Ísak Regal
Við Juan, herbergisfélagi minn, áttum sameiginlegan draum um að verða ódauðlegir listamenn. Hann vann á elliheimili og ég vann á lager en sú vinna var bara til að borga reikningana.
Ég flutti inn með honum í lok nóvember. Þá var farið að snjóa af krafti og skammdegið hafði fengið á sig varanlegan blæ.
Nokkrum vikum fyrir jól sat ég við eldhússkenkinn meðan hann bruggaði jólaglögg. Lillian, besta vinkona hans, var á leiðinni og planið var að við yrðum samferða heim til Magdalenu um kvöldið.
„Þetta er það sem við köllum dagdrykkju,“ sagði ég og fékk mér sopa af glögginu.
„Líttu á himininn,“ sagði hann. „Það er farið að dimma.“
Ég sneri mér við í stólnum og leit út um gluggann. Það var orðið hálfrokkið. Himininn var dökkgrár og lognmolla yfir öllu.
Elvis söng Young Dreams upp úr símanum hans og stofan angaði af kanil og negulnöglum. Ég var spenntur að hitta Lillian og Magdalenu og allar vinkonur hans. Juan var einn þessara manna sem átti fleiri vinkonur en vini og ég komst ekki hjá því að öfunda hann af því.
Þegar dyrabjallan hringdi sat ég áfram við eldhússkenkinn og drakk dreggjarnar af glögginu meðan Juan fór til dyra. Ég heyrði hann og Lillian faðmast og skiptast á orðum inni í forstofu og tal þeirra og hlátur barst inn í eldhús eins og ferskur andblær.
„Helloo,“ sagði Lillian þegar hún birtist í stofunni. Hún gekk inn og lagði töskuna sína á eldhúsborðið.
Hún var klædd í svartan kjól með glimmeri utan á — kjóllinn lagaði sig fullkomlega að líkama hennar og ég reyndi mitt besta að stara ekki á hana, en átti erfitt með að halda höfðinu uppi. Hún var ekki vön að punta sig og mér fannst skrítið að sjá hana uppstrílaða.
„Hvað finnst þér um þennan kjól?“ spurði hún og sneri sér í hálfan hring og setti stút á munninn. Það var eins og hún hefði lesið hugsanir mínar.
„Lítur vel út,“ sagði ég.
„It’s sexy, right?“ sagði hún, og beindi spurningunni að Juan.
„Kærasti þinn verður örugglega yfir sig hrifinn,“ sagði hann. Einhvern tíma hafði eitthvað gerst á milli þeirra — en þau töluðu aldrei um það. Þau létu frekar eins og systkini og gerðu hvort öðru lífið leitt þegar svo lá við.
Lillian var frönsk, lögfræðingur að mennt, en vann einhverra hluta vegna á elliheimilinu með Juan. Hún veitti honum jarðtenginguna sem hann þurfti á að halda og ég reyndi að fá smá af henni líka þegar hún kom í heimsókn.
„Ertu með eitthvað til að brenna?“ spurði ég Lillian.
„Nei,“ sagði hún. „Ég veit ekki af hverju við erum að halda þessa brennu.“
Magdalena hafði stungið upp á því. Samkvæmt Juan taldi Magdalena að brennan væri táknræn fyrir nýtt upphaf. En það var ekki ástæðan fyrir því að við vildum vera með. Við misstum bara aldrei af tækifærinu á að vera í kringum Magdalenu.
„Glöggið er búið,“ tilkynnti ég.
„Þá geri ég meira,“ sagði Juan.
„Ég væri til í brennivín,“ sagði ég.
„Er það ekki íslenskur drykkur?“ sagði Juan.
„Hey, talandi um það,“ sagði Lillian. „Það er gamall maður á elliheimilinu sem sagði mér að afi hans hefði veitt hákarla og þeir hefðu fengið eina brennivínsflösku á dag í laun.“
„Það getur ekki verið,“ sagði ég.
„Og hann veit allt um íslenska menningu,“ sagði Juan.
Ég svaraði honum ekki, en byrjaði svo að útskýra það sem ég vissi.
„Ef þetta var fyrir þilskipin og togarana hefur hann örugglega verið á opnum árabáti. Þetta var hörkuvinna. Þú þurftir að vera sterkur til að hífa hákarlinn upp í bátinn. En ég efast um að þeir hafi fengið eina brennivínsflösku á dag með kaupinu.“
„Hvernig veistu svona mikið um þetta?“ sagði Lillian.
„Ég les sögur,“ sagði ég.
Eftir nokkur glös af glöggi í viðbót tók Juan fram rauðvínsflösku og með varmann í okkur færðum við okkur í hlýrri föt og fórum með eina flösku af glöggi heim til Magdalenu.
Hún kom til dyra með hreindýraspöng í hárinu og faðmaði okkur innilega eins og við værum löngu týndir bræður hennar. Hún var Wendy og við Juan vorum báðir Pétur Pan og inni var fullt af týndum krökkum. Kærasti Magdalenu minnti mig á Kaptein Krók, bæði í útliti og hvernig hann hagaði sér. Það vantaði bara krókódílinn og klukkuna.
„Nýtt upphaf,“ sagði Juan og glennti upp augun. Við höfðum komið okkur fyrir inni í eldhúsi og vorum að drekka bjórinn hennar Magdalenu. „Við þurfum að skrifa okkur í sögubækurnar,“ sagði hann. Magdalena kom inn í eldhús og klappaði mér á öxlina. „Hæ strákar. Ætliði með okkur á brennuna?“ Hún var að drekka vín úr stóru vínglasi, og þegar hún hallaði því að vörunum huldi það allt nema bláu augun.
„Okkur vantar eitthvað til að brenna,“ sagði Juan, skjögrandi um eldhúsgólfið.
„Ertu með einhverjar hugmyndir?“ sagði ég.
„Þið getið alltaf brennt hluta af ykkur sjálfum,“ sagði Magdalena. Það var engin tilgerð í röddinni, svona talaði hún bara.
„Nýtt upphaf! Ég sagði þér það!“ kallaði Juan í eyrað á mér.
„Vissirðu að kærasti þinn lítur dálítið út eins og Kapteinn Krókur?“ sagði ég.
„Betra en Pétur Pan,“ svaraði Magdalena.
Á einhverjum tímapunkti stauluðumst við út í náttmyrkrið, stiklandi á ísilögðum gangstéttarhellum, í áttina að Ægisíðu. Magdalena, Kapteinn Krókur, Lillian og Juan gengu fyrir framan mig. Juan var klæddur í síðan svartan frakka og hélt á opinni rauðvínsflösku.
Andrei, úkraínski vinur þeirra, skaffaði eldfæri og kveikilög handa okkur. Við gengum hlið við hlið meðan hann sagði mér frá útilegum í kanadískum skógum. Ég fékk að heyra söguna af því þegar hann heyrði ýlfur þar sem hann lá andvaka í tjaldi eina nóttina. Hann vissi að skógurinn væri krökkur af úlfum, en ákvað að sannfæra sig um að þetta væru ekki hljóðin í þeim heldur einhver önnur hljóð.
„Og það virkaði,“ sagði hann. „Ég þurfti bara að ákveða hverju ég vildi trúa.“
„Góð ákvörðun,“ sagði ég.
Sjávarloftið barst til okkar þegar við beygðum inn Ægisíðuna. Andrei kveikti sér í sígarettu og ég þáði eina hjá honum, þó að ég væri hættur að reykja.
„Ertu vanur því að halda brennur?“ spurði ég.
„Það getur verið gaman í réttu aðstæðunum,“ sagði hann.
Magdalena og Kapteinn Krókur réttu eitthvað logandi á milli sín og Juan hélt á rauðvínsflöskunni eins og barefli.
Magdalena benti í sífellu á norðurljósin sem flugu um himinhvolfið. Hún hafði einhvern óslökkvandi lífsþorsta og ég bæði öfundaði hana og dáði hana af því.
Þegar við vorum komin niður á sjávarsíðuna tókum við okkur öll stöðu fyrir framan Andrei sem hellti olíu yfir vörubretti og kveikti í. Mér var farið að líða eins og þetta væri raunverulega helgiathöfn, eins og þessir hippar töluðu um.
„Þetta eru hamskipti fyrir nýja árið,“ sagði Juan. Eldglæringar spegluðust í augunum á honum og svartur reykjarmökkur leitaði hærra og hærra upp í loft eftir því sem Andrei bætti á bálið.
Við stóðum þarna og yljuðum okkur og hlustuðum á snarkið í eldinum og hljóðin í öldunum. Magdalena leit á mig eitt augnablik og við náðum augnsambandi í einhvern tíma. Hún var rjóð í kinnum og vot um augu og nef. Þegar hún horfði svona á mann var eins og hún væri að horfa mjög djúpt inn í mann. Það var eins og það væri ekki hægt að fela neitt frá henni. Maður varð að rembast við að taka því ekki persónulega, verða ekki ástfanginn af henni. Þegar ég sá hana fyrst og hún horfði svona á mig hélt ég að eitthvað væri að gerast á milli okkar. En svona var hún bara. Hún var ekki bundin við neitt eða neinn. Hún var bara uppfull af efninu sem allir þurfa á að halda.
Við brostum til hvort annars en sögðum ekki neitt og héldum áfram að horfa í eldinn. Juan rétti mér rauðvínsflöskuna og ég fékk mér slurk án þess að líta á hann. Ég hugsaði um hákarlaveiðimennina á árabátunum. Ein brennivínsflaska á dag. Ég hugsaði um vonir þeirra og raunir og hvort þær samsvöruðu okkar að einhverju leyti. Það var beiskt eftirbragð af víninu, mér svelgdist á og vöknaði um augu. Ég hélt áfram að horfa í eldinn.
⁂
Það var kominn febrúar. Ég var að lesa bók um grænlenska veiðihætti og reyna að skrifa eitthvað þegar Juan dró mig með sér niður í bæ. Það var enn dimmt úti, enn snjóaði, en það var byrjað að birta. Við gengum upp Hverfisgötuna og fórum á Kontór og pöntuðum okkur bjór.
„Það er af því að þú ert psychopath!“
Þetta var það fyrsta sem hún sagði við mig, þessi ókunnuga unga kona. Hún hafði ekki kynnt sig með nafni. Ég hafði ekki kynnt mig.Við Juan sátum þarna hjá Emmu vinkonu hans og tveimur vinkonum hennar. Mér leist strax vel á Emmu. Hún var mjög extroveruð og vingjarnleg við okkur báða, þó að hún þekkti mig ekki neitt. Uppáþrengjandi, gæti einhver kallað hana, en ég fann hlýjuna streyma frá henni og koma við blóðið í mér sem var að hitna með öðrum bjór. Önnur vinkona hennar var dálítið eins og hún. En þegar ég ávarpaði hina var hún svolítið til baka og afskaplega prúð og bein í baki. Hún kom því að að hún ætti kærasta og ætlaði bara að stoppa stutt, en þegar ég hafði gefið til kynna að hún væri ekki skotmark fyrir mér þá slaknaði á henni og axlirnar drógust saman.
Stelpan sem hafði kallað mig psychopath sat á ská á móti mér. Augu hennar glönsuðu yfir kertaljósinu á borðinu og hún var tilbúin að háma mig í sig í einum bita.
„Hvað meinarðu?!“ sagði ég. „Þú þekkir mig ekki!“
„Nei, en ég sé það á þér,“ sagði hún og saup á einhverju sem leit út eins og Mojito.
„Hún er bara að grínast,“ sagði Emma. „Ekki taka þessu persónulega.“
Emma og Juan höfðu verið að sofa saman, en það þýddi í rauninni ekki neitt. Það var vinskapur á milli þeirra og engin afbrýðissemi eða væntingar gerðar til hvort annars. Þau voru nútíma manneskjur sem höfðu lag á að skemmta sér. Ég, hins vegar, var ekki svona nútímalegur og reyndar mjög vandlátur á fólk yfir höfuð — sérstaklega þegar kom að ástarmálum.
„Ókei. Truth eða Dare?“ sagði Emma allt í einu og horfði á mig.
„Uuu … Truth,“ sagði ég.
„Ertu skotinn í einhverjum?“
„Nei,“ sagði ég. „Nei, ég hef ekki verið skotinn í neinum í langan tíma. Og ég er að verða þrítugur og –“
„Ertu fæddur ’94?“ spurði Júlía, ljóshærða stutthærða stelpan sem hafði kallað mig psychopath. Hún var með þennan næstum yfirnáttúrulega glampa í augunum.
„Nei, ’97. En samt … það styttist í það.“
Hún varð aftur þögul. Hún sagði ekki mikið en ég fann sterkt fyrir henni. Ég pantaði bjór númer þrjú og við drukkum í kósíheitum og ég fann roða myndast í kinnunum. Ingibjörg, sú sem hafði komið því að að hún ætti kærasta, fór heim eftir þriðja bjór en við hin sátum eftir; ég, Juan, Emma og Júlía.
„Viltu koma heim til Júlíu og Emmu?“ hvíslaði hann að mér og nikkaði höfðinu til þeirra. „Þær eiga heima í Austurbænum, ekki svo langt frá okkur.“
Ég sagði já, saup á bjórnum og reyndi að handsama þetta augnablik, lyktina af bjór, viði og gömlu leðri. Andlitin á Juan og vinkonum hans. Ég vildi geta snúið þessum myndum í höfðinu á mér eins og kviksjá, hvenær sem ég vildi.
Við gengum út í febrúarmyrkrið. Þetta var köld nótt og norðanáttin nísti inn að beini. Bílar keyrðu framhjá í vætunni og draugarnir okkar flugu út þegar við önduðum. Einhver stakk upp á því að við tækjum leigubíl heim til stelpnanna (sem endaði á því að kosta nákvæmlega 1.750 krónur) og þegar við vorum komin á áfangastað var aftur farið að snjóa. Við klöngruðumst eitt af öðru út úr bílnum og gengum upp steinþrep að dimmleitu húsi. Emmu tókst að opna dyrnar í annarri tilraun og við vorum óþreyjufull að komast inn í hlýjuna. Við hengdum yfirhafnirnar okkar á snaga í anddyrinu – sem angaði af ilmvatni, nikótíni og æskunni okkar – og ég hélt að við hefðum öll gengið niður í kjallara í einni halarófu, en þegar ég var kominn niður voru það bara við Júlía. Vistarverur hennar voru í kjallaranum, þar sem birtan var álíka dauf og úti á götu.
„Hvernig eigiði efni á þessu?“ spurði ég.
„Foreldrar hennar Emmu eiga íbúðina.“
Hún sýndi mér herbergið sitt og sagði mér frá því hvað hún væri mikill kvikmyndanörd og hvað hún elskaði Noir myndir. Hún var líka ljósmyndari og sýndi mér myndirnar sem hún hafði tekið á gamla Kodak myndavél. Ég vissi ekkert um ljósmyndun en sá að myndirnar voru sérstakar, eins og hún. Hún var aðeins afslappaðri núna og naut þess augljóslega að sýna mér þessa hlið á sér. Það var eins og hún hefði ekki haft færi á að tala við neinn um þessi hluti í langan tíma. Spennan á milli okkar var gruggug og óræð eins og æskuást og við létum eins og þetta væri einhver lykilstund í okkar lífi.
„Ég hef aldrei séð Noir,“ sagði ég.
„Ekki?! Þú verður að sjá Maltese Falcon og In a Lonely Place!“ Ég brosti út að eyrum og hún sýndi mér allar uppáhalds myndirnar sínar.
Það heyrðist brambolt á hæðinni fyrir ofan okkur. Ég hugsaði að kannski væru vinir okkar að velta fyrir sér hvað við Júlía værum að gera saman tvö ein þarna niðri. Það hafði komið á daginn að hún ætti kærasta.
Þegar hún hafði sýnt mér allt sem hún vildi sýna mér fórum við upp þar sem Juan og Emma sátu á sófa inni í stofu og drukku vín. Ég spurði hvort það væri til áfengi handa mér og Emma bauð mér í glas. Hún sat á hælunum á sér og veipaði. Það mátti reykja inni svo ég kveikti mér í sígarettu og horfði hægt og vandlega á alla í kringum mig.
„Hvað?“ sagði Emma þegar augu mín rötuðu á hana.
Við fengum að vita að nafnlausi kærastinn væri ekki sérlega flinkur í ákveðinni tegund af fimleikum. Við Juan spurðum einskis frekar en drukkum vínið sem var á boðstólnum. Eftir því sem leið á kvöldið hjúfruðum við Júlía okkur saman undir teppi, og á einum tímapunkti kyssti ég hana aftan á hnakkann, sem fékk hana til að halla sér enn nær mér. Ég strauk á henni hárið og hún snerti á mér höndina. Ég fann í fyrsta sinn fyrir einhverju sem ég hafði ekki fundið fyrir í langan tíma.
Þegar við höfðum talað og drukkið úr okkur nær allt vit stauluðumst við Juan aftur út í náttmyrkrið. Hvorugur okkar sagði neitt á leiðinni heim. Við stungum lykli í skráargat og köstuðum af okkur skónum í allt of upplýstri forstofu áður en við fórum að sofa í sitthvoru herberginu.
Mig dreymdi marga og langa drauma. Í draumunum fór ég aftur heim til Júlíu og dvaldi hjá henni í kjallaranum. Myrkrið ágerðist og hríðin sömuleiðis. Draumarnir urðu lengri og skrítnari eftir því sem ég datt lengra og lengra inn í svefnmók.
Morguninn eftir bankaði Juan á dyrnar. Við vorum báðir eins og draugar upp úr öðrum draugum og ég íhugaði atburði liðinnar nætur og það var löngun í mér að fara heim til Júlíu í morgunskímunni og ljúka verkinu. Ég sagði Juan frá því og hann yppti öxlum. Ég hugleiddi það í alvörunni og svo horfði ég á vin minn sem stóð þarna í dyragættinni eins og Gabríel erkiengill.
Ég hafði orðið veikari og veikari, en hann hafði heyrt bæn mína og var nú kominn til að veita mér svar.
⁂
Ég fór ekki heim til Júlíu. Það meikaði því miður engan sens. En ég var einmana í þynnkunni og við það að gefa upp alla von, en tókst loks að draga mig á fætur og inn í eldhús að laga kaffi. Ég settist í stólinn við eldhússkenkinn og dró símann upp úr vasanum. Systir mín sem hringdi aldrei í mig var að hringja í mig.
„Hæ,“ sagði ég.
„Hæ, hvað segir þú?“
Ég sagði að ég væri góður.
„Af hverju ertu að hringja?“
„Bara,“ sagði hún. „Ég fékk hugboð um að ég ætti að hringja í þig.“
Ég hafði ekki talað við hana í síma í langan tíma. Við skiptumst stundum á skilaboðum en við hittumst nánast aldrei. Ég spurði hvort ég gæti komið í heimsókn til hennar og hún sagði já. Ég bankaði á dyrnar og beið úti í kuldanum þar til hún kom til dyra.
„Hæ, gaman að sjá þig! Aww,“ sagði hún yfir öxlina á mér. Hún lyktaði vel.
„Hæ, Saga.“
„Komdu inn,“ sagði hún. „Ég var að kveikja á katlinum og á reykelsi,“ sagði hún. Hún var klædd í kósíföt, gráar joggingbuxur og víða hettupeysu. Hún var höfðinu lægri en ég, og hafði aftur klippt ljósa hárið sitt stutt.
Íbúðin angaði af bakstri, kaffi og sætu kryddi. Það var allt út í kertum, reykelsum og nördalegu dóti eins og Star Wars-plaggötum og vísindabókum. Hún hafði flutt nokkrum sinnum og skipt um nokkra kærasta síðan ég sá hana síðast.
„Langar þig í te? Ég á alls konar,“ sagði hún.
„Ég leyfi þér að velja.“
Ég settist í sófann inni í stofu. Teppi lá yfir honum miðjum og það var koddi við endann eins og einhver hefði sofið í honum.
„Sefurðu inni í stofu?“
„Stundum,“ sagði hún. „Það eru stærri gluggar hér en inni í svefnherbergi og öðruvísi orka.“ Ég vissi aldrei hvort hún meinti það þegar hún talaði svona. Þá hvort hún væri í alvörunni svona hippaleg eða hvort hún væri að gera grín að því. Hún hafði alltaf hampað trúleysi sínu svo mikið þegar hún var krakki. En það hafði greinilega eitthvað breyst.
Ég var næstum búinn að segja að ég ætti að koma oftar í heimsókn, en ákvað að sleppa því að minnast á það. Ég vildi ekki fara fram úr mér.
„Ég lenti í hrikalegu partýi í gær,“ sagði ég. „Ég er sem sagt ekki alveg edrú.“
„Mig grunaði það svona,“ sagði hún. Ég var nýorðinn edrú þegar við byrjuðum aftur að tala saman fyrir tæpu ári síðan. En edrúmennskan hafði ekki enst nema í sex mánuði. Og ég hafði ekki tilkynnt það að ég væri byrjaður aftur að drekka.
„En ég drekk ekki eins og ég gerði,“ útskýrði ég. „Ég fæ mér nokkra bjóra en ég er ekkert að missa mig í einhverri svona tilfinningakrísu lengur.“
„En þér fannst samt eins og þú þyrftir að réttlæta það fyrir mér núna?“
Ég hló í gegnum nefið. Auðvitað hafði hún heyrt þessa ræðu milljón sinnum.
„Var sem sagt gaman hjá þér í gær?“ sagði hún meðan hún hellti heitu vatni í tvo bolla.
„Ég veit það ekki“ sagði ég. Hendur mínar skulfu og hjartað hamaðist í brjóstinu Ég leit í augun á henni, þessi djúpu bláu augu. Hún var fjórum árum yngri en ég fann aldrei fyrir því. Hún var elsta sál sem ég hafði nokkurn tíma kynnst og stundum fannst mér eins og hún væri skilningsríkasta manneskja í heimi. Þögnin var ekki uppfyllingarefni en hún var spennuþrungin. Eða þannig leið mér allavega. Þegar hún klæddi sig úr hettupeysunni sá ég að hún var í Star Wars-bol undir. Og það voru svitablettir undir brjóstunum.
„Varstu stressuð fyrir því að hitta mig?“ spurði ég.
„Nei,“ sagði hún yfirlætislaust, eins og spurningin ætti ekki rétt á sér.
Hendur hennar skulfu þegar hún rétti mér rjúkandi bolla sem angaði af kanil og negulnöglum.
„Ertu að koma niður af einhverju?“
„Þú veist að ég hef verið edrú í meira en þrjú ár? Á ég að skalla þig eða? Ég er með kaffiskjálfta,“ sagði hún.
„Æjá,“ sagði ég, gat ekki varist brosi. „Mmm. Classic Yogi-te. Ég drekk svona líka.“
„Segðu mér hvað stendur á miðanum.“
„Know yourself and you will be free.“
„Margt til í því,“ sagði hún. Hún settist við hliðina á mér með bollann í hendinni. Hún dró lokk á bak við eyrað og blés á vatnið. Kannski var réttlætingin sú að við ólumst ekki upp saman. Hún lét allavega eins og ekkert var. Hún vissi ekki hvað ég hafði gengið í gegnum. Hvað ég hafði hugsað um hana lengi. Og hvað samband okkar hafði valdið mér miklu hugarangri og vanskilningi á öllu sem ég hélt að væri gott, rétt og æskilegt. Það var engin leið að tala um það.
Þegar það heyrðist í sírenu fyrir utan gluggann sagði hún:
„Er einhver kominn að sækja þig?“ og brosti eins og hún gerði alltaf. Sólarljós draup í gegnum gardínurnar og ég fékk hroll og hlýnaði samtímis.
Síðustu nóttina okkar saman tók ég taxa alla leiðina upp í Kópavog. Hún bjó þá í kjallaraholu ömmu sinnar og afa en mér hafði einhvern veginn tekist að sannfæra hana um að leyfa mér að gista. Þegar ég tók strætó heim morguninn eftir fannst mér eins og ég vissi að þetta hefði verið síðasta skiptið. Kannski var ég bara þunnur. En mér fannst eins og það væri áþreifanlegur missir í loftinu. Næstu árin á eftir varð hún edrú meðan ég hélt áfram að drekka og við hittumst ekki nema nokkrum sinnum á förnum vegi. Ég var svo langt niðri á tímabili að ég var ekki viss um að ég sæi hana aftur. En eins og Juan var ég leitandi, alltaf leitandi, og eftir að ég flutti inn með honum var mér farið að líða betur. En innst inni vonaði ég alltaf að hún myndi hringja í mig þegar hún fengi hugboð.
„Ég fór í svona stjörnukortalestur um daginn,“ sagði ég.
„Í alvörunni? Hjá hverjum?“ hló hún. Hún hló alltaf að mér, frekar en með mér.
„Stelpu sem ég var að vinna með. Hún er algjör stjörnukortaséní. Hún sagði að tilgangur minn í þessu lífi væri að finna sjálfan mig, ekki vera í samböndum.“
„Ætli hún hafi verið að reyna að fæla þig frá öðrum stelpum?“
„Ne … þetta var ekki þannig. En ég fíla hana. Hún er sjálfstæð og skilur hluti,“ sagði ég.
„Hljómar eins og stelpan fyrir þig.“
Ég hristi hausinn. „Hún er of ung. En hún minnir mig svolítið á þig. Hún er alltaf að hlæja að mér, frekar en með mér.“
„Ekki annað hægt stundum,“ sagði hún.
Það var dimmt í neðri helming stofunnar og bjart í þeim efri. Sólarljósið ferðaðist upp og niður og teið okkar kólnaði í millitíðinni. Við hættum smátt og smátt að nota orðin okkar og hlustuðum á þögnina í staðinn. Sömu þögn og mér fannst stundum óbærileg, sérstaklega í þynnkunni. Ég fékk að vita að hún væri nýhætt með kærastanum og hann væri í því ferli að flytja út.
„Hvernig gengur að skrifa?“ spurði hún.
„Stundum vel. Stundum ekki,“ sagði ég. „Saga?“
„Já?“
„Má ég gista?“
„Auðvitað,“ sagði hún og horfði blíðlega á mig.
Ég fékk loksins það sem ég vildi. Við sofnuðum saman í sófanum. Og þó hún lægi þarna við hliðina á mér dreymdi mig hana samt. Við vorum úti að leika okkur í stóru húsi sem hafði verið yfirgefið í svo langan tíma að það hafði fyllst af gróðri og arfa. Vinkona hennar var líka með og ég elti þær um húsið. Ég reyndi að finna hana en náði aldrei nema í skuggann á henni. Ég fór upp á aðra hæð hússins og á þriðju og fjórðu og hélt áfram meðan tal þeirra og hlátur þeirra bergmálaði allt í kring.
Ég hafði ímyndað mér hluti í of langan tíma. Ég vissi það. Og eftir því sem ímyndunin og minningarnar blönduðust saman og hurfu lengra og lengra aftur í fortíðina fékk ég sterkar á tilfinninguna að það væri úti um mig. Ég myndi ekki finna hana aftur.