Krista Alexandersdóttir
1.
Konan mín var fyrst
Það gerðist ekki á einni nóttu. Hugsanlega á nokkrum mánuðum, en fyrrum skýrar minningar eru farnar móðu til. En það mikilvæga hér er að á 67 ára afmælisdaginn minn, 21 október 2025, hvarf konan mín af þessari jörðu.
Ég gerði þau mistök að blikka, í brotabrot af sekúndu, og hún var fuðruð upp. Kaffibollinn ennþá heitur, nýopnuð mjólkurfernan við hliðina. Síðustu angar kryddaðs ilmvatnsins teygðu sig í gegnum rýmið, leystust upp og hurfu vitum mínum fyrir fullt og allt. Þögnin skerandi. Ég var ekki einu sinni búinn að bera fram kökuna. Gulrótarkaka, uppáhalds kakan hennar. Hvað var það síðasta sem ég sagði við hana?
Og þannig byrjaði þetta. Þessi nýja tilvera mín. Næst fóru vinirnir að hverfa koll af kolli, rænt af himnum ofan, og með þeim sunnudagsmatarboðin, steikin hans Palla, hlátrasköll yfir rauðvínsflösku, samræður inn í bleika sólarupprás. Eins og hendi væri veifað. Púff. Sömuleiðis félagar úr vinnunni. Einn daginn mætti mér harðlæst hurð, dónarnir höfðu lokað án þess að láta mig vita. Þannig hófust mín launalausu eftirlaun.
Afgreiðslumaðurinn í Melabúðinni, þessi með bólurnar, bleika hárið og stóra brosið sem bauð mér alltaf Góðan Daginn, tók sitt Góðan Daginn með inn í ekkertið. Unglingarnir á bílaþvottastöðinni sem þrifu bílinn minn á laugardögum skildu eftir vélarnar með sínu innihaldslausa góli. Hver átti núna að þrífa bílinn minn?
Raddir pólítíkusa og blaðamanna hurfu ein af annarri, þar til allar útsendingar þögnuðu í útvarpi og sjónvarpi, fyrir utan auglýsingar sem voru leiknar á lykkju. Þegar þar var komið hafði þó aldrei verið jafn huggulegt að hlusta á þær, smeðjulegar raddir úr ofleiknum auglýsingunum. Þær voru aðrar en mín. Sönnun um raddir sem eitt sinn fengu rými til að hljóma. Sönnun um starfandi samfélag framboðs og eftirspurnar. Einn daginn skilaði Mogginn sér ekki inn um lúguna því enginn var til staðar til að segja frá, þó heldur betur væri miklu frá að segja.
Fram á það síðasta ríghélt ég í syni mína tvo og barnabörnin, sleppti þeim mér ekki úr sýnum í eitt augnablik. Vakti með þeim allar nætur, alla daga þar til augun urðu glær og hugurinn líka. En allt kom fyrir ekki, eina nóttina dottaði ég, að mér fannst í eina sekúndu, og er ég rankaði við mér voru svefnherbergin auð, aðeins líkamslögunin steypt í dýnuna. Blíðlegum barnsandanum stolið.
Á nokkrum mánuðum (eða voru það ár?) þagnaði allt; götur, verslanir, skólar, almenningsgarðar. Bæir, borgir, lönd, heimsálfur. Rödd samfélagsins upprætt. Hvert sem ég leit í kringum mig kom ég að veggjum þagnarinnar.
Var ég aleinn eftir?
Veröld mín varð að einu stóru eyðibýli. Eyðibýli sem gnístandi kallar fram verund þeirra sem bjuggu þar áður. Hálflesin dagblöð á rykugum borðum, opnir skápar, fullir af dönsku matarstelli, gulnuð gluggatjöld og myndir af fjölskyldumeðlimum á köldum veggjum. Eyðibýli hrífa mann með sér, þessi frummynd melankólíunnar og hið æpandi tóm nostalgíunnar. Hvert einasta hús á sinn síðasta eiganda, sitt síðasta andvarp. Eiganda sem skellir hurð á búslóð sem aldrei verður aftur til neins. Búslóð sem óneitanlega fellur í gleymsku með minningum kynslóða sem þar ólust upp.
Tja, nú var heimurinn mitt mikla eyðibýli. Einhver hafði gleymt mér, lokað hurðinni og skapað eyðibýli að innan sem og utan. Eða kannski var ég viljandi skilinn eftir. Nú, sama hvað var, þá virtist það grunsamlega persónulegt, sem ég átti erfitt með að fornumast ekki yfir. Kannski var mér boðið með en missti af lestinni?
2.
Lífið er mjög langt
21. október 2040
Síðustu ár (man ekki hversu mörg ár) hef ég aðeins sett eitt kerti á afmæliskökuna mína. Í byrjun hófst sá siður þar sem kertin voru byrjuð að fylla alla kökuna, vaxið lekandi yfir mjúkt smjörkremið. En nú þar sem ég hef misst tölu á aldri mínum, og kerti orðin að munaðarvöru, hef ég verið þvingaður til að halda þeim sið áfram. Og svosem, ef maður hugsar til þess, nægir aðeins eitt kerti. Maður fær hvort eð er aðeins eina ósk. Ég óska mér til hamingju með afmælið, og blæs á.
Ég hef ítrekað reynt að muna eftir eigin nafni. Ég man ekki, ég skil ekki hvenær ég hef gleymt því. Öll gögn voru skilin eftir þegar ég flutti úr húsinu eftir að fjölskyldan hvarf og mér datt ekki í hug að ég myndi þyrfa á persónuskilríkjum að halda í þessari nýju verund. Hinsvegar tók ég ekki með inni í reikninginn mitt gloppótta minni, sem hratt fór versnandi. Kannski var nafnið svo rígbundið húsinu, mínu fyrra lífi, að það var ómögulegt að taka það með sér. Það átti heima í hinni tilverunni, og hver þarf á nafni að halda þegar það er enginn sem getur notað það? Þegar ég mun aldrei heyra hljóðbylgjur þess óma um þéttsettar götur. Og eftir öll þessi ár, er ég ekki viss um að það passi mér lengur, hvað sem það var. Hvað myndi ég heita ef ég yrði skírður í dag? Má skíra sjálfan sig?
3.
Jasmínublómin
Vægðarlaus tíminn stendur í stað þegar það er enginn til að minna mig á hann. Segja mér hvað klukkan er þegar ég spyr, minna mig á að „páskarnir koma seint í ár,“ eða óska mér til hamingju með afmælið. Þetta tímaleysi einkennist hvort tveggja af algjöru frelsi og fullkominni stöðnun. Við erum búnir að vera í stöðugu kapphlaupi, ég og tíminn, sem er þó alltaf með örlítið forskot á sæluna. Ég tek eftir því á hundinum mínum, Loppu-Doppu, sem lempast með árunum – skjögrar alltaf aðeins hægar og hægar með hverri dagrenningu, eins og hún voni að tíminn haldi í við hana, greyið. Ég þarf ennþá að klippa á mér táneglurnar, hárið heldur áfram að þynnast, og síðan ég man eftir mér hafa vor breyst í sumur, sumur í haust og svo framvegis og svo framvegis.
Fljótlega eftir að fjölskyldan hvarf áttaði ég mig á því að við vorum þó nokkrar eftirlegukindurnar eftir, hér og þar. Nokkrar hræður sem læddust skelkaðar út úr orðlausum húsum. Það var þá, (var það 2026?) sem hætt var að endurnýja dagatöl, og áður heilagir dagar féllu fljótt í gleymsku. Ógnvekjandi í fyrstu, sérstaklega fyrir þá skipulögðu, en dagatöl skipta svo sem engu máli ef miðvikudagur jafngildir laugardegi, jólin jafngilda páskum og eigendur afmælisdaga eru horfnir. Tíminn var úr eftirvæntingunni skapaður og það er erfitt að hlakka til þegar næsti dagur er hvort tveggja fullkomin óvissa og nístingskaldur hversdagsleiki. Ég var ekki lengur að bíða eftir neinu.
En ég hlakka samt til þess þegar hvít jasmínublómin koma aftur á trén í bakgarðinum hjá mér og gefa frá sér sæta lykt eilífðarinnar. Svo staðnaður er tíminn þó ekki.
4.
Hinn myrki skógur himingeimsins
Rétt eftir Hvarfið mikla byrjuðu sögusagnir um brottnám geimvera að taka stórt pláss í almennri umræðu. Alls staðar þar sem raddir komu saman var kvisað og hvíslað. Á kaffihúsum, bódegum, heitum pottum, elliheimilum. Allir á varðgát, lítandi yfir eigin axlir, starandi í glær augu hver annars í leit að svörum.
Sporlaust. Fólk hvarf án þess að kveðja eða skilja nokkuð eftir sig. Ekki á sama tíma, svona svolítið á hvippinn og hvappinn. Hér og þar. Af öllum kynþáttum, aldri, trúarbrögðum, kynhneigð, landshlutum, stéttum, fituprósentu. Ætli það hafi ekki komið mannkyninu mest á óvart, það hafi uppgötvað sér til skelfingar að við vorum öll jöfn fyrir kröftum himingeimsins, guða og geimvera. Í grunninn vorum við öll eins. Kaldhæðnislega varð Hvarfið mikla því á örskotsstund að einu mesta sameiningarafli mannkynsins fyrr og síðar, að hverfa saman, allir fyrir utan mig.
Fólk sagðist hafa séð ættingja fljóta upp í himininn dáleidda. Aðrir, að fólk hafi einfaldlega leysts upp í milljarða einda eins og slökkt væri á sjónvarpsútsendingu sálarinnar. Sumir, nýaldarhippar aðallega, sögðu vindinn hafa verið að verki. Kári klári hafi komið eins og óboðinn gestur inn um gluggann og þokað fólki í burtu eins og tómum ruslapokum. Enn aðrir sögðust, skjálfandi, hafa séð hávaxnar verur í mannsmynd, með gul augu og geislandi, koma og sækja viðkomandi – „Hann stóð þarna bara, allt í einu, við hlið hennar, lagði hönd á öxlina og svo voru þau bara horfin!” Íhaldssamari kenningar gengu manna á milli um djöfla, ljóta og hrekkjótta, sem gripu fólk með valdi og rændu þeim inn í skuggana. En svo voru hinir bjartsýnu sem predikuðu um engla sem tækju hina góðu upp á meðan hinir slæmu færu niður. Ég vona að fjölskylda mín og vinir hafi fengið að fara upp.
Ekki leið á löngu þar til enn furðulegri hlutir byrjuðu að gerast. Það var sirka sex mánuðum eftir hvarf konu minnar, ef ég man rétt (sem ég geri alveg örugglega ekki), og enn vorum við nokkrar hræðurnar á vappi. Suðið byrjaði lágt, eins og feit randafluga á sólríkum sumardegi en hækkaði í sífellu. Á fáeinum mínútum steig suðið þar til það varð að óbærilegum skarkala sem steyptist yfir vit okkar allra.
Með suðinu fylgdi alltaf ljósið, eins og kveikt væri á sterkum tannlæknastofulampa. Heimsins stærstu og mögnuðustu ljósaperu sem gaf sólinni ekki séns, svo nauðsynlegt var að líta undan. Þeir sem héldu áfram að stara blinduðust. Alllengi eða endanlega. Ég gróf andlitið ofan í þvala lófana og beið eftir því að þetta liði yfir. Sem þetta gerði, eftir tíu til tuttugu mínútur. Suðinu fjaraði út og með því hvarf ljósið.
Þetta virtist gerast reglulega, sirkabát einu sinni í viku, og þrátt fyrir truflunina blundaði alltaf í mér von um að þetta væri einhverskonar kall. Þarna væru geimverurnar eða Guð almáttugur loksins komin að sækja mig og leyfa mér að vera með. En allt kom fyrir ekki. Truflunin leystist upp í algjöra kyrrð, fyrir utan samtíða andvarp þeirra sem eftir voru.
Samansafn af heimsins bestu vísindamönnum, verkfræðingum og geimförum, með alla heimsins fjárstyrki, náðu aldrei að finna út úr því hvaðan þessi truflun kom áður en þeir sjálfir hurfu. Því hef ég lært að lifa með þessum vikulega friðarspilli. Ekki mun ég, meðalmaðurinn mikli, finna út úr því hvað þetta er. Kannski risastór heilasuga? Og enn vakna spurningarnar – hvað er þá svona mikið að mínum heila? Ég hef kannski ekki mikið fram að færa fræðilega né líkamlega, svona almúgamaður, en ég get ekki sagt að ég sé heimsins slakasta eintak. En hvað um það! Við mannkynið komumst ekki að niðurstöðu áður en samræðurnar dóu út. Endanlega gat enginn sagt til um hvað var að gerast, hvað gerðist á milli stakra augnablika og hika, sem gerbreytti lífi okkar frá kryddaðri steik í ósaltaðan hafragraut.
Á þessu stigi hafa allar kenningar rétt á sér.
Ég taldi mig hafinn yfir allar svokallaðar samsæriskenningar, fannst þær bjánalegar, eitthvað sem heimskt fólk tók sér fyrir til dægrastyttingar. Þó er hægt er að segja (þar sem ég segi það) að vísindalegar kenningar, eða jafnvel bara einföld rökfræði, missi forgangsréttinn í umræðunni þegar fólk fer að hverfa svona upp úr þurru. Þar standast hvorki þyngdarlögmál Newtons, né afstæðiskenning Einsteins. Af hverju er það þá svo fjarri lagi að grænir risar frá geimnum hafi rænt okkur, eða guðir frá plánetunni Zíon eða Tlön, biblískir djöflar frá hyldýpum jarðar eða umskiptingar huldufólks. Skiptir það svosem máli?
Þrátt fyrir ítrekaðar útvarpssendingar út í heiminn – „Halló heimur hér er ég!“ – í örþreyjufullri von um svar frá æðri vitsmunaverum, þá var það orðið temmilega augljóst að alheimurinn, rétt eins og náttúran sjálf, bjó yfir kröftum sem við náðum aldrei að verða partur af. Við vorum lítið annað en maurar (sem að eðlisfari geta ekki litið til himins), að aulast í sömu halarófunni á meðan yfir okkur stóðu verur með grimm bros og stækkunargler. Ekkert að því að vera maur, kannski bara ekki í þessu samhengi. Nema hvað um það, þá virðist sem að við höfum verið gerð að fíflum. Hinn myrki skógur himingeimsins býr yfir kröftum sem við náðum aldrei að verða partur af.
Rafmagnslínur hættu að sjálfsögðu að virka, vélarnar brunnar út, og þar með gervigreindin sem hélt öllu samfélaginu gangandi. Hún, greindin, var mér ávallt óskiljanleg og tjáði mér ekki annað en aumkunarverða minnimáttarkennd samfélagsins. Kóði með gervinafn, gervirödd, sem færir þér svör við öllum þeim spurningum sem þú gætir mögulega þarfnast eða ekki þarfnast. Jú, jú, oft rangar upplýsingar, en hverju skiptir það ef þú þekkir ekki muninn? Ég var líklega orðinn of gamall fyrir svona nýjungar, en þó komumst við fljótt að því að gervigreind hjálpar lítið í heimsenda.
Gervigreindin gat ekki svarað:
„Af hverju eru allir að hverfa?“
„Hvernig mun alheimurinn enda?“
„Eru geimverur til?“
„Hvar er afi?“
Ég hef alltaf vonað í minni barnatrú, og vona enn, að svarið við hverri spurningu hafi verið Englar. Að börn mín og barnabörn séu nú í leik við Lykla-Pétur, sársaukalaus og hamingjusöm. Ég vil ekki vita betur. Þó skammarlegt sé að segja frá því hef ég á tilfinningunni að ég sé búinn að gleyma nöfnunum þeirra líka.
5.
„Sýndu mér átta mislukkaðar heimsendaspár“
1910 – Halley halastjarnan
Efni í hala halastjörnu Halley mun drekkja jörðinni í eiturgufum.
1982 – Röðun reikistjarnanna
Bókin Júpíter-áhrifin frá 1974 predikar endi alheimsins 1982 vegna náttúruhamfara tengdra röðun reikistjarnanna.
1997 – Hale-Bopp halastjarnan
Sértrúarsöfnuður telur að geimskip sé falið á bak við Hale-Bopp halastjörnuna og muni bjarga sálum þeirra frá jörðu eftir að þau yfirgefa líkama sína.
2000 – Y2K
Ótti grípur um sig að allar tölvur hrynji 1. janúar 2000, og hafi í för með sér hrun alls nútímasamfélags.
2011 – Harold Camping klúðrið
Kristilegur útvarpsmaður spáir því að dómsdagur verði 21. maí 2011. Þegar ekkert gerist færir hann dómsdag yfir í október sama ár.
2012 – Maja heimsendir
Heimurinn mun enda 21. desember 2012 þegar langtíma-dagatali Maja lýkur.
2024 Opinberun geimveranna
Ríkisstjórn Bandaríkjanna opinberar samband sitt við geimverur árið 2024, sem leiðir til múgæsings og að lokum heimsendis.
2026 – Vitsmunavakning gervigreindar (enn til íhugunar)
Gervigreind vaknar upp til meðvitundar og tekur yfir mannkynið 8. janúar 2026 með notkun dáleiðslu. Heyrn og sjón brenglast.
6.
Innantómar hræður hræða
Eftir þó nokkur ár (ég man ekki hversu mörg ár) hættum við þeir fáu eftirstandandi að leita lausna. Við hurfum hægt og rólega inn í okkar eigin skugga, okkar eigin einveru. Allar samræður var búið að eiga, allar kenningar komnar á borðið. Við vorum búin að gráta saman, berjast saman, vinna saman. Skömmin elti okkur hvert sem við fórum af því það var skammarlegt að við vorum skilin eftir. Hvað höfðum við gert til að verðskulda þetta, eða ekki gert? Við hættum að geta horft í augu hver annars af skömm. Við litum frekar niður á þurrar hendurnar, lotin, og hægt og rólega urðum okkar eigin skugga að bráð. Skuggar snertu skugga. Við sólsetur var hægt að sjá drauga okkar endurkastast af köldum múrsteinsveggjum.
Vakandi sofandi vakandi.
Í lokin hurfu endurköstin líka, og ég stóð einn eftir með skuggann minn. Litla skrítna skuggann minn.
Eitt sinn var mér sagt, af einhverjum svaka sniðugum, að orð væru eins og ryk, að kraftur þeirra liggi í útbreiðslu þeirra, og án þess að við tökum eftir því safnist þau í kringum okkur hægt og rólega. En ef orð eru ryk, þýðir það að þau eru enn til staðar, einhvers staðar úti í horni. Og gæti ég sópað þeim saman, fornöfnunum, samnöfnunum, sérnöfnunum, myndi ég tína þín saman aftur. Finna ylinn af silkimjúkum hljómburðinum, traustvekjandi taktinum og „ég elska þig“-um. Ef ég fengi bara eitt augnablik þar til vindurinn tæki rödd þína aftur með sér eins og hann tók þig. Mig grunar að ég sé að gleyma þér, elsku konan mín.
7.
Í leit að lífsneista
Ég hef alls ekki dandalast um latur og umkomulaus þessi síðustu ár. Stuttu eftir Hvarfið mikla fann ég leið til að senda út skilaboð í gegnum útvarpsbylgjur. Í byrjun fékk ég einhver svör, hin og þessi frá Bandaríkjunum, Suður-Afríku, Brasilíu, Grænlandi. Fólk í nákvæmlega sömu stöðu og ég. Allir ættingjar farnir, börnin horfin, vinnustöðum lokað. Við erum öll svo svipuð. Sumar raddirnar voru sannfærðar um að værum þau útvöldu, þau heppnu, skilin eftir vegna æðri vitsmuna okkar til að byggja upp nýtt og betra samfélag. Kannski er ég fúllámóti, en fimm mínútna samræður með þeim sönnuðu einfaldlega að svo æðri vitsmunaverur voru þau ekki. Aðrir, og ég þar með talinn, voru heldur vonlausari og hugsanlega mun leiðinlegri félagsskapur. Þó ég hafi oft ofmetnast um eiginleika mína, þá get ég með sannfæringu sagt að uppbygging heils samfélags sé ekki mín sterkasta hlið. Ég vildi óska að foreldrar mínir hefðu skráð mig í skátana.
Áætlunin var alltaf að smala okkur saman, en við gátum ekki komið okkur að niðurstöðu um hvar eða hvernig, svona eldsneytis og rafmagnslaus. Hvorki flug né stóreflis siglingar komu til greina. Við töluðum með uppgerðri von um notkun hesta og árabáta, en innst inni vissum við öll að þetta var bara kurteisishjal. Blaður til að skreyta langar stundir í þessum fáránlega heimi. Hægt og rólega gerðum við okkur grein fyrir því, þótt það hafi alltaf verið á borðinu, að sumir hættu að svara. Við vorum kannski ekki svo blessuð eftir allt. Ein og ein útvarpsbylgja lognaðist út í æpandi tómarrúm. Í lokin kvaddi mig síðasta röddin, í miðri setningu. Það var ungur og efnilegur maður frá Grænlandi sem hét Innuteq: „Hefurðu tekið eftir ugl…?“ Svo byrjaði suðið aftur.
Eftir að það þagnaði gjörsamlega í mínum tæknilegu samskiptum við umheiminn, og eftir mánaðaþoku af sjálfsvorkun og eymd ákvað ég að taka mig saman og ferðast um meginlandið á fæti í leit að röddum. Það var hugsanlega eitthvað fólk þarna úti, kannski heil samfélög, sem voru í algjöru miðlamyrkri, að bíða eftir mér. Ég hafði allan tímann í heiminum og lítið að gera við hann.
Ég ferðaðist um alla Evrópu – ofan í hin svörtustu vötn og upp á hvítustu tinda. Höfuðborgir hinna stærstu landa, og smá samfélög einangraðra þorpa. Þær hræður sem ég rambaði á fylgdu mér í nokkrar mínútur, klukkutíma, mest viku, áður en þau fuðruðu upp. Ef þau voru þá einhvern tímann til? Æ, það er svo óralangt síðan.
8.
Yfirráð uglanna
Með suðinu koma uglurnar.
Þau (eða það?) tóku ekki dýrin með sér og ég get stoltur sagt að ég reddaði mér dýrum alveg sjálfur, beljum og hænsnum, fyrir mjólk og egg og einstaka kjúkling til hátíðarbrigða, eins og í dag. Ég tók að mér nokkra munaðarlausa ketti og hundinn Loppu-Doppu, fyrir félagsskap. Og eftir nokkur ár er ég orðinn nokkurn veginn sjálfum mér nægur þegar kemur að uppihaldi. Svona eins góður og hægt er að vera í þessu ástandi mínu.
Hins vegar, merkilegt nokk, hefur allt fyllst af uglum. Uglur á húsþökum, gluggakörmum, trjám. Flöktið byrjar í suðinu, vængirnir birtast með ljósinu. Svo sitja þær og stara inn um gluggana, stara bara og stara, en reyna aldrei að troða sér inn. Ég hélt að stærðarinnar augu þeirra og gnístandi þögn myndi ræna frá mér öllu viti, en nú eftir að ég hef vanist þeim eru þær orðnar hinn notalegasti félagsskapur. Þær koma aldrei nær, halda sér í hóflegri fjarlægð. Ég held þær séu að passa upp á mig.
9.
Svona mun heimurinn enda.
Ekki með látum, heldur kjökri.
Var okkur ekki lofað einhverju meira spennandi þegar kom að endalokum alheimsins? Var okkur ekki lofað heimsplágum, náttúruhamförum eða atómsprengju? Ekki þögn, ekki suði, eða hnígandi samdrætti mannkyns eins og niðurblásinnar blöðru. Það hefði verið sanngjarnt að leyfa okkur að svara fyrir okkur, að gera gagnslausa mótárás. Við hefðum allavega getað sagt að við hefðum barist fyrir lífi okkar.
Ég hrekk upp við eigin rödd á næturnar – í von um að hún sé þín.
Þegar konan mín hvarf leystist sjálfsvera mín upp með restinni, og skildi mig eftir verandarlausan. En vandamálið er, vandamál allra vandamála, að ég veit ekki hvaða púsl ég hef til að hefja nýja uppbyggingu. Engan til að spegla mig í, engan til að svara þegar ég tala, segja „guð hjálpi þér“ þegar ég hnerra, segja „ha?“ þegar hann heyrir ekki í mér. Enginn heyrir ekki í mér.
Ef það var eitthvað sjálf fyrir – ef þau eru yfirhöfuð til – þá var því stolið inn í skuggana. Ég uppgötva mér til skelfingar að allt sem ég taldi mig vera var á hennar forsendum. Blessunarlega. Rödd mín hverfðist um hennar svör, húð mín hverfðist um hennar snertingu, sjón mín um hennar augu. Það skiptir ekki máli hvað ég heiti, hét, ef rödd hennar er ekki til staðar til að segja nafnið upphátt.
Hún var sú sem elskaði mig allra mest, og ég sé eftir því að hafa ekki elskað hana betur.
10.
Það er byrjað að vetra
Skammdegisþunglyndi er margtuggin klisja, af ástæðu. Veggirnir eru kaldir, krókarnir eru dimmir og vindurinn slær húsið utanundir svo heyrist. Þótt ég hafi náð að gera litla kotið mitt heldur notalegt, miðað við aðstæður, virðist það sérstaklega napurt í dag. Tíminn hefur aldrei staðið jafn kyrr. Hann vill kannski að ég nái að halda í afmælisdaginn minn eins lengi og hugsast getur. Það er kalt, kannski var það ekki svo sniðugt að eyða kerti á afmæliskökuna, en í heimsendi þarf maður stundum að dekra við sig.
Ég skelf og núi saman köldum höndum. Ef aðeins ég hefði einhvern til að kvarta yfir veðrinu við, eins og áður, í notalegum heita pottum og góðra vina hóp. Þegar talað var saman, hnussað og sveiað yfir hlýnun jarðar (með loftgæsalöppum) og nýkjörnum framapotandi stjórnmálamönnum eða kurteisislega spurt um helgarplön, þegar helgarplön voru enn til. Það þurfti ekki að vera neitt sérstakt. Það þurfti aðeins vel heitan pott og tvo til þrjá meðalmenn til viðbótar. Þegar það var enn hægt að kvarta yfir veðrinu, virtist kuldinn ekki jafn nístandi.
Hvað hét ég fyrir þeim sem hlustuðu? Þegar röðin var komin að mér að tjá mig sakleysislega um málefni líðandi stunda?
Ég vona að ég hafi heitið Jósef. Mér finnst það fallegt og það fellur létt að vörum. Áreynslulaust nafn, svolítið eins og ég.
11.
Kæri lesandi. Grafðu mig undir nafninu Jósef Guðlaugsson
Þetta er sérstakur afmælisdagur af því að þetta er minn síðasti. Ég hef aldrei séð sjálfa mig sem manneskju sem gæti tekið það stóra skref að enda líf mitt. Ég hef heldur aldrei haft ástæðu til þess að doka við og pæla í því – sama hvernig gekk. En núna, þegar ég er aleinn eftir með enga von um að fjölga mér, þá hefur hugsunin rétt á sér. Stóra spurningin er þrátt fyrir allt: Er það jafn mettandi dauðdagi ef það er enginn sem rambar inn á mann, bregður, og finnur fallega brotið bréf á eldhúsborðinu, í skrautskrift? Það að ég skilji eftir bréf gefur þá birtingarmynd að það sé enn þá vonarneisti í hjarta mínu um að einhver sé eftir. Sem þýðir að ég ætti að halda út aðeins lengur. En ef ég skrifaði ekki bréf, og svo kemur einhver að mér og ég skildi ekkert eftir í kurteisisskyni? Nei, það gengur ekki.
Og hvar byrjar maður?„Hæ, ég held þetta komi engum á óvart. “Nei, of aumkunarvert. Eitthvað eins og „Takk fyrir að skilja mig eftir…” Nei, nei, nei, of biturt! Hvað ef manneskjan sem finnur mig hefur ekkert að gera með Hvarfið mikla, bara enn eitt saklaust fórnarlamb. Ég veit!
„Kæri lesandi, grafðu mig undir nafninu Jósef Guðlaugsson.”
Það var hægt að finna heilan matseðil af svefn – og deyfilyjum í rykugum kössum næsta apóteks. Ég tæmi rautt pilluglas og kyngi með bolla af volgu vatni. Nú er bara að bíða. Bíða eftir einhverju öðru en síðustu tuttugu ár hafa boðið upp á. Loppa-Doppa liggur slök við eldinn og starir á mig glórulaus eins og ég sé byrjunin og endirinn á alheiminum. Svona eins og hundar gera, en köttum myndi ekki detta í hug. Þögnin er skerandi, andardrátturinn aldrei verið jafn skýr og meðvitundin dregin saman. Mínútur líða hægar og hægar, sekúndur staðna. Hægt og rólega byrjar suðið aftur, skært ljós kastast inn um gluggana og flökt í uglum heyrist úr nálægri fjarlægð. Þær raða sér í kringum húsið, augun stór sem undirskálar. Ég var ekki að vonast eftir áhorfendum. Loppa-Doppa hleypur í felur.
Ég hefði hugsanlega átt að finna mér eitthvað að bardúsa á meðan pillurnar gerðu sitt, þessi bið er hrein pynting. Útundan mér sé ég að matarskál Loppu-Doppu er tóm.
Ónei.
Mér er óglatt og mig svimar. Suðið er orðið að ískri, augun klemd niður af ljósinu. Ég reyni að þreifa fyrir mér í átt að matarskálinni, en fæturnir bera mig ekki. Ég heyri Loppu-Doppu gelta úr fjarlægð og sé hana út undan mér í móðu. Eins og í gegnum skítugt fiskabúr. Ég skríð inn á bað og fæ mig til að æla. Ég andvarpa, ég er þakklátur.
12.
Síðasta hvarfið
Heimurinn er þögull. Allar uglur farnar og ég get hugsað skýrt. Ég sest við hlið Loppu-Doppu á sófanum. Hún sátt og sæl eftir sína fullu matarskál, ég sáttur með mína árlegu gulrótarköku, með þeyttum rjóma. Tíminn er einstaklega, fullkomlega, kyrr. Ég veit að ég get alltaf prófað aftur á næsta ári.
Það er bankað á dyr.
Loppa-Doppa lítur snögglega upp úr kjöltunni minni í átt að hurðinni. Ég frýs, held niðri í mér andanum og hristi hausinn í átt að Loppu-Doppu til að biðja hana um að vinsamlegast gelta ekki eða láta fara fyrir sér.
„Halló? Ertu heima!?“
Það er bankað á dyr!
Ég ræski mig, hljóðlega, og rétt næ að koma upp litlu kjökri. „Ehem, halló?“ hvísla ég falskt, röddin komin úr æfingu. „Hver er þar?“ Án þess að bíða eftir svari stend ég upp, dreg lúnar lappirnar upp að útidyrahurðinni og kíki laumulega út um litla kýraugað.
„Viltu opna, þetta er ég!“
Hver er þessi „ég“? Er loksins komið að sækja mig? Ég er ekki einu sinni í sparifötunum. Ég brosi laumulega, það hlakkar í mér.
Ég opna hurðina varlega, titrandi eins og skelfd mús. Fyrir framan mig stendur maður, langur, grannvaxinn og með þykkan dökkan koll. Kannski um þrjátíu árum yngri en ég. Ég hef aldrei séð þessa manneskju áður, þó að augnaráðið dragi mig að. Röddin er mjúk og taktföst eins og konu minnar, bara dýpri. Hárið er sömuleiðis hennar, en á annars manns haus. Það er bíll í bílastæðinu fyrir aftan hann með ljósin á.
„Hæ“, röddin titrar af barnslegri eftirvæntingu. „Hver ertu? Hvað viltu mér?“ Ég hef ekki heyrt bylgjur annarrar raddar í heila eilífð, né fengið að hvíla augun á öðru andliti en eigin spegilmynd.
Maðurinn mælir mig út frá toppi til táar og augun breytast frá dökkgrænum yfir í svört.
Ung og skær rödd heyrist frá bílastæðinu. „Pabbi!“ Dökkhærði maðurinn lítur til baka í átt að bílnum. „Bíddu í bílnum ástin mín, ekki koma út!“
Ég lít fram hjá manninum á bílinn sem er falinn í nóttinni fyrir utan björt ljósin sem glampa á nýföllnum snjónum.
„Veistu hvar konan mín er? Er hún hjá þér?“
Maðurinn réttir úr bakinu og dregur djúpt inn andann, eins og hann sé að undirbúa sig fyrir mikil ræðuhöld.
„Hæ Gulli. Ég heiti Jósef. Komdu með okkur, það verður vel hugsað um þig.“ Hann réttir fram höndina og kreistir fram hálft bros. Ég tek í höndina á manninum sem leiðir mig niður ómokaða innkeyrsluna í átt að bílnum. „Jósef, það er fallegt nafn.“ segi ég og brosi.
Loksins.