Hverjum Feneyjum sinn ferðalangur

Kári Tulinius

1. ferðalangur í Feneyjum

Ástæðan var kannski sú að ég hafði fyrst veitt rammanum athygli. Gyllingin hafði máðst af á nokkrum stöðum og í einu horninu voru samskeytin rétt farin að gliðna sundur. Því var það utanvert sjónsviðið, ekki brennipunkturinn, sem innbyrti málverkið. Svo allt í einu tók meðvitundin eftir því sem var á miðjum myndfletinum, fyrir framan vönd af blómum í alls konar litum og kerti með daufum loga, skorðað milli bókar sem var opin í miðju og einhvers konar rullu sem hafði verið rúllað saman.

Hugur minn skildi ekki hvað augun sáu. Þetta var hauskúpa, mennsk en samt ekki. Það fyrsta sem ég tók eftir var hægri augntóftin, hún var næstum alveg hringlaga, en efst otaði beinið dálítið fram og neðst var eins og það hefði brotnað og gróið aftur. Útlínur öskrandi gins. Munnurinn sjálfur var afmyndaður, tennurnar í efri og neðri góm sköguðu fram og í stað tómsins milli þeirra var bein, í aðeins öðrum lit en hauskúpan, eins og einhver læknir hefði grætt bein úr annarri manneskju, eða dýri, fyrir hálsopið. Ég fór að finna fyrir því hve lítið gatið innst í eigin munni var og hve auðvelt það yrði að stífla það. Höfuðlagið var líka rangt, eins og flatt út. Þetta var ekki bara memento mori, heldur líka vitnisburður um það hvað myndi koma fyrir líkama fordæmdrar sálu í helvíti. Ósjálfrátt fór hugur minn að klæða þennan hrylling skinni, hári og augum. Annað augað var á miðri kinn, nefið var margbrotið, tennurnar stungust út gegnum húðina. Augun voru full af tárum, eftirsjá og pínu.

Svo jafn snögglega og hugurinn hafði fyllst af hryllingi skildi ég að þetta var hauskúpa á hlið. Það sem ég hafði haldið að væri hægri augntóftin var opið þar sem heilinn tengdist mænunni, í stað efri og neðri góms þá var þetta bara sá efri og framtennurnar höfðu dottið úr. Ég var þó enn fullur af ónotum, svo ég horfði frá myndfletinum og skoðaði skiltið undir rammanum. Dæmisaga um hégóma, frá 1679, eftir Nicolaes van Verendael, 1640 til 1691. Ég leit aftur á málverkið og gat ekki séð aftur þessa skelfilegu sýn sem hafði svo rækilega slegið mig út af laginu og fyllt mig skelfingu. Nú sá ég bara það sem hafði verið málað.

Meðvitund mín var eins og tjörn í stormi. Athygli mín jafnaði sig ekki eftir þennan viðburð, sem tók líka yfir minnið og ýtti öðru sem ég hafði séð burt, svo öll sú list sem ég skoðaði eftir þetta skildi engin ummerki eftir sig í huga mínum. Ég hafði farið á safnið til að berja augum Vitrúvíska manninn eftir Leonardo da Vinci, hinn fullkomna líkama endurreisnarkarls, með sína átta limi eins og könguló. En teikningin hafði ekki verið til sýnis, svo í stað þess vafraði ég um safnið eins og draugur í leit að tilgangi eigin ótilveru. Úti, á veitingastað í korters göngufæri, beið mín Margeir, fyrrverandi kærasti minn sem ég hafði planað þetta Interrail-sumar með.

Við höfðum kynnst í menntaskóla, farið saman í heimspeki í háskólanum, og eftir því sem árin liðu hafði mér orðið ljóst að ef ég leyfði sambandinu að halda áfram þá myndi það enda í sambúð, hjónabandi, barneignum, húsnæðiskaupum, brúðkaupsafmælum sem væru mæld í tugum, og loks tveggja nafna á einum legsteini. Ég vildi það ekki, ekki þessi þægindi, ekki tilbreytingarleysið. Sambandsslitin urðu þó í platónskri vinsemd og því höfðum við ákveðið að fara saman í reisuna. En vinskapurinn þoldi ekki ferðalagið, sérstaklega ekki eftir að Margeir kynntist Virpi, finnskum tangódansara og skólastjórnunarnema á eigin lestarferð. Þegar ég kæmi inn á staðinn myndu þau sitja gegnt hvort öðru við ílangt borð og ég þyrfti að velja mér sæti. Að einhverju leyti langaði mig heldur að sitja við hlið hennar. Þótt hún væri einungis fjórum árum eldri en ég fannst mér hún vera orðin fullorðin á einhvern hátt sem ég myndi aldrei verða, viss í sjálfri sér. Ég skildi ekki alveg hvað hún sæi í Margeiri, sem mér fannst fyrir nokkrum mánuðum vera svo umfangsmikill í veröldinni. Núna skildi ég að hann væri óharðnaður, leir sem mótaðist af hverri hönd sem snerti hann. Kannski var það það sem henni líkaði, að hún gæti gert úr honum hvern þann sem hún þyrfti.

Ég dró símann minn upp úr vasanum og byrjaði á smáskilaboðum um að ég myndi ekki koma, heldur fara heim til Íslands með næstu vél, burt frá þessari stöðugu ónotatilfinningu, en hætti svo við, eyddi því sem ég hafði skrifað. Ég vildi ekki vera sú sem myndi fara, þetta var líka mitt frí, en ég vildi heldur ekki ferðast alein. Ég treysti sjálfri mér en ekki heiminum. Svo ég fór út af safninu, leitaði að veitingahúsinu í símanum og leyfði honum að leiðbeina mér gegnum þröngar götur borgarinnar og yfir tvær brýr, á réttan stað.

Þegar ég kom inn skildi ég á svip Margeirs að grátt var milli þeirra. Tilfinningarnar sem venjulega léku á andliti hans eins og skuggamyndir á tjaldi voru nú faldar bak við föla grímu. Virpi leit út eins og fokreið gyðja á endurreisnarmálverki, miðja alls, grafkyrr og reiðubúin til að ljósta niður þann sem henni mislíkaði. Ég stóð fyrst við hlið borðsins eins og tré í vindi, sveiflaðist til beggja hliða og þorði ekki að setjast. Svo tók ég eftir því að þjónn kom út úr eldhúsinu með tvo bakka fullhlaðna af mat, og ég stóð í gangveginum. Án umhugsunar settist ég við hlið Virpi, sem sneri sér að mér:

„Svo þið voruð par.“

„Já.“

„Hann sagði mér það ekki. Hann sagði mér svo margt annað ekki heldur.“

„Nú?“

„Ég er bara stundargaman.“

„Ég meinti það ekki þannig,“ sagði hann pirraður.

„Ég spurði hann hvenær ég gæti komið í heimsókn til Íslands en það var of flókið.“

„Ég sagði ekki að það væri of flókið, bara að það væri flókið.“

„Það sem var flókið varst þú,“ sagði Virpi og horfði á mig.

„Ég?“

„Ég sagði ekki að þú værir flókin,“ sagði Margeir, „heldur að sambandið milli okkar væri flókið.“

„Sambandið milli okkar?“

„Hann sagði,“ hún horfði stíft á mig, „að hann héldi að þú værir enn ástfanginn af sér, og hann kannski líka.“

„Ástfanginn?“ Ég hló ósjálfrátt, og hló svo aftur, af því að mér datt ekkert annað í hug. Margeir var enn á svipinn eins og helgríma. Nei, eins og hvítt tóm, ekkert til að gefa andlitinu samhengi, augu sem flutu ótengd, nef að anda engu, hár sem óx úr jökli, eyru eins og mölur að degi til. Það var engu að svara, svo ég sagði við Virpi:

„Komdu. Förum héðan, ég og þú.“

2. ferðalangur í Feneyjum

Eitt sinn kom listamaður sjóleiðis til Feneyja. Stýrimaðurinn tók sótt, og þegar til hafnar var komið höfðu margir um borð lagst veikir. Yfirvöld í lýðveldinu fyrirskipuðu að skipið skyldi sett í sóttkví í fjörutíu nætur. Plágan blómstraði í hverjum skipverjanum og farþeganum af öðrum. Þeir fóru að deyja unnvörpum. Á fertugasta og fyrsta degi voru eftirlifendur ferjaðir til borgarinnar, þar á meðal listamaðurinn, sem hafði einskis meins sér kennt. Hann fór svo til hefðarkonu þeirrar sem hafði ráðið hann til að koma og mála af dóttur sinni mynd, sem yrði svo send hertoga í nálægu héraði sem átti nokkra syni.

Listamanninum var greiddur fjórðungur launa sinna þegar hann hóf störf, og bjóst við því að fá afganginn þegar hann væri búinn. Hefðarkonan, eða réttara sagt ráðsmaður heimilisins, tilkynnti hins vegar þegar hún hafði fengið málverkið í hendur, að einungis fjórðungur yrði greiddur út, en hann fengi ekki helminginn sem stæði útundan nema einn af sonum hertogans hrifist svo af kvenmyndinni að hann vildi ólmur giftast stúlkunni sem hafði setið fyrir.

Leið og beið án þess að orð bærist frá hirð hertogans og fór listamaðurinn að ókyrrast, enda biðu hans önnur verk. Stakk þá plágan sér niður í nærsveitum borgarinnar, íbúum hennar til mikillar skelfingar, sem létu loka öllum hliðum, brjóta brýr og sökkva ferjubátum, svo enginn kæmist til lýðveldisins frá landi. Listamaðurinn sá fram á að þurfa að bíða óralengi eftir launum sínum svo hann ákvað að þrýsta á greiðsluna, en hefðarkonan, eða allavega ráðsmaðurinn, neitaði.

Þá bað hann um áheyrn hjá húsbónda heimilisins, sem var háttsettur innan lýðveldisins, og þráði að ná æðstu valdatign sem þar fyrirfannst. Hefðarmaðurinn tók listamanninum vel og spurði hvers hann beiddist. Listamaðurinn sagðist hafa frá einhverju að segja sem hann gæti aðeins gert undir fjögur augu, sem varðaði heill Feneyja, en hefðarmaðurinn yrði að sverja þess eið að upplýsa ekki nokkra sálu um það sem honum yrði sagt. Hefðarmaðurinn var forvitinn og vongóður um að læra eitthvað sem myndi nýtast honum til metorða, svo hann játti, og sendi ráðsmann sinn og annað þjónustulið á brott. Listamaðurinn mælti:

„Þér hafið kannski heyrt að ég kom hingað á sóttskipi, og þótt nærri allir aðrir hafi látist þá lifði ég af. Nú þegar plágan ógnar borginni þá vil ég bjóða henni þjónustu mína, því ég er eigi einfaldur málari heldur í mörgu kunnugur, hafandi rannsakað mörg gömul rit frá tímum forfeðra okkar. Í einu þeirra, sem hinn kenjótti höfuðsmiður Vitrúvíus samdi, voru fyrirmæli um það hvernig bægja skuli frá farandkvillum. Sannast sagna hafði ég vonast til þess að þurfa aldrei að beita því ráði, en þar sem ég horfði upp á fólk hrynja niður úr pest í kringum mig þá skildist mér að ég ætti mér ekkert val í stöðunni, annaðhvort færi ég að ráðum hins forna seiðkarls ellegar færist. Tveir aðstoðarmenn mínir voru með í för og urðu báðir sóttdauðir. Ég aflimaði annan þeirra samkvæmt þeim hlutföllum sem Vitrúvíus mælti fyrir um, og saumaði fætur og leggi fasta við hinn, dró hring og ferning utan um þá með pestarblóði, og beið þess sem verða vildi. Enginn á skipinu lést eftir það, eins og staðið hafði í fornbókinni.“

Hefðarmaðurinn undraðist þessa sögu, eða játningu, því lögunum samkvæmt hafði listamaðurinn fyrirgert lífi sínu með því að limlesta líkin. En hann skildi líka ótta listamannsins og hugsaði með sér að gott væri að kunna svona nokkuð fyrir sér, því ef hann bjargaði lýðveldinu frá plágunni myndu mektugir borgarbúar kjósa sér hann sem leiðtoga. Hann byrjaði þá á því að hóta listamanninum dauða, en sagðist svo myndu sleppa því að tilkynna svívirðu hans til yfirvalda gegn því að fá nákvæmar leiðbeiningar. Listamaðurinn kastaði sér þá fram á hnén, þakkaði fyrir miskunn þá sem hefðarmaðurinn sýndi honum og sagðist myndu fara strax frá borginni og skilja leiðbeiningarnar eftir, ef aðeins hann fengi greitt út það fé sem hann átti inni. Hefðarmaðurinn samþykkti það og sagðist myndu senda ráðsmanninn til hans með fé seinna um daginn, og taka við leiðbeiningunum.

Listamaðurinn hafði pakkað föggum sínum og bað ráðsmanninn um að láta setja þær í gondól, sem hann gerði. Þegar ráðsmaðurinn hafði tekið við teikningu og bréfi með fyrirmælum samkvæmt forskrift Vitrúvíusar fékk hann listamanninum pyngju með fénu fyrir málverkið. Listamaðurinn sagði þá við ráðsmanninn að ef hann vildi koma sér enn frekar í mjúkinn hjá meistara sínum, þá skyldi hann segjast hafa heyrt að til að lesa galdur frá fornöld þyrfti að spegla skriftina í skuggsjá. Listamaðurinn fór í gondólnum til hafnarinnar og upp í skip sem sigldi þann dag í burt frá borginni. Þegar hefðarmaðurinn fékk blaðsíðuna í hendurnar þá varð hann fyrst hvumsa, því hann gat ekki lesið neitt sem þar stóð. Þá sagði ráðsmaðurinn að gamall maður í þorpi því sem hann ólst upp í hafi sagt að til að lesa fjölkynngirit frá fornöld þyrfti að spegla þau í skuggsjá. Hefðarmaðurinn hafði ekki mikið álit á gáfum ráðsmanns síns en lét samt færa sér skuggsjá, og sér til undrunar gat hann þá lesið það sem þar stóð.

Nokkru seinna fóru borgarbúar að látast úr plágu, fyrst einn, svo fleiri, loks heilu hverfin. Mektarfólk lýðveldisins, sem alla jafna flýði borgina þegar svona stóð á, gat það ekki því að öllum ferjubátum hafði verið sökkt, brýr brotnar, og engin höfn myndi taka við skipi sem kæmi frá borg þar sem faraldur geisaði. Því greip um sig mikil hræðsla meðal hefðarstéttarinnar. En á fundi í æðsta ráði lýðveldisins steig aðalsmaðurinn fram og sagðist hafa lesið í fornu riti um galdur til að bægja frá alls kyns farandkvillum. Hann fékk ekki mikinn meðbyr á þessum fundi en næsta dag, eftir að beygurinn hafði leikið um vit fyrirmenna alla nóttina, þá voru margir til í að heyra um þennan galdur. Ekki minnkaði ótti þeirra eftir að hefðarmaðurinn lýsti því sem hann hygðist gera, en hann fékk leyfi til að prófa.

Hann fór þá með ráðsmanni sínum og litlum flokki háttsettra manna í lýðveldinu, inn í hverfi þar sem útlendingar höfðust við og margir höfðu látist af plágunni. Ráðsmaðurinn fékk það hlutverk að hluta eitt lík sundur og sauma limina við annan örendan mann. Hefðarmaðurinn átti þá að draga hringinn og ferninginn úr blóði þess aflimaða, en hann féll í öngvit og því kom það í hlut ráðsmannsins.

Næsta dag hélt plágan áfram að geisa um borgina og líka daginn þar á eftir. Á þriðja degi létu yfirvöld sækja hefðarmanninn og ráðsmanninn og var sá síðari færður í járn. Hefðarmaðurinn sagði eins og var, að listamaðurinn hefði blekkt sig, og sagði þeim allt sem þeim hafði farið á milli. Yfirvöld sendu þá fulltrúa til að reyna sannleiksgildi sögunnar, og sendu hefðarmanninn heim og ráðsmann hans í dýflissu, þar sem hann dúsaði um nóttina.

Um morguninn kom ráðið allt saman og fulltrúinn flutti skýrslu sína. Vissulega hafði listamaðurinn dvalið hjá hefðarmanninum, og verið í sóttkví, en hann hafði enga aðstoðarmenn haft með sér, heldur ferðast einsamall með skipinu. Hefðarmaðurinn reif þá klæði sín og grét í örvinglan um að hann hefði fyrirgert lífi sínu, en hugkvæmdist svo að segja að ráðsmaðurinn hefði komið með teikninguna til sín og sýnt honum hvernig ætti að lesa galdrarit. Ráðsmaðurinn hrópaði að hann væri saklaus en múll var bundinn um munn hans og hann svo færður aftur í dýflissuna og pyntaður til dauða.

Hefðarmaðurinn var sviptur öllum valdatignum og svo mælt fyrir að hann hlyti engin metorð framar. Sjálfum fannst honum þessi skömm verri en nokkur dauði svo hann reyndi að gleyma því öllu í veisluhöldum og öðru svalli. Dóttirin sem listamaðurinn hafði málað dó úr pestinni, og syrgði móðir hennar hana mjög og hengdi málverkið af henni upp í salarkynnum sínum. Löngu seinna var safnari nokkur gestur í sama glæsihýsi og listamaðurinn hafði dvalist í, og var að skoða bókasafnið þegar hann rakst á teikningu listamannsins af áttlimaða karlinum. Hann þekkti spegilskrift hans, og stal myndinni.

3. ferðalangur í Feneyjum

„Hvað er klukkan?“

„Rétt rúmlega sex.“

„Jeminn, við lentum ekki fyrr en eftir miðnætti og þú ert vaknaður.“

„Ég er bara svo spenntur. Mig dreymdi meira að segja vitrúvíska manninn. Eða allavega ferhenda, fjórfætta mannveru. Það var frekar óhugnanlegt reyndar, hálfgerð martröð.“

„Og þú fórst beint að skoða myndina úr martröðinni. Þú myndir ekki endast lengi í hryllingsmynd.“

„Hehehe, já. Það verndar mig samt örugglega frá illu að ég er að skoða spegilmynd af vitrúvíska manninum. Da Vinci skrifaði með spegilskrift kringum myndina, og ég vildi lesa þetta. Ég fattaði að ég hef alltaf bara lesið textann skrifaðan upp. Mig langaði að athuga hvort ég gæti lesið rithöndina hans, allavega speglaða.“

„Geturðu það?“

„Já en það er auðvitað dálítið svindl, því ég veit hvað stendur í textanum.“

„Sem er … ?“

„Þetta er endursögn á umfjöllun Vitrúvíusar um hlutföll mannslíkamans, en reyndar ekki alveg samkvæmt Rómverjanum, því hann gerði eigin mælingar og komst að því að arkitektinn gamli hafði ekki alveg rétt fyrir sér. Í stað þess að hægt væri að draga hring og ferning kringum mannslíkamann, og að naflinn væri miðja beggja, fann Da Vinci út úr því að mannslíkaminn hefði tvær miðjur, naflinn væri vissulega miðja hringsins, en typpisrótin væri miðja ferningsins.“

„Meikar sens, annað kemur að getnaði, hitt að fæðingu.“

„Hahaha! Það er miklu betra en það sem ég var að hugsa um.“

„Hvað var það?“

„Ég var að pæla í því hvernig hann mældi frá typpisrótinni. Batt hann snæri utan um liminn sem hann svo sneri í allar áttir?“

„Hahaha! Aumingja aðstoðarmaðurinn.“

„Sumum fyndist það bara hott. En ég held að hann hafi mælt marga menn.“

„Það hefur verið hott, að binda snæri um alla þessa gaura. Kannski hnýtti hann svo snærin saman.“

„Hann mældi bara einn í einu, vitlaus!“

„Hvernig veistu það?“

„Nei, ég veit það ekki. En hitt er fáránlegt.“

„Fáránlega sexý, meinarðu.“

„Ég meinaði fáránlegt. Þrátt fyrir allar þe.…“

„Hann hefur allavega þurft að grípa utan um liminn á fyrirsætunni … einhvern veginn svona.“

„Ég er ekki alveg í stuði, sorrý, ég er bara allt of þreyttur.“

„Annað segir litli vinur þinn.“

„Líkaminn er til í tuskið en hugurinn er eins og undin tuska.“

„Fokking skáld, alltaf.“

„Hehehe. Skáld ekki fokking núna.“

„Þú ert óforbetranlegur.“

„Þrátt fyrir allar … þrátt fyrir … ég man ekki hvað ég ætlaði að segja.“

„Typpisrót? Aðstoðarmaður? Vitrúvíus?“

„Þrátt fyrir allar þessar pælingar! Pælingar! Pælingar fólks í leit að einhverjum leyndarmálum eða skilaboðum í verkum Da Vinci þá var hann bara að mæla út og sannreyna það sem hann las í gömlum bókum. Einhverjir vilja meina að hann hafi verið að smíða nýja heimsmynd á mörkum raunsæis og fornrar heimspeki en hann virðist ekki einu sinni draga neina sérstaka niðurstöðu af því að hafa fundið út að nafli mannsins er ekki eini nafli heimsins, heldur er typpið líka nafli alls.“

„Nú fékk ég alveg hrikalega truflandi mynd í hugann.“

„Ha ha ha! Hættu!“

„Hahahaha! Geturðu ímyndað þér einhvern að tr…“

„Nei! Ég er að reyna að gera það ekki. Ég kom til Feneyja til að rýna í æðstu birtingarmyndir mannsandans, ekki ímynda mér einhvern viðbjóð.“

„Og ég kom bara til að vera með þér. Og fara í frí. Og sleppa burt af skerinu. Og líka fara á listasöfn. Og í kirkjur. Og fljóta um á gondóla. Og vera á hóteli með þér. Sofa í sama rúmi og þú. Vakna í sama rúmi og þú“

„Ég veit ekki alveg hvers vegna, kannski einhverjir fordómar fyrir kaþólikkum, en ég hélt að það yrði vandamál fyrir okkur að fá hótelherbergi saman. Svo var það ekkert mál. Minna mál en hvernig ætti að stafsetja nöfnin okkar með öllum þessum þornum og eðum.“

„Næturvörðurinn starði á nafnið í passanum eins og hann væri að horfa á einhvern troða typ…“

„Hættu! Oj! Ekki ekki ekki.“

„Jæja, það er þá kannski útséð með að byrja daginn á því að ríða.“

„Sérstaklega ef þú heldur áfram að tala um eitthvað svona ógeðslegt.“

„En þetta er bara ímyndun. Ekkert óraunverulegt getur verið ógeðslegt, bara raunveruleikinn.“

„Segir hryllingsmyndaaðdáandinn.“

„Nei, hryllingsmyndir eru raunverulegar, þess vegna er svo gott fyrir sálina að horfa á þær. Þá fáum við útrás fyrir allt það sem við óttumst og höfum beyg af, hræðsla er upplífgandi þegar hún hittir okkur fyrir í öryggi kvikmyndasalarins eða sófans heima.“

„Fyrir þig kannski, ég tek hana með mér heim í myrkur svefnherbergisins þegar ég er að reyna að sofna. Ég fæ of oft martraðir til að geta notið hryllings.“

„Það fær þá einhver að fara heim með þér.“

„Ekki núna, of flókið. Þú veist að það er flókið. Það eitt að vera ég heima hjá mér er flókið.“

„Heimurinn er flókinn! Manneskjan er flókin! Lífið er flókið!“

„Frí eru einföld. Og myndlist. Listin er einföld. Þar er aldrei neitt annað nema það sem augun sjá, allt annað býr hugurinn til. Það verður svo gaman að standa með þér fyrir framan vitrúvíska manninn og tala við þig um það sem við sjáum.“

„Má ég sjá núna.“

„Það er ekki það sama og að sjá alvöru verkið.“

„Mér er sama, réttu mér.“

„Ókei.“

„Af hverju er þetta vitrúvíski maðurinn, en ekki vitrúvísku mennirnir?“

„Af því að þetta er einn maður í tveimur pósum. Eða kannski sextán pósum í allt.“

„Nei nei, þetta er einn maður að taka annan mann aftanfrá.“

„Fjandakornið, geturðu ekkert hugsað um annað en kynlíf?“

„Sko, þeir liggja flatir og þetta er séð neðanfrá, gegnum rúmið. Sá neðri er með fæturna glennta sundur og heldur í rúmpóstana meðan sá efri er með fæturna saman og lyftir sér upp á rúminu meðan hann er að ríða hinum.“

„Hahaha! Þetta er allavega betra en myndin sem þú settir í hugann á mér áðan.“

„Eigum við að gera rannsókn á þessu, í anda Da Vinci?“

„Hvað meinarðu?“

„Nú, ég er ekki alveg viss um að þetta gangi. Er hægt að ýta sér upp með þráðbeinum handleggjum? Það þarf að gera tilraun til að sannreyna þetta forna rit, og jafnvel bæta aðeins við þekkingu mannsandans.“

„Hahahahaha! Já, þú segir nokkuð. Af hverju ekki? Meðan þú bindur ekki snæri um typpið á mér.“

„Ég tók ekkert snæri með mér.“

4. ferðalangur í Feneyjum

Áfallið við að vera í líkama var alltaf það versta við að ferðast aftur á bak í tíma. Það fannst þjófnum allavega. Allar þessar neglur, limir sem þrýstust burt frá búknum, harðar tennur, öll þessi op, hann hryllti við að hugsa um þau, og sérstaklega hárin, þessi hundruð þúsunda bifandi strengja sem hylja mismikið af húðinni, sem sjálf er gerð úr hrikalegum flögum. Ekki það að allt annað við að ferðast um í tíma og rúmi væri skemmtilegt, allt lyktaði illa í fortíðinni, hávaðinn var yfirleitt óbærilegur, maturinn óætur og svo hafði hann tugi, hundruð, eða eins og núna, tugþúsundir formennskra líkama fyrir augunum, hver og einn þeirra jafn ógeðslegur og sá sem hugur hans hafði verið sendur í tímabundið. 

Þjófinn klæjaði. Innanvert á vinstri upphandlegg, sem var undir jakka, skyrtu og stuttermabol. Í fyrstu reyndi hann að bægja þessari tilfinningu frá, en hugurinn gat ekki einbeitt sér að verkefninu undir þessu stöðuga áreiti tauganna, svo hann reyndi að skilja hvernig hann ætti að klóra sér án þess að fara úr öllum fötunum úti á götu. Hann gekk upp að húsvegg, hneppti efstu tveimur hnöppum skyrtunnar frá, bretti upp hægri ermina, og smeygði hægri hendinni undir hálsmálið á stuttermabolnum til að klóra sér þar sem hann klæjaði. Merkjasendingarnar til heilans minnkuðu og hugurinn gat aftur byrjað að starfa.

Fyrst átti hann að fara að hitta annan ferðalang, sá væri með falsaða útgáfu af vitrúvíska manninum. Fölsunin hafði verið gerð af öðrum ferðalang á sama tíma og Da Vinci hafði teiknað sína, á blað úr sömu örk og upprunalega myndin. Hún hafði verið handlönguð af ferðalöngum gegnum rauntímann og nú væri komið að honum, þjófnum, að skipta á myndunum, því eftir aðeins viku myndu vera gerð örlítil mistök, nokkuð sem enginn í þeim samtíma sem þjófurinn dvaldi nú í myndi skilja að væru mistök, en myndu leiða til þess að vitrúvíski maðurinn eyðilegðist á næstu þremur öldum. Svo að ekkert breyttist í fortíð þess tíma sem þjófurinn kom úr myndi fölsunin líka eyðileggjast vegna sömu mistaka, en upprunalega myndin yrði örugg.

Þjófnum fannst lítið til myndarinnar koma, satt að segja. Mynd af formennskum líkama höfðaði ekki til hans né hans líka. Hefði ekki verið fyrir það að myndin var tvímiðjuð, einn miðpunktur fyrir hring og annar fyrir ferning, þá hefði henni örugglega verið leyft að gleymast. Hringur og ferningur, það voru náttúruleg form fyrir manneskjur, miklu frekar en líkami, svo það var eins og þessi mynd táknaði þær breytingar sem mannskepnan ætti eftir að fara í gegnum. Hann leyfði sér að hugsa um rýmin sem biðu hans heima, þegar verkefnið var búið, og það að geta runnið saman við aðra huga, verið einn með mannkyninu, ekki afmarkaður af kjöti. Og hári. Aftur hryllti hann við tilfinningunni.

Samstarfsmaður hans beið eftir honum á brú og leiddi hann svo afsíðis inn í litla götu, báðir alveg þöglir. Í tösku var hann með skyrtu handa þjófnum, sem var með stuttermabol saumaðan inn í, og á milli flíkanna var fölsunin. Þjófurinn skipti um föt og notaði tækifærið til að klóra sér á vinstri upphandleggnum. Hinn ferðalangurinn horfði á aðfarirnar með ógeðssvip. Þótt það kæmi ekkert annað til greina, þá var þetta sönnun fyrir því að inni í þessum líkama væri alvöru manneskja, en þeir ræddu ekkert saman. Kannski myndu hugar þeirra renna saman einhvern tíma þegar þeir væru komnir heim og muna báðir þetta óbærilega augnablik.

Samstarfsmaðurinn fór svo burt með töskuna, þar sem gömlu fötin voru. Þjófurinn fór inn á safn listaskólans, þar sem hann gekk rólega um, og virti fyrir sér málverkin. Honum líkaði best við þau sem sýndu beinagrindur eða hauskúpur, líkama sem voru lausir við allt þetta herfilega kjöt. Þegar hann var kominn að veggnum sem hann stefndi að staðnæmdist hann og hallaði sér upp að honum. Hinum megin hans, einni hæð neðar, var öryggishólfið þar sem vitrúvíski maðurinn var geymdur þegar hann var ekki til sýnis.

Nú tók þjófurinn til starfa. Hann hlutaði tímann sundur, ýtti honum frá, færði rýmið til og bjó til holu framhjá rúmtímanum, og skipti svo á fölsuninni og upprunalegu teikningunni þar í gegn. Þegar hann var búinn leit hann í kringum sig. Formennskt barn var að horfa á hann og hann grunaði að þetta væri annar ferðalangur að fylgjast með, en hann var ekki viss. En auðvitað hefði ekkert af því sem hann gerði sést með kjötaugum. Svo hann hélt rölti sínu áfram gegnum safnið þar til hann var kominn aftur að útganginum.

Samstarfsmaðurinn beið þjófsins fyrir utan og þeir gengu um borgina jafn þöglir og áður þar til þeir fundu stað til að skipta úr fötunum þar sem vitrúvíski maðurinn leyndist, sem var pakkað aftur í töskuna, og svo í gamla stuttermabolinn og skyrtuna. Hann gleymdi í þetta sinn að klóra sér, sem hann sá strax eftir, þótt samstarfsmaðurinn yrði því feginn að þurfa ekki að horfa upp á þvílíkar aðfarir aftur. Þjófurinn var næstum búinn að minnast á það en mundi svo ekki í hvelli hvernig ætti að hreyfa kjötið í andlitinu til að mynda tungumál. Hinn ferðalangurinn lét hann fá nokkra pappírsseðla sem hann gæti notað til skipta fyrir þjónustu eða hluti, skyldi hann þurfa þess.

Nú var ekkert að gera nema að bíða. Að einhverjum tíma liðnum yrði hann sóttur og kæmist loksins burt, úr þessum líkama með sínum ógeðslegu útlimum og öllum þessum viðurstyggilegu hárum og aftur heim til sín. Þar sem hann hafði ekkert betra að gera, þá gekk hann um borgina, fór um þrengri götur, og reyndi að forðast stóra hópa af formanneskjum, sem vöfruðu um eins og skuggar af raunverulegu fólki. Á meðan hæfi vitrúvíski maðurinn ferðalag sitt gegnum rauntímann, geymdur á öruggum stöðum gegnum aldirnar og árþúsundin þar til hann kæmist í heimatíma þjófsins.

Líkami hans fór að áreita hugann. Hann vissi af fyrri reynslu að þetta þýddi að hann yrði að finna sér eitthvað að drekka og borða. Hann hryllti við hugsuninni en hann neyddist víst til þess. Hann fór inn í afmarkað rými þar sem hægt var að skipta á pappírsmiðum og næringu. Hann keypti vatn, passaði sig að það væri ekki með koltvísýringi, mistök sem hann vildi ekki endurtaka, og poka með grænum vínberjum. Þau voru það næsta sem hann fann alvöru mat, svo hann vonaði að næringin myndi endast honum þar til hann yrði sóttur.

Hann fór að finna fyrir því að hugurinn var að losna frá líkamanum. Þau voru þá byrjuð. Þetta myndi taka nokkra stund svo hann settist á tröppu sem lá upp að einni brúnni og fékk sér vatnssopa. Þegar þjófurinn var að losna frá líkamanum sem hann hafði verið sendur í fóru hlutar kjötheilans að vakna á ný og blandast huganum sem hafði tekið hann yfir. Þá fór þjófurinn ósjálfrátt að óttast að hann væri ekki raunverulegur, að tilvist hans væri einkenni einhvers sjúkdóms, en hann hristi það alltaf af sér. Hann skildi hver hann væri og hvað myndi gerast næst, eins og alltaf yrði hann kominn heim áður en hann vissi af því.

Þjófurinn setti vínber hugsunarlaust í munninn og það hrökk í kokið þar sem það festist. Líkaminn gat ekki andað, hann gat ekki andað. Hann stóð upp og baðaði út höndunum. Kjötið var að særa hann, reyna að drepa hann. Hann horfði í kringum sig en sá engan annan líkama, hann vafraði um og reyndi að slá í eigið bak en vínberið var fast. Hann setti fingurna í munninn, en hann náði ekki vínberinu. Hugurinn var að losna burt en hann var hræddur um að líkaminn myndi hætta að virka áður en að því kæmi. Þjófurinn varð ofsahræddur þegar hann fann meðvitund sína gefa sig og líkaminn féll fram. Andlitið skall á tröppunni sem hann hafði setið á, nefið brotnaði, og vínberið hrökk út og á götuna.

Þegar hann vaknaði tæplega sólarhring seinna í sjúkrarúmi, mundi hann ekkert eftir því hvernig hann hefði nefbrotnað. Hann hafði farið að heiman eftir morgunmat og ætlað að fara á safn, eins og hann gerði iðulega síðla morguns á laugardögum, en eitthvað hafði dregið hann inn í hverfi sem hann átti ekkert erindi í, þar sem hann hafði lent í einhvers konar slysi. Hann fann þó miða úr safni listaskólans í jakkavasanum, svo allavega hafði hann farið þangað. Viku seinna fór hann þangað aftur, en hann mundi ekkert eftir fyrri ferð sinni. Barn eitt starði á illa farið nefið hans og hann blygðaðist sín án þess að skilja afhverju.

5. ferðalangur í Feneyjum

Ég hafði misst öll tengsl við Alejöndru eftir sumarið þar sem við ferðuðumst saman um Suður-Evrópu. Svo einn daginn datt mér í hug að leita að henni á Facebook, og fann hana strax. Við spjölluðum nokkrum sinnum saman þar, ég sagði henni frá lífi mínu á Íslandi og hún skrifaði mér um syni sína og hvernig það væri að vera skólastjóri. Franskan mín, sem var okkar eina sameiginlega tungumál, var orðin mjög ryðguð svo samtalið fjaraði út að lokum. Svo, nokkrum árum seinna, sendi hún mér mynd sem hún hafði fundið og skannað, af mér, henni og ferðalang frá Mexíkó, saman á Markúsartorgi.

Öllum þessum árum seinna man ég ekki hvaðan við komum til Feneyja; einhvers staðar í Suður-Frakklandi, Nice eða Marseille kannski, en allt eins Aix eða Cannes. Nei, varla Cannes, ég er nokkuð viss um að ég hafi aldrei verið þar. Hvað sem öðru líður þá fór stærsti hluti hópsins norður til Parísar, því þaðan áttu þau öll flug hvert til síns heima næsta dag, en við Alejandra ætluðum að vera mánuði lengur. Hún vegna þess að hún efaðist um að fá mörg tækifæri í lífinu til að ferðast um Evrópu, og ég vegna þess að ég hafði verið rekinn úr sumarvinnunni af ástæðum sem ég skildi ekki alveg svo það var ekkert annað fyrir mig að gera á Íslandi, þannig séð, en að húka og bíða eftir því að menntaskólinn byrjaði aftur. Svo ég breytti flugmiðanum og vonaði að bankareikningurinn héldist yfir núlli þangað til ég flygi heim.

Ég man ekki hvað þriðji ferðalangurinn hét sem kom með okkur Alejöndru til Feneyja. Hún var frá Mexíkó, og hún ætlaði bara að vera nokkrum dögum lengur í Evrópu, nógu lengi til að ferðast til Feneyja frá Suður-Frakklandi og svo aftur til Parísar til að ná fluginu heim. Minningar mínar um hana eru óljósar, sem er kannski vegna þess að ég man ekki nafnið hennar og hef því ekki punkt sem ég get sett í miðju minninganna. Aftur á móti gæti það einmitt verið öfugt, að nafnið sé horfið úr huganum vegna þess að minningarnar eru svo óljósar. Ég gæti ekki lýst útliti hennar að öðru leyti en því að hún var höfðinu lægri en ég, tággrönn, og með sítt, svart hár.

Eitt man ég þó skýrt, en það er reyndar svo tengt Mexíkó að ég efast næstum um sannleiksgildi minningarinnar, en eitt síðdegið í Feneyjum vorum við í vínbúð, eða kannski matvöruverslun, sem ég efast þó um, en allavega þá rakst hún á litla flösku af mjög góðu tekíla sem var til sölu fyrir tíunda hluta þess verðs sem hún væri seld fyrir í Mexíkó, og ákvað að kaupa flöskuna. Hún keypti svo líka salt í flöguformi og nokkrar sítrónur.

Við vorum á leiðinni til að sjá vitrúvíska manninn á safni listaskólans, sem Alejandra hafði lesið um í bók um Feneyjar og langaði mikið til að sjá. Þegar þangað var komið reyndist teikning Da Vinci ekki vera til sýnis, en við ákváðum samt að vafra um safnið. Ég man, satt að segja, ekki mikið eftir því sem við sáum, öðru en flæmsku málverki sem sýndi hauskúpu sem lá á hlið og var einhvern veginn frekar óþægilegt, dálítið eins og það væri ekki alveg mennskt, eða kannski aðeins of mennskt.

Sólin var mjög lágt á himninum þegar við komum aftur út, og okkur tekið að svengja. Svo við gengum aðeins inn í eitt af hverfum Feneyja, burt frá ys og þys túrismans, til að finna okkur stað þar sem hægt væri að setjast. Ég hafði smurt nesti handa okkur, baguette, sem ég hafði skorið í þrjá hluta, með skinku, osti, tómötum, salati og sinnepi, og Alejandra var með hitabrúsa af maté, en hún var með stóran poka af laufum í farangrinum sínum, sem ég held að hún hafi hreinlega haft með sér frá Argentínu. Þótt mér hafi lærst síðar að líka við drykkinn, þá drakk ég hann á þeim tíma vegna þess að mér líkaði við hana, og ég skildi að það væri henni mikilvægt að deila drykknum með öðrum. Ég man ekki hvort ferðalangurinn frá Mexíkó gerði það líka.

Þegar við vorum búin að borða kvöldmat, þar sem við sátum á tröppum sem lágu upp að brú yfir eitt af fjölmörgum síkjum borgarinnar, dró hún tekílaflöskuna upp úr axlapokanum sínum, ásamt saltinu og sítrónunum, og sagðist ætla að kenna okkur að drekka tekíla. Einhvern veginn hafði hún líka náð sér í þrjú staup, en ég man ekki hvernig, eða hvort það voru kannski annars konar lítil glös, og hellti í þau. Ég skar sítrónurnar í fernt, og hún sýndi okkur hve miklu af salti við ættum að strá á handarbökin og hvernig við ættum að bera okkur að. Svo kláruðum við litlu flöskuna í sameiningu. Ég man auðvitað ekki hvernig ég leit út við drykkjuna séður utanfrá, en mig grunar að ég hafi verið líkari Alejöndru, sem fór frekar klunnalega að, meðan ferðalangurinn frá Mexíkó bar sig að með þokka, sem er ekki eitthvað sem ég tengi við tekíladrykkju. Ólíkt okkur Alejöndru varð hún ekki sýnilega drukkin, og ef eitthvað er öruggari í hreyfingum og skýrari í tali.

Það eina annað sem ég man um ferðalanginn frá Mexíkó er að hún var jafn upprifin og ég á gondólaferðinni sem ég splæsti í handa okkur kvöldið áður en hún tæki lestina til Parísar og við Alejandra héldum aftur til Suður-Frakklands. Alejandra, sem var þó með langmestan áhuga á Feneyjum, hafði ekki viljað koma með í gondólann, vildi ekki að ég greiddi fyrir ferðina handa okkur þremur. Ég útskýrði að ég ætti fyrir því og vildi ekki fara frá Feneyjum án þess að sjá borgina á þann hátt sem hún var hönnuð fyrir, en Alejandra sagði að það væri bara óvart þannig, og að húsin væru eins hvort sem þau sæust af þurru eða votu. Kannski vegna þess að henni líkaði ekki við að einhver annar borgaði fyrir sig, eða kannski vegna þess að hún var ekki mikið fyrir að vera í bát yfirleitt, þá virtist hún ekki sérstaklega áhugasöm.

Ég hefði kannski átt að vera varkárari með fé mitt, því síðasta daginn fyrir flugið kláraðist af bankareikningnum mínum. Ég var þá kominn aftur til Parísar og klinkið í vasanum rétt dugði fyrir rútumiða á flugvöllinn. En einhvern veginn ruglaðist ég og fór til Orly frekar en Charles de Gaulle, en þaðan var flogið til Íslands. Ég hefði átt að kveikja á perunni þegar ég var einn í rútunni og horfði á fulla rútu aka burt á hinn flugvöllinn.

Þegar ég gerði mér grein fyrir því að ég væri á vitlausum stað fór ég og fann upplýsingaborðið og reyndi að útskýra á minni hálfköruðu frönsku hvað hafði gerst, en mér til happs gerðist tvennt. Í fyrsta lagi þá misskildi maðurinn á upplýsingaborðinu mig og hélt að leigubíll hefði keyrt með mig á vitlausan flugvöll. Hann hafði greinilega lítið álit á leigubílsstjórum, og lét nokkur vel valin orð fjúka um stéttina áður en hann sagði að það væri bein rúta milli flugvallanna tveggja og sagði mér hvar ég gæti keypt miða. Ég sagðist ekki vera með peninga og hann spurði hvort ég væri með kort. Ég reyndi að útskýra að ég gæti ekki borgað með því, sem hann skildi sem svo að þetta væri bara hraðbankakort, og benti mér á hraðbanka við hlið upplýsingaborðsins. Þótt ég vissi að bankareikningurinn minn væri tómur vonaði ég að ef ég kannski reyndi að taka út eins lítið af reiðufé og hægt væri, þá myndi það vera nóg.

Þá gerðist hitt sem bjargaði mér. Þegar hraðbankinn spurði mig hvað ég vildi taka út mikið reiðufé sló ég inn tíu franka. Hraðbankinn fraus. Ekkert gerðist, hvorki reiðufé né kortið mitt kom út úr vélinni, á skjánum stóð ekkert nema skipunin „bíðið“ á frönsku. Ég fór þá aftur til mannsins á upplýsingaborðinu, sem kom með mér að hraðbankanum, sem enn sagði okkur að bíða. Hann hafði greinilega líka efasemdir um heilindi fjármálastofnanna, og var jafnvel enn harðorðari í garð þeirra en leigubílstjóra. Hann sagði að hann myndi hringja á tæknimann og spurði hvort ég hefði tíma til að bíða. Ég sagðist ekki vera viss, svo hann bað mig um flugmiðann minn. Ég rétti honum hann og hann sagði að ég hefði engan tíma til að bíða, fór með mig að skrifstofu rútufyrirtækisins, útskýrði fyrir konu bak við gler að leigubílsstjóri hefði keyrt með mig á vitlausan flugvöll og svo hefði hraðbanki gleypt kortið mitt og að hún gæti rukkað flugvöllinn fyrir rútumiðann.

Mér fannst ég alveg ótrúlega heppinn þegar ég steig upp í rútuna sem færi með mig á réttan stað. Þegar dyrnar lokuðust og bílstjórinn setti í gang, sá ég manninn af upplýsingaborðinu koma hlaupandi. Ég hélt að hraðbankinn hefði skilað kortinu og peningaleysi mitt uppgötvast. En þá var hann bara að fá frá mér heimilisfangið á Íslandi, svo hann gæti sent mér kortið í pósti. Það kom inn um lúguna viku seinna. Mánuði síðar kom tölvupóstur frá Alejöndru. Það var of flókið fyrir mig að svara.

6. ferðalangur í Feneyjum

Maðurinn í afgreiðslunni hét Alfvin, með effi á undan vaffinu, sagði hann við unglinginn, sem skildi ekki af hverju það væri tekið fram og hugsaði að kannski væri annar maður sem ynni á farfuglaheimilinu, Alvin, án effs, sem þessum manni væri oft ruglað saman við. Alf. Vin. Maðurinn endurtók það hægt og sagði svo að þótt unglingurinn héldi kannski að hann væri líka Íslendingur, þá væri hann frá Georgíu, og rétti vegabréf unglingsins til baka. Unglingurinn sagðist ekki halda að Alfvin væri Íslendingur. Maðurinn hló og sagði að það væri algengt að fólk héldi að hann væri Íslendingur, með þetta íslenska nafn sitt, Alfvin, en pabbi hans hefði skírt hann þetta, Alfvin, til að þær ósýnilegu verur sem alls staðar búa í veröldinni myndu vera honum, Alfvin, ljúfar og vinsamlegar, og ekki meiða hann, Alfvin, og það hefði sannarlega gengið eftir því lukkan fylgdi honum í hvert fótspor. Unglingurinn skildi enn ekki hvers vegna fólk héldi að hann væri Íslendingur, svo hann spurði hvort það gerðist oft. Alfvin svaraði því að aðeins fólk sem væri vel að sér um íslensk nöfn, eða skildi íslensku, tæki eftir því að hann bæri þetta íslenska nafn. Unglingurinn var forviða og sagði bara: nú en skemmtilegt, og spurði hvort það væri hægt að læsa tösku inni einhvers staðar. Alfvin svaraði að það væru skápar en þeir væru allir í útleigu núna; unglingurinn gæti þó spurt aftur seinna um daginn, iðulega geymdu útskráðir gestir sem væru á leið burt frá Feneyjum í næturlest hafurtask sitt í skáp fram yfir kvöldmat. Honum væri þó frjálst, bætti Alfvin við, að geyma töskuna sína hérna bak við hjá honum ef hann vildi ekki skilja hana eftir í kojunni sinni meðan hann færi í sturtu, eða eitthvað slíkt. Unglingurinn sagði að það væri allt í lagi, hann myndi bara koma aftur í kvöld. Svo datt honum í hug að spyrja Alfvin hvort hann vissi um stað þar sem hægt væri að leigja myndbandstæki, eða jafnvel bókasafn þar sem hægt væri að horfa á spólur. Alfvin sagðist ekki vita um slíkt en skyldi spyrjast fyrir, og ef hann fengi einhverjar upplýsingar myndi hann deila þeim með honum í kvöld. Unglingurinn fór svo og skoðaði kojuna sína, sem leit út eins og koja. Hann vissi ekki hverju öðru hann hefði átt að búast við. Það var frekar hlýtt í herberginu, en það var ágúst svo það var heitt alls staðar. Vifta snerist í loftinu, svo þetta yrði líklega þolanlegt um kvöldið. Þegar hann gekk framhjá afgreiðslunni hóaði Alfvin í hann og sagði honum að samstarfsmaður sinn hefði stungið upp á því að kannski væri hægt að horfa á myndbönd í bókasafni listaskólans. Unglingurinn reyndi að dylja spennuna sem hann fann fyrir, bað Alfvin um að sýna sér á korti af Feneyjum hvar bókasafnið væri og hélt út í borgina. Hann hafði komið við á Benidorm á Interrail-ferðalagi sínu, þar sem vinir hans í menntaskólanum sem hann hafði fallið úr voru á bekkjarferðalagi. Á einu af mörgum fylleríum hafði hann farið inn í sjoppu til að kaupa sígarettur. Meðan hann beið í röðinni sneri hann annars hugar rekka með klámmyndaspólum og þar sá hann hulstur sem sýndi eitthvað sem drukkinn heili hans gat ekki sett í samhengi. Spenningurinn sem fór um hann við að sjá eitthvað svo ógeðslegt og forboðið varð til þess að hann keypti spóluna ásamt pakka af Marlboro. Næsta morgunn þegar hann vaknaði helþunnur, skoðaði hann hulstrið aftur og það var svo hryllilegt að hann hljóp beinustu leið inn á klósett og ældi í vaskinn. Hann flýtti sér að fela spóluna ofan í bakpokanum sínum, vandlega vafna inn í tvo stuttermaboli, tróð henni alveg neðst, meira að segja undir Lýðveldi Platóns, sem hann hafði ekki hreyft við síðan hann pakkaði henni heima á Íslandi, og sagði svo vinum sínum að hann ætlaði að halda ferðinni áfram, áður en einhver á hótelinu tæki eftir því að það væri aukagestur meðal þessara tvö hundruð menntaskólakrakka. Í fyrsta og eina skiptið sem hann hafði skoðað hulstrið síðan, á klósetti fyrir hreyfihamlaða á lestarstöð í Suður-Frakklandi þar sem hann hafði skipt um lest, hafði hann allt í einu farið að efast um að þetta væri alvöru, að sjoppan hefði prangað inn á hann fölsun. Hann fór að gruna að óskyldar myndir hefðu verið klipptar saman og að hann hefði keypt falsaða vöru. Nú var hann kominn einn til Feneyja og myndi geta athugað hvort þetta væri alvöru. Á göngu hans leituðu myndirnar af hulstrinu á huga hans og bæði spennan og ónotin mögnuðust. En þegar hann var kominn þangað sem krossinn á kortinu sýndi honum að hann ætti að fara, sem var gata í fáförnu hverfi, sá hann enga byggingu sem leit út fyrir að vera bókasafn. Hann gekk fram og aftur göturnar í kring en fann ekki bókasafn listaskólans. Tilfinningin að vera svo nálægt takmarki sínu en ekki geta náð því fyllti hann örvæntingu, svo hann byrjaði að hlaupa um í leit að réttum stað og skyndilega var hann kominn út úr fáfarna borgarhlutanum að torgi sem var fullt af túristum og allt í einu sá hann þau öll sem kjötflykki, með ótal göt á höfðinu sem útlimir træðust inn í og kæmu svo út úr aftur hinum megin. Hugur hans fylltist viðbjóði og hann snerist á hæl, hljóp í beint af augum og stoppaði ekki fyrr en hann kom að síkisbarmi. Hann gróf hendinni ofan í bakpokann, reif spóluna upp og henti henni út í vatnið, enn vafinni í tvo stuttermaboli, og Lýðveldið fylgdi með í vatnið. Allt sökk í fyrstu, en svo flutu flíkurnar upp á yfirborðið, svo bókin, og loks spólan. Hann gat greint myndirnar á hulstrinu. Hann setti pokann aftur á bakið og hljóp á harðaspani í burtu og vonaði að enginn hefði séð til hans. Þegar hann var kominn aftur á torgið birtist helvísk sýnin honum aftur svo hann flýði þessi rotnandi, götóttu kjötstykki, inn í byggingu sem túristar voru að fara inn og út úr. Það reyndist vera safn listaskólans. Hann borgaði sig inn, skildi bakpokann eftir í fatageymslu og gekk um safnið. Ekkert málverk greip athygli hans fyrr en hann tók eftir hauskúpu sem lá á hlið. Þessi hreinsaða kyrrð róaði huga hans og hann gat aftur farið að hugsa um umhverfi sitt. Hann var hissa á því hvað það væri fátt fólk þarna, miðað við þann straum sem hann hafði séð koma inn og út. En eftir að hafa vafrað um í smá stund kom hann að herbergi sem var úttroðið af líkömum sem biðu þess að sjá vitrúvíska manninn eftir Da Vinci. Hann lét sig renna inn í straum kjötþvögunnar, leyfði hringiðunni að bera sig að takmarkinu, þar sem hann stóð loks augliti til auglits við hinn fullkomna mann. Unglingurinn brast í grát; unglingurinn fór að hlæja.

7. ferðalangur í Feneyjum

Eftir því sem best er vitað kom Nicolaes van Verendael aldrei til Feneyja, en við skulum ekki láta það stöðva okkur, þessi saga er samin eftir sinni lógík, og til að meginhugsun hennar og formgerð komi saman í síðasta hlutanum, þá þarf Nicolaes van Verendael að koma til Feneyja. Ýmislegt annað þarf líka að gerast í lífi listamannsins til að hnýta saman þemun um list, sköpun og hið ógnvænlega, sem er annars vegar hið dýrslega, og hins vegar dauðinn, og þrárnar sem toga manneskjur í þessar tvær höfuðáttir tilverunnar. Því skulum við ímynda okkur Nicolaes van Verendael sem ferðalang í Feneyjum, eftir að hann er orðinn virtur listamaður.

Hann var flæmskur, frá Antverpen, fæddur 1640, og hafði lært málaralistina af föður sínum. Kona hans, Catharina van Beveren, og hann eignuðust fjölda barna, alls ellefu talsins. Það síðasta fæddist þó eftir að hann dó, árið 1691. Við skulum humma fram af okkur nákvæmlega hvenær hann kom til Feneyja, enda skiptir það ekki máli. Það er þó ekki erfitt að finna ástæðu fyrir því að láta hann ferðast, Nicolaes var, eins og var minnst á hér að ofan, virtur, en hins vegar þá var hann mjög vandvirkur og vann hægt, sem olli því að hann bjó aldrei til nógu mikið af málverkum til að tryggja sér og ört vaxandi fjölskyldu sinni þægilegt og áhyggjulaust líf. Svo við skulum ímynda okkur að hann hafi fengið atvinnutilboð sem hann gat ekki hafnað, eitthvað sem dró hann til Feneyja. Hvað nákvæmlega það var skulum við segja að sé horfið í gleymskunnar dá; hann er kominn á þann stað sem hann þarf að vera í þessari sögu, það skiptir mestu máli.

Segjum síðan sem svo að hann hafi tekið með sér nokkur hálfkláruð verk, en Nicolaes vann mikið með öðrum listmálurum en – og þetta er mikilvægt – hann keypti líka málverk eftir annað listafólk, breytti þeim, og seldi síðan sem sín eigin. Þetta var ekki óalgengt á þeim tíma, skilst mér, og þótti ekkert sérstaklega undarlegt. Dæmisaga um hégóma, er einmitt eitt slíkt málverk, og var upprunalega eftir Hendrick Andriessen. Eina sem Nicolaes bætti við eru blómin, sem vissulega gera mjög mikið fyrir listaverkið, og eru mjög fagurlega máluð, en í sögunni mun hann gera aðeins meira. Eins og í raun og veru þá keypti hann líklega verkið úr dánarbúi eldri listamannsins. Áður en frásögnin hefst, þá er betra að skapa fjarlægð frá þeim alvöru manneskjum sem sögupersónurnar eru búnar til úr, svo alvöru fólkið fái að vera í friði fyrir sköpuðum eftirmyndum sínum, því hef ég breytt öllum nöfnum í þessari sögu.

Það var komið að lokum dvalar Nikulásar frá Fagradal í Feneyjum. Aðeins átti eftir að leggja lokahönd á verkið, en þurfti fyrst að bíða eftir því að aðstoðarmenn hans lykju sínum störfum. Svo hann fór að leyfa sér að hugsa til Katrínar eiginkonu sinnar, sem hafði verið ólétt þegar hann lagði af stað suður á bóginn frá Antverpen. Í huga sínum mældi hann tímalengdina frá því að hann sá hana síðast og reiknaðist til að líklega væri hún búin að fæða. Auðvitað hlakkaði hann til að sjá barnið, en vissi vel að þetta þýddi frekari útgjöld, svo hann fór að hugsa um hvort hann gæti bætt í þann sjóð sem hann myndi flytja með sér norður. Hann hafði reynt að selja nokkur málverk eftir sig, en fyrir utan patrón sinn þá höfðu fáir aðrir í Feneyjum aðrir en listmálarar áhuga á flæmskri list, en það hefur aldrei verið sérstaklega velfjáð atvinnustétt.

Þessi staða hafði verið honum ljós fljótlega eftir að hann kom til borgarinnar, en allt í einu, þegar verkefnaleysið gaf honum tíma og næði til þess að hugsa, þá hugkvæmdist honum ráð. Listaskólinn í borginni hlyti að hafa nokkur fjárráð, og því gæti hann boðið stofnuninni einhver verka sinna til sölu. Hér verður að taka fram að listaskólinn í Feneyjum var ekki stofnaður fyrr en löngu eftir að Nicolaes van Verendael lést, en fyrst okkar Nikulás hefur ferðast lengra en fyrirmyndin gerði nokkurn tímann, þá getum við allt eins ímyndað okkur að listaskólinn hafi verið til.

Nikulás bauð skólastjóranum að heimsækja sig í höllina þar sem hann hafði komið sér upp vinnustofu. Við skulum segja að skólastjórinn hafi heitið Tómas, og hann svaraði að hann myndi koma að viku liðinni. Þegar listmálarinn okkar hafði fengið svarið ákvað hann að fara í gegnum það safn af málverkum sem hann hafði haft með sér. Honum þótti þó nokkur þeirra vera líkleg til að vekja áhuga og nýtast við kennslu. En síðast skoðaði hann verk sem hann hafði keypt á ferð sinni suður, svona eiginlega í hugsunarleysi. 

Eftir að hafa farið eina dagleið að heiman, þá hafði hann frétt af því að væri verið að selja ófullgerðar myndir úr dánarbúi Hinriks nokkurs, sem hafði búið í bænum þar sem hann áði. Eitthvað við þetta málverk greip athygli hans, einhver skella neðarlega á fletinum, sem hann gat ekki greint vel, enda var komið kvöld. Þar sem hún var til sölu fyrir spottfé, og hann vænti þess að snúa aftur til Flandurs með þunga pyngju, þá keypti hann verkið. Nú fór hann með það út að glugga, og skoðaði það betur í ítalskri skjannabirtu. Hann missti það næstum úr höndum, svo rækilega brá honum þegar hugur hans tók inn það sem hann hafði skilið sem einhverja skellu á fletinum.

Þetta var ekki dýr, ekki rotta eða köttur, en virtist samt hálfloðið og lifandi. Né var þetta djöfull, engill, eða neins konar vera úr kristinni trú. Þó þetta virtist vera kræklótt, var þetta ekki tré né plöntukyns. Og þótt þarna væru ýmsar holur og göt, þá var þetta ein heild. Þetta var mynd, en virtist samt bærast og hlykkjast. Hann gat varla horft á þetta, nema útundan sér. 

Þetta gæti hann aldrei selt. Svo hann ákvað að mála yfir þetta. Honum fannst óþægilegt að hugsa um þetta, en leyfði sér samt að skissa einfaldaða mynd af þessu, og reyndi að láta sér detta í hug hluti sem hann gæti málað yfir þessa skellu. Allt í einu sá hann út úr þessu hauskúpu, sem lá á hlið. Svo skýr var hún í huga hans, að hann þurfti ekki einu sinni að hafa fyrirmynd, eins og hinn vandvirki Nikulás var vanur að nota. Með því að setja nefið næstum upp að striganum, þá gat hann málað yfir skelluna án þess að þurfa að virða hana fyrir sér. Á næturnar dreymdi hann þó þessa skellu, en gat ekki fremur en í vöku horft beint á hana.

Tómas og Nikulás byrjuðu á því að spjalla um líf listmálarans, og bera saman stöðu stéttarinnar á Niðurlöndum annars vegar og Norður-Ítalíu hins vegar. Voru þeir sammála um að þetta gæti verið verra, en vegur málaralistarinnar mætti að ósekju vera meiri, ef hún væri metin að verðleikum, enda væri hún drottning listanna. Skólastjórinn sagði að í Eden hefðu allar listir verið sameinaðar í eina, ekki var greint á milli, allt eitt og samt. Eftir að Adam og Eva átu af skilningstrénu þá fóru þau fyrst að greina á milli þess sem var gott og þess sem var slæmt, og út frá því að greina milli allra hluta og greina. Guð rak þau burt af því að nú skildu þau ekki guðdóminn, sem var án aðgreiningar. Engillinn með eldsverðið skar hausana af þeim og sneri, þannig að þriðja augað horfði inn í líkamann, ekki á heiminn, en með því auga sáu Adam og Eva heim hins fullkomna, þar sem allt var eins og það ætti að vera. Eini maðurinn sem hefur getað séð með þriðja auganu eftir fallið var Platón, sem ferðaðist um heiminn, nam alla þræði stærðfræðinnar og þegar hann gat ofið þá saman þá opnaðist honum sýn Adams og Evu, því engu skiptir þó þriðja augað nemi ekki ljós, heldur horfi bara inn í líkamann. En Platón sveik mannkynið, í stað þess að kenna öðrum að sjá eins og hann sá sjálfur, þá faldi hann þekkinguna í flækjum og einföldunum.

Eftir þessa dæmisögu skólastjórans byrjuðu starfsbræðurnir að fara í gegnum málverkin sem Nikulás hafði tekið með sér. Tómas lauk lofsorði á næstum allar myndirnar, en sagði ekkert þegar kom að þeirri síðustu, sem hafði svo nýverið verið breytt. Hann tjáði Nikulás að þó hann væri sannarlega meistari, þá væri ekkert þarna sem nýst gæti til kennslu, umfram það sem listaskólinn ætti nú þegar. Eina undantekningin væri síðasta verkið, sem sýndi að hauskúpur þyrftu ekki að liggja með hvirfilinn upp. Skólastjórinn spurði starfsbróður hans hvernig honum hefði hugkvæmst það. Nikulás horfði á hauskúpuna í fyrsta sinn síðan hann hafði málað hana, sá í gegnum beinin skelluna iðast undir, botnlausar holurnar hlykkjuðust í huga hans, og hann svaraði að stundum kæmi dauðinn úr óvæntri átt. Allt í einu vissi Nikulás að hann væri feigur, ekki þó á þann hátt sem allt fólk væri, heldur að engill guðs myndi stinga hann á hol. Ekki í dag, ekki á morgun, en fljótlega, áður en næsti hringur ársins yrði fullkomnaður.

Þar skiljum við við Nikulás frá Fagradal. Hann kemst aftur heim til sín, gleymir feigð sinni nógu lengi til að geta sitt ellefta barn með konu sinni, en deyr áður en það fæðist. Þó að hann sé byggður á alvöru manneskju, þá er hann auðvitað táknmynd, holdgervingur listamannsins. Þá meina ég ekki málarans, heldur hinnar skapandi manneskju. Ég get auðvitað bara talað fyrir rithöfunda, en ég get fullyrt undanbragðalaust, að hin skrifandi stétt samanstendur af fólki sem dreymir um að höggva út úr marmara, dansa á sviði, semja sinfóníur, hanna brýr, blása gler, syngja eigin lög, og mála kyrralífsmynd með olíulitum af ólíkum, aðskildum hlutum á einum fleti. Öll skáld dreymir um að vera öðruvísi, annars konar, geta flætt úr sinni list í aðra, eins og allt fólk langar að renna inn í aðra, verða hluti af stærri heild, ekki þau sjálf, heldur einn hugur sem er til utan tíma og rúms, laus úr prísund kjöts og rotnunar. 

Þannig hljómar dæmisagan um hégóma.