Er sem var, Ívar

Soffía Bjarnadóttir

Ég samþykkti á endanum að fara með Ívari á hótel rétt fyrir utan bæinn, sem reyndist vera sumarbústaður, ekki hótel. Ég þarf varla að segja það en helgin minnti ekki á flugeldasýningu. Væntingar eiga það til að framleiða vonbrigði sem vöknuðu af órólegum svefni. Hlýr ágústmánuður var næstum á enda og endalaus rigningin hjúpaði síðustu daga sumarsins. Rigningin angraði mig ekki, síður en svo, veitti huggun frá sumrinu sem hafði tætt mig upp. Frá barnsaldri hef ég ekki höndlað íslensk sumur sérlega vel, líkaminn fer í dvala, fylgir mér ekki eftir á þessum árstíma. Hefur kannski eitthvað með væntingar eða offramboð af birtu að gera, ég veit það samt ekki. Þegar ég fluttist búferlum frá Íslandi þá lagaðist þetta. Nú er ég aftur komin heim, flutt inn á æskuheimilið og hafði fundið líkamann hálfpartinn stirðna upp yfir sumarið. Hreyfingar urðu þunglamalegri með hverjum deginum sem leið eins og ég væri stödd í formalíni. Kláði breiddi úr sér undir húð frá sumarbyrjun og ég átti erfiðara með að dvelja í dögunum. Ég beið allt sumarið eftir að þessu ástandi lyki, þetta kláraðist eins og langdregin bíómynd seint um kvöld. Beið eftir haustinu. Og það var einmitt í þessum endalokum sumarsins sem við Ívar keyrðum af stað á gljásvörtum rafbíl sem minnti á vel bónaðan líkbíl.

Ívar er dularfullur náungi. Virðist einfaldur og lifa lífi sínu án sýnilegra flækja, er kallaður til verka, í útköll, gengur hreint til verks sem mér fannst svoldið sexí en eftir þessa helgi var ég viss um að það gæti verið flókið að vera Ívar. Hann þurfti að svara símtölum reglulega og skrapp að lokum í burtu í þrjá klukkutíma um kvöldið, þessa stuttu helgarferð frá laugardegi og fram yfir hádegi á sunnudegi. Þegar ég spurði hann hvort við ættum að koma við í búð á leið okkar út úr bænum, við vorum að nálgast Borgarnes, þá fór hann að söngla með útvarpsgutlinu, I have tried in my way to be free. Svo brunaði hann bara framhjá Bónus og síðan verslunarkjarnanum og hélt förinni áfram úr Borgarnesi og áfram eftir þjóðveginum, án þess að svara.

Hann bauð mér í sumarbústað sem hann keypti fyrir arf, að sögn, og kallaði Hótel. Tignarlegur bjálkakofi umvafinn skóglendi fjarri byggð og öðrum bústöðum. Þegar við komum var búið að kveikja upp í arninum. Eldtungurnar tóku glæfralega á móti okkur, hringaðar saman upp úr stónni. Rúmin voru sömuleiðis uppbúin, einmitt eins og þetta væri hótel. Ósýnileg manneskja hafði greinilega séð um að undirbúa komu okkar, raða eldiviðnum fagmannlega upp, fylla ísskápinn af tilbúnum mat og snurfusa svefnherbergin. Í eldhúsinu var innréttaður bar fullur af fjölbreyttu áfengi sem ég hafði engan áhuga á. Á meðan Ívar hvarf til að sinna vinnu sinni um kvöldið, fór ég í sánu og fann að líkami minn var að lagast, sumarið væri brátt alveg á enda. Ívar hafði greinilega annað erindi upp í þennan bústað en að heilla mig með rómantík eða kynferðislegu aðdráttarafli. Á einhvern hátt var mér alveg sama. Dvaldi lengi ein í sánunni og steig reglulega út í rigninguna, fór í kalda útisturtu á milli, var fegin að endurheimta líkama minn aftur eftir sumarið. Eftir sánuna var tekið að rökkva, næstum orðið dimmt og ég virtist svo ein í þessum nýja heimi að ég kveikti á útvarpinu í símanum mínum. Baby Jane með Rod Stewart hljómaði í rökkrinu og ég skreið upp í rúm og dormaði. Don’t leave me hanging on the line … don’t forget I know a secrets about you… slitrur úr laginu leiddu mig inn í svefnálmuna innra með mér… it’s gonna last forever … it’s gonna last …
 Um nóttina dreymdi mig þungan draum sem markaði spor í vitundina og lét mig ekki í friði eftir að ég vaknaði:
 Ég vakna á auðu gólfi við hliðina á stórum glerkassa. Í kassanum liggja karl og kona, frosin eins og á ljósmynd. Ég held í fyrstu að þau sofi vært eins og Mjallhvít í kistu sinni, eftir að hafa bitið í eitrað epli. En þau eru ekki sofandi heldur stara opnum frosnum augum út í loftið líkt og þau séu undir álögum, hringuð saman í litlum gegnsæjum kassa. Frosið bros karlsins birtir djúpan sársauka bak við glerið og mér finnst ég kannast við hann en kunnugleikastöð heilans kveikir ekki almennilega á hver maðurinn er. Þessi mynd eltir mig frá svefni og inn í vöku og áfram frá þessari helgi eins og frosinn grátur úr öðrum heimi, vofa úr gömlu sári.

Hausinn á mér var að springa allan næsta dag, eins og ég hefði innbyrt eitur kvöldið áður, en ég drekk ekki né tek inn eitur lengur, alla vega ekki sjálfviljug. Líklega hafði ég ekki drukkið nógu mikið vatn eftir sánuna. Ég var alin upp við eitraðan kokteil sem kalla mætti afbrýðisemi og vonbrigði. Í dag finn ég nánast aldrei fyrir öfund, er of aftengd fólki til þess, en eftir þessa helgi fékk ég mígreni og fann í kjölfarið vonbrigði vaxa sem drógu fram gamalt dauðyfli innra með mér. Vonbrigðin snéru samt ekki að Ívari, ekki beint, né að sumarbústaðnum sem var alveg ágætur, heldur að sjálfri mér. Að vera að lifa hálfgildings lífi. Samþykkja eitthvað út í bláinn til að geðjast manni sem ég þekkti lítið sem ekkert og vera einmitt enn og aftur með væntingar til annars fólks, til lífsins yfir höfuð. Skil samt ekki enn af hverju hann kallaði sumarbústaðinn sinn hótel. Þetta var bara ósköp venjulegur bústaður, nokkuð ríkmannlegur, með ósýnilegu þjónustufólki.

Ég fór eins í gegnum áfengismeðferð, helmingaði mig til að geðjast heiminum. Helmingurinn fór í meðferð en hinn hlutinn hafði hreint ekki hugsað sér að breyta einu né neinu. Það er ekki mjög vænlegt til árangurs. Samt virtist þetta ganga hjá mér. Og gerir enn. Ég bjargaðist úr sjálfheldu fyrir löngu en hélt samt áfram að lifa hálfu lífi. Ég hef gert þetta lengi í öllum hlutverkum lífs míns. Er helminguð. Sem vinkona, ástkona, dóttir og líka sem þýðandi, sem kemur sér reyndar vel. Sem betur fer höfðu örlögin hagað því þannig að ég varð ekki móðir. Að vera hálf móðir hljómar undarlega þó að móðir mín hafi í raun kennt mér þessa aðferð til að lifa – jafnvel af, að helminga sig. Stundum er það einfaldlega það eina í stöðunni og kannski erum við mörg sem lifum hálfu lífi, þó að fæstir viðurkenni það kannski. Það er líka fullmikil tilætlunarsemi að manneskjan sé heil. Helmingurinn vill eiga kött og hinn fugl. Helmingurinn undirgefinn, hinn helmingurinn stjórnsamur. Helmingur vill vera í sambandi og hinn helmingur einhleypur. Helmingur félagslyndur og hinn einrænn. Einn partur er alltaf að geðjast öðrum og annar stendur fastur á sínu. Helmingurinn með stöðugar mótbárur við streymi lífsins, í andstöðu við allt og sífell barmafull vonbrigði fyrir dyrum. Ég vissi ekki hvernig ég gæti breytt afstöðu minni til lífsins. Ég var alltaf klofin, sundruð í tvær andstæðar áttir, þetta átti sér langa sögu.

Við Ívar kynntumst í raun aldrei, ekki beint, við bara vorum, eða erum. En ástæðan fyrir því að Ívar var staddur í mínu hálfa lífi var sú að ég flutti aftur inn í hús foreldra minna eftir að mamma fór á hjúkrunarheimili og pabbi flutti í litla húsið í Portúgal. Stuttu eftir að mamma var flutt á hjúkrunarheimilið tókum við pabbi kjallarann í gegn sem hafði ekki verið í mikilli notkun árum saman, svo ég vissi til. Risavaxin og niðurgrafin geymsla virtist hyldýpi, endalaus dökkur heimur falinn undir okkur og frá sýnilega heiminum. Já og pabbi sagði: „Það er rottugangur hér,“ eins og hann fyndi það á lykt eða hljóði. Ég byrjaði að þefa en fann bara innilokaða saggalykt sem minnti ekki á líf né hreyfingu. Pabbi varð alvarlegur í bragði og bætti við: „Við verðum að útrýma þeim. Þær hafa vaknað, komist aftur inn, það átti ekki að vera mögulegt. Þær fjölga sér hratt.“ Ég vissi ekki að foreldrar mínir hefðu verið í miklu meindýrastússi í gegnum tíðina, ég myndi muna slíkt. Þau hefðu pottþétt sagt mér frá slíkum faraldri í Árbænum. Pabbi talaði núna eins og hann hefði ekki gert annað en að fást við rottugang árum saman.
 „Ég held það sé best að nota bara skammbyssuna á þær,“ sagði hann á meðan hann fikraði sig innar í kjallaranum, fram hjá drasli sem hafði dvalið þarna áratugum saman. Hann virtist vera að tala við sjálfan sig en ekki mig, augljóslega kominn í vígahug bograndi í kjallaranum. „Skjóta helvítin í hnakkann,“ muldraði hann fjandsamlega. Þetta var ólíkt pabba og röddin í honum breytt. Ég hafði aldrei fyrr heyrt þetta ráð við útrýmingu á músum eða rottum, að skjóta þær. Gat ekki ímyndað mér pabba með skammbyssu í hönd, að læðast aftan að óværu sem er óvelkomin, en ég veit að hann átti riffil áður fyrr. Ég var ekki viss hvort hann væri að meina þetta með aftökuna eða hvort þetta væri sóðaleg myndlíking hjá gömlum manni.
 „Eigum við ekki bara að fá meindýraeyði í málið, pabbi minn, jafnvel kött?“ Í þessu vafstri þá man ég eftir að hafa heyrt hljóð frá einni í horninu og látið sem ég heyrði það ekki til að styggja ekki áttræðan föður minn. Vissi þó að við yrðum að gera eitthvað í þessu. Pabbi tók fram gráan stóran plastpoka og sturtaði harkalega úr pokanum á steypt gólfið. Þetta var þá poki fullur af dauðum rottum ásamt einstaka skópari. Þær höfðu jafnvel kafnað en feldur þeirra var óvenju þéttur og fagur eins og tíminn hefði ekki náð til þeirra. Það fór hrollur um mig.
 „Þetta er frá síðustu útrýmingu,“ sagði pabbi í sömu ókennilegu tóntegund og áður og virtist öllu vanur. Þær voru svo margar, en þær voru dauðar. Voru þær ekki örugglega dauðar? Gat verið að þær væru sofandi, svæfðar? Notaðar til rannsókna? Pabbi sagðist ekki hafa trú á meindýraeyðum borgarinnar eftir slælega samvinnu síðustu ára en hann þekkti mann sem tæki að sér persónuleg verkefni af ýmsum toga og hefði aldrei klikkað, hefði hjálpað sér með mörg verkefni. Ég starði á pabba eins og hann væri að upplýsa mig um að hann væri í leyniþjónustunni, KGB eða jafnvel foringi undirheima. Við vitum svo ógurlega lítið um annað fólk, jafnvel okkar nánustu. En það var á þessari stundu sem Ívar kom til sögunnar eins og einhver Mike úr Breaking Bad, öruggur reddari með grunsamlegan bakgrunn.

Eftir að Ívar hafði verið kallaður á svæðið og fjarlægt öll verksummerki um óvelkomið líf í kjallaranum þá hreinsuðum við pabbi allt út þessa helgi. Allt. Dauðhreinsuðum kjallarann og hentum öllu sem þar hafði verið; rottum, skópörum, jólaskrauti, stólum, skenk, skautum, veiðistöngum, vaðstígvélum og endalausum kössum og svörtum ruslapokum fullum af einhverjum andskota, rykföllnum bókum, meira að segja brúðarkjóll mömmu sem hékk þarna stirðnaður og hálf óhuggulegur uppi á herðatré, fór beinustu leið í ruslið. Ekki veit ég af hverju þessi 50 eða 60 ára gamli kjóll hékk þarna uppi eins og múmía, minning, jafnvel vonbrigði. Við gátum ekki hugsað okkur að gefa eða selja eitt né neitt, við vorum sammála um það og okkur lá mikið á að eyða öllu sem minnti á fortíð og líf okkar, meira að segja fjölskyldualbúm fékk að gossa, þessu var öllu hent upp á kerru og ekki ætlað til framhaldslífs. Við tvö vorum sem betur fer ekki hordarar fjölskyldunnar, þá hefði þessi aðgerð tekið sinn tíma. Það var aðeins eitt sem pabbi skildi eftir í kjallaranum og það var riffillinn sem fannst rykfallinn í fataskáp. Að svo búnu þá var kjallaranum lokað með slagbrandi. Þetta var það síðasta sem við pabbi gerðum saman. Síðan var hann farinn til Albufeira og ég gleymdi að spyrja hann hvar og hvernig hann kynntist þessum dularfulla og já, nokkuð kynþokkafulla Ívari. Það barst síðan aldrei í tal í reglulegum skylduræknisímtölum okkar um veður og mottur, en það var nýr áhugi pabba, að leita uppi teppi og mottur á mörkuðum, helst sem höfðu einhverja lygasögu að segja. „Þessi nýja persneska er frá gömlum herragarði í héraðinu sem var bannað að heimsækja og hún hylur forstofugólfið vel,“ sagði hann holum hljómi í einu símtali okkar.

Um tveimur mánuðum eftir leiðangur okkar í Sorpu, tilraunina til að eyða einhverju úr lífi okkar, er dyrabjöllunni hringt. Ívar stendur þá við dyrnar með lyklakippu í hendinni. Hann brosti ekki en var heldur ekki beint alvarlegur á svip. Hann sagði ekkert til að byrja með, heldur horfði á mig eins og hann væri að reyna að finna orðin og komast sjálfur að erindi sínu við húsið mitt. Hann hristi lyklakippuna af og til, ræskti sig og var lengi að koma sér að efninu, samt var ekkert sem benti til þess að þessi maður væri óöruggur eða feiminn. Hann var þó greinilega tvístígandi varðandi erindi sitt en reyndist vera með lykla að kjallaranum mínum. Eða kjallaranum hans pabba. En það er ekki innangengt úr húsinu heldur gengið inn í kjallarann að utanverðu frá bakgarðinum. Ívar var því að hrista lykla sem gengu að lásnum sem pabbi hafði lokað og læst slagbrandinum með. Pabbi hafði ítrekað við mig að láta þennan kjallara hér eftir eiga sig, það væri ekkert þangað að sækja og þetta væri ekki gott geymslupláss, of niðurgrafið, það hefði verið viturlegra að steypa upp í kjallarann á sínum tíma, alla vega fyrir opið, hafði hann á orði. Mér var nákvæmlega sama um þennan kjallara, hafði ekkert við hann að gera og hafði ekki hugsað um hann eftir hreinsunina miklu.
 „Guðmundur vildi að ég kannaði stöðuna á kjallaranum.“
 „Nú, hvenær talaðirðu við pabba? “
 „Nei sko, hann lét mig fá lyklana á sínum tíma og … þetta er auðvitað búið að vera viðvarandi vandamál.“
 „Haa, hvaða vandamál?“ Ég var hvassari í málrómi en ég ætlaði mér og setti því upp kæruleysilegt bros í kjölfarið.
 „Með kjallarann, þess vegna bað hann mig að koma.“ Ívar var orðinn óþolinmóður og styttri í spuna. „Ég er nú yfirleitt ekkert að garfa í húsum og kjöllurum hjá fólki, þetta er bara samningur sem ég gerði við Guðmund á sínum tíma. Fyrir löngu reyndar.“ Hann dró andann hægt inn og varð aftur yfirvegaður í fasi. „Afsakaðu ónæðið, ég vildi bara láta þig vita að ég væri á leið í kjallarann núna og ég hef litið reglulega við en gengið hljóðlega um og ekki kunnað við að banka hjá þér fyrr. Ég mun kíkja við af og til.“ Ívar lauk máli sínu eins og leynilegur fasteignasali. Það var ekki lengur neitt hik á manninnum þegar hann gekk frá dyrapallinum.
 Ég var svo ringluð að ég vissi ekkert hvað ég ætti að segja við Ívar svo ég kallaði bara á eftir honum: „Viltu kaffisopa þegar þú ert búinn … þarna í kjallaranum?“ Ívar, sem var kominn að horninu á húsinu, stoppaði við, leit á lyklakippuna í lófanum stutta stund og síðan í átt að mér. „Já, takk,“ sagði hann svo snöggt án þess að horfa í augun á mér, „ég verð enga stund.“ Svo var hann horfinn fyrir hornið. Þannig hófust kynni okkar Ívars, eða tengsl. Í gegnum pabba og niðurgrafinn kjallara á æskuheimili mínu. Ég komst að því síðar að Ívar var ekki hans rétta nafn, hann hafði sínar ástæður og hafði búið á Íslandi í um tuttugu ár með margs konar starfsemi. Hann virtist eiga nóg af peningum og því skildi ég ekki af hverju hann var í þessum kjallarabisness fyrir pabba. En það skipti mig engu máli, þannig.

Eftir helgina okkar saman í bústaðnum þá fór ég þó að velta því fyrir mér hvort sumarbústaðaferðin væri einnig hluti af þessum svokallaða samningi milli pabba og Ívars. Þetta væri bara djobb sem hann væri að vinna, klára, eins og önnur útköll og kjallaraheimsóknir. Ég ákvað að minnast ekki á þessa ferð við pabba, fannst það ekki koma honum við og vissi heldur ekkert hvernig pabbi myndi bregðast við þeim upplýsingum. Þegar Ívar bauð mér aftur nokkru síðar á „hótelið“ þá hafði ég þó alla vega dug í mér til að afþakka og bera fyrir vinnutörn, sem var haugalygi. Reyndar er starf þýðandans eilíf törn sem tekur engan enda, pyttur sem þú syndir í og myndast við að taka sundtök af veiku afli. En ég var ekki að skila neinu af mér á næstunni og því ekki meiri törn þessa helgi en aðrar. Ívar virtist sorgmæddur við höfnunina, vissi að ég væri að ljúga, eða réttara sagt að búa til einhverjar ímyndaðar hindranir. Sorgmæddi svipurinn dvaldi þó bara stutta stund í andlitinu á honum, eins og gríma sem hann rétt lyfti upp og tók um leið niður aftur. Hann var nokkuð hávaxinn, grannur með breiðar herðar, eins og sundkappi. Dró sig saman og varð lítill drengur örskotsstund en reis síðan aftur upp, lungun fylltust af lofti og fyrir vikið virtist hann stærri en áður. Snöggklipptur, með stóran dökkan fæðingarblett í andlitinu, fyrir ofan efri vör, hægra megin. Þar af leiðandi horfði ég oft á blettinn í stað þess að horfa í augun á honum. Líklega var hann vanur þessu. Það var aðdráttarafl falið í þessum Monroe bletti nálægt munnvikum en augnaráðið var hins vegar of flókið að ráða í.

Mamma lifði ekki lengi á hjúkrunarheimilinu, enda var hún hætt að tala og lá að mestu fyrir í rúminu. Ég bað pabba að koma heim frá Albufeira og aðstoða mig við jarðarförina en hann sagðist ekki treysta sér. Ég gat ekkert sagt. Hann var vel á sig kominn og ekki að glíma við krankleika, svo ég vissi, en ákvað samt að koma ekki í jarðarför konunnar sem hann var giftur í nær sextíu ár. Ég þagði bara, andaði í símtólið.
 „Saga mín, ég er búin að kveðja, það er ekkert fyrir mig að gera þarna lengur. Þetta verður allt í kyrrþey hjá okkur, kemur ekki annað til greina.“ Þegar ég svaraði engu klikkti hann út með þessum orðum:
 „Hann Ivanov sér um þetta fyrir mig og ef þú vilt að hann komi með þér í kistulagninguna, þá gerir hann það, ég treysti honum hundrað prósent.“
 „IVANOV? Í hvaða rússnesku skáldsögu býrð þú eiginlega?“ Ég missti þetta hranalega gól eiginlega út úr mér, því við pabbi héldum okkur alltaf innan kurteisismarka. Það var óyrt samþykki um línu sem þú ferð aldrei yfir. En pabbi lét hins vegar eins og hann hefði ekki heyrt hvað ég sagði, eða réttara sagt hrópaði. Það heyrðust skruðningar og ég heyrði ekki orðaskil, eitthvað muldur, líklega var hann að kveðja. Það var eins og hann hefði lagt símann frá sér án þess að slökkva, síðan var símtalið sett á bið og lyftutónlist hljómaði í símanum eins og pabbi væri orðinn stofnun. Ég missti máttinn, breyttist í þungt blý og sökk ofan í sófann með hendur og síma í kjöltu og horfði út um gluggann á eitthvað sem líktist þéttvöxnum fugli á trjágrein sem slútti niður að stofuglugganum. Eins og hann hefði gleymst um sumarið, orðið eftir á grein í garði. Það virtist ekkert fararsnið á fuglinum, var límdur við greinina sem teygði anga sína að glugganum, rétti lófa sína til mín. Fuglar eiga ekki að sitja endalaust á sömu grein, þeir eiga að fljúga á milli greina, á milli trjáa, syngja, kallast á og halda svo áfram för sinni milli árstíða, inn í aðra vídd, hugsaði ég í sófanum eftir símtalið við pabba.

Við Ívar vorum ekki lengur í sambandi eftir stutt sumarkynni, hætt að drekka kaffi saman og hætt að sofa saman. En hann stóð hins vegar eins og klettur við hlið mér yfir kistu móður minnar í kapellunni í Fossvoginum í byrjun desember og ég hafði aldrei fundið jafn mikinn styrk frá neinni manneskju. Vinátta okkar var þar með innsigluð og ég vissi að ég gæti treyst á hann í óvæntum aðstæðum, fann það bæði í húð og beinum. Mig varðaði ekkert um fortíð hans, vafasama atvinnustarfsemi eða samninga við föður minn eða aðra. Ég gat einfaldlega treyst honum fyrir mikilvægum þáttum lífsins, og nú einnig fyrir dauðanum, og það er ekki lítið.

Mamma lá eins og einmitt Mjallhvít í bláum kjól með hvítt hár sem dreifðist yfir koddann og myndaði hrímaðan geislabaug, sem var sérkennilegt. Hún var þó ekki í glerkistu heldur hvítlakkaðri viðarkistu. Andlitið, kinnar og kinnbein, hafði verið málað með bleikum kinnalit og hún var loksins friðsæl að sjá. Hún var samt ekki í dái eins og í sögunni um Mjallhvíti og dvergana, hún var löngu farin, ekki lengur þessa heims, eins og pabbi auðvitað vissi. Líkamshulstrið hennar virtist brothætt, eins og fornt leirker. Húðin ekki lengur húð heldur gegnsætt líkamslak yfir beinin. Í andlitinu voru punktar, nýir fæðingarblettir sem ég hafði aldrei tekið eftir fyrr, á enni, við gagnauga, á kinnbeini og höku. Hún var nær óþekkjanleg. Annars heims vera. Mig langaði að gráta fyrir hana en það komu engin tár á þessari stundu við opna kistuna. Þurrkur í uppistöðulóni.

Dagarnir voru frekar hljóðir og tíðindalitlir á eftir fámennri jarðarförinni. Hljóðlát sorgin læddist um, hún var ekki ný af nálinni, þó að hún hefði nú andlit og nafn umbreyttrar móður sem var löngu horfin. Í þessari nýju þögn fór ég að heyra svo mikið í húsinu. Hljóð sem ég hafði aldrei heyrt eða tekið eftir fyrr. Ískur og kurr í gólffjölum, gluggakörmum og rjáfri. Þögnin magnaði upp hljóð sem glumdu í höfðinu á mér. Ég ákvað því að hringja í Ívar einn morguninn eftir svefnlitla nótt, heyra í honum hljóðið frekar en í húsveggjunum. Símtalið var stutt, eins og ég þyrfti ekkert að segja. Hann sagðist kíkja við síðdegis. „Ég kem, þetta verður allt í lagi,“ svo lagði hann á.
 Á slaginu fimm stóð hann inni í eldhúsinu mínu með kött í fanginu. Ég horfði skeptísk á veggklukkuna og köttinn til skiptis.
 „Þetta er Lorca, og hún ætlar að búa hjá þér, alla vega um tíma,“ sagði hann auðmjúkri röddu og klóraði í hálsakot kisu. „Ég skírði hana á sínum tíma í höfuðið á dóttur Leonards Cohen,“ bætti hann stoltur við. Ég fór að hlæja sem kom sjálfri mér á óvart í svefnleysisdoðanum en Ívari fannst þetta ekkert fyndið.
 „Ekki skáldinu sumsé?“ spurði ég flissandi og tárin byrjuðu óvænt að renna niður vanga. Ég gat ekki annað en hrifist af þessum alvarlega vini mínum.
 „Hvað með Ruby í höfuðið á dóttur Rod Stewart?“ bætti ég við hálfgrátandi og um leið flissandi, „eða bara Baby Jane, já er þetta ekki Baby Jane, það er gott nafn.“
 „Nei, hún heitir Lorca, ekki Ruby eða Baby,“ svaraði Ívar ákveðinn, yggldi sig og stökk ekki bros.
 „Er þetta ekki læða, hvað með Maggie May?“ hélt ég áfram að bulla upp úr svefngalsa vel fyrir kvöldmat og gat ekki sleppt takinu á Rod Stewart konseptinu sem ég var alveg sérstaklega ánægð með á þessu augnabliki. Ívar nennti ekki þessum nafnaleik, var enginn leikur í hug. Nafnið Lorca var greinilega löngu skjalfest og skipti hann jafnvel einhverju máli. Það var ekki hægt að hagga nafngift á heilagri kisu sem var nú flutt á æskuheimilið mitt eins og ég sjálf. Ég var samt hikandi í fyrstu, fannst eins og ég væri að brjóta reglur heimilisins, mætti ekki taka við kettinum. Það máttu engin dýr koma inn á heimilið þegar ég var barn. Þau voru litin hornauga. En það er liðin tíð, býst ég við. Dýr höfðu samt greinilega fundið sér sína eigin leið að húsinu í gegnum tíðina.
 Lorca hafði svartan feld, hvíta snoppu og eina hvíta loppu. Hún leit skyndilega dreymandi á mig úr fangi Ívars, horfði beint í augun á mér. Helmingurinn af mér varð hamingjusamur á þessu augnabliki í eldhúsinu sem ég leit Lorca. Eins og augnaráð hennar hefði skotið Amors örvum undir húð og í hjarta mitt. Ég var líkt og amma sem sér barnabarn sitt í fyrsta sinn, ímynda ég mér. Óvænt uppskera út úr lífinu, framlenging, fegurð, ódauðleiki, níu líf, happdrættisvinningur. Hinn helmingurinn fékk auðvitað innilokunarkennd, eins og þessi ókunni köttur yrði helvítis hindrun alls frelsis og ferðalaga um ókomna tíð. Ég þurrkaði tárin úr andlitinu með handarbökunum, andaði djúpt og fann hvað ég var þreytt.
 Ívar setti Lorcu á gólfið. Hún lagðist strax makindalega niður og breiddi heimilislega úr sér.
 „Ég þarf að koma mér, hér er lykillinn að kjallaranum,“ sagði hann á leið sinni út og rétti mér lyklakippuna sem hann hafði hrist reglulega þegar hann kom í fyrsta kaffibollann um hálfu ári fyrr. Hann strauk lófann á mér létt og ég starði um leið djúpt inn í blettinn á yfirveguðu andliti hans. Langaði að falla inn í dökkan, áberandi punkt sem minnti á málningarslettu á hvítri húð við efri vör.
 „Verkefninu er lokið,“ sagði hann og blikkaði öðru auga, „þú ert laus úr álögum.“ Loksins myndaðist bros á vörum Ívars, ég held að þetta hafi jafnvel verið í fyrsta sinn sem ég sá hann brosa svo frjálslega.
 Eftir að ég kvaddi Ívar lagðist ég örmagna undir teppi í sófanum í stofunni og fór að hugsa um frávik vanans, orðalag frá Ívari. Lorca kom stuttu síðar hljóðlátum skrefum inn í stofu, stökk fimlega upp í sófa og lagðist hjá mér ofan á ullarteppið. Augnlokin okkar fjögur lögðust aftur og ég fór að velta fyrir mér hvar Ívar byggi, hann hafði aldrei boðið mér heim til sín eða talað um heimili sitt, einungis hótel. Þegar ég spurði hann um hóteldrauma sem hann virtist hafa þá svaraði hann: „Hótel eru frávik vanans.“ Þetta svar læddist nú um huga minn, löngu síðar, á meðan ég klappaði mjúkum feldi með lokuð augu. Heimiliskettir geta ekki verið frávik, þeir staðfesta vana en Lorca var samt frávik í lífi mínu á þessari stundu. Ætli Lorca sé hótelköttur eins og Ívar? Flækingur milli staða og klappandi handa? Villiköttur sem prófar stóla og rúm eins og Gullbrá í leit að samastað. Villikettir staðfesta líka vana eins og heimiliskettir, merkja og eigna sér svæði: veitingastaði, götuhorn, ruslahauga, þakrennur, kjallara. Við þessar hugsanir sofnaði ég við miðstöðina frá malandi ketti.

Ívar virtist vita hvers fólk þarfnaðist, eða alla vega ég á þessum tímamótum lífs míns, því kötturinn Lorca reyndist himnasending. Með veru sinni undir sama þaki um veturinn breytti hún smám saman afstöðu minni til lífsins. Fínstillti innra lífið svo úr varð falleg lítil brú á milli stríðandi fylkinga innra með mér, án áreynslu og átaka.

Næsta vor hætti ég mér aftur niður í kjallara foreldra minna, það var eins og eitthvað kallaði á mig þangað til að rannsaka ummerki um líf eða jafnvel dauða, ári eftir aðgerðir okkar pabba. Lorca elti mig út í garð og niður steintröppurnar en hún steig ekki inn fyrir dyragættina. Kjallarinn var enn tómur að sjá og engar rottur sjáanlegar fyrir utan eina dauða í glerkrukku sem hafði verið komið fyrir á miðju gólfi svo hún blasti við þegar ljósið kviknaði og gengið var niður tröppurnar. Hún stóð beinstíf á hvolfi í krukkunni. Afturlappir og langur, mjór, brúnn hali stóðu upp frá glerbrúninni, uppstoppuð áminning um veru sína á jörðinni. Við Lorca horfðum um stund á þennan þögla, stirðnaða gjörning. Við hreyfðum ekki við krukkunni en fikruðum okkur saman aftur á bak með rófubeinin tvö, rófu og rass, upp frá kjallaraopinu. Ég lokaði hleranum að kjallaranum og setti slagbrandinn fyrir.