Snælenja

Kári Tulinius

Rún hafði kvartað yfir smá tannpínu daginn áður en hún fór til pabba síns en ég hafði ekkert hugsað um það. Nú tæpri viku seinna, skömmu eftir að ég vaknaði, fékk ég skilaboð frá barnsföður mínum um að hann væri að fara með hana til tannlæknis. Ég vonaði að dóttir mín myndi ekki kjafta í hann að hún hefði sagt mér að henni væri illt, og svo bölvaði ég sjálfri mér fyrir að hugsa svona. Ég friðþægði ört vaxandi samviskubitið yfir tannpínu dóttur minnar með því að lofa sjálfri mér því að gera eitthvað dýrt með henni þegar hún kæmi aftur til mín, fara í bíó eða út að borða. Og þó, bankareikningurinn var óþægilega ofankomuléttur, bara örfáa daga inn í nóvember, svo kannski þyrfti það að bíða mánaðamótanna. Eða jólanna. Meðan ég gekk út á strætóstoppistöðina fannst mér veðrið jafn skömmustulegt og ég sjálf, þungskýjaður himinn yfir snjóþungri borg.
 Ég var með annað augað á hljóðlausum símanum meðan ég reyndi að vinna á lessal Landsbókasafnsins. Þegar óþekkt númer birtist á skjánum óttaðist ég að þetta væri tannlæknirinn að flytja slæmar fréttir og hraðaði mér fram. Ókunnug karlmannsrödd, harðmælt og djúp, heilsaði mér og sagðist vera lögmaður. Ég var svo hvumsa að ég missti af nafninu þegar hann kynnti sig. Hann sagði að félagi sinn á stofunni hefði mælt með mér sem sérstaklega góðum þýðanda.
 „Svo fletti ég þér upp á netinu og sá að þú hefðir gefið út nokkrar ljóðabækur, svo þú ert kjörin í verkefnið, tæplega fimm hundruð kvæði, öll í styttra lagi, sem þarf að íslenska fyrir árslok. Eða þau þurfa að vera tilbúin í desemberbyrjun, svo hægt sé að prenta bókina fyrir gamlársdag, því er bara mánuður til stefnu. Ég skoðaði taxtann á ljóðaþýðingum hjá Rithöfundasambandinu, og ég get sagt þér að skjólstæðingur minn býður fjórfalt meira, og greiðir aukalega fyrir alla frekari vinnu, prófarkalestur, fundahöld og þess háttar.“
  Eins og fólki sem vinnur sjálfstætt er tamt að gera þá hliðraði ég til ýmsum öðrum verkefnum í huganum, og sá að ég gæti bætt þessu á mig. Ekki það að fjármálin leyfðu nokkuð annað. Svo ég samþykkti að taka það að mér. Lögfræðingurinn spurði mig hvaða tungumál ég kynni, og ég sagðist aðallega þýða úr frönsku og spænsku, dálítið úr ítölsku og portúgölsku, og kæmist ágætlega frá skandinavísku málunum, svo stundum úr ensku. Síðan spurði hann hvort ég byggi enn í Miðholti, eins og stæði á já.is.
 „Meðalholti,“ svaraði ég.
 „Æ afsakið, ég meinti það. Ég ólst upp í Þorpinu.“ Svo sagði hann mér að bráðum kæmi sending til mín. Hann kvaddi. Áður en ég fór aftur inn spurði ég bókavörðinn í afgreiðslunni hvort hann vissi hvaða staður Þorpið væri, þar sem væru holtagötur. Hann vissi ekki með nöfnin á götunum, en það hlyti að vera Glerárþorp á Akureyri.
 „Varstu að tala við Þorpara?“ spurði hann.
 „Já, ætli það ekki.“ Það var ekki fyrr en eftir að ég hafði sest sem rétta svarið kom mér í huga: Já, lögmann. En ég hafði ekki tíma til að hugsa um það því mér bárust tvö SMS, hið fyrra Fedex-tilkynning á ensku um að það væri pakki á leið til mín frá einhverjum bæ í Québec, og hið síðara á spænsku frá barnsföður mínum um að Rún væri komin á Nóaborg. Það vantaði allar frekari upplýsingar, en ég ákvað að bíða fram að hádegi með að hringja, svo ég gæti einbeitt mér að vinnunni. Ég leit út um gluggann á lessalnum, sá að það var byrjað að rigna, og sökkti mér svo í þýðinguna sem ég var að vinna að, sögulega glæpasögu eftir franskan höfund sem gerðist á átjándu öld, og var skrifuð á svo flúruðu tungutaki að ég þurfti að hafa mér við hlið stafla af bókum skrifuðum á svipuðu tímabili á Íslandi til að glugga í, svo ég gæti endurskapað stíl upprunalega textans á íslensku.
 Það var ekki fyrr en ég var að ösla slabbið upp að leikskólanum sem ég mundi eftir tönninni, svo ég gekk smá hring um hverfið meðan ég fékk skýrslu gegnum síma. Það var lítil skemmd á einum jaxlinum, sem var ekki gott en ekki jafn slæmt og ég hafði óttast. Barnsfaðir minn sló þessu upp í grín, að vanda, og sagði að eftir að Rún missti barnatennurnar myndum við fá annað tækifæri til að gera þetta rétt. Hann minntist ekkert á að Rún hefði nefnt tannpínuna við mig. Ég hafði sloppið, hugsaði ég og skammaðist mín svo upp á nýtt. Meðan við mæðgurnar lulluðum heim sagði hún mér allt um fiskana á biðstofunni og hvernig það væri að tala með deyfðan munn, og hermdi síendurtekið eftir því hvernig hún hefði hljómað.
 Næstu dagar liðu í rútínu, Rún vakti mig upp úr sex, spilaði Minecraft í tölvunni minni, eitthvað sem hún hafði komist upp á hjá pabba sínum, meðan ég sötraði kaffi og bjó til hafragraut handa okkur, og las síðan Lottu-bók fyrir hana meðan við borðuðum morgunmat. Rétt fyrir átta gekk ég með hana í leikskólann, áður en ég tók leið 11 á Þjóðarbókhlöðuna. Á fimmtudeginum átti ég að skila af mér þýðingunni á metsölukrimmanum, svo ég vann stíft alla vikuna. Svo sótti ég Rún í leikskólann, og gerði eitthvað skemmtilegt með henni, fór í heimsókn eða á bókasafn eða eitthvað þesslegt, þangað til það var kominn matartími. Eins og alltaf las ég fyrir hana kvöldsögu, sem núna var Vetrarundur í Múmíndal. Venjulega reyndi ég að lesa bók fyrir sjálfa mig eftir að hún var sofnuð, en þessa vikuna var heilinn svo uppgefinn eftir stífa þýðingarvinnuna að ég horfði bara á það sem var í boði í línulegri dagskrá á RÚV þar til að ég fann að ég var nógu þreytt til að sofna.
 Ég hafði steingleymt verkefninu frá Þorparanum þegar ég fékk þau skilaboð um hádegisbil á föstudegi að sending kæmi heim til mín milli sex og átta um kvöldið. Ég hafði beðið mömmu og pabba um að passa Rún eftir leikskólann og ætlaði að fara ein í Bíó Paradís til að hreinsa hugann, en það var einmitt á mynd sem byrjaði klukkan hálfsex. Ég velti fyrir mér að hringja í hraðsendingaþjónustuna og biðja um annan tíma, en nennti því svo ekki og þar að auki var ágætt að spara pening. Í staðinn hringdi ég í pabba og athugaði hvort það væri í lagi hans og mömmu vegna að þau pössuðu Rún daginn eftir í staðinn, en hann spurði þá hvort hún gæti ekki bara gist hjá þeim og ég hafði ekkert við það að athuga.
 Dyrabjallan hringdi rétt í þann mund sem sjónvarpsfréttirnar byrjuðu. Ég kvittaði fyrir sendingunni og tók við henni. Hún var rúmlega fimm kíló. Þegar ég opnaði kassann reyndist hann vera fullur af bókum, öllum harðspjalda með dimmrauðri kápu — áferð og blæbrigði eintakanna voru þó ögn ólík — hverri á sinni tungunni; frönsku, spænsku, ítölsku, portúgölsku, ensku, dönsku, norsku og sænsku, og þar að auki finnsku, að mér sýndist, en það mál kunni ég ekki. Á titilsíðu hverrar og einnar stóð Þjóðvísur frá Eldlandinu, og það mátti sjá af efnisyfirlitunum að sömu ljóð höfðu verið þýdd á þessi ólíku tungumál. Ég lét bækurnar aftur í kassann í anddyrinu, og settist fyrir framan fréttirnar. Þegar auglýsingarnar byrjuðu fletti ég Eldlandinu upp á símanum mínum. Myndirnar hefðu allt eins getað verið frá Íslandi, runnagróður, firðir og hopandi jöklar. Ég reyndi að komast að því hvað Eldlandið hefði verið kallað á tungumálum innfæddra, en tókst ekki að finna það. Nafnið sem nýlenduherrarnir gáfu hafði rutt því upprunalega burt.
 Ég vaknaði upp af frekar óþægilegum draumi, um að ég væri í ókunnu húsi, að einhver væri að banka upp á og ég leitaði að lokaðri hurð, en fann ekki. Ég hafði sofnað fyrir framan sjónvarpið, sem hafði slökkt á sér fyrir löngu. Ég leit á símann og sá að klukkan var þrjú. Ég burstaði tennurnar og skreið upp í rúm. Eitthvað við drauminn sat í mér, svo ég kveikti ljósið frammi á gangi til að vera ekki í algjöru myrkri í svefnherberginu.
 Á mánudeginum tók ég frönsku og spænsku bækurnar með mér í lessal Landsbókasafnsins. Ég fletti gegnum þær og sá að kvæðin voru stutt, eins og Þorparinn hafði lofað, yfirleitt fjórar línur, sum styttri og önnur aðeins lengri. Það var nokkuð um orð sem ég þekkti ekki, en þegar ég leitaði á netinu sá ég að þetta voru plöntur og dýr frá Eldlandinu, og fígúrur úr goðsögum innfæddra. Mér til mikillar gleði þá voru til íslensk orð yfir fimm af sex trjátegundum sem komu fyrir í textunum, snælenja, grænlenja, hvítlenja, erði og drimur, og líka plöntuna perlubrodd, svo ég þyrfti ekki að þýða eldlenska náttúru frá grunni. Þeirri fyrstnefndu hafði meira að segja verið plantað í Lystigarðinum á Akureyri, þar sem hún óx enn. Eftir að hafa leitað af mér allan grun komst ég líka að því að jarðarberin í textunum voru bara venjuleg jarðarber. Það var álíka auðvelt að finna íslensk orð yfir dýrategundir, svo líklega myndi þýðingin sækjast fljótt.
 Ég hráþýddi fyrstu vísuna úr spænsku, því ég gerði ráð fyrir að það væri elsta þýðingin og sú sem hinar væru byggðar á, og bar hana svo saman við frönsku þýðinguna. Það var nokkuð mikill merkingarmunur, sem var ekki skrítið enda voru báðir textarnir háttbundnir. Spænsku ljóðlínurnar voru hver um sig átta atkvæði og rímaðar ABAB. Þær frönsku voru alexandrínur, með sömu rímskipan. Ég las áfram í spænsku útgáfunni, og fannst ekki passa að þessi rígbundnu, evrópsku kvæðaform væru þjóðvísur Eldlendinga. Ég hafði þýðendurna grunaða um að hafa ekki sýnt upprunalegu textunum virðingu og búið til úr þeim ljóð sem væru nær því að vera eigin smíð en sannferðug endursköpun. Ég ætlaði að fletta upp útgáfu- og höfundaréttarupplýsingum til að sjá hvort þar væri eitthvað meira að finna um þetta en rak mig þá á að það vantaði kólófón í báðar bækurnar. Þegar ég fletti titlunum upp á netinu greip ég í tómt.
 Bókavörðurinn í afgreiðslunni bauðst til að leita fyrir mig í bókasafnsgagnagrunnum, svo ég skildi bækurnar eftir hjá honum, en þegar ég kom aftur niður úr kaffiteríunni þá sagðist hann ekkert hafa fundið, þessar bækur væru hvergi skráðar. Hann sagði að þetta væru þó greinilega vandaðar bækur. Hann hafði séð á öftustu síðu bókanna hvar þær voru prentaðar, sú franska í Québec, í prentsmiðju sem fór á hausinn einhvern tímann á áttunda áratugnum. Einnig var nafns ritstjóra getið á spænsku þýðingunni, en ekki þeirri frönsku. Hann nefndi í framhjáhlaupi að prentsmiðjan í Madríd hefði verið stofnuð eftir gjaldþrot kanadíska fyrirtækisins, svo líklega var sú þýðing ekki sú elsta. Ég hringdi í Þorparann til að spyrja hann hvað hann vissi.
 „Nei, ég veit lítið um þetta, í sannleika sagt. Gamall félagi úr Toronto-háskóla hafði samband við mig til að hafa milligöngu um þetta.“
 „Það er yfirleitt best að komast eins nálægt frumtextanum og hægt er.“
 „Já, það segir sig sjálft. Ég hringi í hann þegar líða tekur á eftirmiðdaginn og það er skrifstofutími í Montréal. Alltaf gaman að rekast á svona ráðgátur, þá líður mér eins og kvikmyndalögfræðingi.“
 „Það er alltaf gaman að passa við ímyndina,“ sagði ég glettilega.
 „Heyrðu, fyrir forvitni sakir þá keypti ég ljóðabók eftir þig í gær. Hörku stöff! Alveg ótrúlega margar fallegar línur.“ Þetta kom mér í opna skjöldu, en ég þakkaði bara fyrir mig og kvaddi. Ég fletti svo nafninu á ritstjóranum upp á netinu. Hún var skáld frá Québec og hafði gefið út nokkrar bækur um miðbik liðinnar aldar. Kvæðin sem komu upp voru allt í lagi, en ekkert meira en það. Það var ekki mikið um skrif hennar að finna, en af því að dæma sem ég fann hafði hún verið ópólitískur hefðarsinni í franskri kveðskaparlist á tímum samfélagsumbrota og tilraunamennsku, á skjön við tíðarandann.
 Þorparinn hringdi í mig þegar ég var nýkomin heim og var að velta fyrir mér hvort ég ætti ekki að þrífa baðherbergið rækilega, en ég var yfirleitt með einhver slík plön vikurnar sem Rún var hjá pabba sínum, þótt mér yrði ekki alltaf úr verkinu.
 „Ég var að spjalla við Luc,“ hann bar það fram á franska háttinn, „og hann sagði mér ýmislegt. En afsakið, ég er að stíga upp í bíl. Er í lagi að ég bara komi við hjá þér í Miðholtinu? Ég keyri þarna framhjá á leiðinni heim í Grjótaþorpið.“
 „Meðalholtinu. Já, ég hafði svo sem ekkert merkilegt fyrir stafni annað en kvöldmat.“
 Þorparinn hringdi dyrabjöllunni hálftíma síðar þegar ég var næstum búin að þrífa. Ég hafði ekkert sérstaklega séð hann fyrir mér, en hann var ekki eins og ég hafði gert ráð fyrir að lögfræðingar litu út. Hann var klæddur í bláköflótt jakkaföt, með svartan sixpensara á höfði, og í skóm sem litu út fyrir að vera mjög dýrir, með mikið, vel snyrt, dökkt skegg, og bar silfurhringa á löngutöng og litlafingri vinstri handar. Hann var með græn augu og fallegt bros. Á augabragði fékk hann nafnið Spjátrungurinn í huga mínum og mér fannst ég vera óhrein að taka á móti honum eftir baðherbergisþrif.
 „Skildi ég ekki rétt að við ætluðum að hittast?“ spurði hann hálfhvumsa. Ég gerði mér allt í einu grein fyrir því að ég hafði ekkert sagt.
 „Ah já, auðvitað, jú, ég var ekki alveg viss um að þú værir þú, hélt þú litir öðruvísi út.“ Hann hló.
 „En þú lítur alveg út eins og höfundamyndirnar af þér á netinu. Fyrirgefðu að ég skuli trufla þig svona, eiginlega á kvöldmatartíma, en mig langaði að segja þér strax frá því sem ég komst að.“
 „Það er allt í lagi, ég ætlaði bara að hita eitthvað upp í örbylgjuofni.“
 „Leyf mér þá að bjóða þér út að borða, lögfræðingar eiga að styrkja skáld.“ Aftur kom hann mér á óvart, og ég sagði já því mér datt ekki í hug ástæða til þess að segja nei. Ég lagði til Pottinn og pönnuna, því hann var í næsta nágrenni. Við hoppuðum upp í bíl Spjátrungsins, sem hann tók sérstaklega fram að væri rafknúinn, og keyrðum þennan stutta spöl á veitingastaðinn. Þegar við höfðum hvort pantað sinn aðalréttinn, byrjaði hann að segja mér það sem hann vissi.
 Bækurnar voru gefnar út af Godfring-stofnuninni. Hún hafði verið stofnuð af börnum Eric Godfring, sem hafði grætt vel á verslun við gullgrafara og bændur á Eldlandinu áratugina kringum aldamótin 1900, og síðan margfaldað auð sinn næstu hálfa öldina. Í erfðaskrá hans var sú kvöð lögð á afkomendur hans að þeir myndu kynna menningu innfæddra íbúa Eldlandsins í öllum löndum heims, fyrir að minnsta kosti einni þjóð á ári. Gamli maðurinn hafði dáið 1951, háaldraður, og það voru nokkuð löng málaferli um arfinn. Sem hluti af lyktum þeirra hafði stofnunin verið sett á laggirnar 1965. Luc vissi ekki mikið meira, enda hafði hann bara nýlega byrjað að vinna sem lögmaður fyrir stofnunina, tekið við því núna í ár þegar einn af eigendunum á stofunni hans lést. Honum hafði ekki tekist að finna frumtextann, eða hver fyrsta þýðingin væri, en hann vissi að bækurnar síðustu áratugi höfðu verið unnar upp úr mismunandi þýðingum. Hann ætlaði þó að skoða þetta betur, því það væri löngu kominn tími að hann færi gegnum skjalabunkana.
 Spjátrungurinn hafði leitað á netinu að upplýsingum um Godfring, ekki fundið mikið á ensku en eitthvað á spænsku, sem hann skildi ekki. Hann rétti mér símann sinn. Það var dálítið erfitt að lesa, áratuga gömul vefsíða með alls konar efni um Eldlandið. Þarna var mynd af húsi, hálfgerðum kumbalda, og undir stóð að þar hefði Godfring tekið við afskornum höndum og eyrum í skiptum fyrir vörur. Ég hrökk við.
 „Hvað stendur þarna?“ spurði hann.
 „Bíddu, bíddu,“ sagði ég og las meira. „Godfring virðist hafa haft milligöngu um það að borga fólki fyrir að drepa infædda. Hann tók við líkamspörtum, gaf morðingjunum krít í versluninni sinni, og fékk endurgreitt frá einhverjum, það kemur ekki fram hver það var. Allt hluti af skipulögðu þjóðarmorði á frumbyggjum Eldlands.“
 „Jahérna. Það er hrikalegt. Og kannski fátt eitt eftir nema þessar þjóðvísur. Það er ekki gott að heyra svona nokkuð ódrukkinn. Ég tek leigubíl heim.“ Hann náði athygli þjónsins og pantaði handa okkur rauðvínsflösku.
 „Ég hafði nú ekkert ætlað að drekka, en ég þigg glas.“
 „Fyrirgefðu! Við burgeisarnir gerum bara ráð fyrir því að þið bóhemarnir séuð alltaf að njóta lífsins lystisemda. Ég biðst innilegrar velvirðingar á að hafa ekki spurt þig fyrst.“
 Ég hló, svaraði:
 „Dagar mínir eru nú frekar tilbreytingarlausir. Ég fer á lessal Landsbókasafnsins virka morgna og er þar fram eftir degi, og svo yfirleitt heima við á kvöldin. Þegar dóttir mín er hjá mér þá fer ég með hana hingað og þangað, sem er auðvitað skemmtilegt.“
 „Áttu dóttur? Ég líka! Hvað er hún gömul.“
 „Hún er fimm ára.“
 „Nei, hvað segirðu? Mín líka! Nýorðin. Bara fyrir nokkrum dögum.“ Hann tók símann til baka og þegar hann rétti mér hann aftur mátti sjá dóttur hans í fanginu á honum. Hún var með pappakórónu á höfðinu. Ég velti fyrir mér hvort mamma hennar hefði tekið myndina. Í sama mund kom þjónninn með flösku af, eftir því sem ég best vissi, frekar dýru frönsku víni, og lét dreitil í glas fyrir Spjátrunginn, sem sneri glasinu í nokkra hringi, lyktaði af víninu, bragðaði, og kinkaði kolli til þjónsins sem hellti svo í glös handa okkur báðum.
 „Falleg hnáta,“ sagði ég.
 „Já, algert yndi. Hún er núna með mömmu og pabba í sumarbústað. Hún bað um það í afmælisgjöf frá þeim.“
 „En sniðugt!“
 „Ég veit ekki hvernig ég ól upp svona frábært barn.“ Aftur fór ég að hugsa um það hvar mamman væri. Það var dálítið eins og hann hefði lesið hug minn: „Konan mín lést þegar stelpan okkar var ekki einu sinni orðin eins árs.“ Hann drakk nokkuð vænan sopa.
 „Ég samhryggist.“
 „Það er orðið langt síðan. Allavega á daginn, það er styttra síðan á næturnar. Stelpan man ekkert eftir henni, auðvitað, en stundum biður hún mig um að segja sér sögur af henni. Ég er enginn sagnamaður, en ég reyni.“
 Ég fékk dálítið samviskubit yfir því að kalla hann Spjátrunginn, þótt það væri bara í huganum, svo ég byrjaði að kalla hann Ekkilinn. Allavega þar til ég kæmist að nafninu hans, það var of vandræðalegt að spyrja núna. Þögnin var að verða aðeins of löng fyrir mig svo ég fór að spyrja um veisluna, og við töluðum um barnaafmæli þangað til maturinn kom. Það var frekar auðvelt að ræða við hann. Kannski voru allir karlkyns lögmenn þannig, ég hafði ekki mikla reynslu af þeirri stétt. Pabbi var endurskoðandi, og fyrrverandi kærastar mínir voru annaðhvort listaspírur eða fræðimenn. Kannski komst barnsfaðir minn næst því, starfsmaður í dómsmálaráðuneytinu, en reyndar bara í rekstrardeildinni. Þegar við kynntumst hafði hann þegar verið á svo mörgum mismunandi námsbrautum í Complutense-háskólanum í Madríd að hann hefði allt eins getað lært eitthvað í lögfræði. Ég mundi það ekki, satt að segja.
 Meðan við biðum eftir tíramísú í eftirrétt, þá sýndi hann mér fleiri gamlar ljósmyndir frá Eldlandinu sem hann hafði fundið á netinu. Fyrst hélt ég að þetta væru styttur eða gínur, en svo áttaði ég mig á því að þetta voru manneskjur. Búkurinn og limirnir voru málaðir með línum eða deplum, en höfuðin afmynduð með einhvers konar höfuðfati. Þetta var fólk af Selk’nam og Yaghan-þjóðunum að leika sumar af þeim goðsagnaverum sem nefndar voru í vísunum. Síðasta myndin var ómennskust, höfuðið þríhyrningur, og búkurinn í laginu eins og fiskur, fyrir utan fætur sem stóðu niður úr honum.
 Ekkillinn bauðst til að leyfa mér að fljóta með í leigubílnum, þótt veitingastaðurinn væri nálægt heimili mínu, sem ég þáði. Á leiðinni bölvaði ég því að þetta væri ekki bíllinn hans svo ég gæti viljandi gleymt einhverju í honum, til að hafa ástæðu til þess að hitta hann aftur. Þegar ég horfði á bílinn keyra með hann burt og fann hjá mér þrá um að ökutækið stoppaði og Ekkillinn stykki út, þá hugsaði ég nei nei nei, þetta er slæm hugmynd. Hann er mjög slæm hugmynd. Svo fór ég inn og lagðist í sófann fyrir framan sjónvarpið. Ég vaknaði við það að í draumnum stóð maður með ílangt, röndótt höfuð, í einu horninu. Ég burstaði tennurnar og skreið aftur upp í rúm, og hafði ljósin kveikt á ganginum.
 Það sem eftir lifði vikunnar hélt ég áfram að snúa þjóðvísunum yfir á íslensku. Þar sem ég vissi ekki enn hvaða þýðing væri elst bar ég saman allar útgáfurnar sem ég var með og reyndi að giska hver þeirra væri líkust upprunalega textanum. Á daginn héldu hugsanir um Ekkilinn áfram að sækja á mig, en ég hélt aftur af mér að hafa samband, og sem betur fer hringdi hann ekki í mig. Á næturnar dreymdi mig mannverur með afmynduð höfuð, svo ég var farin að sofa með ljósin kveikt. Það yrði að breytast þegar Rún kæmi aftur til mín, því hún vildi ekki leyfa einni einustu týru að loga þegar hún færi í háttinn, og ef hún rumskaði og sá að eitthvað rafmagnsljós var kveikt, þá vakti hún mig til að ég slökkti á því.
 Um hádegisbil á laugardeginum hringdi Ekkillinn í mig. Hann baðst afsökunar á því að trufla mig á laugardegi, en Luc hafði hringt í hann í gærkvöldi, og þegar þeir voru búnir að tala saman vildi hann ekki hringja ef ske kynni að ég væri að svæfa.
 „Nei nei, Rún kemur ekki til mín fyrr en á mánudag.“
 „Heyrðu, Sesselja er að fara með vinkonu sinni og mömmu hennar í bíó á eftir, leyf mér að kaupa handa þér kaffi. Ég get skráð þetta sem fund og þú færð það þá borgað sérstaklega. Já, og ég gerði það líka með mánudaginn síðasta.“
 Staðan á bankareikningnum mínum var ekki alveg nógu glæsileg til að ég gæti neitað boðinu án góðrar ástæðu, og ég gat ekki komið neinni í orð, svo ég sagði já.
 Við hittumst á Babalú og settumst í bókahornið á efri hæðinni. Meðan hann var að kaupa handa mér kaffi, blaðaði ég í safni af þýddum portúgölskum ljóðum sem var á einni hillunni. Mér til léttis, en líka dálítilla vonbrigða, kom hann sér beint að efninu þegar hann hafði sest niður.
 „Luc fór gegnum elstu skjölin, sem eru frekar takmörkuð, og tókst að setja röðina saman á fyrstu bókunum. Franska þýðingin er elst, svo kemur enska, sem er unnin upp úr þeirri frönsku, og eftir það þýska, rússneska, hollenska, flæmska og sú jiddíska. Það virðist hafa verið eitthvað lögfræðilegt maus með að jiddíska væri ekki opinber þjóðtunga, og eftir það tekur eiginkona elsta sonar Godfrings við að stýra stofnuninni. Þar áður virðist sem svo að fjölskyldan hafi skipst á. Þessar fimm á undan því voru unnar upp úr ensku þýðingunni. Næstu tíu bækur eftir það, frá og með finnsku þýðingunni, voru allar þýddar upp úr þeirri frönsku. Síðan virðist þetta verða aftur frekar handahófskennt hvaða texti er til grundvallar.“
 „Hver var að velja tungumálin?“
 „Frá og með finnskunni þá var það kona Erics yngri. Hún fór fyrir stofnuninni í áratug, þar til hún lést. Hún var frá Québec, og bræður hennar áttu smiðjuna þar sem franska þýðingin var prentuð.
 „Svo líklega hefur hún haft milligöngu um það.“
 „Já, og kannski fann hún þýðandann, en Luc sá nafn hans hvergi í skjölunum. Sú útgáfa var reyndar gerð áður en stofnunin var sett á laggirnar, að því er virðist einhvern tímann meðan á upprunalegu málaferlunum stóð, því hún var lögð fram sem hluti af dómsmálinu til að sýna fram á að erfingjar Godfrings væru þegar farnir að leggja rækt við menningararfleifð Eldlendinga.“ Þegar hann nefndi nafn eiginkonunnar mundi ég að þetta var skáldið sem hafði verið titlað sem ritstjóri. Það skýrði hvers vegna þýðingarnar voru svona rígbundnar í forminu, það var hennar fagurfræði. Verst að upprunalegi textinn var illgreinanlegur gegnum hættina. Hann sagði mér að hún hafði látist á níunda áratugnum, og þar sem dætur hennar tvær voru ekkert sérstaklega áhugasamar um stofnunina, þá hafði lögmaðurinn sem Luc tók svo við af séð um þetta. Hann hafði ekki fundið þjóðvísurnar á upprunalegum tungum, né neina minnispunkta um það hvernig þeim hafði verið safnað.
 „Veistu hvað stofnunin gerir annað en að láta þýða þessi kvæði?“
 „Ekki neitt. Ein bók á ári, og búið.“
 „Og ekkert safn eða arkífa í kringum arfleifð þjóðanna sem Godfring tók þátt í að myrða?“
 „Ekki á þeirra vegum, allavega.“
 Þegar við vorum að ganga út af Babalú komu tvær litlar stelpur hlaupandi upp eftir Skólavörðustíg á undan konu í glæsilegum frakka. Önnur þeirra stökk í fang Ekkilsins, eins og Rún gerði alltaf eftir að hafa verið í heimsókn hjá öðrum krökkum. Ég kvaddi í flýti meðan stelpurnar röktu fyrir Ekklinum og konunni söguþráð myndarinnar og gekk heim. Mér hafði komið til hugar að stinga upp á því að Sesselja og Rún myndu hittast einhvern tímann til að leika, en fannst það svo óráðlegt þegar kom að því að nefna það. Eftir að ég kom heim skissaði ég upp ljóð um afmyndaðan líkama, og beindi tilfinningum mínum um Ekkilinn þangað. Ég var mun rólegri þar sem eftir lifði dags, þar til að hann birtist á sjónvarpsskjánum mínum í kvöldfréttunum. Hann hafði staðið fyrir málstofu um morguninn um lagalega stöðu jökla á Íslandi, af því tilefni að á Nýja Sjálandi höfðu réttindi jökuls til tilvistar verið viðurkennd í dómi.
 Ég var svo forviða að ég missti alveg af því hvað hann hét, og var bæði full aðdáunar á framtakinu, sem og dálítið pirruð yfir því að hann skildi ekki hafa nefnt þetta við mig. Ég hlaut að hafa bara ímyndað mér að hann hefði sérstakan áhuga á mér, svona nokkuð myndi karl í makaleit reyna að koma inn í samræðu við konu sem hann hefði áhuga á, það var ég viss um. Þegar ég fann að hugurinn var farinn að leita að nýju nafni á hann, Náttúrudrengurinn, Jöklamennið, Umhverfismálsvarinn, fór ég á RÚV-vefinn, fann fréttina, og komst að því hvað hann hét: Jón Björnsson. Ekki skrítið að það hefði verið mér erfitt að leggja á minnið svo látlaust nafn. Um nóttina dreymdi mig að ég væri í sleik við fisk með kraftmikla leggi, og þegar kossinum sleppti byrjaði hann að syngja með tærri altrödd.
 Nú þegar ég vissi að franska útgáfan væri sú elsta, þá flaug ég í gegnum þjóðvísurnar. Þær voru flestar frekar keimlíkar, en þó voru þær aldrei leiðinlegar, svo mér fannst frekar gaman að þýða, setja mig inn í hugsunarháttinn að baki þeim, og á föstudeginum var ég búin með næstum tvö hundruð kvæði. Það virtist vera lausleg þemaskipting og ég var komin að hluta þar sem ort var um að sigla á milli eyja þegar ís og krapi voru í vatninu. Þá rak ég mig á nokkuð sem truflaði mig. Ein línan var beint upp úr Drukkna bátnum eftir Rimbaud. Og þegar ég hafði tekið eftir því þá fattaði ég að önnur hending sem ég hafði þýtt tveimur dögum áður, og fundist kunnugleg, var eftir Baudelaire. Ég kíkti í ensku þýðinguna, þá næstelstu, og þessar tvær hendingar voru eins, greinilega þýddar upp úr þeirri frönsku. Það var nauðsynlegt að finna upprunalegu textana, því klárlega hafði þýðandinn breytt mörgu, en hve miklu var ómögulegt að segja. Ég ákvað að hringja í Jón. Hann svaraði ekki, en hringdi svo örskömmu síðar til baka, áður en ég var komin aftur inn í salinn, og sagðist hafa verið að koma úr ræktinni.
 „Ég hef fundið, allavega á tveimur stöðum, að línur í frönsku gerðinni koma beint úr kvæðum eftir nítjándu aldar skáld. Þegar ég hugsa til baka þá grunar mig að það séu örugglega mun fleiri dæmi, og nú vantreysti ég þessum texta. Það verður að finna upprunalegu gerðina sem þýtt var upp úr, þó það væri aðeins til að fá smá tilfinningu fyrir því hvernig þetta á að vera.“
 „Já, ég skal hafa samband við Luc og athuga hvort hann hafi fundið eitthvað. Annars þá keypti ég upptökur af söng konu frá Selk’nam-þjóðinni, sem hægt var að fá á netinu, og mér datt í hug að þú vildir heyra.“
 „Endilega! Afhverju kemurðu ekki með Sesselju í heimsókn á morgun og þær Rún geta leikið sér saman meðan við hlustum á þetta.“ Ég bölvaði sjálfri mér í hljóði fyrir þetta heimboð. Jæja, hugsaði ég, í versta falli get ég ort um þetta ljóð. Þegar Rún kom heim til mín sá hún kassann af bókum í anddyrinu og spurði hvað þetta væri. Ég svaraði að þetta væru ljóð frá Eldlandinu.
 „Vonandi hittast Eldlandið og Ísland aldrei, þá myndi Ísland bráðna!“ sagði hún og hló. Hún var svo ánægð með þennan brandara að hún bað um að fá að hringja í pabba sinn. Hann virkaði ekki alveg á spænsku, en íslenskukunnátta barnsföður míns bjargaði honum frá því að skilja ekki dóttur sína.
 Meðan ég var að svæfa Rún um kvöldið sofnaði ég við hlið hennar í öllum fötunum. Mér fannst eins og ég vaknaði og allt í kringum rúmið stæðu mannverur með afmynduð höfuð og málaða líkama. Ein þeirra, með höfuð sem teygðist lárétt í báðar áttir eins og leir sem hefur verið rúllað með lófanum, mælti með rámri kvenröddu:
 „Nú flyt ég þér ljóð um það þegar konur réðu heiminum.“ Hún ræskti sig og kyrjaði. Ég skildi ekki stakt orð.
 Það snjóaði mikið um nóttina, og hélt áfram um morguninn, svo ég var enn að moka gangstíginn að útidyrahurðinni þegar þau feðgin komu um tíuleytið, Jón dragandi Sesselju á sleða. Ég var þakin snjó, og stelpan kallaði mig snjókerlingu, sem mig langaði dálítið að láta fara í taugarnar á mér, en var bara fyndið, svo ég hló. Þegar við vorum búin að bursta af okkur snjóinn og komin inn þá sagði Jón mér að í goðafræði Yaghan-þjóðarinnar hefði í upphafi allt kvikt og ókvikt í heiminum verið manneskjur. Tunglið var manneskja, sólin, hver steinn og fjörður, bara allt. Þegar hann sá mig hafði hann strax hugsað um mig sem jökul í kvenmannsmynd. Ég var hissa að hann hefði farið að lesa goðsögur Eldlendinga, og pirruð yfir því að ég hafði ekki fundið þessa sögu sjálf. Að auki nefndi hann það í framhjáhlaupi að stóra eyjan hefði verið nefnd Karukinka, okkar land, á máli Selk’nam þjóðarinnar, eitthvað sem mér hafði ekki tekist að komast að, sem truflaði mig enn meira.
 „Já, ég sá þig í sjónvarpinu að tala um jökla.“
 Hann hló, svaraði:
 „Það var frekar vandræðalegt, fannst mér. Ég veit ekki einu sinni hvers vegna fréttamaðurinn kom. En þetta var áhugaverð málstofa og mig langar að halda áfram að vinna í einhverju svona, þó það væri bara fyrir þær,“ hann nikkaði höfðinu í átt að stelpunum, sem voru komnar inn í herbergi Rúnar að leika, „framtíðin verður að vera vistleg fyrir börnin okkar“.
 Ég vísaði Jóni inn í stofu og fór að hella upp á kaffi. Meðan vélin var að malla leit ég inn til stelpnanna, sem voru að fara rólega í gegnum kassa fullan af tuskudýrum. Í stofunni sat Jón. Þegar ég kom inn bauðst hann til að spila fyrsta lagið. Það var fallegt, og ég hlustaði eftir taktinum í því sem konan söng. Ég gat auðvitað ekki greint eitt einasta orð, en hver sem hrynjandin var, þá líktist hún á engan hátt frönskum alexandrínum. Í huganum reyndi ég að láta Rimbaud passa við röddina, en það passaði alls ekki saman.
 Allt í einu rann það upp fyrir mér. Það sem ég hafði þýtt voru alls ekki þjóðvísur. Heldur tilbúningur. Líklega eftir eiginkonu elsta sonar Godfrings. Ég gat ekki verið viss. En til þess að uppfylla kvöðina í erfðaskránni um að kynna menningu Eldlendinga fyrir þjóðum heimsins hefði hún vel getað samið þetta safn af kvæðum. Þetta var líklega bara allt saman bara fölsun. Til þess eins að eitthvað fólk gæti lifað góðu lífi af auði sem óx af þjóðarmorði. Ég gat ekkert sannað, en því meira sem ég hugsaði um það, meðan Selk’nam-konan söng, þá sannfærðist ég enn meir. Ég gat séð þessa látnu skáldsystur í hugskoti mínu. Hún samdi kvæði upp úr því sem hún gat fundið um frumbyggja Eldlandsins á bókasafni. Hún skrifaði hratt í þeim stíl sem hún hafði tileinkað sér sem skáld, greip hendingar úr sínum uppáhalds kvæðum þegar andinn blés henni ekki ljóðlínum í brjóst.
 Þegar feðginin voru farin spurði Rún mig hvort Jón væri kærastinn minn, því Sesselja hefði sagt henni að hann ætti alltaf nýjar og nýjar kærustur.
 Í næstu viku kláraði ég verkið í flýti og sendi frá mér, lét alveg vera að vanda mig, og fékk próförk til baka strax á mánudeginum. Ég bað bókavörðinn í afgreiðslu lessalsins að hafa samband við prentsmiðjuna til þess að eintök væru send til þeirra í skylduskil, og að skrá skáldið sem ég taldi réttan höfund í gagnagrunnin þeirra. Ef einhver leitaði að þessu í framtíðinni þá væri þarna slóð handa þeim að fylgja. Ekki það að nokkur væri líklegur til að láta slíkt sig varða, en ég vildi ekki auka á rangfærslur heimsins gagnvart Eldlendingum. Greiðslurnar voru talsvert mikið ríflegri en ég hafði áætlað, og ég hugsaði í augnablik um það að gefa þær frá mér, en ég hafði ekki efni á því. Í fyrstu viku desember barst mér tilkynning frá Fedex að sendill væri að koma að sækja eitthvað til mín, og þegar hann bankaði upp á reyndist hann vera kominn til að fá þýðingarnar á Þjóðvísum frá Eldlandinu. Þær voru enn í kassa í forstofunni. Sendillinn fór í gegnum kassann, sá að það vantaði eina bók, og ég sótti þá frönsku á náttborðið mitt. Ég var hissa, en þegar ég hringdi í Jón sagði hann að þetta hefði verið í samningnum, og spurði mig hvort ég vildi hittast aftur með stelpurnar.
 Við Jón vorum par í tæpt ár. Í október, stuttu áður en við hættum saman, fórum við til Akureyrar. Það hafði komið út eftir mig langt ljóð, í ritröð smábóka, sem ég hafði samið um hverfandi jökla, skreytt með teikningum af íslenskum jöklum sem ég hafði fundið í nítjándu aldar prentgripum af ýmsu tagi sem hægt var að finna á Landsbókasafninu. Áður en við fórum í útgáfuhófið bað ég Jón um að fara með mig í Lystigarðinn, því ég vildi finna þar snælenju, eldlenskt tré sem óx hér í Eyjafirði, hinum megin á hnettinum frá þeim stað þar sem fræjum hennar hafði verið safnað.
 Ég hafði búist við því að það væri kort af garðinum við innganginn, eða jafnvel listi yfir plönturnar. Langdvalir mínar á bókasöfnum höfðu skilyrt mig til að halda að allar upplýsingar væru ávallt við hendina. Færslan um snælenjuna á heimasíðu Lystigarðsins sagði ekkert til um hvar hún væri staðsett, en það voru þó myndir af henni, svo ég vissi að minnsta kosti hverju augu mín ættu að leita eftir. Við gengum fram og til baka um garðinn án þess að finna hana, og á meðan byrjaði að snjóa. Þegar ég var rétt í þann mund að lýsa því yfir að ég hefði gefist upp sá ég Eldlendinginn loksins. Tréð var eiginlega runni, aðeins hærra en við Jón. Hingað hafði því verið plantað, fræi sem hafði fallið alla leið í gegnum miðju jarðar og spírað hinum megin á plánetunni.
 „Skrítið, þetta er svo langt frá heimkynnum sínum, en hefur samt aldrei þekkt neitt annað en Akureyri.“ Ég horfði í kringum mig á alla þessa náttúru sem safnað hafði verið saman út um allan heim og plantað í íslenskri jörð. Ljóð var að fæðast innan í mér, og ég hugsaði um eldlensku skáldsystur mína sem hefði getað gert það sama á suðurhjara veraldar, ef möguleiki hennar til tilvistar hefði ekki verið þurrkaður út, og sjónarhóll hennar hernuminn af skáldi sem vildi tryggja fjölskyldu sinni arf. Lauf snælenjunnar gripu snjókornin.