Karólína Rós Ólafsdóttir
Kartöflurnar eru farnar að spíra í skápnum undir ofninum. Ljósfjólubláir og skærgrænir angar stingast út um netapokann og teygja sig upp, nokkrir til hliðar en aðallega upp. Eins og griparmar eða fálmarar sem fagna endurkomu ljóssins eftir langa nótt. Rótarskotin standa teinrétt! Þau eru eins og margar litlar hendur sem biðja mig um að taka sig í fangið því þau telja mig frelsara sinn – þótt það sé ég sem kaupi alltaf fleiri kartöflur en ég fæ torgað – og sé í raun fangarinn. Prísundin í eldhússkápnum forðaði þeim vissulega frá forsoðnu söltuðu vatni hugsa ég. Það var mér að þakka. Forðaði þeim frá Stökkum krömdum kartöflum Sunnu sem ég lærði nýlega að gera og get ekki hætt að hugsa um. Falleg kona með gelneglur kramdi soðnar kartöflur endurtekið undir glerglasi með þykkum botni áður en hún kryddaði og velti upp úr matarsóda og setti svo í ofn. „Guðdómlegt“ fullvissaði hún mig um rétt áður en myndbandið tók annan hring og konan, Sunna reikna ég með, sýndi mér aftur hvernig best væri að leggja þungt glasið á mjúkt rótargrænmetið og kremja það rétt. Ekki svo það fletjist út heldur rétt nóg til þess að það tapi sínu upprunalega formi svo þú getir gefið því nýtt. Góðar með grískri jógúrt eða chilli-mæjó. Þetta var lykillinn. Leyndarmál Sunnu.
Ég vakna með klístruð augu og mæti kartöflupokanum aftur þremur dögum seinna við leit mína að einhverju ætilegu. Ísskápurinn tómur utan Smjörva og hvítlauks. Ég legg af stað til læknis og hugsa að ég verði að muna að koma við í búð. Ég sit í heilan dag á biðstofu án þess að fá skrifað upp á sýklalyf. Sama hvað ég hósta og dæsi þar sem ég sit á móti fölu endurprenti af málverki Kristínar Jónsdóttur Kyrra lífi finnst mjóslegnum, ákveðnum hjúkrunarfræðingi varla ástæða til þess að leyfa mér að hitta lækni. Súrefnisinntakan er 100 prósent og lungun hljóma nokkuð vel. Ég spyr hvort það sé eðlilegt að fá gular stírur á morgnana og vera svona rauð um augun. Finnst þér þau mjög rauð? spyr hún til baka. Hvernig eru þau venjulega? Eplin á mynd Kristínar eru fletir lita. Þetta er eitt af þessum málverkum þar sem það eru engin hlutföll, í staðinn snýst allt um rétt magn lita. Akkúrat svona mikið blátt. Pera gæti verið á stærð við vatnsmelónu og höfuð á stærð við kirsuber – markmiðið er að skapa margslungið púsluspil. Markmiðið er ekki að segja þér hvernig heimurinn er heldur hvernig hann getur raðast saman. Hvað gæti orðið. Þau eru ekki svona venjulega, svara ég þótt ég efist auðvitað núna. Kannski er hvítan í augunum ekki eins hvít og mig minnti. Kannski eru gulu eplin á mynd Kristínar kartöflur. Það er sjaldan sem ég hef lent í því að hjúkrunarfræðingur og málverk spyrji mig sömu spurninga. Það er almennt ekki verið að gefa sýklalyf fyrr en þú hefur verið með mikla verki í að minnsta kosti tíu daga, hjúkrunarfræðingurinn réttir mér tissjú þar sem ég hósta ljósgulu. Klæða sig vel og borða hollt, segir hún glaðlega og nær einhvern veginn að leiða mig út úr stofunni án þess að ég taki eftir því. Ég labba heim meðfram sjónum og týnist í að ímynda mér hverskonar augnskuggar gætu farið vel með bleikri hvítu, ef ske kynni að þessi flötur litar væri kominn til að vera. Ég kemst heim án þess að muna eftir því að fara í búð. Heilinn nær ekki að halda uppi bæði listanum: brauð, ostur, gúrka (ef til), og því hvernig best væri að ramma þessa nýju verund inn.
Spírurnar í skápnum eru nú dökkfjólubláar. Þær eru orðnar svo langar að þegar ég opna skáphurðina renna nokkrir angar sér út og yfir brúnina á hillunni. Eru kannski búnir að fatta að heimurinn sé stærri en Maximera 50×80 með beinhvítri framhlið. Ég sit á hækjum mér og fylgist með öngunum teygja sig um allar trissur, þyrstir í næringu af einhverju tagi, vökva, sól. Að það sé eitthvað meira og betra sem bíður þeirra. Kjallaraíbúðin er ekki stór sem íbúð en væri vel útilátinn ræktunarskiki. Væri fallegur flötur á landi þótt hún sé ekki ýkja merkileg þar sem hún stendur, merkt með stóru ryðguðu 8 og litlu b, gengið inn að aftan. Brynjólfi finnst íbúðin svosem ekkert lítil en hann er mikið fyrir útivist og tekur takmarkaðan þátt í að halda heimilinu fínu, þótt hann hafi miklar skoðanir á því hvað ég eigi mikið drasl. Hann hefur ekki tekið eftir kartöflunum heldur, og fyrst hvorugt okkar hefur endað tilvist þeirra hefur grænmetið ákveðið að það eigi að þróast áfram, verða planta og á sér nú draum um að verða kartöflumóðir, stærðarinnar net þráða. Kartöflugarðar eru ekkert annað en samfélög neðanjarðar, segir Brynjólfur sposkur þegar ég sýni honum ferlíkið. Það er satt, þau eru eins og við, með miðjum og augum og örmum. Skjóta svo upp litlum djúpgrænum laufbrúskum þegar þeim líður nógu vel og þó að okkur skorti getuna til að blómstra jafn fallega eigum við ýmsar hliðstæður: listsköpun, hlátur, standpínu.
Ég tek til í eldhúsinu, þurrka af, moppa, hósta upp þykku slími, vökva veikburða rósmarín í glugganum. Eldhúsbekkurinn er blessunarlega úr efni sem heldur sér vel, má vel þrífa, á meðan restin er úr ódýrum spónaplötum. Allt límt eða því púslað saman með töppum sem ekki er hægt að endurnýta. Þegar pabbi kom fyrst í heimsókn hristi hann höfuðið dapurlega, enn eitt skammært eldhúsið. Hann lýsti oft yfir áhyggjum sínum af því að það væri ekkert vandað í veröldinni lengur sem hægt væri að arfleiða næstu kynslóðir að, og smiðshjartað brast örlítið í hvert sinn. Það á enginn skatthol lengur, enginn neitt úr mahoní. Stundum ef mig langar að taka pásu frá óreiðunni í höfðinu og á skjánum þá byrja ég að hella upp á meira kaffi og segi, bíddu hvað er aftur mahoní? Leyfi svo djúpri röddinni að mæra dökkan viðinn þar til ekkert kemst að nema skógur þeirra trjáa sem taka sig vel út sem mublur, sem mýkst er að tálga, gefa nýtt form.
Ég sest á gólfið fyrir framan kartöfluna og sendi pabba sms, hvort hann vilji ekki kíkja við í kaffi. Ég hlakka til að sýna honum. Brynjólfur þarf að komast inn í eldhús og smeygir sér framhjá mér. Hann rétt danglar í fjólubláan arminn á leið hjá, eflaust að furða sig á því hvers vegna ég stari svona einbeitt á óætar kartöflur. Ég sé það oft að honum finnst ég eyða of löngum tíma í eldhúsinu að bardúsa eitthvað. Bara svona eitthvað. Að hans mati ætti ég að elda meira og yfirhöfuð borða meira. Kaupa inn betri matvörur og gæðameiri og kannski úr Krónunni stöku sinnum eða Hagkaup, ekki alltaf Euroshopper-Bónus-síðasti-séns. Hann er sjálfur ekki hrifinn af kartöflum. Nema, jú, kartöflustöppu borðar hann en bara ef mig langar í hana og hef búið hana til. Helst vill hann hana ósaltaða og með fiski, þá stendur hann yfir pottinum óþolinmóður og er svo frekur á fiskinn að ég þarf passa mig að líta ekki af mínum skammti, annars stelur hann af diskinum.
Mamma, sem hefur frétt af kartöflunum, segir að ég eigi að henda pokanum eins og hann leggur sig, og passa að Brynjólfur borði þær ekki. Þær séu vissulega holl og góð fæða og fullar af orku en ekki þegar svona er komið fyrir þeim. Það er ekki óhætt fyrir ykkur, segir hún. Svona kartöflur eru orðnar eitraðar. Drama. Nei, segir mamma, ég meina það, getur verið STÓRhættulegt. Vegna þess að hún heyrir að ég trúi henni ekki í símann fæ ég hlekk á grein um kaffileytið sem að varar við spíruðum og grænum kartöflum. Eins og hver önnur lífvera býst kartaflan til að verjast þegar hún sér að hún á séns. Kartafla sem vill ekki vera étin af skordýrum, grasbítum, ungri konu í kjallaraíbúð, framleiðir kemískt efni til þess að verjast. Þetta er miklu eðlilegri notkun efnavopna. Að bara sá sem bíti þurfi að þjást. Efnið, sólanín, er ekki gott að innbyrða og getur haft alvarleg áhrif á taugakerfið, valdið kvið- og höfuðverkjum, niðurgangi, útbrotum, martröðum, ofskynjunum, þrálátum kipp í auga, dauða.
Ég gleymi kartöflunum og aftur blasa þær við mér með allar hendur upp í loft þegar ég opna skápinn til þess að leita að stálull. Ég gleymi samstundis hvað ég ætlaði mér að skrúbba. Aftur líður mér eins og herskarinn fagni mér, ég er riddarinn sem er loksins kominn heim úr háskalegri svaðilför. Eftir að ég stekk af tignarlegum hesti og sveifla hárinu lítillega, svo það sé eins og það gerist alveg óvart, veifa ég til fjólublárrar hirðarinnar sem hrópar og kallar af gleði. Ef þetta væri raunin myndi ég svo auðvitað giftast fallegustu dóttur konungsins og taka við ríkinu þegar sá gamli hrykki upp af. En sem stendur eru það bara ég og Brynjólfur og klukkan að detta í fjögur. Þótt ég hafði ekki hent kartöflunum, eða plantað, og vissi að þarna sæti pokinn enn, er ég einhvern veginn undrandi. Er minnt á hvernig líf heldur áfram að þrífast og dafna þó það sé úr augsýn.
Ekki gleyma að henda kartöflunum, þarf ég að koma að hjálpa þér að þrífa? segir mamma áhyggjufull í símann. Það getur verið svo erfitt að drepa kartöflur elskan, þær halda bara áfram að vaxa. Það er víst svo að ef ein kartafla er skilin eftir í jörðinni spretta alltaf upp ný kartöflugrös. Alltaf. Aftur, eins og með aðra, virðist kartaflan bara vilja lifa af. Ég sýð hafra í potti á meðan hún segir mér sorgarsöguna. Við lentum í þessu, segir hún á innsoginu, alveg hrikalegt, með sama harmi og fórnarlamb fellibyls lýsir því að hús takist á loft, þegar við keyptum húsið. Kartöflur alls staðar! Ég hugsa strax hvað ég gæti sparað mér mánaðarlega ef kartöflur hefðu fylgt húsinu. Ég gæti alveg sleppt því að hafa parket á einu herbergi ef ég gæti alltaf bara stungið hendinni í gólfið og gripið nokkrar í pott. Það er svo erfitt að finna þær allar, útskýrir mamma, það var vandamálið. Mig langar að bæta við að það er auðvitað bara vandamál ef þú ætlar að breyta kartöflugarði í blómabeð en svara já einmitt. Einmitt. Lúmskir andskotar segir pabbi í bakgrunn. Túlípanarnir fengu engan frið.
Brynjólfur hefur ekki snert kartöflurnar þó að ég hafi skilið skáphurðina eftir opna til að fylgjast með framvindu mála. Það er einfaldara að muna með enga hurð. Og skilja. Við látum alltaf eins og myndabækur séu bara gagnlegar börnum sem kunna ekki að reima skónna sína en svo virðast svo margir þurfa að hafa eitthvað beint fyrir framan nefið á sér til að skilja og trúa því. Af hverju þarf maður á miðjum aldri að sjá mynd af látnu barni til þess að sækja samúðina? Það hlýtur að vera hægt að þjálfa samúðina eins og annað. Ég þekki mann sem hefur farið á reiðistjórnunarnámskeið og konu sem hefur farið á minnisnámskeið. Hann er orðinn passasamari og verður sjaldnar rauður í framan. Nú nær hann að stoppa roðann við barkakýlið. Þar mallar hann jú stundum en fölnar alltaf hraðar í laxableikan áður en hann hverfur. Þegar roðinn byrjar að rísa sé ég hvernig hann færir sig inn á við, það sést á augunum sem verða skyndilega stjörf. Auðvitað væri skemmtilegast að lýsa því sem svo að ég sjái hvernig rofar til á fallegum gulbleikum himni þegar ég sé hann reyna að kæfa reiðina – eða tannhjól að snúast fyrst með herkjum svo ískrar en ná sér svo á strik, eða hamstur sem hleypur hring eftir hring í litlu hjóli þar til hann loksins nær að hægja á sér og stöðva ósköpin. Það er sefandi að reyna að sjá það fyrir sér svoleiðis, eins og myndband merkt: how satisfying is this! En það er ekki eins og að horfa á málningu, rauða og bláa, að verða að fagurfjólublárri því allt gengur upp, það er ekki svoleiðis sem það ber fyrir sjónir. Þegar hann fer inn á við er eins og hann loki sig inni í herbergi. Innan úr því heyrist skarkali og við sem stöndum fyrir utan getum ekki komist að því hvað er að gerast. Hvort einhver setji saman borð, rústi einhverju, sé að elda. Við þurfum að bíða átekta og vona að hann komi út úr herberginu í heilu lagi.
Mamma sagði að hún hefði heyrt að svona menn þyrftu mikið að telja. Það væri mikilvægur þáttur í ferlinu. Telur maður kindur fyrir reiðina eins og svefninn? Ég reyni að ímynda mér að hann sjái kremhvít lömb sem hoppa glaðlega yfir grindverk en það er kannski einhver hugmynd sem ég hef frá Hollywood. Það vita allir sem hafa farið í réttir að það er ekkert róandi við það að telja kindur. Ég þekki ekki muninn á Tátu og Skutlu þannig að ég tel hvora tvisvar og 1457 er svo lítil að hún fer framhjá mér og ég veit ekki einu sinni hvað hún heitir og þó að bóndinn þekki þær allar er enginn tími til að bera undir hann hvort talan sé rétt fyrr en stórskorin kona hefur spurt mig hvort ég HAFI EKKI LÆRT AÐ TELJA ÞARNA Í BÆNUM. Þrír, tveir, einn.
Ég veit ekki hvort það sé nokkuð talað um dýr á svona námskeiðum því fólk, og þá sérstaklega karlmenn, vill sjaldan láta bera sig saman við önnur dýr. Ljón og naut og hestar virðast sleppa en það er oftar en ekki miklu nærri lagi að nota endur, meindýr og órangútana til samanburðar. Mest varðandi útlit en eitthvað hegðun. Og meðan maður með útstæð augu, sem sleikti stöðugt út um og hreyfði fingurna ört móðgaðist agalega þegar ég sagði í partýleik að hann minnti helst á salamöndru, kippa sér allt of fáir upp við foxy, tófa, tík.
Vá! segir pabbi og finnst mikið til kartöflunnar koma sem hefur nú tekið yfir allan skápinn. Þetta er eins og taugakerfi! Það er ekki svo fjarri lagi. Eins og hið flóknasta lestarkort á vefurinn að bera næringu og efnaboð þvert yfir beðið svo allt gerist tímanlega og hvert útsæði geti uppfyllt sinn draum um að verða heljarinnar kartöfluríki. Svo gildir það sama um spírurnar og vatnslagnir, þær verða bara að haldast heilar til þess að allt gangi upp. Svo að vatnið komist á leiðarenda, svo ég geti skrúfað frá krananum. Svo að hver spíra skríði í átt að ljósi. Svo gildir það sama um taugaenda okkar, svo boðið komist til skila, svo hendin kippist hratt af hellunni. Svo einn fóturinn færist fram fyrir hinn. Svo samúðin sé innbyggð en ekki bara virkjuð með gikk. Svo við getum einfaldlega skipt um vagn í Mjóddinni og heimsótt mömmu í Hólana. Svo að sól þýði grænt þýði von, komdu, já, þýði áfram.
Augun eru ennþá bleikleit. Nefrennslið og þrýstingurinn þrálátur. Áfram er skáphurðin opin. Tíminn líður í takt við angana sem skríða hægar en mín augu nema. Brynjólfur segist sjá það gerast reglulega. Hann er stundum aðeins nojaður. Hann biður mig að loka skápnum á nóttunni. Ég get ekki munað það. Hann hálfpartinn hvæsir, er illa við að angarnir fái að skríða eins og slöngur um allt eldhúsið. Ég get samt ekki munað það. Segi að kannski þurfi ég að fara á minnisnámskeið. Ein kona sem ég þekki fór á svoleiðis. Minnisnámskeiðið var ekki jafn skilvirkt og reiðistjórnunin en konan gleymdi fljótt að hún væri skráð og hætti því að mæta. Það sem rataði ekki á gulan miða við spegilinn á baðinu gerðist ekki. Hún hringdi ekki í systur sína á afmælisdaginn. Gleymdi að borga Helga. Hætti að taka nefstera, tvö púst í hvora nös tvisvar á dag, til að losna við sýkingu í kinnholum – sem hún gleymdi síðan að hún var með og hélt þá að verkurinn sem var farinn að leiða niður andlitið væri tannpína. Ég grínast mikið með þessa konu þó að ófarir hennar séu allar sannar og ég segi fólki oft frá því að hún hafi gleymt því að fara á minnisnámskeið. Það er eins og fimmaurabrandari. Kannski segi ég of oft frá því. Brynjólfur er farinn að labba út þegar ég byrja: „Ein kona sem ég þekki…“ Kannski finnst honum bara hallærislegt að ég byrji söguna svona. Hann er nefndur Brynjólfur í höfuðið á biskup og ég held það sé þess vegna sem að hann er hrifnari af því þegar ég vanda orðavalið betur. Minnið, eins og lífið, er hverfult, vildi hann eflaust frekar að ég segði.
Fyrst stóð hurðin opin út á mitt gólf yfir daginn og það truflaði Brynjólf ekki, sem vatt sér fimlega í kringum hana inn og út úr eldhúsinu. Ég gekk hinsvegar á hornið aftur og aftur, safnaði purpura og grænu á hægri mjöðmina. Þegar marið var farið að minna á eitt af haustum Kjarvals ákvað ég að taka hurðina af hjörunum. Einföld lausn. Kartöfluríkið stækkaði ört. Ég fer í stígvél, geng með skáphurðina í Sorpu. Reyni að hringja í lækni, er númer sjö í röðinni.
Það er hvorki hægt að steikja né sjóða efnið burt, mamma fullvissar mig um það. Ekki borða þær, sama hvað! segir hún ákveðin. Sama hvað og aldrei eru svona orð sem er gott að eiga en fæstir nota rétt. Nema bara er gjarnan skammt undan og þá er hægt að hlaupa með setninguna hvert á land sem er. Ég veit að ég myndi ekki hika við að borða þessar kartöflur í öðrum og allskonar aðstæðum. Á eyðieyju til dæmis, hugsa ég fyrst. Ef uppskeran brestur. Ef dýrin deyja. Ef einhver myndi mana mig og segjast ætla gefa mér tuttugu og fimm þúsund kall. Það þyrfti ekki meira til. Ég myndi alveg vera með magaverk eða fjörfisk í auganu í dag eða tvo fyrir svoleiðis upphæð. Martraðirnar þjá mig frítt svo það væri í raun bót að fá borgað fyrir slíka aukaverkun. Í gærnótt hljóp ég um í bakgarði foreldra minna að reyna að bjarga kettinum frá ágengum hópi pardussela sem að héldu greinilega að svarthvít læðan væri mörgæs. Ég vaknaði tvisvar sveitt og sofnaði samstundis aftur til selanna. Jafnvel ef ég fengi bara fimm þúsund kall fyrir hvern svona draum –
Þó að íbúðin geti ekki kallast björt er auðvitað munur fyrir kartöfluríkið að vera ekki innilokað. Gatnakerfið stækkar hægt en örugglega út fyrir barma innréttingarinnar og heldur áfram leitinni að næringu, vökva, sól. Er búið að taka eftir ljósinu og hefur sett stefnuna á gluggann undir blúndugardínunum. Brynjólfur potar stundum í fjólublátt netið eins og til að athuga hvort það sé hérna í raun en hefur annars sætt sig að mestu leyti við þessa viðbót í sambúð okkar.
Upprunalegt form pokans er horfið og erfitt er að segja til um hvar ein kartafla byrjar og önnur endar. Spírurnar eru að reyna að troða sér í hnífaparaskúffuna til vinstri og ísskápinn til hægri. Einhverjar fara upp á við en virðast þó skynja hættuna sem stafar af hitaboxinu. Muna kannski eftir því þegar ég grillaði frosnar franskar í ofninum nýverið. Brenndi óvart. Ein kartaflan stendur hærra en hinar. Í einhverjum vaxtarkippnum hefur hún hafist á loft. Fyrst held ég auðvitað að svona reyni plantan að færa mér, frelsara sínum, gjöf eða fórn fyrir alla þá alúð og miskunn sem ég hef veitt þeim hér í eldhúsinu. Fyrir að „leyfa“ þeim að lifa.
Vefsíða um heilbrigðan lífsstíl segir að mér „beri að henda þeim kartöflum sem byrjaðar eru að spíra og það sama gildir um þær sem eru orðnar grænar að innan.“ Það er erfitt að taka því alvarlega þegar einhver segir að manni „beri“ að gera eitt eða annað. Hvað þá þegar það, og greinin öll, er skrifuð í Pacifico eða Satisfy með fundinni netmynd af skærlituðu grænmeti sem liggur uppstillt undir titlinum Grænn og vænn nóvember: 10 góð ráð! Af öllum mánuðum skil ég heldur ekki að skrifa um grænmeti í nóvember. Allavega ekki hér. Allavega ekki eins og veðrar hér núna. Kannski verður einn daginn hægt að keppa um titilinn Stærsta grasker Vesturlands og Kúrbítsmeistari Sauðárkróks þar sem þarf að vigta hvern kúrbít vandlega og örfá grömm skera úr um sigurvegarann. En það gerist ekki strax, þetta verður eftir-jökla Ísland. Greinin er augljóslega skrifuð upp úr amerísku. Bæði er setningagerðin undarleg á tveimur stöðum og svo er hitt að fæst grænmetið sem að höfundurinn nefnir vex hérna megin hafsins. Ekki svona að staðaldri. Ekki svo það geti heitið árstíðabundið með sanni. Sem greinin segir að sé mikilvægt að taka inn í myndina hvað varðar heilbrigt mataræði. Mjög mikilvægt. Næringarfræðingur með bros yfirfullt af tönnum brosir til mín af skjánum. Ólíkt málverki Kristínar er engin regla á flötum lita á þessari mynd, allt of mikið hvítt og glansandi. Ég les textann upphátt fyrir Brynjólf því mér finnst svo fyndið að ímynda mér einhvern burðast með grasker í snjóstormi og lýsi því fyrir honum, svart, gult, másandi, appelsínugult og endurskin, hversu fáránlegt það væri. Snjóstormsmarinerað yrði það eflaust enn betra á bragðið, heilbrigt, mikilvægt, guðdómlegt.
Greinin minnir á að henda gömlum spíruðum kartöflum en minnist hvergi á að borða þær. Stingur ekki einu sinni upp á heilsuuppskrift. Minnist ekkert á hvar og hvernig sé best að rækta þær og hvernig maður geti stuðlað að „frábærri uppskeru!“ Veit höfundurinn ekki að þetta er staðurinn þar sem kartöflur vaxa undir snjósköflum? Að þær séu frostelskandi grænmeti, þunn húðin þolir illa ljós. Einhvers staðar las ég að fyrsta kartaflan hefði komið upp á Bessastöðum 1758 og fyrstu smælkin á Íslandi tekin upp í október 1759. Ef einhver á skilið Fálkaorðuna er það jarðeplið, segir pabbi sem er hæstánægður með tilraunastarfsemi mína í eldhúsinu. Þvílíkir álar! segir hann. Sem ég vissi ekki að væri orð sérstaklega um spírur kartafla. Mamma er hikandi, spyr hvort það sé allt í lagi hjá okkur Brynjólfi þegar þau koma í kaffi og ég verð að fara með hraðsuðuketilinn inn á bað því að vaskurinn er fullur af álum. Þú verður nú að geta notað eldhúsið elskan, við pabbi þinn getum alveg hjálpað þér. Eða fengið Mugga frænda til þess að koma og taka þetta. Ég svara æstari en ég ætla mér, vil ekki heyra minnst á að hringja í Mugga, hann er karlremba og hómófób. Meindýraeyðir í ofanálag. Þetta er lífríki! segi ég og skelli kaffibollum óþarflega harkalega á borðið. Er með ljótan hósta. Býð ekki upp á sykur. Er enn ekki búin að ná mér síðan ég sá fyrst dauða mús í gildru. Í barnslegri einlægni hafði ég ekki áttað mig á grimmd músagildrunnar. Ekki áttað mig á því að boginn leggst á og kremur höfuðkúpuna. Eins og kartöflur Sunnu. Andlitið hverfur.
Ég ákveð að bjóða mömmu og pabba ekki í kaffi á næstunni. Pabbi sendir mér skilaboð í leyni um hvernig gangi með ríkidæmið. Mamma spyr hvort ég sé ekki búin að fá sýklalyf, sendir mér hlekki á geðheilsurækt, sæt kattamyndbönd, Quick and Easy Cleaning Tips.
Við Brynjólfur lesum okkur til um grænmetisrækt. Allt of margar greinar eru um heilsu en ekki ræktun. Allt of mörg þeirra eru gagnrýnin á kartöfluna. Fjandans kolvetnishatur, svarar pabbi þegar ég segi honum frá lesefninu. Fjandans kolefnisást. Ég er hættur að borða grænmeti sem hefur farið í flugvél. Við finnum einhver ráð um ræktun á vefsíðum byggingarvöruverslana en þær eru auðvitað að selja besta áburðinn og breiðvirkasta eitrið meðfram upplýsingunum. Við finnum engin ráð um ræktun innandyra. Meira ruglið, segir pabbi lágt sem veit að mamma byrjar að hlusta ef hún heyrir okkur tala um konungsríkið. Ég skal renna við með garðyrkjubók annað kvöld. Ég halla mér upp að eina veggnum sem er ekki orðinn grænn og fjólublár. Ég ætlaði hvort eð er alltaf að mála veggina eða flísaleggja skræpótt. Álarnir hafa sparað mér þvílíkar summur.
Mest er um uppskriftir og vænisýki á netinu. Við erum ekki viss hvort fólkið sem fari eftir þessu sé mest trúgjarnt eða eigi bara nóg af peningum til þess að vera alltaf að kaupa ferskara grænmeti en við höfum aðgang að. Fólk hlýtur að vera að leita sér alls konar ráða fyrst þessir textar halda áfram að dúkka upp. Aftur vitum við ekki hvort það sé eftirspurnin sem drífur höfunda á borð við RoyLiveKindly eða kant-auglýsingar og klikk sem við skiljum ekki hvernig virka. Ég tek skjáskot til að gera grín að seinna, af grein um notagildi tómata í krabbameinsmeðferð og bloggi um tárlausa lauka sem eru sérstaklega góðir ef þú ert að elda á stefnumóti og vilt ekki gera þig að fífli. Steinari í eldhúsinu finnst greinilega að það séu bara fífl sem gráti. Ég byrja hneykslaða einræðu. Brynjólfi finnst ég eitthvað æst, missir áhugann og fer fram í stofu.
Ég er boðin í mat til mömmu og pabba en ég er búin að hitta þau minna upp á síðkastið. Mamma reyndi meira að segja að kíkja við með Mugga frænda og laug því að hann langaði bara að hitta Brynjólf, það væri svo langt síðan síðast. Brynjólfur er ekki heima, laug ég til baka, og svo er ég með ógeðslega gubbupest. Gvuð ekki borðaðirðu kartöflurnar! segir mamma áhyggjufull. Nei, svara ég, það er bara eitthvað að ganga. Sem gæti svo sem verið satt en ég veit það ekki fyrir víst því ég hitti engan lengur. Á leiðinni út man ég að ég var ekki búin að þiggja fórn kartöfluríkisins en síðan ég tók eftir henni hef ég verið öll upp með mér. Ha, handa mér? Algjör óþarfi. Það er langt síðan ég hef fengið gjöf, hvað þá svona hugulsama, dramatíska. Til þín, hér er hluti af mér.
Spírurnar eru komnar niður á gólf og hreyfa sig meðfram veggjunum. Ég fer í ullarsokka til að skemma ekkert, stíg varlega til jarðar, vil ekki rjúfa nein tengsl. Ég krýp við hjarta ríkisins, skápinn undir ofninum, rétti báðar hendur fram og ætla að fara að slíta kartöfluna varlega úr netinu. Þegar hún haggast ekki staldra ég við. Þegar hún losnar ekki af í lófa mér fæ ég sting í magann. Finn skömm. Mannhverfan í mér, hugsa ég. Sé að úr stóru auga í miðju kartöflunnar vex falleg þrískipt frjónál. Þetta er ekki fórn. Þetta hlýtur að vera hún, svífandi, kartöfludrottningin.
Ég gleymi að fara í kvöldmat. Pabbi dinglar uppúr tíu með kúffullan disk, þéttvafinn í plastfilmu. Þú mátt ekki gleyma að borða segir hann. Og hringdu og láttu okkur vita næst, við höfðum áhyggjur. Ég segi takk og fyrirgefðu. Spyr hvort að pabbi vilji koma að líta á kartöfluríkið. Ég kem inn næst, segir hann, mamma þín er að bíða út í bíl. Hún vildi koma til öryggis. Ég spyr hvað hann meinar. Æ bara vera með ef þú skyldir vera– ef þig vantaði hjálp. Horfir beint í augun á mér, á bleiku fletina. Hann faðmar mig og kastar kveðju á Brynjólf sem að horfir á sjónvarpið í fartölvunni. Komdu nú við um helgina, ókei? Ég lofa því, ekki alveg heilshugar. Brynjólfur má líka alveg vera hjá okkur ef hann vill bætir pabbi við. Mamma heldur eflaust að ég haldi honum föngum hér líka. Ég sest í stofuna og tek af disknum, það er nú alltaf huggulegt að fá heimagerðan mat. Brynjólfur stendur upp frá skjánum og vill að ég deili með honum. Hann krefst þess, fyrst að ég eldi aldrei neitt lengur. Ég þarf að vefja tvo hringi af til að sjá í matinn. Fiskur í raspi, laukur og kartöflur, skornar í báta, bakaðar. Ég og Brynjólfur deilum fisknum. Ég tek laukinn, hann má alls ekki borða lauk. Ég get ekki hugsað mér að borða kartöflurnar. Fæ illt í magann við að sjá þær skornar í fjóra eða sex. Brynjólfur grípur þrjá báta og restin fer í ruslið.
Kóróna drottningarinnar stækkar, frjónálin er enn þrískipt og nú komin með minni nálar á hvern anga. Ég er hætt að matreiða, kaupi allt tilbúið og borða það kalt ef ég næ ekki að halda því heitu alla leið heim úr búðinni. Brynjólfur kallar mig ónytjung. Klikkaða. Ég segi honum að hann þurfi ekkert að vera hérna. Við rífumst oftar. Föðmumst minna. Mamma hringir og spyr um hann, ekki mig, ekki eldhúsið. Hún hefur gefið Mugga númerið mitt og hann reynir að hringja nokkur kvöld í röð. Ég svara ekki. Set litla hauskúpu við nafnið hans í símaskránni í meinfýsniskasti.
Nóvember er búinn og desember næstum búinn og eldhúsið er hjúpað rótum. Ég ligg á gólfinu sem ræturnar hafa gert að mjúku yfirborði. Eins og að liggja í mosa, eða botni skógar. Ég mæti ekki í jólaboð, ég býð engum í heimsókn. Fallegi fjólublái liturinn og sá skæri græni sjást núna bara á nýjustu sprotunum, restin orðin daufbrún. Ræturnar eru þykkar, næstum plastkenndar og hringast um hver aðra stefnulaust. Blúndugardínan sem var alltaf svo ömmuleg er núna eins og flókin hönnun, útpældur art deco bogi. Hver rót fer inn í eitt gat og út um annað og vefur sig inn í hvíta bómullina. Þær eru sterklegar við gluggann. Fá þar bæði raka og ljós. Eru farnar að teygja sig að þvalri rúðunni. Kartöfluríkið skreytir sig. Ég set ekki upp jólaljósin. Ég er of upptekin við að fylgjast með lífinu finna sér farveg. Brynjólfur kemur inn. Hann er greinilega tilbúinn til að sættast. Leggst á bringuna á mér og þar sem ég strýk mjúku gráu hárinu byrjar hann að mala. Við öndum í takt við allt eldhúsið. Ég greini ekki á milli braksins í hreyfingum álanna og úr maga kattarins. Ég veit að hann telur sig húsbóndann, að ég sé þjóninn og ég svara já herra, þar sem ég veit aftur upp á mig sökina að vera ekki frelsarinn heldur fangarinn. Íbúðin angar af jörð. Litlar agnir dansa í þeim smáu geislum sem brjóta sér leið inn um blúnduna. Ég verð hluti af þessu utanáliggjandi taugakerfi kartöfluríkisins. Vefnaður er eðlilegra form en línan. Einhvers staðar undir rótunum heyri ég enn rödd uppljóstra leyndarmáli Sunnu, síminn spilar guðdómlegt aftur og aftur. Brynjólfur verður partur af mér eins og lítil kartafla sem vex út frá kartöflumóður í beði. Hér erum við frostelskandi, vöxum vonandi líka vel undir snjó.