrirvaralaust – að hinn drukkni Japani dettur í gólfið; hann hnígur niður, eins og öllu lofti hafi verið tappað úr honum; og einu viðbrögð nærstaddra koma frá manninum við hlið Allýjar, sem stekkur örsnöggt til, bograr yfir Japananum og reisir hann upp af gólfinu, að því er virðist áreynslulaust. Svo hvessir hann augun á einn félagann úr hópnum, og dregur hinn drukkna inn ganginn í áttina að lyftunum. Það er ekki fyrr en þá sem einhverjir Japananna sýna viðbrögð. Tveir þeirra fylgja á eftir inn ganginn.
 Allý, sem gerir ekki annað en að fylgjast með, snýr sér síðan í átt til Lalla og yppir öxlum brosandi. Og Lalli svarar með því að hrista höfuðið og lyfta staupinu, eins og til að láta Allý vita að hann bíði rólegur eftir henni.
 Þegar hinn hjálpsami útfararstjóri snýr aftur að móttökunni víkur hann sér að einum úr hópi Japananna; hann segir eitthvað ákveðinni röddu – án þess að fá svar – og stillir sér síðan aftur upp við hlið Allýjar. Þau skiptast á einhverjum orðum, en brosa þó ekki í þetta sinn. Svo snýr Allý sér við og bendir í áttina til Lalla á barnum – hún bendir manninum á eiginmann sinn. Sá fyrrnefndi veifar til Lalla – hann brosir og býr til o eða núll með vísifingri og þumli – og hallar sér síðan að Allý, og segir eitthvað við hana áður en hann gefst upp á biðinni. Á leiðinni í átt að lyftuganginum veifar hann aftur til Lalla, en er úr augsýn þegar Lalli veifar til baka.

„Ég var bara að láta hann vita að þú værir hérna með mér,“ svarar Allý þegar Lalli spyr hvers vegna hún hafi bent manninum á sig. Þau eru stödd í lyftunni upp – Allý hafði sömuleiðis gefist upp á að bíða í móttökunni.
 „Af hverju að láta hann vita af því?“
 „Bara. Svo hann héldi ekki að ég væri ein hérna.“
 „Var hann að spyrja þig að því?“
 „Nei.“
 „En eitthvað varð til þess að þú lést hann vita að þú værir ekki ein. Hann hlýtur að hafa spurt þig.“
 „Hann spurði mig ekki beint.“
 „En hvað? Óbeint?“
 Og Allý svarar: „Lalli. Þetta er bara gestur hérna á hótelinu. Og greinilega ekki einhver hættulegur maður – þú sást hvernig hann brást við þegar þetta gerðist með Japanann.“
 Lalli lætur vera að segja henni að þetta hafi verið maðurinn sem hann hitti í lyftunni í gær, sá sem hann kallaði útfararstjórann. En lætur sér detta í hug, þegar þau koma upp á fjórðu hæð og stíga út úr lyftunni, að mögulega hafi maðurinn sagt Allý að þeir hefðu hist daginn áður.

5. kafli

Þau eru varla komin inn á herbergi þegar sími Allýjar hringir; það er dóttir hennar að láta móður sína vita af því að hún hafi selt smásagnasafn til útgefanda í Reykjavík, sína fyrstu bók.
 „Hvað meinarðu? Varst þú að skrifa bók?“ Allý hafði ekki haft hugmynd um að hin tuttugu og þriggja ára dóttir sín hefði skrifað bók. Þau Lalli vissu að hún hefði alltaf skrifað eitthvað, að minnsta kosti ljóð, en ekki verið upplýst um að handrit væri tilbúið, hvað þá með sögum.
 „Ég var að skrifa undir samning,“ svarar dóttirin. „Það er að koma út bók í haust. Með smásögum.“
 Með samþykki dóttur sinnar setur Allý símann á speaker; og þegar Lalli hefur gert sér grein fyrir um hvað þær mæðgur eru að tala, og æpt út í loftið „til hamingu!“, gefur hann Allý skýra bendingu um að hann ætli að skjótast út í búð eftir freyðivíni; hann þykist skjóta tappa úr flösku og bendir í átt að dyrunum.
 „Kauptu líka ost,“ kallar Allý. „Það er ennþá til kex.“
 Svo er Lalli þotinn út, og Allý ein eftir í herberginu, með dóttur sína í símanum – og fljótlega líka sambýliskonu dótturinnar í gegnum hátalarann. Hún fer í ísskápinn og nær sér í hvítvínsflöskuna sem eftir var frá deginum áður; og á sömu stundu – ímynda ég mér – gengur Lalli út úr lyftunni á fyrstu, og tekur stefnuna á útidyrnar. Japanirnir eru horfnir úr móttökunni, eins og þeir hafi aldrei verið þar, en í staðinn stendur þar útfararstjórinn einn síns liðs, og enginn hinum megin við afgreiðsluborðið. Lalli vonast til að komast óséður framhjá, hann vill ekki verða fyrir töfum í búðarferðinni, en þegar hann nálgast móttökuna snýr sá berfætti sér við, eins og gagnaugað hafi tekið eftir Lalla, og ávarpar hann með hæ-i.
 „Going out?“ spyr hann.
 „Út í búð,“ svarar Lalli, og lyftir lófanum, eins og til að gefa til kynna að hann sé á hraðferð.
 „You have a beautiful wife,“ segir maðurinn.
 Lalli hikar eitt augnablik. „Thank you.“
 „Been here long?“ Að maðurinn hafi þýsku að móðurmáli fer núna ekki milli mála – og það er á honum að sjá að hann langi til að spjalla.
 Lalli svarar spurningu hans, og bætir við að þau dvelji hérna í viku.
 „Þá kannski rekst ég á ykkur,“ segir maðurinn, en tekur þá eftir að starfsmaður hinum megin við borðið er mættur til að aðstoða hann. Og Lalli grípur tækifærið til að forða sér.

Næstu sjö til átta mínúturnar – á meðan hann nær í tvær freyðivínsflöskur og osta til Kínverjans, og fer yfir götuna til að vitja skyrtunnar undir gallabuxnastaflanum – skálar Allý í hvítvíni við ungu konurnar hinum megin á línunni, og lætur dóttur sína lofa sér því að hún fái handritið að bókinni í tölvupósti. Hún þarf síðan að slíta samtalinu þegar vinir ungu ástkvennanna banka upp á.
 Á því augnabliki sem Allý slekkur á símanum er Lalli kominn á gangstéttina við fatabúðina, og hann rekur augun í mann á svipuðum aldri og hann sjálfur, sem stendur með bakið upp að vegg til hliðar við glugga búðarinnar. Maðurinn hvílir annan fótinn – og hnakkann – við vegginn, og heldur á logandi sígarettu uppi við andlitið, eins og hann sé að dást að glóðinni. Hann er í hvítum strigaskóm, svörtum gallabuxum og ljósblárri skyrtu með uppbrettum ermum.
 Skyrtan er með dökkrauðum tölum, og stórir fliparnir brettir upp.
 Lalli staldrar eitt augnablik við á gangstéttinni, nógu lengi til þess að maðurinn við vegginn verði þess var að honum hefur verið gefinn gaumur. Hann kinkar góðlátlega kolli til Lalla, og Lalli á móti, áður en hann hraðar sér inn í búðina. Fyrir innan er mun fleira fólk en var þar fyrr um daginn; og Lalli þarf að bíða í svolitla stund áður en hann kemst að gallabuxnastaflanum. Á meðan hann bíður teygir hann höfuðið út að glugganum til að sjá hvort maðurinn fyrir utan sé enn á staðnum – sem reynist vera – og á næsta augnabliki opnast leiðin að buxnastaflanum.
 Það tekur Lalla ekki langan tíma að komast að því sem hann hafði óttast. Hann brýtur sér leið gegnum þvöguna í búðinni, og flettir órólegur í gegnum skyrturnar á innstu slánni, bara til að komast að því að það sem hann leitar að er sannarlega að finna á gangstéttinni fyrir utan. Hann veit ekki til hvers – nema þá til þess að koma sér út sem fyrst, og aftur upp á hótel – en hann flýtir sér út, á ekki minna spani en hann kom inn, og fagnar því (án þess þó að vita í hverju fögnuðurinn felst) að maðurinn með sígarettuna standi ennþá við vegginn, þótt sígarettan sé ekki lengur milli fingra hans. Hann heilsar Lalla, sem fær allt í einu á tilfinninguna að þessi maður hafi vonast til þess að augu þeirra mættust aftur – að þeir myndu hittast.

SEINNI HLUTI

(Ég nefndi í upphafi fyrri hluta að aðalpersónur þessarar sögu væru þrjár. Líka að sú fjórða hefði bæst við, að hún kæmi fram undir lokin, en væri minna mótuð en hinar þrjár. Nú er aftur á móti ljóst, að minnsta kosti eins og ég lít á það, að fjórða aðalpersónan er hinn svonefndi útfararstjóri sem Lárus hitti fyrst í lyftunni – jafnvel þótt ekki sé víst að hann komi meira við sögu á yfirborðinu. Og þar með er hin ómótaða persóna, sem í fyrstu kallaðist sú fjórða, orðin fimmta aðalpersónan. Og um leið er hún skýrari í huga mínum, því ég hef ákveðið að byggja hana á manneskju sem ég hitti eitt sinn sjálfur í Prag, þegar ég fór þangað í annað sinn á ævinni, árið 2020. Í fyrri ferð minni til borgarinnar, 1990, hafði ég séð föður þessarar manneskju, og hitti hana síðan sjálfa ásamt föður hennar, þrjátíu árum síðar.
 Það var einmitt í þeirri ferð, 2020, sem frumneistinn að þessari sögu kviknaði. Feðginin sem um ræðir hitti ég á krá í miðbæ Prag, á sama stað og ég hafði séð föðurinn þrjátíu árum áður. Kráin kallast Gullni tígurinn; hún hefur verið til í einhverjar aldir, en er líklega þekktust fyrir að rithöfundurinn Bohumil Hrabal var þar fastagestur, enda hanga af honum myndir á veggjunum, og einhverjar upplýsingar um líf hans og starf.
 Að baki heimsóknar minnar á Gullna tígurinn árið 1990 lá einkum tvennt: í fyrsta lagi að smakka bjórinn þar, sem sagður var sá besti í borginni (og reyndar eini drykkurinn sem kráin bauð upp á), og hins vegar að freista þess að sjá hinn hrekkjótta höfund Bohumil Hrabal í sínu hefðbundna sæti, sem var innst í rýminu, til hliðar við innganginn í eldhúsið. Hvorutveggja gekk eftir, þótt ég fengi ekki sæti á yfirfullum staðnum. Ég kom auga á Hrabal í horninu, og drakk eina kollu af pilsner hússins (sem ég sannfærðist um að væri besti bjór sem ég hefði nokkurn tíma smakkað), og náði að taka ljósmynd, þar sem rétt glitti í hinn fræga fastagest.
 Það sem mesta athygli mína vakti á þeirri mynd var aftur á móti karlmaður sem sat ásamt öðrum mönnum við borð gegnt barnum, með bakið í vegginn, og horfði til mín í linsuna. Hann var á að giska um fertugt, með óvenjulega stórt nef og miklar augabrúnir; þykkt, dökkbrúnt, afturgreitt hár og kjálkasíða barta; hann var klæddur hvítri skyrtu með síða svarta slaufu, og í sinnepsgulum rúskinnsjakka með kögri yfir brjóstin – þessi maður var eins konar sambland af enskum teddy boy og hippa.
 Ég hef mjög oft skoðað þessa ljósmynd í albúminu mínu, ekki síst þegar ég dreg fram bækur Hrabals og les. Það var því óvænt ánægja – en kannski ekki svo óvænt – að hitta þennan sama mann í heimsókn minni á Gullna tígurinn þremur áratugum síðar. Í það skiptið mætti ég um miðjan dag á krána, til að eiga meiri möguleika á að ná í sæti, og það vildi svo til að einn af fáum lausum stólum var við borð þar sem þessi sami maður sat – það var engum blöðum um það að fletta að þetta var sami maður, auk þess sem hann sat við sama borð og síðast – hann var í sama gula kögurjakkanum, ennþá með afturgreitt hárið, sem var orðið grásprengt; að vísu laus við bartana, og í svörtum rúllukragabol. Við hlið hans sat ung kona; þau sátu við vegginn og voru bæði með hálftæmdar bjórkrúsir fyrir framan sig. Konan var með axlasítt, skolleitt hár, með stálhring í öðrum nasavængnum; hún var í skærrauðum leðurmittisjakka yfir gulum bol, og upp undan bolnum teygði sig húðflúr með mynd af fjórum fingrum, greinilega á karlmanni, eins og þeir þrýstu á húðina mitt á milli brjóstanna.
 Þau horfðu bæði fram fyrir sig, þögul og fremur þreytuleg að sjá.
 Það hvarflaði ekki annað að mér en að spyrja hvort ég mætti setjast gegnt þeim við borðið. Maðurinn kinkaði kolli – konan við hlið hans virtist ekki taka eftir mér – og ég setti töskuna mína á stólinn, til að taka frá sætið á meðan ég færi á barinn. Eins og ég vissi var ekki boðið upp á nema eina stærð af bjór, og þegar ég settist með stóra kolluna við borðið sneri maðurinn sér að konunni og sagði eitthvað við hana sem augljóslega átti við um mig, því konan leit til mín, og þau brostu bæði, án þess þó að ég fengi á tilfinninguna að maðurinn hefði sagt eitthvað niðrandi um mig.
 Ég fékk mér fyrsta sopann.
 „Excuse me,“ sagði ég við manninn. „Do you speak English?“
 Hann virti mig fyrir sér. „Only when I have to,“ sagði hann fremur þurrlega.
 Ég sagði honum að ég hefði komið hingað fyrir nákvæmlega þrjátíu árum, ég hefði tekið mynd inni á staðnum – „eins og einhver asnalegur túristi, sem ég auðvitað var,“ bætti ég við – og að hann hefði lent innan rammans; ég myndi vel eftir andlitinu. Ég lét þó vera að minnast á jakkann hans.
 „Svolítið fyndið,“ sagði ég.
 „Fyndið?“ Maðurinn horfði á mig rannsakandi. „Af hverju fyndið?“
 „Víst er það fyndið,“ skaut konan inn í og brosti – ég var henni þakklátur fyrir að taka af mér ómakið.
 „Þú varst ekki einu sinni fædd þá,“ sagði maðurinn.
 Hann benti síðan á konuna. „Þetta er dóttir mín.“
 „Ég var víst fædd þá,“ sagði hún. „Veistu ekki hvað ég er gömul?“ Svo sneri hún sér að mér. „Sagðirðu ekki að þú hefðir verið hérna fyrir þrjátíu árum?“
 Ég jánkaði því.
 „Þú hefur varla verið nema eins eða tveggja ára gömul þá,“ sagði faðir hennar, og beindi síðan máli sínu að mér: „Hefðirðu verið hérna fyrir þrjátíu og fimm árum hefðirðu líka séð mig. Tuttugu og fimm árum sömuleiðis. Og tuttugu. Hefðirðu verið hérna fyrir fimm árum eða fjórum, þá hefðirðu líka séð mig sitja hérna. Og nú er hún mætt líka. Dóttir mín. Verði þér að góðu.“
 Hann notaði ekki síðastnefndu orðin; og fyrst ég er sjálfur farinn að spinna við þessa minningu mína ætla ég ekki að hafa hana lengri – það nægir að komið sé fram að hin unga kona sem sat við hlið föður síns á Gullna tígrinum fyrir um það bil þremur árum hafi verið í rauðum leðurjakka. Ég ætla að notfæra mér það atriði hér í seinni hluta sögunnar – og reyndar konuna líka – þegar ég leiði þær persónur sem kynnast í byrjun næsta kafla inn á Gullna tígurinn.)

6. kafli

„Þú hefur ekki fundið neitt þarna inni?“ spyr maðurinn sem stendur ennþá við vegginn við hlið búðargluggans.
 Það tekur Lalla nokkur augnablik að hugsa upp svar.
 „Jú,“ segir hann og brosir. „Ég fann það reyndar í gær, en svo var það farið þegar ég ætlaði að ná í það núna.“
 „Maður verður að grípa gæsina,“ segir maðurinn glaðlega.
 „Þú varst á undan mér að grípa þá gæs,“ svarar Lalli, og bendir á bláu skyrtuna.
 „Ertu að meina það?“ Maðurinn grettir sig til að gefa til kynna að honum þyki þetta miður. „Ég bið þig innilega að afsaka. Ég bara stóðst ekki mátið. Ekki nema sjö evrur fyrir svona eðalflík!“
 „Ég fékk sjálfur aðstoð við að standast mátið,“ segir Lalli; og óþarfi að taka fram að þeim orðum fylgir bros.
 „Frá konunni?“
 „Nákvæmlega.“
 „Ég hefði lent í því sama ef ég væri ekki nýskilinn,“ segir sá í skyrtunni, og svarar því til, þegar Lalli spyr hvort hann hafi fundið skyrtuna undir stafla af gallabuxum, að hún hafi bara hangið á slá.
 „Varstu búinn að fela hana undir gallabuxunum?“ spyr hann síðan brosandi.
 „Ég?“ Lalli brosir á móti, og reynir að fullvissa manninn um að það sé honum sjálfum léttir að skyrtan hafi ratað annað – konan hans hefði hótað því að skilja við sig hefði hann keypt hana.
 „Konur,“ dæsir maðurinn, en bætir við: „Hvar værum við án þeirra?“ Svo spyr hann Lalla hvaðan hann sé.
 „Hvaðan heldurðu?“
 „Svíþjóð?“
 „Ekki alveg.“
 „Noregi?“
 „Næstum því.“
 „Ertu frá Íslandi?“
 Lalli hefur sjálfur rétt fyrir sér í fyrstu tilraun þegar maðurinn biður hann að giska á sitt þjóðerni. Og sá síðarnefndi kynnir sig:
 „Bastian. Frá Köln.“
 „Lárus. Frá Reykjavík.“
 „Ég þekki reyndar Íslending sem minnir mig á þig,“ segir Bastian. „Eða þú á hann.“
 Lalli lætur sér detta í hug að hann eigi við bróður sinn, sem einmitt lærði í Köln, og vann þar lengi við sitt fag.
 „Ekki þó Maríus Óskarsson?“ spyr hann.
 „Nei. En hann er samt Óskarsson. Ari Óskarsson heitir hann.“
 „Rithöfundurinn?“
 „Það passar.“
 „Fyndið,“ segir Lalli. „Ísland er líklega enn minna en ég hélt. Ari Óskarsson býr nefnilega í næsta húsi við vinnustaðinn minn. Ég sé meira að segja inn til hans þegar hann er með dregið frá stofugluggunum.“
 „Í alvöru? Býr hann á efstu hæð í blokk?“
 „Já.“
 „Fyndið, segi ég nú bara sjálfur. Þá hef ég líklega séð húsið þar sem þú vinnur. Ég kom nefnilega heim til Ara, og reykti með honum úti á svölum, þar sem var einmitt mjög hátt hús hinum megin við portið.“ Bastian segir Lalla frá því að hann hafi verið á Íslandi fyrir fimm árum eða svo, í þeim tilgangi að skrifa grein um þýskan höfund sem hafi verið þýddur á íslensku; hann hafi farið á bókmenntahátíð í Reykjavík, þar sem þýski höfundurinn, Lilith Biermann, hafi verið að lesa upp; og hann hafi í sömu ferð kynnst nokkrum íslenskum rithöfundum, þar á meðal Ara Óskarssyni, sem hafi boðið fólki heim til sín eftir einn viðburðinn á hátíðinni.
 Lalli spyr Bastian hvort hann sé rithöfundur, og fær að vita að hann sé menningarblaðamaður og ritstjóri hjá bókaútgáfu.
 „En þú?“
 „Ég er í fjármálageiranum.“
 „Nú? Þú þekkir þá ekki Gullna tígurinn hér í Prag?“ spyr Bastian, eins og hann hafi allt í einu fengið hugmynd. „Ég meina knæpuna,“ útskýrir hann. „Frægur staður hérna í borginni.“
 Lalli segist ekki kannast við þann stað, enda sé hann hér í Prag í fyrsta skipti.
 „Ókei?“ Það er eins og enn sé að mótast einhver hugmynd í höfði Þjóðverjans. Hann segir Lalla frá því að þegar hann og áðurnefndur Ari Óskarsson hittust hjá þeim síðarnefnda og töluðu saman hafi Ari leitt talið að þessari krá; hann hafi rifjað upp komu sína á staðinn fyrir mörgum árum – þeir hefðu verið að tala um tékkneskar bókmenntir; Ari sé sérstakur áhugamaður. Svo stingur Bastian vísifingri út í loftið, og spyr:
 „Ertu eitthvað upptekinn í augnablikinu?“
 „Ekki þannig séð. Ég er bara á leiðinni aftur upp á hótel. Konan mín er að bíða eftir …“ Lalli bendir honum á pokann sem hann heldur á.
 „Þú hefur ekki tíma fyrir einn bjór?“
 Í því hringir sími Lalla; það er Allý, sem spyr hvort hann sé ekki á leiðinni.
 Lalli jánkar því, hann sé búinn að kaupa freyðivínið, en tefjist eitthvað aðeins. „Ég hitti nefnilega mann,“ segir hann. „Ég var að …“
 „Hittirðu mann?“ grípur Allý fram í fyrir honum.
 Lalli hlær í símann, og útskýrir hið sérkennilega orðalag; hann hafi hitt mann frá Þýskalandi, þeir hafi af tilviljun byrjað að spjalla, og maðurinn síðan stungið upp á að þeir fengju sér einn bjór saman. Eða kaffi. Þeir hafi reyndar byrjað að tala saman af svolítið fyndinni ástæðu: „Þessi maður keypti nefnilega skyrtuna sem ég sýndi þér í morgun, manstu? Þessa bláu.“
 „Fóruð þið saman í búðina?“
 „Nei, Allý. Ég hitti hann hérna fyrir utan kjörbúðina, og kannaðist við skyrtuna.“
 „Varstu að segja honum að þig hafi langað í þessa skyrtu?“
 „Nei, ég sagði honum bara að ég hefði séð hana í búðinni. Þú ættir í rauninni að vera þakklátur þessum manni – nú er allavega ekki lengur sú hætta fyrir hendi að ég kaupi skyrtuna.“ Lalli gefur Bastian bendingu um að hann fari að ljúka símtalinu.
 „Stundum skil ég þig ekki, Lalli,“ segir Allý og dæsir.
 „Þessi maður hefur meira að segja verið á Íslandi – mjög interresant náungi. Hann ætlaði að sýna mér eitthvert frægt kaffihús.“
 „Er hann einn hérna?“
 „Ég veit það ekki.“
 „Ekki með giftingarhring?“
 „Jú, mér sýnist það. Hann sagði mér að hann þekkti Ara Óskarsson.“
 „Hver er Ari Óskarsson?“
 „Veistu ekki hver Ari Óskarsson er?“
 „Nei, Lalli, ég veit ekki hver Ari Óskarsson er.“
 „Rithöfundurinn. Sá sem býr fyrir aftan …“
 Og aftur grípur Allý fram í fyrir honum: „Ég þekki bara einn rithöfund.“
 „Hvern?“
 „Hana dóttur mína. Ertu búinn að gleyma því sem hún var að segja okkur?“
 „Nei, Allý. Þess vegna er ég á leiðinni til þín með freyðivínið.“
 „Nú? Ertu ekki á leiðinni á bar með einhverjum Þjóðverja?“
 „Bara í smá stund. Bara í einn bjór eða kaffi. Var ekki eitthvað hvítvín eftir uppi á herbergi?“
 „Jú. En Lalli. Bara einn bjór. Lofaðu mér því.“
 „Bara einn lítinn. I promise. Svo kem ég.“
 Það sem Lárus veit ekki er að á Gullna tígrinum eru ekki serveraðir litlir bjórar. Hann veit ekki heldur, þegar hann kveður Allý og sér að það eru ekki nema 5% eftir af rafmagninu í símanum, að hann og Bastian eiga eftir að fá sér meira en einn stóran bjór á mann.
 „So shall we?“ leggur Bastian til, og bendir í þá átt sem þeir þurfa að ganga.
 „Yes. But only one beer,“ segir Lalli, og bætir við brosandi: „Ólíkt þér er ég ennþá giftur.“

7. kafli

Tígrisdýrið í nafni knæpunnar er heldur ógnandi að sjá þar sem það stendur – að sönnu gyllt – á syllu fyrir ofan útidyrnar. Bastian fræðir Lalla um að hinn bogadregni, gotneski inngangur sé elsti uppistandandi hluti þessa fræga staðar, frá ofanverðum miðöldum, en ljónið sjálft sé ögn yngra, frá sautján hundruð og eitthvað. Bastian biður Lalla að bíða fyrir utan á meðan hann gengur úr skugga um að það séu laus sæti inni; hann langi síðan til að fá sér sígarettu áður en þeir setjast. Hann kemur svo út með þær fréttir að hann sé búinn að biðja unga konu, sem sitji ein við eitt borðið, að taka frá sæti – svo kveikir hann sér í sígarettu og býður Lalla úr pakkanum.
 „Löngu hættur,“ segir Lalli.
 „Þá er þér óhætt að fá þér eina. Fyrst þú ert hættur. Við verðum að taka mark á Tom og Iggy, er það ekki?“
 „Tom og Iggy?“
 Bastian virðir Lalla fyrir sér eitt augnablik. „Þú tekur bara mark á mér,“ segir hann.
 Lalli metur sem snöggvast stöðuna, sem í huga hans er sú að hann eigi eftir að drekka einn bjór með þessum manni – sem Lalli hyggst bjóða honum upp á – og hvers vegna ekki að þiggja af honum eina sígarettu; það er einhver stemmning í þessu augnabliki sem segir já við boðinu. Auk þess sem hann hlýtur að eiga eitthvað inni eftir að hafa misst af bláu skyrtunni í hendur mannsins sem býður honum sígarettuna – hann ætti að hafa leyfi til að brjóta eins og eina reglu.
 „Já, hvers vegna ekki?“ segir hann.
 „Genau.“
 Lalli er sjálfur gjarn á að nota það orð heimafyrir, til að minna sig á – og annað fólk líka – að hann lærði þýsku í tvö ár í menntaskóla. Genau. Einmitt – af hverju ekki? Á meðan hann upplifir þægilegan svimann af sínum fyrsta reyk í einhver tíu eða tólf ár, tekur Bastian upp þráðinn frá því sem hann sagði honum á leiðinni; um tékkneska rithöfundinn Bohumil Hrabal (sem Lalli hafði ekki heyrt minnst á áður), og anda þessa Hrabals, sem enn lifi góðu lífi innan veggja krárinnar, jafnvel þótt hann hafi verið dáinn í rúma tvo áratugi. Hann segir Lalla líka frá því að Vaclav Havel hafi heimsótt staðinn ásamt Bill Clinton níutíu og eitthvað – þeirrar heimsóknar sé minnst á einum veggnum inni, við hliðina á brjóstmynd af Bohumil. „Þeir sátu einmitt við borðið sem bíður okkar,“ segir Bastian. „Það er stór ljósmynd af forsetunum fyrir ofan borðið. Og Hrabal – hann er líka á myndinni.“

8. kafli

Eins og Lalli kemst að þegar hann sest með Bastian við borðið fyrir miðjum staðnum, gegnt barnum, er fjórða manneskjan á áðurnefndri ljósmynd hin tékknesk-ættaða Madeleine Albright, sem um það leyti sem myndin er tekin var ekki nema nokkrar vikur frá því að verða utanríkisráðherra í ríkisstjórn Clintons. Og þegar Lalli mætir augnaráði konunnar sem situr í sætinu á móti honum, þeirrar sem passaði fyrir þá stólana, hugsar hann sem svo að varla sé hægt að finna ólíkari konur í útliti en þessar tvær: Madeleine, í sinni kóngabláu dragt, og þá bleikhærðu hinum megin við borðið, sem í huga Lalla gæti auðveldlega verið á forsíðumynd á ensku tónlistartímariti frá níunda áratug síðustu aldar.
 Í fljótu bragði virkar þessi staður á Lalla sem eins konar hof til heiðurs rithöfundinum Hrabal – nafn hans er ekki aðeins að finna við brjóstmyndina sem Bastian hefur sagt honum frá; það er upp um allt veggi, svo að segja. Og eins og Bastian hefur lýst fyrir honum er tilfinningin sú að hafa stigið inn í fortíð sem hvorugur þeirra sé nógu gamall til að þekkja af eigin raun – inn í löngu liðinn tíma sem innréttingarnar þræta fyrir að hafi nokkurn tíma liðið.
 Samhliða þeirri hugsun að hér verði hann að staldra við aðeins lengur en bara hálftíma finnst Lalla einboðið að hringja í Allý og hvetja hana til að koma á staðinn. Þau geti allt eins skálað hér fyrir hinum gleðilegu fréttum um rithöfundinn í fjölskyldunni. En fyrst þetta:
 „Sæl. Bastian hér.“
 „Bastian Schweinsteiger?“
 „Líkist ég honum?“
 „Nei. Mér fannst bara vissara að spyrja.“
 „Það er Bastian Schäfer.“
 „Og Lárus Óskarsson hér. Lalli.“
 Sú bleikhærða gefur upp sitt nafn: „Lenka.“
 Hún er í skærrauðum, stuttum leðurjakka, þröngum, svörtum netabol sem sýnir samlitan brjóstahaldara undir, og húðflúr af fjórum fingrum sem teygja sig í átt að hálsinum. Í öðrum nasavæng hennar er stálhringur, og fyrir framan hana á borðinu hálftæmd bjórkrús, sígarettupakki og kveikjari.
 „Entschuldige,“ segir Lalli, og lætur Bastian vita að hann ætli að ná í bjór handa þeim. Hann stendur upp – hann tekur um leið eftir að Lenka virðir hann fyrir sér uppúr og niðrúr – og fer yfir á barinn. Hann biður um einn stóran bjór og annan lítinn, en fær það svar að hér séu ekki seldir litlir bjórar.
 „Ókei. Tvo stóra.“
 Barþjónninn, stór og þrekinn maður með broddaklippingu, gefur Lalla hálfergilegt augnaráð; og á meðan hann sprautar bjórnum í krúsirnar hringir sími Lalla.
 „Jú, við vorum að setjast niður,“ svarar hann þegar Allý spyr hvort þeir séu komnir á staðinn – þetta sé reyndar ekki kaffihús, heldur bjórkrá; það líti út fyrir að heilu heimshöfin af bjór hafi verið drukkin þar í gegnum aldirnar.
 „En þú ert bara að fara að drekka þennan eina, þú manst það,“ minnir Allý hann á, en gefur honum ekki færi á að svara:
 „Þessi útfararstjóri sem þú talaðir um,“ segir hún, „var það ekki maðurinn sem ég talaði við í resepsjóninni? Þessi sem er hérna í næsta herbergi?“ Það er einhver óróleiki í rödd hennar. Og þegar Lalli jánkar spurningunni spyr hún hvers vegna hann hafi ekki sagt henni að þetta væri sami maður og hann hitti í lyftunni.
 „Líklega vegna þess að væntanlega er hann ekki útfararstjóri.“
 „Hann bankaði upp á hérna áðan,“ segir Allý.
 „Bankaði upp á? Af hverju?“
 „Hann spurði hvort ég gæti lánað sér tappatogara. Hann sagði að það væri enginn tappatogari í herberginu hans, og hann næði ekki sambandi við móttökuna niðri. Svo spurði hann mig um þig; hann sagðist hafa verið niðri í móttöku og séð þig fara út. Ég veit ekki hvað ég átti að halda.“
 „Lánaðirðu honum tappatogarann?“ Lalli borgar fyrir bjórinn; hann skorðar símann við öxlina og flytur krúsirnar yfir á borðið. Hann heyrir að Bastian er að segja þeirri bleikhærðu frá skyrtunni sem hann keypti.
 „Já,“ svarar Allý. „Ég lánaði honum tappatogarann.“
 „Og er hann búinn að skila honum?“
 „Nei.“
 „Og hvað? Sagðirðu honum að ég væri ennþá úti?“
 „Ég sagði honum ekki neitt. Ég lét hann bara hafa tappatogarann.“
 „En af hverju kemurðu ekki bara og kíkir á okkur?“ stingur Lalli upp á. „Ég veit þú hefðir gaman að sjá þennan stað. Þetta er eins og að stíga aftur í aldir. Að minnsta kosti nokkra áratugi. Og engin músík, bara eins og þú vilt hafa það. Þetta er ekki nema fimm mínútna labb frá hótelinu. En Allý, ég held að rafmagnið sé alveg að klárast í símanum. Held ég ætti að spara það.“
 „Lalli? Mundu bara: einn bjór.“
 „Þú vilt sem sagt frekar bíða eftir að hann Þjóðverji komi aftur með tappatogarann? Ég er alveg viss um að minn Þjóðverji er áhugaverðari maður.“
 „Af því hann keypti þessa hræðilegu skyrtu? Nei, Lalli, ég er ekki að bíða eftir að fá tappatogarann aftur. Ég er að bíða eftir þér.“
 Í þeim orðum rofnar sambandið – rafmagnið í símanum búið.

9. kafli

Bastian og Lenka höfðu þagað á meðan Lalli talaði í símann, en Bastian greinilega skynjað að samtalinu lauk áður en því átti að ljúka, því hann spyr Lalla hvort „konan“ hefði skellt á hann.
 „Rafmagnið búið,“ segir Lalli.
 „So now you are free,“ segir Lenka og brosir. Hún stingur hendinni í innanávasa jakkans síns, og opnar síðan báða lófana, til að undirstrika næstu orð: „You see: no cell-phone. Only myself. I leave my phone at home.“
 „And he leaves his wife at the hotel,“ segir Bastian hlæjandi.
 Það líður ekki langur tími þar til krúsir þeirra þriggja tæmast; þau hafa talað um gæði bjórsins, sem væntanlega herti á drykkjunni; og þar eð varla er nema korter liðið síðan þeir settust niður, ákveður Lalli að þiggja annan bjór, þegar Bastian lýsir því yfir að það sé komið að honum að fara á barinn.

„So you are in Prague?“ spyr Lenka Lalla þegar Bastian er staðinn upp.
 „Það lítur út fyrir það.“
 Lenka útskýrir spurninguna; hún hafi verið að vitna í ákveðna bíómynd eftir landa sinn; hún vakni stundum með þessa línu úr myndinni í hausnum á morgnana.
 „Og svarar þá væntanlega játandi?“ spyr Lalli.
 „Þegar ég er hér í Prag, já. Sem er reyndar alltaf.“ Hún segir Lalla frá því að þessi mynd sem hún vitnaði til sé „ekki gerð eftir sögu þessa hér“ – hún bendir á brjóstmyndina af Hrabal – heldur skáldsögu annars Tékka, „the French Czech“, sem hún nafngreinir og spyr hvort Lalli kannist við. Sem hann gerir ekki.
 „Hann veit ekki hver Milan Kundera er,“ segir Lenka og brosir, þegar Bastian ferjar bjórkrúsirnar þrjár yfir á borðið.
 „Gott fyrir hann,“ svarar Bastian, og stingur upp á að þau fari út fyrir að reykja.
 Það kemur í ljós, þegar þau standa upp frá borðinu, að Lenka er í svörtu, þröngu leðurpilsi, berleggjuð, og í gulum Doc Martens-skóm með rauðum reimum. Og nú er það sígaretta úr pakka hennar sem lendir milli vara Lalla. Hún segir þeim Bastian frá föður sínum, sem hún hefði mjög oft farið með á Gullna tígurinn síðustu árin sem hann lifði; hann hefði verið fastagestur í einhverja fjóra áratugi, en dáið á síðasta ári – úr bjórdrykkju, eins og hún nefnir brosandi. Þrátt fyrir fremur þreytulegt yfirbragð er eitthvað heillandi í fari þessarar konu, hugsar Lalli; og hann reynir að sjá fyrir sér híbýli hennar, eftir að hún segir þeim að hún búi í íbúð föður síns heitins í úthverfi borgarinnar, um það bil hálftíma labb frá miðbænum. Hún hrósar síðan Bastian sérstaklega fyrir bláu skyrtuna; liturinn verði mun fallegri í dagsbirtunni, eins og hún segir; hann minni hana á sængurverin sín heima. Og þegar hún vottar Lalla „samúð sína“ yfir að hafa ekki orðið fyrri til að kaupa skyrtuna tekur hún um upphandlegg hans og kreistir.
 „Við verðum að styrkja okkur aðeins,“ segir hún, og galdrar fram flatan stálpela úr innri jakkavasanum. Innihaldið reynist vera svipaður líkjör og Lalli hafði fengið á hótelbarnum; bragð sem beinlínis kallar á djúpt sog úr sígarettunni.

Þegar þau setjast aftur við borðið kemur upp úr dúrnum að Lenka er ljóðskáld og listamaður – hún „starfi“ sem myndlistarmaður til þess eins að geta leyft sér að vera ljóðskáld – og Lalli segir þeim frá stjúpdóttur sinni, sem hafi hringt í móður sína í dag með þær óvæntu fréttir að hún væri komin með samning hjá virtri útgáfu fyrir smásagnasafn; þau hefðu ekki haft hugmynd um að hún skrifaði sögur. Þau tíðindi verða fljótlega tilefni þriðju kollunnar af hinum kraftmikla pilsner hússins, í þetta sinn í boði Lenku. Á meðan hún sækir bjórinn kemur að borðinu önnur kona, sem spyr hvort henni sé óhætt að setjast á móti Bastian, í sætið sem Vaclav Havel vermir á myndinni fyrir ofan þau. Hún er á svipuðum aldri og þeir Lalli, og reynist vera frá Austurríki, þegar Bastian giskar á þjóðerni hennar út frá hreimnum. Það tekur hann síðan ekki nema mínútu eða tvær að veiða upp úr konunni að hún starfi í bókaútgáfu; og þegar Lenka kemur færandi hendi með bjórinn hafa Bastian og sú austurríska svo að segja lokað sig af í samtali um hinn þýskumælandi útgáfuheim. Lalli heyrir þau nefna nafnið Lilith (sem væntanlega er sami höfundur og Bastian hafði áður nefnt: Lilith Biermann) – og það er ekki fyrr en Bastian hefur náð í fjórða umganginn af bjór sem þau fjögur við borðið ná að tengjast í einu og sama umræðuefninu, þótt Lalli verði fljótlega hálf utangátta í því efni – sem er bíómyndir. Bastian hefur rifjað upp að Amadeus, myndin um ævi Mozarts – sem Lalli hefur sjálfur séð – sé tekin í Prag; en þegar talið leiðist að öðrum kvikmyndum, meðal annars tékkneskri mynd um einhvern líkbrennara, grípur Lalli tækifærið til að leggja eitthvað til málanna, og segir þeim frá nágranna sínum í næsta herbergi á hótelinu; að sá maður, sem hann hafi einhverra hluta vegna séð fyrir sér sem útfararstjóra, þegar hann hitti hann í lyftunni daginn áður, hafi bankað upp á hjá konunni sinni, eftir að hann sjálfur fór út af hótelinu og hitti Bastian; hann hafi verið að biðja hana um að lána sér tappatogara.
 „Nei, Lárus!“ Lenka brosir stríðnislega. „Er þessi útfararstjóri ekki með tappatogara á herberginu sínu?“
 Sú austurríska, sem enn hefur ekki sagt til nafns, verður fyrri til að svara; hún snýr sér að Lenku og spyr – ekki síður brosandi en Lenka: „Eru ekki tappatogarar á öllum hótelherbergjum í Prag?“
 „Ég er reyndar bara að grínast,“ skýtur Lalli inn, og skynjar að orð sín geri ekkert annað en að skapa misskilning. Um leið gerir hann sér grein fyrir að hann hefur drukkið of mikið.
 „Corkscrew!“ Bastian grípur það orð á lofti – hann beinlínis æpir það yfir staðinn, en bætir svo við, lægri röddu: „The funeral director asks for a corkscrew!“
 „Þú ættir kannski að koma þér aftur upp á hótel,“ segir sú austurríska, og Lenka bregst við:
 „Eða bara leyfa hlutunum að hafa sinn gang.“
 Lalli teygir hendina undir borðið til að fullvissa sig um að pokinn með freyðivíninu sé enn á sínum stað; og þegar hann nefnir við Bastian og Lenku að hann þurfi hvort eð er að fara að tygja sig – hann minnir Bastian á að þeir hafi bara ætlað að fá sér einn bjór – krefst sá síðarnefndi þess að þau fái sér einn umgang enn, hann ætli sjálfur að borga. Lalli er enn með nógu mikilli rænu til að reikna út að þau séu að fara í fimmta bjórinn – sem kalli þá væntanlega á fjórðu sígarettuna úti á stétt – og þegar Lenka leggur lófann á handarbak hans, og brosir til hans með blikki í augunum, tekur hann af sjálfum sér það loforð að með fimmta bjórnum sé þessu lokið; þetta verði síðasta kollan.

10. kafli

Hvort sem það er fuglasöngnum fyrir utan að þakka, eða einfaldlega þeirri staðreynd að klukkan er langt gengin í eitt, vaknar Lalli eins og kveikt sé á eldspýtu fyrir augum hans. Sú birta er þó fljót að dofna, þegar hann gerir sér grein fyrir hvar hann er staddur, án þess að muna hvenær eða hvernig hann kom þangað.
 Hvenær, hvernig og hvers vegna hann kom hingað.
 Loftið í herberginu er í fullu samræmi við dimmt og óreiðukennt yfirbragð þess: þungt sambland af sígarettureyk, málningu og moskusolíu. Í loftinu er rússnesk ljósakróna með rauðri peru, sem gefur frá sér rétt næga birtu til að greina umhverfið.
 Lalli rís upp í rúminu, og það sem mætir augunum, við svartan vegginn nokkra metra frá fótagaflinum, er beinagrind í fullri stærð, væntanlega úr plasti; hún stendur á svörtum standi, með hendurnar hangandi niður með síðunum – um háls hennar er dökkur tóbaksklútur. Það rifjast upp fyrir Lalla að konan við hlið hans í rúminu hafði sagst vera myndlistarmaður. Og ljóðskáld.
 Hvað annað man hann? Hvenær hætti hann að muna?
 Þegar hann gerir sér grein fyrir að hann er klæddur svörtum netabol, og nakinn að neðan undir sænginni, verður til sú mynd í verkjuðu höfði hans að allt nema líkaminn hafi lekið í gegnum það net sem hann var veiddur í daginn áður – þar með talið minnið. Á lágu borði við hliðina á rúminu standa freyðivínsflöskurnar tvær sem hann hafði keypt fyrir þau Allý; þær eru báðar opnar – erfitt að sjá hvort eitthvað er eftir í þeim – og fyrir framan þær tvö hálftæmd glös. Upp undan sænginni við hlið hans gægist bleikhærður kollur Lenku; og þegar Lalli dregur sængina varfærnislega af höfði hennar og öxlum sér hann ekki betur en að hún sé í skyrtunni hans Bastians. Sem staðfestist síðan þegar hann þuklar á efninu í flipanum. Það lítur ekki út fyrir að Lenka muni rumska, þannig að hann leyfir sér að draga sængina lengra niður af líkama hennar, og kemst að því sem hann átti von á, að hún er ekki í neinu öðru en þessari skyrtu. Hann greinir ekki vel liti í rauðu rökkrinu, en þykist þó vita að Lenka hafi haft rétt fyrir sér, þegar hún líkti lit sængurvera sinna við litinn á skyrtunni.
 „Ég votta þér samúð mína.“
 Þau orð frá í gær hljóma í höfði Lalla. Bastian hlýtur að hafa eftirlátið honum skyrtuna. Og hann síðan sjálfur Lenku. Hann hefur ekki hugmynd um hvernig eða hvers vegna skyrtan skipti um hendur – hvernig hún skipti um líkama. Með réttu ætti þessi flík að hanga utan á gulleitri beinagrindinni, sem Lalli fær á tilfinninguna, þegar hann horfist í augu við djúpar tóttir kúpunnar, að brosi til sín. Eins og hún viti allt sem gerðist um nóttina – allt sem ekki varð eftir í minni hans sjálfs. Hann man núna eftir að Lenka spurði hann hvernig smásögur væru í þessari bók sem stjúpdóttir hans væri að gefa út, en auðvitað hafði hann ekki hugmynd um það; og ímyndar sér núna að sú saga sem hann hefur sjálfur tekið þátt í að rissa upp frá í gær gæti alveg eins átt heima í bók. Það rifjast líka upp fyrir honum að Lenka talaði um að frá miðbænum og heim til sín væri hálftíma labb, en ekki fimm mínútna leið, eins og lýst var í ljóðbroti sem hún fór með fyrir þá Bastian; hún hafði farið með nokkrar línur eftir tékkneskt skáld, eitthvað „súrrealískt“, um „fimm mínútna leið frá bænum“ – svo skrítið að hann muni eftir því, hugsar hann, en ekki öllu hinu sem máli skipti. Í þessum línum – sem hann man sérstaklega að Lenka talaði um sem brot úr mun lengra ljóði – var minnst á einhverjar mjóar krossgötur; eitthvað um „rýting lífsins“, og þá hamingju sem hlýst af því að vera „hæfður rýtingi lífsins“.
 Fáránlegt.
 Algerlega fáránlegt.
 Fáránlegt að muna eitthvað svona.
 „Nafn mitt er Lárus Óskarsson, og þetta er fáránlegt.“