Skurn

Birgitta Björg Guðmarsdóttir

Grasflötin fyrir aftan húsið hans Braga hefur gulnað aðeins síðan ég sá hana síðast. Þó hafa ekki liðið nema nokkrir dagar, kannski rúm vika, en óvenju þurrir svo gróðurinn þyrstir og moldin í beðunum er sprungin. Ekki fjarri húsinu vex sterklegt grenitré, hátt og mjótt, nokkuð illa staðsett að mínu mati. Líklega hefur Bragi þurft að snyrta það, svo greinarnar færu ekki að strjúkast upp við veggina. Undir trénu liggur blár segldúkur sem virðist hafa losnað eða fokið úr glugganum þar sem hann á að vera. Ég tek stefnuna þangað, geispa og lyfti hendinni upp í lægstu greinina. Næ einhvern veginn að vippa mér upp.

Ég tók eftir þessu gati um daginn, þegar ég kom í mat til hans og allt fór í skrúfuna á milli okkar. Það var rétt eftir að hann hafði borið lambabóginn á borð fyrir okkur. Við borðuðum inni í eldhúsi í þetta skiptið, sem mér þótti einkennilegt – yfirleitt þegar Bragi bauð mér í mat borðuðum við inni í stofu og sátum þá við stórt og mikið borðstofuborð úr eik sem hann hafði látið selja sér í Góða hirðinum fyrir einhverjum árum síðan. Með þykkri og breiðri borðplötu sem stóð á sterkbyggðum fótum. Litla borðið í eldhúsinu stóðst engan veginn samanburðinn. Grænt, á stálfótum, eins og borðin sem skólabörn krota á. Það bar varla kræsingarnar, allt var krökkt af diskum og glösum sem sífellt þurfti að færa, til að koma matnum fyrir. Við færðum brúnu sósuna til þess að komast í rauðkálið, skiptum því út fyrir grænar baunir, sem þurfti síðan að hliðra til svo rauðvínsflaskan kæmist fyrir. Í eitt skiptið hélt ég að okkur hefði tekist þetta en þá áttaði ég mig á því að ég hélt enn á disknum mínum og að ekki væri pláss fyrir hann á borðinu.

Við gáfumst upp, ákváðum að láta vínflöskuna standa við borðfæturna og geymdum fatið með lambinu á helluborðinu. Maturinn var ljúffengur, líklega sá besti sem ég hafði fengið allt árið og ég var fljótur að klára af disknum. En í því sem ég færði rauðvínsglasið upp að vörunum eftir síðasta bitann fann ég kaldan gust koma inn af ganginum. Ég leit upp frá matnum og sá að þar sem einn glugganna átti að vera var ekki gluggi heldur gat. Þegar ég spurði Braga út í þetta sagði hann mér að hann hefði brotið gluggann sjálfur, fyrir slysni. Hann hefði verið að bera timbur á milli hæða og rekið eina spýtuna í. Glerið hefði mölbrotnað um leið. Að sjálfsögðu, hugsaði ég. Þetta er honum líkt. Að láta verkefnagleðina stýra sér í einu og öllu. Ég sá hann fyrir mér hlaupandi upp og niður stigann með viðarplanka eins og annan klaufabárðanna, brotnir gluggar um allt hús. Hvað varstu að gera með þetta timbur? spurði ég en hefði betur sleppt því. Það kom á hann bros. Viltu sjá?

Ég fann það á honum að hann hefði verið að bíða eftir því að ég spyrði hann út í þetta. Hann hafði flissað í gegnum símtólið þegar hann hringdi og bauð mér í mat, hafði sent mér marga leyndardómsfulla broskalla dagana fyrir og var enn flissandi þegar hann kom til dyra og sá grunlaust, svefnvana andlit mitt þar sem ég beið hans á dyraþrepinu. Eflaust sá hann það á mér að ég væri nývaknaður. Gat lesið í rytjulegt útlit mitt, í þunga baugana og illa greiddan hárbrúskinn. Ef til vill hafði hann heyrt það á mér þegar hann hringdi til að láta mig vita af því að það hefði orðið árekstur á Miklubrautinni og að ég þyrfti að fara hringinn til þess að festast ekki í umferðinni á leiðinni til hans. Síminn hafði vakið mig, hringingin rifið mig úr draumleysinu og ég var svo svefndrukkinn að ekkert sem ég lét út úr mér hljómaði gáfulega.

Ertu … ertu ekki lagður af stað? spurði hann þá.

Jú, eða nei, eða ég er að leita að bíllyklunum mínum, sagði ég, en ég var ekki að leita að bíllyklunum heldur að lyfta koddanum sem ég hafði sett yfir andlitið þegar tekið hafði að birta. Ég hafði grúft mig inn í koddaverið, ekki tilbúinn að samþykkja að það væri kominn dagur, eins og svo oft. Letihaugur, hugsaði ég á meðan ég leitaði að einhverju ásættanlegu til þess að klæða mig í. Af hverju getur þú ekki bara hundskast á lappir?

Augu mín voru enn hálflokuð þegar ég mætti. Þau hefðu átt að vera opin – glennt sundur eins og rennilásinn á flíspeysunni í algeru kæruleysi svo glitti í pulsusinnepsblett sem prýddi stuttermabolinn minn. Ég hafði fiskað hann upp úr óhreina tauinu, bisað hálfsofandi við að klæða mig í hann í góðar þrjár mínútur áður en ég áttaði mig á því að ég var að reyna að troða höndunum í gegnum hálsmálið og hrundi næstum niður stigann. En hann sá ekki – eða lét sem hann sæi ekki blettinn. Vísaði mér bara inn í eldhús, hoppandi kátur og allur á iði, eins og hann hefði drukkið þrjá-fjóra kaffibolla á meðan hann eldaði. Hann var greinilega spenntur að sýna mér það sem hann hafði verið að gera.

Og nú var stundin runnin upp. Hann kyngdi síðasta lambabitanum, stóð upp frá borðinu og opnaði dyrnar inn í stofu. Gaf mér ábendingu um að elta sig inn. Ég vildi óska að ég hefði bara sagt nei. Farið heim, sagst vera þreyttur – hann tryði því, ég var alltaf þreyttur, var svo sem í alvöru þreyttur – þakkað fyrir matinn og látið mig hverfa. En í staðinn teygði ég andlitið í sundur og rak upp stóreflis geispa, kinkaði kolli og elti hann inn í stofuna.

Um leið skildi ég hvers vegna við höfðum borðað inni í eldhúsi. Húsgögnin var hvergi að sjá og þegar ég innti eftir því sagði hann mér að hann hefði fært þau öll inn í annað herbergi til að rýma fyrir smíðavinnunni. Ég hafði fyrst ekki skilið hvers vegna hann var að þessu inni í stofu hjá sér, hvers vegna hann var að rogast með timbrið milli hæða þegar hann gæti auðveldlega smíðað í bílskúrnum eða jafnvel úti á plani í góða veðrinu sem hafði ríkt síðustu daga. En nú þegar ég loksins sá hvað hann var að bardúsa, yfir hverju hann hafði flissað svona mikið, áttaði ég mig á því að þetta væri kannski ekki eitthvað sem hann vildi endilega flagga.

Misskítug verkfæri lágu á víð og dreif, hjá hverju þeirra hálfkláraður kaffibolli sem gaf í skyn að hér hefði farið fram margra daga langt þráhyggjuverkefni. Sag var úti um allt og í einu horninu var hrúga af viðarafskorningum. Fyrir miðju herbergisins sá ég svo smíðaverkefnið hans: aflanga trékistu í mannsstærð. Hún stóð á búkkum á miðju gólfi, umkringd mælistikum, blýöntum og hallamálum. Dauðskelkaður færði ég mig nær.

Er þetta alvöru?

Já maður. Fullkomlega ekta. Hann lagði áherslu á hvert atkvæði, var greinilega stoltur af verkefninu, hafði unnið það af mikilli kostgæfni og einbeitingu. Og það sást. Viðurinn var vel pússaður, virtist næstum mjúkur, eins og ef ég legði höndina á yfirborðið myndi það gefa eftir, eins og koddi. Eða mosagróin þúfa. Það var auðvelt að finna til aðdáunar, jafnvel einhvers konar væntumþykju gagnvart þessari fallegu smíð. Ég fann hvað hann hafði lagt mikla ástríðu, mikinn tíma … í örstutta stund fann ég til skringilegrar kenndar, ég rétti höndina fram, lófinn flatur og viðbúinn að snerta, en á síðustu stundu sá ég að mér, kreppti hnefann.

Ég bankaði aðeins í viðinn og leit upp. Bragi var æstur og gat ekki hætt að fikta í hárinu á sér. Hann renndi hendinni ítrekað í gegnum svart strýið sem stóð alltaf út í loftið eins og hann hefði orðið fyrir rafstuði. Síðan benti hann mér spenntur á gyllt handföngin sem hann hafði skrúfað inn í hliðarnar.

Það eru meira að segja handföng, sjáðu!

Ég starði agndofa og þegar ég svaraði ekki túlkaði hann það sem svo að ég hefði séð nóg, sýningin væri búin og tími kominn á desert. En er hann leiddi mig aftur inn í eldhús fór hausinn á mér á fullt. Hvað var eiginlega í gangi? Smíðin fyrir framan mig hlaut að vera afrakstur margra vikna vinnu, ef ekki mánaða! Hann hlaut að hafa þurft að verða sér úti um einhvers konar teikningar eða leiðbeiningar. Síðan hafði hann farið í byggingavörubúð, keypt efnivið og verkfæri og … Guð, hann hlaut að hafa mælt sjálfan sig. Óhugnaður greip um brjóstið á mér og herti takið. Ég gat ekki dregið andann nógu djúpt. Hann kom bara í stuttum innsogum, eins og súrefnið í herberginu væri að klárast, eins og eitthvað héldi um hálsinn á mér og þrengdi að.

Í eftirrétt bauð Bragi upp á ís sem hann hafði búið til sjálfur og sem bragðbæti færði hann fram glerskál af hindberjum. Safinn lak úr þeim, blóðlegur, og safnaðist saman á botni skálarinnar. Hann sagði mér frá því hvernig hann hefði fengið efniviðinn í BYKO, hvernig maðurinn sem aðstoðaði hann hefði verið afar hjálpsamur, ráðlagt honum hvaða efni gæfi bestu áferðina, hvaða olíu skyldi bera á og meira að segja fundið teikningar fyrir hann. Ég kinkaði kolli en svaraði ekki og við unnum okkur í gegnum skálarnar í þögn. Á meðan brunnu kertin niður svo vaxið draup af þeim og safnaðist saman á fótum stjakanna. Að lokum fann ég einhver orð og hugrekki til að spyrja hann.

Er eitthvað sem þú þarft að segja mér?
Hvað meinarðu?
Þú veist, ertu lasinn eða eitthvað?
Nei. Af hverju spyrðu?
Af hverju? … Hvernig sérðu ekki … Þú myndir alveg segja mér … ?
Að sjálfsögðu!
Og það er ekkert í gangi?
Neibb, eða finnst þér ég eitthvað veiklulegur?
Þú verður að segja mér ef eitthvað er að.
Ég lofa þér að það er ekkert að.
Ókei, þá skil ég ekki.
Skilurðu ekki hvað?
Þetta allt saman, til hvers ertu að smíða þér … ?
Ég gat ekki sagt orðið. En það lá í loftinu á milli okkar
Þetta er fyrir framtíðina, svaraði Bragi pollrólegur. Eins og ekkert væri eðlilegra.
Fyrir framtíðina?
Já, veistu hvað ein svona kostar? Ég er að spara alveg helling.
Þú værir nú ekki að fara að borga fyrir svona lagað sjálfur.
Jæja, þá er ég að spara þér kostnaðinn, þú getur eytt peningnum í að bóka einhvern klikkaðan tónlistarmann til að syngja í útförinni minni.
Heldurðu að ég sé að fara að skipuleggja jarðarförina þína?
Hver annar?
Ég veit það ekki … einhver … þúveist …

Hann leit á mig, eins og til að segja þú veist betur, og ég vissi að ég hefði á röngu að standa. Það yrði alltaf ég, ef ég lifði hann, sem myndi skipuleggja útförina hans og á sama veg kæmi það í hans hlut að skipuleggja mína. Þannig er okkur Braga ástatt. Við erum ekki vinir af neinum sérstökum ástæðum. Við erum ekki æskuvinir, höfum aldrei gengið í sama skóla eða verið vinnufélagar. Frekar er það af illri nauðsyn sem við eigum hvor annan að. Ég er of svartsýnn til að nokkur vilji umgangast mig og hann – tja hann gæti ef til vill gert betur, en honum hefur ekki tekist það hingað til. Hann situr uppi með mig eins og ég með hann.

Það hlaut að vera eitthvað. Ég ímyndaði mér röntgenmyndir með mörgum skuggum, heilaæxli, taugahrörnunarsjúkdóma, skyndilegar krabbameinsgreiningar á fjórða stigi. Ég sá hann fyrir mér einn á skrifstofu læknisins, halda aftur af tárum, í sjokki, í áfalli. Ég hef alltaf skynjað Braga þannig að hann myndi deila öllu með mér, hann lifir á útopnu. Svo ég skildi ekki hvers vegna hann vildi ekki segja mér frá. Ég þurfti að ná þessu upp úr honum.

Ég skil bara ekki hvers vegna þú ert að þessu núna, sagði ég. Finnst þér þetta ekkert skrýtið?

Hvað er skrýtið við þetta?

Þetta er eins og þú myndir grafa þína eigin gröf og síðan bara halda áfram lífinu, vitandi af henni alla daga!

Hvað væri að því?

Ég var farinn að verða reiður. Ég skildi ekki hvað hann var að pæla. Honum virtist bara finnast þetta sniðugt, jafnvel fyndið. Til að forðast það að rjúka upp í bræði dró ég djúpt andann og gerði litla úttekt á sjálfum mér. Var ég bara pirraður af því að ég hafði sofið illa eða voru áhyggjur mínar á rökum reistar? En eftir örlitla íhugun komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri óeðlilegt, að nei þetta væri ekki bara ég og að Bragi hlyti nú að vera loksins genginn af göflunum. Það væri undir mér komið að tala um fyrir honum.

Fyndist þér það ekkert óþægilegt?

Nei, svaraði Bragi. Frekar finnst mér það róandi. Þegar, þegar kemur að þessu, hvenær sem það verður … þá veit ég hvar ég enda.

Ég trúi þér ekki. Það er eitthvað sem þú ert ekki að segja mér. Ég finn það. Ég meina, hvað er í gangi? Ég heyri ekki frá þér í nokkra daga og svo kemur í ljós að þú ert búinn að vera að smíða þetta … þetta ferlíki! Og hvað ætlar þú svo að gera þegar þú kemur með deit heim? Ætlarðu að fylgja þeim inn, taka af þeim yfirhöfnina, segja: Gakktu í bæinn, hérna er fatapresturinn, þarna getur þú sest, vertu eins og heima hjá þér … og já, ekki láta þér bregða, þessi er handa mér, ekki þér!

Bragi setti í brýnnar. Nú skaltu fara að passa þig, sagði hann og var alvarlegur á svip. Það var eins og allt hans höfuðlag tæki stakkaskiptum. Brosið sem sat til augnanna hvarf á örskotsstundu, kinnbeinin virtust ekki lengur útstæð heldur flöt og munnsvipurinn var orðinn allur annar en ég kannaðist við.

Ég tók upp skeiðina mína. Ísinn hafði bráðnað og safinn úr berjunum runnið saman við rjómann svo úr varð bleikt sull. Ég hrærði aðeins í skálinni og leit svo upp. Beið átekta. Beið þess að hann myndi útskýra. Segja mér loksins frá því hvað væri að, en í staðinn hallaði hann sér aftur í stólnum, krosslagði handleggina og spurði: Hvernig gengur þér að sofa?

Þetta sló mig út af laginu.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta með svefninn er landlægt vandamál – að það fyrsta sem hver maður gerir á morgnana er að skammast sín fyrir það hve lengi hann svaf. Það er alveg sama hversu snemma okkur tekst að vakna – við fögnum sjaldan sigri, töpum yfirleitt. Jafnvel á sumrin syrgjum við stöðugt klukkustundirnar sem við höfum eytt í svefn, vökum fram eftir nóttu uppi í rúmi og bölvum sjálfum okkur fyrir að hafa ekki keypt svört gluggatjöld, en sofum svo fram að hádegi og missum þá akkúrat af hálfsárslegu bongóblíðunni. Svo ég tali nú ekki um skammdegið og hvað sá andskoti getur gert manni. En ég kemst ekki upp úr þessu fari. Hjakka í því stöðugt, bölsótast út í dekkið, út í jarðveginn, út í þunga bifreiðarinnar, minn eigin þunga, minn eigin takmarkaða blótsyrðaforða.

Bragi beið átekta.

Er þetta yfirheyrsla? svaraði ég og starði ofan í berjaskálina.

Ég vil bara vita hvernig þér gengur.

Ég sé eftir því að hafa sagt þér frá þessu svefnrugli, sagði ég, og dró þagnirnar á milli á langinn svo hann fyndi hve lítið ég vildi tala um þetta. Þú ættir ekkert að vera að pæla í þessu.

En svefntöflurnar, ertu búinn að prófa þær?

Getur þú ekki bara gleymt þessu?

Nei. Ég vil hjálpa þér!

Kræst, Bragi, það er ekki eins og þú sért með allt á hreinu, líttu bara í kring um þig! Ég stóð upp og henti frá mér munnþurrkunni. Þetta var of mikið. Ég þurfti að komast burt. En Bragi stóð upp um leið og ég, gekk hringinn í kringum borðið og stúkaði mig af.

Nú ræðum við málin, sagði hann og var kominn mjög nálægt mér. Þú gerir mig svo sorgmæddan, sagði hann. Þú talar ekki við neinn og segir ekki neitt, eins og þú sért eitthvað sombí … Þú verður að fara í blak, eða í bíó eða bara eitthvað annað en að drekka kaffi og láta eins og það sé allt í lagi með þig!

Í fyrsta skipti þetta kvöld tók ég eftir peysunni sem hann var klæddur í. Hún var vélprjónuð og hlaut að hafa verið skærrauð einhvern tíma, en síðan þá höfðu litirnir dofnað og rauði liturinn var djúpur, ég fann að hann var ekki aðeins þarna á yfirborðinu heldur var margt í gangi undir því. Í peysuna voru saumaðar myndir af tveimur dýrum, birni og moldvörpu, sem voru að hjálpast að við að tjalda. Ég óskaði mér að ég gæti flúið þetta matarboð. Að ég kæmist inn í myndina. Ég gæti hjálpað þeim að leggja tjaldbotninn, slétta rækilega úr honum svo þau svæfu vel um nóttina. Ég myndi passa að yfirtjaldið fyki ekki í vindinum, ég myndi ganga hringinn í kringum þau og slá tjaldhælana niður.

Ég leit í augun á Braga. Þetta var í fyrsta skipti í langan tíma sem ég horfði í augun á honum, eða á nokkrum manni yfirleitt. En jafnskjótt leit ég undan, hratt honum frá mér og fór. Í æsingnum féll vínflaskan á hliðina og rautt vínið fossaði um gólfið. Það spýttist út úr flöskunni í gusum svo pollur tók að myndast. Ég skeytti því engu, hoppaði yfir hann og skildi Braga eftir til að þrífa upp dreyrrautt glundrið.

Ég leit ekki í spegil fyrr en þegar ég tannburstaði mig, morguninn eftir. Ég var fölur, eins og allt blóð hefði verið tæmt úr mér, með bauga niður á höku. Andremman húmgaði glerið og fyrir aftan mig sá ég í hvers kyns ástandi ég hafði skilið íbúðina mína eftir þegar ég fór. Steikta grænmetið sem ég hafði eldað mér daginn áður hafði ég skilið eftir hálfétið á pönnunni. Eldhúsáhöld voru út um allt. Leirtauið sat óþvegið í vaskinum og þvotturinn lá blautur í vélinni. Ég hafði ekki sofnað um nóttina og um morguninn vakti ég enn. Daufur. Eins og ég væri strekktur yfir marga fleti, líkamsmassinn dreifður. Í einhvers konar vökudraumi. Þegar sólin fór að lýsa upp veggina þvingaði ég mig fram úr. Ég henti grænmetinu og vaskaði upp leirtauið. Eyddi svo tuttugu mínútum í leit að kaffifilterum.

Dagar liðu en sama hvað ég reyndi gat ég ekki bægt hugmyndinni um kistuna frá mér. Ég sá hana í hillingum á meðan ég setti þvottavélina aftur í gang, ég hugsaði um hana á meðan ég borðaði morgunmat og þegar ég settist upp í bílinn á leið í vinnuna fannst mér sem hliðar bifreiðarinnar væru veggir kistunnar og að ég æki um inni í henni. Mig langaði að brjóta hana, rústa henni. Taka eitt af þessum dýru verkfærum sem Bragi hafði keypt sér – borvélina eða hjólsögina – eða hamarinn sem hann hafði lagt frá sér upp við vegginn með skaftið upp og hausinn niður, eins og hann væri einbeittur gamall kall í handstöðu, og láta þau dynja á toppplötunni. Ég vildi sjá hana brotna og tréflísarnar þeytast út um allt. Ég ímyndaði mér sjálfan mig ýta kistunni að tóma gluggastæðinu og láta hana falla út um gluggann, sjá hana splundrast á jörðinni. Ég gat ekki leyft honum að hafa þetta inni í stofu hjá sér eins og ekkert væri eðlilegra.

Svo í morgun var ég sestur inn í bíl þegar ég leyfði lönguninni að sigra. Ég tók upp símann og hringdi mig inn veikan. Ég vissi að Bragi yrði farinn, vinnustaðurinn hans hefur störf snemma á morgnana, og þegar ég lagði fyrir utan var grunur minn staðfestur. Í innkeyrslunni var engan bíl að sjá. Ég gerði auma tilraun til að slétta úr skyrtunni minni og stikaði skáhallt yfir planið, hvítgrá steypan heit og upplituð eftir margra daga þurrk. Ég stillti mér upp á dyraþrepinu og þrýsti á hnappinn á dyrabjöllunni. Strauk, á meðan ég beið, fingrinum yfir ljónstönn sem hafði sprengt sér leið í gegnum steininn. Hún bar þess einnig merki um að hafa lent illa í sólinni, knúppurinn skrælnaður áður en hann náði að springa út, gulur liturinn bundinn í reifablöðin til frambúðar.

Ég dinglaði aftur, heyrði að fyrir innan ómaði dauft hljóðið í bjöllunni um húsið, sem ég var orðinn nokkuð viss um að væri tómt. Fyrir ofan mig breiddi dökkgrá steinklæðningin úr sér og gaf húsinu dimman blæ svo það tróndi yfir mannlausri götunni eins og þungur skýjabakki. Ég hálfbjóst við því að eldingum tæki að ljósta niður til þess að hrekja mig á brott. Það yrði svo sem ekki að ástæðulausu, hugsaði ég með mér og dinglaði nokkrum sinnum í viðbót áður en ég færði mig aftur fyrir húsið. Það var mikilvægt að ég kæmist inn og kláraði erindi mitt, sama hvernig mér tækist það.

Bragi verður eiginlega aldrei veikur. En ef svo ólíklega vill til að hann sé hérna einhvers staðar, með tónlist í eyrunum eða í sturtu, eða djúpt sokkinn í eitthvað nýtt verkefni, er ég reiðubúinn með afsökunarbeiðni. Ég skrifaði hana meira að segja niður á blað sem ég braut svo saman og stakk í skyrtuvasann. Þannig get ég sótt það úr þessu litla stæði við hjartað svo hann sjái nú hversu alvarlega ég taki þessu. Ég get þó ekki sagt að ég hafi eytt miklu púðri í þetta bréfsnifsi. Það fylgir lauslega einhverjum efnispunktum sem ég fann á netinu: ég hafi ekki ætlað mér að móðgast, mér líði illa yfir því hvernig þetta fór, ég vilji bara að við gleymum þessu og verðum vinir á ný, og svo framvegis og framvegis.

Ég brölti aumlega upp á við. Trákvoða lekur niður eftir bolnum og klístrast við ermina á peysunni minni. Er ég færi fæturna til í leit að betra fótstigi nuddast buxurnar við trjábörkinn og ég fæ hroll. Mér tekst sömuleiðis að brjóta þó nokkrar greinar og þær hrynja niður á jörðina, þar sem tilkomumikil hrúga tekur myndast. Að lokum kemst ég þó að tómu gluggastæðinu og klifra inn fyrir.

Eins og mig grunaði er Bragi hvergi sjáanlegur. Ég fer mér hægt, læðist fram ganginn og inn í stofu, þar sem kistan bíður mín. Ólíkt því hvernig hún var í matarboðinu um daginn, þegar viðurinn var enn ber, virðist hún nú vera tilbúin. Bragi hefur tekið hana niður af búkkunum, sem gefur til kynna að hún sé þurr, en hann virðist hafa staðið sveittur við, borið hana olíu, hellt í klút og strokið honum fram og aftur, nuddað henni inn í þurran viðinn.

Ég nálgast hana, en þegar ég er kominn nær verð ég skyndilega hræddur. Hvað var ég að spá? Að brjótast inn í hús vinar míns um hábjartan dag? Og til hvers? En um leið finn ég að ég varð að koma. Ég vissi að ég yrði að sjá hana aftur, að ég þyrfti tíma til að virða gripinn fyrir mér án þess að Bragi væri með mér, með sína þrotlausu orku og vakandi auga. Þegar hann sýndi mér kistuna hafði hann búist við hrósi frá mér. Hann hafði gert ráð fyrir að ég myndi dást að vandvirkninni, heillast af samsetningunni, segja honum hvað hann væri sniðugur. Í staðinn dæmdi ég hann harkalega. Það var fullt tilefni til, þessi kista ætti ekki að vera hérna. En engu að síður finn ég hvernig hún togar mig til sín, eins og hún búi yfir einhverju ótrúlegu aðdráttarafli. Ég get ekki útskýrt það, en ég varð að fá að koma aftur.

Í þetta skiptið legg ég lófann á toppplötuna. Og svo hinn. Og svo strýk ég henni allri. Ég teygi út hendurnar og halla mér fram þar til kinnin snertir viðinn. Hann er mjúkur viðkomu og nokkuð hlýr eftir sólina sem leggur inn um gluggann. Ég loka augunum, faðmurinn útbreiddur upp við plötuna. Gola berst inn um tómt gluggastæðið á ganginum og bærir við hárinu á mér, og það er svo létt snerting, svo smávægileg og viðkvæm, eins og þegar tvinni er þræddur í nálarauga, að ég veit ekki hvernig ég á að bregðast við. Og það er þá sem ég tek ákvörðun.

Ég lyfti höfðinu og sé hvar glittir í brúnina. Hvar ég get rennt fingrinum undir plötuna og lyft, til að sjá það sem inni í henni er. Svo tek ég í lokið, opna. Fyrir innan er þetta afar einfalt box. Hann hefur ekki enn bólstrað það. Ef hann ætlar þá að gera það yfir höfuð. Ég lyfti hvorum fæti fyrir sig, strýk skítinn af sólum skónna og stíg síðan upp í kistuna. Passa mig að fara ofan í á rétta vegu, því hún er þrengri öðrum megin, þar sem fæturnir eiga að vera. Ég vandræðast með að lyfta lokinu yfir mig. Það er þungt, úr veglega þykkum við, eins og smíðin öll, en að lokum hrekkur platan ofan í farið og kistan lokast. Myrkrið tekur utan um mig

Það er merkilega hlýtt inni í kistunni. Veggirnir eru lokandi, pakkandi – umhverfandi. Þetta er hjúpurinn sem ég vissi ekki að ég væri að leita að. Tíminn líður og líður ekki í senn. Mér finnst ég vera hólpinn. Hér er ekki rými fyrir neinn annan en mig. Hingað getur enginn troðið sér og spurt mig hvernig mér gangi að sofa eða hvers vegna baugarnir á andlitinu á mér séu svona þungir og bláir eða hvers vegna ég sé svona fölur alltaf.

Strangt til tekið sef ég á nóttunni. En ég hvílist ekki. Ég get ekki sofnað og ég get ekki vaknað. Mér finnst sem einhver sofi við hlið mér. Andi í eyra mér. Kræki fingrinum í hálsmálið. Síðan tekur við sársauki. Hvítrauðhvítur, stingandi, púlserandi.

Ég sé Braga fyrir mér um kvöldið, eftir að ég fór, þegar hann þurfti að þrífa upp vínið af gólfinu. Hann hefur líklega þurft að klára hálfa eldhúspappírsrúllu til að ná því öllu. Eða, kannski notaði hann ekki eldhúspappír heldur tusku. Bograði yfir skúringafötu og kreisti rauðan vökvann úr gegnvættum klútnum. Ef til vill þreif hann vínið ekki upp. Skildi það bara eftir á gólfinu og lét það þorna þar, leyfði því að leka inn á milli fjalanna á viðargólfinu þar til þær væru mettaðar rauðu og engin leið að ná litnum úr.

Einhver er á ferli í húsinu. Ég heyri umgang í gegnum viðinn. Fótatak, einhver leggur frá sér þungt hlass á gólfið og það brakar í viðargólfinu. Gengur upp stigann. Nálgast mig. En mér er sama. Hér er ró og næði, engin sól – ekkert ljós sem truflar. Kistan umlykur mig, lokar mig inni, stúkar mig af. Þótt hún sé hörð er hún mjúk. Þótt hún sé myrk er hún ekki grimm. Hér get ég hvílt mig.

Bragi lætur vatn renna í pott. Hann flautar einhvern lagbút sem ég þekki ekki. Kannski eitthvað sem hann hefur samið sjálfur, hann er líklegur til þess. Ég heyri hvernig hann lætur egg sökkva til botns og svo heyri ég þegar hann skrúfar frá gasinu og kveikir undir. Vatnið tekur að ókyrrast og ekki líður á löngu þar til ég heyri skurnir eggjanna slást saman í sjóðandi vatninu, hljóðin létt og stöðug, eins og regndropar sem skella á þakrennu.