Þórdís Helgadóttir
Pabbi minn færði mér lifandi fugl. Feitan og sterkan. Ég veit að pabbi hefur þurft að hafa fyrir því að koma honum í land. Hann hefur reyrt saman á honum fæturna og bundið vængina þétt upp við líkamann með neti. Líklega hefur hann orðið að binda um gogginn líka, svo mennirnir myndu ekki brjálast á því að hlusta á gargið í honum í návígi allan þennan tíma. Tólf klukkustunda róður á lygnum sjó. Ég veit ekki hvort þetta var ein af þessum bleiku júnínóttum eða hvort himinninn úðaði gráu yfir mennina á leiðinni. En ég veit að það hefur verið blankalogn, því pabbi fer aldrei út nema í blankalogni.
Ég veit að mennirnir hafa verið úrvinda og sumarnóttin eilíf. Ég ímynda mér fuglinn minn, skorðaðan milli kólnandi hræjanna af systrum sínum og bræðrum í þófturúminu. Hann sér ekkert nema himin. Stígvélaklæddir fætur gera sitt besta til að traðka ekki á fengnum, en það er þröngt um mennina í bátnum. Fuglinn hlýtur að hafa barist um, að minnsta kosti fyrstu klukkustundirnar, og það hefur sett hreyfingu á bátinn, sem er ekki alls ekki hættulaust. Ég veit það. Ég veit hvað pabbi minn lagði á sig og aðra til að færa mér fuglinn. Án þess að mamma þurfi að minna mig á það.
Við vorum nákvæmlega jafnhá, fuglinn minn og ég, fyrst þegar pabbi kom með hann, og það kætti mig ósegjanlega. Hann var ungur, ennþá með grátt í fjöðrunum, klunnalegur en þolgóður, eins og veður og vindar hefðu engin áhrif á hann. Við höfðum hann í túninu til að byrja með enda kemst hann ekki, frekar en kindurnar, yfir lágreista girðinguna. Mamma hefur aldrei tekið í mál að hleypa fuglinum inn í hús, segir að það sé óþrifnaður af honum og það er reyndar alveg rétt. Fuglinn minn lyktar ekki beinlíns vel. Mamma er ósátt við að mér hafi verið gefinn hann, en í stað þess að kvarta við pabba virðist hún vera reið við mig.
Systir mín útskýrði þetta allt saman fyrir mér: Verðið fyrir einn ham dugar til að brauðfæða heila fjölskyldu í meira en mánuð. Dúnninn er eftirsóttur, skinnið sterkt eins og nautsleður. Og þá er sjálft kjötið ótalið.
Núna eltir fuglinn mig hvert sem ég fer, kjagar á eftir mér um garðana og hraunið. Hann er hægfara en fótviss. Ég nappa harðfiskbitum og mör til að gauka að honum og smám saman hefur hann orðið hændur að mér. Hann mun hins vegar aldrei venjast af styggðinni í garð pabba. Þau mamma horfa hvort í gegnum annað eins og draugar.
Sum hinna barnanna eiga líka sinn eigin fugl. Oftast eru þeir hafðir bundnir við staur í túnunum en stundum leikum við með þá. Við förum við með þá í ferðir, klæðum þá upp, krýnum þá með blómakrönsum, giftum þá. En fuglunum virðist ekkert um hagsmunahjónabönd gefið og það koma aldrei nein egg. Nema fuglarnir feli þau þeim mun betur.
Sem er synd og skömm. Því við gætum fengið gott fyrir eggin. Náttúrugripasöfn hafa boðið pabba gull og græna skóga, en mennirnir taka aldrei egg. Þeir bíða fram yfir miðjan júní með að róa út í skerið til að vera vissir um að öll egg séu örugglega klakin og ungarnir komnir á legg. Sama þótt veiðarnar séu miklum mun erfiðari fyrir vikið. Á meðan fuglarnir liggja enn á laupnum eru þeir seinir á sér og tregir til að hætta sér of langt frá eggjunum. Þá væri enginn vandi að hlaupa þá uppi. En eftir útungun verja þeir meiri tíma í sjónum. Þeir steypa sér fram af bjarginu, segir pabbi, eldsnöggir, lenda tignarlega í öldunni og kjaga svo upp á klöppina með gogginn fullan af sílum.
Við megum ekki gleyma okkar ábyrgð, segir pabbi. Stofninn er viðkvæmur, við vitum það. Víða um land, þar sem fuglinn var algengur á árum áður, sést hann varla lengur. Tegundin er sögð algjörlega horfin í nágrannalöndunum. Það er allra hagur að við gætum meðalhófs og skynsemi. Í raun megum við ekki við öðru.
Mennirnir róa út í skerið. Konurnar verka hamina. Við erum ekki mörg hérna í firðinum – sex fjölskyldur. Eingöngu landeigendur fá að stunda veiðarnar. Enda veit ég ekki hvernig aðrir ættu að fara að því. Það erum bara við, fólkið í firðinum, sem þekkjum leiðirnar út.
Flest sumur koma hingað náttúrufræðingar, sumir frá útlöndum. Pabbi lánar þeim báta og menn og kort. En þeir komast yfirleitt aldrei út. Það er of vont í sjóinn og þeir sitja þungbrýndir heima í stofunni okkar og bíða eftir færi. Ég leyfi þeim að skoða fuglinn minn svo lengi sem ég fæ að vera viðstödd. Ég strýk honum á milli augnanna meðan vísindamennirnir þukla stutta vængina eða gefa honum að borða. Stundum vilja þeir bara fylgjast með honum í langan tíma og þá tala þeir við mig á meðan, á ensku og dönsku, sem ég fer á endanum á skilja. En loks missa þeir þolinmæðina. Annaðhvort snúa þeir vonsviknir aftur heim eða ákveða að færið sé, hvað sem pabbi segir, alveg nógu gott – og sigla út. Nokkrum klukkustundum síðar byrjar að þykkna upp og þá snúa þeir til baka, hraktir og velktir. Síðan verða þeir lasnir og mamma háttar þá niður og gefur þeim súpu.
Hænsnasúpu, segir hún. En auðvitað sjá þeir að kjötið er svart og sumir fúlsa við matnum. Hinir sem þiggja súpuna eru oftast fljótir að braggast.
⁂
Það hefur ekki veiðst vel í ár. Ein ferð farin það sem af er sumri og fengurinn ekki nema þrír fuglar. Einn maður drukknaði, elsti sonur bóndans innst í firðinum. Það er alltaf hættan, meira að segja í góðu veðri. Ferðin er tólf tímar á opnum áttæringi. Sumir örmagnast og liggja í nokkra daga eftir að heim er komið. Aðrir drukkna.
Mamma vakir þegar það er róið í skerið. Nóttina á undan útbýr hún vistir, annars lægi hún hvort sem er andvaka. Í dagrenningu sest hún með prjónana um leið og mennirnir leggja í hann. Önnur verk fá að bíða. Það er eins og hún trúi því að á meðan prjónarnir tifi séu mennirnir á lífi. Ég gæti þess að trufla hana ekki, held mig úti, klifra og borða hundasúrur, langt fram á bjarta nóttina. Mamma mælir ekki orð af vörum þegar ég verð loks nógu þreytt til að skríða inn, með grasgrænar iljar og svima af hungri og súrefni. Þessar nætur er ég villibarn og hugsa ýmislegt sem annars myndi aldrei flögra að mér.
Ég vakna við umgang og þá veit ég að það hefur sést til bátsins. Mamma er að sýsla í eldhúsinu, hita kaffi og soðningu. Á kommóðunni liggur fullkláruð flík. Ég hraða mér út og fer með fuglinn minn bak við hús áður en þeir koma með fenginn upp í garð. Ég vil ekki að hann sjái hræin.
Í þetta skipti koma þeir aðeins með einn fugl. Það er komin einhver styggð í þá, segir pabbi. Ekki að það sé ekki nóg af fugli í skerinu, til allrar hamingju. Þeir eru bara svo skelfilega varir um sig. Mamma herpir munninn. Næstu daga mun hún hvorki sauma né prjóna heldur ríða net, skjóllausar flíkur fyrir heitfengar skepnur.
Það komu þó allir mennirnir til baka í þetta skiptið. Ósyndir menn að sigla eftir ófleygum fuglum. Það er ákveðið réttlæti í því. En það færir enginn í orð.
Við krakkarnir hittumst seinna um daginn. Sum koma með fuglana sína, flest eru niðurdregin. Þau innst í firðinum hafa verið að tala um að bregða búi. Það hafa verið að drepast fyrir þeim kindur og svo veiðist þeim yfirleitt illa. Pabbi segir að þau kunni ekki að lesa í miðin.
Einn af yngri drengjunum brestur í grát. Hann verður grár í framan og mállaus af ekka og svo hleypur hann upp í brekku. Nokkrum dögum seinna kemur ástæðan í ljós, þegar pabbi hans ekur í bæinn með ham og kjöt til að selja. Fuglinn hans var stærstur þeirra allra, ungur og feitur og sá eini sem hélt í við okkur þegar við hlupum.
Systir mín heldur vöku fyrir mér þetta kvöld. Við vitum hvernig þetta fer, segir hún. Þetta getur ekki endað nema á einn veg. Ég malda í móinn. Við erum ekki svo illa sett, segi ég. Pabbi er duglegastur og fengsælastur af öllum. Og við höfum færri munna að fæða en þau hin. Og færri hendur að hjálpa, segir hún. Hvað ef það hættir alveg að veiðast í skerinu?
Það hangir málverk í stofunni. Stórt, alvöru málverk sem pabbi fékk sent frá Englandi. Það er málað eftir teikningu sem einn náttúrufræðingurinn gerði samkvæmt lýsingu pabba eitt rigningarsamt sumar. Á myndinni er samt sól. Stóra skerið er nokkurn veginn rétt teiknað, en áttirnar eru rangar. Fimm kraftalegir menn hafa stigið á land. Þeir hafa andlit hefðarmanna, vel snyrt og fríð. Einn glímir við stærðarinnar fugl, tveir aðrir eru að draga hræ út í bátinn. Í forgrunni liggja egg í yfirgefnu hreiðri. Það er í senn réttasti hlutinn af myndinni og sá vitlausasti, segir pabbi. Málarinn hafði raunverulega fyrirmynd í ensku náttúrugripasafni til að styðjast við. En við myndum aldrei drepa fugla af eggjum.
Ég ímynda mér oft hvaða augum fuglinn minn myndi líta þetta málverk ef ég hleypti honum inn í húsið. Myndi hann þekkja sjálfan sig sem fyrirmynd? Myndi hann álykta að þetta væri raunveruleiki og reyna að verja eggin fyrir mönnunum?
Ég hef fuglinn aldrei bundinn. Það hefur komið fyrir að hann sleppi niður í fjöru þegar ég gleymi að hann sé á eftir mér. En hann steypir sér ekki í sjóinn heldur tvístígur bara í sandinum, nartar í þangið eða stendur kyrr og horfir út eftir firðinum og mér sýnist hann vera dapur. Ég bíð í dálitla stund en lokka hann svo til baka með lifrarpylsubita. Hann étur allt sem að honum er rétt, fær yfirleitt afganga og afskurð í trogið sitt. En eflaust langar hann í spriklandi fisk.
Sumarið líður án þess að það sé oftar siglt út í sker. Veðrið er milt en pabbi segir að áttin sé óhagstæð og straumarnir muni vera harðir lengra úti. Það fiskast þó sem betur fer vel hjá öllum. Mamma vakir langt fram á nætur og virðist aldrei eiga lausa stund. Hún segir að það sé kominn tími til að ég leggi eitthvað af mörkum og hætti að gera alla hluti eftir mínu eigin höfði. Hún lætur mig raka og þvo þvott og virðist vera reið við mig þótt ég hlýði öllu, eins og hún viti að mig langi til að svíkjast um. Samt langar mig alls ekki að svíkjast um. Ég bið meira að segja um að fá að gera meira, hjálpa til við saumaskapinn, en þá fussar hún bara, fitjar upp á nefið og segir að ég komi nú ekki nálægt handavinnu meðan ég lykti eins og fuglabjarg. Ég bólgna upp í hálsinum þegar hún segir þetta. Mig langar að hlaupa bara út og flytja upp í eitthvert fuglabjarg. Búa þar með fuglinum mínum í skoru og gera allt sjálf. Ég get miklu meira en mamma mín veit. Ég get gert allt sem ég vil.
⁂
Síðan einn daginn er sumarið á enda. Það er nepja í loftinu. Mennirnir eru ósáttir. Sumir vilja gera lokatilraun til að sigla út í sker áður en veturinn byrjar að bíta. Pabbi segir að það sé ekki til neins. Einhver reiðist og segir að hann eigi ekki eins mikið undir. Hann segir þeim að róa þá bara án hans. Allir eru fálátir dagana á eftir. Réttirnar eru framundan. Frá því ég man eftir mér hefur fólkið í þessum firði stagast á því að samkomulag milli nágranna sé höfuðforsendan fyrir því að nokkur maður þrífist hérna. Við verðum að vera samhent og samstíga. Öðruvísi á byggðin enga von.
Eina nóttina vekur systir mín mig fyrir dagrenningu.
Núna, segir hún.
Ertu viss, segi ég, en systir mín er alltaf viss.
Ég dreg pokann úr skotinu á bak við rúmgaflinn þar sem ég hef haft hann falinn. Það er allt löngu tilbúið. Ég læðist inn í eldhús og sæki mér vistir. Helst hefði ég viljað heitt kaffi á brúsa eins og mennirnir, en mamma sefur laust og hljóðin í kvörninni myndu vekja hana. Svo ég treð matnum ofan í poka, sæki fuglinn og ræ svo út.
Róður er erfiðisvinna, jafnvel þótt sjórinn sé lygn. Báturinn er of stór og árarnar flækjast í hömluböndunum. Eftir klukkustund verkjar mig svo í axlirnar að ég verð að hvíla. Fuglinn bröltir og gargar hátt. Hann kann því illa að vera bundinn. Ég sé hvernig hann horfir út á sjóinn, fylgir hreyfingum vaðfuglanna eftir með augunum. Kannski er hann að skima eftir fjölskyldunni sinni. Á endanum þagnar hann, hás og úrkula vonar, og þá getum við bæði dottað í dálitla stund.
Það er síðdegi þegar ég vakna og tekið að kólna í veðri. Það er kominn september. Ég kasta út línu og fljótlega bítur marhnútur á. Ég gef fuglinum fiskinn og borða sjálf sviðasultusneið úr pokanum. Það glaðnar yfir honum þegar ég mata hann og hann gleypir nærri því á mér höndina af græðgi. Eftir að við erum bæði orðin södd leysi ég böndin. Án þess að hika klöngrast fuglinn minn upp á borðstokkinn og lætur sig vaða í sjóinn.
Ég veit ekki hversu langt við erum frá skerjunum. Eflaust hefur okkur rekið af leið á meðan ég svaf. En fuglinn virðist vel áttaður. Hann tekur stefnuna beint í austurátt og ég elti.
Það var ekki það sem ég ætlaði mér að gera. Ég hafði hugsað mér að snúa við þegar ég hefði sleppt honum. Sjá hvar fuglinn minn ætti heima og hundskast svo heim í skammirnar. En svo var hann bara allt í einu stokkinn án þess að ég hefði haft tækifæri til að kveðja.
Ég ræ á eftir fuglinum í dágóðan tíma. Hann er kátur og stingur sér annað slagið niður til að veiða. Ég hef aldrei séð hann svona fjörugan eða lipran. Á landi er hann silalegur, vængirnir gagnast honum ekki til að fljúga, en nú er greinilegt að hann er gerður fyrir vatn.
Myrkrið dettur á og brátt kem ég ekki auga á hann lengur. Ég held samt áfram í þá átt sem ég held að sé austur. Aðeins lengur. Ég er úthvíld og södd og mér líður vel.
Systir mín kemur og situr hjá mér í myrkrinu. Sjáðu hvernig himinninn og hafið renna saman, segir hún. Svona er að vera út í geimnum.
Hvernig úti í geimnum? spyr ég en hún svarar ekki.
Ég veit ekki hversu lengi ég hef verið að sigla blint. Ég held að ég eigi aldrei eftir að finna skerið, segi ég við systur mína.
Þú ert komin, svarar hún.
Og andartaki seinna skellur báturinn á grjóti. Ég dreg hann upp í fjöru, skríð ofan í botninn og vef utan um mig þykku teppinu sem mamma var margar vikur að hekla.
Hin börnin eiga öll systkini. Á flestum bæjunum telur barnahópurinn fimm eða fleiri. Ein af eldri stelpunum sagði mér að mamma hefði verið hætt komin þegar hún átti mig. Eitthvað í henni skemmdist og þess vegna getur hún ekki átt fleiri börn. Systir mín hefur verið hjá mér alveg síðan ég man eftir mér. Lengi vel datt mér ekki í hug að spyrja hvers vegna hún ætti ekki sitt eigið rúm og hvers vegna hún borðaði aldrei með okkur á matmálstímum. Mamma og pabbi minntust ekki á hana og þess vegna nefndi ég hana heldur aldrei við þau. Og svo þegar mig langaði að spyrja leið aftur langur tími þangað til ég gat talið í mig kjark.
Ertu draugur?
Flestar fjölskyldurnar hafa misst börn. Það er stutt á milli leiða í kirkjugarðinum, vofur í öllum húsum. Það er lítið talað um þau sem aldrei komust á legg. Kannski dó systir mín í fæðingu. Kannski fékk ég nafnið hennar.
Hún grettir sig.
Ég? segir hún. Af hverju ætti ég að vera draugur? Kannski ert þú bara draugur.
Ég spyr hana ekki aftur eftir þetta. Mér fellur ekki við tilhugsunina um að ég gæti verið draugur. Ég held að ég hlyti að vita það ef ég væri draugur. Maður hlýtur að vita það ef maður er draugur.
⁂
Rigning og kokhljóð vekja mig. Úðinn hefur gegnvætt teppið og ég er köld. Það er bjartur morgunn, sólin er komin nokkuð hátt á loft og glampar á milli hraðfleygra skýja. Fuglarnir garga allt í kringum mig. Systir mín er farin.
Ég stend upp og þreifa eftir matarpokanum. Líkaminn er stirður og hendurnar loppnar. Ég er lengi að leysa hnútinn, lengi að tyggja. Flatkakan hefur þornað upp og mysingurinn er harður. Ég geng mér til hita á meðan ég borða, stika svarta fjöruna með kríurnar yfir mér.
Innar eru fuglarnir. Þeir bíða uppi á grasbala, flýja mig ekki en hætta sér heldur ekki nærri. Ég hef aldrei séð þá svona í hóp. Þeir skipta tugum. Sumir eru litlir og gráir, ungar. Hvítir blettirnir á gagnaugunum eru eins og berar augntóftir og ég hef á tilfinningunni að þeir fylgist með hverri hreyfingu minni úr einhverjum handanheimi. Ég reyni að koma auga á minn fugl í þvögunni en satt að segja er ég ekki viss um að ég myndi þekkja hann frá hinum.
Og kannski er hann alls ekki hérna. Þetta er ekki skerið. Ég átta mig strax á því, og ekki bara af því að þekki það af myndum og lýsingum pabba. Ég er á láglendi. Fjaran er aflíðandi, ég klofa yfir sandöldur og sting mig á gráleitum stráum. Skýin eru lágt á lofti, himinninn að baki þeim skínandi kaldur og blár. Fuglarnir víkja fyrir mér, kjaga í burtu þegar ég nálgast, eins og þeir hafi skyndilega munað eftir aðkallandi erindum sem þeir eigi eftir að sinna.
Handan fjörunnar kem ég inn í lítið dalverpi. Lágir hólar loka sjóndeildarhringnum. Ef þetta er eyja þá er hún stór. Stærri en eyjarnar úti fyrir firðinum okkar. Mig hlýtur að hafa rekið langt af leið. Ég vildi óska að systir mín væri hérna.
Neðst í dalnum vafrar flokkur af fuglum umhverfis ársprænu og kroppar í grösin eins og sauðfé í viðsnúinni veröld. Í læknum er lítil stúlka, úfin og berfætt, að vaða. Hún getur ekki verið eldri en sex ára. Það hljóta þá að vera bæir hérna nálægt. Ég er viss um að ég hef aldrei séð þessa stelpu áður. En samt er eins og ég þekki hana.
Ég nálgast stelpuna varlega. Fuglarnir haska sér yfir lækinn með dálitlum gusugangi, halda sér í öruggri tíu til tuttugu metra fjarlægð. Þegar stelpan lítur upp flýti ég mér að setja upp blíðasta svip sem ég á til. Ég er viðbúin því að henni bregði, verði jafnvel hrædd og hlaupi í burtu. En það færist bros yfir andlitið. Hún tekur á sprett í áttina til mín og hendir sér í fangið á mér. Ég faðma hana að mér. Hárið á henni angar af útilofti og söl en í hálsakotinu er undursamlegasti ilmur sem ég hef á ævinni fundið. Ég elska hana strax.
Hún kallar á fuglinn sinn til að sýna mér. Hann kemur, gæfur, og hnubbar mig í mjöðmina. Ég greiði hárið á stelpunni, kalla hana villibarn. Hún hlær. Hún á bæli í hellisskúta, þar sem hún kúrir í kremju með fuglinum á næturnar. Hann færir henni fisk og hún étur hann hráan þegar hún verður nógu svöng.
Ég gef stelpunni sviðasultu og rófur. Um kvöldið þegar hún er sofnuð losa ég hana varlega úr fanginu á mér og hraða mér upp á hæsta hólinn áður en birtan hverfur alveg. Í síðustu skímu dagsins virði ég landið fyrir mér. Haustlitirnir eru mjúkir og hlýlegir en það stendur út úr mér gufustrókur þar sem andardrátturinn hittir næturloftið. Landið er fallegt en ókunnugt. Til austurs standa síhækkandi hraundrangar handan við hólana og loka sjóndeildarhringnum. Í vesturátt mætir blátt hafið himninum án þess að neitt komi upp á milli.
Þegar ég sný við til að halda niður brekkuna sé ég hvar fuglinn hennar stendur álengdar. Um leið og ég lít á hann byrjar hann að feta sig varlega niður grýttan hallan á stuttum fótunum, eins og til að gefa til kynna að ég komi honum ekkert við. Hann hafi bara átt leið þarna um fyrir tilviljun. Það myndi aldrei hvarfla að honum að elta mig.
⁂
Það hefur fryst um nóttina. Stelpan vaknar með nefrennsli. Ég vef teppinu utan um hana og smám saman hættir hún að skjálfa.
Ég reyni að vera eins blíð og ég get. Ég safna sprekum í fjörunni, sem stelpunni finnst sniðugt. Ég bið hana að hjálpa mér. Hún safnar steinum og mosa á meðan ég móta nokkurs konar beinagrindur úr greinunum. Síðan fyllum við upp í þær, setjum kjöt á beinin. Fuglarnir standa hjá og snyrta sig, annað slagið steypa þeir sér af klettunum ofan í freyðandi hafið. Þeir virðast ekkert finna fyrir kuldanum.
Loks tínum við strá og þekjum fígúrurnar með þeim.
Sérðu, segi ég við litlu systur mína. Þetta er húðin.
Hún kinkar kolli.
Fuglinn er feitur, segir hún.
Einmitt, segi ég. Og stelpan?
Hún virðir lengi fyrir sér litlu, mjóu fígúruna sem á að tákna hana sjálfa. Lítur svo á stráfuglinn. Og hristir höfuðið.
Ég bendi henni á að rétta mér fjöður sem liggur í fjörusandinum. Ég dýfi henni djúpt í löðrandi sjóinn og hristi hana svo einu sinni.
Litla systir mín þuklar á henni og augun verða eins og undirskálar:
Fjöðrin er þurr.
Hún neitar að yfirgefa fjöruna fyrr en við höfum lokið við að þekja fuglafígúruna frá kolli aftur í stél. Ég finn upp á aðferð til að strengja fjaðrirnar saman með ýlustráum og hún hermir. Um miðjan dag setjumst við niður og borðum það sem eftir er af nestinu mínu. Fuglarnir hafa fengið leiða á okkur og ráfað í burt. Allir nema einn, sem stendur afsíðis, vart greinanlegur í gráblautu fjörugrýtinu. Hann starir hreyfingarlaus í áttina frá okkur, upp á land. Systir mín sýgur upp í nefið.
Ég lít næst upp þegar fígúran er fullþakin. Fugl, segir stelpan, þakinn! Hún hefur laumast til að setja nokkrar fjaðrir í hárið á sér og ofan í hálsmálið.
Seinna, í bátnum, grætur hún dálítið. Ég reyni ekki að hugga hana, það er ekki mitt hlutverk. Hún fær að gráta það sem hún hefur misst. Mitt hlutverk er að taka ábyrgð. Að slíta hana frá því sem hún elskar svo hvort tveggja megi halda lífi.
Fyrst vill hún hjálpa mér að róa en mjóir handleggirnir örmagnast fljótlega. Hún fær að hafa teppið mitt og sofnar í bátsbotninum með lýsislyktandi fjaðurstaf í krepptum hnefa.
Eftir því sem nóttin líður dofna handleggirnir á mér. Axlirnar stirðna upp, verkirnir verða óbærilegir, en ég held áfram að róa. Ég get gert allt sem ég vil.
Ég kem okkur í land á þrjóskunni einni saman. Litla systir mín er köld en vær og úthvíld, ég hráblaut og uppétin. Ég vek hana dálítið hranalega.
Drífðu þig.
Kemur þú ekki með mér? spyr hún, ekkert nema augun.
Sjáum til, segi ég.
Ég horfi á eftir henni í morgunskímunni. Blautur fjörusandurinn gleypir smáa fæturna og hún tosar þá þrjóskulega upp í hverju skrefi. Vindurinn stendur í andlitið á henni þar sem hún fer til að taka á móti skömmunum mínum, með teppið mitt drullugt í eftirdragi.
⁂
Nokkrum árum seinna mun dalurinn hennar finnast aftur. Afskekkt vík inni í þarnæsta firði þar sem enginn býr, ekki aðgengileg nema af sjó. Af öllum skaranum verða ekki eftir nema tíu veiklulegir fuglar. Engir ungar, enginn steinfugl í fjörunni. Mennirnir taka alla. Veiðin bjargar fimm bæjum frá hungurvetri, en fólk veit betur en að storkar örlögunum. Enginn vonast eftir öðru kraftaverki og um vorið bregða allir búi. Bæirnir deila á milli sín söluandvirðinu af hömunum, fólkið hefur nýtt líf á öðrum stað. Fátæklegt líf en skárra en að lepja dauðann af áfergju úr krákuskel.
Pabbi gerist upp frá þessu þungur í skapi, og verður fjarrænn til augnanna hvenær sem fuglarnir eru nefndir. Eflaust rennir hann í grun um að þetta hafi verið þeir síðustu, löngu áður en nokkrar ásakanirnar heyrast opinberlega. Alla ævi neitar hann að tjá sig um málið, jafnvel þegar hann er nefndur með nafni, jafnvel þegar hinir mennirnir stíga fram til að verja heiður sinn og krefja hann um samstöðu. Hann segist ekki mega vera að því að hugsa um gamla tímann, hann eigi nóg með leður og sóla. Hæfileikar hans liggja þó augljóslega ekki í skóviðgerðum og lífið á nýjum starfsvettvangi mun alltaf verða bannsett hark. Mamma hefur hins vegar ágætar tekjur af saumaskap og þannig draga þau fram lífið á mölinni.
Systir mín hjálpar til. Með árunum róast hún, hættir að ana um eins og villibarn og smám saman mýkist mamma í garð dóttur sinnar. Systir mín er enda jafnoki hennar að vinnu, fljót að læra og kvartar aldrei. Árin líða. Með aldrinum harðnar sú gamla aftur í lund, hún steytir skapi sínu á dóttur sinni, sem ávallt hefur sínar eigin hugmyndir um efni og snið og er þar að auki löngu farin að taka móður sinni fram sem saumakona, með sín skörpu augu og stöðugu hönd.
Á undraverðan hátt tekst þeim á nokkrum árum að verða sér úti um nægt fé til að opna sína eigin klæðskerastofu. Systir mín kaupir stæðilegt hús í miðbænum og ræður aðstoðarstúlkur. Hún tekur ein við rekstrinum þegar gigtin heimtar loks hendurnar á þeirri gömlu. Breytinguna má sjá á flíkunum. Blúndan á kjólermum og hálsmálum er fíngerðari en fyrr hefur sést. Silkið er sérinnflutt frá Englandi og haganlega smíðuð lífstykkin breyta heldri konum bæjarins í þokkagyðjur á einni nóttu.
Hún er eljusöm, fær og einstaklega glöggskyggn. Þefar uppi tískustrauma um leið og fyrsti keimurinn af þeim byrjar að berast yfir hafið. Viðskiptavitið er eins og sjötta skilningavitið. Hún verður eftirsótt, síðan ómissandi. Sú fyrsta af sínu fólki til að eignast peninga.
Hún þykir sérvitur, lætur senda sér ógrynni erlendra tímarita og blaða, allt frá Myra’s Journal of Dress and Fashion til Archiv für Naturgeschichte. Á tímabili leggst hún jafnvel í siglingar. Hún giftir sig aldrei – en það þýðir ekki að líf hennar sé ástlaust. Segjum að hún velji sér aðstoðarstúlkur af kostgæfni. Hún flytur af efri hæð klæðskerastofunnar í glæsilega nýbyggingu með stórum bakgarði þar sem hún ræktar blómstrandi runna og matjurtir og heldur hænur. Einkamálum sínum flaggar hún ekki á torgum úti – ekki ástinni en heldur ekki ófriði eða hjartasorg. Hún grefur foreldra sína með nokkurra ára millibili og gerir útför þeirra með miklum sóma.
Þegar gigtin, þessi ættgengi andskoti, nælir loksins í liðina á henni hefur hún komið ár sinni þannig fyrir borð að það kemur ekki að sök. Heilinn er í lagi og svo hefur hún þjálfað stúlkurnar vel. Áfram hefur hún arnarauga með rekstrinum og heimsækir kvenfólkið í bænum síst sjaldnar en áður, til að það haldist sannfært um að enn bjóði enginn annar jafn vandaða og nýtískulega vöru.
Hún stendur svo keik, þessi systir mín, að fæstir merkja mótvindinn. Hún heldur stillingu sinni í öllum veðrum, jafnvel þegar gæfan snýst öndverð gegn henni. Á einum örlagaríkum degi í nóvember verður hún svikin í ástum og viðskiptum sama dag. Konan sem til margra ára hefur búið undir sama þaki – leigjandi, vinkona, starfsstúlka, hjartans blóm – flytur út og opnar eigin saumastofu, systur minni til höfuðs. Með henni fara kúnnar, starfsfólk og kunnátta. Hún stelur viðskiptasamböndum heima og heiman. Breiðir út róg.
Höggið er þungt en ekki nógu þungt til að fella systur mína úr söðli. Hún vaknar að morgni og tilkynnir um endalok rekstrarins. Síðan gengur hún til verks skipulega og af stillingu, hnýtir lausa enda, fimlega og fast svo ekki geti raknað. Hún er til þess að gera áhyggjulaus, enda situr hún orðið á nægilega digrum sjóðum til að gera elliárin bærileg og gott betur.
En þá byrja andvökurnar. Sálin gerist óróleg. Í iðjuleysi ævikvöldsins skýtur því upp sem áður duldist undir yfirborði daganna. Hún unir sér hvorki við lestur né skriftir. Húsið er í senn víðáttugeimur og fangaklefi. Hvorki apótekarinn né presturinn geta veitt henni nokkrar bjargir.
Aftur á móti berst henni bréf frá Kaupmannahöfn. Kær vinur hennar skrifar, fagur maður með píanófingur sem um árabil hefur selt henni fíngerða knipplinga. Hann talar um lækningalist sem fólgin er í að dáleiða sjúklinga aftur í fortíðina. Hann þekkir til læknis sem er fær um að leita uppi baunina úr barnæskunni undir dýnunum hundrað svo sálin fái loks að hvíla róleg í holdinu.
Systir mín man ekki til þess að hafa nokkurn tíma lagt trúnað á handanheima eða kukl. En vinurinn fullvissir hana um að hér sé þvert á móti um að ræða vísindi – hvorki meira né minna en bestu og framsæknustu vísindi samtímans: Vísindi sálarinnar.
Og úr verður að hún leggur enn á ný land undir fót. Siglir til Hafnar og þaðan áfram til Hamborgar og Frankfurt. Á leiðinni heimsækir hún náttúrugripasöfn, þrammar um gangana og leitar uppi sali þar sem dröfnótt egg útdauðra fugla eru geymd undir gleri. Sum þekkir hún. Þegar hún kemur loks á endanlegan áfangastað – Zürich – bíður hennar ungur og alvarlegur læknir með svart yfirskegg og hún ákveður að treysta honum til fullnustu. Hún er orðin of gömul til að byrja að gera hlutina með hálfum huga.
Undir styrkri leiðsögn doktorsins heldur hún enn á ný í ferðalag, nætursiglingu, að þessu sinni, inn á við. Og í myrkrinu hittir hún fyrir unga konu, sem er líka hún, reiða konu, sem hún hefur ekki leitt hugann að í mörg ár. Hún stendur ein í heimi sem er ekki ætlaður henni, neydd í felur og fals, inn undir harða skel, dældaða af hleypidómum og forsmán.
Þetta er systir hennar. Hún finnur angist þessarar ungu konu og bræði og fyrirgefur – öll mistök, alla óverðskuldaða harðneskju í garð þeirra sem hún elskaði mest. Hún breiðir yfir hana teppi, hjúfrar hana upp að sér og ruggar í svefn. Þótt hún viti ekkert um vísindi sálarinnar skilur hún nákvæmlega hvað unga konan þarf að heyra, hún hvíslar í eyra hennar öllu því sem hún hefur lært á langri ævi.
Og þegar þessi unga kona heyrir hvíslið í vindinum, þá ýtir hún sínum eigin báti úr vör. Heldur af stað, siglir dýpra inn í nóttina í sjálfri sér til fundar við einmana unglingsstúlku í óvinveittri borg. Foreldrar hennar eru of hertir af lífsbaráttunni til að eiga nokkuð að gefa, svo stúlkan neyðist til að vera sín eigin fjölskylda.
Hún er systir hennar, þessi unglingsstúlka. Hún hefur tamið sig sjálf, undið úr sér villimennskuna til að storka ekki móður sinni með því einu að vera til. Móðurinni sem frá blautu barnsbeini hefur mátt standa undir ábyrgð sem myndi kremja hvaða villibarn sem er. Og nú er hún tóm, ein og utanveltu meðal borgarbarnanna. Pabbi glaseygur og bitur og hún fær ekki að syrgja hann fremur en þetta eina sem hún elskaði meira.
Unga konan hvíslar og stúlkan vaknar í nóttinni. Siglir tjörguðum árabáti inn í innsta myrkrið og kemur út hinum megin. Gengur á land, gengur á kjökrið í berrössuðu barni sem situr í sandinum hjá steinfugli. Það er hennar hlutverk að hugga þessa litlu systur, þessa sjálfa sig. Sem býr nú þegar yfir öllu sem hún mun þurfa á að halda. Sem veit nú þegar allt. Geymir ástina innra með sér og tekur hana með sér hvert sem hún fer.
Sú litla heyrir systur sína hvísla: Hugrekki þitt er ómæli. Heimurinn er þitt element.
Og um leið og hún heyrir orðin – segir orðin – sér gamla konan ævi sína á röngunni. Hvernig þær allar eru eitt, eins og ólík stykki sem falla saman í eina flík. Ef hún saumar þau saman verður úr lýtalaus hamur, klæðskerasniðinn á hana eina. Þegar hún klæðist honum verður hjarta hennar loksins loksins loksins aftur rótt.
Hún þakkar lækninum, borgar vel. Hún mun bera hróður hans víða. Ferðbýst og heldur frá Zürich. Kannski mun hún ílengjast hjá vini sínum kurteisa í Kaupmannahöfn, kannski reisa föður sínum minnisvarða í víkinni. Kannski sigla, safna náttúrugripum eða ástkonum. Þetta er eitt af þessum sjaldgæfu augnablikum þegar allt er enn óráðið.
⁂
Vatnið sleikir á mér tærnar. Ég er blaut í fæturna og dofin um allan líkamann. Ég hef notað síðustu kraftana til að draga súðbyrðinginn á land og nú liggur hann skakkur í fjörusandinum.
Sú litla er komin upp að bænum og bráðum kemur einhver út og finnur hana. Hún er úfin og villt en gengur beint á móti vindi, óhrædd við allt. Ég hvísla upp í vindinn um hreiðrið sem fuglinn okkar hefur falið undir klettasnös í fjörunni. Um eggin þrjú, getin í lausaleik og yfirgefin fremur en ungað út í ánauð. Köld og lífvana fjöregg, sem varðveita engu að síður ævi systur minnar og gæfu. Það fæst gott fyrir svona egg. Eins og ævintýraprinsessa mun hún varðveita þau um árabil þangað til lítil rödd í myrkrinu segir henni að augnablikið sé runnið upp.
Stóra systir mín bíður mín lengra út með ströndinni. Fyrir aftan hana sé ég fleiri. Stúlkur, konur. Mér finnast fætur mínir ekki tilheyra mér, finn þá ekki snerta jörðina, en stóra systir mín brosir þegar ég geng af stað í áttina til hennar. Ég geng upp að henni og inn í hana og áfram út fjörðinn. Við göngum allar, áfram, alla leið, áfram yfir vatnið og út á sker.