Útsýnið af fjórðu hæð

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir

Elín er ekki til.

Í hvert sinn sem við göngum út úr blokkinni minnist Guðný á það. Ég segist aldrei vita um hvað hún sé að tala, að ég þekki enga Elínu. Þá brosir Guðný og blikkar. Þetta er eins og vel æfður dans, en ég passa samt alltaf að líta upp í stofugluggann hennar til að fullvissa mig um að ég sé ekki að ímynda mér. Stundum stendur Elín þar og reykir, en oftast sé ég ekkert og get ekki verið viss.

Þetta er annar veturinn sem við systurnar förum reglulega til Elínar. Þær Guðný hafa fylgst að síðan þær voru litlar, en nú er Elín veik og við þurfum að hjálpa henni. Ég hef nokkrum sinnum spurt hvernig hún sé veik, hvort hún þurfi ekki að fara til læknis, en Guðný segist ekki geta útskýrt það. Segir bara að henni muni batna, en henni er enn ekki batnað.

Íbúðin er á fjórðu hæð í blokk, sem samkvæmt Elínu er viðeigandi. Fjórða hæð sé nógu hátt uppi til að vita af útsýninu, en ekki nógu hátt til að njóta þess. Oftast liggur hún hvort eð er bara í rúminu, með dregið fyrir og öll ljós slökkt. Guðný byrjar flestar heimsóknir á því að draga gluggatjöldin frá, opna glugga og glenna upp ljósin, áður en hún raðar matvöru í ísskápinn og byrjar að þrífa.

Þegar hún er vakandi og á fótum, er Elín samt hress og við spilum oft Ólsen á meðan Guðný þyrlast um íbúðina, tekur til og þrífur. Inn á milli hristir Elín höfuðið og tuldrar að hún skilji ekki hvers vegna Guðný geti ekki bara leyft sér að drepast í friði.

„Ertu að deyja?“ spyr ég.

Elín lítur hvasst á mig og segir „Við drepumst öll á endanum. Þú líka.“

Ég er tólf og hef alveg pælt í dauðanum, bara ekki í svona beinu samhengi við sjálfa mig. Ég veit alveg að heimurinn mun farast einhvern tímann og mér finnst tilhugsunin um að allir muni deyja yfirþyrmandi. Mun verri tilhugsun en minn eigin dauði. Svo ég endurtek ekki spurninguna.

Elín er hvöss að öllu leyti. Bein standa út þar sem ætti að vera mjúkt. Á mjöðmunum, bringunni, í andlitinu. Kinnbeinin eins og axarblöð, sem ýkjast þegar hún reykir. Þegar maturinn í ísskápnum er allur myglaður, þrjár heimsóknir í röð, sendir Guðný mig út í sjoppu að kaupa Royal búðing og rjóma. Svo hrærir hún í búðing og reynir að fá Elínu til að borða, en Elín situr bara með krosslagðar hendur og klemmir aftur varirnar, sem verða að litlu striki. Í hvert skipti sem skeiðin nálgast snýr hún sér undan svo búðingurinn endar á kinnum eða höku og lekur niður á bringu. Að lokum gefst Guðný upp á þessum leik, fer með skálina að vaskinum og skolar hana. Mér finnst skrýtið að hafa einu sinni fundist Elín stór, þessi litla hvassa kona, sem lítur út eins og blanda af fyrirsætu og óþekkum krakka.

Hún hefur alltaf verið með sítt hár, þykkt og glansandi, en klippir það af eina nóttina. Daginn eftir, þegar við Guðný komum, eru hárlokkar á víð og dreif og Elín búin að læsa sig inni á baði. Sem betur fer er hægt að snúa lásinn upp utan frá, sem Guðný gerir með smjörhníf. Elín liggur í myrkrinu, í öllum fötunum, í tómu baðkarinu. Af og til færist glóð af sígarettu upp og niður. Í ljósröndinni, sem fellur inn á baðherbergið af ganginum, sé ég hvar nokkrir síðir lokkar hanga enn á höfðinu. Á baðkarsbrúninni glampar á eitthvað blautt og Guðný hvæsir að ég eigi að fara fram eins og skot.

Ég sest í sófann og reyni að tala við Guð, en fer bara að efast um að hann geti hjálpað Elínu. Ég vil ekki verða leið, svo ég kveiki á sjónvarpinu og næ fyrstu mínútunum af Melrose Place, áður en það ruglast. Þá tek ég hljóðið af og stari á ógreinileg formin á skjánum, ímynda mér að allir séu glaðir og reyni að leiða hjá mér orðaskiptin sem ég heyri að eiga sér stað inni á baðherbergi.

Það er löngu orðið dimmt úti þegar þær koma fram. Lokkarnir eru farnir af höfðinu á Elínu og komnir í hendurnar á Guðnýju, sem heldur á skærunum. Hún fer beint inn í eldhúsið og byrjar að rífa upp úr skúffum, en Elín er hress og spyr hvort mér finnist nýja klippingin ekki bara flott. Ég svara að mér finnist hún svolítið lík Sinéad O’Connor. Hún brosir og segist vera ánægð með þá samlíkingu, því hún hati páfann líka. Hún er með stóran plástur á hálsinum og annan í hægri olnbogabótinni.

Þegar við göngum út hringla allir hnífarnir í töskunni hennar Guðnýjar. Í speglinum í lyftunni sé ég hvað hún er rauð um augun og hvít á hnúunum, fingurnir krepptir um skærin.

Fyrst, þegar ég hitti Ágústu, fannst mér merkilegt að gamlar konur gætu verið með spékoppa, en svo komst ég að því að fimmtugt fólk er ekkert svakalega gamalt, þó það sé með grátt hár. Ágústa kemur reglulega til Elínar, eins og við. Hún segir að það sé hluti af vinnunni sinni sem félagsráðgjafi. Við spilum stundum, ef Elín neitar að koma fram.

„Hún er alveg þver,“ segir Guðný þegar hún kemur út úr svefnherberginu. Hún pírir augun um leið og hún kemur inn í bjarta stofuna.

„Þetta kemur, vittu til,“ segir Ágústa.

Guðný ætlar að halda áfram að taka til þegar Ágústa spyr hvort hún hafi ekkert velt fyrir sér að halda áfram í skóla.

„Ég get hjálpað þér að sækja um í kvöldskóla í Hamrahlíðinni,“ segir hún og brosir.

„Nei takk,“ segir Guðný og brosir ekki til baka. 

„Hugsaðu málið vinan, það liggur ekkert á,“ svarar Ágústa en bætir svo við: „Æ, ég er bara gömul rauðsokka. Mér finnst svo mikilvægt að hvetja ungar konur að mennta sig og vera sjálfstæðar.“

„Nei takk,“ endurtekur Guðný, tekur tuskur og rauða skúringafötu og læsir sig inni á baði. Ágústa horfir á eftir henni en spyr mig svo hvað mig langi að verða þegar ég verð stór. Ég segist ekki vita það, ég hef aldrei séð tilganginn í að pæla svo langt. Mig langar samt kannski að verða flugfreyja eða kennari.

„Það er allt hægt, Aldís mín,“ segir Ágústa glettin. 

„Ekki allt,“ segi ég, „Elín ætlaði að verða myndlistarkona.“

„Ég veit ekki betur en að hún ætli sér það ennþá,“ svarar hún og blikkar mig.

Á leiðinni heim talar Guðný um að hún þoli ekki Ágústu. Segir að hún sé afskiptasöm gömul kerling. Ég bendi henni á að Ágústa sé bara um fimmtugt, sem er ekkert svakalega gamalt, þó hún sé með grátt hár.

Þegar ég var í öðrum bekk voru vinabækur vinsælar og nokkrar stelpur í skólanum báðu mig að skrifa í bækurnar sínar. Mig langaði svo mikið í svona bók og ákvað að búa til mína eigin. Ég notaði Cheerios-kassa sem kápu, heftaði blöð innan í, skrifaði spurningar og gerði línur með reglustiku. Ég vandaði mig mikið og gleymdi mér lengi við að skreyta forsíðuna.

Það var ekki fyrr Elín gekk framhjá herberginu mínu og spurði hvað ég væri að gera, að ég áttaði mig á mistökunum. Ég reyndi að leggja handlegginn yfir bókina, en var of sein og fór að skæla. Elín strauk mér um hárið og þurrkaði burt tárin, sagði að þetta væri nú ekkert stórmál. Svo spurði hún mig hvort hún mætti ekki hjálpa til við að klára bókina, sem ég gladdist yfir, því hún var svo flink að teikna. Við teiknuðum saman falleg blóm sem fylltu forsíðuna, svo engin gat séð að undir þeim stóð Vinkonur mínar. Í hornið, þar sem engin blóm voru, skrifaði Elín með skrautskrift, Skólafélagar mínir. Ég þakkaði henni fyrir hjálpina, sagðist vera rosa ánægð og henti svo bókinni í ruslið daginn eftir. Blómin voru falleg, en bókin var ónýt.

Við Elín sitjum við eldhúsborðið á meðan Guðný fer eins og stormsveipur um íbúðina. 

„Heyrðu,“ segir hún allt í einu, „er ekki fimmtándi í dag?“ og rýkur á fætur. Hún rótar í eldhússkúffunum, tuðar og finnur að lokum lítinn eldspýtustokk. Svo sest hún á móti mér, horfir stíft á mig og segir: „Ég á ekkert kerti, svo þetta verður að duga.“ Hún kveikir á þremur eldspýtum í einu og syngur fyrir mig. Ég stari á logann, finn hvernig hitinn hleypur út í kinnarnar og veit ekkert hvernig ég á að vera, svo ég horfi bara á tærnar á okkur. Elín grípur undir hökuna á mér, kyssir mig á báðar kinnar og faðmar mig fast. Ég gríp ósjálfrátt um herðablöðin sem stingast út úr bakinu á henni, eins og leifar af vængjum sem hafa verið klipptir af. 

Mér finnst Elín heyra í mér á annan hátt en aðrir, hún raunverulega hlustar. Hún lokar augunum, eins og hún vilji útiloka allt nema röddina mína á meðan ég tala. Eins og það eina sem skipti máli þá stundina sé það sem ég hef að segja. Hún grípur aldrei fram í fyrir mér eða segir mér hvað mér á að finnast, heldur kinkar bara kolli og reykir með lokuð augun á meðan ég tala. Tala og tala. Ég segi henni frá skólanum, hvað mér finnst oft erfitt að umgangast hina krakkana og hvað ég hata hópverkefni og íþróttir mikið. Hún er sammála mér að það sé hræðilegt að vera þrettán ára stelpa. 

„Veistu, það er alveg sérstaklega viðbjóðslegt að séum við neyddar til að taka þátt í eigin afmennskun. Það byrjar um leið og við fáum brjóst og verður bara meira og meira, alveg þangað til við drepumst. Þetta samfélag hatar konur!“ hrópar hún og hristir höfuðið. 

Guðný er að þrífa stofugluggana en stoppar og segir: „Æ Elín, þetta er nú ekki alveg rétt. Er þetta ekki óþarfi?“

„Óþarfi?“ hnussar Elín og það er eins og örlitlum skugga bregði fyrir andlitið. „Manstu þegar við vorum þrettán og þú fannst appelsínuhúðina á lærinu eftir sundtíma og fórst að grenja?“ segir hún svo eftir smá stund. „Ég huggaði þig, en var svo með samviskubit í marga daga. Leið eins og ég væri að ljúga að þér, því ég sagði að ég væri líka leið. En veistu Guðný, ég var ekkert leið, heldur sjúklega ánægð, því ég vissi að ég væri búin að vinna.“

„Vinna hvað?“ spyr Guðný „það var aldrei nein keppni.“

„Er það ekki?“ 

Stundum þegar ég tala við Elínu vella upp úr mér hugmyndir og skoðanir sem ég veit ekki að ég hef og mér finnst ég kynnast sjálfri mér betur í hvert skipti. Það er ekki fyrr en ég spyr hana hvort hún haldi að Guð vilji í alvöru að menn ráði öllu og konur engu, sem Guðný maldar í móinn. Hún spyr Elínu hvort henni þyki þetta skynsamlegt umræðuefni. 

„Mitt hús, mínar reglur manstu?“ segir Elín, ypptir öxlunum og setur upp ýktan fýlusvip. „Ef þú vilt ekki leyfa alvöru samtöl um alvöru hluti, ekki koma þá með krakkann.“  

Mér líkar illa að heyra hana nota þetta orð, krakkinn, eftir að ég fatta að hún á við mig.

Guðný er á hnjánum að skrúbba gólfið í eldhúsinu, en lítur snöggt upp og hvessir sig á Elínu, „Þú veist alveg af hverju ég tek hana með mér.“ 

„Já, en ég er ekki viss um að þú vitir það sjálf Guðný.“ 

„Hvað meinarðu?“

Elín svarar ekki, heldur teygir sig í nýja sígarettu sem hún kveikir í með þeirri sem hún er að klára. Guðný horfir móðurlega á hana og segir að nú sé hún að vera ósanngjörn, en Elín svarar að það sé ósanngjarnt að ég megi ekki spyrja spurninga. Að þetta séu allt saman spurningar sem þær spurðu sjálfar á sama aldri. 

„Veistu það Elín, stundum er óbærilegt að elska þig,“ segir Guðný mæðulega og er allt í einu staðin upp, „Af hverju geturðu ekki bara verið almennileg?“

Mér bregður þegar ég sé hvað Elínu bregður. Hún réttir úr öxlunum og setur báða fætur niður á gólf. 

„Æ, Guðný, ekki vera svona barnaleg,“ svarar hún svo og ranghvolfir augunum,  „Vilt þú ekki bara fara aftur á hnén, eins og þú ert vön?“

Guðný snýr baki í okkur en ég sé hvernig hún stífnar öll áður en hún rífur af sér gúmmíhanskana og grýtir þeim í vaskinn. Svo snýr hún sér snögglega við, setur hendur á mjaðmir og gargar á Elínu,

„Af hverju þarftu alltaf að vera svona eigingjörn?”

„Eigingjörn?“ gargar Elín á móti „Það er eigingjarnt að drösla krakkanum hingað og krefja hana svo um að þegja. Guðný, hún er tólf.“

„Ég er nýorðin þrettán,“ skýt ég inn. 

„Skiptu þér ekki af þessu!“ öskrar Guðný á mig.

„Ekki öskra á hana!“ öskrar Elín á móti. 

Ég hætti að skilja hvað þær eru að segja. Heyri bara öskrin, sem gusast á milli þeirra, og veit að þetta klárast fljótlega. Þá fara þær báðar að gráta og faðmast. Þær gera það alltaf og ég nenni ekki að hlusta á þær. 

Ég fer fram á gang, niður stigann og út á stétt, þar sem ég sest niður. Mér er kalt og alveg sama, í smá stund, en fer svo aftur inn í blokkina. Ég er ekki með lykla svo ég sest í forstofuna, undir alla póstkassana og bíð. 

Heilli eilífð seinna gengur eldri kona inn. Hún hallar undir flatt þegar hún kemur auga á mig og spyr hvort ekki sé allt í lagi. Áður en ég næ að svara henni kemur Guðný stormandi niður stigann, flengir upp hurðinni og geltir á mig að ég eigi að koma. Ég finn sting í maganum. Kannski föðmuðust þær Elín ekki í þetta skipti.

Áður en við beygjum fyrir hornið á blokkinni sé ég konuna, sem stendur enn í upplýstri forstofunni. Glugginn eins og málverk í myrkrinu. Konan horfir á eftir okkur með undrunarsvip og ef hún myndi lyfta höndunum aðeins nær andlitinu, liti hún út eins og uppáhalds málverkið mitt, Ópið.

 ⁂

Þær eru tíu árum eldri en ég og stundum, þegar ég var lítil, leið mér eins og ég ætti tvær auka mömmur. Þær sóttu mig í skólann, fóru með mig í göngutúra, tóku mig með í heimsóknir. Stundum sagðist fólk samt ekki hafa tíma fyrir heimsóknir og þá fórum við bara á bókasafnið. 

Guðný kom sér oftast fyrir í einhverju horni og las ein, en Elín las fyrir mig. Hún las Önnu í Grænuhlíð og Múmínálfana, en mér fannst langskemmtilegast þegar hún fann stórar málverkabækur. Þá leyfði hún mér að sitja í fanginu á sér og við hjálpuðumst að við að fletta stórum blaðsíðunum. 

Hún sagði mér frá málverkunum og hvernig listamennirnir notuðu liti til að kalla fram ljós og skugga og allar tilfinningarnar sem við ættum engin orð yfir. Hvernig allt gæti verið list. Að list þyrfti ekki endilega að vera myndir af einhverju sérstöku, heldur mættu þær vera af engu, en samt öllu, á sama tíma. 

Hún sýndi mér margar myndir af sömu konu. Á einni var hún með apa og lítinn pardus á öxlunum. Á annarri var hún tvöföld, tvær útgáfur af sömu konu. Þær voru báðar með hjörtun utan á sér og á milli þeirra var strengur. Ég spurði hvort listamaðurinn hefði verið með svona lélegt ímyndunarafl, að mála alltaf bara sömu konuna. Þá hló Elín og sagði mér að konan hefði málað myndirnar sjálf. Að konur gætu líka verið listamenn. Ég varð hissa, því ég hafði aldrei velt því fyrir mér og bað hana um að finna fleiri myndir eftir konur. 

Hún sýndi mér myndir af blómum, allskonar blómum í skærum litum, risastórar myndir af blómum og málverk af hestum og kindum með engin augu sem stóðu í skærgrænu grasi. Svo sýndi hún mér mynd af konunni með vængina. 

„Þessi stytta er eftir íslenska listakonu sem hét Nína Sæmundsson og er utan á mjög frægu hóteli í New York,“ sagði Elín og brosti. „Í haust ætla ég á námskeið í Myndlistaskólanum og verða fræg listakona í framtíðinni.“

„Af hverju er styttan ekki með neitt almennilegt andlit?“ spurði ég.

„Því þá geta allar konur mátað sig við hana og ímyndað sér að þær geti flogið,“ svaraði hún. 

Haustið kom og ég byrjaði í fjórða bekk, en Elín fór ekki á neitt námskeið í Myndlistaskólanum, en hélt áfram að vinna við þrif með Guðnýju. Mamma og pabbi töluðu um það í hálfum hljóðum að hún vildi verða listakona og notuðu orð sem ég skildi ekki alveg, eins og fásinna og prjál. Ég skrifaði þau niður á miða, en gleymdi alltaf að athuga hvað þau þýddu í orðabókinni þegar ég fór á bókasafnið í skólanum.

Þetta haust fór Elín eiginlega aldrei heim til sín, heldur var bara heima hjá okkur. Þær mamma sátu oft saman inni í eldhúsi langt fram á kvöld og ég vandist því að sofna út frá hvíslinu sem barst í gegnum rifuna á dyragættinni minni. Ég ímyndaði mér alltaf að mamma væri að segja Elínu að víst yrði hún stórkostleg listakona og svo dreymdi mig styttur með vængi. Stórar styttur af enn stærri konum sem tóku yfir heiminn og allt varð gott. 

Þegar einhver reyndi að tala Elínu til og fá hana til að fara heim, öskraði hún bara. Ég spurði pabba hvers vegna hún léti svona og hann svaraði að hún væri bestía sem kynni ekki að fara eftir reglunum og að það væri hættulegt.

Elín og Guðný eru búnar að loka sig af inni í herbergi. Ég fer inn í eldhús, fæ mér glas af appelsínusafa og rek augun í lítinn kassa á eldhúsborðinu. Ég er farin að þekkja hvern krók og kima í þessari íbúð, en þennan kassa hef ég ekki séð áður. Í honum erum litlir vöndlar af eldhúspappír og ég vef utan af einum þeirra. Í ljós kemur lítill fugl úr þunnu gleri, hvítur með bleika vængi og bleikt stél úr fjöðrum. Alvöru fjöðrum. Annar er blár með grænum vængjum, sá þriðji fjólublár með smá glimmeri. Þeir eru svo fíngerðir og fallegir. Mögulega það fallegasta sem ég hef nokkru sinni séð og ég velti fyrir mér hvort þeir séu kannski hárskraut, því neðan á þeim eru litlar klemmur.

Ég stend lengi og horfi út um stóra gluggann í stofunni, með hvíta fuglinn í höndunum. Ég opna og loka lófunum utan um hann, eins og hann sé í litlu búri. Þannig líður mér oft í þessari íbúð, þegar Elín og Guðný loka að sér og mér leiðist svo mikið að mig langar til að sofa í hundrað ár. 

Viku seinna er Elín búin að setja upp seríu í stóra stofugluggann og lítið tré með ljósum stendur á borði við sófann. Á greinarnar er hún búin að klemma litlu fuglana, sem virðast mjög hamingjusamir innan um marglit ljósin. Hún spyr mig hvort mér finnist þeir ekki sætir og ég finn hvernig hitinn lekur ofan frá hvirflinum, niður hnakkann og alveg niður í hæla. Ég svara ekki, heldur segist þurfa að pissa, fer inn á bað og læsi að mér. Þar leggst ég á gólfið, tek handklæði og treð upp í mig, því ég vil ekki að þær heyri þegar ég byrja að gráta. 

Mér finnst ég svo heimsk og asnaleg. Það var mjög augljóst að þessir fuglar voru ekki hárskraut. Mér finnst líka asnalegt hvað ég tek þetta nærri mér, en ég get ekki hætt. Tárin renna niður vangana, inn í eyrun og niður á hnakka. Ég óttast að ég muni gráta að eilífu, en næ að róa mig á endanum og stend upp. Ég skola andlitið með köldu vatni og þvæ mér alveg sérstaklega vel um hendurnar.

Það er komið fram í mars og við Guðný göngum lengri leið til Elínar en venjulega. Hún er léttari í skapinu en undanfarið, segist elska vorið. Við tölum um hvernig það sé að vera komin í unglingadeild, hvað túrverkir séu ömurlegir og hún segir að við ættum að baka saman bráðum. 

Þegar við komum upp í íbúð til Elínar dett ég næstum um skó sem standa í forstofunni og ég sé strax að þetta eru ekki skór sem ég þekki. Elín á þá ekki og ég veit að Ágústa kemur bara annan hvern þriðjudag. Guðný lítur á mig og í augnablik sé ég hvernig andlitið brotnar, en verður aftur venjulegt um leið og hún heyrir umgang. Laufey kemur út úr svefnherberginu og horfir undrandi á okkur. Guðný grípur fyrir munninn, en ég er snögg að smeygja mér fram hjá þeim og inn í svefnherbergið. 

Þar inni er svalt og dimmt. Eina ljósið kemur að utan, rönd af vori sem hefur náð að þröngva sér undir þykkar gardínurnar. Ég held niðri í mér andanum, alveg ósjálfrátt, í allri þessari þögn og myrkri. Elín situr upprétt í rúminu og starir fram fyrir sig. 

„Bjarki er með krabbamein,“ segir hún.

Ég sest á rúmstokkinn og strýk lítið, beinabert handarbak hennar.

„Er þá allt ónýtt núna?“ spyr ég.

„Það hefur alltaf allt verið ónýtt,“ svarar Elín.

Við sitjum í þögninni dálitla stund og ég geri áttu á handarbakið á henni, hring eftir hring, endalaust. Svo heyrist smellur, fjarlægur, eins og hurð sé skellt í öðrum heimi. Mér bregður þegar Guðný kemur grátandi inn í herbergið og skríður beint í fangið á Elínu. Hún grætur svo lengi að ég þarf að standa upp og pissa. Um leið og ég loka hurðinni heyri ég Elínu segja að hún viti alveg að Bjarki hafi fengið krabbameinið til að hefna sín á henni. 

Þegar ég er búin að pissa þori ég ekki að fara aftur inn í herbergi til þeirra. Ég þori ekki einu sinni að kveikja ljósin, þó það sé farið að rökkva. Ég sest á eldhúsgólfið og tel rendurnar í gólfdúknum, höldin á skápunum, póstana í gluggunum. Ég tel á mér tærnar, aftur og aftur og hversu mörg hár ég get slitið í einu úr höfðinu á mér. Svo stari ég á klukkuna á eldavélinni. Litlu bláu punktana sem blikka á milli tölustafanna.

Sama haust og Elín neitaði að fara heim, vaknaði ég eina nóttina við blá ljós sem blikkuðu á veggnum í herberginu mínu. Ég áttaði mig ekki strax hvaðan ljósin komu, en þegar ég gægðist út sá ég tvo lögregluþjóna ganga í átt að húsinu. Á milli þeirra hékk Elín. Ég kastaði mér aftur í rúmið, breiddi sængina alveg yfir höfuðið og reyndi að gubba ekki upp hjartanu sem hamaðist innan í mér. Frammi heyrði ég djúpar raddir tala, svo læti, öskur og að lokum ekkasog. Elín grét og Guðný grét og mamma grét.

Þegar allt var orðið hljótt aftur læddist ég fram. Pabbi stikaði fram og aftur á ganginum og talaði lágt í símann, símasnúran vafin eins og snákur um annan framhandlegginn. Mamma sat í sófanum með Guðnýju í fanginu, en Elín lá hreyfingarlaus á stofugólfinu með opin augun. Hún leit út fyrir að vera alveg dáin, en hrökk við þegar bankað var á útihurðina. Þá spratt hún á fætur, gargaði að hún vildi ekki fólk sem vildi hana ekki. Svo kreppti hún hnefana, stappaði niður fótunum og byrjaði að öskra. Það komu engin orð, bara djúpur flaumur sem hljómaði eins og tónlist í röngum takti. Í dyragættinni stóðu Laufey og Bjarki, foreldrar Elínar og eftir þetta leið mjög langur tími þar til ég hitti hana aftur.

Þótt Laufey segist vera þakklát fyrir alla hjálpina frá Guðnýju, brýtur hún samt loforðið um að segja engum frá að hafa hitt okkur heima hjá Elínu. Nokkrum dögum seinna er Guðný kölluð á fund og um kvöldið eru nöfnin okkar lesin upp á samkomu fyrir framan alla. Seinna sama kvöld stend ég stjörf í forstofunni heima á meðan Guðný hrúgar öllu sem henni dettur í hug ofan í tösku. Hún segir mér að það verði allt í lagi, að við séum að fara til Elínar, en andlitið er fast í krampakenndri grettu svo ég á erfitt með að trúa henni. 

Mamma segir að ég megi vera áfram hjá þeim, að ég geti bætt fyrir að hafa farið á bak við þau og að allt verði aftur eins og það var eftir nokkra mánuði, en ég vil bara fara með Guðnýju. Ég vona að það verði eins og þegar ég var lítil, þegar Elín og Guðný voru eins og mömmur mínar. Það var æðislegt að eiga tvær mömmur og núna getum við alltaf verið þrjár saman og bakað og teiknað og fíflast og passað hver upp á aðra. Þegar við Guðný förum grætur mamma, en pabbi neitar að koma fram og kveðja okkur. 

Það er komin nótt þegar við komum til Elínar, sem er sofandi. Guðný kemur sér fyrir inni hjá henni, en býr um mig á sófanum. Ég hef aldrei veitt því athygli fyrr, en það er ógeðsleg lykt af þessum sófa. Í hamaganginum gleymdist að hrúga sænginni minni í töskuna, svo ég þarf að sofa með teppi. Mér er kalt þar sem ég ligg í myrkrinu, eins og umkomulaus ungi í illa lyktandi hreiðri. Elín er greinilega vöknuð og ég heyri þær tala saman inni í herbergi, án mín, og verð vör við að eitthvað bærist innra með mér. Eitthvað dökkt og kvikt, sem segir mér að kannski verði þetta alltaf svona. Þær tvær og svo ég, til hliðar. Ég klemmi augun snöggt aftur, eins fast og ég mögulega get, til að klemma þessar hugsanir í burtu, því ég finn að ég má ekki gefa þeim pláss.

Við höfðalagið stendur tréð með marglitu ljósunum, litlu fuglarnir enn fastir á sama stað, þó að komið sé fram í mars. Þótt ég reyni eins og ég get, næ ég ekki að sofna fyrir eigin hugsunum. Þegar raddirnar inni í herbergi hljóðna, tek ég hvíta fuglinn með bleiku vængjunum af trénu og læðist inn á baðherbergið. Þar vef ég honum inn í klósettpappír, legg á gólfið og stíg á hann, þangað til að ég finn að hann gefur eftir. Svo tek ég vöndulinn upp og krem eins fast og ég get með höndunum, aftur og aftur. Ég helli glersallanum í klósettið og sturta niður, en fel klemmuna og fjaðrirnar í ofninum inni í stofu, á bak við sófann. 

Þegar við vöknum morguninn eftir er allt betra og Elín er glöð og ánægð að við séum komnar til að búa hjá henni. Hún kveikir á útvarpinu og dansar við mig í stofunni, á meðan Guðný skrifar innkaupalista. Við ætlum að halda upp á daginn með því að elda góðan mat og Elín lofar að borða vel. Segist ætla að borða bæði lasagne og köku, á sama tíma, því núna ráðum við okkur sjálfar og búum til okkar eigin reglur. Kannski hún borði bara kökuna fyrst og þegar Guðný mótmælir grettir Elín sig bara, þykist vera lítið tröll og reynir að fá hana til að dansa við sig. Ég hlæ svo mikið að tárin byrja að renna og ég pissa næstum í buxurnar. Ég finn að sum tárin eru samt alvöru tár og ég skil ekki alveg af hverju. 

Áður en við förum faðmar Elín mig þétt að sér og hvíslar að hún elski mig. Ég svara hissa að ég elski hana líka, segi að hún sé best og sé hvernig augun fyllast af tárum, áður en hún snýst á hæli og fer inn í herbergi. Í lyftunni á leiðinni niður finnst mér eins og maginn sé að fara í öfuga átt, eins og þegar mig dreymir að ég sé að hrapa.  

Þegar við komum úr innkaupaferðinni er íbúðin mannlaus. Á eldhúsborðinu er miði og ég er ekki nógu snögg að grípa hann. Ég hefði rifið hann í þúsund tætlur, en í staðinn tekur Guðný hann og les.

Guðný, pabbi minn er með krabbamein.

Hann er pabbi minn.

Guðný brýtur miðann saman, setur hann ofan í töskuna sína og rennir fyrir, fer inn í svefnherbergið og lokar að sér. Ég stend lengi á ganginum með poka af klökum í fanginu, sem byrja að bráðna og leka yfir mig. Það kemur mér á óvart hvað tilhugsunin um Elínu, eina fyrir utan íbúðina, hræðir mig mikið.

Guðný talar ekkert í þrjá daga, liggur bara í rúminu og horfir út í loftið. Ég færi henni súrmjólk og hafragraut, en í hvert skipti sem ég reyni að tala við hana, hvæsir hún bara á mig, eins og viðskotaillur köttur. Á fjórða degi stendur hún upp, eins og ekkert hafi í skorist, og tilkynnir mér að hún ætli að skrá sig í kvöldskólann.

Nokkrum dögum seinna kemur Ágústa að athuga með Elínu. Fyrst verður hún hissa þegar Guðný útskýrir stöðuna, en svo brosir hún breitt og segist hafa verið að bíða eftir okkur. Kallar okkur elskurnar sínar og tekur þétt utan um mig. Hún er hlý og mjúk, með stór brjóst sem eru eins og koddar. Hún tekur Guðnýju í fangið og Guðný grætur í fyrsta skipti síðan Elín fór. Ágústa strýkur henni um hárið og segir, aftur og aftur, að þetta verði allt í lagi. 

Ágústa er mikið hjá okkur næstu daga á eftir. Hún græjar pappíra, svo að við Guðný megum búa áfram í íbúðinni og af því að Guðný er orðin fullorðin þarf ég ekki að fara í fóstur eitthvert annað. Ágústa hjálpar henni að sækja um nýja vinnu og pláss í kvöldskólanum. Hún býður okkur líka að tala við fólk, en Guðný heldur bara áfram að segja nei takk.      „Það er alveg eðlilegt að finna fyrir ótta elskan mín,“ segir Ágústa og strýkur Guðnýju um vangann. Í augnablik sé ég hvernig Guðný pírir augun og ég óttast að hún muni mögulega bíta Ágústu. Svo verður hún lík sjálfri sér og afþakkar aftur alla sálfræðiaðstoð. Þá skrifar Ágústa símanúmerið sitt með stórum stöfum á miða og segir að við megum alltaf hringja í hana. Svo festir hún miðann á ísskápinn með segli sem hún dregur upp úr töskunni sinni. Á seglinum er mynd af dádýri sem búið er að skjóta með níu örvum. Dádýrið er með kvenhöfuð sem ég kannast mikið við.

Haustið kemur og ég byrja í nýjum skóla, þar sem ég þekki engan, nema eina stelpu í tíunda bekk, en hún yrðir ekki á mig. Ég eignast fljótt vinkonur í bekknum mínum og byrja að æfa badminton með þeim. Við tökum strætó tvisvar í viku í Laugardalinn og mér finnst strætóferðirnar í raun skemmtilegri en æfingarnar sjálfar, því þá náum við stelpurnar að tala svo mikið saman. Það er margt sem ég þarf að læra og þær eru bestu kennarar sem ég hef nokkru sinni haft. Stundum förum við í Hagkaup, áður en við tökum strætó heim. Þær fara alltaf beint að skoða ilmvötnin, en ég stelst stundum til að prófa að mála mig í kringum augun, eins og Elín gerði alltaf. Ég passa mig samt að þrífa allt af mér áður en ég fer heim. 

Einu sinni í viku tek ég strætó ein niður í miðbæ og fer á námskeið í Myndlistaskólanum, sem Ágústa skráði mig á. Hún gaf mér líka vasadiskó á afmælinu mínu, sem mér fannst mjög skrýtið, en eftir að hún kenndi mér að taka upp lög úr útvarpinu tek ég það með mér hvert sem ég fer, sérstaklega í strætó. 

Guðný vinnur við afgreiðslu í apóteki, ekki langt frá blokkinni, og fer í skólann á kvöldin. Hún hefur ekki eignast neina nýja vini og fer lítið annað en í vinnuna, skólann og í búðina að versla í matinn. Stundum vakna ég á nóttunni við að hún læðist fram hjá mér, þar sem ég sef í sófanum, og opnar stóra gluggann í stofunni. Svo stendur hún í kuldanum og starir út, að skima eftir einhverju sem hún hefur enn ekki fundið. 

Hægt og rólega komum við okkur betur fyrir og gerum íbúðina að okkar. Bætum við og tökum út. Við losum okkur við gamla sófann og kaupum svefnsófa í staðinn. Stundum er eins og Guðný ætli sér að þurrka Elínu út úr lífi sínu. Einn hlut í einu. Um miðjan desember pakkar hún saman litla trénu og fer með í ruslið. Litlu fuglarnir allir enn klemmdir á greinarnar. 

Undarlegast við þessar breytingar er að eiga allt í einu svona mikinn frítíma, því ég hef engar skyldur og þarf ekki lengur að fara í heimsóknir. Um helgar, þegar vinkonur mínar eru með fjölskyldum sínum og Guðný að vinna, fer ég oft í langa göngutúra frekar en að sitja heima. Stundum geng ég í Mjóddina, þar sem ég fylgist með mannlífinu og teikna. Ég teikna myndir af fuglum og eldspýtum og herðablöðum sem breytast í vængi.

Hurðin á strætó stendur á sér þegar ég ætla að hoppa út rétt hjá blokkinni okkar. Bíllinn fyrir aftan fer að flauta, en ég smeygi fætinum út um rifuna og stappa á snjóhrönglinu sem situr í falsinu. Hurðin hrekkur upp og ég stekk út í þykkt janúarmyrkrið. Bílstjórinn kallar þakkir á eftir mér og ég veifa. Ég er farin að kannast við bílstjórana sem keyra vagnana sem ég tek og þessi er fínasti kall. Hefur tvisvar beðið eftir mér þegar ég hef komið hlaupandi, aðeins of sein. Hann segir að ég megi ekki missa af föstudagsæfingu, það sé svo gott að hreyfa sig inn í helgina.  

Þegar ég kem upp á fjórðu hæð og tilkynni komu mína, fæ ég ekkert svar. Guðný er ekki komin og ég geri ráð fyrir að hún sé í skólanum að læra. Ég nýti tækifærið til að stjórna sjónvarpinu ein, en þegar líða fer á kvöldið bólar ekkert á Guðnýju. 

Ég reyni að vaka eftir henni, en sofna í rúminu hennar í öllum fötunum og sef langt fram eftir morgni. Klukkan er að ganga ellefu þegar ég vakna og Guðný enn ekki komin heim. Ég fæ mér morgunmat, hlusta á fréttir í útvarpinu og fer í sturtu, en ákveð að fara ekki í göngutúr, ef hún skyldi koma heim á meðan. Ég finn hvernig móðurleg þolinmæði bólgnar innra með mér og ímynda mér hvernig ég ætli að vanda um fyrir henni, þegar hún loksins skilar sér. 

„Hva, það er nú meira að sumir láta sjá sig,“ segi ég við spegilinn í forstofunni og geri mér upp áhyggjusvip með vott af kaldhæðni og finnst ég töff, en lækka í mér þegar ég fatta að kannski sé hún frammi á gangi og heyri í mér. Ég laumast til að kíkja út um gægjugatið, fram á tóman ganginn. 

Á meðan ég bíð eftir Guðnýju fer mér aftur að líða eins og þessi íbúð sé búr, eins og mig langi að til sofa í hundrað ár eða kannski bara að eilífu. Ég sit lengi á rúminu hennar og legg kapal ofan á sænginni. Á meðan velti ég fyrir mér hvað hún sé eiginlega að gera. Mér dettur alls konar í hug og leik mér við að máta hana inn í sögusvið bíómyndanna og sjónvarpsþáttanna sem ég hef horft á nýlega. 

Hún gæti hafa lent í slysi og misst minnið og fólkið á spítalanum viti ekki hver hún er. Mér finnst þetta svo sorglegt að ég ímynda mér frekar að kannski hafi hún hitt sætan mann í apótekinu og að hún sé í miðju ástarævintýri með honum. Mér finnst sú tilhugsun spennandi en á einhvern hátt óþægilegri, svo ég held mig við minnisleysið. 

Ég er búin að leita um allt að miða frá Guðnýju, en finn hvergi. Á náttborðinu hennar er bara vöndull af peningum, hellingur af þúsundköllum sem búið er að festa saman með bréfaklemmu. Mér líður eins og peningarnir séu brennandi heitir, eins og það muni kannski kvikna í þeim ef ég tek þá ekki upp og handfjatla, en ég vil það ekki. Í staðinn fer ég fram og sest á gólfið við stóra gluggann í stofunni. Ég legg áfram kapal eftir kapal, sem allir ganga upp og hægt og rólega viðurkenni ég fyrir sjálfri mér hvar Guðný er. 

Ég horfi lengi út um gluggann og rifja upp hvernig hún brást við þegar Elín fór í fyrsta skipti. Hvernig hún grét stöðugt fyrstu vikurnar, og þegar tárin kláruðust, hvernig hún hætti að tala. Hætti því bara alveg og talaði ekkert í eitt og hálft ár. Það var ekki fyrr en við fórum að laumast í heimsóknir til Elínar, að hún fór að tala aftur. Kannski þess vegna tók hún mig með sér, því hún var hrædd um að koma ekki upp orði og notaði mig sem millistykki. 

Ég skil núna hvað Elín meinti þegar hún talaði um útsýnið og hvað það hlýtur að hafa verið erfitt að njóta þess að vera komin út, vitandi af Guðnýju fastri á sama stað. Svo rennur skyndilega upp fyrir mér hvernig þetta var líklega ætlun Guðnýjar frá upphafi. Að koma mér út, en fara sjálf til baka á eftir Elínu. 

Það sem kemur mér mest á óvart eru mínar eigin tilfinningar. Þær eru ekki hráar og hvassar eins og ég bjóst við, heldur hægar og mjúkar, eins og þoka. Ég bíð eftir að óttinn taki yfir, að ég öskri eins og Elín eða hvæsi eins og Guðný, en það gerist ekki. Það gerist ekkert. 

Auðvitað væri miklu betra ef við værum allar saman, en ég er ekki reið, því  ég veit að þær eru heild. Tvö eintök af sömu konu og engin leið að slíta strenginn á milli þeirra. 

Að kvöldi sunnudags klæði ég mig í skó og geng út í sjoppu til að hringja úr tíkallasímanum. Ég er ekkert hrædd, því ég veit að ég þarf bara þetta eina símtal til að ná sambandi. Ég tel hringingarnar; ein, tvær, þrjár. 

Þegar björt rödd Ágústu berst mér af hinum enda strengsins þegi ég fyrst, en segi svo: 

„Ég er ekki til.“