lommi
Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar,
afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
Sálmarnir
Að vera dæmd fyrir morð er ekki bara refsing heldur líka fyrirtæki sem þarf að halda utan um og það er hálf ómögulegt að sinna því ein inni í fangelsi. Nikki Jackson er gift kona en eins og hún hefur útskýrt fyrir mér þá hjálpar hjónaband í Arizona-fylki mikið til upp á heimsóknir og aðra aðstoð sem hún þarf. Hún er pennavinur minn og ég kalla hana meira að segja kærustuna mína, upphátt við sjálfan mig en engan annan.
Ég heyrði fyrrum samfanga Nikki segja hana siðblinda á YouTube og því til sönnunar nefndi hún að Nikki brosi alltaf til fangavarða. Henni bauð svo við Nikki að hún ætlaði að fjarlægja öll tattúin sem Nikki gerði á hana í klefanum þeirra, líka tattúið á ökklanum, með „Nikki Jackson“ umvafið hjörtum. Kærasti samfangans segir að það sé augljóst að Nikki Jackson sé ekkert heilagt.
Ég veit að Nikki mín er ekki siðblind því hún svaraði mér þrátt fyrir allt. Stjörnufangarnir óttast oft að bréf þeirra verði seld. Það eru ekki bara svik heldur líka slæmt fyrir bisnessinn að við framboðið af vörum tengdum þeim bætist varningur sem þau geta ekki grætt á. Öll þessi stóru eru að selja eitthvað til að fjármagna lögfræðikostnað. Nikki mín er með trélitaðar myndir og eftirprentanir af þeim til sölu. Ég vissi því á sínum tíma að það væri ólíklegt að ég fengi svar, bæði vegna þess að svo margir höfðu svikið hana og líka vegna þess hversu margir voru að senda henni bréf. Samt gaf hún sér tíma til að svara mér og teiknaði meira að segja á spássíuna mynd af okkur tveimur hlið við hlið, krjúpandi með spenntar greipar, með höfuðfat einsog faraóar og undir stóð: Allt getur gerst og mun gerast. Sameinumst í trú á því.
Og já, hvað ég trúi því að allt geti gerst! Einn daginn munum við hittast og faðmast og fara á stefnumót einsog venjulegt par. Og við köllum fangelsisvist hennar bara Jobsbók, hlæjum að því hvernig maðurinn þarf alltaf að búa til ratleiki, múra og stæla í staðinn fyrir að slaka á, kyssast, elskast og hafa það næs, og svo liggjum við hlið við hlið og hún kallar mig guðsgjöf eftir alla þrautagöngu sína og ég roðna og segist ekki vera neitt í samanburði við hana, elsku Nikki mína.
En í sannleika sagt finnst mér oftast ólíklegt að þetta eigi eftir að gerast. Ég finn bara hvað ég elska hana og hugsa um öll hvað-ef-in sem mér detta í hug rétt áður en ég sofna. Og ég endist ekki lengi í neinum deit-öppum eða samböndum, ég veit að þau eru óeinlæg, því ég get aldrei elskað neina einsog ég elska hvað-ef-in okkar Nikki, því þó að þau verði að öllum líkindum aldrei neitt, þá eru þau samt enn hvað-ef-in okkar. En ég finn að í þessi örfáu skipti sem ég fer á stefnumót gengur mér betur en oft áður, því mér er svo sama hvað gerist, því ég veit að framtíðin verður engin með þeim. Ég er meir að segja farinn að fyrirgefa gömlum kærustum, hvað svo sem þær gerðu mér, því þær voru mér sem vörður á veginum til Nikki Jackson.
Ég hef ekki tekið úr kössum síðan ég flutti inn, þeim er samviskusamlega staflað í forstofunni og á ganginum. Ég er með eldhúsborð sem ég borða við og geymi fartölvuna mína á, tvo kaffibolla, hnífapör og disk og svo þriðja kaffibollann sem situr skítugur á gluggakistunni. Í botni bollans er hjartalaga kaffiblettur og ég hef því ekki viljað þrífa bollann. Alla jafna er ég ekki mikið að leita að táknum frá alheiminum, eða álíka hippakjaftæði, en ég þurfti á því að halda að hjartað væri ætlað mér. Svo ég varðveiti hann í gluggakistunni, þar sem ég horfi á hjartað og út um gluggann til skiptis.
Þegar ég er ekki að vinna, sit ég við eldhúsborðið og skrifa til Nikki eða tek þátt í umræðum í Samfélaginu okkar, Samfélaginu þar sem við eigum það öll sameiginlegt að elska fanga sem við þekktum ekki áður en þeir voru settir inn. Þótt ég hafi verið virkur þátttakandi í Samfélaginu í fjölmörg ár, og þetta sé eina fólkið fyrir utan Nikki og mömmu sem ég býð gleðilegt nýtt ár og gleðileg jól og óska til hamingju með afmælið, hefur ekki enn komið til tals að við hittumst nokkurn tímann í alvörunni. Það er þögult samþykki að einu myndirnar sem við birtum af okkur séu hálf úr-fókus í lítilli birtu, þar sem bara má sjá hluta andlitsins og helst að við höldum á einhverju tengdu ástinni okkar alveg fyrir andlitinu. Ég man þó eftir einu skipti sem tveir notendur hittust í alvöru en það var ekki leikið eftir þeim.
Þegar þessi tiltekni karl og tiltekna kona úr Samfélaginu hittust á hann að hafa lagt til að hún myndi sjúga á honum typpið. Hún minnti hann þá á að þau ættu að vera trú ástum sínum. Hann spurði hana þá á móti hvort hún vildi í alvöru vera svona upptekin af þessum hlutverkaleik í staðinn fyrir að fá að ríða í alvöru. Hún hafi beðið hann þá að fara, sem hann virti. Einhver fullyrti að þessi sami karlmaður hefði líka verið bannaður á spjallsvæði fyrir fólk sem væri að leita að félaga til að fremja sjálfsmorð með því hann stundaði það að mæta og spyrja hvort ekki væri hægt að ríða fyrst. Hann er þá ekki alslæmur, hann hefur bjargað mannslífum, svaraði annar glettnislega.
⁂
Stundum í bréfum okkar Nikki minnist hún á sögur úr Biblíunni. Ég er ekki vel að mér í trúmálum einsog hún og reyni því einsog ég get að fræðast til að við getum talað betur saman. Þetta hefur af og til komið niður á vinnu minni, þar sem ég þýði leiðbeiningar fyrir raftæki á íslensku. Uppþvottavélin getur misst netsamband til skamms tíma einsog Samson missti kraftana en sjá þeir koma aftur með trú og tíma, ef ekki hafðu samband við okkur, skrifaði ég. Hvaða Samson? spurði yfirmaður minn í emaili. Afsakaðu, ég er utan við mig, svaraði ég, ég skal umorða þetta.
En ég held samt áfram að læra einsog ég get. Ég er farinn að geta notað dæmisögur úr Biblíunni í venjulegum samtölum við Nikki og aðra í Samfélaginu en ég á enn erfitt með að tala sannfærandi um trú. Hebreska orðið hesed er orð sem kemur fram í sálmunum í Gamla testamentinu sem er ómögulegt að þýða. Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar. Í frumtextanum er „að elska“ hesed. Hesed er ekki rómantísk ást. Hesed er kærleikur manna á milli og kærleikurinn á milli manna og guðs. Nikki talar um að ekkert Samfélag geti verið til án hesed.
Ég finn að það sem skilur okkur Nikki mest að er að ég hef aldrei upplifað þessa samkennd, að tilheyra hópi né að elska guð. Ég get bara skilið guð og að tilheyra hópi á sama hátt og ég get skilið leiðbeiningar fyrir hrærivél. Ég veit hvernig á að nota hrærivélina mína því ég kann leiðbeiningarnar utan að og veit því á hvaða takka á að ýta. Ég veit þó ekki hvernig hún virkar eða hversu stórkostleg hún er. Leiðbeiningar allra raftækja óháð því hversu mikil verkfræðiundur þau eru: Svona kveikirðu. Svona breytirðu stillingunum. Það er ekkert í textanum sem skilur að allra merkilegustu raftækin frá þeim ómerkilegu. Að segja eitthvað ómerkilegt í leiðbeiningum segir að tækið sé verðlaust, að segja eitthvað stórkostlegt er fráhrindandi því þá virkar það of flókið. Þannig sé ég orðið hesed. Ég hef aldrei vitað til þess að ég hafi upplifað eitthvað stórt, en kannski bara því enginn hefur stafað það ofan í mig.
Það eru ótal hópar starfandi sem lofa allskonar trúarupplifun. Ég skima reglulega eftir einhverju í nágrenninu sem gæti höfðað til mín. Nýlega fann ég áhugaverðan nýaldarhóp og nú tek ég mér hlé frá vinnu og ástinni til að leita hesed. Á áttundu hæð í einhverri blokk sitjum við sjö saman við gamalt stofuborð og bjóðum hvert öðru vandræðalega góðan daginn. Einn gestur spyr hvort einhver sjái árur en annar segir að það sé betra að kynna sig með starfsheiti en árulit, og við tökum nafna- og starfshring. Röðin er komin að mér. „Hvað gerir þú?“ „Ég finn til“ segi ég, án þess að hugsa. Mér finnst starfið mitt of vélrænt og rökfast til að geta slegið í gegn hér. Ég vil vera tilfinningavera til að finna hesed.
Kona í litskrúðugum skokk brýst fram úr eldhúsinu með kaffibrúsa sem hún leggur á borðið. Hún hefur orð á því hvað við séum öll með hreina og fína orku. Kannski er hennar starf að sjá áruliti? Ég finn að ég sekk örlítið ofaní sófann. „Áttu nokkuð te, kannski engiferte það er svo hreinsandi“ spyr einhver. „Ég á te úr blóðbergi sem ég týndi í Bolabás síðasta sumar“ svarar konan sem kom með kaffið. „Það er svo falleg orka í Bolabás“ segir annar. Við sötrum kaffi og te úr stórum föntum þar til konan í skokknum gefur okkur merki um að standa upp, sem við gerum, tökumst í hendur og byrjum að kyrja með henni eitthvað. Ég þori ekki að spyrja hvernig textinn sé svo ég skima eftir honum en finn hvergi. Allir nema ég eru með lokuð augu. Konan í skokknum sleppir takinu og við hin gerum það sama, opnum augun og hún tekur til máls:
„Kæru vinir, einsog þið hafið eflaust séð, er óvenju sterkt ljós að falla til jarðar núna. Það verður hrein og bein umskipting á alheimsorkunni á næstunni. Það er okkar verkefni, ljósberanna hér, að beina henni á rétta braut. Verður þetta orka hamfara eða kærleika? Við getum ekki verið viss, og ekkert er alveg svart og hvítt, við munum ef til vill sjá heimsveldi falla, önnur myndast, fjölskyldur tvístrast, aðrar verða til — en með okkar leiðsögn getur orkan að lokum orðið til góðs.“
Konan í skokknum reisir upp hendurnar og hinir í hópnum reisa líka upp hendurnar, hrista þær og byrja að baula með henni einhvern nýaldarhljóm. „Við endum þetta svo á bæninni okkar“ segir konan. Á borðinu er blað í plastvasa með bæninni, en ég sé að hinir loka augunum og spenna greipar svo ég þori ekki að taka upp plastvasann. Amen. Við setjumst niður og hellum meira kaffi og tei í fantana, þökkum fyrir góðan fund og jamm og jæjum yfir lífinu almennt. Sumir kvarta og kveina yfir hversdagslegum hlutum einsog gigt og bilaðri þvottavél.
„Það er erfitt að vera næmur,“ segir konan í skokknum, „við tökum allt inná okkur og fáum gigt og nýrnasteina en ljósið er að koma.“ „Og kemur það með betri þvottavélum?“ spyr ég. „Kannski, en er það aðalatriðið?“ svarar hún. „Mér er nú þannig séð sama um allar heimsins þvottavélar ef ég losna við nýrnasteinana.“ segir annar. „Mér tókst um daginn að aflæsa fréttum Stöðvar 2 með einbeitingunni einni saman“ segir annar. „Hvaða rugl er þetta, fréttir Stöðvar 2 voru að byrja í opinni dagskrá“ segi ég. „Það er svo góð orka frá þér, muna að virkja hana og ljósið.“ segir einhver annar og ég sekk neðar ofaní sófann, samt óviss um hvort hann hafi heyrt það sem ég sagði og verið að svara mér eða meint þetta sem almenna greiningu á orkunni minni.
„Það er allskonar að gerast í heiminum en við fáum brátt ljósið og það mun allt breytast.“ „Breytast? Það er ekkert að fara breytast. Hafiði hugleitt hvað þetta er gagnslaust?“ spyr ég óvart og sekk enn neðar í sófann. „Nei, nei, þetta var fínn fundur.“ segir sá sem situr við hlið mér í sófanum, „við höfum séð þetta skila árangri sem þú munt líka fá að sjá.“ „Hvaða árangur hafið þið séð, þið eruð öll að kvarta og kveina en klykkið bara alltaf út með að tala um ljósið. Þið gætuð allt eins verið að tala um heimsendi eða að farga ykkur“ segi ég og finn að ég get ekki sokkið neðar í sófann. „Er hugmynd okkar um heimsendi ekki bara tilfærsla ljóssins í aðra vídd?“ segir einhver. „Þið eruð svo ótrúlega sorgleg, ekkert sem þið eruð að gera skiptir máli. Það er engin ný birta að koma. Það er sama fökking sólin í dag og á morgun. Þið eruð svo ótrúlega sorgleg,“ fullyrði ég við þau alveg óvart en hugsa að nú geti ég ekki sokkið frekar í sófann svo ég stend upp og geng fram í forstofuna. „Takk fyrir fundinn!“ hrópa hin á eftir mér rétt áður en ég geng út og skelli hurðinni á eftir mér.
Ég geng niður stigann og skiptist á að hugsa um annars vegar hvað ég skammist mín fyrir að hafa mætt og fyrir það sem ég sagði og hins vegar hvað mér finnst þetta allt vera miklir hálfvitar. Ætli þau hafi kannski ekkert heyrt ræðuna mína í lokin? Hvort er það betra eða verra? Ég íhuga hvort ég eigi að snúa við til að biðja alla afsökunar eða til að endurtaka hversu vitlaus mér finnst þau öll vera en ákveð að halda áfram niður stigann.
⁂
„Hæ, hæ“ heyri ég fyrir aftan mig.
„Er þetta ekki NikkiK?“
Röddin kemur úr konu sem stendur fyrir aftan mig í stiganum, sem kallar nafnið mitt í Samfélaginu. Ég kannast ekki við röddina, hvorki af fundinum eða annarstaðar en ég get ekki snúið mér við og horft á hana og átt á hættu að mæta fólkinu sem var með mér í ljósapartíinu. Ég stoppa bara og kinka kolli. Aldrei áður hef ég þó verið ávarpaður með þessu nafni utan Samfélagsins, svo kannski sný ég mér ekki við til að þurfa ekki að mæta aftökusveitinni og eyða síðustu sekúndunum skjálfandi í einhverjum stigagangi, það er þá betra og virðulegra að vera skotinn í bakið.
„Ég þekkti hökuna þína strax. Þú póstaðir einu sinni mynd af þér með mynd eftir Nikki fyrir framan andlitið, en það sást glitta í hökuna á myndinni og ég gat ekki gleymt henni. OK, ég viðurkenni líka að það sást örlítið í Krónupoka á myndinni svo ég vissi að þú værir Íslendingur og fór að punkta niður allt sem ég vissi um þig. Tungumál. Þú kannt nokkur tungumál. Þú reynir að leyna öllu um þig en það leyndi sér ekki að þú ert tungumálamaður. Ég kenni frönsku í menntaskóla og ég á vin sem á vin sem … Þú veist hvernig Ísland er.“
Æ, dæsi ég og hef ekki enn snúið mér við.
„Þorirðu ekki að tala við mig, þetta er ég AnnaStesia. Manstu eftir mér? Ég skrifaði alltaf um Joe Becker.“
⁂
Það má ekki hæðast að ást annarra en ef ég yrði að hæðast að ást einhvers yrði það ást AnnaStesia. Viðfang hennar var Joe Becker. Hún sagði hann saklausan og hélt langar ræður í Samfélaginu um samsæri ríkisins gegn honum. Joe Becker var hippi frá San Francisco. Hann taldi sig mikinn hugsuð sem ætlaði að breyta heiminum, en var fyrst og fremst maður sem kallaði kærustuna sína óvitsmunalega og barði hana fyrir að niðurlægja sig fyrir framan vini sína með því að opna munninn. Hann sussaði og hélt utan um hana þegar hún grét eftir barsmíðarnar og hvíslaði að henni að hann væri bara að hjálpa henni að þroskast út fyrir smáborgaralegt háttalag sitt.
Loks gafst hún upp og yfirgaf Becker en þá drap Becker hana bara, bútaði niður og faldi líkið í kofforti inni í kompu hjá sér. Tveim árum seinna, þegar nágrannarnir sögðu að lyktin af hippanum sem aldrei baðaði sig væri orðin óbærileg þá fannst líkið loks. Hann emjaði einsog bara saklausir og siðblindir geta, og sagðist vera alltof klár til að detta það í hug að geyma lík inni hjá sér, þetta hlyti að vera samsæri leyniþjónustunnar, og flúði land.
Mörgum árum seinna náðist hann þegar hann hafði mætt á fund lögreglunnar í vissu um að hann væri að skrifa undir bókasamning. Það var bölvuð lygi. Honum var bara flogið aftur til Bandaríkjanna og stungið inn. Það hafði enginn og hefur enginn haft áhuga á honum, eða því sem hann skrifar og alls ekki viðtölum við hann. Hann sendi ítrekað bréf á allskonar hugsuði en fékk aldrei nein svör. Mikil var fátækt þess heims sem viðurkenndi ekki framlag hans, hugsaði hann. Allir virtust hafa gleymt honum, nema þessi unga kona sem af einhverjum ástæðum byrjaði að senda honum bréf og sagðist vera sannfærð um sakleysi hans. Við vorum öll við það að segja eitthvað en það má ekki dæma ást fólks. Þegar Joe Becker dó í Covid íhugaði ég að senda skeyti á AnnaStesia, sem þá hafði ekki sést í góðan tíma, en hætti við því ég vonaði heitt og innilega að hún væri löngu búin að gleyma honum.
⁂
„Ég samhryggist þér, AnnaStesia.“
Hún hlær.
„NikkiK, það er ansi margt sem má eyða ævinni í en að syrgja skíthæla einsog Joe Becker er ekki eitt af því.“
Hún spyr hvernig ég hafi það og ég segi henni að við Nikki séum að spjalla meira og meira saman og náum ágætlega að ræða biblíusögur. „Nei,“ segir hún og endurtekur spurninguna um hvernig ég hafi það. „Ég?“ „Já ertu enn að þýða þessar handbækur og leiðbeiningar?“ „Já, hvernig vissirðu?“ „Ég þekki fólk.“ Æ, dæsi ég aftur.
„Nei, allt í lagi,“ segir hún, „þú vilt ekki hafa þetta persónulegt, hvernig hefur þá Nikki það?“
Ég brosi, sem hún sér eflaust ekki því ég sný enn baki í hana, og hún stendur fyrir aftan mig í tröppunum.
„Hún Nikki mín er …“
AnnaStesia grípur frammí … „ekki búin að myrða neinn nýlega?“
„Ha?“ hvái ég.
„Nei, ég segi svona, maður hefði nú ætlað það að hún ætti erfitt með að stinga karlmenn til bana í fangelsinu.“
„Ha?“ hvái ég aftur.
„Það segja samt sumir að hún horfi hýru auga til karlkyns fangavarða, ætli hún reyni að myrða einn þeirra? Já, eða er hún kannski bara farin að myrða konur í staðinn?“
⁂
Ég er hættur að reyna að svara henni. Hún biður mig afsökunar og segist ekki hafa meint neitt illt með þessu. Hún segist hafa hætt í hópnum nokkrum árum áður en Joe Becker dó og séð eftir öllu saman og ekki fundið neina tilfinningu þegar hann loksins drapst en hún ætti samt afar erfitt með að skilja alveg við Samfélagið. Fyrst einu sinni í viku, svo aðra hverja viku og núna einu sinni í mánuði færi hún á Samfélagið og læsi mestallt yfir. Ekki af neinni nautn heldur með kvíðahnút yfir að það hefði eitthvað hræðilegt komið fyrir eitt okkar. Hún gleddist alltaf þegar einhver hyrfi úr Samfélaginu.
„NikkiK, það er sama hvað gerist, náttúruhamfarir, hátíðisdagar, alltaf ert þú jafn virkur. Langar þig ekkert að hætta þessum vonleysis hlutverkaleik?“
„Nei, ég og Nikki ….“
„Þú og hvað-ef-in ykkar,“ skýtur hún inní.
Ég kinka kolli, en sný enn baki í hana.
„Þessi hvað-ef ykkar eru nú alveg korter í að verða verður-aldrei. Eða kannski er ást ykkar loksins að verða raunveruleg,“ segir hún.
„Hvað áttu við?“ spyr ég.
⁂
Ég nenni oftast ekki að tala um fyrir hvað Nikki var dæmd. Það horfðu allir á þetta í sjónvarpinu eða lásu um það í blöðunum og allir hafa skoðun sem mig langar ekki að heyra. Google-it sagði ég við mömmu þegar hún spurði um hana. En Nikki á að hafa stungið fyrrum kærasta sinn Christopher Tracy tuttuguogsjö sinnum, skorið á háls og skotið í höfuðið. Ákæruvaldið fullyrti að myndir sem fundust á myndavél, sem fannst í þvottavél, sönnuðu sekt Nikki og að sími hennar sýndi líka svart á hvítu að hún hefði verið þarna. Nikki sagði fyrst að aðkomumenn hefðu ráðist á þau, kannski af því að hún var ekki búin að safna kjarki til að segja sannleikann. En fljótlega þorði hún að segja sannleikann. Christopher beitti hana ofbeldi og neyddi hana til að verja sig.
Mér finnst líka ágætt að venja mig á að ræða ekki dómsmál Nikki, því það má ekki minnast á þau í bréfunum sem við skrifum okkar á milli. Ef ég spyr Nikki út í mál hennar er bréfið mitt fjarlægt. Ef hún minnist beint á dómsmál sitt er bréfið hennar aldrei sent til mín. Það hlýtur líka að hvíla þungt á henni, þessi skömm, að hafa neyðst til að verja sig bæði gegn fyrrum elskhuga og svo að verja það að hafa beitt sjálfsvörn, eitthvað sem eru sjálfsögð réttindi þeirra sem lenda í lífsháska. Mig langar ekki að íþyngja henni með sársauka sínum, mig langar að vera henni sem ljóstýra í því myrkri sem hún er staðsett í núna.
⁂
„Hvað áttu við með að við Nikki verðum brátt verðum-aldrei eða raunveruleiki?“ spyr ég AnnaStesia.
„Jú, sjáðu til. Það er búið að fella úr gildi úrskurðinn. Nikki Jackson ætti að ganga laus brátt og vera frjáls alveg þar til einhver saksóknari ákveður að reyna aftur eða þegar Nikki byrjar að drepa fleiri. Heldurðu að hún stingi næsta fórnarlamb sjaldnar eða oftar? Kannski skýtur hún viðkomandi fjörutíu sinnum í staðinn?“
Felldur úr gildi? Ég vissi bara að verjandi Nikki Jackson reyndi að auðgast á því að gefa út bók um hana, þar sem hann fullyrðir að hún sé bæði siðblind og versta manneskja sem hann hafi nokkurn tímann kynnst og ég vissi að lögfræðingurinn var sviptur lögmannsréttindum, en það sem AnnaStesia sagði mér núna var að loksins hefði nýjum verjendum Nikki Jackson tekist að sannfæra dómara um að verjandi sem skrifaði svona bækur um skjólstæðing sinn væri skaðlegur þeim sama skjólstæðingi. Jafnframt væri erfitt að ætlast til þess að Nikki hlyti sanngjarna umfjöllun eftir að þessi bók birtist einsog endanlegur úrskurður um hana. En það er ekki búið að sýkna hana. Mál Christopher Tracy er núna aftur óupplýst og það má kæra hvern sem er, hvenær sem er. Mér skilst á AnnaStesia að þó að það megi kæra aftur sé það sjaldgæft að ríkisvaldið þori að standa í kostnaðinum við það. Það sé auðveldara að kyngja skömminni og vona að fólk gleymi bara málinu.
Ég sný mér við og æpi upp yfir mig einhver hrifningaróp, því Nikki mín er loksins að verða frjáls og svo kemur mér það skemmtilega á óvart að AnnaStesia, sem ég ætlaði aldrei viljandi að líta í augun á en gleymdi mér, lítur ekki út einsog kjallaramoldvarpan sem ég hafði séð fyrir mér. Hún stendur fyrir ofan mig í tröppunum, skælbrosir og það bregður fyrir glampa í augum hennar.
„NikkiK, þú þorðir að líta á mig. Hvað næst? Fæ ég ódauðlegar lýsingar á mér í Samfélaginu? Nei, það er kannski skrítið. Við þurfum eflaust að stofna okkar eigið samfélag fyrir það. Getum við notað önnur nöfn þar samt?“
„Æ,“ dæsi ég, sný mér við og held áfram að labba niður stigann.
„Ég var að grínast, NikkiK. Ég var að grínast. Gangi þér vel en mundu að þú þekkir hana ekkert,“ heyri ég AnnaStesia endurtaka nokkrum sinnum þar til ég er kominn út úr blokkinni.
⁂
Ég stend einn fyrir framan blokkina og íhuga hvað nú. Þetta eru stórtíðindi. Við, ég og Nikki Jackson, erum kannski að fara hittast í fyrsta sinn. Kannski. Ég get ekki skoðað Samfélagið í símanum, man ekki lykilorðið, og get því ekki staðfest það sem hún er að segja. Kannski erum við að fara hittast. Ég er ekki sá eini sem elskar hana Nikki, þó að ég sé oftast viss um að við elskumst mest. Kannski vill hún ekki hitta mig?
Það má aldrei vera of afgerandi í ástaryfirlýsingum sínum um fanga í Samfélaginu, af því að við erum oft ekki eina fólkið með sama viðfangið. Ég er ekki sá eini sem elskar Nikki Jackson, því þó að ég viti að hvað-ef-in mín séu þau líklegustu og stærstu þá getur allt eins einhver annar upplifað slíkt hið sama. Svo af virðingu við hina eru ástaryfirlýsingar um Nikki almennar, svo annar Nikki-hvað-ef-ari geti lesið textann útfrá sér, í stað þess að finna fyrir afbrýðisemi.
Það pirraði mig ögn að AnnaStesia skyldi æpa á mig að ég þekkti ekki Nikki Jackson. Þetta er eitthvað sem fólk utan Samfélagsins er vant að segja en ekki einhver sem veit hvernig Samfélagið er. Hún ætti að vita að í rauninni þekkjumst við Nikki betur en flest pör þegar þau byrja saman. Flest fólk kynnist í hálfgerðri vímu, sýnir sínar bestu hliðar og það er ekki fyrr en löngu seinna sem það sýnir þær slæmu. Fyrrum kærasta Joe Becker heillaðist eflaust ekki af manni sem niðurlægði hana fyrir framan vini sína, þau fóru kannski á stefnumót þar sem hún dáðist að næstum barnslegum áhuga hans á öllu mannlegu og löngun hans til að breyta heiminum, og seinna þegar hann byrjaði að öskra á hana flúði hún í þessa mynd sem hún hafði af honum í upphafi.
Við erum búin að sjá elskurnar okkar undir álagi. Það er búið að „uploada“ á YouTube öllum yfirheyrslumyndböndunum, með vandræðalegum þögnum og af þeim sitjandi ein í herbergi skimandi í kringum sig einsog hræddar skepnur að bíða eftir því sem gerist næst. Nikki mín var svo full af adrenalíni að þegar hún var búin að vera ein í svolítinn tíma stóð hún á höndum í yfirheyrsluherberginu. Í eitt skipti fór hún að syngja, og í annað skipti hló hún af engri ástæðu. Fólk fór að tala um að þetta væri sönnun fyrir sekt hennar en ég sá bara fallega konu bregðast við mesta áreiti sem ein manneskja getur orðið fyrir, á mjög heilbrigðan hátt. Hún hvorki bældi tilfinningar sínar, né öskraði og lamdi. Hún söng og hreyfði sig, losaði um alla umframorku á eins þægilegan hátt og hægt var.
Ætli hún myndi vilja fljúga til Íslands? Eða ætti ég að fljúga út til Bandaríkjanna? Ætli hún sendi mér ekki bréf bráðum með upplýsingum svo ég geti haft samband við hana? Ætli hún noti gamla símanúmerið sitt sem ég er ekki með eða fái sér nýtt? Hvað með email? Vill maður halda í sama emailið sitt? Ég fæ stundum spam frá fullri fyrrverandi kærustu sem vill minna mig á hvað ég sé leiðinlegur og óspennandi maki, en ég get ekki ímyndað mér hvað fólk sem legið hefur undir grun um að vera morðingi fær mikið af spammi. Hvort ætli sé verra, fólkið sem húðskammar mann eða fólkið sem er forvitið?
Er ekki erfitt að stinga fólk? Datt þér aldrei í hug að búta líkið í sundur, leggja í baðkar, tappa blóðinu af og fela partana víðsvegar um fylkið í staðinn fyrir að skilja líkið bara svona eftir í heilu lagi? Það er líklegast miklu betra að vera húðskammaður fyrir eitthvað sem maður tekur ekki inná sig en að fá svona ógeðslega áhugamenn með einkennilegar athugasemdir. Þú ert ógeð. Þú ert ekki manneskja einsog við hin. Siðblinda svínið þitt.
Ég þori ekki heim strax. Veit ekki hvað ég á að segja við hina í Samfélaginu eða Nikki ef hún hefur reynt að ná í mig þar. Ætli hún viti af Samfélaginu? Missir hún áhugann á mér ef hún sér Samfélagið og allt sem ég hef skrifað? Myndi ég þora að fara til Bandaríkjanna ef hún bæði mig um það? Á ég ekki bara eftir að segja eitthvað sem skemmir augnablikið þegar við erum ein á afskekktum stað að trúlofa okkur og atvinnuljósmyndarinn smellir mynd af okkur og ég æpi „SKELLTU SVO MYNDAVÉLINNI BARA Í ÞVOTT,“ svona einsog einhverjum geti þótt það fyndið, hún með augnaráð einsog hún gæti myrt mig. Einsog. Kannski er aldrei neitt einsog. Kannski er þetta allt bara. Það er einsog það er.
Ég er bara einsamall maður, fótgangandi, eftir að hafa móðgað heilan söfnuð af spíritistum og eitt stykki konu. Þessi kona var sú fyrsta sem heilsaði mér utan Samfélagsins í mörg ár. Ég er maður. Einsamall en ástfanginn. Hræddur en hef aldrei verið öruggari um hvað ég vil, held ég. Óöruggur innan um fólk og staðfastur í vissu um að ég eigi ekkert erindi innan um það, ég er það sem ég er. Afhverju ætti Nikki að finnast spennandi að hanga með manni einsog mér? Christopher Tracy, fyrrum kærasti hennar, var sölumaður. Hann gat örugglega farið á spíritistafundi og selt þeim ló úr vösum sínum og sagt það vera blóðberg sem hann týndi sjálfur í Bolabás. Og þau hefðu fleygt í hann seðlum, kortum og beðið hann um að koma aftur. Ég er bara einsog ég er. Afhverju ætti Nikki að vilja hanga með mér?
⁂
Ég geng áfram og reyni að hugsa ekki of mikið hvert eða afhverju. Horfi eins mikið uppí himinninn og ég get, lít örsnöggt á götuna þegar ég þarf að ganga yfir hana en reyni að öðru leyti að leiða allt hjá mér — annað fólk, bíla, örnefni. Allt í einu er ég staddur fyrir utan BSÍ og sé hóp ferðamanna. Hugleiði að ganga í aðra átt en ákveð að ganga í áttina að einum sem stendur einn og reykir sígarettu, til að betla eina. Ég hef ekki reykt í fjölmörg ár en mér finnst einsog núna sé rétta augnablikið.
„Ertu að fara taka rútuna uppá flugvöll?“ spyr ég. Hann játar því. „Heldurðu að þú komir hingað nokkurn tímann aftur?“ Nei, það heldur hann ekki. „Ég er svo ástfanginn“ segi ég. „Til hamingju,“ segir hann. „Nei, þú misskilur, ég er samt svo einn og eirðarlaus og alls ekki glaður.“ Hann ypptir öxlum, hendir frá sér sígarettunni og lítur í kringum sig. Mér finnst einsog ég verði að segja eitthvað krassandi svo hann fari ekki strax.
„Kærastan mín er dæmdur morðingi.“ Hann starir á mig, kinkar kolli, og kveikir sér í annarri sígarettu. „Mér finnst ég ekki hafa skilið neina manneskju einsog hana … ég skelf oft þegar ég mæti öðru fólki en ég þekki hana út og inn, það er ekkert við hana sem gæti komið mér á óvart, engin bylmingshögg allt í einu einsog ég óttast frá öðru fólki. Hún Nikki er allskonar og allt en ekkert gæti komið mér á óvart.“
„Ekki misskilja mig, ég veit að ég er óþolandi. Það er eitthvað gruggugt við áruna mína, hún er í moldarlitum einsog torfbæir og íslenska sauðkindin, á meðan þið hin eruð allt litrófið. Fólk er örugglega almennt gott en það er eitthvað lýjandi við orkuna mína sem reynir á allt og alla og það er fólki eðlislægt að bregðast við því og ýta frá sér. Ég þarf örugglega ekkert að telja upp alla mína vankanta fyrir þér, þú skilur, þeir eru nokkuð augljósir.“
Hann lyftir augabrúnunum. Strýkur um skegg sitt. Klemmir varirnar um sígarettuna og setur hendurnar í vasana á gallabuxunum.
„Og það er loks núna sem það virðist vera að gerast að hún, elsku Nikki mín, sleppur úr prísundinni og við getum verið saman, og ég er búinn að semja svo mörg samtöl sem við getum átt saman sem loksins fá að verða að raunveruleika.“
Hann hendir frá sér sígarettunni. Rútan er komin.
„Er hún saklaus?“ spyr hann.
„Ég veit það ekki en mér er farið að finnast að kannski sé betra að gera eitthvað raunverulega af sér og bæta fyrir það en að vera með sektarkennd yfir einhverju óljósu alla ævi — kannski er betra fyrir okkur bæði að hún sé sek.“
Hann sýnir engin viðbrögð, starir á mig án þess að blikka augunum í smástund, óskar mér góðs gengis og gengur burt. „Já, takk fyrir það og gangi þér vel sömuleiðis“ segi ég nokkrum sinnum, meira að segja eftir að hann stígur í rútuna. „Já, takk fyrir og gangi þér vel sömuleiðis,“ segi ég nokkrum sinnum á meðan ég horfi á rútuna keyra á brott.
Það þýðir ekki að forðast heimilið mitt að eilífu. Ég verð að stíga þangað inn. Ég bý talsvert frá BSÍ en geng samt alla leiðina og hugsa hvort ég sé þess verðugur að vera kærasti Nikki Jackson. Það eru svo ótal margir aðrir sem hafa sagst elska hana og hafa gert meira til að fá hana frjálsa en ég. Ætli hún hæðist að mér þegar hún sér alla leiðbeiningabæklingana sem ég skrifa í vinnunni? Nikki mín, ekki öskra á mig, ég skal reyna að vera skemmtilegur! Nikki mín, manstu ég er þín guðsgjöf — einmitt og álíka spennandi einsog steintöflur Móses, rotar mann úr leiðindum. Og við liggjum og horfum á Netflix og ég þykist sofa svo ég þurfi ekki að svara allri hæðninni. I’m sorry miss Jackson, þú ert sú fallegasta sem ég hef kynnst og ég er svo glaður að þú hafir valið að eyða frelsinu með mér en við verðum bara að hætta að tala saman og forðast augnsamband.
Er kominn heim og það er komið nýtt bréf inn um lúguna frá Nikki Jackson. Það er stuttur útprentaður texti þar sem mér er þakkað fyrir áhuga og stuðning við samtökin Frelsum Nikki Jackson og svo stendur TEAM NIKKI GETUR ALLT í hástöfum og nafnið hennar er handskrifað neðst. Ég geng að stofuglugganum og horfi út skamma stund. Það er farið að vora. Tek bollann úr gluggakistunni og legg í eldhúsvaskinn. Horfi svo á kassana á ganginum og hugleiði hvern ég ætti að opna fyrst.