Eva Rún Snorradóttir
Sængurverin á rúminu í hótelherberginu þar sem ég ligg eru fölgræn og lykta ókunnug. Það er veggfóður á veggjunum og húsgögnin eru bólstruð. Allt er dálítið sérkennilegt og framandi. Það er eins og ég sé í felum. Á flótta. Þegar ég lít í spegilinn á örlítið fúnu baðherberginu ímynda ég mér að ég sé í dulargervi. Finn friðsæld í hugmyndinni. Stundum finnst mér ég ekki ráða við þetta eina verkefni helgarinnar; að stefna að grand fullnægingu.
Konan sem leiðir námskeiðið er á efri sjötugsaldri með fallegt grátt hár, í síðum ljósbrúnum hörkjól. Didrika. Kona sem ber með sér að vera örugg með sig sem kynveru. Nú ávarpar hún okkur þátttakendurna: Gott að sjá ykkur, hugrökku mannverur. Didrika talar ensku með sterkum þýskum hreim. Ég kem mér betur fyrir á rúminu og vinka skjánum. Ég er stressuð, spennt og með sterkan nostalgískan fiðring í maganum eins og sé sé í leyniklúbbi með vinkonum í húsi uppi í tré. Eitthvað sem ég hef líklega séð í bíómynd. Það er einhver helgi yfir þessu öllu. Konur í meirihluta en þetta er námskeið fyrir fólk með píkur. Það er viss orka í okkur, fólki með píkur. Mild og góð, að minnsta kosti gegnum skjáinn, undir leiðsögn Didriku.
Doðinn sem kom yfir mig nokkrum mánuðum fyrr þegar saumaklúbburinn mætti inn á gólf, skyndilega, eins og aðskotahlutur úr geimnum, hafði lagst yfir dagana eins og hvítt lín. Hann birtist sem djúpstæð uppgjöf. Ég hafði steingleymt að ég ætti að halda saumaklúbb. Ólesin skilaboð hrönnuðust upp á messenger, ollu mér kvíða, svo ég hætti bara að fara þangað inn. Ég hafði verið nýbúin að svæfa barnið sem var alltof gamalt fyrir slíka meðferð, stóð yfir þvottahrúgunni með podcast um konu sem yfirgaf fjölskylduna sína í Disney World. Konan hafði gengið úr langri biðröð, frá suðandi börnum og út úr skemmtigarðinum. Sást ekki framar á fjölskylduheimilinu. Höskuldur hafði farið til dyra, séð saumaklúbbsvinkonurnar og komið til mín og sagt eins og ég væri unglingur: „Það er til þín“.
Ég hafði verið óvenju mikið að sponsa síðustu misseri fram að doðanum, uppgjöfinni. Margar konur voru í miklum kröggum, stundum var eins og við soguðumst niður í þrotið með hver annarri.
Nú getur engin krafist neins af mér í þrjá sólarhringa. Tilhugsunin er stórbrotin, frelsi sem er eins og víðátta, túndra, en líka óhugnanlegt og ef ég hugsa of mikið um þetta frelsi missi ég fótanna.
Ég hef lengi viljað sækja þetta námskeið en ekki þorað og heldur ekki haft tíma eða rými til þess að setja mig af einhverri dýpt inn í málefni sjálfsfróunar og kyngleði. Þegar netútgáfa af námskeiðinu var kynnt fann ég hugrekki og setti það á dagskrána að ræða málið við Höskuld. Það var Höskuldur sem stakk upp á því að ég færi á hótel, fengi almennilegt næði til að sinna námskeiðinu. Færi All In. Hann sæi um börnin og allt heila klabbið á meðan. Mamma er á sjálfsfróunarnámskeiði úti á landi, það þýðir ekkert að heimta hana núna. Hún veit ekkert um vettlingana þína, hún er að finna kyngleðina sína. Við höfðum hlegið að þessu. Í raun var það upphaflega hans hugmynd að ég færi á þetta námskeið, hann hefur verið mjög hvetjandi.
Við Höskuldur höfðum gert ýmislegt í gegnum tíðina til að auka ánægju mína í kynlífinu. Ég hef fengið fullnægingar, en fæ ekki fullnægingu með honum, heldur bara ein með sjálfri mér. Ég þarf mikla einbeitingu og hjálp frá fantasíu til að komast þangað. Höskuldur er samt að leggja sig fram. Við höfðum verið dugleg að prófa nýjungar. Það er orðið erfitt að koma öllu kynlífsleikfangasafninu okkar fyrir. „Við þurfum að fara að grisja“ sagði ég kannski heldur þunglamalega við hann um daginn þegar doðinn var í hæstu hæðum. Fataskápurinn í svefnherberginu er eins og lítið furðugripasafn, skær egg í ýmsum stærðum, svartar kúlur á bandi, langir og montnir limirnir. Allt þetta tækjabras veldur mér samt streitu, titringurinn einhvern veginn alltof mikill á öllum stillingum og vesen með fjarstýringuna, allt svo stemningslaust. Verst var þegar Höskuldur tók upp á því að fara í kynlífsverslun í iðnaðarhverfi og kaupa kynlífstækjadagatal. Við bakstur fyrir börnin, gjafaleiðangra, drykkjuferðir á Laugaveginn með allskonar kvennahópum, aðventutónleika, þrif, ferðir út á bensínstöð á miðnætti að kaupa í skóinn fyrir börn sem trúa ekki lengur á jólasveina, bættist það álag að koma heim, opna þetta dagatal og stinga svo örþreytt pinna upp í rassgatið á eiginmanninum. Kynlíf er ekki jólastemning, er ekki átaksverkefni.
Undanfarna mánuði hefur álagið verið mikið á heimilinu. Vinnan er krefjandi, börnin óseðjandi á athygli mína, líkamsræktin og svo samtökin og það að sponsa. Ég veit ekki lengur hvað af þessu mig sannarlega langar að gera. Mér finnst ég oft vera á einhvern hátt eins og réttindalaus, ekki hafa sjálfsákvörðunarrétt. Ekki með framkvæmdavald. Ég sagði við Höskuld kvöldið eftir að ég henti saumaklúbbnum á dyr: Höftin sem áður héldu konum niðri hafa þróast í rýmisleysi. Mildari og óræðari bönn. Það ekki rými til neins. Rýmið var svo virðisaukið að það var streituvaldandi að fá gap í stundaskránna. Ég hef misst tökin á að greina í sundur það sem ég vil gera og það sem ég á að gera. Litakóðarnir á dagskránni orðnir að brúnum graut sem ógnar mér. Ég er alltaf tætt og tóm, á þönum. Ófullnægð.
Didrika brosir í átt að skjánum. Fas hennar er svo traustvekjandi, móðurlegt. Hún hefur ótakmarkað streituþol, getur tekið á móti öllum fjáranum með þessari reisn, eins og klettur úti í hafsjó. Hún býr í þýskri stórborg en kemur reglulega til landsins til þess að hjálpa konum að leysa stíflur í kynlífsstöðinni sinni. Ég heyrði það frá vinkonu minni að stíflurnar væru sérlega áberandi í vinnu með íslenska kvenlíkama. Didrika kæmist varla áfram með að vinna í öðrum meinum. Stíflurnar eins og djúp og gruggug síki.
„Ok, nú opnum við alla glugga, velkomin öll.“ Á skjánum poppar upp hver glugginn á eftir öðrum. Ég kannast við nokkra þátttakendur og fæ snarpan kvíðasting, það er eldri kona sem bjó einu sinni í sama stigagangi og ég. Æ, það er bara fallegt, ég vinka öllum. Svo er þarna einn frændi vinkonu minnar sem rekur reiðhjólaverkstæði. Didrika spyr hvort að allir þátttakendur séu búnir að koma sér upp aðal kennslutækinu, töfravendinum. Jú öll eru með töfravöndinn. Í skotstund finnst mér eins og eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast, við ætlum að fremja fjöldasjálfsmorð. Eða gætum verið aflífaðar fyrir þetta, að minnsta kosti settar í gæsluvarðhald.
Ég var búin að nýta tímann frá því að ég kom á hótelið til þess að kynna mér hvernig töfravöndurinn virkaði svo að ég myndi ekki lenda í einhverju tækniklúðri á ögurstundu. Vildi lágmarka tæknistreitu. Hafði náð að kynnast vendinum ágætlega og var farin að finna fyrir spennu að sjá hvert þessi lota undir tryggri stjórn Didriku muni leiða. Það var gott að finna fyrir tilfinningum, spennu, tilhlökkun. Fullnæging myndi gera mér gott.
Við vinkonurnar höfum bara nýlega fundið taktinn í því að tala um kynlíf, rétta nálgun einhvern veginn. Áður var alltaf eins og eina leiðin væri yfirborðslegar samræður með áherslu á talningu á skiptum en með aldrinum og fjölskyldubrasinu, opnaðist gluggi fyrir berskjöldun. Nú voru unglingsdætur okkur með sjálfsfróunaröpp í símunum, við þurftum að taka okkur á.
Á þessu nýja spjalli, nýju opnun inn í persónulegt líf vinkvenna minna hef ég greint að Höskuldur standi mörgum mökum framar. Jafnvel lesbíunum, hann virðist flinkari en sumar þeirra að minnsta kosti. Margar lesbíuvinkonur mínar kvarta yfir því að báðar séu orðnar svo latar þegar kemur að kynlífi, það þarf svo mikinn burð, líkamlegan, til þess að halda þessu gangandi. Ein hefur grunnhannað einhverskonar harðan púða úr frauðplasti, burðarstykki til að halda búknum uppi svo hendurnar séu frjálsar og geti sinnt sínu hlutverki. Er að vinna í því að koma þessu í framleiðslu gegnumtengslanet einhversstaðar í Benelux löndunum. Ég myndi nú ekki nenna að standa í þessu, það er hægt að nýta lim Höskuldar til ýmissa verka þótt mér hafi alltaf þótt leggöngin ofmetinn nautnastaður.
Litlu höfuðin í gluggunum brosa og senda frá sér merki um að öll séu reiðubúin í ferðalagið. Þá bara hefjumst við handa. Didrika varpar af sér hörkjólnum og stendur nakin fyrir framan myndavélina, færir hana svo beint á píkuna sína. Þessari stund var ég búin að kvíða fyrir þegar ég hugsaði um námskeiðið, sá fyrir mér að vera í flissandi vandræðaleika en þetta reyndist ekki þannig augnablik. Þetta var bara eðlilegt, dálítið eins og verið væri að sýna inn í helli í náttúrulífsþætti. Didrika fer yfir helstu staðhætti og talar um einstaka fegurð hverrar píku. Færir svo myndavélina aftur upp og setur hana á símaþrífót, tekur svo fram þrívíddarprentaða mynd af snípi. Hér birtist líffærið í allri sinni dýrð og duld.
Sýnin er framandi þó að ég hafi oft gúgglað snípinn. Tignarleg. Snípurinn er eins og svanur, með tvö síð brjóst. Goðumlík, forsöguleg vera. „Allar konur verða að eignast svona grip til áminningar um djúpstætt innra vald sitt. Til að muna hverjar þær eru,“ segir Didrika. Andlitin á skjánum virðast öll sammála. Ég verð upprifin en sé í sömu andrá fyrir mér að þetta myndi týnast strax, krakkarnir færu að leika með þetta, reyndu svo kannski að selja þetta á tombólu í hverfinu og enginn myndi vita hvaða drasl þetta væri, að lokum yrði þessu hent í ruslafötu við sjoppuna þar sem börnin keyptu nammi fyrir ágóðann af hinu á tombólunni, því sem seldist.
Viku fyrir námskeiðið hafði Didrika sent öllum þátttakendum pakka með undirbúningsefni. Þar var fræðsluefni auk persónulegra verkefna sem hún hafði hannað eftir klukkutíma langt viðtal á Zoom með hverjum og einum þátttakanda. Fræðsluefnið var hlekkur á fyrirlestur á YouTube þar sem Didrika talar beint til þátttakenda. Þar kemur fram að það að tengjast kynorku sinni sé helsti brunnur að sjálfseflingu og krafti okkar. Regluleg fullnæging er umbreytandi þáttur. Hún talar um landakortagerð, hvernig hvítir menn hafi farið um alla plánetuna og gert kort, eignað sér staði. Við vitum hversu takmarkaðar upplýsingar við fáum frá þessum kortum. Öll vitneskja okkar um eigin líkama er af svipuðum meiði. Það þarf að endurhugsa alla þessa þekkingu, ef þekkingu skyldi kalla. Fara og skoða, spyrja, taka eftir, mæta því sem er. Við þurfum að læra á nýjan hátt. Finna fyrir okkur. Hlusta. Finna. Eruð þið tilbúin?
Ég lít af skjánum og sé að sólargeisli lendir fallega á bólstruðum hægindastól. Það hvarflar að mér að fara bara út í göngutúr. Fá mér hvítvínsglas einhversstaðar. Ég þarf alltaf að fylgja einhverri dagskrá, líka nú þegar ég á að vera í nærandi stund á hóteli. Í svipinn upplifi ég þetta námskeið gríðarlega íþyngjandi. Ég teygi mig þó hlýðin í töfravöndinn. Didrika horfir beint í skjáinn.
Ein konan biður um að fá leiðsögn um sína píku áður en lengra er haldið. Það var skýrt tekið fram að ekki væri þörf á að sýna eigin píku en það væri í boði ef einhver vildi fá innsýn og leiðsögn frá Didriku. Okkur hinum þátttakendunum á námskeiðinu er velkomið að spyrja og koma með nótur. Fá fram hópþekkingu, sagði Didrika. Mér detta ekki í hug neinar spurningar um píku konunnar. Konan talar af mikilli reynslu um píkuna sína, hún er greinilega mjög virk í sjálfsfróun. Er að pæla í samspili sníps og legganga. Ég horfi á og hlusta á hana, enn að hugsa um hvítvínsglasið og verð afbrýðisöm út í konuna. Það er svo mikil reynsla, sjálfsþekking og nánd þarna. Ég hafði nálgast þetta af svo mikilli fjarlægð, eins og þetta væri námskeið í skrautskrift, ég þarf að breyta nálgun minni. Svo leitar spurning á mig: Um hvaða hluti í lífi mínu gæti ég talað af svona mikilli reynslu og þekkingu?
Það að ég fái ekki auðveldlega fullnægingu er miklu stærra dæmi en álag og kynþokkalaus hversdagur. Það er ekki hægt að skella skuldinni á álag, þriðju vaktina og táfýluna af Höskuldi og börnunum. Ég hef reynt, eins og allar konurnar í saumaklúbbnum, að hafa einn dag í viku sem kynlífsdag. Allt er svo dæmalaust kynþokkalaust þegar það á að vera það.
Í fræðsluefninu á YouTube kom fram að fólk kæmist ekkert áfram í þessari vinnu ef það ætlaði að vera með einhverjar skyndilausnir og stutt átaksverkefni. Einn tveir og allir upp á dekk, upp með hendur og niður með brækur. Þetta er miklu dýpra og umfangsmeira viðfangsefni en það. Það voru margar ástæður sem lágu þarna að baki, flókinn vafningur sem saman skapaði þessa djúpu aftengingu kvenna við sjálfa sig. Stór hluti af þessu er hið viðvarandi marga alda gamla kynferðisofbeldi, vanvirðing heilu samfélaganna við líkama og sjálfseignarrétt kvenna. Þessi þáttur er vissulega plássfrekur og spírar sig gegnum kynslóðir. Ætandi efni. En aðrir þættir spila líka inn í. Hvernig konur hafa aldrei fengið tíma til að syrgja. Til að vera reiðar. Innherpt reiði lokar öllum göngum, stoppar flæði alls vatns. Konur hafa misst börn, foreldra, maka og samfélögin sem þær búa í hafa aldrei boðið upp á rými til þess að vinna úr, fara í gegnum. Það er eins og konum beri að vera með kökkinn efst í hálsinum, það sé hluti af þeirra líkama og verund. Af þessu plássleysi í tilveru okkar, fyrir það sem skiptir mestu, fyrir transformatífa hluti, leiðir að við erum aftengdar dauðanum. Og þar með erum við aftengdar lífinu líka. Hversdeginum. Nóttinni. Deginum. Hvernig er hægt að vera til í líkama sem er úr tengslum við hringrás lífs og dauða? Didrika segir: „Það er einfaldlega ekki hægt. Enda eru konur að hrynja núna. Nú gerist það, við þolum ekki meira. Einhverra hluta vegna erum við nú upp til hópa komnar að þolmörkum.“
Persónulega verkefnið sem ég fékk í undirbúningspakkanum var að ganga um hverfið mitt og leita að vísbendingum um dauða. Ég var búin að fara í nokkra göngutúra og koma heim með fallin laufblöð, skeljar, hluta af slímugum ormum og pöddum. Ég átti svo að setja þetta samkurl á litla hillu. Skapa lítið altari fyrir dauða á heimilinu. Kjarninn í verkefninu var að tengjast umhverfi mínu, taka mér pláss í því, taka mér pláss á heimilinu sem enginn annar ætti tilkall til. Standa á mínu, því eins og búast mátti við voru aðrir heimilismeðlimir ekki mjög sáttir við kvikindin á dauðaaltarinu. Ég átti að hugsa: Ég má þetta, má taka pláss, vera óvinsæl, gera eitthvað sem meikar ekki sens fyrir öðrum. Altarið var fyrir mig eina. Og allir máttu vera hneykslaðir, pirraðir og finnast ég vera missa vitið.
Didrika biður okkur öll að hugsa um okkar bestu fullnægingu áður en við byrjum að fróa okkur. Svona eins og til að hita upp. Ég er hætt að fá skömm þegar ég hugsa um hana eftir að ég sagði Didriku frá henni í undirbúningsviðtalinu. Didrika sagði að þessi saga væri vísbending um það að mér yrði bjargað, það yrði ekki hægt að bjarga öllum þátttakendum en þetta var merki um að ég væri hreinlega á batavegi í upphafi námskeiðsins. Ég var hissa að heyra þetta, kannski vantrúuð, þetta var jú svo ólíkt mér og minni kynhegðun, gæfi skakka mynd af mér. En, eins og Didrika benti þá á: Hvað var svo sem rétt mynd af manneskju og hvað var röng og hver hafði vald til þess að segja til um það?
Ég hafði verið í matarboði hjá vinum Höskuldar, við höfðum borðað túnfisksteikur og rætt opinskátt um ýmis málefni. Ekkert svona small talk bara heldur verið að kryfja heimsmálin, ég hélt ræðu um alþjóðasamstarf og mikilvægi þess. Hnekkti út með brandara sem fékk alla gestina til að frussuhlæja yfir matarborðið. Ég var svo full af sjálfsöryggi að mér fannst ég vera að springa, fór á klósettið og fann að ég var verulega örvuð. Sérkennilegt í þessum aðstæðum. Kom sjálfri mér á óvart með því að byrja að snerta mig, fyrst varlega, en svo af mikilli ástríðu, hungri. Fróaði mér af svo mikilli festu og einurð að enginn hefði getað stoppað mig, þar til ég fékk, sem sagt, þessa bestu fullnægingu sem ég man eftir. Seinna hef ég oft hugsað um þetta í kynlífi með Höskuldi, sjálfa mig inni á klósetti heima hjá vinum hans. Ég vil þó ekki segja honum þetta og Didrika studdi þá afstöðu mína. Einmitt þetta sko, konur verða að vera til á eigin forsendum, eiga sitt í friði til að upplifa kyngleðina. Þurfa ekki að vera að útskýra sig, það er orkutapandi þáttur.
Didrika er komin aftur á skjáinn, hún hvetur okkur þátttakendur áfram og mér sýnast andlitin iða í litlu gluggunum allt í kringum hana. Didrika byrjar að strjúka sér með vendinum. Fallegt augnablik. Þessi sérkennilega tilvera manneskjunar og hennar þróunarsaga, hér erum við. Við gerum öll, strjúkum okkur eins eins Didrika. Ég líka, þetta er strax mjög gott. Horfi á skjáinn. Ég verð örvuð af því að sjá allt þetta fólk með píkur í unaði. Þetta er eitthvað svo skrýtið og á sama hátt er allt svo rétt við þetta. Við erum svo tengd hér og nú og nándin er svo burðug, kröftug eins og framandi hvirfilvindur sem feykir manngerðu umhverfi um koll.
Ég ætla að synda með hvölum svo djúpt ætla ég að komast. Ég er að byrja að stynja mjúkt þegar ég sé ljós blikka á símanum. Ég hafði verið að berjast við sjálfa mig varðandi símann, ein rödd vildi hafa hann opinn til öryggis, ekki einu sinni á silent, önnur vildi slökkva alveg á honum. Ég ákvað eða í raun gerðist það bara að ég setti á silent en lét hann vera hjá mér á rúminu. Ég loka augunum, reyni að blokka þessa sýn, blikkandi símann, reyni að vera ótrufluð, frjáls.
Ég ligg þarna með volga fróunina í gangi, það volgnar allt þegar þú reynir að bæla það sem er óþægilegt, þá koma bara meiri óþægindi til þín. Það kemur í huga mér kona sem ég var einu sinni að vinna með á hjúkrunarheimili fyrir mörgum árum. Þessi kona var með sérkennilega nærveru, hún fylgdi handriti hinnar stöðluðu eitruðu karlmennsku þegar kom að plássi og orku. Hún tók sér allt það pláss sem hún gat í öllum aðstæðum. Skipti um umræðuefni eftir hentisemi, greip fram í, sagði gríðarlega langar sögur. Setti alltaf þarfir sínar í forgang, gaf aldrei af sér. Talaði hátt og settist alltaf í miðjan sófann svo enginn annar komst að. Umræðuefnin hennar, hugðarefni og áhugamál voru svo í algjörri mótsögn við hegðunina, það gerði hana svo sérstaka. Hún óð áfram um prjónauppskriftir og slengdi fram smáatriðum og spekúlasjónum um ástarlíf frægra. Alltaf að brydda upp á Nínu og Gísla í Vesturporti og hvað hún héldi að þau gerðu um helgar. Á vakt með henni var ég stundum alveg við það að missa lífsviljann af leiðindum. Í eitt skipti í setustofunni, þá rauf hún þögnina með annarlega persónulegri og endasleppri frásögn: „Alltaf þegar ég er búin í baði fer ég beint í slopp, sest svo í hægindastól og sit þar alveg þar til ég þorna.“ Myndin lifði í þögninni sem kom í kjölfarið og rökkrinu í setustofunni.
Ég sé að það er Sigurlaug, ein af þeim sem ég er að sponsa, sem er að hringja. Eftir örlitla umhugun er eins og ég missi stjórnina, gríp símann, og svara um leið og ég næ að setja á mute-takkann á tölvunni og slökkva á töfravendinum. Sigurlaug virðist í uppnámi. Ég heyri sjálfa mig segja að ég hafi tíma til að hlusta. Finn fyrir kökkinum í hálsinum um leið, þessum forsögulega, eilífa. „Auðvitað, hvað er?“ Ég horfi á andlitin og sé þau verða innilegri á skjánum, eins og þau gleymi sjálfum sér eða hverfi öðru en sjálfum sér. Heilagleikinn er að stigmagnast. Ég fatta að það gæti verið truflandi að vera með símann í mynd, svo ég slökkti á myndavélinni á tölvunni. Nú er ég bara áhorfandi, vitni, á meðan ég hlusta á Sigurlaugu. Sigurlaug segir frá því að hún eigi svo erfitt með samskipti við konu í vinnunni sem sé alltaf að lítillækka hana, gera lítið úr því sem hún geri og segi og hún verði svo triggeruð við þetta, komi með leiðindi á móti, en hún vilji ekki fara á það plan, hún vilji mæta þessu í kærleika. „Hvar finn ég kærleikann til að mæta henni?“ spyr Sigurlaug. Ég horfi þögul á andlitin á skjánum, þau eru að brosa, hlæja í unaðinum, opna munninn, líklega til að gefa frá sér einhverjar unaðshryglur.
Líkami minn fer að engjast um af þrá, vill klára með vendinum. Skyndilega finnst mér sem ég sjái hana, samstarfskonuna frá hjúkrunarheimilinu, í horni hótelherbergisins, í skærbleikum sloppi, sitjandi hreyfingarlaus. Í markaleysi sínu og plássfrekju var hún komin hingað í mitt persónulega rými. Boðflenna á sjálfsfróunarnámskeiði. Ég reyni að láta aðstæðurnar, Sigurlaugu og þessa sloppakonu ekki koma mér úr jafnvægi. Sloppakonan horfir á mig og töfravöndinn, sloppurinn flaksar aðeins með stólfótunum, hæðni í augunum: „Ætlarðu að láta þessa kunningjakonu í símanum stela af þér fullnægingunni? Nína í Vesturporti myndi nú ekki gera það.“ Ég reyni að láta sem ég sjái hana ekki, en þá verður hún auðvitað fyrirferðarmeiri, sloppurinn að flæða upp um alla veggi, svo ég horfi beint á hana. Beint á skærhvíta krosslagða fætur hennar. Þegar ég horfi á hana sé ég svo skýrt hvað hún er aum og einmana þessi mannvera.
Með Sigurlaugu á rantinu í símanum, sloppakonuna að þorna, skrælna í horninu og andlitin á skjánum með þessa grófu og innilegu svipi sem tilheyra bara unaðsstundum, töfravendirnir á lofti, Didrika einbeitt með lokuð augun, hugsa ég – þessi stund markar mig, ég mun muna hana á dánarbeðinum.
Þriðja verkefnið sem ég hafði fengið í undirbúningspakkanum kallaði Didrika Hið háleita ástand. Það var viss uppbygging í verkefnunum og þetta var hámarkið. Ég átti að liggja nakin undir dauðaaltarinu um hábjartan dag þegar ég var ein heima. Horfa á líkama minn. Snerta hann, taka inn hvern einasta blett, hár, skrámu, æðahnút, ör, hverja einustu nögl og segja upphátt: „Þessi líkami er á lífi og þessi líkami mun deyja.“ Ég gerði þetta samviskusamlega þó að ég væri þreytt og dofin. Í verkefninu fann ég styrkinn eflast jafnt og þétt innra með mér, þar til hann stigmagnaðist í grátuppþot. Ég hristist og skalf af gráti í langan tíma, rétt náði að hlaupa allsber að baðherberginu þegar ég heyrði elsta barnið koma að útidyrahurðinni.
Þegar ég kemst loksins að, næ ég í forstöðukonuröddina mína og segi sponsíunni minni Sigurlaugu uppörvandi og ákveðin að hún ætti að kynna sér brunn sjálfsvalds og öryggis, að bæta þekkinguna á eigin kynhegðun. Fara á sjálfsfróunarnámskeið, til dæmis. Það myndi styrkja hana til þess að takast á við svona verkefni eins og leiðinlega samstarfskonu. Nú er ég bara orðin kona sem þorir að tala um svona lagað. Á sama tíma og andlitin eru eitt af öðru að afmyndast af nautn segir Sigurlaug snubbótt: „Takk, ég ætla að prófa að heyra í hinum sponsornum mínum.“
Allir þátttakendur eru komnir í höfn. Ég ligg á hótelrúminu með slökkt á tölvuskjánum. Nú er ég tilbúin. Nú skal ég brjótast fram eins og risastór hlynur sem tætir af sér garðhýsi. Ég ætla alla leið með þessum töfravendi og er alls ekki viss um það hvort ég komi til baka.