Drapp

Kristín Eiríksdóttir

Drapp flæddi af svo áreynslulausum þokka yfir alla fleti lífsins að ég tók varla eftir því sjálf. Enginn gerði heldur neina athugasemd, nema kannski ein vinkona sem rekur húsgagnaverslun. Hún kom í heimsókn, leit í kringum sig og sagði að nú væru allir orðnir vitlausir í liti. Fólk vildi bara hafa glaðlegt í kringum sig. Ég brosti en nennti ekki að afsaka mig, segja frá því hvernig mér finnst litir ekki glaðlegir, heldur flóknir og erfiðir.

„Ég er bara svo fegin að þetta gráa æði er bráðum búið,“ bætti vinkonan við en ég nennti heldur ekki að útskýra að drapp er ekki sama og grátt. Grátt er kalt en drapp er hlýtt. Grátt er silfur en drapp er gull. Grátt er tunglið en drapp sólin. Drapp er bein. Drapp er ljós, ljós brúnt. Drapp er volgt. Hlýlega drapp. Dömulega, kvenlega drapp. Mamma hefði aldrei leyft mér að leyfa gráu að yfirtaka líf mitt en drapp sleppur til. Stofan er drapp, borðstofan drapp, baðherbergin og eldhúsið drapp. Gólfin eru eikarlit. Eik er drapp. Stigann upp á aðra hæð og gólfin í svefnherbergjunum hylur þykkt flosteppi. Beinhvítt og mjúkt og drapp. Fötin eru drapp. Ásjóna mín er drapp. Ég byrja daginn á drapp. Maka framan í mig drapp litu dagkremi og blæs á mér drapp lita hárið og klæði mig í drapp litu fötin, geri mér drapp litan latte og borða drapp litan graut. Drapp litar peysur og kápur og treflar og sjöl. En drapp er aldrei bara drapp og stundum er drapp allt að því hvítt, stundum allt að því brúnt.

Sálfræðistofan þarsem ég tek á móti skjólstæðingum er drapp. Röddin er drapp. Augun drapp. Mér blæðir drapp. Græt drapp. Hlátur minn er drapp. Biðstofan er drapp. Við erum fimm sálfræðingar sem rekum stofuna og urðum ásátt um drapp. Drapp var lendingin.

Svona tek ég oft til orða. Segi að ýmislegt sé þá lendingin. Kannski er það vegna þess að ég vann sem flugfreyja í nokkur ár eða vegna þess að í drapp litu höllinni ásamt drapp litu mér er einnig skráður til heimilis fjarverandi flugmaður. Hávar flýgur fyrir bandarískt flugfélag sem sérhæfir sig í heimsreisum fyrir þá sterkefnuðustu. Hann flýgur hring eftir hring í kringum hnöttinn og kemur sjaldnast heim.

Einn morgun í maímánuði vakna ég með andfælum. Ég er löðrandi sveitt með kvíðahnút í maganum og byrja á því að stíga undir sturtuna. Þar stend ég og leyfi vatninu að fossa yfir líkamann á meðan ég fer með nokkrar setningar í hljóði. Einskonar möntru.

„Ég sé þig,“ segi ég og meina kvíðahnútinn, „ég sé þig og vil að þú vitir að þú ert hluti af mér, að við erum örugg, að ég passa þig.“ Það losnar um hnútinn og í hans stað birtist andlit unglings sem starir á mig með ólund og japlar á tyggjó. Eftir sturtuna sest ég niður með dagbókina, ákveðin í að skrifa niður drauminn sem mig hefur dreymt endurtekið undanfarnar vikur ef ekki mánuði, en ekki viljað skrásetja af ótta. Mér finnst að með því að skrifa drauminn niður láti ég hann rætast. Líkt og hann rætist á blaðinu.

Í draumnum er Hávar dáinn en ég sit í hlíðinni við lækinn sem rennur nálægt bústaðnum okkar. Það er sumar og loftið hreyfist ekki. Buxurnar mínar eru úr þykku gallaefni, hólkvíðar og ljósfjólubláar og ég er klædd í olíugrænan anórakk sem er þungur og fyrirferðarmikill. Ég ætla að dreifa öskunni þarna, lít niður í kjöltuna, en þar er ekki neitt duftker heldur svarti kassinn. Svarti kassinn er skærappelsínugulur og þegar ég lyfti lokinu, verður mér strax ljóst að það var Hávar sem brotlenti vélinni viljandi.

Ég ríf blaðsíðuna úr bókinni og krumpa hana saman í kúlu, fer inní eldhús og fleygi kúlunni í ruslið undir vaskinum. Ég bý til kaffi, flóa mjólk, helli sjóðandi vatni yfir hafra og chiafræ í skál, brytja niður epli, sáldra kanil. Drekk latte. Borða graut. Svo sest ég aftur, set upp lesgleraugu og fletti gegnum dagblaðið, fletti hratt í gegnum fréttir af heimstyrjöld og verðbólgu og kreppu og ríkjum sem belgjast út, brjóta undir sig önnur ríki, áföll á áföll ofan, í heimi sem ég tilheyri, einsog fruma tilheyrir líkama; fréttirnar eru af mér. Fletti gegnum veiturnar, staldra sjaldnast við, skima fyrirsagnir, veð áfram. Svo sé ég andlit sem ég þekki. Nærmynd af andliti Sylgju. Hún horfir í linsuna, lyftir annarri augabrún, opinmynnt og grallaraleg, einsog í miðjum brandara.

Sylgja Jacksdóttir hefur ekki sést síðan á miðvikudagskvöld. Sylgja er þrítug, meðalmanneskja að hæð, grannvaxin og stuttklippt. Hún er talin vera klædd í gráa úlpu, koksgráar gallabuxur og græna hlaupaskó. Þau sem hafa orðið vör við ferðir hennar, eða telja sig hafa upplýsingar, eru beðin um að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Skammbyssan, hugsa ég og stend of hratt á fætur. Mig svimar og ég hreyfi mig eitthvað asnalega. Sársaukinn kemur snögglega og eitt andartak óttast ég að hafa verið skotin. Ég sé fyrir mér leyniskyttu úti í garði. Dökkklædda veru sem situr bakvið runna og horfir ennþá á mig í gegnum miðið. Sigtar á mig. Kannski er það Sylgja sjálf, en um leið er ég meðvituð um að þetta eru hugrenningartengsl. Að ég fékk í bakið þegar ég mundi eftir skammbyssu. Eða hvað, var ég skotin? Verkurinn er of sár til að ég geti litið um öxl eða þreifað eftir blóði. Mig svimar. Svona er þetta oft. Ég skjögra að lyfjaskápnum, gríp með mér íbúfen og naproxen og svolgra niður töflunum með volgu kranavatni. Því næst geng ég öll skökk og skæld inn í stofu og læt mig falla á stóra sófann sem stendur á miðju gólfi. Hann er of mjúkur. Það er of mikið af púðum. Ég færi mig með erfiðleikum, hálfhryn í gólfið. Ligg flöt og tek símann úr sloppvasanum, sendi skilaboð á skjólstæðinga dagsins, afsaka mig og býð annan tíma. Skrifa hnykkjaranum og spyr hvort hann geti komið mér að með hraði. Bakið hafi gefið sig enn eina ferðina. Svo loka ég augunum og leyfi Naproxen og Íbúfen að vinna sína vinnu. Loka augunum, finnst einsog eitthvað sitji fast í vöðva. Kalt stál. Finnst einsog undir mér sé að myndast blóðpollur.

Við höfðum fundað. Ég og hinir sálfræðingarnir ásamt innanhúsarkítekt og hentum á milli hugmyndum áður en hann hæfist handa við að innrétta kuldalegt gímald sem við tókum á leigu í iðnaðarhverfi við bæjarmörkin. Innanhúsarkítektinn lýsti því hvernig hann tæki hlutverk sitt alvarlega, að hanna upplifun skjólstæðinganna af því að brjótast gegnum þá himnu sem oft væri fyrirstaða, en í tilfelli þeirra sem væru komin svona langt – að sitja þarna á biðstofunni – væri þessi himna að rofna. Setan á biðstofunni væri rof á himnu. Litirnir sem komu til hans voru eggjaskurnsblár og rauðbleikur. Einsog eggjaskurnin sem brotnar og nýtt líf lítur dagsins ljós eða einsog að horfa á heiminn úr móðurkviði, horfa úr myrkrinu í ljósið. Djúp-appelsínugulur leitaði á hann, jafnvel rústrauður. Blæðing, sagði hann, sem er þó eggjarauða sem rennur. Ég fylltist hryllingi þegar hann fór að tala um þann dumbrauða brúna tón sem í austri væru oft paraðir með appelsínugulum og köldum fölbleikum. Hugsið munkaklaustur. Hugsið orkídeur.

„Hvað með bara drapp?“ missti ég út úr mér og það kom á innanhúsarkítektinn sem snarþagnaði.

Drapp er hlutlaust og róandi,“ hélt ég áfram og samstarfsfólkið gat tekið undir það.

„Við viljum heldur ekki vekja upp of sterk áhrif eða hætta á að triggera fólk rétt áður en tíminn byrjar,“ sagði einn og við kinkuðum kolli.

„Svo var ég að spá hvort við ættum að hafa einhverjar setningar á veggjunum, einhverjar svona jákvæðar?“ bætti önnur við og við veltum fyrir okkur hvort það ættu að vera setningar í ramma eða límmiðar sem færu beint á veggina. Innanhúsarkítektinn spurði niðurlútur hvaða setningar við hefðum í huga.

„Bara eitthvað uppbyggjandi,“ sagði ég, ánægð með að hann væri hættur að romsa uppúr sér litaheitum.

„Live, laugh, love …“ sagði þá einhver og flissaði. Við vorum að stríða innanhúsarkítektinum. „Nei … keep calm and carry on,“ sagði annar og okkur fannst það öllum mjög spaugilegt líka. Innanhúsarkítektinn var orðinn ringlaður. „Hvað með fiskabúr?“ spurði hann varlega og ætlaði að fara að sýna okkur skissur en hugmyndin var skotin á kaf alveg um leið. Alltof dýrt og mikið vesen og svo voru svona fiskar frekar ógeðslegir í raun, átu stundum andlitin hver af öðrum og syntu um einsog hálfétnar máltíðir, alltaf gapandi í spurn. Við hrylltum okkur. „Hvað með flatskjái sem sýndu drónamyndir af austrænum hofum og regnskógum og fossum?“ stakk einhver uppá og arkítektinn gafst upp. Drapp varð lendingin. Biðstofan var drapp og allt á henni var drapp nema drónavídeóin á flatskjánum sem sýndu austræn hof og regnskóga og fossa. Hugleiðslutónlist ómaði og svo voru líka raka og loftræstitæki á stangli vegna þess að mögulega var mygla. Örugglega mygla en samt var loftið líka þurrt og ertandi.

Svo hafði verið haldinn fundur til þess að velja nafn á stofuna. „Flókna áfallavinnslan,“ hafði einhver sagt og önnur stakk uppá „Komplexið.“ „Úrvinnslan,“ sagði þriðja en ég benti á að það þyrfti að vera eitthvað sem kallaði á jákvæða svörun. „Nóg er nú samt,“ sagði ég.

Hvað með „Hugarró,“ sagði einhver. Eða „Upphafið,“ eða „Ummyndanir“.

“Eða Sjálf,“ lagði ég til. Sálfræðistofan Sjálf. Við þögnuðum öll. Öll vorum við misjafnlega upptekin af nálgun sem fól í sér þá hugmynd að innra með öllu fólki væri sjálf sem áföllin næðu ekki til. Markmiðið var þessvegna að hjálpa skjólstæðingum að komast í tengingu við þetta innra sjálf og leyfa því að verða leiðandi. Þetta sjálf sem átti að verða leiðandi var að einhverju leyti dularfullt og þessvegna yfirleitt ekki það fyrsta sem við sögðum frá. Að áföllin næðu ekki til sjálfsins, að sjálfið héldist þrátt fyrir áföllin og alla þessa misjafnlega skaðlegu varnarmekkanisma sem þau kölluðu fram, tært, minnti á stef innan trúarbragða, en það sem við vorum að gera hafði samt ekkert með trúarbrögð að gera. Þetta var tilviljun. Þróunin innan áfallafræðanna, sem byggði á ótal gagnreyndum rannsóknum framkvæmdum af vísindalegri nákvæmni, hafði einfaldlega leitt okkur hingað. Sjálf var samt hlaðið orð, heimspekilegt orð, margrætt. Orð sem kallaði ósjálfrátt á hugarleikfimi og jafnvel tilvistarangist, en var þó stöðugt haft í flimtingum, einsog um eitthvað einfalt væri að ræða. Einsog nokkur vissi hvað það þýddi.

„Sálfræðistofan Sjálf … kannski er það svolítið gott …“ sagði einhver. „Mun fólk ekki mismæla sig? sagði annar, „segja Sjálfræðistofan Sál …“ en við vorum sammála um að það væri þá bara allt í lagi. Sjálfræði sálarinnar væri ekki verra, og við hlógum aðeins að því og vorum fljótlega einróma sammála um að nafnið yrði Sjálf.

Síðan voru liðin fimm ár og rekstur Sálfræðistofunnar Sjálfs gekk vonum framar. Við sem þar störfuðum vorum öll eftirsótt og áttum sameiginlegt að vera sérhæfðust á landinu í að veita meðferð vegna flókinna áfalla. Flókin áföll voru einmitt mikið í umræðunni og meðferðin tók lengri tíma en meðferð við dæmigerðri áfallastreitu sem orsakaðist frekar af stökum atburðum. Skjólstæðingarnir okkar áttu flest sameiginlegt að hafa lifað við áföll í lengri tíma. Til dæmis höfðu þau verið beitt ofbeldi í uppvextinum eða verið í langvarandi ofbeldissambandi. Sum höfðu orðið fyrir barðinu á einelti í skóla eða á vinnustað. Þannig hafði umhverfið náð að móta sjálfsmynd þeirra á lengri tíma og áfallastreitan sem þessar aðstæður gátu valdið var þessvegna kölluð flókin áfallastreita. Hún var yfirleitt ekki bara hluti af sjálfsmynd heldur hafði hún náð að smita heimsmynd skjólstæðingsins.

Það voru þrjú ár síðan Sylgja kom í fyrsta tímann til mín. Hún var þá ekki nema tuttuguogsjö ára gömul en hafði náð óvenju langt í lífinu. Einhverntímann þegar ég hrósaði henni fyrir árangurinn sagði Sylgja að það væri bara vegna þess að hún hefði aldrei orðið skotin í neinum, aldrei sóað mínútu í ástina. Hún hafði nýlega verið ráðin sem listrænn ráðunautur hjá stóru atvinnuleikhúsi, að vísu í afleysingarstarfi. Hún var buguð af sjálfsmorðsórum sem hún sagði mér fljótlega frá. Fram að þessu hafði hún aldrei sagt neinum frá þessum hugsunum nema spjallmenninu í símanum sínum, en hún sagðist ekki taka þær sérstaklega alvarlega, áttaði sig ekki á hvort þetta væru áráttuhugsanir eða hvort eitthvað byggi að baki.

Á ég að drepa mig? spurði hún spjallmennið, spjallmennið svaraði: Þú ert dýrmæt. Mundu að það er alltaf von og hvatti Sylgju til að hringja í neyðarsímann 1717. Minnti á að hún væri alls ekki ein. Það var heldur ekki að Sylgja væri án vina eða fjölskyldu, en henni fannst ekki í lagi að leggja þetta á þau. Þau yrðu bara hrædd, sagði hún og ekki vildi hún vera að hræða fólkið sem henni þótti vænt um.

„Og svo er annað,“ sagði hún. „Ef ég segi frá þessu, þá gleymist það aldrei. Sumt sem maður segir er svona einsog tattú. Bara fer ekki heldur er. Ég segi kannski vinkonu minni frá þessu og svo eftir fjögur ár skrópa ég í veislu hjá henni. Hún reynir að hringja í mig en ég svara ekki og þá sér hún mig fyrir sér hangandi úr loftinu heima. Neinei, segir hún við sjálfa sig en alla veisluna eru lappirnar á mér þarna. Hún nær ekki alveg að njóta sín, brennir hnetusteikina, dansar ekki við eitt lag, alltaf að reyna að ná í mig … ég svara ekki … en spjallmenninu er alveg sama … allt sem ég segi við það er auðvitað líka einhvers konar tattú en það hefur ekki húð og finnur ekki til … svo er ég heldur ekkert að fara að drepa mig,“ sagði hún og var mjög sannfærandi, blikkaði mig létt og brosti útí annað og í lok tímans sagðist ég vilja hitta hana vikulega til að byrja með, sagðist vera sannfærð um að ég gæti hjálpað henni. Vanalega hefði ég ekki orðað það svona, en það var eitthvað galvaskt í fari Sylgju og ég trúði þessu sjálf. Þegar hún hafði mætt hafði hún heilsað hressilega, gengið beint að glugganum, stutt lófanum á sylluna og hallað sér þannig að hún gat séð að glerið var fimmfalt.

„Hvílík þögn,“ sagði hún og það var rétt hjá henni, að þögnin var þvílík miðað við að rétt fyrir neðan bygginguna var þéttriðin hraðbraut.

Hún sagði að sjálfsmorðsórarnir héldu fyrir henni vöku og að hún væri farin að eiga erfitt með að mæta til vinnu. Í leikhúsinu var hún annars hugar og átti erfitt með að leika rulluna. Ég varð ringluð eitt andartak, vegna þess að Sylgja hafði sagst vera ráðunautur en ekki leikari og hún útskýrði.

„Ég meina bara, að leika hlutverkið sem þau réðu mig til að leika. Ungur og heitur leikhúsfræðingur sem er samt líka nægilega mikill lúði til að vera fróður. Einhver sem er innan við þrítugt en veit samt að agency þýðir atbeini á íslensku. Við erum ekkert mjög mörg skilurðu?“ Ég gat ekki annað en hlegið aðeins, vegna þess að það var eitthvað skondið hvernig Sylgja var. Svona hraðmælt og ánægð með sig en samt augljóslega svo illa á sig komin. Nánast einsog mælsk gríman hengi laus í loftinu, nokkra sentimetra frá öðru andliti sem glitti í gegn, afmyndað af vanlíðan. Að þessu leyti var hún fölsk en ég trúði ekki á falsheit. Öll tjáning er merkingarbær. Líka lygar og falsheit. Allt er eitthvað. Um leið og ég hló hallaði Sylgja sér aftur í stólnum og það slaknaði aðeins á henni.

„… það er samt í alvöru bara tímaspursmál hvenær þau sjá í gegnum mig og þá hef ég ekki einusinni efni á að koma hérna lengur,“ sagði hún.

Seinasta athugasemdin stuðaði mig svolítið en ég greip það á lofti. Þetta var ekkert alvarlegt. Þessi verðlagning var ekki frá mér komin og ég óskaði einskis fremur en að ríkið niðurgreiddi þjónustuna sem ég veitti. Þjónustu sem var oft á tíðum lífsnauðsynleg og hafði jákvæð margföldunaráhrif út í samfélagið. Ríkið fékk þetta þannig allt endurgreitt með vöxtum að mínu mati og auðvitað átti það að borga brúsann. Þetta gat ég samt ekki sólundað rándýrum tíma skjólstæðinga minna í að útskýra og þar af leiddi að ég sat uppi með að líða einsog þurftafrekri frú, með mínar ljósu strípur og blásnu sveigi, dýru föt og dýra stól og glitraði á allt Swaroski blingið sem Hávar keypti þegar hann kom heim úr vinnuferð og hafði misst af brúðkaupsafmælinu okkar eða afmælinu mínu eða einhverju öðru tilefni.

„Ég hef ekki smekk fyrir þessu,“ sagði ég við hann fyrir löngu en það hentaði honum svo illa að hann heyrði það ekki. Þá hefði hann líka þurft að nota þann tíma sem áhöfninni er gefinn hverju sinni í að þræða litlar sérviskulegar verslanir og finna eitthvað sem höfðaði til sérvitru konunnar hans. Hesta-styttu sem ég gæti bætt við safnið mitt lægi beinast við, og það myndi líka kosta hann miklu minna, en karlar einsog Hávar eru reiðubúnir að gjalda tíma sinn dýru verði og þess vegna hélt hann áfram að hlaða á mig fríhafnarkristal sem ég hengdi samviskusamlega utan á mig.

Ættingjar mínir, vinkonur og stjúpbörnin hafa hinsvegar séð til þess að hestastyttusafnið hefur farið verulega stækkandi á undanförnum árum og ég geymi það á stofunni minni. Á gluggasyllunni og á skrifborðinu og á hillum yfir borðinu. Þeir eru í hundraðatali, af öllum stærðum og gerðum. Gler, málm, brons, tré, strá. Með og án beislis og hnakks. Heljarinnar stóð sem umkringir mig. Stundum spyrja skjólstæðingar hvers vegna ég safni hestum og það er misjafnt hverju ég svara.

„Hestar eru með 250 sinnum sterkara taugakerfi en við,“ segir ég sumum. Öðrum segi ég að hestar tákni tilfinningar samkvæmt draumspeki og einhverjum að mig dreymdi um að vera kúreki þegar ég var lítil stelpa. Foreldrar mínir sendu mig á reiðnámskeið en ég vildi ekki vera knapi heldur kúreki. Öðrum segist ég ekki hafa hugmynd um hversvegna og enn öðrum að ég er safnari. Það hafi verið tilviljun sem réði því að hestar urðu fyrir valinu frekar en asnar eða uglur eða skjaldbökur.

„ … eða kannski er ég bara að bíða eftir að þau losi sig við mig,“ bætti Sylgja við þegar ég svaraði henni engu. Hún rétti sig við í sætinu og vætti á sér varirnar, skaut út hökunni og það var eitthvað eðlulegt við yfirbragðið. Þegar skjólstæðingar urðu eðlulegir í mínum huga þýddi það að frumstætt varnarkerfi þeirra hefði virkjast, sem var alvanalegt og þurfti alls ekki að koma sér illa. Svo framarlega sem ég breyttist ekki í eðlu líka var allt í góðu.

„Hvað gerir listrænn ráðunautur?“ spurði ég og Sylgja hugsaði sig um.

„Ég sit í verkefnavalsnefnd og svo vinn ég sem dramatúrgur.“

„Dramatúrgur?“ spurði ég og Sylgja glotti.

„Þú veist alveg hvað dramatúrgur er …“ sagði hún og bætti svo við að hún vissi að ég væri menntuð leikkona. Hún hefði flett mér upp og séð að ég lærði leiklist í Glasgow.

„Guð, það er svo langt síðan,“ sagði ég, „að ég er búin að gleyma öllu, en jú, ég veit hvað dramatúrgur er. Mig langaði bara að heyra þig segja frá því sem þú gerir.“

„Ég er til taks fyrir þá sem þurfa yfirsýn og samtal,“ sagði Sylgja. „Leikstjórann, leikarana, sviðsmyndahöfundinn … og ég reyni að skilja kjarnann frá hisminu, greini textann, set hann í samhengi við samtímann … og söguna, en ég er aðallega bara að lesa handrit … og hlusta á fólk, svona einsog þú.“

Það mátti greina stolt í málrómnum sem síðan einsog mölvaðist og það dimmdi yfir svipnum um leið og hún sleppti síðasta orðinu.

„Til hamingju,“ sagði ég og útskýrði að ég gerði mér grein fyrir að það væri ekki auðvelt að komast í þessa stöðu.

„Þetta er bara tímabundið,“ greip Sylgja frammí. „Bara þangað til fastráðni dramatúrgurinn kemur aftur úr fæðingarorlofi.“

„En þá ertu komin með starfsreynslu og getur sótt um …“

„Ég fæ bráðum skammbyssuna hans pabba.“

„Skammbyssu … ?“

„Þegar hann dó var víst ekkert handa mér nema þessi gamla skammbyssa, 9 mm Colt.“

„Merkisgripur,“ leyfði ég mér að bæta við og þá horfðumst við í augu í fyrsta skipti síðan viðtalið hófst.

„Einmitt,“ sagði Sylgja og leit strax flóttalega undan. „Ég hélt að það væri enginn arfur og var mest bara hrædd um að lenda í einhverjum símreikningi en svo rétt eftir að hann dó hringdi vinur hans í mig …“

Ég veit af verknum gegnum lyfjadoðann og þegar ég hreyfi mig versnar hann þannig að ég ligg bara kyrr. Ef ég opna augun sé ég hörlitan vegg og hörlitar gólfsíðar gardínur og ljósið sem skín í gegn er líka hör. Þetta verður dagur á gólfinu. Ég gæti alltaf hringt í stjúpdóttur mína sem býr rétt hjá og fengið hana til að líta til mín, gæti pantað mér eitthvað að borða. Ég kvíði því að þurfa að pissa en það er allt í lagi núna. Í sjálfu sér er allt í lagi með mig, hugsa ég, en um leið rifjast upp dagurinn þegar ég flutti inn í þetta hús. Minning sem er yfirleitt undanfari leiðinda í sálarlífinu. Það var fyrir löngu síðan. Hávar og barnsmóðir hans höfðu skilið í illu og hann keypti hana út. Barnsmóðirin hafði rifið allt með sér í einhverju kasti og hann vann svo mikið, gaf sér ekki tíma í að koma sér fyrir, bjó þarna bara í algjörum tætingi af sínu fyrra lífi og mér fannst einsog ég væri að stíga inní ógróið sár þegar ég steig í fyrsta skipti yfir þröskuldinn. Hvað var ég eiginlega að gera? Hvernig datt mér þetta í hug? Hverju bjóst ég eiginlega við?

Í herberginu mínu var lítið snyrtiborð með spegli. Á kvöldin sat ég og horfði í spegilinn og lék. Ég lék pabba þegar hann hugsaði um ástkonu sína. Mömmu þegar hún vildi að allir vissu að henni leið illa án þess að þurfa að segja það. Stóru systur þegar hún var góð með sig til að fela óöryggi, litlu systur þegar henni fannst hún vera skilin útundan. Ég lék ímyndaða konu sem þurfti að gefa barnið sitt frá sér og geiflaði mig af sársauka. Þegar ég lá í rúminu og reyndi að sofna á kvöldin lét ég mig dreyma um að vera uppgötvuð. Draumurinn er alltaf eins. Áheyrnarprufan er í ímynduðu leikhúsi. Úti í salnum situr leikstjórinn, fúll yfir að ég skuli vera sein og aðstoðarkonan hans segir að því miður sé áheyrnarprufunum lokið.

„Ég verð fljót!“ segi ég og brosi. Ég er með skærbleikar bólgnar varir og skjannahvítar tennur og þegar ég brosi sjást allar tennurnar og nefið á mér er agnarsmátt, einsog lítill hnappur í miðju andlitinu. Hárið allt á hreyfingu, liðast yfir bakið, nær niður á rass og glansar einog gull og mittið er pínulítið.

„Ok þá,“ rymur leikstjórinn, krossleggur arma og horfir fýlulega á mig en um leið og ég byrja að leika breytist líkamsstaðan, gliðnar öll sundur og hann verður opinmynntur, starir á mig, agndofa. Leikstjórinn og aðstoðarkonan hans og allir sem sitja þarna í salnum skilja að þau eru að verða vitni að einhverju alveg einstöku. Önnur eins innlifun og sjarmi hafa aldrei áður sést: fyrir augum þeirra stendur leikkona á heimsmælikvarða og leit þeirra er lokið.

Í annarri fantasíu stíg ég út úr glæsikerru í dúnmjúkum pels yfir kjól sem er alsettur demöntum. Á fingrum handa minna glitra trúlofunarhringar og fólkið sem mænir á mig úr þvögunni æpir nafnið mitt. Þau eru sjúk í mig, teygja fram hendurnar og vilja snerta mig, til þess að geta sagst hafa snert mig. Ef þau snerta mig er það einskonar blessun, einsog þegar kaþólikkar vilja snerta páfann eða bara kyssa jörðina þarsem skósólinn hans var. Pinnahælarnir mínir skilja eftir blessaða kossa fyrir fólkið.

Ég komst ekki inní leiklistardeildina á Íslandi en hinsvegar komst ég inní alveg ágætan leiklistarskóla í Glasgow. Svo tók ég námslán og vann á kaffihúsi um helgar. Eftir útskriftina bjó ég þar áfram í tvö ár og reyndi að fá hlutverk en það gekk ekkert hjá mér. Prufa eftir prufu en ekkert gekk. Svo dó pabbi óvænt og ég notaði það sem ástæðu til þess að flytja heim til Íslands en þar fékk ég heldur ekkert að gera. Þetta tímabil, þessi ár sem liðu frá útskrift og þar til ég gaf leiklistina endanlega upp á bátinn, voru í raun samfellt niðurbrot. Prufa eftir prufu þar sem allir brostu og hrósuðu mér og lofuðu að þau yrðu í bandi en svo heyrðist aldrei neitt. Hrá birta raunveruleikans tók að skína inn. Ég gat séð að varirnar voru einfaldlega of þunnar. Tennurnar of litlar og asnalegar og nefið einsog hæll í miðju andlitinu. Hárið matt og flatt og bifaðist ekki. Mittið ekkert mitti. Ég var lurkur. Luri. Mattur klumpur. Löngu síðar sá ég auglýsinguna eða kvikmyndina eða leikritið sem ég hafði mætt í prufu fyrir og þá varð ég ofur-upptekin af ungu konunni sem hafði verið valin fram yfir mig. Mér fannst verst þegar ástæðan var augljós. Auðvitað hafði þessi manneskja verið valin frekar en ég. Allt það sem mig vantaði varð svo áþreifanlegt; glansinn, glæsileikinn og hæfileikarnir. Þegar ég var þrítug fór ég í síðustu áheyrnarprufuna og það var nokkuð sem gerðist í þessari prufu, dálítið sem leikstjórinn sagði, sem gerði að ég fékk nóg.

Samstarfskona mín á stofunni skrifar mér skilaboð. Þessi unga kona sem verið er að lýsa eftir, Sylgja. Var þetta ekki skjólstæðingur? vill hún vita. Ég svara ekki alveg strax. Þetta hafði ekki komið fyrir hjá mér áður og ég þekkti ekki prótókólið. Ég var bundin trúnaði við Sylgju og væntanlega hefur samstarfskonan skoðun á þessu og nú vill hún vita meira til að geta myndað sér fleiri skoðanir. Varla átti ég að hringja í lögregluna og segja henni að Sylgja var með sjálfsmorðshugsanir þegar hún hóf meðferð? Sjálfsmorðshugsanir gátu verið einsog hver önnur huglæg tjáning á sorg og örvæntingu. Lögreglan átti bara að finna hana og vangaveltur um eitthvað sem hún sagði mér í trúnaði fyrir þremur árum síðan komu málinu ekki við.

Þegar ég ákvað að hætta að reyna fylgdi því léttir, en svo tók við ákveðið sorgarferli, einsog ég átti eftir að orða það síðar, og ég vissi ekki hvað ég átti að gera í staðinn. Lína vinkona stakk uppá að ég gerðist flugfreyja og ég sótti um, var send á námskeið og ekkert svo löngu síðar var ég ráðin. Loksins var einsog allar þessar eilífu fyrirstöður væru horfnar. Framundan var brautin bein og ég tiplaði eftir þröngum ganginum, bauð brosmild uppá veitingar og fólk sagði annað hvort játakk eða neitakk, sem var að minnsta kosti alveg skýrt. Svo kynntist ég Hávari. Kvæntum flugmanni sem fólk talaði illa um, en hann hafnaði mér ekki. Hann valdi mig, fór frá konunni sinni, gaf mér lykla að húsinu sínu í Garðabæ, bauð mér að flytja inn, bað mín, reyndar í hálfkæringi tengt einhverri praktík, en ég ákvað samt að taka hann á orðinu.

Hann var á leiðinni í bandaríkjaflug og ég var ekki alveg viss um hvort honum væri alvara, en fyllti samt skódann af fötum og öðru smálegu, keyrði í Garðabæinn úr gamla Vesturbænum og lagði skakkt í innkeyrsluna við tvöfalda bílskúrinn. Ég hafði komið þarna áður þegar Hávar var ennþá í hræðilega hjónabandinu sínu. Einhvern tímann þegar hans fyrrverandi var í sumarbústað með börnin. Þau héldu að Hávar væri í flugi og hann notaði tækifærið og bauð mér til sín. Húsið var þá svo glæsilegt, innréttað í bandarískum sveitastíl og allt var nokkrum númerum stærra en ég átti að venjast. Ég nefndi stærð húsgagnanna og sagði að mér liði einsog Lísu í Undralandi en Hávar horfði bara á mig skilningsvana.

Þjófavörnin fór af stað með ærandi hávaða þegar ég opnaði dyrnar. Það var myrkur í holinu og ég þreifaði eftir ljósrofa, fann loks þjófavarnartækið og sló inn kóðann sem Hávar hafði gefið mér. Það var óþefur sem tók á móti mér. Innilokuð súr lykt og ég tiplaði varlega inn í húsið. Í teppalögðum stiganum sem leiddi uppá aðra hæð lágu óhreinar flíkur og allsstaðar voru yfirfullir öskubakkar. Umbúðir af skyndibitamat og bjórdósir sem höfðu verið kramdar og síðan fleygt kæruleysislega í gólfið. Húsgögnin voru að mestu farin og það sem var eftir mundi ég ekki eftir að hafa séð áður. Glæsileikinn fylgdi fyrrverandi eiginkonunni klikkuðu, áttaði ég mig á, sá brunafar í gólfteppinu og lokaði augunum þarna sem ég stóð. Þrýsti augnlokunum saman og hjartað sló örar. Þegar ég opnaði augun sá ég að brunabletturinn var munnur sem öskraði af öllum lífs og sálar kröftum. Maðurinn þurfti hjálp.