Slóði

Haukur Ingvarsson

Hann man eftir að hafa legið í örmum pabba síns, hallað höfðinu aftur og horft djúpt í geiminn, alla leiðina niður á botninn þar sem glitraði á stjörnur, eins og krónur í tjörn. Svo hvarf hann aftur í þennan hlýja faðm. Nuddaði köldum nefbroddi við hrjúfa skeggbrodda í hálsakoti áður en hann var lagður varlega í aftursætið. Dormaði meðan pabbi stóð úti og skóf; malið í útvarpinu, krafsið á rúðunni, trúttið í pústinu.

Og nú er hann sjálfur orðinn pabbi. Norpar úti í kuldanum, dregur hendurnar upp í ermarnar á peysunni til að skýla hnúunum, skefur hjarnið af rúðum bílsins með útrunnu greiðslukorti. Kemíska gufu leggur aftan úr pústinu í tæru frostloftinu. Hann andar henni að sér og langar í sígarettu.

Þegar hann sest inn í bílinn og hagræðir baksýnisspeglinum horfist hann í augu við litla uglu í aftursætinu.

„Pabbi, við þurfum ekki að gera neitt út af afmælinu.“

„Stjörnutorg og bíó, getur ekki klikkað.“

„Við höfum gert það svo oft, mér finnst það dáldið …“

Hún tekur kúnstpásu og þykist leita að réttu orði.

„Barnalegt?“ spyr hann.

„Já, einmitt. Barnalegt,“ segir hún og bætir við: „Eigum við ekki bara að vera heima?“

Hann reynir að sjá út um kýraugað sem hann skóf í hjarnið á afturrúðunni og bakkar. Það gengur. Hann lítur laumulega á nálina á bensínmælinum sem er um það bil að skríða undir rauðu línuna en hann veit að hann þarf ekki að hafa áhyggjur meðan ljósið logar ekki.

„Hvað er mikið bensín?“ heyrist úr aftursætinu.

„Nóg bensín, ástin mín.“

Hann lítur í spegilinn. Augu þeirra mætast aftur. Hún hefur aldrei verið eins og barn.

Á leiðinni inn á leikskólann mætir hann pöbbum sem halda að sér frökkunum og tipla á gljáfægðum skóm milli klakabunka. Þeir sveifla lausu höndinni á hlaupunum og eru á svipinn eins og einhver sé að klípa þá nauðuga í rassinn.

„Blessaður, blessaður,“ segir Baddi kumpánlega þegar þeir skjótast fram hjá. Það leggur af þeim sæta lykt af rakspíra og hárvaxi. Þetta minnir hann á niðursoðna ávexti og kókos. Hann langar í Pína Kólata eða einhvern suðrænan kokteil. Hann finnur bragðið á tungunni og bíður eftir högginu frá romminu en það kemur ekki. Honum finnst fyrsti drykkurinn alltaf bestur, meðan hann svamlar milli vímu og veruleika. En það er erfitt að halda þessu jafnvægi. Eins og að fljóta á vindsæng í öldugangi.

„Pabbi.“

Hún er búin að klæða sig úr yfirhöfninni og hengja hana á snaga hjá litla bakpokanum sínum. Stígvélin standa með hælana í vegginn eins og tveir staðfastir tindátar. Fóstran krýpur niður á hnéð og Ugla faðmar hana rólega en innilega.

„Hvað segir litla afmælisstelpan?“

Fóstran klemmir augun saman og þrýstir Uglu þétt upp að sér. Svo opnar hún augun og horfir á Badda. Ugla svarar ekki spurningunni, hvíslar bara lágt:

„Unnur.“

Fóstran hefur ekki af honum augun, kiprar saman varirnar, brosir án þess að brosa, segir: „Svona, svona þetta er allt í lagi,“ með augunum, eða það finnst honum. Þær hætta að faðmast og Ugla snýr sér að honum. Nú horfa þær báðar á hann. Þær eru alveg eins. Tvær uglur. Honum líður eins og það sé hann sem sé lítill og langar ekki til að fara. Ugla stígur fram og faðmar hann áður en hann nær að beygja sig. Hún heldur þétt um mittið á honum og þrýstir kinninni upp að maganum á honum.

„Farðu varlega, pabbi,“ segir hún.

„Vertu þæg og góð, ég kem svo og sæki þig á eftir.“

„Hún er alltaf þæg og góð,“ segir Unnur og strýkur Uglu yfir ennið og aftur á hnakka um leið og hún gengur fram hjá í átt að lágu borði þar sem börnin sitja og sulla í graut. Unnur horfir á eftir henni og þegar Ugla er sest horfir hún á Badda og bætir við:

„Þetta er flott stelpa sem þú átt.“

„Já, maður skilur bara ekkert í því hvernig maður eins og ég getur átt svona barn,“ segir hann í grínagtugum tón, yppir öxlum: „Samt, samt ekki. Eða, þú veist, hún á náttúrlega mömmu líka, mamma hennar er rosalega klár.“

„Henni þykir ofboðslega vænt um þig,“ segir Unnur.

Það er engin ásökun í röddinni en þetta stingur. Unnur búllsjittar ekki.

Hurðinni er hrundið upp fyrir aftan hann. Kaldur gustur ber með sér suðræna angan. Hann snýst á hæli.

„Blessaður, blessaður,“ segir hann kumpánlega við pabbann sem kemur inn úr dyrunum. „Þú ert bara mættur á spariskónum,“ bætir hann við. Það kemur á pabbann sem lítur hikandi niður eftir jakkafötunum og á támjóa skóna.

„Þetta er nú bara vinnugallinn.“

„Auðvitað. Alltaf veisla í bankanum.“

Þeir hlæja báðir. Svo hleypur Baddi út í myrkrið.

Þegar hann sest inn í bílinn andar hann djúpt að sér. Náunginn sem seldi honum bílinn hafði verið pizza-sendill. Rakinn úr nýbökuðum pizzunum hafði sokkið djúpt í sætin, teppið og klæðninguna. Þegar bíllinn hitnar gýs upp lykt; pepperóní og sveppir, grillaður ostur, brauð og mygla. Hann snýr lyklinum í svissinum og vélin hrekkur í gang. Hann kveikir á útvarpinu og hækkar, keyrir græjurnar í botn. Ekur á móti snjódrífunni sem þýtur hjá. Hann ímyndar sér að hann sé á ljóshraða. Why don’t you call me I feel like flying into, er sungið yfir kröftugan bassa. Hann er ósýnilegur. Bílinn hitnar og lyktin gýs upp og minnir hann á útihátíð sem hann fór einu sinni á. Það var mitt sumar en kuldinn svo mikill að flestir unglingarnir voru klæddir í kraftgalla, eins og sovéskir verkamenn. Um nóttina keyrði fjórhjól um svæðið og hlóð þeim sem höfðu drepist áfengisdauða á aftanívagn. Það var farið með þá í dauðatjald þar sem þeir lágu meðvitundarlausir þar til þeir risu upp og gátu haldið áfram að djamma. Þetta var lyktin í tjaldi hinna dauðu. Hann man eftir að hafa vaknað og risið upp. Ranglað út úr tjaldinu og haldið áfram að djamma. Baddi lemur í stýrið og hlær einn með sjálfum sér.

Hann ekur upp Landakotshæðina. Draugaleg kirkjan og skólahúsin blasa við honum. Þau eru undarlega lýst og skuggar flökta um veggina. Þetta er ekki staður fyrir börn, hugsar hann um leið og hann beygir upp Hrannarstíg. Hann leggur bílnum við reisulegt steinhús, stæðið er þröngt og hann þarf að jagla öðru framdekkinu upp á gangstéttarkant til að bíllinn rúmist í stæðinu. Þegar hann drepur á vélinni er lagið í algleymi, trommur og bassi hamast í takt við hjartað í honum. Hann er ör, eins og hann hafi fengið sér í nefið. Það suðar í eyrunum á honum. Hann stígur út og það brakar í nýföllnum snjónum undir fótum hans.

„Hey,“ heyrist kallað úr garði hússins, „hey, þú þarna, já, þú á bílnum. Ég er að tala við þig. Er ekki búið að margbiðja þig um að leggja ekki við húsin? Þetta eru stæði fyrir íbúa.“

Þetta er fínn maður. Með snyrtilega greitt hvítt hár. Hann er í herragarðsslopp úr flaueli með boðungum úr silki eða satíni. Það glampar á það í birtunni frá ljósastaurunum.

„Blessaður, blessaður,“ segir Baddi lágt, kallar á móti: „Einmitt, ég er bara rétt að skjótast inn, verð enga stund.“

„Ertu ekki að vinna á Landakotsspítalanum? Ég hef séð þig norpandi með sígarettuna þarna undir veggnum.“

„Já, er það?“

„Það er ekki gaman að horfa upp á þennan bílskrjóð grotna niður út um gluggann.“

„Ertu mikið þar?“

„Er ég mikið hvar?“

„Úti í glugga? Ertu mikið þar, ég man nefnilega ekki eftir að hafa séð þig?“

„Það er óþarfi,“ hrópar maðurinn og röddin í honum brestur. Hann þagnar augnablik en heldur svo stillilega áfram: „Það er óþarfi að vera með ósvífni við gamlan mann.“ Hann horfir stíft á Badda en rigsar svo fyrir hornið á húsinu.

„Nennirðu að fokka þér, aðeins,“ hvíslar Baddi ofan í hálsmálið á jakkanum sínum um leið og hann veifar með mikilli sveiflu.

Það er gufa í eldhúsi spítalans. Bakkar með diskum, glösum og hnífapörum eru byrjaðir að berast niður eftir morgunmatinn. Hann grípur svuntu og festir hana á sig með fumlausum hreyfingum, tekur sér svo stöðu við einn af stálvöskunum og dregur út barka með kröftugum úðara. Þunnur hafragrautur lekur af diskunum og blandast djús og mjólk og kaffi á leið ofan í niðurfallið. Hann veit að hann er seinn en hann veit líka af fenginni reynslu að það kemur manni bara í klandur að koma með einhverjar afsakanir, best er að byrja að vinna og gefa lítið færi á sér.

Tíminn líður hratt meðan törnin gengur yfir. Smám saman minnkar skarkalinn uns strákurinn við lyftuna hrópar:

„Þetta er það síðasta.“

Baddi fleygir úðaranum í vaskinn. Það heyrist hár dynkur. Hann réttir úr bakinu og lætur hnakkann síga aftur. Axlirnar á honum eru stífar. Vaskurinn er hálffullur af gruggugu vatni, tómatar og gúrkuskífur safnast fyrir í botninum og eiga það til að stífla niðurfallið. Hann man eftir fyrsta skiptinu sem hann rak höndina ofan í vatnið, þreifaði eftir fyrirstöðu og fann eitthvað hart. Það voru falskar tennur. Hann rak upp óp. Nú er hann orðinn alvanur að fiska eftir tönnum, gleraugum og skartgripum sem sjúklingarnir fleygja fyrir misgáning.

„Ég ætla út,“ kallar hann og grípur jakkann sinn. Hann veit að það er ætlast til að gengið sé frá eldhúsinu strax svo hægt sé að fara að undirbúa hádegismatinn. En það er smáglufa og hann þarf tíma fyrir sig. Hann gengur fram hjá fólkinu og finnur augu þess hvíla á sér en honum er sama.

Hann kemur sér fyrir í litlu skoti fyrir utan húsið. Kippir kraganum á jakkanum sínum upp og reynir að kveikja sér í. Það gneistar af brennisteininum þegar hann trekkir kveikjarann en það kemur enginn logi. Hann hristir hann duglega og reynir aftur. Nú kemur eldur og glóð í enda sígarettunnar. Hann sogar reykinn að sér af áfergju. Svo dregur hann símann upp úr vasa á jakkanum, veltir honum í höndunum og vegur og metur hvort hann eigi heldur að hringja í mömmu sína eða pabba.

„Pabbi.“

„Sæll, Baldur.“

„Hvað er að frétta af ykkur mömmu?“

„Til hamingju með Uglu. Hvernig hefur hún það?“

„Hún er bara góð.“

„Við mamma þín erum með smá gjöf handa henni. Hvernig er best að koma henni til ykkar? Eruð þið enn á stúdentagörðunum?“

„Já, við erum enn þar.“

„Og geturðu fengið að vera þar áfram þótt þú klárir engin próf?“

„Ég veit það ekki?“

„Veistu það ekki?“

„Æ, pabbi. Ég veit það alveg, ég bara díla við það þegar að því kemur.“

„Ætlarðu þá bara að standa einn daginn úti á tröppum með barnið? Og hvað þá?“

„Hérna út af afmælinu hennar Uglu, gætirðu látið mig fá smá pening svo ég geti farið með hana í bíó?“

„Þú veist vel að við mamma þín látum ekki peninga í hendurnar á þér.“

„Þetta er öðruvísi. Þetta er fyrir Uglu ekki mig.“

„Öðruvísi. Þetta er alltaf eins. Alltaf. Hún má alltaf koma hingað, eins og þú veist. Við gætum jafnvel leyft ykkur að koma hérna báðum í þetta sinn. Mamma þín getur eldað eitthvað gott handa ykkur. En þú færð ekki krónu frá okkur.“

„Ég er að reyna að standa mig.“

„Stattu þig bara einu sinni, án fyrirvara og afsakana …“

Baddi leggur á. Þeir eru búnir að fara of oft í gegnum þetta. Hann klárar sígarettuna og stikar svo yfir að bílnum í hríðinni, opnar skottið og lítur í kringum sig. Tekur sígarettukarton undan skítugu nælon-teppi með mynd af hesti. Hann stingur kartoninu inn á sig og stikar til baka en tekur svo snarpa beygju.

Í stað þess að fara aftur inn um starfsmannainnganginn í kjallaranum gengur hann fram fyrir húsið og í átt að björtum aðaldyrunum. Rennihurðarnar ljúkast upp þegar hann nálgast. Inni hristir hann af sér snjóinn og stappar af fótunum. Dúkurinn á gólfinu er grár og gljábónaður, glampinn frá honum er hvítur og sker í augun. Allt er hreint og gljáandi, viðarklæddir veggirnir gulir eins og gull. Þetta minnir hann á sviðsmynd leikrits sem hann sá einu sinni með foreldrum sínum. Það gerðist á himnum og fjallaði um konu sem vildi henda ruslapoka í englana. Þegar hann leiðir að þessu hugann núna finnst honum líklegt að leikritið hafi í raun fjallað um eitthvað annað en svona man hann þetta.

Hann staðnæmist í holi við langan gang og fylgist með gamalli konu með göngugrind silast í áttina að glerbúri þar sem hjúkrunarkona stendur og bíður hennar. Þegar þær taka tal saman laumast hann niður ganginn og smokrar sér svo inn um dyr vinstra megin á honum.

Inni á herberginu er stóll og rúm og náttborð en fátt annað. Það er vítt til veggja og hátt til lofts. Hann svipast um og í fyrstu sér hann engan en svo bærast gluggatjöldin og þá sér hann að undan þeim standa fótleggir í smaragðgrænum velúrbuxum. Lítið nef, beitt haka og hvöss augu gægjast fram. Hún heitir Emilía og þau eru einhvers lags félagar eða kunningjar frekar en vinir.

„Ætlarðu að drepa mig?“ spyr hún hásri röddu og sviptir tjaldinu frá. Hún situr á sólbekknum og reykir út um rifu á glugganum. Hárið er hvítt og fallega lagt, hún krossleggur fótleggina, lætur olnbogann hvíla á hnénu, höndin er grönn og fingurnir langir, milli vísifingurs og löngutangar vegur svart munnstykki salt. Reykurinn stígur upp frá sígarettunni í hlykkjóttri slæðu.

„Dópsalinn bara mættur. Ég bjóst ekki við þér fyrr en í næstu viku,“ bætir hún við.

Baddi strýkur sér um vangann með handarbakinu. Það brakar í skeggbroddunum. Honum finnst hljóðið þægilegt, snertingin róandi.

„Ekki kalla mig þetta,“ segir hann loks.

„Hvað á ég að kalla þig þá?“

„Kallaðu mig bara Badda, eða Baldur.“

„Ekki vera svona viðkvæmur. Ég er að stríða þér. Má maður ekki gera að gamni sínu? Ef þú værir ekki svona sætur þá myndi ég láta einhvern annan sjá um að færa mér sígarettur. Það væri alveg örugglega ódýrara líka“

Hann ætlar að fara að malda í móinn en veit að þetta er rétt hjá henni. Hann selur sígaretturnar ekki ódýrt.

„Ég var að spá hérna …“

Hún tekur af honum orðið: „Vantar þig pening?“

„Stelpan mín á afmæli …“

Hún grípur aftur inn í: „Hversu mikið?“

„Ja, ef þú myndir kaupa af mér eitt karton þá …“

„Mig vantar ekki sígarettur. Það veistu vel.“

Hún horfir á hann án þess að brosa. Ströng á svip. Hann ákveður samt að gera eina atlögu enn.

„Ef þú ættir eitt auka þá þyrfti ég ekki að …“

„Ertu á bíl?“

„Já hann …“

„Ef þú ferð með mig heim skal ég lána þér það sem þig vantar.“

„Ég er í vinnunni, ég get ekki bara farið …“

„Hringdu þig inn veikan.“

„En ég var mættur áðan, ég get ekki bara …“

„Þú ert hérna núna. Farðu þá eitthvað annað ef þú þarft að vera þar.“

Hann andvarpar og bakkar í átt að hurðinni. Leggur höndina á húninn.

„Ég skal gefa þér peninga, eins mikið og þig vantar. Mig langar bara til að komast heim í mitt eigið eldhús, drekka bolla af mínu eigin kaffi. Reykja í mínu eigin húsi.“

Baddi rekur höfuðið út af sjúkrastofunni og kíkir upp og niður eftir ganginum. Gamla konan í göngugrindinni er enn á ferðinni en að öðru leyti er leiðin greið. Hann stígur fram á ganginn og gefur Emilíu merki um að fylgja sér eftir. Hún vildi ekki fara af stað nema skipta um föt, hún er komin í gráan kjól með svörtum földum á hálsmáli og ermum, kjóllinn er tekinn saman í mittið með breiðu belti. Yfir kjólinn hefur hún klætt sig í svartan mittispels. Hún er grönn eins og spotti en samt eru útlínur hennar ávalar og mjúkar eins og á kvikmyndastjörnu frá fjórða áratugnum. Hún hefur líka farið í háhælaða skó og þótt hún reyni að tipla á tánum þá glamrar í öllu þegar hælarnir skella á hörðu gólfinu.

„Hey, þú, Baddi,“ heyrist kallað frá glerbúrinu.

Baddi lítur við. Hjúkrunarkona stendur við glerið en sú gamla í göngugrindinni bendir á eftir honum.

„Hefur þér ekki verið margsagt að vera ekki að sniglast inni á herbergjum sjúklinganna? Þarf ég að hringja á lögregluna?“

Emilía krækir hendinni um upphandlegginn á Badda.

„Við erum bara eins og Bonnie og Clyde,“ hún er örlítið móð og því nýtur drafandi kaldhæðni hennar sín ekki eins vel og alla jafna.

Þau rjúka gegnum litla himnaríkið og út um sjálfvirku glerdyrnar. Það er hætt að snjóa en allt er grátt og kalt. Vindurinn stendur í fangið á þeim og Baddi þarf hálfpartinn að draga Emilíu áfram. Hún er brothætt og létt. Honum finnst eins og hún geti tekist á loft eins og amma mús ef hann heldur ekki þétt. Þegar þau koma að bílnum rífur hann upp hurðina, hún lítur hikandi í kringum sig, beygir svo höfuðið og sópar til bréfarusli og samlokuplöstum með vinstri fætinum um leið og hún sest inn. Baddi hleypur aftur fyrir bílinn og að hurðinni bílstjóramegin. Um leið og hann sest inn lítur hann upp og sér hjúkrunarfræðinginn sem hrópaði á eftir honum standa úti í glugga. Þau horfast í augu. Það eru skuggar á hreyfingu fyrir aftan hana, eins og þar sé hópur fólks en hann veit ekki hvaðan það ætti að hafa komið.

Þau sitja hljóð í bílnum. En það er ekki þögn. Það hvín í dekkjunum og lætur hátt í vélinni. Milli fjallanna í austri og skýjanna á himninum er mjó rönd þar sem geislar sólarinnar brjóta sér leið inn í borgina. Húsin varpa löngum skuggum yfir garða og stræti en þar sem birtan nær í gegn er hún blindandi eins og sprenging.

Þau keyra upp Arnarneshæðina og horfa yfir nýbyggingar, gráa steinsteypuferninga með verksmiðjuplast fyrir gapandi svörtum gluggum. Hann veltir fyrir sér hvar fólkið sem ætlaði að búa þarna sé niðurkomið, hvort það hafi vinnu, eigi börn, hvort það sé enn að máta sig við þessi hús, hvort það sjái fyrir sér framtíð innan veggja þeirra. Eða hvort þessi hús eigi sér hvorki fortíð né framtíð heldur bara eitthvað sem aldrei varð. Honum finnst hann sjálfur eins og þessi hús sem eiga sér stað en engan tíma, standa bara og veðrast, bíða eftir að einhver eða eitthvað komi og glæði tilveruna lífi.

Allt í einu kviknar ljós í einu húsanna, mjúk birta flæðir út um gapandi glugga og litar snjóinn fyrir utan bláan. Og þá verður honum hugsað til Uglu.

Þau keyra inn í einbýlishúsahverfi. Það er gróið en í gegnum laufvana limgerðin sér Baddi húsin sem eru flest á einni hæð og í svipuðum stíl. Þau minna hann á Danmörku eða Svíþjóð, þau bera vott um íburðarlausan munað sem aðeins mjög ríkt fólk getur leyft sér.

„Þetta er næst, beygðu, beygðu,“ segir Emilía óþolinmóð.

Húsið er á kafi í úr sér vöxnum gróðri sem hefur greinilega ekki verið hirtur almennilega í langan tíma. Um leið og Baddi beygir inn á stæðið losar Emilía af sér beltið og tekur um hurðarhúninn. Hún er búin að opna áður en bíllinn staðnæmist og fyrr en varir er hún komin út og tiplar yfir klakabunka á stéttinni. Það liggur stígur upp að húsinu girtur rósarunnum á báðar hendur. Naktar greinar skaga út á stíginn svo oddhvassir þyrnar blasa við. Þungir skaflar slúta fram af þakskeggi hússins, sólbráð drýpur niður á flísalagðar tröppur og ofan í stóra blómapotta. Í botni þeirra má greina moldardrullu en ofan á flýtur íshella með grænum blaðstilkum, eins og sýnishorni af liðnu sumri.

„Gættu að þér,“ segir Emilía og grípur um handriðið, „það er sleipt.“

Svo togar hún sig upp, opnar handtöskuna, fiskar upp lykil og lýkur húsinu upp. Á móti þeim tekur hreinlætisangan sem leggur út í sofandi garðinn. Hann fylgir Emilíu eftir og líður eins og þau séu að ganga inn í gamla ljósmynd, minningu eða draum. Þau fara gegnum anddyrið og inn í stofu, þar hanga málverk á veggjum yfir mublum með hvítum lökum. Glerin í rúðunum eru dekkt og fyrir gluggunum hanga þung tjöld. Það rennur upp fyrir Badda að hann er enn í skónum. Hann rennir sér úr þeim og finnur mjúka mottu kitla á sér ilina gegnum gat á sokknum.

Emilía gengur að glugga og sviptir gluggatjöldunum frá. Ljósið flæðir inn að baki henni og Baddi fær ofbirtu í augun, hún leggur annan lófann á mjöðmina en lyftir hinni hendinni upp með leikrænum tilþrifum. Hann virðir hana fyrir sér og finnst þetta vera sköpulag ungrar konu frá öðrum tíma, skuggamynd Marlene Dietrich eða Miriam Hopkins. Svo stígur hún út úr ljósinu og verður aftur hún sjálf en þó ekki alveg, hreyfingar hennar eru liprari, andlitsdrættirnir mýkri en augun fölblá og köld. Svöl í stofuhitanum.

Þau koma sér fyrir í eldhúsinu. Hann situr við eldhúsborð en hún stendur við vaskinn og horfir út um gluggann. Hún lætur vatnið renna, skolar kaffikönnuna annars hugar. Badda finnst eins og það sé farið að skyggja, limir trjánna eru grannir og berir, hríslast upp í himininn eins og æðar á fölri hönd eða sprungur á gráum vegg. Yfir eldhúsborðinu hangir lítið kúpt ljós og gulleit birta hvolfist yfir borðið. Emilía skrúfar fyrir vatnið og hellir upp á kaffi með fumlausum hreyfingum. Svo sest hún hjá honum við borðið. Hvílir andlitið í lófunum eins og lítil stelpa. Virðir hann fyrir sér. Honum finnst athyglin óþægileg en hann horfir á móti. Reynir að vera svalur, lætur sig síga ofan í sætið, leggur handlegginn yfir stólbak við hliðina á sér. Svo dregur hann sígarettu upp úr pakka í innaná vasanum á jakkanum. Lætur hana lafa úr munnvikinu. Hún teygir sig í veskið sitt sem liggur á borðinu. Tekur upp kveikjara og ber eldinn að sígarettunni hans. Hann dregur hægt ofan í sig. Blæs svo reyknum upp í ljósið.

„Þú ættir að giftast til fjár. En þú mátt ekki bíða of lengi. Einn daginn ertu ekki ungur lengur og þá vill þig enginn,“ segir hún.

„Ég væri alveg til í að vera upp á punt. Mér leiðist allt þetta sem maður þarf alltaf að vera að gera,“ segir hann og reynir að hljóma skeytingarlaus.

„Það er best að gera ekki neitt. En það er mjög dýrt ef maður vill njóta þess. Maður þarf að geta einbeitt sér að því. Margir vilja stjórna manni. Gera mann að einhverju öðru en maður er.“

„Ert þú eitthvað?“

„Nei, mér hefur tekist að vera ekkert. Stærsta freistingin mín var að verða mamma en ég stóðst hana.“

„Af hverju?“

„Af hverju? Af hverju á ég ekki börn? Þetta er ófrumlegasta spurning sem þú getur spurt mig. Stundum finnst mér að það hafi verið ævistarf mitt að svara þessari spurningu. Þú ert ekki mjög gáfaður er það?“

„Nei, ætli ég sé ekki bara svona venjulegur nútímaasni.“

„Menn af þinni kynslóð hætta aldrei að hugsa um sig sem börn foreldra sinna, fremur en feður barnanna sinna. Ég held að þetta sé kostur, þetta heldur ykkur unglegum.“

„Ég er pabbi,“ segir hann ákveðið.

„Já, en það hlýtur að hafa verið slys, er það ekki? Maður eins og þú eignast barn af því að hann passar sig ekki nægilega vel.“

„Ég er slys. Hún er kraftaverk.“

„Mér hefur alltaf virst það voðalegt vesen að vera með börn. Þau slíta alveg í sundur hjá manni daginn.“

„Ég er ekki neitt.“

„Þú ert fallegur. Og það er gaman að horfa á þig.“

„Getum við farið að koma?“

„Gerðu eitt fyrir mig fyrst, farðu upp í svefnherbergið mitt og veldu þér jakkaföt. Ertu ekki að fara að halda upp á afmæli á eftir? Það er fullur skápur af jakkafötum af manninum mínum þarna uppi. Sniðin eru kannski gömul en þetta er allt eins og nýtt.“

„Getum við svo farið.“

„Drífðu þig nú. Ég er spennt að sjá.“

Hann þarf að ganga upp nokkur þrep til að komast úr holinu og inn á svefnganginn. Það eru myndir á veggjunum og hann staðnæmist við einn þeirra. Þetta eru myndir úr hjónalífi Emilíu og mannsins hennar. Á þeirri efstu situr hann í stól en hún á armbríkinni. Hann er sólbrúnn og snyrtilega klipptur. Jakkafötin hans eru blá og bindið mjótt. Hárið á Emilíu er uppsett. Meðfram öðrum vanganum hlykkjast hárlokkur í langri slöngu. Kjóllinn sem hún klæðist er þröngur og fellur þétt upp að líkamanum. Hann er hvítur með gylltu mynstri. Þau minna hann á Kennedy og Jackie. Hann ímyndar sér að maðurinn sé flugmaður en hann hefur ekkert fyrir sér í því. Á myndinni fyrir neðan eru þau á sólarströnd. Maðurinn hefur bætt aðeins á sig en hann er samt fallegur. Hann er í James Bond sundskýlu en hún í gulu bikiníi. Baddi tekur myndina varlega af veggnum til að geta skoðað hana nánar. Geirvörturnar á henni sjást greinilega í gegnum blautt efnið og hann veltir því fyrir sér hvort það sjáist móta fyrir sköpum hennar í gegnum buxurnar. Hann finnur hvernig allt bróðrennsli líkamans tekur stefnu á einn stað og honum finnst skrítið að fýsa til einhvers í fortíðinni og veltir því fyrir sér hvort til sé eitthvað sérstakt hugtak yfir þetta. Hann hengir myndina aftur varlega á vegginn og heldur áfram inn eftir ganginum.

Emilía hafði sagt honum að þetta væru þriðju dyr til vinstri. Þegar hann kemur að þeim opnar hann varlega. Á hægri hönd stendur snyrtiborð undir spegli sem er hengdur upp á vegginn. Hjónarúmið er stórt með háum gafli. Sitt hvorum megin við það standa náttborð og á borðinu hægra megin stendur hvít stafræn vekjaraklukka. Hún er með svartan skjá sem sýnir blikkandi grænar tölur. Hann ímyndar sér að þetta hljóti að hafa verið hlið mannsins og sest á rúmbríkina, opnar skúffu á náttborðinu og sér stórt gullið armbandsúr. Hann tekur það upp og virðir það fyrir sér. Vísarnir á því eru líka stopp. Baddi festir það á úlnliðinn á sér áður en hann stendur upp. Hann gengur að fataskáp sem stendur vinstra megin við rúmið. Hann er innbyggður í vegginn. Baddi rennir hurðinni frá og við honum blasa jakkaföt og skyrtur sem er greinilega raðað eftir litum. Hann leitar að hvítri skyrtu og finnur eina með mátulega opnu hálsmáli, tekur hana fram og leggur á rúmið. Síðan flettir hann í gegnum jakkafötin uns hann finnur blá tvíhneppt jakkaföt sem minna hann á þau sem maðurinn klæddist á myndinni.

Hann klæðir sig varlega úr fötunum og leggur þau á rúmið. Allt í einu rennur upp fyrir honum hvað þau eru skítug og slitin. Hann þefar undir höndunum á sér og fitjar upp á trýnið. Hann lítur niður eftir líkama sínum og niður á fæturna þar sem önnur stóra táin blasir við honum gegnum gat á sokknum. Hann opnar skápinn betur og gramsar uns hann finnur sokka. Og fyrst hann er byrjaður ákveður hann að finna sér nærbuxur líka. Þegar hann er búinn að skipta um sokka og nærföt klæðir hann sig varlega í hvíta skyrtuna og hneppir tölunum hverri á fætur annarri. Síðan fer hann í jakkafötin. Þau smellpassa. Hann gengur að snyrtiborðinu og skoðar sig í speglinum.

Hann er fallegur.

Hann tekur bursta og reynir að greiða sítt hárið bak við eyrun. Hann langar til að komast í klippingu og helst langar hann til að láta þvo á sér hárið líka. Það er ekki til meiri unaður í heiminum en að láta aðra manneskju þvo á sér hárið, hugsar hann með sér. Hann fer aftur í skápinn og finnur bindi sem hann hnýtir á sig. Hnúturinn situr ágætlega en bindið er klaufalega stutt. Hann prófar að hneppa að sér jakkanum og þá ber lítið á því. Á botni skápsins eru skókassar í stöflum. Hann tekur einn staflann og leggur á rúmið. Í þeim fyrsta eru rauðbrúnir skór, fallegir en honum líka þeir ekki. Í þeim næsta er svarblátt par sem hann fílar. Hann tekur óhreinu nærbuxurnar sínar af rúminu og notar þær til að pússa skóna varlega. Þeir gljáa. Þegar hann er kominn í þá finnur hann að þeir eru þröngir en ekki of litlir. Hann gengur aftur að speglinum og kinkar til sín kolli: „Þetta er nú bara vinnugallinn,“ segir hann og hlær með sjálfum sér í speglinum.

Um leið og hann gengur út úr herberginu kallar hann:

„Hér kem ég.“

Hann finnur hvernig fötin krefjast ákveðins göngulags, hann lítur ákveðið til hvorrar handar, það er sláttur á honum. Þegar hann kemur fram á skörina staðnæmist hann. Emilía stendur í holinu með hendur fyrir augum.

„Má ég kíkja núna,“ segir hún.

Hann svarar ekki heldur ræskir sig bara. Fylgist með henni taka hendurnar frá augunum og finnur bros breiðast út um andlit sitt um leið og hún brosir. Hún klappar saman höndunum.

„Þú ert glæsilegur. Komdu nú og sestu.“

Hún réttir honum höndina og teymir hann inn í stofuna. Leggur lófana að brjósti hans um leið og hún ýtir honum stríðnislega niður í hægindastól.

„Svona fínn maður verður nú að fá drykk.“

Hún gengur að skenk og tekur fram kubbslegt kristalsglas og flösku, hellir svo upp í það mitt. Það er eins og allur líkami hans skynji etanólið í loftinu. Hann finnur fyrir köldum svita í handarkrikunum, kláða á upphandleggjunum og í hnésbótunum. Baddi hallar sér aftur í stólnum og það brakar í leðrinu. Hún setur glasið á bakka og lyftir honum svo hátt yfir höfuðið á sér. Gengur til hans hægum skrefum, vaggar sér. Þegar hún réttir honum drykkinn óttast hann að hann muni mölva kristalinn í greip sinni. Hann ber glasið hægt upp að vitunum, þvingar sig til að þefa rólega áður en hann dreypir á. Það fer um hann titringur, honum finnst eins og hann sé að missa fótanna, hann sé kominn á flot. Hann lygnir aftur augunum og sér fyrir sér pálmatré, nú flýtur hann á vindsænginni, öldurnar eru enn hægar. Emilía er komin í gula bikiníið, hún skríður upp í fang hans. Honum líður eins og hann sé bæði lítill og stór, hvorki of heitur né of kaldur, ekki mjúkur eða harður. Bara alveg mátulegur.

Það getur enginn maður staðist allar freistingar, hugsar hann, ég er bara mannlegur. Maður hlýtur að mega láta eitthvað eftir sér. Hann gefur frá sér hljóð, einhvers lags ýlfur sem er erfitt að meta hvort sprettur af angist eða ánægju.

Dreggjar dagsins líða um stofna trjánna og blæða út í himininn eftir grönnum limum. Fuglar fælast af greinunum og safnast saman, sveima eins og torfa af spretthörðum fiskum sem tekur allt í einu viðbragð og kafar ofan í djúpið. Himinninn er enn blár en en ofan úr honum fellur nóttin.