Þorvaldur Sigurbjörn Helgason
Ég er rangur maður
á röngum tíma
í vitlausu húsi
Jónas Sigurðsson & Unnsteinn Guðjónsson
Það hætti að rigna daginn sem Steingrímur Sturla gafst upp á að vera skáld. Janúar hafði verið einstaklega snjóþungur og frostið farið niður fyrir 14 gráður í höfuðborginni í fyrsta sinn í mörg ár, svo Reykvíkingar siluðust um í eins konar kuldamóki þessar fyrstu vikur ársins. Í byrjun febrúar skaust hitinn svo skyndilega upp fyrir frostmark og þá byrjuðu rigningarnar. Í tvær vikur rigndi sleitulaust og snjórinn sem hafði safnast upp í janúar breyttist í gráleitt slabb sem stíflaði niðurföll og seitlaði gegnum rammgerðustu kuldaskó. Rigningarnar hættu jafn skyndilega og þær höfðu byrjað og á Valentínusardaginn 14. febrúar, sama dag og Steingrímur Sturla gafst upp á skáldadraumnum, gerði asahláku sem olli fimm umferðarslysum í morguntraffíkinni.
Steingrímur var hins vegar hvorki með hugann við veður né umferð þegar hann vaknaði þennan febrúarmorgun klukkan rúmlega 10 í litlu íbúðinni sinni og Lovísu Láru á stúdentagörðunum við Sæmundargötu. Það sem Steingrímur var með hugann við var ljóðalesturinn sem hann hafði verið bókaður á klukkan 11 á elliheimilinu Grund, eftir tæpan klukkutíma, og hann var ekkert búinn að undirbúa sig fyrir. Steingrímur teygði sig í símann sem var búinn að hringja látlaust í um klukkutíma og andvarpaði er hann sá hvað klukkan var. Hann hafði verið á Bókhlöðunni til klukkan 11 í gær og eftir vinnu hafði hann farið út í einn bjór á Kalda með kollega sínum Steinari strjúpa, doktorsnema í sagnfræði sem fékk viðurnefnið vegna þess að doktorsritgerðin sem hann hafði verið að skrifa í bráðum sjö ár fjallaði um aftökur á Íslandi. Bjórarnir höfðu margfaldast eftir því sem leið á kvöldið og Steingrímur hafði ekki skilað sér heim fyrr en klukkan var farin að ganga tvö en þá hafði Lovísa Lára vitaskuld löngu verið sofnuð.
Steingrímur Sturla Hermannsson, skáld og bókmenntarýnir, var svo sannarlega ekki A-týpa, raunar lýsti hann sjálfum sér stundum sem F-mínus týpu. Hann var hvorki með fasta vinnu, ef frá voru skilin þessi þrjú kvöld í viku sem hann sat yfir á Landsbókasafni, né fasta rútínu, ef frá var skilinn kaffibollinn sem hann drakk á Kaffi Vest þangað sem hann fór yfirleitt í kringum hádegi til þess að lesa og skrifa. Steingrímur var 29 ára gamall og ríghélt sér í bóhemlífið sem hann hafði komið sér upp í ritlistinni og hafði hvorki löngun né vonir um að koma sér upp reglubundnara lífi í framtíðinni. Lovísa Lára Olsen, kærasta Steingríms, var hins vegar eins mikil A-týpa og þær gerast. Lovísa Lára var 27 ára gömul og á lokaárinu sínu í læknisfræði. Hún vaknaði kl. 5:30 á virkum dögum til að ná sextímanum í WorldFit í Vatnsmýrinni áður en skólinn byrjaði og var því yfirleitt bæði sofnuð og vöknuð löngu á undan kærasta sínum. Stundum rumskaði Steingrímur á meðan Lovísa Lára var að hafa sig til og náði að smella einum svefndrukknum kossi á hana áður en hún fór og stundum kom það jafnvel fyrir að hann var ekki farinn að sofa þegar hún vaknaði, límdur við einhverja bók eða sjónvarpsþátt. Steingrímur og Lovísa Lára höfðu kynnst á Októberfest í Háskólanum fyrir fjórum árum þegar Steingrímur hafði verið að klára meistaranámið sitt í ritlist. Þrátt fyrir að vera nánast jafn ósamrýmanleg og vatn og olía þá var eitthvert óútskýranlegt aðdráttarafl á milli Steingríms og Lovísu Láru sem kjarnaðist meðal annars í sameiginlegum áhuga þeirra á drykkjuleikjum og hryllingsmyndum. Munurinn var hins vegar sá að á meðan Lovísa Lára stundaði drykkju einstaka sinnum á ári í vel skilgreindum samsætum þá vildi Steingrímur helst vera vel maríneraður á hverjum degi.
⁂
Steingrímur aflæsti símanum og það fyrsta sem blasti við honum, fyrir utan tilkynningu um að hann ætti að mæta á Grund eftir 44 mínútur, var SMS frá Lovísu Láru með tímastimplinum 7:07 sem sagði: „Mundu að gefa Lóló. Glaðningur fyrir þig í eldhúsinu í tilefni dagsins,“ og með fylgdi eitt hjarta.
Lóló var kötturinn hennar Lovísu Láru. Tólf ára gömul svört læða sem hún hafði erft frá ömmu sinni og hafði upphaflega verið nefnd Lovísa sem síðan hafði verið stytt niður í Lóló. Lóló hefur sennilega verið egypsk hofgyðja í fyrra lífi því hún var vön að komið væri fram við sig eins og hefðarfrú og hafði sýnt Steingrími ekkert nema hina dýpstu fyrirlitningu á þeim fjórum árum sem liðin voru frá því þau kynntust. Steingrímur staulaðist fram úr rúminu og reyndi að nudda lífi í andlitið. Gólfið var ískalt viðkomu og Steingrímur tiplaði hratt inn á baðherbergi þar sem hann pissaði dökkgulu pissi og burstaði tennurnar. Hann horfði á sjálfan sig í speglinum og fitjaði upp á nefið. Rauðleit skeggrótin var orðin nokkurra daga gömul en ekki á þennan sexý George Clooney hátt heldur þennan ískyggilega hátt sem gefur til kynna langvarandi atvinnuleysi og/eða alkóhólisma. Hann var auk þess með þykka bauga undir augunum og ljóst hárið var algjört mess. Steingrímur ákvað að það væri of seint að fara í sturtu þannig hann skvetti smá vatni framan í sig, renndi greiðu í gegnum hárið og setti dass af svikalyktareyði undir handarkrikana áður en hann gekk fram í eldhús. Lovísa Lára hafði hellt upp á kaffi áður en hún fór og skilið brauð og túnfisksalat og nokkur croissant úr Brauð og Co eftir á borðinu.
Fallegt af henni að muna eftir upplestrinum, hugsaði Steingrímur og reif bita af öðru smjörhorninu.
Steingrímur hellti restinni úr Moccamaster-könnunni í bláan Múmínbolla og skellti honum í örbylgjuofninn í eina mínútu. Hann fiskaði dallinn hennar Lólóar upp af gólfinu, hellti einum bolla af þurrmat í hann og blandaði einni matskeið af blautmat saman við. Lóló sjálf sat í gluggakistunni, starði út um rifu í gluggatjöldunum og sýndi matnum ekki minnsta áhuga.
„Ksss, ksss,“ sagði Steingrímur og otaði dallinum í áttina að Lóló en fékk engin viðbrögð.
„Lóló, matur,“ sagði hann og ýtti við kettinum.
Lóló sneri sér leiftursnöggt við og hvæsti á hann áður en hún sneri sér aftur að því sem hún var að fylgjast með fyrir utan gluggann.
„Ókei, róleg,“ sagði Steingrímur og lagði dallinn harkalega niður á gólfið við hliðina á vatnsbrunninum.
„Þessi köttur er kominn með alzheimers eða eitthvað,“ tautaði hann fyrir munni sér og gekk aftur inn í svefnherbergið. Klukkan var nú orðin 10:34 og Steingrímur þyrfti að fara að leggja af stað ef hann ætti að ná á elliheimilið á réttum tíma. Hann henti yfir sig brúnni flauelsskyrtu, grænni ullargollu og fór í svartar gallabuxur. Skimaði yfir bókahilluna og greip ljóðabækurnar sínar þrjár; Vaxtarverkir á galeiðunni, sú nýjasta, Ég hugsa bara um þig eftir miðnætti sem hlotið hafði Nýræktarstyrk tveimur árum áður, og Skuggar í skjóli nætur, hans fyrsta. Steingrímur fletti snöggt í gegnum bækurnar, íhugaði að velja ljóð en ákvað að hann myndi bara spila þetta eftir eyranu og setti þær í bakpoka ásamt fartölvunni sinni. Klukkan 10:46 klæddi hann sig í kuldaskó og ljósbrúnu mokkakápuna sína og gekk út úr íbúðinni.
⁂
Steingrímur var kominn á Grund kl. 11:02. Hann ráfaði um lóðina í nokkra stund áður en hann fann réttan inngang og steig inn í mannlaust anddyri. Steingrímur hafði ekki hugmynd um hvar viðburðurinn átti að fara fram en frá enda gangsins barst ómur af röddum og hann gekk á hljóðið. Steingrími krossbrá þegar lítill og snaggaralegur maður með eldrautt krullað hár og gítar í fanginu birtist skyndilega fyrir framan hann eins og hann hefði verið sendur niður frá himnum. Maðurinn byrjaði samstundis að tala og var svo óðamála að Steingrímur átti í fullu fangi með að greina orðaskil.
„Já þarna ertu loksins kominn velkominn ert þú ekki skáldið Sturla Steingrímur hinn eini sanni sæll vertu Þorgrímur staðarhaldari hér eða ég er nú reyndar bara viðburðastjóri en það gildir einu má bjóða þér kaffi te vatn við þurfum nú reyndar að fara að haska okkur þetta byrjar vanalega á slaginu en samt enginn asi það er ekki eins og þau hafi eitthvað betra að gera gamla fólkið,“ sagði maðurinn og skellihló svo gítarinn hristist á stæðilegri bumbunni.
Steingrímur hugsaði um að benda Þorgrími á nafnaruglið en var svo ringlaður að hann kinkaði bara kolli og fylgdi manninum eftir inn í salinn. Gamla fólkið sat í röðum, ýmist í stólum með göngugrindur sér við hlið eða í hjólastólum.
„Við byrjum alltaf á smá fjöldasöng og svo kynni ég þig inn þú tekur þetta bara ertu ekki vanur verðlaunaskáld þetta er bara svona fimmtíu mínútur en þú þarft ekkert að flýta þér þau fara í mat klukkan 12:15 mæli með að tala í míkrafóninn þau heyra svolítið illa mörg hver elsku lömbin,“ sagði Þorgrímur og hló aftur sínum hvella hlátri.
Steingrímur blikkaði augnum og hristi höfuðið. Hann gat ekkert annað gert en að fylgja Þorgrími sem strunsaði í átt að sviðinu þar sem búið var að koma fyrir stærðarinnar púlti.
„Viltu að ég lesi í fimmtíu mínútur? Er það ekki svolítið langt?“ spurði Steingrímur.
„Langt tja það fer nú bara eftir því hversu mikið efni þú ert með en ef þú klárar það þá geturðu bara byrjað aftur frá byrjun þau eru öll meira og minna með elliglöp eða heilabilun elskurnar,“ sagði Þorgrímur án þess að stoppa og gaf frá sér eina hvella hláturroku áður en hann vippaði sér upp á sviðið og byrjaði nánast samstundis að syngja í míkrafóninn við eigin undirleik.
„Ég þekkti einu sinni fatlafól sem flakkaði um í hjólastól með bros á vör og berjandi þó lóminn …”
Steingrími fannst lagavalið nokkuð sérstakt og leit í kringum sig eins og til að staðfesta það en náði ekki augnsambandi við neinn. Raunar var öll stemningin í salnum með eindæmum sérstök. Það virtist ekki ein manneskja vera að njóta sín að undanskildum Þorgrími sem lifði sig inn í spilamennskuna eins og hann væri sjálfur Bubbi á Þorláksmessutónleikum. Nokkur gamalmenni á fremsta bekk brostu út að eyrum og dilluðu höfðinu til og frá en það var ómögulegt að segja hvort þau voru að njóta tónlistarinnar eða einhvers sem var í gangi innra með þeim. Fæstir litu raunar út fyrir að vera þarna af fúsum og frjálsum vilja. Gömul kona sem var óaðfinnanlega klædd í bleika dragt, með lagningu og bleikan varalit, sat með lokuð augu og kreppta hnefa í hjólastólnum sínum og í hvert skipti sem Þorgrímur sló nýjan tón á gítarinn kipptist hún til eins og hún vildi helst kýla einhvern. Fimm starfsmenn í túrkisgrænum vinnugöllum hölluðu sér upp að aftasta vegg með nefin ofan í símunum. Tvö þeirra, ungur maður og kona, skiptust á að sýna hvort öðru eitthvað og flissa.
Þorgrímur spilaði tvö önnur Bubbalög áður en hann kynnti Steingrím á svið sem þá var farinn að svitna, að hluta til vegna þess að hann var klæddur í þykka ullargollu og að hluta til vegna óþæginda yfir aðstæðunum.
„Já lömbin mín þetta voru nokkur lög eftir þjóðskáldið okkar Ásbjörn Morthens en næst stígur á svið annað skáld sem er minna þekkt en engu að síður efnilegt já það geta ekki allir verið Bubbi en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér kannski erum við að horfa upp á næsta þjóðskáld það verður bara að koma í ljós þessi ungi maður hefur gefið út þrjár ljóðabækur Sturla Steingrímur Hermannsson gefið honum gott klapp hann ætlar að lesa aðeins fyrir okkur,“ sagði Þorgrímur.
Þegar Steingrímur steig upp á svið, undir hófsamasta lófataki sem hann hafði nokkurn tíma orðið fyrir, fann hann að hann var orðinn jafn þurr í munninum eins og hefði hann reykt heila jónu og auk þess löðrandi sveittur. Steingrímur hugsaði með sér hversu kaldhæðnislegt það væri að á meðan einn partur líkamans þráði vatn, þráði annar partur líkamans ekkert meira en að losa sig við vatn. Hann skráði niður andlega glósu um að muna þetta svo hann gæti notað það í ljóð seinna. Steingrímur ræskti sig í míkrafóninn og leit yfir salinn. Það var enginn með athyglina á honum fyrir utan einn gamlan mann með flöskubotna gleraugu sem pírði augun og galopnaði þau til skiptis.
„Góðan daginn,“ sagði hann. „Ég heiti Steingrímur Sturla og ég ætla að lesa fyrir ykkur nokkur ljóð úr ljóðabókunum mínum.“
Þögn.
„Það er gaman að segja frá því að amma mín bjó hérna síðasta æviárið sitt. Hún hét Guðríður Freyja og var fædd í Hnífsdal. Hún dó fyrir þremur árum en kannski muna einhver ykkar eftir henni.“
Þögn.
„Fyrsta ljóðið sem ég ætla að lesa heitir „Réttur maður“ og er úr fyrstu ljóðabókinni minni Skuggar í skjóli nætur. Þessi bók var eins konar konseptverk og eins og þið heyrið kannski þá er titilinn vísun í þekkt lag með Sálinni hans Jóns míns en öll ljóðin eru einmitt skrifuð út frá einu íslensku dægurlagi. Þetta er eiginlega svona bók sem brúar bilið á milli kaldhæðni og einlægni eins og einn gagnrýnandi sagði.“
Þögn.
Steingrímur kyngdi og byrjaði að lesa.
af hverju get ég ekki lifað eðlilegu lífi?
spurði sonurinn móðurina
af hverju get ég ekki hætt að stara í spegilinn?
spurði maðurinn sálfræðinginn
af hverju get ég ekki hætt að gráta eftir að við elskumst?
spurði elskhuginn heitkonuna
Á meðan Steingrímur var að lesa upp ljóðið fikraði gömul kona í göngugrind sig í átt að sviðinu. Konan var klædd í hvíta hneppta peysu sem var búin að síga niður axlirnar og gamlan Kvennahlaupsbol sem hafði eflaust eitt sinn verið rauður en var orðinn fölbleikur af notkun. Konan tautaði eitthvað fyrir munni sér en það var ekki fyrr en hún var komin alveg upp að sviðinu sem Steingrímur heyrði hvað hún sagði.
„Þetta er nú meiri djöfuls vitleysan. Þetta er nú meiri djöfuls vitleysan. Þetta er nú meiri djöfuls vitleysan,“ endurtók konan í sífellu og fussaði í hvert sinn sem hún sleppti orðinu.
Steingrímur fipaðist og reyndi að halda áfram en fann að hann var búinn að missa þráðinn þannig hann ákvað að byrja á nýju ljóði.
skuggar í skjóli nætur skjóta rótum
róta skjótum
fleyta hrjótum
í gjótum
með ljótum
mönnum sem taka og taka og taka
Konan hélt áfram að tauta fyrir munni sér en sem betur fer hafði einn starfsmaðurinn tekið eftir aðförum hennar og gekk nú í átt að sviðinu til að hjálpa henni.
„Gógó mín,“ sagði starfsmaðurinn, ung sólbrún kona með topp. „Gógó mín viltu ekki setjast niður?“
„Þetta er nú meiri djöfuls vitleysan,“ hélt Gógó ótrauð áfram. Unga konan tók blíðlega um axlir gömlu konunnar og stýrði henni í átt að lausu sæti í næstfremstu röð þar sem Gógó hélt áfram að tauta sína möntru. Steingrímur kláraði ljóðið og leit á klukkuna. Hann var búinn með fimm mínútur, það voru 45 eftir. Hann kyngdi og fletti bókinni.
⁂
„Jæja þetta gekk nú bara svona ljómandi vel fannst þér ekki það var allavega frábær mæting og gott næði það er sko ekki sjálfgefið get ég sagt þér það hafa nú verið nokkur skipti þar sem erfiðir vistmenn hafa sett þetta alveg úr böndunum með kvarti og kveinum og jafnvel öskrum en það skiptir nú ekki öllu þú mátt vera ánægður með þig svo ef þig langar til að skilja eftir einhverjar bækur fyrir bókasafnið þá er það Guðvelkomið,“ sagði Þorgrímur er hann arkaði til Steingríms að lestrinum loknum.
Steingrímur hafði klárað að lesa svo gott sem öll ljóðin sín (allavega öll sem voru viðeigandi fyrir aðstæður) en samt átt tíu mínútur afgangs svo hann hafði spilað af fingrum fram og endað á að segja sögu af afa sínum heitnum sem hafði verið prestur á Fáskrúðsfirði, þekktur fyrir lausavísur. Steingrímur fattaði að hann hafði steingleymt að spyrja um greiðslu og vonaði innilega að hún væri eftir taxta rithöfundasambandsins því hann skuldaði 100.000 krónur í yfirdrátt.
„Hérna, sorrý en ég gleymdi alveg að spyrja, hvað er eiginlega greitt fyrir þetta?“
Þorgrímur starði á hann í nokkrar sekúndur áður en hann skellti upp úr.
„Elsku kallinn við borgum því miður ekki neitt það er nú bara þannig að hér gefa allir vinnu sína meira að segja Bubbi sjálfur hefur heiðrað okkur með nærveru sinni og rukkaði ekki krónu fyrir ómakið en öll ljóðskáld koma fyrir í tímaritinu okkar,“ sagði Þorgrímur og rétti honum bækling með nafni elliheimilisins. Á síðu þrjú var gömul mynd af Steingrími, greinilega tekin af Facebook-síðu hans og yfir henni stóð „Skáld mánaðarins: Sturla Steingrímur“. Þau höfðu meira að segja prentað nafnið hans vitlaust.
„Þú getur sett þetta á ferilskrána þegar þú sækir næst um listamannalaun,“ sagði Þorgrímur. Steingrímur brosti bara og kinkaði kolli.
⁂
Steingrímur gekk út af elliheimilinu kl. 12:12 með furðulega tilfinningu í maganum, eins og hann hefði á einhvern hátt verið svikinn. Þrátt fyrir að mistökin væru algjörlega hans megin að hafa ekki spurt út í greiðslu þegar Þorgrímur hringdi í hann til að biðja hann um að lesa upp. Honum rámaði reyndar eitthvað í að Þorgrímur hefði talað um að það væri „gaman að láta gott af sér leiða“ en hafði ekki fattað að góðverkið myndi fara ólaunað.
Steingrímur tók stefnuna niður Hringbraut í átt að Bræðraborgarstíg þar sem útgefandi hans var til húsa. Það var smá sólarglæta en það var byrjað að snjóa aftur, í þetta sinn hundslappadrífu, eins og veðrið ætlaði að tikka í öll boxin þennan rómantískasta dag ársins. Hann velti fyrir sér að senda Lovísu Láru skilaboð og segja henni frá þessum furðulega upplestri en ákvað að spara söguna þar til í kvöld. Á ljósunum við Hofsvallagötu pípti síminn hans, þetta voru skilaboð úr hópspjallinu með skáldavinahópnum og það var greinilega eitthvað mikið að gerast.
„TIL HAMINGJU ELSKU STÍNA!!!“ sögðu ein skilaboðin.
„vávávává þú ert svo vel að þessu komin elsku besta,“ sögðu önnur og með þeim fylgdu fimm hjörtu.
„svo mikil negla #slayqueen,“ sögðu þau þriðju og með fylgdi tjákn af vöðvastælum upphandleggsvöðva og broskalli með sólgleraugu.
Það var greinilegt að vinkona Steingríms, Kristín Þula, oftast kölluð Stína, hafði unnið til einhverra verðlauna eða afrekað eitthvað stórkostlegt, miðað við lætin á hópspjallinu. Steingrímur opnaði Facebook og þar blasti við honum fréttin sem hundruð manns voru þegar búin að læka og deila.
„Kristín Þula og Einar Kárason tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs,“ sagði fyrirsögnin og undir henni var samsett mynd af höfundunum tveimur, myndin af Stínu frá því þegar hún hafði hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör árið áður.
Ljósið var orðið grænt en Steingrímur gleymdi sér við að lesa fréttina þar til það skipti aftur um lit. Stína hafði verið tilnefnd til þessara virtu bókmenntaverðlauna fyrir fyrstu skáldsögu sína Glerbrot, sykur, blóðmáni sem hafði hlotið einróma lof gagnrýnenda þegar hún kom út fyrir rúmu ári. Stína og Steingrímur höfðu verið góðir vinir í ritlistinni en höfðu smám saman fjarlægst, fyrst og fremst vegna duldrar afbrýðissemi Steingríms sem hann þorði ekki að viðurkenna fyrir neinum, allra síst fyrir sjálfum sér. Steingrímur íhugaði að sleppa því að óska henni til hamingju en vildi ekki virðast bitur þannig hann skrifaði „til hamingju kæra“ í spjallgluggann og hugsaði lengi um það hvort hann ætti að láta hjarta eða broskall fylgja með. Hann var enn í þessum hugleiðingum þegar stærðarinnar rúta beygði harkalega inn á Hofsvallagötu og beint ofan í poll svo grábrúnt götuslabbið slettist yfir Steingrím og ljósbrúnu mokkakápuna sem hann hafði keypt á uppáhalds fatamarkaðnum sínum í Berlín. Fyrstu viðbrögð Steingríms voru að öskra og steyta hnefann á eftir rútunni en hann áttaði sig fljótt á því að það myndi ekki breyta neinu í stöðunni þannig hann starði bara niður fyrir sig á meðan slabbið lak niður kápuna og ofan í kuldaskóna hans.
Getur þessi dagur mögulega orðið verri? hugsaði Steingrímur Sturla með sér og eins og fyrirboði um það að dagurinn ætti svo sannarlega eftir að verða verri heyrðist krunk í hrafni einhvers staðar fyrir ofan hann.
⁂
Eftir að Steingrímur var búinn að hrista af sér mesta slabbið hélt hann áfram niður Hringbraut og beygði til hægri upp Bræðraborgarstíg. Þegar hann var kominn í augsýni við skrifstofu útgefandans var honum farið að líða örlítið betur. Í það minnsta var hann spenntur að fá í hendurnar nýjasta hefti tímaritsins þar sem hann var með gagnrýni um jólabók glæpasagnakóngsins. Steingrímur hafði gefið bókinni síður en svo lofsamlegan dóm og var spenntur að sjá hvernig bókmenntaelítan tæki í þessa hallarbyltingu. Hann gekk inn um dyrnar á forlaginu kl. 12:27. Það hringlaði í bjöllu fyrir ofan hurðina og hann stappaði af kuldaskónum í anddyrinu. Fyrir framan skrifborðið sat stelpa, á að giska um tvítugt, klædd í brúnan rúllukragabol, með rautt hárið bundið kæruleysislega upp í snúð. Stelpan var að lesa skáldsöguna hennar Stínu og leit áhugalaus á Steingrím áður en hún sneri sér aftur að bókinni.
„Góðan dag,“ sagði stelpan.
„Góðan daginn,“ svaraði Steingrímur. „Ég er hérna að sækja höfundareintak af tímaritinu.“
„Og nafnið er?“ spurði stelpan án þess að stökkva bros.
Steingrími fannst alltaf svolítið pirrandi að þurfa að segja til nafns þarna á forlaginu sínu þar sem hann var búinn að gefa út tvær bækur en vildi ekki hljóma of hrokafullur þannig hann lét sér það í léttu rúmi liggja.
„Steingrímur Sturla,“ sagði hann og reyndi að hljóma sjálfsöruggur.
Stelpan hvarf inn á skrifstofuna og Steingrímur heyrði hana opna skúffur og róta í einhverjum gögnum. Eftir um það bil mínútu sneri hún til baka með eintak af tímaritinu og þykkan blaðabunka sem hún skellti á skrifborðið fyrir framan sig.
„Gjörðu svo vel,“ sagði stelpan og lét Steingrím fá tímaritið.
„Þetta var líka merkt þér,“ bætti hún við og rétti honum blaðabunkann, handritið að skáldsögunni hans, Berlínardagbókin, sem hafði legið inni á borði útgefandans til yfirlestrar síðan um haustið.
Steingrímur tók við handritinu og fletti því en þar var hvorki að finna athugasemdir né neina skýringu.
„Fylgdi ekkert með þessu?“ spurði hann stelpuna sem var aftur búin að snúa sér að skáldsögunni.
„Nei.“
„Má ég kannski fá að tala við Gerði?“ bætti Steingrímur við.
Gerður var ritstjórinn hans og útgáfustjóri forlagins.
„Ég skal athuga hvort hún sé við,“ svaraði stelpan og hvarf aftur inn á skrifstofuna.
Innan nokkurra augnablika heyrði hann smellina í inniskónum hennar Gerðar og stuttu síðar kom hún arkandi fram í anddyrið með hendur í vösum. Gerður var klædd í bláar smekkbuxur og svartan rúllukragabol og úfið grátt hárið sem innihélt einn svartan lokk bærðist eins og í golu þrátt fyrir að inni á skrifstofunni væri dúnalogn.
„Hvað get ég gert fyrir þig, ljúfurinn?“ spurði Gerður og brosti innilega en fagmannlega.
„Hérna. Ég var bara að spá afhverju þú hefðir sent þetta til baka. Það eru engar athugasemdir eða neitt,“ sagði Steingrímur og lyfti upp handritinu.
„Nei. Það var niðurstaða ritstjóra að handritið sé ekki tilbúið fyrir ritstjórn.“
„Ha? Bíddu er það ekki einmitt hlutverk ritstjóra? Að ritstýra handritum þar til þau eru tilbúin til útgáfu?“ spurði Steingrímur forviða.
„Jú, en handrit þurfa líka að vera komin ákveðið langt til að ritstjórnin skili einhverjum árangri,“ svaraði Gerður fumlaus.
„Ókei, þannig að þið viljið að ég vinni meira í þessu og sendi ykkur aftur?“
Gerður pírði augun á Steingrím í nokkrar sekúndur áður en hún nikkaði til hans með höfðinu að fylgja sér inn á skrifstofuna. Steingrímur gekk á eftir Gerði sem lagði arm yfir axlir hans.
„Steingrímur, ég ætla að vera hreinskilin við þig, af því mér líkar vel við þig. Þetta handrit er ekki það sem við erum að leita að.“
„Allt í góðu. Ég er með fleiri, ég var t.d. að byrja að vinna í nýju smásagnasafni,“ svaraði hann og reyndi að hljóma hvergi banginn.
„Steingrímur minn,“ sagði Gerður og horfði beint í augu hans.
Steingrímur hugsaði með sér að Gerður væri svolítið eins og móðurleg Fran Lebowitz.
„Þér er auðvitað alltaf velkomið að senda okkur handrit en …“
„En hvað?“ spurði Steingrímur.
Gerður andvarpaði.
„Þetta er þriðja skáldsagan sem þú sendir okkur. Ég meina þetta innilega ekki illa en … Æ, hvernig get ég orðað þetta. Við getum bara ekki gefið þetta út.“
„Af hverju?“ spurði Steingrímur og starði á Gerði þar til hún leit undan.
„Þetta er bara ekki það sem við erum að leita að. Steingrímur, þú ert fínt skáld og frábær gagnrýnandi. Við vorum rosa hrifin af nýjustu greininni þinni og viljum gjarnan fá þig til að skrifa meira í tímaritið. Það eru bara ekki öll skáld skáldsagnahöfundar.“
Gerður horfði á Steingrím með svip sem væri best lýst sem móðurlegri vorkunnsemi. Steingrímur þagði og starði niður í beislitað parketið.
„Ókei þá.“
Hann stakk handritinu í kápuvasann, greip tímaritið af skrifborðinu og gekk út án þess að kveðja.
⁂
Steingrímur tók stefnuna niður Bræðraborgarstíg sömu leið og hann hafði komið. Það var hætt að snjóa en hann pældi ekkert í veðrinu, svo einbeittur var hann að það var líkast því sem hann væri í kraftgöngu. Steingrímur strunsaði framhjá blokkunum á Meistaravöllum og beygði til vinstri inn Hagamel í átt að Kaffi Vest þar sem hann hafði í hyggju að létta sér lundina með einum verðskulduðum cappuccino. Þegar Steingrímur gekk loks inn um dyr kaffihússins kl. 12:52 andvarpaði hann feginlega er hann sá að það var akkúrat eitt borð laust við gluggann. Hann klæddi sig úr votri kápunni, lagði hana á stólbakið og gekk upp að afgreiðsluborðinu til að panta. Ewa, kaffibarþjónn sem honum líkaði vel við, var að vinna og Steingrímur ákvað með sér að kannski yrði þessi dagur ekki alslæmur. Þegar röðin var komin að honum ranghvolfdi Ewa augunum og kæfði brosið með sinni einstöku kaldhæðni.
„Þú aftur,“ sagði hún og Steingrímur flissaði.
„Já, sorrý. Hélstu kannski að þú værir laus við mig?“ svaraði hann með leikrænum tilburðum sem fengu Ewu til að brosa.
„Hvað get ég fært þér?“
„Cappuccino, og kannski eina, nei, tvær svona makkarónur,“ sagði Steingrímur og benti á marglitar makkarónur í krukku.
„Einhver sérstök litur?“
„Kannski bara súkkulaði og … hvað er þetta, jarðarberja?“
„Gjörðu svo vel. Ég kem með kaffið,“ sagði Ewa og blikkaði hann í sama mund og hún rétti honum makkarónurnar.
Steingrímur leit í kringum sig á leiðinni að borðinu en þrátt fyrir að kaffihúsið væri pakkfullt þekkti hann engan nema tvær fyrrum skólasystur úr MR sem sátu í hrókasamræðum og skimuðu af og til í átt að tveimur barnavögnum sem lagðir voru fyrir utan gluggann. Steingrímur nennti ekki að heilsa konunum og leit í hina áttina þegar hann gekk fram hjá þeim. Sími hans pípti í þann mund sem hann settist niður og þegar hann kíkti á tilkynninguna sá hann að þetta var hjarta frá Stínu sem hafði lækað kveðjuna hans á hópspjallinu. Á skjánum beið hans líka önnur tilkynning, þessi þó töluvert kvíðvænlegri, tölvupóstur frá Rannís um að honum hefði borist svar við umsókn sinni í vorúthlutun Listamannalauna. Steingrímur hafði fengið synjun í úthlutun haustsins og batt töluverðar vonir við þessa aukaúthlutun því listamenn sem höfðu ekki fengið starfslaun síðast voru í forgangi.
Það hafa borist skilaboð á Mínum síðum Rannís fyrir Steingrímur Sturla Hermannsson. Vinsamlegast skráðu þig inn á Mínar síður sem Steingrímur Sturla Hermannsson til að lesa skilaboðin.
Steingrímur dró Macbook tölvuna sína upp úr bakpokanum, honum fannst eitthvað ósæmilegt við það að skrá sig inn á umsóknargátt Rannís í símanum. Hann var við það að opna svarbréfið þegar Ewa kom aðvífandi með kaffibollann. Ewa beygði sig til að leggja kaffibollann á borðið fyrir framan Steingrím en yggldi sig þegar hún sá hvað hann var að gera.
„Ég verð að biðja þig um að loka þessu,“ sagði hún og benti á tölvuna.
„Ha, hvað meinarðu?“
Steingrímur var búinn að opna svarbréfið og augun flökkuðu á milli skjásins og Ewu.
Stjórn listamannalauna þakkar umsókn þína í launasjóðinn í vorúthlutun.
„Við erum búin að banna allar tölvur á kaffihúsið,“ sagði Ewa og hvíldi hnefana á mjöðmum sem fékk Steingrím til að hugsa um Línu langsokk.
„En ég hélt það væri í lagi hér við gluggann?“ spurði Steingrímur vongóður.
Til úthlutunar eru 600 mánaðarlaun úr sex mismunandi sjóðum. Umsækjendur voru 1.414 og sótt var um 5.875 mánuði.
„Nei, núna er það bannað alls staðar, því miður.“
Úthlutunarnefndir stóðu frammi fyrir því að þurfa að hafna mörgum góðum umsóknum og því miður reyndist ekki unnt að verða við umsókn þinni að þessu sinni.
Svarið kom eins og bylmingshögg í magann. Steingrímur fattaði að hann var ekki búinn að borða neitt annað en bita af croissant í allan dag og kaffiilmurinn var gjörsamlega að gera hann brjálaðan. Hann íhugaði að leiða þetta hjá sér, eins og hann leiddi alltaf allt hjá sér, en hann gat það bara ekki. Ekki í þetta sinn.
„Hvaða andskotans rugl er þetta?“
Ewa krosslagði hendur á svuntunni.
Núna lítur hún svo sannarlega út eins og Lína langsokkur, hugsaði Steingrímur með sér.
„Steingrímur, minn. Ég sem ekki reglurnar.“
„Já og hvað næst, ætliði að banna bækur líka? Má fólk ekki lesa ljóðabók með kaffibollanum? Hvers konar fasistareglur eru þetta eiginlega?“
Steingrímur var staðinn upp. Hann fann að fólk var farið að horfa á sig.
„Ekki vera svona mikið dramatík,“ sagði Ewa og bandaði höndum.
„Nei, veistu ég er ekki að vera dramatískur. Ég bara læt ekki bjóða mér svona.“
Án þess að hafa ætlað sér það var Steingrímur byrjaður að ganga frá tölvunni og klæða sig í kápuna. Hann strunsaði í átt að útganginum en stansaði í dyragættinni þegar hann fattaði að hann hafði gleymt kaffinu sínu. Hann sneri við og Ewa hristi höfuðið í vandlætingu áður en hann hafði tíma til að bera fram spurninguna.
„Má ég fá götumál?“
Steingrímur heyrði niðurbælt fliss fyrir aftan sig. Ewa rétti honum tómt pappamál án þess að segja neitt. Hann tók við því, gekk aftur að borðinu og umhellti kaffibollanum í málið. Þegar hann leit upp sá hann að bekkjarsysturnar úr MR voru að horfa á hann, þær höfðu greinilega verið að flissa. Steingrímur greip makkarónurnar af disknum og skellti þeim báðum upp í sig í einu.
„Gaman að sjá ykkur,“ sagði hann með fullan munn og gekk út af kaffihúsinu án þess að bíða eftir svari.
⁂
„Þú veist að það er náttúrlega engin tilviljun að þetta hafi verið þaggað niður í hundruð ára.“
„Nú?“ sagði Steingrímur, eingöngu til að þóknast næstum-því-nafna sínum Steinari, kenndum við strjúpa.
„Nei sko, þetta samræmist bara engan veginn þeirri söguskoðun sem hefur verið við lýði síðan á Þjóðveldisöld. Þú skilur, þetta var alveg þvílíkt downplayað í Landnámu og Íslendingasögunum sem smitast svo náttúrlega bara inn í sagnfræðina og svo auðvitað með rómantíkinni og sjálfstæðisbaráttunni þá verður náttúrlega þessi ofuráhersla á allt sem er íslenskt og þjóðlegt og menn vilja bara ekkert heyra minnst á neitt svona gelískt og írskt, eitthvað sem gæti mengað þessa hreinu, norrænu ímynd af landnáminu, skilurðu.“
Nýjasta þráhyggja Steinars voru keltnesk áhrif á Íslandi og meint sögufölsun íslenskra sagnaritara á þeim áhrifum sem írsku frændur okkar höfðu á íslenska tungu og menningu, eins og hann orðaði það sjálfur. Hann var nýbúinn að lesa bók um þetta og þrátt fyrir að sú bók hafi þótt töluvert umdeild í fræðasamfélaginu hætti Steinar hreinlega ekki að tala um þetta.
Steingrímur hafði ráfað um Vesturbæinn í um það bil klukkustund þar til reiðin og vonbrigðin yfir svarbréfinu við Listamannalaunum og niðurlægingunni á Kaffi Vest höfðu runnið af honum. Þá hafði hann hringt í kollega sinn Steinar og fengið hann til að hitta sig í bjór á Stúdentakjallaranum. Klukkan var nú orðin 17:07, þeir voru komnir á þriðja bjór og Steingrímur var alveg við það að missa þolinmæðina yfir þráhyggjukenndu málæði Steinars.
„Ég meina, á þessum tímapunkti er þetta ekki einu sinni samsæriskenning, þetta er náttúrlega bara staðreynd,“ sagði Steinar og skellti bjórnum sínum niður svo það skvettist úr honum yfir á næsta borð þar sem tveir ungir menn í ljósbláum skyrtum sátu og gæddu sér á hamborgurum.
Á Stúdentakjallaranum var Valentínusarpöbbkviss að hefjast og kollegarnir tveir voru eins langt frá þemanu og mögulegt var. Steingrímur í sinni ljósbrúnu mokkakápu og Steinar í Harris Tweed-frakkanum sínum sem hann klæddi sig aldrei úr, ekki einu sinni í vinnunni, með Fedora-hatt á höfði. Saman litu þeir meira út eins og sjúskaðir hipsterar frá 6. áratugnum heldur en ungir háskólastúdentar.
Annar drengjanna gaf þeim illt auga en Steinar tók ekkert eftir því og hélt ótrauður áfram með söguna. Steingrímur fékk sér sopa af dökkbrúnum Guinness þegar síminn hringdi. Þetta var Lovísa Lára, svo það gæti ekki boðað gott. Lovísa hringdi nefnilega bara þegar henni lá eitthvað mikið á, annars sendi hún SMS eða Messenger-skilaboð. Steingrímur gaf Steinari merki um að hinkra aðeins og svaraði símanum.
„Hvar ert þú?“ spurði Lovísa og Steingrímur heyrði strax á tóninum að eitthvað var að.
„Ég er bara á Kjallaranum með Steinari.“
„Ertu að fá þér bjór?“ spurði Lovísa og hneykslunin í röddinni var ótvíræð.
„Já, ég er ekki að vinna í dag. Er allt í góðu?“
Steingrímur sá að Steinar var að fylgjast með þannig hann stóð upp og sneri bakinu í hann.
„Steingrímur, veistu hvaða dagur er?“
Steingrímur leit í áttina að sviðinu þar sem tvær samfélagsmiðlastjörnur voru að stilla upp míkrafónum. Rauðar hjartalaga blöðrur höfðu verið hengdar upp í kringum rýmið.
„Það er Valentínusardagur.“
„Já, það er Valentínusardagur. Nákvæmlega,“ sagði Lovísa Lára og skyndilega áttaði Steingrímur sig á mistökunum.
⁂
Steinar var að klára bjórinn sinn þegar Steingrímur kom aftur að borðinu. Hann ropaði digurbarkalega, skellti glasinu niður og klappaði með báðum höndum á magann.
„Annan?“ spurði hann glaðhlakkalega.
„Nei, veistu ég verð að fara. Ég gleymdi að ég er að fara að gera eitthvað Valentínusardæmi með Lovísu,“ svaraði Steingrímur.
„Valentínusardagur? Ertu orðinn kaþólskur?“
Steingrímur hristi bara hausinn og kvaddi kollega sinn. Úti var froststilla og byrjað að rökkva. Steingrímur skildi ekkert í sér að fatta ekki hvaða dagur var en aftur á móti hafði Lovísa Lára heldur aldrei verið mikið fyrir það að halda svona daga hátíðlega. Hann hafði náttúrlega steingleymt að plana eitthvað eða kaupa blóm fyrir Lovísu en það væri kannski enn tími til að bjarga sér fyrir horn.
Kannski get ég boðið henni á mathöll, hugsaði Steingrímur með sér er hann tók stefnuna í átt að Krambúðinni.
Steingrímur gekk inn um rennihurðina og það fyrsta sem mætti honum í versluninni var dúndrandi drum & bass tónlist sem afgreiðslumaðurinn, strákur með axlasítt hár og pervisna mottu, var að spila úr símanum sínum. Strákurinn sat á kommóðu fyrir aftan afgreiðsluborðið en stökk niður þegar hann sá Steingrím ganga inn í búðina og slökkti samstundis á tónlistinni.
„Get ég aðstoðað?“ spurði strákurinn hátt.
„Bara að kíkja,“ svaraði Steingrímur og brosti kurteislega.
„Láttu mig bara vita ef ég get eitthvað hjálpað, félagi,“ sagði strákurinn og hljómaði örlítið stressaður.
Kannski skammast hann sín fyrir að hafa verið að hlusta á tónlist í vinnunni, hugsaði Steingrímur.
Við hliðina á namminu voru nokkrar plastaðar rósir í svartri fötu og þar við hliðina skilti sem á stóð „Valentínusartilboð – Rósavendir – 3990 kr.“ Steingrímur greip vönd og konfektkassa með hjartalaga súkkulaðitrufflum og lagði hlutina á afgreiðsluborðið fyrir framan strákinn sem stóð þar teinréttur eins og hann væri að bíða eftir honum.
„Það gera 5880 krónur, félagi,“ sagði strákurinn eftir að hann var búinn að skanna hlutina inn. Steingrímur fékk sting í veskið þegar hann hugsaði um hversu mikið af peningum hann væri búinn að eyða en hann átti engra kosta völ, hann var búinn að mála sig út í horn. Steingrímur borgaði og strákurinn brosti til hans opinmynntur eins og hann langaði að segja eitthvað.
„Á að gera sér glaðan dag?“
Steingrímur tók eftir því að strákurinn var kófsveittur á enninu.
„Ha?“
„Er þetta fyrir frúna?“ bætti strákurinn við og Steingrímur tók eftir því að augasteinar hans voru útvíkkaðir.
„Eitthvað svoleiðis,“ svaraði hann, greip rósirnar og konfektið og gekk í áttina að útganginum.
„Takk fyrir komuna, félagi,“ kallaði strákurinn á eftir honum og Steingrímur veifaði til hans í kveðjuskyni.
„Djöfulsins rugl,“ muldraði hann og hraðaði sér í áttina heim.
⁂
Klukkan var 17:39 þegar Steingrímur gekk inn um dyrnar á litlu íbúðinni þeirra Lovísu Láru við Sæmundargötu. Hann heyrði óminn af Love Island úr stofunni, Lovísa Lára fylgdist með því eins og sjómaður með veðurfréttunum. Steingrímur klæddi sig úr kápunni og skónum í forstofunni og tiplaði inn í íbúðina með rósirnar og konfektið fyrir aftan bak. Lovísa Lára lá í sófanum með fæturna undir sér klædd í rósgyllta velúr-kósýgallann sem hún fór alltaf í á kvöldin, með skollitað hárið bundið í tagl. Lóló lá í fanginu á Lovísu Láru og malaði er hún strauk henni annað slagið.
„Hæ, elskan,“ sagði Steingrímur og brosti til Lovísu.
Lovísa Lára pásaði þáttinn.
„Hæ.“
Drottningin og hofgyðjan, hugsaði Steingrímur með sér en sagði ekkert.
„Hvað ertu með þarna?“
Lovísa brosti og reyndi að kíkja á bak við Steingrím.
„Æ, bara smá smotterí í tilefni dagsins.“
Steingrímur dró gjafirnar framundan bakinu og brosið fölnaði jafn snögglega á vörum Lovísu og það hafði birst.
„Þú veist ég er með ofnæmi fyrir rósum.“
„Ha? Ég hélt þú værir með frjókornaofnæmi,“ svaraði Steingrímur.
„Ég er með astma, Steingrímur, blóm og sterkar lyktir triggera ofnæmisviðbrögð hjá fólki með astma.“
„Sorrý, hvernig á ég að vita það, ég er ekki læknir.“
Lovísa ranghvolfdi augunum en sagði ekki neitt.
„Viltu ekki súkkulaðið?“
„Ég er í sykurbindindi,“ sagði Lovísa Lára og kveikti aftur á þættinum.
„Sorrý, elskan mín. Ég var bara að reyna að vera næs.“
Steingrímur settist í sófann og reyndi að faðma Lovísu Láru en hún ýtti honum frá sér með öxlunum. Á skjánum var nýjasti keppandi raunveruleikaþáttarins, ung kona með svart sítt hár og glansandi appelsínugula húð að kynna sig.
„Af hverju vilja þær alltaf líta út fyrir að vera miklu eldri en þær eru?“
„Hvað meinarðu?“ spurði Lovísa Lára.
„Nei, bara með allar þessar fyllingar og botox. Þetta eldir konur svo sjúklega mikið.“
„Geturðu verið aðeins meira sexist?“
„Ég meinti það ekki þannig, bara …“
„Bara hvað?“ spurði Lovísa Lára.
„Æ … ástin mín, eigum við að tala saman eða? Þú virkar eitthvað svo tens.“
Lovísa Lára settist upp í sófann og sneri sér við þannig hún horfði beint á Steingrím. Lóló hoppaði niður á gólf og tiplaði eitthvað burt.
„Ókei, tölum saman,“ sagði Lovísa og horfði í augun á Steingrími.
„Viltu gera eitthvað? Fara út í drykk eða?“
Lovísa dæsti.
„Af hverju þarf alltaf allt að snúast um áfengi hjá þér?“
„Hvað? Ég er bara að reyna að stinga upp á einhverju næs til að gera saman.“
Lovísa dró djúpt inn andann.
„Þetta er ekki að ganga.“
Það tók Steingrím nokkur augnablik að átta sig á því hvað Lovísa Lára hafði sagt en þegar hann gerði það loks var eins og hann hefði vitað það allan tímann.
„Hvað meinarðu?“ spurði hann samt.
„Þetta,“ sagði Lovísa Lára og veifaði höndunum. „Við.“
„Ég bara skil ekki alveg hvaðan þú ert að koma. Ég hélt við ætluðum að gera eitthvað næs saman.“
„Steingrímur, þú vissir ekki einu sinni að það væri Valentínusardagur fyrr en ég sagði þér það.“
„Ég vissi alveg að það væri Valentínusardagur. Ég kann á dagatal,“ svaraði hann.
„Þannig þú ákvaðst bara að gera ekki neitt fyrir kærustuna þína,“ sagði Lovísa Lára og krosslagði hendurnar á brjóstinu.
„Af hverju ertu að setja þetta svona upp? Hversu oft hefur þú ekki sagt að þér finnist svona amerískar hefðir hallærislegar?“
„Steingrímur, hvaðan heldurðu að þessi croissant og túnfisksalatið hafi komið? Þetta snýst bara um að vera næs við makann sinn. En það er kannski eitthvað sem er ofar þínum skilningi.“
Steingrímur þagði. Af öllu því sem Lovísa Lára hafði sagt við hann í öllum þeirra rifrildum í gegnum árin stakk þetta mest. Allt í einu fann Steingrímur fyrir gífurlegum þorsta og fattaði að hann hafði ekki drukkið eitt einasta vatnsglas í allan dag. Hann stóð upp, gekk fram í eldhús, opnaði eldhússkápinn en fann ekkert hreint glas, skrúfaði frá krananum og drakk beint af bununni.
„Ertu bara farinn?“ kallaði Lovísa Lára fram úr stofunni.
Þegar Steingrímur var búinn að drekka nægju sína skrúfaði hann fyrir vatnið og andvarpaði feginlega. Honum leið aðeins betur. Hann gekk aftur inn í stofu og horfði á Lovísu Láru. Hann var búinn að vera með þessari konu í fjögur ár en allt í einu var hún eins og ókunnug. Hann hugsaði með sér að honum hefði alltaf þótt þessi kósýgalli ljótur, það var eitthvað sjoppulegt við hann og svo þótti honum áferðin einstaklega klígjuleg.
„Ætlarðu ekki að segja neitt?“ spurði Lovísa.
„Ég bara trúi því ekki að þú sért að hætta með mér á versta degi lífs míns.“
„Af hverju þarftu alltaf að vera svona dramatískur?“ spurði Lovísa Lára og hristi hausinn.
„Mér finnst þessi galli ljótur,“ sagði Steingrímur.
„Það varst þú sem gafst mér hann.“
„Þetta var það ódýrasta sem ég fann.“
„Djöfull ertu mikil tussa.“
„Ég er ljóðskáld, Lovísa, við hverju býstu?“
⁂
Þegar Steingrímur gekk út úr íbúðinni var orðið nánast aldimmt. Hann kíkti á símann sinn og sá að klukkan var 18:23. Á skjánum voru nokkrar tilkynningar, Steinar hafði sent honum skilaboð, hlekk á einhverja grein í The Atlantic um pólaríseringu og svo var fjöldi skilaboða á hópspjallinu. Ritlistarvinirnir ætluðu að hittast á Röntgen í kvöld og skála fyrir Stínu í tilefni tilnefningarinnar. Lítil búbbla með andliti Lovísu birtist á skjánum. Þetta var eitthvað langt og dramatískt. Steingrímur opnaði spjallgluggann en fann að þetta var of mikið fyrir hann að díla við, slökkti á símanum og setti hann í vasann. Hann tók stefnuna í áttina að miðbænum og dagurinn spilaðist í gegnum höfuðið eins og myndband á tvöföldum hraða.
Af hverju er ég svona mikill aumingi? hugsaði Steingrímur. Hvað ætli sé eiginlega að mér? Ég get aldrei gert neitt almennilega, þarf alltaf að fokka öllu upp. Skrifunum, sambandinu, vinunum, vinnunni. Kannski ætti ég að hætta að skrifa. Ég er viss um að Stína hefur aldrei hugsað svona. Hún er alltaf svo sjálfsörugg, alltaf svo töff. Ég hefði kannski getað orðið alvöru rithöfundur ef ég hefði fengið sama meðbyr og hún. Í staðinn er ég bara eins og gamall Trabant fastur í snjóskafli, spólandi í sömu förunum en kemst aldrei neitt. Hvað ætli Steinar sé að gera núna, kannski ennþá á kjallaranum? Ég gæti hitt hann þar og drukkið nokkra bjóra í viðbót, væri alveg til í að fokka mér bara upp og gleyma þessu öllu. Æ, þá verður þetta bara ennþá verra á morgun. Gæti samt kannski fengið að gista hjá honum. Hvað var eiginlega málið með þessa gömlu konu? Þetta er nú meiri djöfuls vitleysan. Það gæti verið grafskriftin mín. Steingrímur Sturla Hermannsson: Meiri djöfuls vitleysan. Þoli ekki að vera svona. Verð að muna að senda reikning fyrir tímaritinu. Fokk hvað ég er svangur.
⁂
Steingrímur var kominn að húsi íslenskunnar á Suðurgötu þegar hann heyrði pískur og nokkrar upphrópanir útundan sér. Hópur túrista í útivistarfatnaði stóð og mændi upp í himininn, sumir með símana á lofti að taka myndir af einhverju. Steingrímur leit upp og sá að himininn var fullur af einhverju grænu, norðurljósin voru komin úr felum. Hann strunsaði fram hjá fólkinu en stoppaði við díkið sem lá umhverfis húsið. Steingrímur þreifaði í vasanum á kápunni, handritið hans var þarna upprúllað eins og gamalt dagblað. Hann tók það upp og skimaði yfir fyrstu síðurnar sem hann hafði eytt svo löngum tíma í að skrifa og endurskrifa. Allt í einu laust hugsun í höfuð Steingríms. Ég mun aldrei aftur skrifa. Kannski væri það bara fyrir bestu. Hann myndi finna sér eitthvað að gera. Finna sér einhvern stað til að búa á. En hann myndi aldrei aftur skrifa stakan staf, nema í praktískum tilgangi. Þannig ætti það að vera. Hann minntist orða Gerðar:
„Það eru ekki öll skáld skáldsagnahöfundar“.
Steingrímur gekk upp að díkinu og kastaði handritinu upp í loft. Sumar blaðsíðurnar lentu ofan í vatninu en aðrar fuku yfir gangstéttina og götuna. Ein síðan fauk beint framan í hann, fyrsta síða handritsins sem hann kunni orðið utanbókar:
Ég var atvinnulaus, heimilislaus og stefnulaus og sá litli aur sem ég átti var við það að klárast. Eins og svo mörg okkar, þá skilgreindi ég mig sem listamann en eins og svo mörg okkar þá hafði ég enga hugmynd um hver ég vildi í rauninni vera.
Steingrímur greip síðuna, kuðlaði henni saman og henti í díkið þar sem hún flaut eins og afskræmd gúmmíönd. Hluti handritsins hafði fokið á túristana, einn þeirra veifaði til Steingríms og hrópaði til hans.
„Hey, you dropped this!“
Steingrímur lét eins og hann heyrði ekki í manninum. Er hann gekk í burtu laust annarri hugsun í höfuð hans, einhvern tímann myndi hann hlæja að þessu öllu saman. En sá dagur yrði ekki í dag. Steingrímur setti hendur í vasa og arkaði af stað í áttina að miðbænum. Stuttu síðar byrjaði að rigna.