Hallur Þór Halldórsson
Þingmaðurinn skellti hurðinni í lás á eftir sér og arkaði af stað út í myrkur og brakandi stillu haustsins. Renndi að sér PrimaLoft-jakkanum og togaði vel vörumerkta húfuna betur niður fyrir eyrun með glænýjum, fóðruðum leðurhönskum. Frostið beit í kinnarnar á honum og eftir því sem hann herti gönguna og mæði hins miðaldra fór að segja til sín sá hann eigin andardrátt ummyndast í frostgufur í daufri birtu götuljósanna.
Trén höfðu þegar fellt lauf sín sem lágu eins og hráviði um allar trissur, gul og brún, þöktu fölnaðar grasbreiður við ríkuleg stórhýsin í hverfinu og sprungna kantsteinana við göturnar, stífluðu ristar yfir holræsi og rotnuðu þar í mestu makindum. Haustilmurinn lá í loftinu, frostkaldur og rotnandi, ferskur og yfirþyrmandi, allt í senn.
Haustið hafði einhvern veginn skollið á hraðar en hann hafði átt von á. Svo hratt að hann hafði varla náð að fylgjast með því lita tilveruna. Það hafði líka farið svolítið framhjá honum í öllu þessu umstangi, veseninu sem fylgdi þessu nýja hlutverki: Nýr á þingi, hetja landsbyggðarinnar, líklegur kandídat inn í ríkisstjórn við næstu ráðherrabreytingar.
Samt var honum mikið í mun að kynna sig ekki til sögunnar sem einhvern nýgræðing, hann hafði jú verið öflugur í ungliðahreyfingu flokksins á sínum yngri árum, útnefndur bjartasta vonin á árshátíð í sveitinni og hvaðeina. En þegar kom að því að taka skrefið í sveitastjórnarpólitíkina til fulls hafði hann ekki haft þrek í það. Þær raddir voru reyndar uppi á einhverjum bæjum í sveitinni að hann hefði hreinlega skort kjark til þess, en það var auðvitað þvættingur. Ungur og nýgiftur maður í hreiðurgerð, með eiginkonu og unga dóttur upp á arminn; hann var bara upptekinn við annað.
Smám saman hafði hann dregið sig út úr öllu starfi flokksins, sagt sig úr nefndum og stýrihópum, og þegar kom svo að prófkjörinu sjálfu ákvað hann að gefa ekki kost á sér. Snúið sér að kennslu við grunnskólann í sveitinni og stundað hana af metnaði og við ágætan orðstír í nokkur ár.
Þannig að hann leit meira á þessa vegferð sem hann hafði verið á undanfarna mánuði, aftur inn í heim stjórnmálanna, sem nákvæmlega það: Endurkomu. Þetta var hans kommbakk!
Þrátt fyrir alla velgengnina sem hann hafði notið undanfarið, þá hafði saknaði hann tímans þegar allt hafði verið í blóma, lífið framundan og ekkert nema tækifæri að sjá á sjóndeildarhringnum. Áður en hann fór að efast um allt. Um hvað það væri sem hann raunverulega vildi, eigin þrár og langanir. Og um eðli ástarinnar og kenndirnar sem henni fylgdu.
Hann saknaði líka alltaf sveitarinnar, þrátt fyrir allt, og þótt hann hefði reyndar þurft að viðurkenna það í þessu blaðaviðtali – þessu helvítis blaðaviðtali – að hann hefði ekki séð heimaslóðirnar ansi lengi. Án þess þó að nefna það að lengi í þessu samhengi þýddi meira en tveir áratugir, eða ræða eitthvað nánar þetta mál með aðstoðarskólastjórann. Það var enn dálítið á reiki fyrir honum hvað það hafði snúist um í raun og sann, hver hefði gert hverjum hvað, en í kjölfarið hafði honum verið sagt upp störfum við skólann og gert að hætta samstundis. Yfirgefa svæðið. Og svo höfðu sögurnar farið af stað og byrjað að hrikta í stoðum hjónabandsins, konan skyndilega ekki þóst treysta honum lengur, ýtt honum frá sér og á endanum rekið hann út. Af sínu eigin heimili. Svo hann hrökklaðist suður, í nafnleysið, þar sem hann komst að hjá einum sparisjóðanna og var ekki lengi að vinna sig upp í ágæta stöðu þar.
Þetta helvítis blaðaviðtal! Þessi andskotans blaðamaður – snápur, öllu heldur. Ari hafði auðvitað sagt honum að láta þetta eiga sig, að þetta myndi koma í bakið á honum, en sjálfur hafði hann verið þess fullviss að menn þyrftu að grípa hvert tækfæri sem byðist til að koma sér og sínum skoðunum á framfæri. Grípa þessar gæsir kverkataki þegar þær gæfust.
Það hafði byrjað alveg ljómandi vel. Hann lýsti aðdáun sinni á starfi og sögu eigin flokks, ást á landi og þjóð – á sveitinni – og svo, í næstu setningu, var hann allt í einu orðinn skúrkur í augum sinna eigin kjósenda og þyrnir í augum samflokksmanna. Örfá vanhugsuð orð um innflytjendur og ungu kynslóðina og það hafði hlakkað í pólitískum andstæðingum hans á samfélagsmiðlunum. Ljósvakamiðlanirnir höfðu logað og fjöldi fréttamanna sem vildi ná tali af honum margfaldaðist. Nema núna hafði hann engan áhuga á að grípa einhverjar gæsir, hvorki kverkataki eða annars konar.
Hann kímdi örlítið með sjálfum sér, í kvöldmyrkrinu, yfir tilhugsuninni um að grípa blaðamanninn sem tók þetta viðtal við hann kverkataki og hrista hann aðeins til. Einhver helvítis stráklingur, fannst honum – líklega á aldur við dóttur hans – sem þóttist allt vita og öll svör hafa. Samt hafði hann virst ósköp viðkunnanlegur þegar þeir settust saman yfir kaffibolla á litlu kaffihúsi í miðborginni og ræddu saman um hvernig þessu yrði háttað.
„Engar áhyggjur,“ hafði strákurinn sagt. „Þetta verður bara svona hefðbundið drottningarviðtal. Bara að fá að heyra aðeins af ævintýrum nýs þingmanns á Alþingi Íslendinga, hvaða framadrauma hann ber í brjósti sér og svona. Ekkert of mikið um pólitík,“ hafði hann sagt, „ekkert sem fælir okkar lesendur frá. Við erum ekki svoleiðis magasín,“ hafði hann sagt.
„Við reynum að einblína á mannlega þáttinn, segja sögur af fólki,“ hafði hann sagt.
Snepill! Það var eina heitið sem honum hugkvæmdist yfir þetta „magasín“; þennan forarpytt mannvonsku og aumingjaskapar!
Ljósastaurunum umhverfis hann var tekið að fækka og áður en hann vissi af voru engir eftir, síðustu húsin voru að baki og hann var kominn út úr hverfinu, eiginlega út úr borginni. Við tók gróið og skógi vaxið svæði með nokkrum opnum túnblettum sem lá meðfram borgarjaðrinum. Örlítil á – eiginlega bara vatnsmikill lækur, fannst honum – skar svæðið þvert, féll í litlum fossum og flóðum ofan úr lágu fellinu sem skorðaði borgina af frá heiðinni og rann svo einhvern veginn meðfram hverfinu og til sjávar. Göngu- og hjólastígar höfðu verið stikaðir og lagðir þvers og kruss um svæðið til að hvetja borgarbúa til útivistar og víða hafði bekkjum og borðum verið plantað á þessari leið.
Hann hafði sjálfur tekið virkan þátt í berjast fyrir uppbyggingu þessa svæðis, sem óbreyttur borgari, og sú barátta fyllti hann alltaf dálitlu stolti, kveikti smá eld innra með honum. Það mátti jafnvel líta á það sem svo að þessi barátta hefði verið fyrsta skrefið aftur inn í heim stjórnmálanna – þó að vísu hefði bankahrunið haft sín áhrif á það líka. Á þessum tíma hafði hann gjarnan vísað í heimahagana sem innblásturinn, ljósið sem lýsti honum leiðina, og talað fjálglega um sveitina, um íslensku náttúruna og undrin sem holtin okkar og hæðirnar væru.
Hann nam staðar og virti fyrir sér umhverfið. Fékk sér sæti á einum af þessum bekkjum sem holað hafði verið niður meðfram þjöppuðum malargjöngustíg. Þetta umhverfi átti ekkert skylt við íslenska náttúru! Hér voru engin holt og engir melar, túnin voru slegin svo ört að ekkert villt fékk að vaxa. Sóleyjar og fíflar voru álitin illgresi, ekki þjóðarblóm og sómi íslenskrar náttúru. Trén voru allt of há, of mörg … of útlensk. Ekki að það breytti miklu á þessum tíma, nú var þetta allt lagst í dvala fyrir veturinn, steindautt! Meira að segja niðurinn í læknum átti ekki heima hérna og virtist einhvern veginn settur á svið. Hann hljómaði meira eins og rafrænt suð en ómfagurt streymi náttúrulegs vatnsfalls.
Það var ekki ský að sjá á himnum. Hann lagðist útaf á bekknum og setti hendur undir hnakka, dró andann djúpt, og rýndi í stjörnurnar og merkin sem þær ristu í biksvart himinhvolfið. Einu sinni hafði hann þekkt þau öll með nafni, en nú mundi hann óljóst hvað fáein þeirra hétu, þessi allra helstu: Karlsvagn, Stóri-Björn, Sveitakonur. Hann vissi reyndar ekki alveg hvar þau lágu á hvelfingunni – nema sveitakonurnar, að sjálfsögðu þekkti hann sveitakonurnar. Hann mundi eftir að hafa þekkt Pólstjörnuna og belti Óríons einhvern tímann þegar hann var yngri og vitað nákvæmlega hvar þær væri að finna á himnum hverju sinni, gat bent á þær án þess að hugsa sig um. Hann minntist þess jafnvel að hafa notað þessa þekkingu sína til að heilla fyrrverandi eiginkonu sína í upphafi tilhugalífsins. Núna þakkaði hann sínum sæla ef hann þekkti í sundur stjörnuhröp og gervitungl, eins og það sem rann yfir himininn fyrir ofan hann akkúrat á þessari stundu.
Hann pírði augun og virti þetta ljós sem sveimaði yfir honum betur fyrir sér. Það rann reyndar alls ekki yfir himininn, það lá bara einhvern veginn þarna í loftinu, hringsólaði á litlum bletti. Svo lagði hann betur við hlustir og greindi lágt, vélrænt suð. Það sem hann hafði áður talið vera lækjarniðinn kom bersýnilega frá þessum ljósgjafa.
Felmtri sleginn velti hann sér niður af bekknum og spratt á fætur. Ljósið tók kipp á himnum og iðaði örlítið fyrir ofan hann. Í gegnum huga hans þaut langur listi af ógnvekjandi hlutum sem hann ímyndaði sér að þetta ljós á himnum gæti verið, allt frá Guði til geimvera og yfir í gervigreind. Þar nam hugsanaflóðið snöggvast staðar og fyrir hugskotssjónum hans rann í svipinn afþreyingarefni af ýmsum toga sem hann hafði kynnst í gegnum tíðina, þar sem illviljuð gervigreind hafði sent heilu sveitirnar af litlum fljúgandi handbendum sínum í allskyns vafasöm verkefni.
Njósnadróni! Þetta var ein af þessum andsetnu vítisvélum sem virtust alls staðar vera á sveimi, síuppteknar við að éta í sig umhverfið og breyta því í einhverja sálarlausa eftirmynd af sjálfu sér. Steingeldar upptökur af fegurstu undrum íslenskrar náttúru höfðu orðið þeim að bráð og fylltu nú upp í þann skort á ímyndunarafli sem plagaði andlausa útlenska ferðamenn, sem æddu um landið þvert og endilangt, hver á fætur öðrum, óðu yfir okkar helgustu staði á skítugum skónum og tróðu niður verðmætar náttúruminjar á meðan þeir stofnuðu sjálfum sér og öðrum í stórhættu með sauðheimskum uppátækjum sínum, sem þeir svo hlóðu svo vitanlega upp á veraldarvefinn í því augnamiði að stæra sig af því við aðra vitleysinga af sama sauðhúsi, af sömu kynslóð.
Sömu kynslóð og þessi svartálfur sem tók við hann blaðaviðtalið tilheyrði. Sá sem dró orð hans svo heiftarlega úr samhengi og stillti honum upp eins og tröllkarli aftan úr fornöld, sem ekkert vissi um hvernig vindar nútímans blésu eða í hvorn fótinn hann ætti að stíga.
Sömu kynslóð og Erna, dóttir hans, tilheyrði. Sú sem hafði ekki talað við hann í mörg ár, ekki svarað símtölum frá honum eða bréfum og tölvupóstum sem hann skrifaði til hennar í tæpa tvo áratugi, ekki fyrr en daginn sem viðtalið við hann birtist. Þá hafði hún sent honum snubbótt skilaboð með tölvupósti og beðið hann vinsamlegast um að hætta að hafa samband við hana. Hún vildi ekkert með hann hafa. Það var ekkert sérstaklega vinsamlegt við það, fannst honum.
Dróninn færðist örlítið nær og ósjálfrátt bar þingmaðurinn hönd fyrir andlit sér, eins og hann væri að verjast árás. En þá hikaði dróninn, flaut bara um í tómarúmi himinhvolfsins og hreyfðist ekki úr stað. Ekki fyrr en hann hreyfði sig sjálfur, þá brást dróninn við og sveif með honum. Hann færði sig einu skrefi fjær drónanum, sem tók viðbragð og fylgdi honum um sömu fjarlægð, tíu metrum ofar. Það hlaut að vera einhver leið í burtu frá þessum fljúgandi djöfli, hugsaði hann með sér, og leit flóttalega í kringum sig. Skammt frá honum var örlítið runnaþykkni sem hann var viss um að hann gæti falið sig í og hugsanlega fundið leið þaðan út án þess að himnadóninn næði að fylgja honum.
Í einni svipan tók hann undir sig stökk, jafnfætis, og fleygði sér af blettinum sem hann stóð á og inn á milli nakinna runnanna. Dróninn suðaði örlítið og lækkaði flugið lítið eitt, sveimaði nokkra hringi í kringum lauflausa greinaflækjuna, en staðnæmdist svo og þingmanninum virtist hann vera að stara á sig. Honum leið eins og hreindýri á austfirskum heiðarvegi, baðað í flennibirtu bílljósa rétt áður en það verður fyrir mikið breyttum Landcruiser-jeppa á alltof mikilli ferð.
Hann andvarpaði í uppgjöf og höfuðið seig örlítið niður á bringuna, áður en hann tróð sér klunnalega út úr runnanum með rassinn á undan, stóð á fætur. Reyndi að halda eins mikilli reisn og hann mögulega gat, hristi og sópaði af sér brotnar greinar úr runnanum eins og álit annarra á samfélagsmiðlum. Á annarri ermi PrimaLoft-jakkans var komin pínulítil rifa og hvítt fóðrið lak út. Aftur dæsti hann. Svo leit hann upp og sveiflaði krepptum hnefa ógnandi í átt að drónanum sem haggaðist ekki. Þingmaðurinn mjakaði sér af stað í átt frá drónanum og undir fótum hans brakaði í frosnum moldarstígnum. Dróninn sveif í humátt á eftir honum þar sem hann fetaði sig lengra inn í manngerða náttúruparadísina. Fyrst um sinn gekk hann hægt, örfá skref í einu, og horfði aftur fyrir sig með reglulegu millibili, eins og til að ganga úr skugga um að vélmennið væri enn á eftir sér. Þess á milli horfði hann stíft í kringum sig í leit að grjóti sem hann gæti fleygt í vélhaukinn í þeirri von að geta eyðilagt flugbúnaðinn og náð honum niður á jörðina. En þarna var ekkert. Stígurinn sem hann stóð á var svo vel valtaður og frágangurinn til slíkrar fyrirmyndar að ekki minnsta steinvala stóð upp úr.
Það hlaut að vera eitthvað sem hann gæti gert til að losna við þessa mekanísku kráku, hann trúði ekki öðru. Út undan sér sá hann glitta í leiktæki í myrkrinu, nokkur saman, inni á milli trjánna og smám saman rifjaðist upp fyrir honum að einhver í nefndinni sem skipulagði þetta svæði með honum hafði lagt ríka áherslu á að koma fyrir leiktækjum sem börn á öllum aldrei ættu að gætu nýtt sér til gagns og gamans. Þeim hafði verið fundinn staður í stóru trjárjóðri á miðju svæðinu og fyrir valinu urðu tæki sem myndu endurspegla umhverfið, skóginn og trén. Hann hafði svosum aldrei skilið þessa áráttu, að láta eins og skógar ættu sér einhverja náttúrulega forsendu á þessu vindsorfna landi og að því marki að þá bæri sérstaklega að virða og endurspegla, en var þó ekki mótfallinn skátaleiktækjunum sem stungið var upp á – enda skátahreyfing göfug og átti sér merkilega sögu.
Hann tók stefnuna á leiktækin í rjóðrinu, það var ekki laust við að hann væri farinn að hlaupa örlítið við fót. Flygildið lét ekki bíða eftir sér og sveif á eftir honum. Leikvöllurinn var farinn að taka á sig mynd fyrir framan hann, þrautabraut úr rekaviði, einhvers konar tilbrigði við kastala, með rennibraut, kaðalstiga og klifurvegg, frekar stutt og misheppnuð aparóla og einmana kofi lágu eins og hráviði í rjóðrinu, á milli þeirra hafði gróft trjákurl sem stráð hafði verið yfir allt svæðið. Þar fyrir aftan stóðu silfurgrá rör, sem búið var að beygja og sveigja þannig að þau minntu í svipinn á vinsæl æfingatæki sem finna mátti á líkamsræktarstöðvum. Þetta var þá það sem nefndarmeðlimir höfðu meint með gagn og börn á öllum aldri.
Dróninn flaug skyndilega fram úr þingmanninum og hnitaði hring yfir svæðið, eins og til að kanna aðstæður. Þegar hann lækkaði flugið og sveif niður að líkamsræktartækjunum, nam þingmaðurinn skyndilega staðar og horfði snarlega í kringum sig. Hann var kominn of langt inn í rjóðrið til að það borgaði sig að reyna að hlaupa til baka, flygildið myndi bara ná honum. Næst honum stóð kofinn, ómálaður trjákofi eins og A í laginu, með sitt hvort opið á hvorum gafli fyrir sig: Ferhyrnt hurðaop að framanverðu og kringlóttan glugga, sem hann var reyndar sannfærður um að hann gæti troðið sér út um, að aftanverðu.
Áður en litla þyrilvængjan hækkaði flugið nægilega aftur til að sjá yfir allt svæðið, stakk þingmaðurinn sér fimlega inn í kofann. Undir aflíðandi útveggjunum voru trébekkir, sem voru svo lágir að þeir sátu nánast á gólfinu, og á því miðju stóð trjábolur sem búið var að saga til og stilla upp sem borði. Hann settist á annan bekkinn, með bakið þétt upp að veggnum við hlið hurðaropsins, og hlustaði eftir drónanum. Heyrði kvikindið hækka flugið aftur og hringsóla yfir svæðinu, hægt og örugglega. Eins og haförn í leit að bráð. Skyndilega langaði hann til að heyra í Ara, reyna að útkljá þetta mál. Hann renndi frá sér jakkanum, stakk höndinni í innanávasann en greip í tómt. Í augnabliks örvilnun sá hann fyrir sér farsímann sinn á borðinu undir speglinum. Það yrði þá að bíða. Það var þröngt inni í kofanum, fór illa um hann, en hann heyrði ennþá suðið í flygildinu og gat alveg sætt sig við þetta örlítið lengur. Beðið þangað til hann væri á brott.
Ara hafði sárnað þegar hann las viðtalið, skiljanlega. Strákskömmin, „blaðamaðurinn“ eins og hann hafði kallað sig, hafði gert sér far um að snúa öllum svörum viðmælandans upp í andhverfu sína, rifið allt úr því samhengi sem þingmaðurinn hafði af mikilli natni reynt að setja hlutina í og stilla honum upp eins og fordómafullum skápahomma sem hafði allt á hornum sér, aðallega þó innflytjendur og aðra útlendinga, og neitaði að horfast í augu við eigið hlutskipti í lífinu. Gott ef hann hafði ekki einhversstaðar látið þingmanninn ýja að því Ari væri bara helvítis hommatittur sem gengi á eftir sér með grasið í skónum. Að af einskærri hjartagæsku leyfi þingmaðurinn þessum ólánsama kynvillingi að njóta samvista við sig. Hann mundi ekki alveg hvernig hann hafði orðað þetta, en það hafði að minnsta kosti alls ekki verið meint það á þann hátt sem strákasninn hafði skilað því í greinina sjálfa. Auðvitað hafði hann ekki meint þetta þannig, auðvitað ætlaði hann sér aldrei að særa hann. Ari þurfti bara að gera sér grein fyrir að það skipti máli hvernig þetta hlutirnir voru orðaðir, að skilja að hann var maður í embætti og gat ekki leyft sér að segja hvað sem, gat ekki verið hver sem er.
Fyrir utan heyrði hann að dróninn var kominn aftur á stjá, búinn að lækka flugið allverulega, og sveimaði um á milli leiktækjanna í leit að þingmanninum. Ætlaði þetta drasl aldrei að gefast upp? Hann þrýsti sér fastar út í horn kofans, hnipraði sig saman í örvætingarfullri tilraun til að reyna að dyljast betur. Hann heyrði flygildið sveima framhjá hurðaropinu, rafrænt suðið var farið að vekja með honum einhverja tilfinningu sem hann kannaðist ekki alveg við. Gat verið að þetta væri ótti? Ótti af einhverju kaliberi sem hann hafði ekki upplifað áður; hafði hann yfir höfuð upplifað raunverulegan ótta áður? Það sem hann hafði notað orðið yfir höfðu yfirleitt bara verið áhyggjur af því að hlutirnir myndu ekki fara eins og hann vildi að þeir gerðu. Ekki endilega óttinn við að lífið sjálft yrði tekið frá honum.
Illfyglið sveimaði hægt og rólega hringinn í kringum kofann. Hann sá glitra á það þegar það sveif framhjá kofaglugganum, heyrði hvernig það hægði á sér og sneri við, sá það svo koma vofandi aftur að gluggaopinu þar sem það nam staðar og hékk í lausu lofti. Í eitt andartak, sem honum fannst vissulega vera sem heil eilífð, horfðist hann í augu við vélvána sjálfa. Frostgufan blandaðist vélrænu suðinu og það tók hann smá stund að átta sig á því að nær apparatinu hafði hann ekki komist allt kvöldið.
Hann beið ekki boðanna heldur fleygði sér í átt að því, kastaði sér úr horninu og teygði hendurnar fram í átt að flygildinu, tróð sér út um litla gluggaopið án þess svo mikið sem að velta því fyrir sér hvort það væri nægilega stórt fyrir hann. Jakkinn flaksaði utan á honum eins og skikkja og fingurgómarnir náðu nánast að snerta glansandi svartan búk flygildisins – hann veltii því fyrir sér hvort hann væri kaldur eða heitur viðkomu – um leið og hann hrundi á aftur til jarðar. Dróninn skaust aftur á bak, fataðist flugið aðeins þegar hann rakst í kaðalbrúna sem lá strengd á milli tveggja turna kastalans og sveif svo örlítið hikstandi til jarðar. Þingmaðurinn hikaði lítillega, þurfti örskotsstund til að ná áttum, en spratt svo á fætur og sentist af stað í átt að löskuðu flygildinu sem kipptist aðeins við en hrökk svo í gang, og þaut beina leið upp á við. Án þess að velta því frekar fyrir sér tók þingmaðurinn á rás upp rennibrautina, sveiflaði sér í einu hendingskasti upp á þak turnsins, kastaði sér fram af honum og teygði hendurnar í átt að flygildinu, sem hækkaði enn flugið.
Í eitt örstutt augnblik svifu þeir samhliða í eilífðinni, þingmaðurinn láréttur í loftinu með hendurnar útréttar, og vélfuglinn sem hvæsti – gargaði – ögrandi í átt til hans. Fyrir ofan þá glitruðu stjörnurnar á himinfestingunni, fyrir neðan þá gældi golan við smátt saxað erlent timbur, sem hafði verið stráð yfir leikvöllinn til að búa til mjúkt undirlag fyrir börn að leik en lá nú þarna hálffrosið í náttmyrkrinu. Honum varð hugsað til Ara, til Ernu, og um almenningsálitið, samfélagsmiðla og þjóðarsál. Hann velti því fyrir sér af hverju hann hafði átt svona erfitt með að viðurkenna það þegar blaðasnápurinn spurði hann út í heimilaðstæður, að hann byggi með karlmanni, að hann og Ari væru eitthvað annað og meira en bara herbergisfélagar. Og af hverju hann hafði þurft að fara svona niðrandi orðum um hann.
Svo skall hann nokkuð harkalega til jarðar, bar fyrir sig vinstri höndina en lenti svo á mjöðminni og vinstri fætinum. Hann fann hvernig skerandi sársauki breiddi hraðbyri úr sér um allan kroppinn og missti út sér örlítið sársaukavein. Þakkaði samt guði í hljóði fyrir þetta útlenska trjákurl sem dró aðeins úr fallinu. Úlnliðurinn hafði farið verst, ef hann reyndi að hreyfa vinstri höndina leið honum eins og hún gæti allt eins dottið af honum. Hann var enginn læknir en ímyndaði sér að úlnliðurinn hlyti að vera brotinn. PrimaLoft-jakkinn hafði rifnað enn meira, vinstri ermin var við það að losna af og fleiri litlar rifur höfðu opnast við allt sem á undan var gengið. Þar sem hann lá þarna á bakinu og starði upp á flygildið, sem hékk í loftinu fyrir ofan hann, gat hann ekki annað en velt því fyrir sér hvort það heyrði til hans, hvort það næmi hljóð úr þessari fjarlægð sem var komin aftur á milli þeirra.
Allt í kringum hann var skógur, blanda af birki og barri – bæði greni og furu. Ilmurinn af barrnálunum fyllti vit hans þegar hann settist upp og dró djúpt að sér andann, kveinkaði sér við hverja hreyfingu, en náði að rífa restina af erminni alveg af jakkanum og fleygði henni frá sér. Svipaðist svo aðeins um í kringum sig, reyndi að átta sig á stystu leiðinni inn í skógarþykknið. Mat og mældi í huganum vegalengdina að stígnum sjálfum. Hver einasti vöðvi í líkama hans var aumur og sár. Hann fann hvernig kroppurinn var nánast tekinn að blána í heild sinni og nýir marblettir öskruðu allir í kór þegar hann reis á fætur og haltraði af stað í átt að skóginum. Til að byrja með hreyfðist flygildið ekki úr stað, ekki fyrr en hann nálgaðist trjáþyrpinguna, þá lækkaði það flugið aftur og færði sig nær honum. Hann nam staðar örstutta stund þegar hann kom að lauflausum birkiskóginum og leit aftur fyrir sig, á flygildið. Starði illilega á það. Svo sneri hann sér aftur að trjánum og tók að ryðja sér leið á milli þeirra, inn í skóginn. Greinarnar slógust framan í hann, klóruðu hann til blóðs þar sem hann þröngvaði sér í gegn og ristu sár á kinnar og enni. Flygildið fylgdi honum á himnum, hann sá það greinilega í gegnum naktar greinar birkitrjánna, svo hann tók stefnuna á barrið. Húfan varð eftir á grein svo kolsvartir, glansandi hárliðirnir tóku að tætast í allar áttir. Jakkinn hélt áfram að spretta upp, fóðrið myndaði slóð á greinum trjánna, og á einhverjum tímapunkti hafði hann rifið af sér hanskana til þurrka blóðið sem var farið að streyma niður í augun á honum. Hann hafði ekki nokkra minnstu hugmynd um hvar þeir höfðu endað.
Hann náði til fyrstu barrtrjánna og lét sig falla á magann, togaði sig undir himinhá grenitrén. Trjábotninn var alsettur gulnuðum barrnálum sem stungust í hendurnar á honum og bringuna. Hann lét sig það engu skipta og togaði sig áfram í átt að stígnum í skjóli trjánna. Annað slagið hinkraði hann, lagði við hlustir og vonaði að dróninn væri á brott, hefði gefist upp og haldið sína leið. En því var ekki að heilsa. Alltaf heyrði hann vélrænt suðið brjótast í gegnum gnauð vindsins að gæla við trén. Svo hann togaði sig áfram. Áfram, áfram.
Þegar hann kom að skógarjaðrinum settist hann á hækjur sér og íhugaði málið. Skammt frá sér sá hann stíginn, þann hinn sama og hann hafði beygt af í átt að leiksvæðinu. Það þýddi að lækurinn var ekki langt undan og þar hlyti hann að geta fundið almennilegt grjót. Hann dró andann djúpt, safnaði í sig kjarki, og stökk svo af stað, dragandi annan fótinn á eftir sér. Á himnum fyrir ofan hann tók dróninn viðbragð og fylgdi honum fast á eftir.
Niðurinn frá læknum barst að eyrum hans. Það veitti honum smá styrk og hann harkaði af sér, hljóp hraðar. Hann skammaðist sín fyrir að hafa hugsað illa til lækjarins fyrr um kvöldið. Það var ekkert ónáttúrulegt við þennan nið, við þennan unaðslega óm flæðandi, íslensks fjallavatns. Auðvitað var það bara þetta surg í fluguvélinni sem hafði truflað hann fyrr um kvöldið.
Lækjarfarvegurinn var, eðli málsins samkvæmt, rennblautur, og eins og oft vill verða þegar kólnar svo mjög í veðri að lofthitinn fer niður fyrir frostmark, hafði myndast íslag á bakka lækjarins – sem þingmaðurinn áttaði sig ekki á fyrr en um seinan. Þar sem hann kom í loftköstum niður brekkuna, rifinn og tættur, húfu- og hanskalaus með leifarnar af jakkanum lafandi utan á sér og drónann svífandi á eftir sér, missti hann fótanna á tilþrifamikinn hátt og flaug á bakið í lækinn. Hann fann hvernig höfuðið skall á lítilli grjótnibbu svo blóð tók að vætla úr. Ískalt vatnið seytlaði undir PrimaLoft-tæjurnar, peysuna og ullarbolinn, og ofan í nærfötin. Honum snöggkólnaði og dauðbrá og í ofboði spýtti hann út úr sér blóðblönduðu fallvatninu, áður en honum tókst með erfiðismunum að reisa sig við og koma sér upp á hnén. Þanig lá hann krjúpandi í skamma stund og byrjaði að þreifa eftir botninum í leit að hentugu grjóti sem væri hægt að kasta langt. Hann verkjaði í allan líkamann sem nú var farinn að skjálfa í ofanálag. En hann ætlaði sér ekki að láta í minni pokann fyrir þessu dauðans illfygli.
Loks fann hann aftur grjótið sem hann hafði skollið á, sem reyndist vera álitlegt skotfæri, og brölti á fætur – rann dálítið til þegar hann reyndi að rétta sig af, en stóð þó í lappirnar – og miðaði vandlega á drónann. Hann svimaði dálítið og átti erfitt með að ná almennilega áttum og reyndi eftir bestu getu að koma auga á beygluna sem hann var handviss um að hafði myndast á flygildinu þegar það flaug á kofann. Það sá á ekki á því, hann gat ekki komið auga á minnstu skeinu á kvikindinu. Á endanum gafst hann upp á að leita, reigði hægri hendina eins langt aftur fyrir sig hann gat og rykkti henni til baka af öllu afli. Hann neytti sinna allra síðustu krafta til að fleygja grjótinu átt að fljúgandi myndbandsupptökuvélinni … sem sveigði sér fimlega frá skeytinu og tók sér svo stöðu á sama stað.
Honum féll allur ketill í eld, missti jafnvægið og hrundi aftur á rassinn, svo rennandi vatnið skvettist í allar áttir, og sat svo þar grafkyrr stundarkorn. Hann var að lúta í lægra haldi, það var ómögulegt að hrista þetta fyrirbæra af sér. Nokkru neðar lá lítil göngubrú yfir lækinn þar sem stígarnir sitt hvorum megin við hann mættust. Öðrum megin var skóglendið sem hann var að koma úr, hinum megin stóðu einbýlishúsin í hverfinu, heimili hans þeirra á meðal. Það var ekki langt undan, hann myndi auðveldlega ná þangað. En þá myndi flygildið líka fylgja honum heim.
Örmagna af þreytu, bugaður og búinn að játa sig sigraðan, velti hann sér aftur á hnén og skreið hægt og rólega af stað í átt að brúnni. Kuldahrollurinn hafði heltekið hann. Varirnar voru orðnar bláar af kulda og hann nötraði allur og skalf þar sem hann skreiddist áfram síðustu metrana í átt að göngubrúnni. Ískalt lækjarvatnið seytlaði innanundir fötin og í handarkrikana á leið sinni niður að hafinu. Hann vissi ekki lengur hvað tímanum leið; upphaflega hafði hann lagt af stað í þessa gönguferð eftir kvöldmat, en miðað við þögnina úr hverfinu hlaut að vera komið langt fram á nótt.
Tennurnar glömruðu í munninum. Leiðin heim var ekki löng, hann myndi að öllum líkindum ná þangað, en hann gat ekki sætt sig við að láta þessa njósnavél fylgja sér heim að dyrum. Gefa henni tækifæri til að verða vitni að þeim Ara eiga í erjum. Hann velti því fyrir sér hvort Ari myndi yfirhöfuð gráta hann, hvort tími þeirra saman yrði litaður af þessu eina viðtali eða góðu stundum sem þeir höfðu átt saman. Hvort þeir myndu ná að sættast ef hann myndi skila sér heim. Hvort hann myndi halda áfram að leyfa fólki að kalla sig Ara, eða taka aftur upp nafnið Haitham, sem honum var gefið þegar hann fæddist í eyðimerkurborginni sem foreldrar hans voru frá. Hann hugsaði um Ernu og hvernig hún myndi bregðast við þessum fréttum, hvort hún myndi taka þetta nærri sér, sjá eftir þessum skilaboðum sem hún hafði sent honum; hvort hún myndi enn eftir að hafa komið að honum í faðmlögum við aðstoðarskólastjórann.
Það síðasta sem flaug í gegnum huga hans var hvort þessi brú myndi hugsanlega fá að bera nafn hans í framtíðinni. Líklega ekki. Líklega yrði hún bara kölluð Þingmannabrúin manna í millum. Eða eitthvað enn meira niðrandi, eitthvað í líkingu við það sem hann hafði séð á samfélagsmiðlunum fyrst eftir að viðtalið var birt.
Þingmaðurinn fylgdist með litlum ljósdepli svífa blíðlega af himnum ofan og nema staðar í lausu lofti fyrir ofan yfirborð lækjarins. Hann horfði á vatnið þyrlast örlítið upp í hviðunum frá biksvörtu flygildinu, dáðist að ljósbaugnum sem myndaðist í kring um það, um leið og síðasti andardráttur hans ummyndaðist í frostgufu sem leið upp í átt að stjörnufestingunni.