Steinar Bragi
1
Við stigum út úr bílnum í úthverfi. Göturnar voru langar og beinar og teygðu sig sex talsins út frá miðju þar sem var glampandi glerkúpull með hvítum fána upp úr þakinu. Við enda hverrar götu tók svo við önnur sams konar bygging og þannig koll af kolli eins langt og augað eygði.
David útskýrði að þetta væri félagsmiðstöð hverfisins, ég myndi kynnast nágrönnum mínum þar. „Eða muna eftir þeim að nýju,“ bætti hann við góðlátlega.
Húsin við göturnar voru á tveimur hæðum, byggð úr timbri og hvítmáluð, ekki öll nákvæmlega eins en tilbrigðin voru settleg: mismunandi lögun glugga og dyra, hallinn á þökunum. Lóðirnar umhverfis voru þaktar grænu grasi og nokkrum plöntum, en það sem vakti mesta athygli mína var að handan við húsin var eins konar lystigarður, löng græn ræma með trjám og fuglum sem teygði sig út að sjóndeildarhringnum.
„Hér átt þú heima,“ sagði maðurinn og kinkaði kolli í átt að húsinu næst okkur. Ég sá stóran bílskúr, og í dyrunum sem lágu inn í húsið stóðu kona og barn, ég kannaðist við hvorugt. „Þetta eru eiginkona þín og barn, mér skilst að þú hafir ekki viljað muna eftir þeim?“
Ég sagði ekki neitt.
„Þeim hefur verið tjáð hvað þú ert að ganga í gegnum og munu sýna því skilning. Ekki leyna þau neinu, þá ertu bara að flækja hlutina fyrir sjálfum þér. Vertu heiðarlegur og opinn. Ef þú veist ekki hvað ber að gera, hvort sem er við áhöld á heimilinu eða í félagslegum aðstæðum, spurðu þá fólkið í kringum þig. Við erum svo þakklát fyrir framlag þitt.“
Ég vissi ekki hvað ég átti að segja – lyfti annarri augabrúninni, sem virtist vekja kátínu hjá David, og pirraði mig óstjórnlega.
Við gengum að húsinu. Konan klappaði saman höndunum af kæti og sagðist hafa saknað mín, stökk um háls mér og kyssti mig meðan barnið faðmaði mig frá hlið og grúfði höfuðið inn í mjöðmina á mér.
„Svona, svona,“ sagði ég þegar konan byrjaði að gráta. Hún sagðist hafa verið svo hrædd um mig og fyrr en varði hafði hún lyft barninu og smellt því í faðminn á mér. Þetta var strákur um níu ára aldur, ég sá um leið að hann var líkur mér í andlitinu, nefið hvasst og mikilfenglegt og hárið dökkt og hrokkið.
„Elsku pabbi, ég hef saknað þín svo mikið,“ sagði hann. Augun voru barmafull af tárum.
„Strjúktu tárin úr augum hans,“ sagði konan með titrandi röddu.
„Svona,“ sagði ég og gerði það sem hún bað um. Strákurinn hló með viðkvæmnislegu, skæru hljóði, það minnti á lamb.
„Komdu, mig langar að sýna þér hvað við Bragi höfum verið að gera. Við höfum undirbúið komu þína vandlega!“ Hún greip um hönd mína og leiddi mig inn í húsið. Á vegg í stofunni hékk borði með nafninu mínu á og bauð mig velkominn, á borði voru alls kyns smáréttir og kökur og gos og áfengir drykkir.
„Mamma bakaði,“ sagði drengurinn. Ég var strax búinn að gleyma nafninu hans.
Konan leiddi mig að stiganum upp á aðra hæðina og bað drenginn að bíða, hún ætlaði að sýna pabba svolítið spennandi.
Á efri hæðinni var svefnherbergi með hjónarúmi, eitt barnaherbergi með engum leikföngum, engum bókum, bara rúmi og skrifborði, veggirnir voru hvítir með daufum gljáa. Konan leiddi mig inn í svefnherbergið og sagði:
„Elskaðu mig. Góða besta hjartað mitt, elskaðu mig. Það er svo langt síðan.“ Hún lagðist á bakið í rúmið og togaði niður um sig nærbuxurnar, þær birtust undan rauðum kjólnum og vöfðust um annan af háhæluðu skónum hennar. Hún færði hnén í sundur og teygði fram hendurnar, bað mig aftur um að elska sig og horfði á mig af svo mikilli ástúð að ég lét næstum undan. Í staðinn sagðist ég vilja vera einn, ég þyrfti að hvíla mig eftir ferðalagið.
„Auðvitað, ástin mín. Við gerum það sem þú vilt. Ég skil vel að þú þurfir meiri tíma til að jafna þig.“ Hún klæddi sig aftur í nærbuxurnar og stóð upp. „Gestirnir koma bráðum.“
„Hvaða gestir?“
„Nágrannar okkar. Þú getur hvílt þig hérna í rúminu, ég læt þig vita þegar þau koma. Er það í lagi?“
Ég kinkaði kolli.
⁂
Það var sama hvað ég reyndi, ég gat ekki mætt þessu. Af neðri hæðinni heyrði ég dinglað æ oftar á bjölluna og svo var látið nægja að banka bara á dyrastafinn, hrópa kveðju yfir kliðinn frá samræðunum. Konan kom tvisvar upp og sagði að gestirnir væru að spyrja eftir mér, hvort ég vildi koma niður? Ég bað um að fá að hvíla mig meira. Í þriðja skiptið kom hávaxinn eldri maður, ákaflega herðabreiður og með grá, stingandi augu. Hann sagði að við hefðum verið vinir en ég þekkti hann ekki. Ég bað þau öll um að láta mig vera og sveipaði mig sænginni.
Húsið tæmdist aftur, ég hlustaði á hljóðin fjara út og fékk svo nóg af því að hugsa um endurkomu konunnar í herbergið. Ég spratt á fætur, sneri lyklinum í skránni og læsti svefnherberginu að innan, hún gæti sofið með þessum dreng sem átti að vera sonur minn. Nokkru síðar var tekið í dyrnar, ég heyrði hana segja nafnið mitt nokkrum sinnum en svo gafst hún upp.
2
Um leið og morgnaði fór ég framúr og læddist niður stigann, vonaði að konan mín myndi ekki vakna. Í eldhúsinu sauð ég vatn og fékk mér kaffi. Þegar ég heyrði umgang á efri hæðinni læddist ég út og fékk mér göngutúr um nágrennið.
Fyrst gekk ég eftir götunni og virti fyrir mér húsin sem voru öll eins, að slepptu þessu sem engu breytti. Ég kom að göngustíg á milli tveggja þeirra og fylgdi honum inn í lystigarðinn sem ég hafði tekið eftir daginn áður. Garðurinn teygði sig í beinni línu á milli bakgarða húsanna, sem líka stóðu í þráðbeinni línu meðfram honum þótt mér hefði sýnst skipulagið allt út frá félagsmiðstöðvunum vera hringlaga. Eftir miðjum garðinum rann lækur. Í trjánum, sem sums staðar stóðu í þéttum þyrpingum, tístu fuglar og fiðrildi svifu á milli blóma.
Stígurinn sem ég fylgdi sveigðist mjúklega um garðinn og klofnaði stundum í átt að litlum brúm sem þveruðu lækinn. Ég ákvað að halda mig á grasinu, og ef ég gengi nógu lengi – rann upp fyrir mér – kæmist ég kannski út úr þessu hverfi. Ég hafði ekkert plan um hvernig ég kæmist af á eigin vegum en kannski var það ekkert verra en að búa með ókunnugum sem þóttust þekkja mig.
Úti við sjóndeildarhringinn reis fjall. Ég var orðinn svo vanur því að sjá ekkert nema tilbrigði við það sama að ég snarstöðvaði. Fjallið gnæfði upp úr húsalengjunum, hvolfþökum félagsmiðstöðva og grænni, lækjarkvíslaðri, blómstrandi flatneskjunni. Hlíðar þess voru brattar og sameinuðust í tindi sem hefði átt að vera hvass en var flatur, eins og fjallið hefði verið hálshöggvið. Fyrir ofan tindinn var móða eða ákaflega heit tíbrá sem var dáleiðandi að horfa á.
Ég gekk áfram og tók augun varla af fjallinu. Ólíkt öðru í umhverfinu fannst mér það vera kunnuglegt, og með tímanum gekk ég inn í ágætan takt og hugsaði sama og ekkert um aðstæður mínar eða hvert ég stefndi. Það var gott að hafa stefnu. Í hlíðum fjallsins fannst mér ég greina hreyfingu en var ekki viss.
Ekkert lífsmark var með húsunum á hvora hönd. Af og til hafði ég á tilfinningunni að fylgst væri með mér en þegar mér varð litið upp í gluggana sá ég engan þar.
Þegar leið á gönguna lagðist ég í grasið og dottaði, ég veit ekki hvað lengi. Þá saup ég á lækjarvatni og hélt áfram göngunni þar til birtan byrjaði að dofna. Ég hafði ekki enn komið að gatnamótum, þótt stígurinn kvíslaðist af og til inn á milli húsanna, eins og hann vildi lokka mig aftur heim.
Við eina af þessum kvíslum kom ég að húsi sem var með eilítið stærri garði en hin. Húsið var grátt en með blámálað grindverk til að afmarka garðinn.
„Góðan daginn.“ Ég var ávarpaður yfir grindverkið af konu sem birtist óvænt, og hlaut að hafa verið að bogra eitthvað niðri við jörð.
„Sæl,“ sagði ég.
„Þessi bolti skoppaði í burtu. Ég er með hund hérna.“ Hún lyfti bolta og kinkaði kolli til mín. Fyrir aftan hana sá ég stórt og mikið gasgrill. Lyktin af kjöti kom til mín, ég kyngdi munnvatni og svo römm græðgi rann á mig að ég átti bágt með að leyna því. Hvað var langt síðan ég borðaði?
„Ég er að grilla lærissneiðar,“ sagði konan og ég fylgdi henni meðfram girðingunni að hliði. „Þú lítur út fyrir að vera þreyttur. Búinn að ganga lengi?“
„Síðan í morgun.“
„Áttu heima hér nálægt?“
„Nei, því miður.“ Ég vissi hversu furðulega ég hljómaði en hafði ekki orku til að spinna mig á nokkurn hátt, ég hafði ekki hugsað neitt af þessu til enda. Í loftinu var kul og myrkrið að taka yfir.
„Ertu með næturstað?“ spurði konan og opnaði hliðið, eins og hún vissi svarið. Ég hristi höfuðið og elti hana inn í garðinn.
Hundurinn var einn af þessum litlu loðnu sem gjamma á hvað sem er, en þetta eintak var þögult.
Næst húsinu var verönd með borði og stólum, og lagt á borð fyrir einn. Konan brá sér inn fyrir og sótti áhöld til að bæta mér við. Að auki rétti hún mér bjórflösku og fékk sér aðra sjálf.
Máltíðin var ágæt en næstum á fyrsta bita var ég ekki lengur svangur, og þegar ég kláraði af disknum var ég orðinn hálf drukkinn af bjórunum sem konan sótti inn í hús. Hún sagðist vera kokkur í nálægri félagsmiðstöð og hafa gaman af tilraunaeldamennsku og framandi réttum.
„Hvað eru framandi réttir?“ spurði ég.
„Sekelí-gúllas með aspas. Hummus frá Belize. Grilluð kengúra með kúskús og þess háttar.“
„Vorum við að borða kengúrukjöt?“
„Ekki núna nei.“ Hún hristi höfuðið eins og það væri óhugsandi.
Eftir að hún hreinsaði diskana af borðinu sátum við í þögn og drukkum vín úr háum glösum. Eins og gerist með vandræðalegar þagnir, fór ég að hugsa um orð sem mér fannst ég hafa misskilið, eins og „glímuskjálfti“. Ég giskaði á að það merkti áhyggjur yfir einhverju sem var framundan, glímu sem var væntanlega metafórísk, en var það víst?
Það var þá ekkert eftir nema að fara upp í rúm. Ég sá lítið í kringum mig inni í húsinu en í aðalatriðum var það eins og hitt sem ég kom úr. Við fórum inn í svefnherbergi og afklæddumst, stunduðum kynlíf sem var betra en ég bjóst við. Konan sat ofan á mér og ruggaði sér svo hratt að mér fannst hún vera vél sem hefði verið send á mig til að umvefja mig hlýju og tæma mig. Hún fékk það næstum um leið og hélt því áfram þar til ég hafði sjálfur fengið það tvisvar. Þá sofnuðum við dauðþreytt.
3
Ég gisti hjá henni í nokkra daga, þar til mér fannst vera kominn tími til að halda áfram. Samræður okkar leiddu næstum alltaf að kynlífi og ef hún var ekki að tala um matreiðslu fannst mér við tala í kross, misskilja næstum allt. Ef ég leiddi talið að – ég veit það ekki – samhengi lífs hennar, eða veröld, hvaðan hún kom og ætlaði, var eins og það dytti dautt niður. Hún reiddist mér stundum, án þess að ég skildi yfir hverju, og þagði þá lengi. Samt lá í loftinu að Selma, sem var nafn konunnar, vildi segja mér að hún elskaði mig, en ég gat ekki leyft mér að taka undir það. Enda var hún ekki eins og ég. Ég vildi að það hefði getað verið öðruvísi, en ég vissi að sambandið myndi aldrei ganga.
Snemma morguns, áður en Selma vaknaði, skrifaði ég kveðju til hennar á miða sem ég skildi eftir í eldhúsinu. Þá fór ég út í garð, smeygði mér yfir grindverkið og hélt áfram göngunni í átt að fjallinu. Yfir efsta hluta þess lágu þykkir skýjabólstrar sem ólmuðust af og til, eins og eitthvað þeyttist upp úr þeim. Eftir nokkra göngu kom sólin upp og fuglarnir byrjuðu að tísta, lækurinn hjalaði og mér fannst ekki lengur eins og górilla sæti á herðunum á mér.
Ég hafði gengið í nokkrar klukkustundir þegar ég heyrði skvamp útundan mér og sá konu sitja á lækjarbakkanum. Hún buslaði með fótunum í vatninu og horfði rannsakandi framan í mig, svo brosti hún.
„Ég hef ekki séð þig áður … Hvað ertu búinn að vera lengi hérna?“
„Nokkra daga.“
„Ég vissi það!“ Hún hló. „Það fer enginn út úr húsi hérna nema við. Þú ert í Lystum, er það ekki?“
Það fyrsta sem mér datt í hug var Nei, en samt svaraði ég játandi. Hún vippaði sér á fætur. Hár hennar var dökkt og náði hálfa leið niður á bak, toppurinn þverklipptur, augun brún. Ég hafði aldrei séð hana áður.
„Nýkominn hingað í paradísina. Og manst ekki hver þú varst áður en þér var plantað hérna, manst ekki eftir fjölskyldunni þinni sem var ótrúlega glöð að sjá þig. Þér finnst eitthvað skrýtið við allt hérna, er það ekki?“
Nú var komið að mér að hlæja, ég var næstum yfirkominn af gleði að heyra loks í einhverjum sem – ég veit það ekki – hafði nærveru, sagði eitthvað sem bar merkingu, var ekki úthugsað af öðrum og stungið upp í munninn á viðkomandi sem lak því svo út á milli varanna.
„Hvað hefur þú verið lengi? Ég veit annars ekki hvar ég á að byrja. Hvar erum við? Af hverju erum við hérna?“
„Hvað var sagt við þig, eftir að þú komst hingað?“ Hún hristi vatnið af fótunum, dró upp lítinn gulan klút sem hún vætti í læknum og strauk sér í framan með honum.
„Ég var á stofnun minnir mig. Svo var mér sagt að ég þyrfti tíma til að muna betur hver ég væri, ég myndi hvílast vel þegar ég kæmi heim, ég fengi meiri hjálp heima til að lappa upp á mig. Ég veit það ekki …“
„Og þér líður ekki eins og þú sért heima.“
„Nákvæmlega! Ég hef aldrei séð neitt af þessu áður. Húsið, göturnar, þessa konu –“ Ég sleppti því að minnast á Selmu.
„Áttu barn?“
„Son. Hann er líkur mér, samt finnst mér …“
„Þetta rifjast allt upp, engar áhyggjur.“ Konan sagðist heita Laureen. Andlitið var rjótt af strokunum með klútnum, hún vafði honum saman og stakk ofan í hliðartösku sem hún hafði yfir öxlina.
„Ég heiti ekki neitt,“ sagði ég og vissi ekki hvers vegna ég laug. „Já, mér er sagt að ég eigi eftir að lagast. Ég get alveg samþykkt að ég sé minnislaus. Það er samt eins og maður kannist við sumt, þótt maður muni ekki nákvæmlega eftir því. Maður tengist því. Mér finnst bara svo ólíklegt að ég hefði gleymt konunni minni og barninu mínu … Er ég dáinn?“ Spurningin hrökk út úr mér, en um leið vissi ég að hún hafði verið að brjótast um í mér lengi.
„Löbbum aðeins,“ sagði Laureen og ég fylgdi henni eftir. Hún staðnæmdist á einni af brúnum sem lyftust mjúklega yfir lækinn, hallaði sér fram á handrið og benti mér á silunga sem hreyfðu sig letilega um hyl í vatninu. Einn þeirra rak höfuðið upp úr fletinum og gleypti flugu, og ég hugsaði hvað þetta væri raunverulegt, ég sá dökka blettina á hausnum á honum, ótal fínleg skordýr sem sveimuðu um loftið, hreyfingar sporðanna, glampann frá vatninu, hreyfingu stráanna á lækjarbakkanum. Og á bak við suð í flugum heyrði ég lágværa tóna, milda og fljótandi, sem ég var þó aldrei viss um að væru ekki ímyndun: stef sem leiddi hugann að anddyrum hótela, dagskrárkynningum í sjónvarpi –
„Sjáðu kanínuna,“ sagði Laureen og benti niður með læknum. Brún kanína sat á rassinum og tuggði eitthvað sem hún hélt um milli framþófanna, bar ótt og títt upp að munninum á sér og virtist ákaflega niðursokkin í verkið. Nema hún væri að hlusta á tónana sem bárust frá himninum? „Þetta er magnað, finnst þér ekki?“
Laureen sagðist vera á göngu eins og ég, það væri algengt.
„Hvað áttu við? Erum við mörg hérna?“
„Eins og þú og ég? Ekki mörg, nei. En við erum hérna af og til.“
„Þangað til hvað?“
„Ég veit það ekki. Þar til við förum inn í eitt af húsunum, býst ég við. Ég hef ekki verið hérna mikið lengur en þú.“
Hún spurði mig hvort ég væri að stefna eitthvað sérstakt en ég hummaði fram af mér spurninguna. Það virkaði hátíðlegt að tala um fjallið, þótt það væri ekkert sérstakt sem ég vildi þangað, hvað þá að það lyti einhverri fagurfræði sem væri flókið að útskýra. Við þurfum öll markmið og jú, líklega var ég hrifinn af fjallinu af því að það var bara eitt eintak af því. Ég sá engin önnur fjöll neins staðar.
Við gengum hlið við hlið og miðaði ferðalagið ágætlega, þótt fjallið virtist ekki beinlínis færast nær. Ljósaskiptin lögðust yfir og Laureen sagði:
„Jæja, sjáum hvað gerist nú.“ Hún skimaði meira til hliðanna en áður, inn í garðana og upp í glugga húsanna. Lágt suð frá krybbum heyrðist úr grasinu og runnunum.
„Hvert ertu að fara?“ spurði ég, af því að fasið var þannig, eins og hún leitaði einhvers.
„Við þurfum stað til að gista á.“ Hún staðnæmdist við stórt drapplitað hús á þremur hæðum. Á hvora hönd voru geymsluskúrar með litlum ferköntuðum gluggum. Innan úr húsinu barst lágur kliður eins og frá fólki í hrókasamræðum. Ég elti Laureen inn í garðinn og þaðan um dyr inn í stofu sem var full af blaðskellandi fólki. Þau héldu á glösum og borðuðu snittumat af borði í enda stofunnar. Ekkert þeirra veitti okkur sérstaka athygli.
„Láttu eins og heima hjá þér.“ Laureen greip freyðivínsflösku, skenkti okkur í glas og við byrjuðum að raða í okkur snittum. „Skál,“ sagði Laureen og lyfti glasi, „fyrir bindindinu mínu sem er búið.“ Við lögðum saman glösin og skáluðum um leið og hún sagðist hafa verið edrú í tíu ár.
„Ertu alkóhólisti?“ spurði ég.
„Tók mér bara pásu.“
„Hvernig virkaði það fyrir þig?“
„Æ það var bara frekar gagnlegt en leiðinlegt. Manneskja verður stundum að breyta um skap, er það ekki?“
„Breyta um skap?“
„Missa sig. Verða önnur eða ég veit það ekki, verða framandi sjálfri sér. Ýta við sér.“
„Er erfitt að orða þetta? Ertu orðin svona drukkin?“ spurði ég og augnabliki síðar sprungum við úr hlátri. Bubblurnar í víninu gerðu okkur kærulaus og síhlæjandi. Gestirnir gutu af og til á okkur augunum en ekki óvingjarnlega. Þau töluðu sama tungumál og við og ekkert í fasi þeirra var framandi. Ég kannaðist við stöku tilvísanir í pólitík og menningu en það var undarlega flatt og tvívítt, eins og að kyssa sig í spegli, hreyfði ekki við mér. Ég kunni engin orð yfir það hvernig mér leið, það var á svo margan hátt á sama tíma.
Við Laureen tókum með okkur flösku og hún leiddi mig upp stiga á aðra hæð þar sem voru skrifstofuherbergi og tóm setustofa með tímaritum á glerborði. Á þriðju hæðinni var stórt svefnherbergi með svölum þaðan sem sást út yfir alla byggðina: röð gatna og húsa sem lágu í hringi út frá hvolfþökum félagsmiðstöðva, en í beinni línu meðfram lystigörðum. Nokkur húsanna nálægt okkur voru uppljómuð og glaumur og tónlist barst þaðan líka.
Þegar flaskan var hálfnuð kysstumst við og enduðum uppi í rúmi. Stemningin var notaleg og fyrr en varði fór ég að segja sögu en mundi ekki hvernig hún endaði. Til að koma mér úr klípunni spurði ég hvort eigendunum væri sama þótt við lægjum þarna.
„Við erum látin í friði hérna. Ég veit ekki af hverju.“
„Einhver hlýtur að búa í húsinu?“
„Það er eins og við smjúgum um eyðurnar,“ byrjaði Laureen. „Við erum ekki hérna á sama hátt og þau. Þau víkja og láta okkur í friði, á hátt sem hentar okkur öllum, svo það verði ekki sprenging. Hélt ég til að byrja með. En nú held ég að þau vilji ekki vita af okkur og besta leiðin til þess er að við fáum að gera það sem við viljum, án þess þó að fá nokkuð. Nei, ég veit það ekki.“
„Erfitt að orða það?“
„Við deilum ekki heimi með þeim. Ég vil það ekki og held það sé gagnkvæmt.“
„Sammála,“ sagði ég af meiri innlifun en ég bjóst við, þótt ég vissi í sjálfu sér varla um hvað við værum að tala. Ég mundi samt hvernig mér leið með Selmu, þessir fáeinu dagar liðu eins og mánuður, ég var tæmdur. „Þau lifa á annan hátt en við,“ bætti ég við.
„Við?“
„Ég og þú og hin sem eru eins og við, ég hélt við værum fleiri?“
„Já, það er rétt.“ Ég sá að hún var orðin syfjuð og breiddi yfir hana sængina, hjúfraði mig upp að henni. Lyktin af henni var eins og kanill. Ég saup á flöskunni þar til ég nennti því ekki lengur og sofnaði.
4
Morguninn eftir var hún farin. Ég vaknaði einn í rúminu og þegar ég hafði mig loks fram úr, með voldugan hausverk, var Laureen hvergi sjáanleg. Ekki á hæðunum fyrir neðan og ekki úti í garði. Ummerki um partýið kvöldið áður voru alls staðar, tómar flöskur og flóandi öskubakkar, matarleifar, drasl.
Ég hafði ekkert að gera þarna lengur og dreif mig út. Veðrið var heitara en áður og ég lagðist á magann við lækjarbakkann og skvetti framan í mig köldu vatni.
„Aaaah,“ dæsti ég. „Mikið er þetta gott. Hér er ég … maður á lækjarbakka að gera það besta úr því sem …“
Fugl tísti í nálægu tré. Laufin voru kyrr, höfgi yfir umhverfinu. Sólin, grasið, vatnið. Tónlistin, sem mér hafði fundist ég heyra áður og líktist lyftutónlist, var þögnuð. Ég lá þarna í einhverja stund, í og með að bíða eftir að Laureen gerði vart við sig, en gekk svo áfram í átt að fjallinu.
Hús á hvora hönd.
Girðingar.
Garðar.
Hæðir.
Litir.
Nú sá ég að fjallið var nær en áður. Það var ekki um að villast, og með sama þverklippta toppinn, tíbráin þar yfir eins og op væri á fjallinu. Fullt af vélum? Ást, nánd og kynlífi?
Þessi dagur leið eins og aðrir: ég gekk. Nema að um kvöldið lagðist ég undir runna, eftir að hafa hnuplað teppi sem hafði verið hengt til þerris í einum af görðunum.
Um morguninn rúllaði ég upp teppinu og gekk enn í átt að fjallinu. Um kvöldið lagðist ég á bakið og svaf, dreymdi mann sem fékk krabbamein og dó, og ungar konur sem sátu á strönd og ræddu fjárfestingar.
Einn daginn gekk ég fram á tötralegan náunga sem virtist vera að leita að einhverju í grasinu. Skammt frá honum, hinum megin við girðingu, stóð kona með vandræðalegan svip.
„Þetta er allt í lagi,“ sagði konan. Innan úr húsinu heyrðist í hlæjandi börnum.
Ég bauð góðan daginn og spurði hvort ég gæti nokkuð hjálpað.
„Ég týndi veski í garðinum, eða barnið mitt sagðist hafa hent því yfir girðinguna. Þessi góði maður er að hjálpa mér,“ sagði konan.
„Það var ekkert,“ sagði maðurinn oní jörðina en hélt leitinni áfram. Frá honum barst stæk moldarlykt, hárið á höfðinu var grátt og vírað, fötin höfðu ekki verið þvegin lengi. Eftir nokkrar vikur gæti þetta verið ég. Ef ég hefði ekkert markmið gerðist það eflaust hraðar.
„Hvernig lítur veskið út?“ spurði ég og skimaði í kringum mig í grasinu.
„Það er rautt og lítið, bara svona klinkveski.“
„Aha.“
„Alveg óþarfi að gera mál úr því. Má ekki heldur bjóða ykkur inn í garð til mín?“
Ég þáði boðið, enda langt síðan ég hafði borðað, og tötramaðurinn umlaði eitthvað sem ég túlkaði sem samþykki fyrir konuna. Við settumst við borð í garðinum og leyfðum sólinni að hita okkur, ég fann volga golu berast innan úr húsinu.
Konan kom aftur út og hélt nú á bakka fullum af brauðhornum og áleggi, safa í stórri könnu. Hún hafði skipt um föt og var nú í rauðum hnjásíðum kjól sem lagðist þétt að mittinu, og gulum stígvélum, of lágum til að vera vaðstígvél eða nokkuð sem varðaði lækinn. Ég gerði ráð fyrir að hún notaði þau í garðvinnu, enda var garðurinn vel snyrtur og blóm í vandlega útstungnum moldarbeðum.
Þegar matnum lauk komu tvö þögul börn út úr húsinu og léku sér í garðinum með bolta og spýtur. Við Alma, sem var nafn konunnar, reyndum að kynnast tötramanninum en þótt hann virtist viljugur til að miðla einhverjum andskotanum skildum við fátt, þar til hann stóð upp og bugtaði sig svolítið til að kveðja. Ég var feginn. Við horfðum á eftir honum ganga burt, klappa öðru barnanna á kollinn en halda svo leið sína burt, í hina áttina miðað við mína stefnu. Það fyllti mig snöggu vonleysi, að hugsa um alla dagana sem færu í að ná aftur þeim stað þar sem mitt ferðalag hófst.
„Hann var skrýtinn,“ sagði Alma og lét sig síga neðar í stólnum. Ég horfði á smávaxin brjóstin á henni og lærin sem höfðu færst í sundur, ber hnén, sólbrúna leggina. Einn daginn yrði ég gamall og hefði ekki áhuga, eða leifarnar af kynhvöt byggju í líkamanum eins og bergmál. Ef ég væri seníll myndi ég kannski glápa grimmilega á einhverja þjónustustúlku án þess að hafa vit á að skammast mín eða fela löngunina, sem væri samt löngu slokknuð: meiraðsegja dýpstu hvatir okkar verða að vana í tjáningu sinni, hún heldur áfram þótt uppsprettan sé þornuð, við líkjumst skel utan um eitthvað sem er horfið.
„Ég ætla að svæfa börnin,“ sagði Alma þegar ljósaskiptin komu. Að því loknu kveikti hún á ljósum í garðinum, marglitum rauðum, gulum og grænum og við drukkum þessa sömu bjóra og ég hafði séð þarna áður í húsunum. Enn eitt kynlífið lá í loftinu og þótt ég nennti því ekki kraup ég fyrir framan hana í stólnum, togaði nærbuxurnar niður um hana og byrjaði að putta hana. Ég juðaði þumli skáhallt uppávið og heyrði að Ölmu líkaði það og glennti fæturna lengra út. Á sama tíma nuddaði ég handarbakinu við snípinn á henni. Nokkrum mínútum síðar spýttist vökvi út úr henni, eða ég fann volgan hita leggjast yfir handarbakið, mjúklega eins og úði, og þegar ég dró til mín höndina var hún löðrandi í slími. Sumt af því hafði lekið oní gulu stígvélin.
Í stofunni var slatti af húsgögnum og stór tölvuskjár á borði. Á efri hæðinni voru svefnherbergi barnanna en Alma svaf í litlu herbergi út af stofunni á svefnsófa. Við lögðumst upp í sófann og hún kveikti á hátalara þar sem heyrðist í konu sem hvíslaði og strauk greiðu í gegnum hárið. Alma reyndi að útskýra fyrir mér hvernig þessi hvíslandi kona bægði burt kvíða. Á eftir sagðist hún vinna við að forma hreyfingar persóna í tölvuleikjum en léti sig dreyma um að gefa út eigin leik sem héti Hiroshima, fullkomna endursköpun hinnar sögulegu borgar Hiroshima í þrívídd á deginum sem bombunni Litla strák var varpað á hana: spilarinn ætti að safna ítemum og bjarga eins mörgum manneskjum frá dauða og hægt væri.
Ég sofnaði loksins.
5
Þegar ég var barn gekk ég eftir strönd við stöðuvatn, ég man ekki samhengið en ætli ég og foreldrar mínir höfum ekki verið í sumarbústað. Þar á gráum sandi gekk ég fram á eldri konu, sem þýðir að hún hefur allt eins getað verið tvítug, þrítug eða fertug. Hún hafði bakkað litlum jeppa niður í flæðarmálið, aftan í jeppanum var kerra og á henni langt rör sem konan var í óðaönn að skrúfa upp í loft og snúa því svo út á hlið samkvæmt tölum á skjá ofan á þaki bílsins. Ég spurði hvað hún væri að gera.
Ég er í vinnunni litli minn, sagði hún þá.
Við hvað vinnurðu?
Ég vinn við að leita að týndu fólki.
Hún sýndi mér rörið og leyfði mér að klifra um borð í kerruna og horfa inn um rörið.
Þú verður feginn að vera ekki með höfuðið þarna eftir smástund, sagði hún þá með húmor í röddinni.
Af hverju?
Hún opnaði skottið á bílnum þar sem var kassi fullur af stórum og þungum kúlum.
Þetta eru fallbyssukúlur, sagði hún þá. Veistu hvað maður gerir við þannig kúlur?
Lætur þær í fallbyssuna.
Alveg rétt.
Að þessu loknu opnaði hún hlera neðst á fallbyssurörinu, hífði eina af kúlunum þangað og lét hana falla oní rörið. Dynkurinn var þungur eins og allt líf fullorðinna væri þar samþjappað, og ómaði út yfir vatnið, gæddi það depurð og formi sem ekkert rúmaðist í. Sjálfsagt kom ég ekki orðum yfir það fyrr en síðar.
Eftir nokkra snúninga í viðbót og gláp á skjáinn bað konan mig að færa mig fjær bílnum og grípa fyrir eyrun. Ég hlýddi en þóttist bara taka fyrir eyrun. Glymjandi hvellur heyrðist frá byssunni, svo hár að vatnið næst okkur gáraðist, og súr reykur fyllti loftið.
Sjáðu, hrópaði konan og benti út á vatnið, röddin hennar var fjarlæg. Ég sá vatnsgusu stíga til himins langt úti á stöðuvatninu. Konan sneri fallbyssunni, bætti við kúlu og skaut aftur. Ærandi hávaði, gusa úti á vatninu. Hvellur, gusa. Hvellur, gusa. Á milli þess að konan hleypti af tók hún upp kíki og starði gegnum hann út á vatnið.
Ertu að finna týnda fólkið? spurði ég.
Vonandi.
Hún skaut nokkrum sinnum í viðbót þar til hún fann það sem hún leitaði, ég sá það af fasinu: hún horfði í kíkinn en lét hann svo síga, pírði augun út á vatnið og kinkaði kolli.
Þarna er hann, sagði hún að lokum. Hún rétti mér kíkinn, hjálpaði mér að beina honum í rétta átt þar til ég sá það sama og hún: það líktist trjábol fljótandi í vatninu.
Þetta er karl sem gekk út í vatnið og dó, sagði konan. Allir vinir hans hafa verið að leita að honum en nú fundum við hann. Nú getum við jarðað hann.
⁂
Ég hélt áfram göngunni og fann á mér að henni færi að ljúka. Réttara sagt sá ég að fjallið var svo nærri að brátt hlyti ég að koma að rótum þess og byrja klifrið. Á tindinum sæi ég þá væntanlega oní fjallið og gæti ákveðið í framhaldinu hvað best væri að gera. Eftir því sem nær dró greindi ég hljóð frá fjallinu, taktfastan slátt í líkingu við tunk tunk tunk, þurrt hljóð, eins og einhver spýtti þurru en á slíkum hraða að ekkert sást sem kom út. Á óvenju lygnum degi greindi ég þjótandi rákir ofan við fjallið, lóðréttar, bein strik út í geim, en það var ekkert til að vera viss um.
Húsin á hvora hönd voru þau sömu og fyrr. Grasið það sama og fuglarnir, trén, lækurinn, fiskarnir, litlu brýrnar frá einum bakka yfir á hinn. Vatnið var svalt og gott, sólin heit. Á minni löngu göngu hafði ég kynnst fólki, notið ásta og tekið lit. Ég vissi ekki hvað annað væri hægt að biðja um. Þrekið var betra en áður og ég gaf mig ekki lengur að hugsunum sem lágu í hring og höfðu ekkert svar, og það sem hét tilfinningar – frumstæð og mögulega skýrari gerð hugsunar – kom æ sjaldnar til mín eftir því sem ég leitaði minna í samneyti við annað fólk.
Nær fjallinu fór ég að taka eftir öðru hljóði en tunkinu, það var mýkra og reglulegra. Í ljósaskiptunum settist ég undir tré og leyfði þessu hljóði að renna með blóðinu í mér, hring um líkamann, að og frá, og grunaði af hverju það stafaði. Ég lagðist til svefns undir runna, sveipaði um mig teppinu og í dagrenningunni braut ég það saman og gekk síðasta spölinn á ferðalagi mínu.
Ég kom að strönd. Þar sem húsin enduðu tók við fjara, mjó og sendin. Þar utar var sjórinn, hann teygði sig lengri leið en ég bjóst við að fjallinu sem var á eyju fyrir utan ströndina. Upp úr tindi fjallsins spýttist holl af þessum hlutum sem vildu burt, hurfu á ljóshraða – eða þannig orðaði ég það fyrir sjálfum mér – upp í blámann og út í myrkrið.
Ég settist á grjót í fjörukambinum og nuddaði á mér andlitið.
„Þá syndi ég?“ sagði ég til að máta mig við það. En fjarlægðin var of mikil. Ég reif mig á fætur og gekk eftir ströndinni, í og með til að gægjast fyrir horn á fjallinu ef ske kynni að það stæði yst á nesi sem mætti þá nálgast með áframhaldandi göngu. Eftir allan þennan tíma með hús á báðar hendur var ringlandi að hafa þau bara öðrum megin: til vinstri var regluleg röð af húsum en nú séð frá hlið en ekki að aftan, og í hina áttina var vellandi sjórinn með lykt af salti og þangi.
Ljósaskiptin komu og framundan, á fjörukambinum, sá ég útlínur manns. Hann stóð og beið mín, hokinn og veiklulegur í fasi, mér fannst ég næstum því greina skjálftann í hreyfingum hans. Þegar nær dró sá ég framan í hann, leðrað og hrukkótt andlit, og glitti í silaleg augun undir framstæðu, slapandi enni. Hann studdi sig við skóflu og virtist aðframkominn eftir eitthvað erfiði. Ég fylgdi augliti hans að húsinu næst okkur. Sandur frá ströndinni hafði fokið út yfir grasið í garðinum og húsveggurinn sem sneri að okkur var veðraður. Engin girðing var umhverfis garðinn og hola í honum miðjum.
„Hvað ertu að horfa á gamli?“ spurði ég en beið ekki eftir svari. Ég gekk að garðinum og virti fyrir mér holuna. Hún var á lengd við manneskju og nógu djúp til að mætti jarða eina slíka. Moldarhaugur var næst holunni, sem ég gerði ráð fyrir að karlinn hefði mokað til að framkalla gröfina. Kannski lá honum á að deyja.
Ég greindi hreyfingu fyrir aftan mig. Eitthvað skall á höfðinu og ég bar fyrir mig hendurnar, en það var of seint. Mér fannst blóðið renna úr þeim og mér öllum. Ég seig niður á hnén, deplaði augunum. Holan var beint fyrir framan mig. Í stutta stund sá ég hvert smáatriði hennar eins og kveikt væri á blysi á himninum, flær skutust um veggina með þruski, ormur rann inn um holu í bakkanum, glampandi vatn lá á botninum. Ég heyrði karlinn stynja við eyrað, uppgötvaði að hann hélt undir handleggina á mér og reyndi að velta mér ofan í gröfina. Ég gerði mitt besta til að streitast á móti en hafði ekki kraft í það.
Þá hrapaði ég og veröldin snerist á hvolf. Dynkur kom á bakið og allt sem ég sá varð hvítt í augnablik, þar til myrkrið þrengdi að frá hliðunum en skildi eftir svolítinn glugga. Höfuð gamla mannsins gægðist inn um gluggann en hvarf svo aftur. Mold sáldraðist niður til mín en kom svo í gusum eins og karlinn hefði munað hvernig átti að nota skófluna. Mér varð hugsað til lífs míns: þótt það hefði virkað langt og á einhvern hátt knýjandi meðan á því stóð, var ekki beinlínis neitt sem ég saknaði. Og miðað við þreytuna sem fylgdi því að halda öllu gangandi, hreyfa sig innan og utan, var léttir að þurfa þess ekki lengur. – Eftir langa göngu, að liggja og finna jörðina þéttast utan um sig og verða að engu.
Mér þykir það leitt.