Kristín Ómarsdóttir
Hinn fegursti dagur rann upp: jörð mætti sólu, fuglar tístu, villikettir snéru sér við, kýr lyftu hlust. Og fyrst manna á sveitasetrinu, sem aldrei fannst nafn á, opnaði hún sem ég kalla þú augun. Augnlokin þung að kvöldi, létt að morgni. Ljós féll niður þakglugga og lenti á hálsi, öxl, hári, kodda með heimasaumuðum stráum. Himinninn birtist þér heiðskír og blár. Hvergi sást jafn blár litur. Þú sóttir gleraugun á náttborðið: liturinn styrktist. Hinn fegursti dagur hóf göngu sína:
Fögur kona í fögrum náttkjól inní fögru sængurveri og herbergi undir súð opnaði augun og mundi ekki strax eftir konunni sem við hlið hennar lá, henni sem kunni ekki listina að vakna snemma. María svaf vært á munúðarbrúnu eyra með perluskrauti í.
Væri ég fugl flygi ég hingað, settist á rúmgafl og bara starði.
„Á meðan ég sef þarf ég ekki að taka ákvarðanir,“ sagði María til varnar svefnhneigð sinni brött og glöð og södd eftir einn af þúsund morgunverðum sem þið hafið snætt saman og þú kysir að færu fram fyrr að morgni. Því þú forðast ekki ákvarðanir, vaknar snemma, sofnar seint og hugsaðir eitt sinn er þú hlustaðir á hana tala um öll armbandsúrin sem hún hefur átt: gullúrið sem brói gaf henni, skólaúrið sem hún fékk sex ára, fermingarúrið, útskriftarúrið, úr sem hún keypti á nytjamarkaði – södd eftir vel heppnaða indverska máltíð:
Í mínum faðmi, hugsaðir þú, skal ástin mín aldrei finna til svengdar, aðeins borða besta og hollasta matinn sem heimurinn býður, hugsaðir þú og teygðir þig eftir úlnliði sem armbandsúr prýða.
Þú stendur við heitið.
Ef til vill tókstu ekki ranga ákvörðun.
Ísskáparnir í húsunum sem þú gistir eru matarfullir.
Ó!
Hafðirðu gleymt heitinu? Ég man það og fylli uppí eyðurnar. Þakkaðu mér líka náttkjólinn: síðan hvítan fleginn, blúndur í hálsmáli.
Þú stóðst á fætur berfætt, þykk rist, kúptar tær, tálgaðir hælar, mjúkar iljar, æðaber. Tókst upp föt úr ruggustól, læddist niður þrjár hæðir stigana sem brestur í; innbrotsþjófur gerði ekki betur. Þú lagðir fötin á kringlótt eldhúsborð, lokaðir dyrunum milli eldhúss og stofu, opnaðir dyrnar út: mósóttur köttur stökk inn, gekk að diski þangað sem þú sturtaðir kornum úr kattamatarpoka. Þú tókst fötin í fangið: ættir þú að klæða þig í úti? Aldrei hefur það hvarflað að þér áður. Þetta skyldi þó ekki verða óvenjulegur dagur. Og þú sem átt létt með ákvarðanir getur ekki ákveðið þig. Eitthvað með að forðast fíflaskap og vitleysisgang? Þú lagðir fötin á borðið, helltir vatni í belg kaffivélar, ýttir á takka: rautt ljós; ristaðir brauð.
Þú ert falleg einsog söngur í draumi, falleg einsog söngur án stríðs. Hún er falleg einsog söngur í draumi, falleg einsog söngur án stríðs. Þú ert falleg einsog söngur í draumi, falleg einsog söngur án stríðs. Hún er falleg einsog söngur í draumi, falleg einsog söngur án stríðs.
Myndin endurtekur sig: þykkur eða langur eða grannur eða bústinn eða þrýstinn fingur þrýstir á takka svo undir kviknar rautt ljós; löng nögl, sterkur úlnliður, þessi hönd kann allt.
Næst sóttirðu bolla, undirskál, leirtau sem leirað var í héraðinu, bretti sem ristaða brauðið leggst oná, marmelaði úr apríkósum héraðsins. Þú tekur lyf, drekkur ekki fyrsta bollann á tómum maga. En áður, þegar þú tókst ekki lyf, beiðstu eftir Maríu með að rista brauðið. Hagsýn stakkstu pilluboxinu í vasann í gærkvöldi ásamt tannburstanum. Þangað sækirðu þau: í fatahrúgu á kringlóttu borði.
Þú situr við borðið, lagðir fötin á annan stól; stólar úr körfu; glugginn snýr útí garð. Þú drekkur kaffi, borðar ristað brauð, hugsar:
um hana sem þú elskar;
um dætur þínar, þá eldri, þá yngri;
um örverpið: soninn;
um tengdasynina, þann lata, þann iðna;
hvað er sonur þinn ef hann er hvorki latur né iðinn?
gersemi;
um barnabörnin;
um þegar þú hélst á Veru í fyrsta sinn fyrsta morguninn lífs hennar;
en hvað ætla ég að gera í dag?
hugsarðu –
kaupa egg hjá bóndanum?
ost, afskorin blóm,
það er nóg vín til
skinku, aspas – kartöflur –
hvernig skal elda aspas á uppskerutíma aspasins? gulu sósuna með grænu strikunum í?
Skruðningar berast að ofan, stóll færður til, nei, hlýtur að vera skápur, hljóðið er það stórt. Hvernig færist skápur til eldsnemma morguns? Leitar tengdasonurinn sokks, skartgrips, pilluglass? Þögn. Skrýtið.
Þú lítur af loftinu oní vaskinn, þværð brettið, þværð kaffivélina, þværð bollann, undirskál. Þetta er mjúkur uppþvottalögur, yndisleg froða, mjúkur skrúbbubursti – yndislegur – vaskurinn líka, mjúkur og viðráðanlegur, sterkar hendur, langir fingur, fögru hendur þína kunna að snerta tuskur, skola og vinda af djúpstæðum styrk, hengja á kranann. Tuskan var gul.
Þú tekur fötin í fangið en nú nemur þú staðar: labbirðu upp þrepin 37 aukast líkur á að þú vekir mannskapinn; dagsbirtan herðir fjalir og þil og grynnir svefn; og ekki skalt þú verða völd að því að fólkið vakni: það má vakna af sjálfu sér í sumarfríinu …
Þú lítur á klukkuna sem ásamt kettinum leit á þig, opnar dyrnar. Saddur stekkur kötturinn framhjá af öfundsverðri – af þokkafullri – þögn; rófan frjáls eða vitiborin eða bæði.
Það samsvarar engum lögmálum að klæða sig inní eldhúsi. Eldhús var aldrei upphugsað fyrir klæðaskipti. Hvert er leynilegasta hornið? Hvar geturðu falið þig án þess að gera þig að fífli? Fullorðið fólk á ekki að þurfa að skammast sín.
Berfætt eltir þú köttinn, labbar kringum setrið, yfir túnið þangað sem ekki sést úr húsinu, bakvið eldiviðarskúr leggur þú fötin á jörðu. Snertir hana laust með lófunum. Náttkjólahald fellur niður aðra öxlina. Það er sem systur mætist. Jörðin er rök. Þú styður öðrum lófa við skúrvegg, lítur upp. Þetta er sannkallaður blámi. Sólin stirnir á húðina og stjörnulitt hárið.
Þú dregur náttkjólinn yfir höfuðið og brýtur saman, leggur hjá fatahrúgunni, háfætt, þykkir kálfar, sver læri, hvöss hné, íturvaxnar mjaðmir, naflinn situr á hnefaþykkum maga, brjóstin lík kóralrifjum, langt bak, breiðar herðar, stæltir upphandleggir, ermalengd 67 sentimetrar.
Þú beygir þig einsog kona að akuryrkju. Á málverkum klæðist hún í síð pils, treyjur, skuplur. Þú ert allsnakin, hárið frjálst.
– Hvers vegna klæðir gyðjan sig fyrst í brjóstahaldarann?
Spyrja fuglarnir og dást að þér, eins ég.
– Það er vegna þess að … konu sem er annt um orðsporið hafi hún stærri brjóst en lítil notar brjóstahaldara hvar sem hún birtist, í heimahúsum, í einkaerindum, á opinberum vettvangi.
Svara ég.
Hálslöng klæðir þú þig í skyrtu hvers litur mér hugnast ekki, hneppir fallega hröðum fingrum og snörum.
– En hvers vegna klæðir hún sig í skyrtuna á undan nærbuxunum?
Spyrja fuglarnir.
– Það er afþví að … búkurinn þolir verr kulda en lappirnar þó kuldanum sé ekki fyrir að fara … það er afþví hvað það er yndislegt að vera berrössuð útí náttúrunni.
Svara ég.
Nærbuxurnar eru hvítar sem umslag, kynhárin svört. Skyndilega flýtir þú þér í buxurnar, hvers litur mér hugnast ekki. En hef ég leyfi til að dæma um það? Þú styður þig við vegginn, önnur skálm, hin skálm, buxurnar voru saumaðar í verksmiðju. Kallast fötin sumarföt?
Þú stakkst náttkjólnum undir arm þér, læddist til baka sömu leið; ekki sjens að nokkur lifandi mannvera sæi til þín. Hvar má fela náttkjól áður en þú kemst upp hin 37 brakandi og brestandi þrep án þess að vekja fólk? Og hvernig máttu koma að gagni næsta klukkutímann áður en unnustan vaknar?
Svarið tekur svo langt augnablik að þú ásakar sjálfa þig um leti og reiðuleysi.
Best að fela náttkjólinn undir dúkunum í dúkaskúffu buffetsins í stofunni. Þú opnar hljóðlega stofudyrnar. Allt sem besta innbrotsþjóf má að prýða prýðir þig.
Nú sóparðu gólfið sem þú sópaðir í gærkvöldi.
Kallast fötin sem þú klæðist sumarföt? Þvímiður ekki saumuð á saumastofu minni. Ég hefði aldrei saumað þetta. Þig þyrstir í meira kaffi –
Barnið stendur í augnhæð við vinnuborðið sem mætti kalla afgreiðsluborð. Hanakamburinn sem dóttir þín litaði gulan og bleikan í fyrradag sveiflast. Það horfir á þig handfjatla ítalska kaffikönnu.
„Þetta er kaffikanna mömmu,“ segir barnið á náttfötum hvers mynstur hverfur í þvottum: páfagaukar á snjóbrettum.
„Má enginn nota hana nema hún?“ spyrðu.
Barnið bendir á aðra kaffikönnu af sömu gerð og stærð: „Pabbi á þessa.“
„Á ég frekar að nota hans?“
Barnið svarar ekki.
Nú saknar þú Maríu.
Þú leggur espressókönnu dóttur þinnar á borðið.
„Má ég nota kaffivélina? En það er miklu betra kaffi úr könnunum,“ segir þú.
Barnið horfir á kaffikönnurnar, á kaffivélina, grettir sig, labbar út í dyr, nemur staðar í gættinni, iljarnar vega salt á stálskör. Það stekkur út, hleypur yfir tún.
Þú handleikur kaffikönnuna. Auðvitað má móðir nota kaffikönnu dóttur sinnar. Og þekkirðu Róbert býður hann tengdamóður sinni auðvitað að nota hans. Þú virðir fyrir þér tvær eins könnur. Skrúfar aðra í sundur, finnur bókstafinn V ristan á botninn. R er rist á botni hinnar. Þú gefst upp. Þú hættir við að gefast upp. Sáldrar dufti í sigtið, skrúfar helmingana saman, leggur á hellu, tendrar bál.
Barnið hleypur fram og tilbaka túnið og sveiflar keyri. Sólin glitrar á hanakambinn. Hnén lyftast hátt einsog á framhelmingi hests.
Barnið finnur seinna afturhelminginn. Hugsar þú. Einsog ég fann Maríu. Hugsar þú. Hver manneskja er frampartur og finnur afturpart sinn, eigin frampart annarrar manneskju. Ég er afturpartur Maríu. María er afturpartur minn. Hugsar þú en hvað annað viltu aðhafast en að hugsa þar til kaffið sýður? Horfa á barnið hlaupa, sveifla keyri? Mótt og másandi stekkur það inn:
„Amma, ég sá kall inní trjánum, með hálft andlit, engar axlir, hélt á exi, afskræmdur allur.“
Þið stormið út: hvar, hvar?
Barnið bendir, færir þér keyrið, þið æðið inní trjáhvirfinguna. Þú slærð keyrinu til vinstri, til hægri, öskrar:
„K o m d u þ é r b u r t u – andskotinn á þér óféti þitt andskotastu burtu.“
Undir gróðrinum heyrist og sést svifhratt skrjáf. Eitthvað hleypur undan látunum. Flótta þess fylgir andvari sem feykist í fangið á ykkur. Þið hlustið á skrjáfið fjarlægjast og hverfa, fjarlægjast, hverfa, hverfa.
„Amma, þú rakst skrímslið burt,“ hvíslar barnið.
„Ætli það ekki bara,“ svarar þú, réttir því keyrið, barnið eltir þig inn.
Úr belg kaffikönnunnar rís gufustrókur. Þú hleypur að, fjarlægir könnuna af hellunni, slekkur eldinn.
„Eyðilagðirðu kaffikönnuna hennar mömmu?“
Hvernig greinir krakkinn mun á könnunum?
„Neinei,“ svarar þú, „ef þá kaupi ég nýja.“
„Kaffið má ekki sjóða. Kannski eyðilagðirðu könnuna, amma.“
„Þá kaupum við nýja.“
„Það á ekki alltaf að kaupa nýtt og nýtt, hlutir eiga að endast, segir mamma.“
„Ég kenndi mömmu þinni það, að láta hlutina endast. Það er skömminni skárra eyðileggi kennarinn kaffikönnuna frekar en nemandinn.“
Þú hellir kaffi í bolla.
„Ef ég eyðileggst getur mamma ekki keypt nýtt barn eða nýja mömmu eyðileggist þú.“
Það hlammar keyrinu ofan á borðið, sest. Þú hellir mjólk í bolla úr sveitastellinu, færir því, sest.
„Eyðileggist mamma þín getur hvorugt okkar keypt nýja mömmu eða dóttur.“
„Hvernig dóttur keyptir þú ef þú yrðir að kaupa nýja?“
Barnið dreypir á sveitamjólk.
„Ég keypti dóttur sem hefði auga í hnakkanum til að verja sig fyrir árásum úr launsátrum. Hvernig mömmu keyptir þú?“
Amman dreypir á ítalska kaffinu.
„Væri hún með eitt eða tvö augu í hnakkanum, amma?“
„Þrjú, fimm alls, þrjú felur hún bakvið hárið.“
„Ég keypti mömmu sem sæi ekki í gegnum veggi svo ég gæti leikið mér í laumi.“
„Sér mamma þín í gegnum veggi?“
„Já eða ég keypti mömmu sem gæti flogið. Hvernig mömmu keyptir þú ef þú værir lítil?“
„Mömmu sem segði aðeins það sem ég óska mér.“
„Einsog dúkku sem þú forritar setningar fyrir?“
„Mhm.“
„Ég líka, svona mömmur ættu að vera til sölu í búðum, svona mömmur ættu ekkert líf.“
Dreypir á mjólkinni.
„Hvaða læti voru út í garði,“ spyr móðir Ylfings og dóttir þín, úr dyragættinni, strýkur stírur úr augum, berfætt, í blómanáttkjól saumuðum á alþjóðlegri saumastofu, „ég vaknaði við óskapleg öskur.“
Vera geispar. Þið horfið á hana einsog á vöru í búð. Mynduð þið kaupa hana?
Þú hugsar: Liði tíminn afturábak væri ég dóttir hennar.
Áður en andartakið leið horfðir þú á fótleggi hennar á sama hátt og elskhugi; þeir eru næstum því eins og þínir.
Dóttir þín hallar undir flatt, hönd styður við dyrakarminn, hún les á síma. Þannig minnir hún mögulega og fordómalaust á hermann á frívakt í röngum búningi. Á vændiskonu sem gleymdi að fara í yfirhöfn. Á slökkviliðsmann eftir dularfulla vakt. Á skógarhöggsmann sem velur tré til að fella.
Á bílstjóra sem nennir ekki að keyra.
Á sundlaugavörð hvers brjóstvit segir honum að enginn drukkni í dag.
Á abbadís sem best kann bænirnar og á mörgum tungumálum.
Á stelpu sem kemst ekki lengur í snú-snú.
Á svo margt.
Á konu sem ver hænsnabú.
Á sjörnufræðing við hlið stjörnukíkis.
Á verslunareiganda sem nennir ekki að opna búðina. Svona er að vera í sumarfríi.
Á svo margt.
Á gardínu sem veit ekki hvort hún sé fyrir eða frá.
Á gleraugnasala sem ekki er treystandi fyrir réttum sjónglerjum.
Sem treystandi er fyrir réttum sjónglerjum.
Á árstíð.
Á árshátíð sem býður enga velkomna.
Á þig –
Á föður sinn.
Meira á þig?
Á ömmu sína, móðursystur, á einhvern sem er ekki fullkomlega kát á fallegum degi.
Andartakið leið.
„Amma rak ógeðslegt skrímsli útúr garðinum, með hálfan haus, tvo fætur, hálfan handlegg, kallinn átti fótum fjör að launa, andskotans hrappurinn.“
Iljar Veru skoða gólfið áður en þær drepa niður fæti. Hvar lærði barnið að blóta svo stíft? Móður þess grunar hvar. Hún stígur inn. Þú hefur áður tekið eftir þessum kæk: hve gætin hún drepur niður fæti, iljar þúsund augna. Hristir könnuna, hellir dreggjum í bolla, dreypir á kaffinu. Þið færið ykkur svo hún fái betra pláss við borðið.
„Er skepnan farin fyrir fullt og allt?“
„Ættum við að skjóta varúðarskoti úr rifflinum svo hún viti að hingað komi hún ekki aftur nema eiga von á dauða sínum?“ spyr barnið með mjólkurskegg, „plaff, plaff– – – “
Vera tekur utan um Ylfing:
„Með hvaða riffli, darlingur?“
„Rifflinum hans pabba.“
„Pabbi á ekki riffil.“
„Ég sá hann,“ staðhæfir barnið sem dóttir þín strýkur bakið á.
Þú horfir á dóttur þína sem horfir á þig: þið yppið öxlum, mæðgur yppa öxlum.
„Hvað, mamma?“
Barnið krotar með rauðum lit á gulan renning.
„Sástu riffilinn?“
„Já, auðvitað.“
Þú flettir fræpökkum sem liggja oní körfu. Sjái María fræ til sölu í búðum kaupir hún nokkra pakka: morgunfrúr, eldliljur, fjallakornblóm, gulrætur, kálhausar. Hvenær sáir hún þeim? Í huganum bætir þú fræpakka á innkaupalistann, súkkulaði.
Þér þykir skrýtið, jafnvel óþægilegt, að sitja ásamt dóttur og barnabarni við eldhúsborð, indælt, furðulegt – grunsamlegt – ólöglegt? Hér vantar eitthvað: feður? eiginmenn? fulltrúa heilbrigðis?
„Róbert hefði haft gaman af að kynnast föður þínum,“ segir þú og meinar ekkert með því, „pabbi þinn kunni að umgangast skotvopn, mikill veiðimaður, einsog þú veist en litla skott veit ekki.“
„Ég er stórt skott, amma.“
„Amma tekur svona til orða. Já, pabbi kunni að skjóta fugla.“
„Afi?“
„Já, afi.“
„Afhverju skildurðu við hann, amma?“
„Ég vildi verða læknir.“
„Gastu ekki bæði verið gift og orðið læknir?“
„Sjúkrahúsið var langt í burtu, afi þinn vildi ekki flytja, hann var háður heimaslóðunum.“
„Háður heimaslóðunum …“ hermir Vera og hlær með munninn fullan af köku sem hún fann í bláu boxi.
„Já, þannig var það, sama hvað hver segir, þá er það saga mín,“ segir þú og bætir við: „saga mín, saga ömmu þinnar.“
Þú fylgist með barninu teikna. Vera hlær.
„Hvað, mamma? Hvað, amma?“ spyr barnið, teiknar tré, hylur tré undir rauða litnum.
„Þegar ég var ung stúlka bjó ég ofan í fallegu vatni ásamt mömmu minni sem var langamma þín. Við vorum alltaf saman og það var gaman. Við heimsóttum frænkur okkar, vinkonur okkar og langamma þín kenndi börnum að lesa því hún var kennari. Svo lágum við á botninum og lékum okkur, byggðum sandkastala og lystigarða. Dag einn var ég veidd upp úr vatninu, sveif upp úr því á þræði úr girni. Þar var kominn afi þinn á selskinnskápu og skóm, með selskinnsvettlinga og húfu. Hann tók mig í fangið og labbaði með mig heim til sín langaleið. Og hann hélt á lampa einsog spámaður, til að sjá leiðar sinnar, það var svo dimmt, kolniðamyrkt og kalt. Andlit okkar spegluðust í lampaglerinu ásamt stjörnunum.“
„Mamma …“ byrjar dóttir þín.
„Varstu hrædd?“ spyr barnabarnið.
„Nei, ég vissi að mamma fylgdist með ferðum mínum og passaði mig. Hún sá yfir fjöll og firnindi og í gegnum veggi og allt.“
Þú vaskar upp bolla, kaffikönnu. Dóttir þín dregur matvöru úr ísskápnum, osta, smjör.
„Mér þætti vænt um ef þú fylltir ekki barnið sögum fullum af fordómum og mannfyrirlitningu. Ylfingur á góðan pabba og ég átti líka góðan pabba. Hann var góður við okkur, við börnin sín, mamma, hann var góður maður. Skilurðu mig?“
Áttu að leyfa hreinu hlutunum að þorna á grindinni eða framkvæma sitthvað þarflegt á meðan þið heyið samtalseinvígið sem dóttir þín býður til og þurrka upp allt á stundinni? Þú hugsar þig um.
„Mamma, svaraðu mér, skilurðu mig? Nú eru aðrir tímar, feður taka jafnan þátt í uppeldinu og flýja ekki af vettvangi út í skóg að veiða fugla og eltast við álfameyjar.“
„Já.“
„Það þarf ekki að innræta barninu sömu mannfyrirlitningu og þú innrættir mér.“
„Fyrirgefðu mér, Vera, en þó ég tilheyri fortíðinni þýðir það ekki að nútíminn stroki hana út og að barnið megi ekki þekkja sögu ömmu sinnar.“
Dóttir þín heldur á smjörklumpi: „Óþarfi að ýkja allt öfgafullt, mamma! Ég sagði aldrei að þínar sögur væru úreltar en ég set útá fyrirlitninguna á karlmönnum sem allt litar: mamma mín hetja, pabbi minn ræfill.“
Orðin þykja þér ósvaraverð. Þú ætlar að henda viskustykkinu á grindina, ganga út, upp þrepin 37, leggjast í fötunum í rúmið til ástkonu þinnar. En þér snýst hugur, þrátt fyrir eðlislæga staðfestu þína, og ákveður að klára að þurrka allt upp, vegna staðfestunnar og ábyrgðarkenndarinnar – og nostursamlega, nákvæmt – hvert snifsi með glæsilega hreina viskustykkinu sem þú þvoðir í gær; snillingurinn sem þú ert í að ná úr blettum.
„Ertu að meina útaf því ég sé lesbía?“
Þú þurrkar upp efri helming kaffikönnunar.
„Að ég fyrirlíti karlmenn þess vegna?“
„Nú notarðu þetta trikk: að svara öfgafullt og þagga niður í mótaðilanum. Þetta er snilldartrikk, mamma. Þig skortir ekki tæknina.“
„Fyrirgefðu mér, en má ekki bara salta graut kvenfyrirlitningarinnar sem barnið hrærist í saklaust fætt til þessa samfélags með agnarögn af fyrirlitningu á karlmönnum?“
Þú þurrkaðir upp neðri helming könnunnar.
„Það er ómögulegt að rökræða við þig, mamma,“ segir dóttir þín hún Vera og ætlar að lyfta bakka sem á hvíla ostar, kex, brauð, smjör, hunang, eplaskífur, tómatar, í því að Róbert stígur inn til eldhússins á íþróttastuttbuxum, í íþróttaskóm, íþróttasokkum, vínrauðum íþróttabol, veifar badmintonspaða:
„Sælar, dömur!“
Hann grípur kaffikönnu á borðinu, kíkir undir botninn, „þetta er mín,“ réttir þér könnuna, „elsku tengdamamma, fyrst þú stendur í höfuðvígi eldhússins, varla pláss fyrir fleiri, viltu vera svo væn og laga mér kaffi?“
Labbar út í garð, hremmir barnið í fangið og skutlast með það. Hláturinn berst inn einsog skemmtileg tónlist, fiðrildi, hnappagöt.
„Athyglisbresturinn,“ segir Vera og gleymir ágreiningnum. Þú fagnar nýrri handavinnu.
Þið mæðgurnar gerið morgunverðarborð klárt. Það er notalegt og frjósamt bjástur. Ykkur líður vel. Þetta var það besta sem gat gerst.
„Ættum við ekki að hafa dúk?“ spyr Vera.
„Jú endilega, ég sæki dúk,“ svarar þú og minnist náttkjólsins undir dúkunum. Þú gengur í að velja dúk úr dúkaskúffunni í stofunni.
„Ættum við ekki bara að borða úti, mamma?“ kallar dóttir þín úr eldhúsinu.
Ó, það er indæl setning á indælum morgni.
Þið mætist í dyrunum.
Hún tekur við dúknum. Þú eltir hana út með bakkann. Þið leggið á borð. Þið sækið diska, sækið glös, sækið bolla, sækið mjólkurkönnu, sækið ávexti, sækið sætabrauð.
„Sjóðum egg,“ segir Vera og þú leggur tólf egg í pott, fyllir vatninu sem hljóp niður úr vatnslögninni einsog lest. Þú gætir þess að úr pottinum mæti til veislunnar linsoðin egg, brosandi og harðsoðin sem þú munt leggja í þrjár körfur með mislitum pjötlum á botninum. Þú ákveður hvaða gerð eggja eignist hvaða lit.
„Hvað ertu að gera, mamma?“
„Sjóða egg.“
„Já, alveg rétt og hvað eru þessar körfur að gera?“
„Fyrir lin, brosandi, hörð,“ svarar þú.
Af svip Veru nemur þú ekki hvort gjörðin sé henni þóknanleg og að lokum segir hún það: „Vilja ekki allir harðsoðin út af salmonellu?“
„Nei nei,“ svarar þú, „þetta eru örugg egg.“
Örugg egg.
Voru eggin sem ég færði dóttur minni örugg?
Þú missir lystina á eggjum, saknar unnustunnar.
Hvenær kemur María niður og bjargar mér úr nauð?
Vaknaðu unnusta mín, komdu strax og bjargaðu mér.
Það er einsog við manninn mælt. Hér stendur bjargvætturinn í gættinni og brosir til þín, ekki til neinna annarra á jörðu hér – bros í einkaeigu þinni – hið sætasta bros með táli í augum og restar kynlífs – hvítan hvítari, rauðan rjóðari – og líkast því sem stirni úr augum, að hún hafi spreyjað augun álfkonuspreyi. Klædd einsog dama á leið á fílaveiðar gengur hún til þín, mjaðmirnar dilla einsog hlátur. Hún tekur utan um þig, kyssir þig svo glöð að eiga kærustu sem vekur hana ekki eldsnemma á morgnana með látum og skipar henni að gera hitt og þetta, einsog allar hinar fyrri kærustur. Hún á bestu kærustu í heimi þótti Maríu þegar hún vaknaði ein í rúminu alveg örugg, spot-on örugg, súpernóva kærasta << mín >> besta þvottakonan í alheimi. Hún þrýstir þér að sér. Þú finnur brjóstin, hárið, vöðvar og sinar smyrjast, dropi fellur niður skautið.
„Elskan mín, á eftir laga ég handa þér te sem við drekkum útí garði, hvernig líst þér á?“ hvíslar hún í eyrað þitt.
„Vel,“ hvíslar þú.
Dóttir þín gengur út með könnuna sem þú fylltir áðan ferskasta vatninu.
Typpið á tengdasyninum dinglar undir vanilluhvítum stuttbuxum með skjannahvítum röndum á hliðum. Stuttbuxurnar og bolurinn glansa. Hann hleypur með barnið öfugt í fanginu í hringi um garðinn, kastar því og sjálfum sér niður, þau rúlla saman í grasinu, öskra, hlæja. Barnið fær sér sæti oná pabbanum, kreistir á honum kinnarnar. Faðirinn sveiflar því undir sig, barnið sparkar í magann á pabbanum sem fellur, flengir hann eða dúar með krepptum hnefum. Róbert glaðöskrar: „Ái – ái – ái!“
Vera nemur staðar, hún heldur á vatnskönnu, horfir á Róbert og Ylfing. Hausarnir fara í kollhnísa, risastórar lappir, risalitlar lappir. Ylfingur sest oná Róbert sem labbar á fjórum fótum til morgunverðarborðsins sem Vera leggur könnuna á. Það glitrar á vatnið. Dúkurinn er hvítur, mölin undir fótunum er hvít, stólarnir og bekkirnir kringum borðið. Barnið hleypur af baki, vefur sér um annað læri móður sinnar: „Mamma,“ segir það, þrýstir sér fastar að Veru sem horfir á Róbert. Þau brosa hvort til annars. Svona er eðlileg fjölskylda. Svona er gott. Þau eru reyndar meira og minna klædd í hvítt. Það leiðist mér. Út á annað setti ég ekki.
En hver annar en sonur þinn mætti í dyragættina um leið og unnusta þín strauk þér hárið.
„Mamma,“ segir Georg og brosir.
Þér þykir verra sjái krakkarnir til ykkar. Þú getur ekki vanið þig af þeim leiða leiða sama hvað þú sannfærir sjálfa þig: manneskja á mínum aldri á rétt á ástarlífi, prívatlífi, börnin eru stór, þau eru ekki börn, þau gæta sín, þau eiga sjálf sínar sögur, geta ekki krafist þess að ég sitji föst og staðni í sögunni um okkur og pabba þeirra sem aldrei gekk upp, það er að segja: sögur ganga ekki upp, það er eðli sagna, öðruvísi væru þær ekki sögur …
„Veistu um aspirínið, kláraði ég aspirínið í gær?“ spyr drengurinn og stígur inní eldhúsið á stuttbuxum, með nakið brjóst undir óhnepptum náttsloppi sem faðir hans átti á meðan samband ykkar var og hét. Þannig minnir flíkin á forna gæðatíð: þegar þú varst ung og þunn og timbruð og borðaðir kókópuffs í morgunmat.
Þú færir þig undan atlotum kærustunnar, opnar skúffur. Georg þjáir krónískur höfuðverkur, hann gengur fyrir höfuðverkjatöflum, höfuðverkir eru þema og lím mæðginasambandsins.
„Þú átt ekki að hanga með tölvuna í rúminu,“ segir María og klípur Georg í kinnina.
„Á-i,“ hváir drengur sem er drengur í eldri kantinum.
Þú gramsar í skúffunum. María labbar útí garð. Þú leist upp, horfðir á eftir henni: hreyfingar hennar: undursamleg sjón. Sonur þinn horfði líka, brosir.
„Hún er virkilega sæt.“
„Hver?“
„Hún María þín.“
„Finnst þér það?“
„Já, mamma hvort mér finnst.“
Röddin fallega rám. Þú stingur aspiríndollu í lófa hans.
„Takk, mamma.“
Hann arkar út: sperrtur, herðabreiður, niðurmjór, þykkir kálfar, óhreinar iljar. Hvernig fór ég að því að framleiða svo herðabreitt barn? Hvernig fórstu að því? Það er lyginni líkast. Hreinir öfgar, töfrar? Allur hárvöxturinn. Fyrir hvaða galdur? Morgunkornin sem þú keyptir? Kjötbollurnar sem þú hnoðaðir, sænskar, danskar, indverskar? Laukurinn sem augun grétu undan? Er það lauknum að þakka? Skólakerfinu? Leikfimitímunum? Þú varst eitt sinn inní mér, barn. Rólega lokar þú skúffunum. Þú vilt ekki út strax. Hér vantar eitthvað sem sýnin í garðinum mun ekki bæta: sex manneskjur sitja við hlaðið borð. Hvað vantar? Tilfinningu sem hefur aldrei verið til?
Fögur einsog akur í blóma, vín sem fyllir bikar sastu við dúklagt borð fyrir framan sveitasetur. Andvari gekk fyrir horn, bærði vanga, lokk úr hári unnustu þinnar. Næsti andvari beið færis. Þeir komu fyrir hornið í röðum á njósnum um fjölskyldu sem snæðir morgunverð, lúmskir, gegnsæir, einsog kisur nema ósýnilegri. Varir fagrar sem kirsuber. Augu lík tifandi klukkum. Svífandi mínútuvísar. Hrífandi mínútuvísar. Fingur þínir tréblýantar sem skrifa unnustu sinni skemmtilegustu bréfin sem Maríu hafa borist um alla hennar ástarlífstíð.
Þú situr Veru á hægri hönd: drottning augnablikins, fyrrum litla telpan þín, hún situr við borðsendann og réttir eiginmanni á vinstri hönd körfu með eggjum, þeim harðsoðnu. Ylfingur situr við hina hlið þér á upplituðu náttfötunum, mörgæsir, nei páfagaukar sem hverfa inní skíðabrekkuna. Unnusta þín situr ská á móti og á milli hennar og Róberts situr einkasonurinn Georg, öðrunafni Goggi, eini gesturinn sem á gælunafn.
Sitji stórfjölskyldan, einsog þið kallið ykkur, saman til borðs sest þú aldrei við hlið Maríu eða beint á móti – ská á móti er best. Eitt sinn sagðist þú gera uppreisn gegn híerarkíinu þegar hún bað um svör útafhverju þið sætuð aldrei saman eða beint á móti hvor annarri einsog lögmálið boðar að pör sitji saman við háborð. „Hvaða híerarkí,“ spurði María sem kann illa félagsfræðilegu tali. Þér þóknist bara alls ekki þetta kónga- og drottningafyrirkomulag á meðal jafningja.
„Mér þóknast bara alls ekki þetta kónga- og drottningafyrirkomulag á meðal jafningja.“
Sagðir þú.
María ákvað að virða rök sem hún skildi ekki.
Þú sagðir ekki:
„Ekkert og enginn má vera of nálægt. Fjarlægð er fjölskyldum affarasælust.“
Sæti María við hlið þér í boði heyrðirðu hjarta hennar slá. Þú ert ofurnæm á hjartslátt hennar. Alnæm á andann sem umlykur líkamann – rafmagnið, rafmagnið. Þú skynjar Maríu alla alltaf. Þú hreinlega bráðnar. Líkaminn öskrar á meira og stöðugra kynlíf.
Þá er – affarasælast – við aðstæður sem þær, hugsar þú, við aðstæður sem þær er – affarasælast – hentugra, skynsamlegra, þægilegra að hafa kærustuna í x-fjarlægð.
Persónulega hef ég, sem er ekki þú, aldrei valið þægilega, hentugt eða af skynsemi. En ég er ekki þú. Ég er sumarkvöld sem gengur tilgangslaust niður götu og fylgist með þeim sem það mun aldrei girnast; sem festist á sveitasetri við það að líta augum fegurðarsýnina: þig, fallegri en söngur í draumi.
Og það stríðir gegn lögmálum þínum sitji karlmennskir líkamar hlið við hlið við fjölskyldulegt borðhald. Það skapar hættuástand. Það verður að dreifa orkubúntunum en ekki þjappa þeim saman: krumlur, breiðir hálsar, breiðir kjálkar, stórar tennur.
Þér hugnast ekki skipulagið og við nánari eftirgrennslan viltu ekki að unnusta þín sitji við hlið Georgs sem þykir hún svona sæt.
Hvernig má sitja við borðið án þess að af sætaskipaninni skapist hætta, jafnvel lífshætta?
– Hvaða hætta, segðu mér það, yndisfríð?
Ég, sumarkvöld, sögumaður, ótengdur aðili, skil þig ekki.
– Á hvers kyns átökum, á hvers kyns hættu á óviðbjarganlegu sálrænu tjóni sem grefur sig inní sálardjúpin og víkkar tómið sem ekkert okkar umflýr. Skipulögð sætaskipan er fyrirbyggjandi nauðsynleg ráðstöfun í hvers kyns mannfagnaði.
„Vera, hver raðaði til borðs?“ spyrð þú.
„Enginn,“ svarar Vera.
„Fengi ég að ráða,“ segir þú – unnusta þín heldur á eggi sem hún ætlaði að brjóta höfuðið af – „sæti Goggi við hlið mína, María við hlið Róberts og Ylfingur kæmi á milli okkar Veru.“
„Megum við ekki bara sitja einsog við sitjum? Er þetta eitthvert siðalögmál frá ömmu?“
Spyr dóttir þín.
„Góð hugmynd,“ kallar sonur þinn rauðeygður, hélt á körfu með eggjum, steig uppá bekkinn, klofaði yfir borð, stórfættur, skítugar iljar, loðin læri, fer í sturtu tvisvar á dag, fimur, ör, sterkur, grípur Ylfing í fangið, plammar sér niður með barnið, bekkurinn dynkar.
Bein í baki færði María sig nær Róberti, hún færir disk Georgs yfir til Georgs.
„Ég skil mömmu betur en hún skilur sjálfa sig,“ segir Goggi, hlær, tók við eggjakörfunni, gaf þér olnbogaskot, blikkaði þig einnig; öllu má nú ofgera.
Vera hristi höfuðið.
Róbert hvíslaði:
„Leyfðu mömmu þinni að ráða, hún getur ekki að þessu gert.“
„Mér líður betur í nýju sætaskipaninni,“ lýsti Georg yfir og bauð Maríu körfuna, hún sýndi honum eggið í lófanum, þau brostu. Þú leist í átt til hennar og hún uppsetti strangan svip: eitthvað um að hún líði ekki afskiptasemi, stjórnsemi.
„Ekki vera ströng við mig,“ skrifaðir þú í hraðskeyti til ástkonunnar.
Georg veifaði gaffli sem á hékk síld, spurði Veru hvenær væri von á systur þeirra.
„Kamilla kemur klukkan fjögur,“ svaraði Vera sem smurði vandlega brauðsneið útí öll horn og færði Róberti: „Takk,“ sagði Róbert.
María dró andann djúpt, brjóstin lyftust, laut yfir diskinn: þar lá sardína. Þú heyrðir andvarpið, leist til hennar: hún brosti til þínu brosinu sem enginn annar á hlutdeild í nema þú. Nú var allt gott þótt þú treystir þér ekki til að horfast í augu við fleiri í bili. Ylfingur hrópaði á mömmu sína. Síðan var morgunverðar neytt.
Þið sitjið á hvítum bekk. Hvíti liturinn við hlið hinna ráðandi grænu lita teiknar stílfærð strik inní umhverfið og minnir á merkimiða eða fána en ekki þó friðarins. Hvaða mögulega ófriðar? Ósvaranleg spurning. Ef þú værir ljósmyndari, sem þú hefur engan áhuga á að vera, myndir þú færa bekkinn til hugnaðist þér að taka ljósmynd af þessum indæla: trjálundi.
Það var Vera sem stakk uppá því og sveik þarmeð ekki hefðbundið kvenlegt hlutverk sitt:
„Hvers vegna setjist þið María ekki á bekkinn í trjálundinum og fáið ykkur te á meðan ég geng frá, mamma, mér finnst svo gott að hugsa og ganga frá.“
Bekkurinn stendur neðst eða yst eða fjærst í garðinum.
Dóttir mín vill losna við okkur, hugsaðir þú.
Hún hefði um nóg að hugsa og skipuleggja daginn, útskýrði Vera einsog þess þyrfti að nefna það upphátt.
„Sparaðu orðin, dóttir,“ lá á vörum þér, „notaðu þau sparlegar,“ hefðir þú bætt við, „ég skil þig, þú þarft næði, allt þarf næði, líka við María.“
„Dóra,“ segir María og tekur utan um þig, „elsku Dóra mín.“
Augun hvíla á þér en þín fylgja boltanum sem Róbert og Georg sparka á milli sín og Ylfingur eltir, steypir sér yfir, tekur í fangið, kastar ansi hátt þangað sem hinir hlaupa og tækla boltann. Náttsloppur Gogga liggur í grasinu. Skýlan er glansandi fjólublá. Á himnum leysist upp þunnt snjóhvítt ský, himinninn svona líka yndislega blár.
„Reyndu bara að slappa af og treysta.“
„Hvernig þá, María?“
Mennirnir liggja hlæjandi í grasinu. Barnið klifrar oná þá.
„Ekki vera svona stressuð.“
„Ég er ekki stressuð, María.“
„Láttu umhverfið einsog vind um eyru þjóta. Þóstu vera sofandi. Eða heyrnarlaus. Það geri ég, þykist fylgjast með úr draumi. Það er ferlega gaman, ferlega þægilegt.“
Þið hlæið. Hún dúllar í hári þínu. Undir trjánum neðst í garðinum og bakvið bekkinn sér enginn til ykkar. En ef þið bara vissuð hve þröngt fer um njósnarana hér í villtum trjálundinum bakvið bekkinn. Það er vart þverfótað fyrir okkur.
Vera stígur útum eldhúsdyrnar. Drottningin sjálf dóttir þín svo örugg. Þú fyllist stolti af því hve rösklega hún gengur frá. Rauða pilsið fýkur á eftir henni. Gengur inn með fangið fullt, kemur út, sækir fleira, flytur inn. Dúkurinn lyftist, snýst, hvolfist yfir hálffulla vatnskönnu á sama tíma og mennirnir rísa á lappir.
Ylfingur klifrar á bak Georgs sem hleypur bakvið hús, skrækir fjarlægjast. Róbert sparkar boltanum í trjábol, hittir, hittir, hittir, dynkur, dynkur, dynkur.
Vera kemur út, feykir dúknum ofan af könnunni, lítur upp, gengur aftan að Róberti, tekur utan um hann.
Þú sérð hve varlega hún tekur utan um mann sinn. Hann snýr sér við. Hann tekur varlega utan um konu sína. Nú grípur hún lófa hans. Hún dregur hann inn ásamt vatnskönnunni. Dúkurinn snýst í loftinu, leggst rólega niður í mölina.
Þér þykir gott að láta gæla við eyrað. Það róar. Þú ætlar að segja eitthvað en kemur ekki orðum að því. Þú vilt ekki viðurkenna stressið og stjórnsemina, þér þætti það lítillækkandi, vilt ekki þurfa að svara til saka eða viðurkenna … þrælslund?
Er þrælslund glæpur? Svik?
Millistig glæps og svika?
Þú vilt vera stór, sterk, mikilvæg, marktæk.
Hver tekur mark á þræli? Unnusta þín?
Þú ert ekki viss.
Vill hún losa þig úr klóm barna þinna til að koma þér í sínar eigin?
Því trúir þú ekki, María er ekki þannig, eða þú vonar ekki. Því það er hægara sagt en gert að hrista af sér krakkana en þú skalt aldrei aldrei aldrei aldrei aldrei þurfa að nefna það upphátt.
„Förum í göngutúr,“ segir þú.
„Ég þarf að klæða mig, ég get ekki farið svona,“ segir María og hlær.
„Ég bíð,“ segir þú og kyssir unnustu þína á vangann.
Þetta var gott bragð hjá þér, góður leikur.
María rís á fætur. Alla vega hlýðir hún þér. Það er gott að láta hlýða sér. Þú nýtur þess að horfa á hana ganga yfir túnið, útskeif, hendurnar sveiflast framfyrir sig. Þú getur ekki setið kyrr á bekknum. Tilhvers? Til þess að hugsa ömurlegar hugsanir?
Óhreint leirtauið stendur á vinnuborðinu, restarnar ófrágengnar, matur að skemmast. Í rólegheitum raðar þú í uppþvottavél, kveiktir á henni, grænt ljós, klæðir osta í vaxdúk og smjör, merkir eggin með blýanti, l, b, h, þau færast líka inní ísskápinn, skrúfar lok á sultukrukkur, hunangs-, strýkur af borðum, þværð þér í framan, þværð vaskinn, skrúbbar og skolar, hengir gulu tuskuna á kranann, brýtur saman dúkinn, allt þetta aðhefstu á meðan ástkona þín valdi sér skyrtu: appelsínugula með blómamynstri; þú gafst henni skyrtuna í afmælisgjöf.
Tvær konur í drifhvítum buxum ganga útúr garði sveitaseturs um breitt hlið, önnur klædd ljósblárri skyrtu, hin, einsog ég nefndi nokkrum línum ofar, appelsínugulri með blómum, berfættar í nýjum sandölum. Lófi Maríu leitar uppi lófa Dóru. Í miðri brekku uppá hól grípur Dóra lófa Maríu einsog í lífstaug.
Ég, Katrín, það er að segja skipti nafn mitt öðru máli en því að hafa þóst verið til, saumakona með meiru og eitthvað sem aldrei verður fært í orð, ég segi þetta, skrifa, mæli og rita með bleki augna minna:
Líkami mannverunnar er furðulegur í laginu. Tvífættur ofan á tvíhentum búk sem uppaf rís háls með höfði á, líkur risabjöllu. Og ég segi það og hætti ekki að endurtaka mig: vilji skepnan hylja afkáralegt útlit dýrategundarinnar ætti hún að ganga um í síðum pilsum, hylja þessar furðulegu lappir, bífur.
Kó. Reykjavík, 2020-21