Pétur Gunnarsson
Þetta var í fyrsta skipti sem hann kom í íbúðina síðan þau skildu. Dóttirin hafði gleymt nótunum heima. Hann var á bílnum þeirra, það er að segja hennar. Blöskraði hvernig hún hafði leikið hann: púströrið skrölti eins og dós sem hefur verið hengd aftan í „nýgift“. Þurrkublöðin eins og lakkrísreimar.
Fyrst þegar hann sté yfir þröskuldinn hvarflaði að honum að brotist hefði verið inn, hér var „einsoginu“ ofaukið: það bókstaflega hafði verið hvolft úr skúffunum og gólfin teppalögð með leppum. Íbúðin þar sem hann hafði áður verið hagvanur – nú með herkjum að hann kannaðist við hana. Við undruninni tók reiði þegar hann átti að finna nótur í þessum óskapnaði. Fyrirmælin hljóðuðu upp á stofuna í námunda við píanóið.
Óviðráðanlega var hann staddur inni í svefnherbergi sem var ekki lengur svefnherbergi, hún hafði látið stelpunum það eftir og búið um sig í barnaherberginu. Blautt handklæði á ganginum eftir morgunsturtu.
Ekki ætlaði hann að taka það upp.
Án þess hann fengi rönd við reist fylltist hann gremju, þessi óskapnaður var birting á þeim niðurrifsöflum sem hún hýsti og höfðu endað með að splundra sambandi þeirra. Hvernig hún gekk í lið með öðru lögmáli varmaaflsfræðinnar sem segir að allt leiti til upplausnar, eins og það þyrfti hjálpar við!
Á næsta andartaki var hann staddur við rúmgaflinn og farinn að róta í náttborðsskúffunni, eins og staðinn að verki þegar síminn hringdi. Sópaði saman nótunum og hafði sig á brott.
⁂
Ósköpin höfðu dunið yfir þegar þau áttu síst von. Þau voru nýkomin heim úr stuttum skreppitúr til meginlandsins í tilefni af ráðstefnu um tölvuvæðingu bókasafna sem Kötu var boðið að sækja. Barnleysið og dagpeningarnir og hótelþægindin og svigrúm til að fara offari í tilhugalífinu. Þau höfðu meira að segja keypt flunkuný reiðhjól í endurminningu skrjóðanna sem þau höfðu stolið forðum og stolið var frá þeim undir lok dvalar. Staðráðin í að innrétta litla Danmörku í Norðurmýrinni. Og bar upp á sama tíma og Benny Andersen og Povl Dissing héldu tónleika í Norrænahúsinu. Full eftirvæntingar hjóluðu þau út í Vatnsmýri, smekkfullur salur, flest andlitin kunnugleg úr útlegðinni. Hlátur sem kom frá innstu hjartans rótum, augu sem vöknuðu.
Jeg er fuld og har det godt!
Þegar Dissing tók „Svantes lykkelige dag“ mátti sjá axlir hristast og tár glitra á hvarmi.
Á eftir höfðu þau rottað sig saman nokkrir kunningjar og borðað saman á Torfunni í óstýrilátum fögnuði, haldið svo á pöbb og annan.
Jeg er fuld og har det godt!
En þegar átti að búast til heimferðar tók Kata það ekki í mál. Ekki í neinni illsku, þvert á móti kátínu. Hún og Stína ætluðu að mála bæinn rauðan, „far þú bara heim elskan, ég skila mér í morgunkaffið.“
Jeg er fuld og har det godt!
⁂
Hún kom heim klukkan átta um morguninn. Og hafði tekið með sér karlmann. Ingi horfði á þau svefndrukkinn hvar þau stóðu á svefnherbergisgólfinu og þessi ókunni maður – sem Inga fannst koma kunnuglega fyrir sjónir, gott ef ekki úr sjónvarpinu – lyfti poka sem var blautur í botninn af nýbökuðum snúðum.
„Livet er ikke det værste man har“ – Kata settist á rúmstokkinn og fór með kaldar krumlurnar alveg inn á hann: „Hvornår er kaffeen klar?“
Þá var eins og skryppi hak frá fjöður. Um leið og hann ruddi Kötu af rúmstokknum, keyrði hann snúðamanninn út úr herberginu, gegnum holið og alla leið fram á gang.
Skellti svo í lás.
En náði ekki að líta um öxl, svo þétt fylgdi Kata í kjölfarið og dyrnar sungu í falsinu á ný.
Eftir stóð Ingi eins og óveðursský á nærbuxum.
⁂
Þetta vor byrjaði Hólmfríður á Skipulaginu. Hún var enn í námi, dóttir embættismanns í borgarkerfinu og gat gengið inn og út að vild.
Merkilegt með karlmenn, þegar þeir eru komnir á vissan aldur grípur þá óviðráðanleg löngun til að segja fallegri konu að hún sé falleg. Þeir eru ýmist giftir eða bjargir bannaðar á annan hátt, en tungan fer að blása út, fyrst broddurinn, svo allur vöðvinn – uns þeir ganga að konunni og segja: „mikið ertu falleg!“
Það var garðpartí og dansað í kringum sjötugt linditré. Ekki Ingi, honum þóttu karlmenn ýmist hjákátlegir eða ámátlegir í dansi. Aftur á móti konur, í allri þessari iðandi kös sem hreyfði sig í takt við kontrabassa og gítar varð honum starsýnt á unga konu, það þurfti ekki að hafa um það orð, ölvuð af veigunum gaf hún sig ástríðunni á vald, setti stút á varir eins og báðum kynjum er tamt þegar þau tjá nautn, teygði út hendurnar með útglenntum fingrum og lifði í hljómfallinu.
Ingi sem hafði bergt af sama miði gekk til hennar þar sem hún dansaði satt best að segja við sjálfa sig og sagði:
„Mikið ertu falleg.“
Við svofelld orð hætti hún ekki að dansa og stúturinn fór ekki af munninum en hendurnar lukust um hálsinn á Inga og spenntust í greip undir hnakkanum.
Þau voru farin að dansa.
⁂
Um sumarið var auglýst samkeppni um hafnarsvæðið: Höfnin – þessi fyrrum miðpunktur var orðin að hornreku, hvernig gæti hún öðlast vægi á ný? Þau röbbuðu um þetta einhverju sinni þegar þau sátu tvö eftir í matarhlénu. Ingi taldi að borgarbúar hefðu glutrað niður miðbænum og höfninni af eintómri sveitamennsku, Íslendingar kynnu ekki að búa í borg. Það hefði að vísu skapast hér eins og fyrir tilviljun sjarmerandi borgarkjarni sem átti sitt blómaskeið á milli heimsstyrjaldanna, en strax og færi gafst var tekið til við að eyðileggja hann.
Í einskærri blindni hefðu yfirvöld skorið á lífæðar Reykjavíkur, höfnin var færð út fyrir bæinn og þar af leiðandi hvarf allur sá erill sem fylgir skipum úr miðbænum. Umferðamiðstöðin endaði úti í Vatnsmýri og um leið hættu farþegar að streyma yfir Torgið sem breyttist í hellulagða eyðimörk. Dagblöðin sem áður bjuggu öll með tölu í miðbænum fengu að veslast upp í úthverfum þar sem húsnæði var ódýrara, Ríkisútvarpið sömuleiðis og Iðnó en Landsbókasafnið endaði úti á Melum … Hvað gerist þegar heilinn er fjarlægður?
Hólmfríður gat tekið undir flest, sjálf var hún með á prjónunum að taka þetta stórkostlega Hafnarhús, byggingu sem átti engan sinn líka á landinu og hefði hæglega getað verið á Ítalíu – en hafði misst tilgang sinn við brotthvarf hafnarinnar – gera það að menningarmiðstöð með marghátta listastarfsemi: bókasafni, kaffihúsi, matsölustað – rétt við hafnarsporðinn.
Þegar hún stakk upp á samvinnu, sló Ingi til. Vinnan fór fram í sumarbústað ættarinnar, unaðsreit í slakkanum skammt frá Keldum, fyrrum sveit sem borgin hafði hlaupið uppi. Pabbi hennar var hestamaður og átti til að koma ríðandi á fnæsandi gæðingum og þau lyftu sér upp í útreiðartúr niður að Korpúlfsstöðum.
⁂
Kata hafði farið Laugaveginn með stelpurnar og vinagenginu, Ingi ætlaði ekki með, um leið og breytingin varð á milli hans og Kötu tók hann að fjarlægjast sameiginlega vini, ekki af því að hann hefði horn í síðu þeirra, heldur kynokaði hann sér við að vera samvistum við Kötu sem fór offari í brattleika þegar aðrir voru í nánd.
Nú var hún nýkomin af fjöllum, alsæl og endurnærð eftir óbyggðaloftið og treysti sér til að kryfja ágreininginn til mergjar, hreinsa út vilsuna og byrja upp á nýtt.
Ingi hlustaði á hana hefja mál sitt en stöðvaði hana áður en lengra var haldið og sagði: „Ég er ástfanginn af annarri manneskju.“
(Seinna sagði Kata að þetta orðaval hefði komið henni til að halda að það væri karlmaður).
„Og hvað?“ spurði hún hafandi dregið að sér hnén og sveipað um sig sænginni.
Eftir langa þögn sem mældist ekki í neinni eykt – það var björt sumarnótt – sagði hann: „Þetta er ekki lengur neitt samband.“
Við svofelld annarleg orð kipptist Kata við eins og höggormur sem hringar sig upp og myndar sig til að höggva í árásarbráðina.
„Þakka þér fyrir,“ hvæsti hún.
Í þessum stellingum héldu þau kyrru fyrir ótrúlega lengi, enda enginn leikstjóri til að skerast í leikinn með klapptré.
⁂
Ingi flutti ekki strax til Hólmfríðar og þegar hann flutti var það í íbúð hennar í Kaupmannahöfn. Síðustu dagana bjó hann hjá Bjössa bróður sem ætlaði að keyra hann út á völl, eins og venjulega á síðustu stundu. Öðru hverju hringdi hann úr hinum og þessum görðum og var „rétt að redda smá“. Dísa hristi hausinn: „Það standa á honum öll spjót.“
Ingi: „Hvað er fólk að gera með garða og komið haust?“
Dísa: „Elskan mín, þeir geta unnið í þessu fram að jólum, svo strax í febrúar er byrjað að klippa.“
Hafa einhver pólskipti farið fram hjá mér, hugsaði Ingi, einusinni voru garðar aðallega til að geyma öskutunnur á bak við hús.
Síminn hringdi:
(Bjössi: „Ég er alveg að koma.“)
Ingi: „Björn Rúrik, þú gerir þér grein fyrir að það er flugvél sem ég þarf að ná.“
(Bjössi: Við náum því með glans).
Ingi: Ég á að vera mættur í Leifsstöð eftir klukkutíma.
(Bjössi: „Við erum enga stund.“)
Ingi: „Fífl sem ég var að taka ekki rútuna.“
Börnin sátu í sinni veröld ýmist með liti að lita í litabækur eða vatnsliti að mála á blöð, það yngsta á miðju gólfi tuggði vaxlit. Ingi bar litinn að vitum sér og fór eins og hann grunaði: öll skólaæskan sindraði honum fyrir hugarsjónum. Barnaskólahöllin skreytt listaverkum frá fatahengi upp í rjáfur. Þrátt fyrir fátækt heimafyrir hafði hann alist upp í höll. Annað en hinir endalausu bráðabirgðaskúrar sem hann hafði átt þátt í að „hanna“ á núverandi skólalóðum.
Hann stóð við gluggann á útkikki, úti var sparsöm haustsól að rekja upp hannyrðir næturinnar, karamellubréf jafnt sem laufblöð þurftu að skila aftur fínofnum frostvefnaði. Garður garðyrkjumannsins var undir sömu sök seldur og bíll bifvélavirkjans – þar stóð ýmislegt til bóta. Húsið var eitt af þessum kassafjalahúsum sem fólk í húsnæðisneyð hafði hróflað upp við Langholtsveginn á árunum eftir stríð og seinni kynslóðir lappað upp á, sum farin að slaga hátt upp í villur.
Nei, nú gengur þessi andskoti ekki lengur! Morgunljóst að Bjössi ætlaði að koma í veg fyrir brottför hans, honum hafði alltaf verið í nöp við þessi áform, ekki einleikið hvernig hann gat aldrei munað nafn Hólmfríðar, kallaði hana iðulega Hildigunni, jafnvel Gunnhildi.
Þá birtist hann á tveimur hjólum með fullan pall af þökum, úfinn hárlubbi, flaksandi leðurjakki, hermannaklossar, hrossflipaglott.
„Það er nóg að gera í frumskóginum“, sagði Ingi og böðlaðist á móti bróður sínum með tvær töskur.
Bjössi: „Vissiru að Reykjavík er stærsti skógur á Íslandi?“
„Regnskógur kannski,“ svaraði Ingi snúðugt og sneri aftur inn eftir þriðju töskunni.
Hjá Kúagerði sprakk. Ingi tvísté yfir bróður sínum á meðan hann var að skipta um dekk. Pallurinn fullur af þökum sem sló á bleikum farfa. Esjan krímug um kinnarnar.
„Jæja, bróðir,“ sagði Bjössi þegar hann settist aftur undir stýri. „Þú tekur þetta ekkert sem vísbendingu?“
„Vísbendingu?
„Um að snúa við – á ég við.
„Over my dead body,“ svaraði Ingi,
⁂
Endurfundirnir við Kaupmannahöfn voru blendnir, einkennilegt hvernig honum fannst eins og allir væru á leið burt. Var það huglægt eða hlutlægt? Hann gerði sér leik að því að snúa við á miðri gangstétt – en fólk virtist líka vera á leið burt í þá áttina.
Hann fór á fætur um leið og Hólmfríður fór í skólann. Síðan kom tómarúm þar sem hann reyndi að halda þræði í hafnarverkefninu. Í hádeginu hljóp hann með fram síkjunum, fór í langa sturtu og tók hressilega til matar síns: ýmir og músslí með niðurbrytjuðum ávöxtum og naut þess að hlusta á hádegisfréttirnar í útvarpinu um leið og hann fletti Politiken og Information – allsherjar átveisla hugar og líkama.
Svo biðin eftir að Hólmfríður kæmi heim. Stundum stóðst hann ekki mátið og fór niður í skóla að sækja hana. Þessi staður sem hafði átt svo ákveðið erindi við hann forðum, nú var eins og hann hefði misst minnið. Líkt og hefði verið skipt um leikrit. Pólitíkin sem áður tröllreið öllu var horfin, gufuð upp, komin á bak við eins og leiktjöld úr verki sem hætt er að sýna. Sömu borðin, sömu stólarnir, sama kaffistofan – annað leikár.
Hann kynntist vinum Hólmfríðar, þau voru fimm í teymi sem vann að lokaverkefni og hittist gjarnan heima hjá þeim á Stokkhólmsgötu. Ingi átti til að miðla þeim skopsögum af Borgarskipulaginu. Breiðholtið gerði mesta lukku, þessi kraftbirting brjálseminnar sem Íslendingar virðast dæmdir til. Gólanhæðir með sinni linnulausu borgarastyrjöld. Gleymst hafði að gera ráð fyrir vegum þangað upp eftir og síðan fóru næstu ár í að brjóta þessu fólki leið heiman og heim. Minnti á mann sem þeir á Borgarskipulagi höfðu haft afskifti af, hann hafði byrjað að reisa sér hús og endaði á sökklinum, sem útheimti rosalegar tilfæringar á meðan verið var að grafa undan húsinu og steypa grunninn.
Það var ekki fyrr en þau voru orðin tvö ein með Reykjavíkurhöfn eða samflettuð í sófanum – ósjálfrátt hafði hann ætlað að taka upp þráðinn þar sem honum sleppti með Kötu.
„Hvað ertu að gera?“ spurði hún undrandi.
„Finnst þér það ekki gott?“ spurði hann.
„Nei,“ svaraði hún og hló stutt.
Úr þessu varð minniháttar krísa, Hólmfríður sagðist hafa á tilfinningunni að hann væri í rúminu með annarri konu og Ingi velti fyrir sér hvað Hólmfríður hefði til samanburðar. Það rann upp fyrir honum í atlotunum með Hólmfríði sem var 12 árum yngri með allt annan líkama, sléttan maga, löng og mjó læri og sama og engan rass – að hann saknaði alls þessa og kannski mest floganna – sem virtust víðs fjarri Hólmfríði.
⁂
Heima sat Kata í sinnuleysi og sinnti ekki um dæturnar sem knúðu hana til athygli með stöðugu kvabbi sem hún brást við með stöðugri uppgerðarumhyggju: „Hvað elskan!“, „Já, elskan!“. „Skan!“ var algengasta blótsyrðið.
Mest fór þó móðir hennar í taugarnar á henni, eitthvað fíngert, litlar eiturörvar sem bárust með augnaráði, látbragði og hálfkveðnum vísum.
Eða misskildri greiðasemi.
„Ég strauja ekki viskustykkin, mamma, það er bara ekki minn stíll.“
„Ég kann alltaf betur við það“, svaraði mamma hennar stutt.
Og svo alls konar dylgjur varðandi skilnaðinn, álösun fyrir að hafa ekki „haldið í“ manninn. Þetta sem móðir hennar hafði alla tíð óttast í sínu hjónabandi: „að missa manninn yfir til annarrar“. Kötu hafði ævinlega þótt það meiriháttar fyndið, ýmislegt mátti um föður hennar segja bæði illt og gott, en hæpið að sjá í honum einhvern Don Juan sem þyrfti stöðugt að standa í ströngu við að berja af sér kvenfólk. En mamma hennar var sífellt á nálum um að konurnar á Stofnlánadeildinni legðu fyrir hann snörur og innbyrtu í sínar ólöglegu möskvastærðir. Aðferð hennar var að vefa um hann hjúp svo að hann gæti sig ekki hrært án hennar atbeina. Fyrir vikið átti hann til að taka rispur og drekka sig fullan – en kunni þessu raunar mæta vel – þjónustan var tipp-topp.
⁂
Var ekki álögum líkast að aðstæður sem Ingi hafði stokkið frá á Íslandi virtust hafa skotið saman í hópferð og elt hann út. Það var líkast því að hann væri kominn með djúkbox fyrir heila, sömu plöturnar aftur og aftur sem ósýnilegur armur sótti og setti undir nálina.
Vinirnir voru minnsta málið, hvert hjónaband er ferðalag yfir jarðsprengjusvæði og hjónaskilnaður einna framkallar iðulega létti hjá hinum – vísbending um að þau séu á réttri leið.
Erfiðast var að standa andspænis ættingjum Kötu, Ingi hafði kosið að fara erfiðustu leiðina: heimsækja hvern og einn í eigin persónu og kunngera málavöxtu. Dyr lukust upp með brosi, stungið út haus til að svipast um eftir Kötu. Þetta var eins og tilhugalífið afturábak þegar þau höfðu heimsótt sama fólk í ofvæni upphafsins.
„Hvar er Kata?“
„Ég er einn.“
„Er eitthvað að?“ (spurt í forstofu).
„Við erum að skilja …“ (sagt í stofu).
Það var líkt og kaffið kólnaði í bollunum.
Sárast fann hann til gagnvart svila sínum, Svavari, þótt þeir væru báðir meðvitaðir um að láta það ekki hafa áhrif á sambandið gætti þess strax í innanhússboltanum einusinni í viku, ekki laust við að átökin og árekstrarnir og brotin hefðu fengið nýtt inntak.
Mesta furða með móður Kötu, hún hafði þennan eiginleika að innbyrða allt sem mætti henni sem framvindu forlaga, eins og fjall sem blánar af berjum eitt veifið, hylst snjó hitt – æðrulaust. Tengdafaðir hans aftur á móti – í fyrsta sinn fann Ingi til léttis yfir fráfalli Sverris Konráðssonar.
⁂
Hann reyndi að vera í símasambandi við dætur sínar. Ef Kata kom í símann spurði hann formálalaust um þær. Ef þær voru ekki heima kvaddi hann og lagði á. Ef þær voru heima skiptust þær á að tala við hann, fyrst önnur, svo hin, báðar jafn naumar, það hafðist varla upp úr þeim orð, þurfti að toga sjáfsögðustu hluti út með töngum: Skólinn? Píanótímarnir? Vinirnir? – þessir þrír meginpóstar gáfu af sér jafn mörg einsatkvæðisorð og má þá nærri geta um hitt.
Í bakgrunni heyrðist hlátrasköll, sennilega vinkonurnar eða Kata.
Dagleg iðja að skrifa þeim póst og vonast eftir pósti. Fyrir kom að samviskubitið tók hús á honum, hann hafði strandað fjölskyldufleyinu, gert þau að skipbrotsmönnum. Nei, andæfði hann, þau höfðu lent í sjávarháska, það hafði enginn farist, þau höfðu öll komist lífs af. Ef í harðbakkann sló var honum nóg að hugsa til eigin æskuheimilis og hve heitt hann þráði skilnað foreldra sinna.
⁂
Ef djúkbox hugans hefði þurft að greiða stefgjöld hefði stærsti hlutinn runnið til föður hans. Hann var járnabindingamaður og hafði endað líf sitt í vinnuslysi þegar hann hrapaði ofan af blokk í byggingu niður á bílskúr í smíðum. Í líkræðunni talaði presturinn um heilu og hálfu hverfin sem myndu hrynja saman ef ævistarf hans yrði dregið út. „Ein af hetjum hversdagslífsins.“
En atvikið sem oftast kom upp í hugann var ferð á Laugardalsvöllinn, landsleikur Ísland-Austur-Þýskaland. Það hafði ekki verið nein vínlykt þegar þeir lögðu af stað og samt merkti hann það um leið. Fyrir lítið kom þótt faðir hans þættist í hvert skipti þurfa að skreppa á pisseríið. Á meðan röðuðust mörkin í íslenska netið. Um líkt leyti og Ísland var hætt að skeyta um skömm eða heiður var faðir hans sestur með pyttluna í klofinu. Hrasaði þegar hann ætlaði að rísa á fætur, valt niður stæðisþrepin. Börn hlógu. Fullorðnir mældu hann út eins og ófarirnar væru Inga að kenna. Á endanum komu tveir vallarstarfsmenn og vildu leiða föður hans á brott, Ingi hafði staðið álengdar með annan fótinn í efritröppu og hinn í neðri, tilbúinn að stökkva til ef eitthvað gerðist, stökkva frá ef færi gæfist. Loks hafði hann snúið við honum baki og gengið á brott.
Með tímanum breyttist atvikið í klassískan disk í djúkboxi samviskunnar sem sjálfvirkur armur sótti með reglulegu bili og stóð af sér allar tæknibreytingar, fór úr vinyl yfir í kassettu yfir í disk – áreiðanlega kominn á spotify núna.
⁂
Kaupmannahöfn var upphafsreitur Inga og Kötu, hér höfðu þau byrjað búskap, hér höfðu þau opnast hvort fyrir öðru – og heiminum. En vel að merkja, það var ekki fyrr en horft var til baka að Kaupmannahöfn stóð þeim fyrir sjónum sem fyrirheitið land, paradís sem þau höfðu gist í hálfgerðu meðvitundarleysi og síðan flogið sjálfviljug norður á hjarann þar sem vísitalan tók við. Brátt voru þau farin að sjá Borgina við Sundið í hillingum, ef lífið þar var ævintýri eftir H.C. Andersen, var svefnbærinn við Flóann Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
Í fyrstunni höfðu þau notið samvista við félaga úr útlegðinni, sem strjáluðust eftir því sem rútínan náði tökum á hverjum og einum. En jafnan þegar þau hittust upphófst tregaslagurinn um Danmörku og heimsósóminn um Ísland. Á Borgarskipulaginu þurfti Ingi að kyngja viðhorfum sem hefðu flokkast undir fasisma með Dönum. Og annað svo frumstætt og mannfjandsamlegt fyrir utan spillingu, klíkuskap og flokkspólitík sem fram fór fyrir opnum tjöldum. Á Íslandi sporðrenndu menn daglega skömmtum sem hefðu dugað til að drepa heila ríkisstjórn í veldi Dana.
Á bókasafninu hjá Kötu var kannski ekki spillingunni fyrir að fara – en herra trúr hún sem hafði seint og snemma stært sig af því í Danavistinni hvað Íslendingar væru mikil bókaþjóð og haft á hraðbergi dæmi sem Danir urðu að kyngja með smörrebrauðinu. Nú sá hún að frændur okkar voru mannsaldri á undan í safnamálum. Dönsku söfnin voru lifandi hugmyndabankar og alhliða veisluhöld skilningarvitanna, þau íslensku rykfallnar geymslur í samanburði. Útibúið þar sem hún vann hafði upphaflega verið hugsað sem „loftvarnarbyrgi“ í kjarnorkustríði, en í einhverju bjartsýniskasti um gang heimsmála, eða bara venjulegri íslenskri skítareddingu verið innréttað sem bókasafn. Gluggalaus hellir sem studdist við raflýsingu jafnt á Jónsmessu sem Þorláks. Á hæðinni fyrir ofan var kirkja og niður um loftræstikerfið sitruðu jarðarfarir.
Kata átti til að fara yfir strikið þegar hún bragðaði vín. Fólk gat ekki annað en dáðst að Inga á árshátíð Arkitektafélagsins þegar hún kallaði fram í ræður manna, settist í kjöltur og hellti úr glasi yfir formanninn. Allan tímann var ekki önnur svipbrigði á Inga að sjá en lutu að velferð hennar, tilbúinn að grípa hana þegar hún tók bakföllin.
En hvernig sem allt veltist og velktist gátu þau alltaf gengið að vísri vin í eyðimörkinni –þegar þau skiptu um ham og endurnýjuðust í gráðugum faðmlögum.
⁂
Úti var hnausþykk þoka, Ingi var á heimleið sem tók á sig æ fleiri lykkjur og króka eftir því sem nær dró. Áður en hann vissi af var hann kominn aftur til upphafsins. Stóð á stéttinni við Grænugötu og mændi upp í kvistina þar sem íbúðin þeirra hafði staðið. Fór inn í portið þar sem sá upp í eldhúsgluggann og gat ekki betur séð en bláu gardínurnar væru enn við lýði. Í þessu gekk kona út um bakdyrnar, dyraþrællinn var svo stífur að andartak var eins og hurðinni væri haldið opinni fyrir Inga sem í einhverju stundarbrjálæði smeygði sér inn. Við honum blasti þröngur og hlykkjóttur brunastiginn með fagnaðarfundum um leið og rifjuðust upp óteljandi ferðir út með ruslið á meðan hann fikraði sig tröppu af tröppu. Á hverjum stigapalli barst ómur og skvaldur úr íbúðum, fólk að koma heim úr vinnu, skrölt í leirtaui, hljóð frá sjónvarpi. Uns hann var kominn alla leið upp á topp. Dyr stóðu í hálfa gátt, kakkalóninn kinkaði kolli á sínum stað og kunnuglegt kurr frá dúfunum frá stofukvistinum. Snöggvast hvarflaði að honum að ganga inn, en þá barst fótatak sem nálgaðist og rann upp fyrir honum í hverslags fjalaketti hann var staddur. Skóhljóðið færðist nær, opin íbúð, hann yrði vísast tekinn fyrir eiturætu í leit að þýfi. Fótatakið heyrðist fara fram hjá efsta stigapalli og hóf að því búnu gönguna upp síðasta stigann. Varlega opnaði Ingi gangskápinn með rafmagnstöflunni og þrýsti sér inn, fann fyrir húsaskúminu og hégómanum á andlitinu, en beið uns hurðin heyrðist falla að stöfum og hljóp þá niður stigann.
⁂
„Þokan!“ kallaði hann um leið og hann kom inn úr dyrunum (eins og það væri skýringin á seinkuninni).
„Keyptirðu í matinn!“ kallaði Hólmfríður á móti.
„Æ, andskotinn … muldraði hann lágt og svo hærra:
„Ég ætla að bjóða þér út að borða.“
⁂
Þau gengu á milli staða við Grábræðratorg og brögðuðu á matseðlum. Ingi kunni ágætlega við BastaPasta“, alla vega tryggt að maður fengi nóg. En Hólmfríður hafði í huga japanskan sem hún hafði heyrt svo vel látið af, eftir lýsingum að dæma átti hann að vera einhvers staðar hér.
„En pasta?“ spurði Ingi.
„Basta,“ svaraði Hólmfríður, „við erum búin að borða þar í þrígang.“
Í því kom sá japanski út úr þokunni, lítill og hæverskur með brosandi þjóni sem byrjaði að bukka sig strax í fatahenginu. Það var par að standa upp frá borðinu í horninu sem fyrir bragðið stóð þeim til boða. En staðurinn var svo lítill og plássið svo naumt að þau þurftu að fara aftur fram í fatahengið til að fólkið kæmist leiðar sinnar. Allt í góðu! sagði Ingi og velti um potti með burkna um leið og hann dró út stólinn sem brosandi þjónninn kom aftur á réttan kjöl.
„Ég er alveg glor,“ sagði Ingi þegar þau voru loksins sest.
„Hvor det dufter godt“, sagði Hólmfríður og dásamaði lyktina.
Þau fóru í gegnum matseðilinn, Ingi kannaðist ekki við neitt, en Hólmfríður kom honum til bjargar, alvön kínverskum bæði og japönskum frá því í San Fransiskó og Boston. Á nærliggjandi borðum sá Ingi hvernig réttirnir litu út, strax farinn að óttast að hann fengi ekki nóg.
Hann skimaði í kringum sig eftir þjóninum og fór að smella fingrum eins og Íslendingur.
„Ingi,“ sagði Hólmfríður og tók hendur hans í sínar. Þau kysstust og Ingi glefsaði létt í vörina á henni.
Að endingu kom þjónninn með rjúkandi bakka, heitar tuskur til að þvo sér um hendur og andlit. Ókei. Síðan aftur bið eftir að þjónninn tæki niður pöntun og í millitíðinni svissaði Ingi úr forrétti sem hann kunni ekki að nefna yfir í súpu sem hann kunni ekki heldur að nefna, en sýndist vel útilátin á borði grannans.
Og svo? Upphófst önnur bið, hann kunni orðið utan að fólkið á næstu borðum, þjóninn sem snerist eins og skopparakringla, fólkið í eldhúsinu og konuna á peningakassanum, bjölluna sem klingdi í hvert skipti sem farið var inn og út, brosandi þjóninn sem þreytti kapphlaup til að vera á undan kúnnanum fram að dyrum þar sem hann bukkaði sig með ósk um endurfundi. Á meðan breyttist maginn á Inga í óargadýr, þau voru búin að tala um allt milli himins og jarðar í tvígang (ekki samt heimsóknina í Grönnegade) þegar forrétturinn loksins birtist. Í miðri súpu fann Ingi að Hólmfríður lagði hönd á hans og datt fyrst í hug að hún vildi að þau héldust í hendur, leit upp og sá að hún vildi vekja athygli hans á einhverju.
„Hvað segirðu?“ hváði hann upphátt og hún endurtók með vörunum: „Þú sötrar“ og upphátt: „elskan“.
Fyrst var honum hlátur í huga, svo tók að seytla til hans úr ótal lindum reiði sem safnaðist í uppistöðulón sem beið eftir að starta heilli Sultartangavirkjun, tröllauknir burðarstaurar þrömmuðu yfir hálendið og fluttu rafmagnslínur til byggða, allt var til reiðu þegar ósýnileg hönd ýtti á hnappinn, hann stóð upp snöggt og henti samanvöðlaðri servíettu á stólinn um leið og hann strunsaði út, þjónninn náði ekki til dyranna í tæka tíð, hurðin skall og gervöll innréttingin lék á reiðiskjálfi.
⁂
Hvað segir ekki Vídalín um reiðina? Það var svoleiðis. Hann baðaði út öngum á göngunni, andlitið afmyndað, varir skulfu, hann hvorki sá né heyrði, hafði ekki hugmynd um hvar hann gekk, til viðbótar við þokuna bættist formyrkvun hugans, mildi að hann skyldi ekki verða fyrir bíl.
Þegar hann kom heim var Hólmfríður sofnuð, hann bjó um sig undir teppi í sjónvarpssófanum og þegar hann vaknaði var hún farin í skólann. Á mottunni stóð miði: „Sov godt min skat!“ skrifað innan í hjarta.
Hann strauk yfir skeggjaða kjálka og reyndi að meta tjónið. Þetta með sötrið var auðvitað hlægilegt, eitthvað mun stærra hafði orsakað sjálft gosið, sprunga hafði opnast, kvika þrýst sér upp. Ekki þar fyrir, bæði mamma hans og Kata höfðu ávítað hann fyrir sötr. Á tíma hafði það verið partur af sjálfstæðisyfirlýsingu: hver maður ætti rétt á að borða eins og hann lysti – hann nennti ekki að dvelja við þann tittlingaskít við hliðina á þessari óhemjulegu bræði sem hafði verið reiðubúin að leggja heilan restaurant í rúst (japanskan).
Hann tíndi á sig spjarirnar, en brá út af vananum: í stað þess að hlaupa meðfram síkjunum gekk hann þessar götur sem eru eins og sniðnar fyrir sakbitna menn: Österfarimagsgade, Nörrefarimagsgade, H.C. Andersen Boulevard – í Reykjavík væru menn fyrir löngu komnir inn að Geithálsi, auk þess sem Reykjavík býr ekki yfir þessum gljúfrum þar sem samháar, samfelldar húsaraðir beina hinum göngumóða leið.
Hnausþykk Hafnargufa með jöfnu bili rofin af þokulúðrum skipa.
Hann komst til sjálfs sín niður á Löngulínu, bar kennsl á hafmeyna, gekk um Tollbúðina gömlu þar sem landar höfðu lent um aldir, ýmist í hlekkjum eða stúdentar með koffort full af vistum og löngu síðar kátir voru karlar með köldu borði á Gullfossi.
Og þaðan heim.
Hólmfríður reif upp dyrnar: „Hvar hefurðu verið maður! Það hefur verið reynt að ná í þig í allan dag.“ Og svo tíðindin.
⁂
Móðir hans hafði látist í svefni. Þegar hann leit þetta elskaða andlit þótti honum sem hann væri að sjá það í fyrsta sinn. Hann var að sjá það í fyrsta sinn – allt. „Hann er allur“ segjum við í merkingunni „látinn“ og orðum um leið þessa staðreynd: að maðurinn verður til við dauða sinn („að verða til“ er eitt orðtak yfir að deyja).
Bjössi lýsti friðnum sem stafaði af ásjónu hennar áður en „hrægammarnir“ höfðu farið með hana og krufið með vísan í einhvern lagabókstaf um skyldukrufningu ef fólk deyr í heimahúsum. Hann hafði mótmælt, en þeir upplýst að þá yrði líkið fryst í einhverjar vikur á meðan beðið væri eftir dómsúrskurði, sem væri ævinlega krufningunni í vil.
Ingi sá rautt. Sama kerfi og hafði plokkað hana og reytt … steypti sér yfir hana látna. Og armur djúkboxins seildist eftir óbrotgjörnustu plötunni: hetjudáðirnar sem hann hafði ætlað að drýgja. Aðferðirnar tóku breytingum eins og fötin sem hann óx upp úr, en um það bil sem beinin námu staðar var ásetningurinn orðinn skýr: hann ætlaði að teikna hús handa mömmu sinni (stundum líka sumarbústað).
Hann kom við kalt ennið.
⁂
Hvað í ósköpunum eigum við að gera við allt þetta dót?
Það var Bjössi sem spurði, ætlunin var að ganga frá skiptum áður en Ingi héldi utan á ný. Þótt mamma þeirra byggi ein stóð íbúðin henni á beini, allir skápar fullir af drasli, aðallega krúsir sem hún gat ekki fengið af sér að henda: „Þessi krukka hefði verið flokkuð með gersemum í mínu ungdæmi“ og í kjölfarið var hún til í mörgum tugum í bland við kassa og öskjur sem ekki gat komið til álita að farga. Í svefnherberginu var risastór þrískiptur skápur troðinn og skekinn af dóti alveg frá því þeir voru litlir drengir og margir skókassar fullir af bréfum og jólakortum frá ca. fjórum tugum jóla.
Áður en við var litið var innvolsið úr skápunum komið upp á borð og stóla og flæddi út á gólfið, föt, leikföng, skóladót frá öllum skólastigum: vinnubækur, stílabækur, einkunnabækur
Á endanum brugðu þeir á það ráð að skipta stofunni í tvennt, öðrumegin var Bjössa dót, hinumegin Inga. Þegar upp var staðið var Inga bingur sjónarmun stærri og munaði mest um módelið sem hann hafði bjástrað við að smíða krakki þar sem hann endurgerði gömlu Reykjavík eftir uppdráttum og myndum.
Bjössi: „Hvað hyggstu fyrir bróðir?“
Ingi gat ekki stillt sig um að hlæja, litli bróðir orðinn stóri: „Ætli ég reyni ekki að vera „góður drengur“, ég á það eftir.“
Bjössi: „Þér er ekkert illa við að sofa hér í nótt?“
Ingi: „Ég er ekki hræddur við drauga, ef þú átt við það. Breiðholtið aftur á móti …“
Það var Inga kvalræði í hvert skipti sem hann heimsótti móður sína, fastur sunnudagsbíltúr með stelpurnar og Kötu, ekki einleikið hvað þyrmdi yfir hann í hvert skipti. Tók nærri sér að horfa upp á hrörnun móður sinnar, álag fyrri ára sem virtist ekki koma við hana á meðan á því stóð, nú hafði það elt hana alla leið hingað og heimtaði sinn toll. Á endanum þurfti hún að hella úr kaffikönnunni með báðum höndum, geislandi af gleði mitt í barnabarnamergðinni þegar Bjössi var mættur og Dísa með dalakofann sinn.
⁂
Áður en hann skilaði bílnum gekk hann berserksgang í að sortera úr honum draslið, tómar kókómjólkur-fernur, kassamiðar, appelsínubörkur, hálfétið epli. Annað fór í plastpoka: stakir vettlingar, bækur, blöð, skriffæri, nælur, spennur, rúllur… Bensínnótunum raðaði hann í búnt og brá utan um klemmu. Í hanskahólfinu ægði öllu saman og setti hann í flokkunarvanda, hann fleygði notuðum lottómiðum, sorteraði ógreiddar stöðumælasektir, kassi með verjum (átekinn).
Honum var skapi næst að láta staðar numið hér, en kyngdi stolti sínu og tók til við að þrífa bílinn, spúla af honum drulluna, leysti upp tjörulagið með heilum brúsa af tjöruleysi, ryksugaði hátt og lágt …
Ekki verra en vant er – þegar hann skilaði honum virtist hún ekki taka eftir neinu, tók örugglega ekki eftir neinu. Hann gat ekki stillt sig um að beina athygli að varadekkinu sem hann hafði látið bæta.
Hvað skulda ég þér? var allt og sumt sem hún hafði um málið að segja og blés frá sér reykjarstrók. Hún hafði tekið til við reykingar á ný. Með nýrri og nýrri sígarettu gat hún gefið út nýja frelsisyfirlýsingu. Að öðru leyti gekk þeim furðu vel að tala saman. Tíðindi af sameiginlegum kunningjum, skólaganga stelpnanna … Eiginlega lék hún á als oddi og spurði hvað væri að frétta frá Kaupmannahöfn.
„Það var þoka,“ svaraði hann.
„Býrðu hjá Bjössa?“ spurði hún.
„Nei, uppi í Breiðholti.“
Hann leyfði henni að hlæja að vild og rétti henni svo lyklana.
„Fyrirgefðu,“ sagði hún, „ég veit ekki hvað kom yfir mig.“
Hún tók lyklana og höndina með, sleppti einum fingri af öðrum uns bara einn var eftir.