Þórdís Þúfa Björnsdóttir
Þetta var á annan í hvítasunnu 2018. Þá var ráðist á mig inni í rjóðri á Klambratúni og reynt að nauðga mér. Sextán mánaða dóttir mín sat vakandi upp við dogg í barnavagni og horfði á, emjandi. Þetta gerðist á annars hversdagslegu mánudagskvöldi og mér hefur liðið furðulega síðan. Eða reyndar var þetta þó nokkru eftir miðnætti, svo í raun aðfaranótt þriðjudagsins.
Mér fannst ég hafa gert mitt allra besta til að eiga áhyggjulaust og ánægjulegt líf. Ég taldi mig hafa unnið úr öllum fortíðarmeinum, losað mig við allt úrelt og komið jafnvægi á öll samskipti. Ég hafði aldrei vandað mig eins mikið í daglegu lífi og undanfarna mánuði, og skömmu eftir áramótin 2018 fannst mér ég hafa skapað mér nýtt líf, eiginlega klárað eina ævi og byrjað aðra. Ekkert var eftir óuppgert að mínu viti og mér leið yndislega, allt var svo hreint. Ég var búin að skrifa þriðjung af skáldsögu, líkaminn hafði náð sér eftir átakamikla barnsfæðingu, ég var búin að fínpússa nálgun mína á fortíðina og fólk og átti núorðið dásamlegt hversdagslíf. Hvers kyns drama hafði smám saman fjarað út og ég var allajafna í góðu skapi. Allir ástvinir mínir birtust mér sem gefandi og friðsælt fólk og ég lenti aldrei upp á kant við neinn, ekki lengur.
Síðan var þessu dúndrað inn! Árás. Mér hefur sennilega aldrei nokkurn tíma brugðið jafn mikið. Og ég held að mér hafi brugðið þeim mun meira, einmitt vegna þess hvað líf mitt var orðið dramalaust. Ég hafði verið í undirliggjandi viðbragðsstöðu megnið af ævinni, en undanfarna mánuði hafði ég verið viss um að ekkert gæti skaðað mig eða valdið mér vanlíðan – ég upplifaði mig örugga öllum stundum.
Gegnum hreinsunarferli síðustu ára hafði ég gert allt sem í mínu valdi stóð til að létta á, bæði andlega og efnislega. Hvert sem rétta skrefið var og hversu mikið sem það reyndi á hugrekkið, þá steig ég það undantekningalaust. Ég lét ekkert ógert sem ég trúði að væri farsælt og rétt, jafnvel þótt ég skildi stundum engan veginn hvernig það gæti gagnast mér eða öðrum. Ég hafði gefið hluti sem mér þótti innilega vænt um, losað mig við smekklegar og þægilegar flíkur, og ég hafði líka hent ljóðum og sögum, allt vegna þess að ég trúði að það væri farsælast.
Hvers vegna trúði ég því? Vegna þess að hin helga rödd sagði mér það, hún barst mér eins og hlý gola. Hjarta mitt fann strax ylinn og mér var fyrirmunað að hunsa þessa rödd sem ég kallaði Maríuröddina, enda hafði reynslan sannfært mig um að hún væri heil og traust.
Ég hafði stigið ýmis skref samkvæmt leiðsögn raddarinnar án þess að guggna í eitt einasta skipti. Ég hafði fórnað mörgu en líka gert furðulega hluti eins og að senda tveimur útgefendum fáránlegt söguhandrit sem þeir höfnuðu auðvitað báðir, senda fjarlægum kunningja skeyti á bullumáli ásamt orðskýringum, og búa til pappírsfugla úr blaðsíðum Mósebókar og hengja upp í trjágreinar víðsvegar um bæinn, svo fátt eitt sé nefnt. Að auki snoðaði ég mig og fékk mér ellefu húðflúr hér og þar um líkamann, allt samkvæmt leiðsögninni, ég sem hafði annars aldrei haft minnsta áhuga á tattúum.
Mörg skrefin voru átakanleg í framkvæmd. En alltaf lenti ég með báða fætur á jörðinni, sífellt áttvísari og æðrulausari gagnvart áliti annarra á mér. Og við lok hvers ferlis upplifði ég alltaf þakklæti og aukið traust, gagnvart Maríuröddinni og lífinu almennt.
Smám saman dró úr því að röddin beindi mér að umturnandi eða vandræðalegum aðgerðum, hamagangurinn sjatnaði og lífið varð leikandi ljúft, ekkert vesen.
Ég safnaði hárinu aftur niður fyrir axlir, kynntist Finni kærastanum mínum og varð brátt barnshafandi.
Eftir fæðingu Veru var ég nokkra mánuði að ná mér líkamlega. Það hrikti í öllum liðum þegar ég fór fram úr á morgnana og skruðningarnir hættu ekki fyrr en um vorið, fjórum mánuðum síðar, en þá var ég einmitt líka komin niður í mína eðlilegu líkamsþyngd og maginn orðinn sléttur. Það var þvílíkur léttir þegar ég gat loksins gert teygjuæfingar án þess að bakið stoppaði mig af með nístandi sársaukasting, og ég kom mér upp heilbrigðu lífsmynstri, borðaði hollt og gerði æfingar daglega. Ég settist við eldhúsborðið meðan Vera svaf í vöggunni sinni yfir daginn og tók að hripa niður ljóðlínur og málsgreinar, var ekki viss um hvort ég vildi skrifa ljóð eða sögu. Svo enduðu þessar vangaveltur með því að ég henti öllu í ruslið rétt fyrir jólin 2017.
Jú annars, ég vildi segja sögu, innblásna af mínu eigin lífi, og leyfa henni að mótast jafnóðum án nokkurrar áætlunar.
Skyndilega var eins og skrúfaðist frá krana og textinn streymdi viðnámslaust niður á pappírinn. Tilfinningin var himnesk! Nú var ég byrjuð upp á nýtt, í nýja lífinu, byrjuð á nýjum rithöfundarferli. Jess!
Ég hafði síðast sent frá mér skáldverk árið 2009 og í millitíðinni fannst mér ég hafa endurfæðst andlega, öðlast nýja sýn á heiminn og lífið, og mér fannst ég hreinlega orðin miklu gáfaðri. Drungi og þunglyndisrómantík höfðuðu ekki lengur til mín sem efniviður, né heldur súrrealismi og óhugnaður. Núna vildi ég skrifa um hjartahlýju, guðdóminn og fegurðina. Og mig langaði að læra meira um lífið og sjálfa mig gegnum skrifin, leyfa skáldskapnum að þroska mig.
Flæðið hélst stöðugt fram í lok mars. Ég gat skrifað hvenær sem var, komst aldrei í þrot og var loks búin með marga kafla sem virtust mynda fyrsta hluta af þremur. Ég var spennt fyrir framhaldinu en nú komst ég ekki lengra, skrúfast hafði fyrir streymið í bili. Ég ákvað því að slá textann inn í tölvu og senda það sem komið var til útgefanda. Ég ætlaði að setja textann fallega upp, prenta skjalið út og binda það saman með grönnu snæri. Og svo ætlaði ég að senda það póstleiðis með stuttri handskrifaðri orðsendingu.
Ég var í nokkrar vikur að pikka inn og nostra við textann þar til ég var orðin sátt. Þá gerði ég sendinguna klára að mestu og ákvað að póstleggja hana nokkrum dögum síðar, strax eftir hvítasunnuhelgina, þriðjudaginn 22. maí.
Kvöldið áður lá umslagið tilbúið á altarinu mínu innan um fjölmarga steina og kristala. Ég hafði verið að dunda mér með Veru, full tilhlökkunar yfir morgundeginum, þótt ég kviði líka fyrir biðstöðunni sem þá tæki við þar til svar bærist frá útgefandanum. Ég gjóaði augunum í sífellu á umslagið, sem ég hafði límt aftur til að forða mér frá því að lesa textann enn einu sinni og finna ásláttarvillu.
Á endanum klæddi ég Veru í útigalla og lambhúshettu, smeygði mér í skó og fór í vetrarúlpuna utan yfir náttkjólinn. Ég sópaði saman öllum steinunum og kristölunum af altarinu og fyllti úlpuvasana, en þeim stærsta kom ég fyrir í vagninum við hliðina á kerrupokanum. Síðan bjó ég vandlega um Veru og hélt af stað út.
Veðrið var milt og ég tók stefnuna á Klambratún sem var í um einnar mínútu göngufæri frá heimili okkar í Norðurmýrinni, en þar ætlaði ég að koma steinunum og kristölunum fyrir á góðum stað til að marka mér nýtt upphaf.
⁂
Ég hringdi í Finn um leið og ég var komin berfætt inn úr dyrunum. Skórnir mínir, gammosíurnar og nærbuxurnar voru í kuðli í vagngrindinni, allt moldugt og ógeðslegt. Hann svaraði strax og var kominn til okkar eftir skamma stund – við búum nefnilega ekki saman, lifum utan við normið. Í millitíðinni æddi ég um gólfið með Veru þétt upp að brjóstinu, fram og til baka, fram og til baka. Ég andaði margfalt örar en venjulega og endurtók í sífellu: „Guð minn góður. Guð minn góður.“ Ég hafði aldrei upplifað slíkan ótta – ótta við að barnið mitt yrði meitt. En hann hafði alveg látið hana í friði, hún var heil á húfi. „Guð minn góður. Guð minn góður.“
Finnur stirðnaði upp við að sjá okkur en tók síðan umsvifalaust til við að hlúa að okkur af yfirvegun og öryggi. Hann er einn af þeim sem panikkar aldrei, heldur verður ofurrólegur á yfirborðinu í miðju uppnámi, stór og stöðugur.
„Ég vil enga löggu,“ sagði ég strax ákveðin. „Ég get ekki hugsað mér það.“
„Ekkert mál, við þurfum enga löggu,“ sagði hann rólegur.
Ég henti gammosíunum og nærbuxunum í bala inni í sturtuklefa, hellti sápulegi yfir og bunaði úr sturtuhausnum á hæsta hita. Síðan setti ég balann út á mitt gólf.
Ég rauk fram og þreif úlpuna mína upp af gólfinu.
„Eins gott að hann hafi ekki rifið úlpuna mína, helvítis djöfull.“
Ég grandskoðaði rennilásinn, tölurnar og hnappagötin.
„Hjúkk!“ andvarpaði ég hvasst. „Ég hefði alveg brjálast. Þetta er svo góð úlpa.“
Finnur horfði á mig hlýjum en brostnum augum.
„Ég verð að fara í sturtu,“ sagði ég. „Mér líður viðbjóðslega. Helvítis sóðinn, sjáðu bara hvað hann gerði, hann eyðilagði náttkjólinn minn. Og ég á engan annan og nú þarf ég að henda honum. Hann reif hann bara allt í einu. Ég meina … til hvers? Hann gerði það bara allt í einu. Til að vera ógnvekjandi, ha? Ég þoli ekki svona!“
„Drífðu þig endilega í sturtu, ég verð inni í rúmi með Veru.“
Vera var að lognast út af með höfuðið á öxl Finns og hann kyssti mig blíðlega áður en ég fór inn á baðherbergið.
„Ég meina … WHAT THE FUCK,“ þrumaði ég í gættinni áður en ég lokaði dyrunum.
Það var dásamlega hreinsandi að standa undir heitri sturtunni og ég náði loksins að hægja á andardrættinum. Ég sápaði mig vel og vandlega og ætlaði varla að fá mig til að skrúfa fyrir.
En að endingu steig ég út úr sturtuklefanum, þurrkaði mér og klæddi mig í þunnan bláan kjól með blómamynstri sem ég hafði tekið með mér inn á baðherbergið. Ég vöðlaði rifna náttkjólnum saman, fór með hann inn í eldhús og kastaði honum í ruslið undir vaskinum. Gott, nú leið mér betur. Allt að hreinsast.
Ég lagðist upp í rúm við hlið Finns. Vera lá sofandi upp við vegginn hinum megin við hann. Mér létti við að hún væri sofnuð.
Hann sneri sér að mér og lagði arminn yfir mig þar sem ég lá á bakinu og starði upp í loftið.
„Ég bara skil þetta ekki,“ muldraði ég opineyg og skjálfandi. „Ég meina … af hverju?“ Af hverju núna? Og af hverju aftur? Það er alveg út í hött. Þetta er meira að segja á svipuðum tíma í maí, hitt gerðist nítjánda maí. Og núna er tuttugasti og annar.“
„Ha, virkilega? Það er stórfurðulegt.“
„Já, heldur betur.“
„Og ég hefði aldrei farið svona seint út með Veru nema af því mér var sagt að gera það. Maríuröddin sagði mér það. Hún ýtti mér út í þetta,“ sagði ég með beiskju.
„Já, er það?“ sagði hann hissa og hnyklaði brýnnar.
Ég kipraði saman augun. „Annað er líka mjög skrítið og það er að klukkan var akkúrat tvö tuttugu og tvö þegar ég lagði af stað út, ég tók sérstaklega eftir því. En á sínum tíma var kærumálið númer tvö hundruð tuttugu og tvö, eða það númer var að minnsta kosti stimplað á alla pappíra sem ég fékk.“
„Merkilegt!“
„Og núna er ég að fatta að það eru nákvæmlega tuttugu og tvö ár síðan þetta gerðist síðast. Það var 1996, svo það er augljós tenging, greinilega verið að segja mér eitthvað með þessu. Og með þessum endalausu tvistum. En ég skil ekki hvað.“
Mér tókst að dotta smávegis undir morgun en þegar ég vaknaði fór ég að hágráta og grét samfellt í klukkutíma eða svo.
„Ég er ekki einu sinni viss um að þetta hafi verið manneskja,“ stundi ég upp. „Hann hreyfði sig eins og spýtukall og röddin var eins og í vélmenni, hann var fáránlega vélrænn. Og hann virtist vel máli farinn, hann talaði allavega ekkert unglingamál. En hversu sjúkur þarf maður að vera til að ráðast á konu með barnavagn, það er svo gjörsamlega bilað.“
Vera vaknaði upp úr hádegi og þá fór ég fram úr með hana og gaf henni brjóst. Finnur settist við hlið mér í sófann og við þögðum bæði.
Þegar hún hafði drukkið nóg tók ég að útbúa hafragraut á meðan Finnur skipti um bleyju á henni. Síðan setti hann hana í háa barnastólinn og ég byrjaði að mata hana á ylvolgum grautnum.
Við vorum bæði hálfdofin. En þegar Vera var orðin södd fylltist ég skyndilegum eldmóði og stökk á fætur. Ég greip umslagið með handritshlutanum af altarinu og tók að klæða mig betur.
„Ég var búin að ákveða að póstleggja þetta í dag og ég ætla sko ekki að láta þetta skemma planið. Ekki séns!“
Finnur leit forviða á mig. „Á ég þá ekki að skutla þér, á ég ekki að koma með þér?“ sagði hann og tók utan um mig.
Ég faðmaði hann á móti. „Æ takk, ástin mín. En ég vil frekar ganga,“ sagði ég. „Ég vil endilega hreyfa mig aðeins og fá mér ferskt loft.“
„Ekkert mál, ég skil. Á ég að bíða hér með Veru á meðan?“
„Nei, ég tek hana bara með mér. Henni finnst svo gaman að ferðast um í vagninum.“
„Allt í lagi. Ég fer þá í Kópavoginn á meðan. En hringdu endilega í mig þegar þið komið heim, þá kem ég strax.“
„Ég geri það,“ sagði ég. „Gastu annars eitthvað sofið áðan?“
„Nei. Ég legg mig örugglega aðeins á eftir, kemur í ljós hvort ég næ að sofna.“
Þegar Vera var tilbúin í vagninum urðum við samferða út og stöldruðum við á planinu til að kveðjast við opnar bíldyrnar. Því næst settist Finnur inn í bílinn og við sendum hvort öðru fingurkoss þegar hann ók af stað.
Það var sérkennilegt að ganga eftir götunum. Allt var svo bjart og friðsælt.
Ég skimaði flóttalega í kringum mig, kom ekki auga á neinn á Gunnarsbrautinni, en þegar ég beygði inn á göngustíg sem liggur að Auðarstræti, kom unglingsstrákur í dökkri hettupeysu á móti mér og ég hrökk í kút.
Ég andaði léttar þegar ég kom upp á Snorrabraut og fann fyrir miðbæjarysnum. Nú var ég óhult. Ég virti fólk fyrir mér með leitandi athygli: Hvað ef ég sé hann, hvað geri ég þá? Og myndi ég örugglega þekkja hann? Ég vissi að hann var meðalhár, grannur en ekki mjór, krúnurakaður og náfölur. En andlitsfallið var ögn óljóst. Hann var mjög venjulegur í framan og öll hlutföll svona miðlungs. En jú, ég hlyti að þekkja hann!
Ég naut þess að vera í sólinni og ég var satt að segja að springa úr þakklæti, núna þegar hugsunin var farin að stillast. Ég var heil á húfi og umfram allt var Vera heil á húfi. Það sem gerðist hafði verið skelfilegt en við sluppum, við vorum í lagi. Ó, hvað ég var þakklát.
Þegar ég kom út af pósthúsinu í Austurstræti sendi ég Karólínu vinkonu minni stutt textaskilaboð um það sem hafði gerst – ég tala helst ekki í farsíma ef hjá því verður komist. Hún svaraði um hæl og spurði hvort ég vildi fá hana í heimsókn en ég afþakkaði í bili. Þegar ég kom heim um hálftíma síðar beið mín hins vegar poki við útidyrnar með hinu og þessu góðgæti, þar á meðal flösku af lífrænum ávaxtasafa. Karólína var á bíl og hafði greinilega komið rétt á undan mér. Mikið á ég góða vinkonu, hugsaði ég meyr, opnaði flöskuna í anddyrinu og svolgraði í mig allan ávaxtasafann í einum teyg. Þetta var klárlega besti safi sem ég hafði á ævinni bragðað.
Ég var ekki fyrr komin inn úr dyrunum en heimasíminn hringdi. Vera lá steinsofandi í vagninum. Hún var í öryggisbeisli svo ég tók af henni sængina í fljótheitum og opnaði kerrupokann svo henni yrði ekki of heitt. Síðan stökk ég í símann.
„Halló.“
„Sæl og blessuð – Laufey?“
„Já.“
„Já sæl, þetta er Kristján hérna í sambandi við Tjarnarstíginn.“
„Já einmitt. Sæll.“
„Ég vildi láta þig vita að íbúðin er tilbúin. Svo þú getur flutt inn á næstu dögum.“
„Frábært að heyra,“ sagði ég dauðfegin. Ég hafði beðið eftir þessu símtali í þrjár vikur og mikið létti mér við að þurfa ekki að búa lengur hér í Norðurmýrinni. Fullkomin tímasetning.
„Það eru reyndar tvær viðarhillur í íbúðinni ennþá, ég beið með að fjarlægja þær ef þú skyldir vilja nota þær. Þær eru frá konunni sem seldi mér húsnæðið, hún skildi þetta eftir. Mér finnst þær ekkert sérstaklega flottar og ef þú vilt þær ekki, þá er það ekkert mál. En ætli það sé ekki best að við hittumst í íbúðinni og þá getum við undirritað samning og ég læt þig fá lyklana?“
„Alveg endilega.“
„Reyndar verður smá rask einhvern tíma bráðlega því það verður skipt um alla glugga, sem tekur örugglega tvo, þrjá daga. En það verður alveg hægt að sofa í íbúðinni á meðan, það verður bara ónæði yfir daginn.“
„Ekkert mál.“
„En ég læt þig vita með fyrirvara, það eru sennilega einhverjar vikur í þetta.“
„Flott. En eigum við að ákveða tíma núna til að hittast, eða viltu bara vera í sambandi þegar hentar?“
„Við getum alveg ákveðið tíma núna, sennilega væri best að miða við helgina. Hvernig ertu á laugardaginn?“
„Hann hentar vel.“
„Eigum við að segja klukkan fjögur?“
„Já, það er fínt.“
„Gott mál. Þá sjáumst við á Tjarnarstíg klukkan fjögur á laugardaginn.“
„Já, við sjáumst.“
Ég hringdi samstundis í Finn og sagði honum fréttirnar.
„Hugsaðu þér hvað þetta er magnað. Ég er búin að bíða eftir þessu þvílíkt lengi og svo hringir hann í dag af öllum dögum.“
Finnur var mættur á innan við hálftíma en þá var Vera einmitt að rumska. Hann hélt á henni inn í stofu þar sem ég kom mér fyrir í sófanum, svo tók ég við henni og lagði hana á brjóstið. Finnur sat hjá mér á meðan hún drakk og við ræddum saman í hálfum hljóðum.
„Ég ætla að hringja í Ásgeir leigusala í dag eða á morgun og láta hann vita að við flytjum um þessi mánaðamót, ég var hvort eð er búin að segja honum að það væri mjög líklegt. Og við fáum lyklana að Tjarnarstíg á laugardaginn, ég sagðist myndu hitta Kristján þar klukkan fjögur. Laugardagurinn er tuttugasti og sjötti, ekki satt?“
„Jú, það passar. Ættum við þá að reyna að flytja um helgina?“
„Nei, þá eru flutningabílarnir svo dýrir. Gerum þetta frekar á virkum degi, á þriðjudaginn eða fimmtudaginn þegar ég er í fríi. Annaðhvort tuttugasta og níunda eða þrítugasta og fyrsta.“
„En viltu ekki hringja núna og láta vita að þú komist ekki í vinnuna á morgun, bara svo það gleymist ekki?“
„Ég ætla í vinnuna á morgun,“ sagði ég ákveðin. „Ég hreinlega tek ekki í mál að leyfa þessum geðsjúklingi að koma mér út af sporinu. Ég elska að mæta í vinnuna á miðvikudögum.“
„Ég veit, ástin mín. Við skoðum þetta kannski betur á eftir. En auðvitað hefurðu þetta eins og þú vilt.“
Af einhverri ástæðu fannst mér ólýsanlega mikilvægt að bregða ekki út af hversdagsrútínunni.
„Er annars eitthvað sérstakt sem þig langar að borða? Get ég keypt eitthvað fyrir þig?“
„Nei, mig langar ekki í neitt. Svo á ég líka hitt og þetta sem Karólína kom með. Ég textaði henni nefnilega á meðan ég var úti og sagði henni lauslega hvað gerðist, og þegar ég kom heim var poki hér fyrir utan fullur af mat. Hún er svo hugulsöm. Manstu þegar hún gerði þetta líka eftir að Vera fæddist? Þá hengdi hún poka með mat og blómum á hurðarhúninn. Hún er svo góð.“
„Já, ég man eftir því. Hún er alveg sérlega hugulsöm … og þið reyndar báðar hvor við aðra, það er alveg einstakt.“
„Reyndar gaf hún mér ávaxtasafa sem ég drakk allan, og ég væri alveg til í meiri þannig safa. Gætum við kannski farið saman í Nettó? Ég held hann fáist þar.“
„Að sjálfsögðu.“
„Og ég væri líka til í að stoppa hjá Klambratúni og sýna þér hvar þetta gerðist.“
⁂
Ég svaf nánast ekkert um nóttina en mætti samt í vinnuna klukkan tvö.
Eins og venjulega var Finnur kominn að sækja Veru um eittleytið, svo lagði ég af stað fótgangandi upp á Laugaveg þegar klukkan var korter í. Eins og venjulega. Hann hvatti mig eindregið til að hætta við en mér fannst óhugsandi að fara ekki – ég varð að halda mínu striki.
Þegar ég mætti í vinnuna gerði ég mér far um að vera eðlileg við samstarfskonu mína. Hún var komin í yfirhöfn og var að tína saman dótið sitt ofan í bakpoka.
„Jæja, hvað segirðu þá?“ sagði hún glaðlega.
„Bara fínt. Ég er reyndar svolítið þreytt,“ sagði ég og ímyndaði mér að ég liti hræðilega út, örugglega náföl og með stóra bauga.
„Já, ég sé að þú ert dálítið þreytuleg. Svafstu illa?“
„Já, frekar.“
Hún brosti góðlega. „Æ æ. Ég vona allavega að þú náir að hvíla þig vel eftir daginn.“
„Það hlýtur að vera.“
„Annars hefur verið fín sala í dag. Það fóru meðal annars þrír tarotstokkar og ein búddastytta.“
„Frábært.“
„Og svo eru fráteknir eyrnalokkar í skúffunni. Konan sagðist ætla að koma seinna í dag.“
„Flott.“
Hún hneppti að sér meðan hún gekk að dyrunum.
„Svo sjáumst við á föstudaginn. Hafðu það gott í dag.“
„Takk sömuleiðis, við sjáumst.“
Um leið og hún var farin virtist mér allt verða fáránlega hversdagslegt. Hér var ég mætt til vinnu og fyrir utan gluggann gekk fólk upp og niður Laugaveginn, kíkti í búðir og vesenaðist í símunum sínum. Lífið gekk sinn vanagang og samt hafði verið ráðist á mig í fyrranótt, samt nötraði taugakerfið.
Ég lagaði mér kaffi þegar leið á daginn, alveg eins og venjulega, og spjallaði við kúnnana um orkusteina, styttur og spáspil. Mér fannst ég ákaflega sterk. Já, mér fannst ég algjör hetja. Ég var í ótrúlega góðu jafnvægi.
Það bítur greinilega ekkert á mig, hugsaði ég og glotti hreykin með sjálfri mér. Flestar konur lægju örugglega grenjandi í rúminu núna, en ekki ég. Hér var ég í vinnunni að drekka kaffi og tala við fólk eins og ekkert hefði í skorist. Mér fannst ég alveg mögnuð.
Skömmu fyrir lokun birtist Karólína í dyragættinni:
„Bíddu nú við! Ertu í vinnunni?!“
Ég tók fagnandi á móti henni, þakkaði henni kærlega fyrir glaðninginn og við föðmuðumst innan við dyrnar.
„Þú ert rosaleg,“ sagði hún og virti mig fyrir sér með áhyggjuhrukku milli augnanna.
„Æ, ég gat ekki hugsað mér að fara í einhverja eymd út af þessu. Þá fyndist mér árásarmaðurinn hafa náð sínu fram, ef þú veist hvað ég meina.“
Hún horfði á mig samúðaraugum.
„Hvernig líður þér annars? Þú virðist nú í merkilega góðu jafnvægi.“
„Mér hefur svo sem liðið ágætlega í dag, samt er taugakerfið nötrandi, þú tekur kannski eftir því. Ég skelf öll. Ég bara skil þetta ekki, það er það sem truflar mig mest. Það hefur allt verið svo slétt og fellt undanfarið og mér hefur liðið svo vel. Og svo er þessu allt í einu dúndrað inn, ég fatta það ekki. Þýðir þetta þá að hvað sem er geti gerst, að lífið sé tilviljanakennt eftir allt saman … Ég hef aldrei trúað því. En núna líður mér eins og ég geti átt von á hverju sem er, hvenær sem er.“
„Já, úff, hvað ég skil þig. Þetta virðist algjörlega út í hött. Þú sem ert búin að vinna svo vel úr þínum málum, þetta er stórundarlegt.“
„Og einmitt þess vegna brá mér líka svo rosalega. Það var ekkert í mér sem átti von á þessu. Og ekki nóg með það, heldur var ég einmitt að ljúka við að leggja niður fullt af steinum og kristölum þegar þetta gerðist. Ég var rétt búin að leggja niður síðasta kristalinn og ætlaði að ýta honum aðeins til þegar hann birtist og spurði hvað ég væri að gera, talaði eins og vélmenni.“
„Vó! En óhugnanlegt.“
„Þannig að í rauninni má segja að árásin hafi orðið hluti af serimóníunni – ég er reyndar bara að átta mig á því núna þegar ég er að segja þér þetta. Vá, hvað þetta er skrítið.“
„Heldur betur! En hvað varstu að gera með steinana og kristalana? Þýddi þessi serimónía eitthvað sérstakt fyrir þér?“
„Þetta snerist um að breyta mataræðinu, hætta að borða hveiti. Það fer svo illa í mig en ég hef alltaf verið sólgin í það. Til dæmis gat ég hámað í mig heilt franskbrauð þegar ég var unglingur á meðan hinir krakkarnir fengu sér bland í poka.“
Karólína skellti upp úr. „Hah, þú meinar.“
„Samt skil ég ekki hvernig árásin getur tengst þeim ásetningi á nokkurn hátt. Ég skil ekki af hverju þetta blandast saman.“
„Það er vissulega erfitt að sjá nokkra tengingu þarna á milli. En hvernig er það, hefurðu tilkynnt þetta?“
„Látið lögregluna vita?“
„Já.“
„Nei. Ég get ekki hugsað mér að blanda löggunni í þetta, ég hef hvort eð er engar sannanir og veit ekkert hver þetta er.“
„Það gæti samt verið gott að láta vita. Kannski hefur lögreglan hugmyndir um hver þetta er. Kannski hefur hann ráðist á fleiri.“
„Það er svo sem góður punktur. Samt finnst mér tilhugsunin kæfandi, mig langar bara að fá að vera í friði.“
„Þú finnur hvað er rétt. Og láttu mig vita ef ég get eitthvað gert fyrir þig.“
„Takk.“
„Og mundu líka að það er allt í lagi að fara í kuðung og gráta. Stundum er það best.“
„Já já, ég veit. Ég er búin að því.“
Ekki leið á löngu eftir að Karólína fór þar til klukkan var orðin sex og Finnur var mættur ásamt Veru að sækja mig. Þannig höfum við þetta yfirleitt – ég geng í vinnuna til að fá hreyfingu utandyra, svo koma þau að sækja mig og við förum saman að kaupa í matinn.
Á heimleiðinni fórum við í Krónuna í Nóatúni, fyrst og fremst til að fá eitthvað í svanginn fyrir Veru.
„Ég stekk bara inn,“ sagði ég þegar bíllinn stöðvaðist.
„Nei, við komum með.“
Finnur steig út, tók Veru úr bílstólnum og gekk við hlið mér inn í búðina. Ég þóttist vita að hann vildi vera hjá mér út af árásinni og mér fannst það sætt.
En um leið og ég steig inn í verslunina þyrmdi yfir mig. Árásarmaðurinn bjó líklegast í hverfinu og allir þurfa jú að borða, sama hversu klikkaðir þeir eru.
Hvað ef ég mæti honum hér? hugsaði ég. Það er einmitt á þessum tíma sem flestir fara út í búð, ekki satt?
Ég gekk við hlið Finns og Veru og skoðaði öll nálæg andlit. Ég fylgdist líka vel með innganginum til að sjá hverjir kæmu inn. Ég reyndi að ákveða hvernig best væri að bregðast við ef ég mætti honum en komst ekki að neinni niðurstöðu. Gæti ég látið eins og hann væri mér ókunnugur og horft í aðra átt, eða myndi ég frjósa? Hafði ég næga sjálfstjórn til að leyfa andartakinu að líða hjá, eða myndi ég ráðast á hann?
„Takk fyrir að koma með mér inn,“ hvíslaði ég að Finni meðan við biðum eftir að borga.
Hann horfði á mig alvarlegur á svip en sagði ekkert.
Þegar við vorum aftur komin inn í bíl og lögð af stað heim, sagði ég honum frá upplifun minni inni í versluninni og hann hlustaði þegjandi.
„Hvað á ég að gera ef ég mæti honum, sem hlýtur eiginlega að gerast einhvern tíma – við búum jú á Íslandi eftir allt saman?“
„Þá læturðu mig samstundis vita,“ sagði Finnur með þunga í röddinni sem ómögulegt var að misskilja.
Við keyrðum niður Flókagötuna og augun skimuðu ósjálfrátt eftir fólki á Klambratúni, leituðu að náfölum manni í svartri hettupeysu.
„Mikið er ég fegin því að við séum að flytja burt,“ andvarpaði ég. „Guð, hvað það verður gott að komast úr þessu hverfi.“