Hvalreki

Védís Eva Guðmundsdóttir

I.

Læknirinn taldi mig haldna ímyndunarveiki.
 Það hrjáði mig ekkert annað en þörf fyrir að auðga annars hversdagslega tilveruna, sagði hann. Fráfall móður minnar á liðnu ári gæti átt þátt í þessu ástandi mínu, að mati sérfræðingsins. Eins konar móðursýki með blæbrigðum, bætti hann við og sleikti út um sprungnar varir.

 Afbrigðum, meinti hann eflaust.

 Við hefðum nú verið nánar. Slíkt fengi á, sérlega þegar viðkomandi byggi einn.

 Hefði alltaf búið einn.

Ekki var mælt með lyfjagjöf, þannig, en ef ég svæfi illa væri sjálfsagt mál að skrifa út róandi eða slævandi töflur. Samtalsmeðferð væri að sjálfsögðu ráðlögð.

 Sprungnu varirnar létu staðar numið.

Ég hugsaði með mér að það væri líklegast lítill tilgangur í að borga hlýlegum sérvitringi með þæft ullarhálsmen og staðnaða háskólagráðu tæpar tuttugu þúsund á klukkutímann til að sannfæra mig um að mér skjátlaðist um staðreyndir eigin lífs.
 „En eins og ég segi, besta meðalið er að fara út, vera meðal fólks. Ekki loka sig af, það er algengur fylgikvilli svona … missis. Svo hefur þú bara samband að nýju. Ef sýnirnar fara versnandi. Þá tökum við aftur stöðuna. Hmm.“
 Ég fylgdist með taktinum sem hann trommaði á skrifborðið með fingrunum, í takt við óþolinmótt læknisfræðilegt mat á vanda mínum. Við horfðumst í augu, örlítið vandræðalegt bros lék um varir hans. Sýnilega kominn með nóg af spéfuglum eins og mér.
 Þetta var lokastefið í trommusólóinu.

„Já, ég læt vita ef þeir verða fleiri, hvalrekarnir,“ svaraði ég glettilega og stóð upp. Fas mitt undirstrikaði hjákátleika frásagnar minnar, í því skyni að þóknast honum og fullvissa um að það yrði nú allt í besta lagi með mig, þetta myndi rjátlast af mér eftir þetta góða samtal sem við höfðum átt. Ég væri raunar að horfast í augu við vandann þá og þegar.

 Hélt hann.

II.

Á leiðinni út Bárugötuna hugsaði ég með mér að ég yrði að kaupa meira salt. Ég gæti allt eins nýtt pening sem hefði annars farið í þæfðan sálfræðikostnað og keypt helvítis helling af salti. Gommur af salti. Já, og mögulega stálplötur eða einhverjar stoðir til að styrkja barnavagninn sem virtist hvað úr hverju ætla að gefa undan þunganum, allavega í lengri göngutúrum. Kannski ætti ég líka að fara á stúfana um hvort hægt væri að verða sér úti um svona pallettur á hjólum. Það væri mögulegt að festa við þær reipi til að draga hann á eftir sér í göngutúrum út á Grandann og höfnina.Þegar ég lauk upp hurðinni heima heyrði ég gutlið í baðvatninu. Það var augljóslega fjör hjá mínum. Ég hengdi af mér og flýtti mér inn á baðherbergið þar sem gólfflísarnar voru á floti.

 „Litli moli, varstu flinkur að vera einn í baði?“

Ég bretti upp ermarnar á peysunni. Hann leit á mig djúpsjávaraugum og brosti breitt svo það skein í litlar perluhvítar tennurnar í kjaftinum á honum. Ég seildist ofan í baðið og strauk silkimjúka, svarta húð hans, þannig að hann hneggjaði af ánægju.
 Það var orðið heldur lítið um baðvatn hjá anganum, þannig að ég teygði mig í kranann og skrúfaði frá vatninu. Við það varð hnegg hans háværara og hann sló til sporðinum, eins og plássið í baðkarinu leyfði. Það sprautaðist yfir mig gusa af vatni, þannig að hárið á mér varð rennandi blautt, sleikt niður eftir andlitinu. Mér brá fyrst, en hló næst opinmynnt til hans. Hann hneggjaði á móti.

 Litli prakkarinn. Þetta var nú meiri vitleysan hjá okkur.

Ég opnaði baðskápinn, þar sem ég geymdi nú poka (í iðnaðarstærð) af sjávarsalti. Ég veiddi lúkufylli upp úr pokanum og muldi það varlega út í baðvatnið. Ég gætti þess að það dreifðist jafnt, svo vatnið myndi minna hann á saltan sjóinn.
 Það kurraði í honum, kurr sem kom djúpt að innan. Hann lygndi aftur augunum og færði höfuðið undir vatnsyfirborðið sem nú náði upp að baðbrúninni. Stakk sér til sunds í litla rúmsjónum sem við höfðum búið til heima hjá mér.
 Lítill vatnsstrókur sprautaðist aftur yfir mig, þar sem ég stóð og dáðist að straumlínulöguðu formi hans.

 Allt var gott.

III.

Auðvitað var mér brugðið fyrst.
 Fyrsta tilfinningin sem ég man eftir þegar ég vaknaði þennan morgun var að mér þætti nú helst til of blautt í rúminu. Þetta var meira en nætursviti eða óráðssviti eftir þung veikindi, rúmfötin voru blaut, eiginlega bara gegnsósa. Ég hafði opnað augun ráðvillt, með óljósan draum um öldur, þegar ég sá ágætis fyrirferð hinum megin í rúminu. Dökk að sjá, glansandi í næturhúminu, einhverju stærri en stór labrador hundur, ef ég ætti að giska.
 Fyrst hafði ég haldið að mig væri að enn að dreyma en það var ekki um að villast þegar ég lagði hönd á slétta og sleipa húð hans við hlið mér.

 Hval hafði rekið upp í rúm til mín. Beint í fangið á mér.

Hann horfði á mig í rökkrinu með dökkum augum sem glitruðu eins og tvær stjörnur á himni og kurraði lágt. Ég vissi ekkert hvaðan á mig stóð veðrið, fyrr en ég stóð upp og lét renna í bað fyrir skepnuna. Það var það fyrsta sem mér datt í hug að gera.
 Ég reyndi síðar að útskýra fyrir lækninum hvað hafði gerst. Skýringarnar á þessum undarlega atburði átti ég ekki, enda lítið hægt að ræða við hvali hvaðan þeir koma eða hvernig þeir enda á að svamla um í rúmfötunum manns, í lítilli íbúð í Verkamannabústöðunum. Hann hneggjaði bara til mín, þegar ég reyndi að spyrja.

 Hann virtist sjálfur ekki sólginn í að finna neinar alvöru skýringar, læknirinn.

IV.

Hvalurinn hélt, skiljanlega, mikið upp á baðferðir.
 Ég hafði hringt mig inn veika í vinnunni fyrstu vikuna okkar saman og eytt henni sitjandi við hlið hans á baðgólfinu, við kurrandi saman, að göslast í vatninu. Ég var komin með lag á því að drösla hvalnum úr rúminu (með miklum erfiðismunum þó!) yfir í baðið á morgnana og rútínan okkar tók smám saman á sig mynd.
 Milli þess að annast hvalinn og sofa las ég mér til um rannsóknir á heilbrigði og kjörumhverfi hvala sem stóð orðið virkileg ógn af slæmum loftgæðum, mengun og hækkandi sýrustigi í hafinu. Eftir lesturinn var ég líka farin að hafa áhyggjur af hvalnum heima vegna rakans sem myndaðist af stöðugum baðferðum okkar beggja, en þunga loftið var farið að minna ískyggilega á súrnandi sjó. Mér fannst tími til kominn að við fengjum ferskt loft.
 Þannig varð það til þess að ég dröslaði forláta barnavagni úr sameigninni í Verkó, sem hafði staðið þar ónotaður til lengri tíma. Barnavagninn hafði á einhverjum tímapunkti verið þrætuepli, andlag rifrildis um tiltekt og frágang í sameigninni. En síðan hafði vagninn gleymst og íbúar hússins voru ýmist orðnir vanir vagninum, nú eða brottfluttir.
 Ég rogaðist með hvalinn í fanginu niður stigann og sleppti honum í vagninn í morgunhúminu. Það brakaði lítillega í stálgrindinni undan þyngdinni en að öðru leyti virtist vagninn valda honum.
 Hvalnum leist í fyrstu ekkert á blikuna. Tinnusvört augun færðust hratt til og frá, milli mín og annarra vegfarenda sem við mættum, fyrstu skrefin niður Hringbrautina. Hann gaf frá sér öðruvísi hljóð en áður, eitthvað sem ég túlkaði sem væl eða grát, svo ég staðnæmdist í sporunum og breiddi betur yfir hann rakt handklæðið sem ég hafði gripið með á síðustu stundu og fullvissaði hann um að hann væri óhultur. Hann róaðist um síðir og fór að veita umhverfinu gaum, virtist jafnvel áhugasamur þegar ég benti honum á hvar kunningjar mínir byggju, þegar ég benti á mávana sem flugu yfir og sérstaklega þegar ég sýndi honum sjóndeildarhringinn og hafið handan umferðargötunnar. Ég vandaði mig við að hella reglulega úr vatnsflöskunni sem ég hafði meðferðis, til að halda honum og handklæðinu vel röku á meðan heilsubótargöngunni stóð.

 Í dag miða ég við um hálfan lítra af vatni á hvern genginn kílómetra.

V.

Leið okkar í fyrsta göngutúrnum – sem við héldum síðar mikið upp á, bæði tvö – lá niður að Granda, til að fylgjast með öldunum skella á hafnargarðinum. Við rýndum í hafflötinn í fjarska og ég velti því upp hvort það gætu verið fleiri hvalir þar undir sem væru að kalla á hann. Hann starði hissa á hafið.
 Virtist ekki læs á það, frekar en ég.
 Í þessum göngutúrum leiddi ég hugann að því hvort hann hefði komið til mín úr sjónum eða annars staðar frá. Hvort líf hans hefði hafist á annan hátt en almennt gengur og gerist hjá hvölum. Til að sannreyna getgátur mínar, keyrði ég vagninn alveg að hafnarbrúninni til að kanna viðbrögð hans. Það var óbrigðult að hann ókyrrtist allur, þangað til ég hafði bakkað með vagninn og skapað aftur örugga fjarlægð frá hafinu. Ég leitaði eftir svipbrigðum í andliti hans á þessum stundum, en hann virtist ekki vilja gefa neitt uppi. Starði bara á mig, hræddur á svip, þangað til gutlið í öldunum var orðið ógreinilegt.
 Það getur eflaust verið kaldranalegt volkið í hafinu, fyrir litla hvali eins og hann. Kannski hafði hann flúið hafið, í hlýjan faðm minn, í leit að væntumþykju. Hugsunin um að hann kysi heldur að verja tíma með mér, í minni nærveru, fyllti mig ást og þakklæti. Ég áttaði mig á því að ég vildi alls ekki missa hann í sjóinn og snúa aftur í íbúðina mína með fangið tómt.
 Hugsanir um móður mína sóttu á mig þegar ég velti fyrir mér uppruna hans og hættunni á að hvalurinn gæti synt burt, úr lífi mínu, en ég bægði þeim frá mér jafnóðum. Það var svo indælt að geta gleymt sér í straumlínulagaðri umönnun hans.
 Ég ákvað síðan að skýringar á komu hans myndu hvort eð er ekki breyta stöðu mála. Eins og nú var í pottinn búið var þegar hafin sambúð konu og hvals á Hofsvallagötunni, þar sem gólfin voru ávallt blaut og ég hafði lagt í vana minn að sofa í sundbol og með ullarhúfu til að veikjast ekki af legunni í rökum sængurverum og faðmlögum við hvalinn á næturnar. Ég byrjaði einnig að leggja í daglegan vana að tölta út í búð eftir salti.
 Ég var tilbúin að leggja ýmislegt smávægilegt á mig, svo hvalnum mínum liði sem best hjá mér. Ég ætlaði að gera hann að stoltum Vesturbæjarbúa. Ég hafði meira að segja keypt á hann KR-treyju.

 Í stærð XL. Vitaskuld.

VI.

Kannski var um mánuður liðinn af sambúð okkar hvalsins þegar ég braust inn í Vesturbæjarlaugina.
 Ég var búin að skrá mig í ótímabundið veikindaleyfi í vinnunni, vitnaði í sorgina eftir fráfall mömmu og enginn spurði frekari spurninga. Skilningurinn var mikill.
 Mér hafði dottið til hugar að biðja um fæðingarorlof sem ég hafði ekki enn nýtt mér á lífsleiðinni, þrátt fyrir að ég hefði greitt fyrir söfnun slíks með launaframlagi síðustu áratugi. Mér fannst það þó kannski örlítið kræft, þar sem ég var sjáanlega komin úr barneign. Veikinda- eða sorgarleyfi varð það að vera.
 Eftir mánuð hafði molinn verið svamlandi um í baðkarinu liðlangan daginn, en á þeim tímapunkti þótti mér hann stærri í sjón en þegar hann rak fyrst til mín. Ég hafði fætt hann á sardínum og fiskibollum frá Ora sem hann sporðrenndi með bestu lyst. Hvort vöxturinn hékk saman við gjafmildi mína í fóðri eða önnur stærri náttúrulögmál var ég ekki viss um, en það var ljóst að hann þyrfti að njóta þess að svamla um í stærri vistarverum en baðkerinu mínu, þar sem það var orðið frekar þröngt um hann þar.
 Þetta kvöld lagði ég línurnar fyrir uppátækið og var snögg til undirbúnings.
 Á miðnætti rúllaði ég yfirfullum barnavagninum niður Hofsvallagötuna að lauginni. Sporðurinn á hvalnum lá nú svo langt niður eftir vagninum að hann nam nánast við gangstéttina. Eins gott það var ekki langt á áfangastað. Það virtist samt fara vel um litla kallinn.
 Heit gufan liðaðist upp í hljóðan næturhimininn þegar við lögðum vagninum fyrir utan gerðið umhverfis Vesturbæjarlaugina. Ég seildist eftir garðklippunum sem ég hafði komið fyrir í geymslueiningunni undir vagninum og hófst handa við að klippa gat á vírinn.

 Gat sem hæfði mánaðargömlum hval.

Enginn var á ferli sem gat stöðvað fimmtuga konu í sundbol og síðri úlpu sem mundaði garðklippur, með hval í barnavagni. Ætlunarverkið tókst án vandkvæða.

 Við skelltum okkur í sund.

VII.

Helsta áhyggjuefnið var hvernig hvalurinn myndi þola klórinn.
 Ég setti á hann sundgleraugu til að varna því að hann færi að svíða í sjávardjúpu augun. Hann var auðvitað algert krútt með þau, eins og lítill prófessor á svamli í barnalauginni og virtist ekki kenna sér meins af vísindalegri vatnsblöndu okkar mannanna. Eða því að gleraugun pössuðu illa.
 Við lékum okkur saman að því að fara í kaf (hann vann mig iðulega), keppa í hraðsundi frá einum enda laugarinnar og yfir að hinum (hann leyfði mér að vinna einu sinni) og ég reyndi að kenna honum undirstöðurnar við að kasta bolta í net. Það gekk reyndar ögn brösulega þar sem bægslin hans voru heldur stutt og sleip og lítill gripkraftur í þeim. Hann var þó nokkuð lunkinn með sporðinn. Ég var samt krýnd sigurvegari umferðarinnar í blautum körfubolta – einróma niðurstaða okkar beggja.
 Við svömluðum þarna saman, í leik, langt fram eftir nóttu. Hvalurinn virtist una sér vel með þetta góða rými til að sprikla, synda í hringi og geta blásið vatni af fullum krafti, upp í meiri lofthæð en gert er ráð fyrir í byggingarreglugerðum um innviði baðherbergja.
 Þegar rauðu stafirnir á klukkunni nálguðust fjögur skreið ég upp úr lauginni og kom mér fyrir í heita pottinum næst henni. Ég lagðist á magann í grunnu vatninu og fylgdist með gorminum kanna hvern krók og kima í lauginni, hneggjandi af ánægju í hvert sinn sem hann kom upp til að draga andann. Ég brosti með sjálfri mér og andvarpaði djúpt, fann friðinn og róna, sem hafði komið sér svo kyrfilega fyrir í sálinni minni eftir samveru okkar undanfarinn mánuð, breiða úr sér fram í fingurgóma.

 Ég leyfði mér að lygna aftur augunum.

VIII.

Ég vaknaði við köll af sundlaugarbakkanum.
 Húnafélagið, fólkið sem mætir á húninn í Vesturbæjarlauginni, hafði rutt sér leið inn í meðvitund mína með fyrstu Müllers-æfingum dagsins. Ég sá hvíta útlimi heldra fólksins teygja sig upp með gufunni sem liðaðist í átt að lofti. Sundhettur, sundgleraugu.
 Ég hafði lognast út af í heita pottinum. Ég hrökk við, settist upp og fann eftirgerð litlu mósaíkflísanna loða við vangann minn. Þetta var hjákátleg staða að finna sig í en hún jafnaðist ekkert á við óttann sem breiddi úr sér í maganum á mér, um að við værum staðin að verki. Hjartað bankaði hratt og ákveðið í bringspalirnar á mér og friðartaugin sem hafði vaxið fyrr um nóttina skreið aftur saman.
 Ég leit óttaslegin í kringum mig eftir hvalnum, gætti þess hvort uppþot væri í aðsigi við sundlaugarbakkann eða lögreglan mætt til að kanna innbrotið og viðveru hvalsins í lauginni. Ég sá hvorki lögguna eða neitt uppnám, allt virtist vera með frekar kyrrum kjörum hjá öðrum en Müllers-vinum. En hvalinn sá ég hvergi.
 Þar sem ég sá ekki í búkinn á honum við fyrstu sýn þaðan sem ég sat, stóð ég upp og gekk næst í átt til laugarinnar, hvar ég bjóst við að sjá hann í felum á botni, undir fyrstu sundtökum morgunsins.

 En laugin var tóm – af hvölum. Þar voru eintómir ellilífeyrisþegar.

Ég stakk mér ofan í til að þreifa burt þennan ískyggilega raunveruleika, ef svo lukkulega vildi til að sjónin væri að bregðast mér. Ég dró andann djúpt og kafaði niður á botn, strauk eftir öllum hliðum sundlaugarinnar (og óvart einum loðnum fótlegg sundfara) en hvalinn var hvergi að finna í lauginni.

 Hann var horfinn.

IX.

Ærandi tómleikinn tók við.
 Gönguferðin til baka úr sundlauginni er eiginlega enn í móðu. Ég ráfaði upp götuna heim með garðklippur í annarri, mun þyngri í hönd en áður, og ýtti vagninum tómum á undan mér með hinni. Ég hafði ekki tök á því að renna upp úlpunni, yfir sundbolinn sem ég var enn íklædd, þótt það væri napurt úti. Ég hafði gengið beint að nýklipptu gatinu, gripið úlpuna upp af köldum bakkanum og stungið mér í gegn, þegar ég hafði leitað af mér allan grun um hval í felum.
 Eftir að heim var komið fleygði ég garðklippunum frá mér í forstofunni og mér síðan upp í rúm, enn í sundbolnum. Ég kafaði ofan í sængurverin og svamlaði um í þeim, ein, um stund, áður en ég lognaðist út af.
 Mig dreymdi dimman hafsbotninn. Ég fann mig á hafdjúpinu og leitaði sífellt í botnsandinum, gróf höndum djúpt í hann, milli þess sem ég leit upp og horfði á sólargeislana brjóta sér leið í gegnum efsta vatnslagið, til að ná áttum um hvað sneri upp og niður. Ég fyllti lúkurnar af dökkum sandi sem leið milli fingra mér og aftur á botninn. Ekkert sat eftir. Hendurnar virtust ókunnugar og framandi enda sýndist mér vera vaxin á milli fingranna einhvers konar fit.
 Ég rankaði ekki við mér úr djúpum draumförunum fyrr en þegar nokkuð var liðið á kvöldið. Ég staulaðist fram í myrkvaða íbúðina, illa áttuð og döpur. Ég var þar ein, aftur.
 Ég lét renna í bað. Tæmdi úr saltpoka ofan í það. Leyfði mér svo að sökkva ofan í það eins djúpt og mér tókst, án þess að fá vatn og salt í augun og vitin.
 Þegar ég sat við eldhúsborðið, með saltagnir í hárinu og í frottésloppnum hennar mömmu helltist söknuðurinn yfir mig. Ég saknaði raka loftsins í íbúðinni og þess að ganga um í hálfvotum sokkum heima hjá mér, eitthvað sem ég hafði vanist í tíðum baðferðum hvalsins, og þess að bera hann á milli. Ég saknaði hneggsins og litlu vatnsstrókanna sem hann spúði á mig úr baðkarinu. Undarlegt að manni geti farið að þykja vænt um svona kynlegar venjur sem eiga ekki erindi í sementslögðum heimi manns.
 Ég þoldi ekki við lengur en viku en þá keypti ég mér vatnsrúm, fyrirbæri sem virtist nær ómögulegt að finna til sölu á 21. öldinni. Heppnin var með mér á Facebook, þar sem slíkt rúm hafði rekið á fjörur mínar eftir einhverja bílskúrsrýmingu í hverfinu. Seljandinn var svo áfjáður að losa sig við það að hann lofaði mér meira að segja að bera það upp til mín á Hofsvallagötuna. Ég batt vonir við að rúmið myndi færa mig nær hvalnum og gutlinu hans. Borgaði fyrir tuttugu þúsund, eins og fyrir einn þæfðan tíma hjá sérfræðingi.
 Ég lá og dúaði létt í rúminu fyrsta kvöldið eftir kaupin og hlustaði eftir gutlinu sem nú kom undan eigin líkama, en hafði áður hlýjað mér um hjartarætur innan úr baðherberginu.

X.

Vikur liðu.

 Hvernig er hægt að takast á við öfugan hvalreka?

XI.

Það dró lítið til tíðinda eftir þetta, nema að ég fann dæld myndast rétt neðan við efsta hryggjarliðinn með tímanum.
 Fyrst um sinn kippti ég mér ekki upp við þetta en þegar dældin dýpkaði með hverjum deginum sem leið varð ég ögn óróleg. Ég leitaði að svörum á internetinu um mögulegar orsakir en það kom ekki mikið upp úr krafsinu nema fróðleikur um að hryggjarliðurinn fyrir ofan dældina héti öðru nafni heljarliður.
 Nokkrir dagar liðu og ég gat þá stungið fingrum til hálfs ofan í dældina. Fingurnir námu við húðina sem var orðin gróf viðkomu, grófari en húð annars er. Mér fannst eins og fyrir hana miðja væri að myndast rifa, ég gat rétt strokið fingrinum við hana, en þorði ekki að kanna það nánar. Fannst það ógeðfellt.
 Ég hætti í staðinn rannsóknum mínum á þessu fordæmalausa heilkenni og pantaði mér aftur tíma hjá lækninum. Hann átti fyrst laust eftir rúma viku. Ég þáði tímann og kvaddi ritarann í gegnum símann, þar sem ég lá saltlegin í baði.

Ekki að hann hefði haft mörg svör á reiðum höndum síðast.

XII.

Ég var með vasa fulla af vatni þegar ég gekk næst inn á læknastofuna.
 Ég hafði bleytt þvottapoka og stungið hvorum í sinn vasann, eins og ég hafði gert fyrir hvalinn minn. Mig hafði þyrst í rakann síðustu daga þegar ég var ekki á kafi í baðkarinu mínu og vildi því vera viss um að hafa á mér nokkra aukadropa í göngutúrnum á læknastofuna.
 Ég hafði rúllað með mér barnavagninum og stillt honum upp fyrir utan gluggann á viðtalsherberginu, af hálfgerðum vana, en nú lá í honum blautt handklæði (sem varaforði fyrir mig). Það var ljúfsárt að ýta honum á undan sér, mun léttara en þegar ég hafði ýtt honum á undan mér síðast, með hvalinn innbyrðis. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði farið út úr húsi í hálfan mánuð og mér fannst óyfirstíganlegt að gera það vagnslaus.
 „Jæja, þú segist ekki lengur sjá neinn hval. Ég held að það sé bara skref í rétta átt. Var ekki bara ágætis þörf á þessu leyfi og smá hvíld? Hmm.“ Hann leit kankvís á mig yfir smeðjuleg gleraugun, svo stór að þau voru eiginlega vegahindrun fyrir því að mæta sjónum hans.

 Hummaði svo aftur. Varirnar enn sprungnar.

 Gasalega gat hann verið leiðinlegur, þessi læknir.

Ég jammaði og jáaði með hugleiðingum hans um núllstillingar og áfallastreitu og var í þann mund að bera upp spurningu mína um dældina þegar svimi sótti á mig, svívirðilegur þorsti og hálfgerð andnauð í kjölfarið. Loftið var þungt þarna inni og veggirnir þrengdu að mér á svipstundu. Ég stóð upp í flýti og þakkaði fyrir mig, á meðan ég skálmaði út af skrifstofu hans stórum skrefum.
 Þegar fram á gang var komið rykkti ég þvottapokunum úr vösunum, lagði þá fyrir vitin og dró andann djúpt. Þótt rakinn frá þvottapokanum hjálpaði ögn, fann ég að hann nægði ekki. Ég hraðaði mér út og sótti vott handklæðið í vagninn og vafði því yfir axlirnar á mér. Þá loks leið mér örlítið betur, en varð hugsað til baðkarsins heima.
 Í einhvers konar sjálfstýringu tók ég hins vegar stefnuna á Ægissíðuna með vagninn og lét staðar numið í litlu fjörunni við gömlu beitingarskúrana. Ég skildi vagninn eftir þar og gekk sjálf niður í fjöruna, horfði sem dáleidd á hafið dansa varlega í golunni, með Keili og Suðurnesin í glimrandi baksýn.
 Hægt og rólega fletti ég hverri flíkinni á fætur annarri af mér og skeytti ekkert um hvort það væru áhorfendur að skyndilegri nekt minni. Ég gekk rólega út í værar öldurnar og fann hvernig sljákkaði á þorstanum með hverju skrefinu. Andardrátturinn sem fylgdi, rétt áður en ég stakk mér í kaf, var dýpsti andardráttur sem ég hafði tekið lengi. Mér fannst súrefnið berast mér bæði að framan og aftan, það fyllti öll mín vit og sprakk út innra með mér þegar haka mín nam við yfirborð sjávar. Það létti á þrýstingnum sem hafði byggst upp að innan síðustu daga og líffærin þöndu sig út af gleði með plássið sem fylgdi teyguðu súrefninu og saltleginum sem umlukti húð mína.

 Ég hvarf sjónum í sjónum.

Þegar ég kom upp til að anda nokkru frá ströndinni blés ég vatnsstrók kröftuglega upp í loftið. Blástursopið efst á hryggnum skeytti greinilega ekkert um lofthæð samkvæmt byggingarreglugerðum.

 Ég hneggjaði í kátínu minni.

 Ég heyrði hneggið hans svara mér, handan flóans.

 Ég setti stefnuna á rúmsjó.