Helgi Ingólfsson
I. hluti: 1941
„Allt vald er mér gefið á himni og jörðu,“ sagði Jesús ofan af krossinum.
Andrés leit ergilega upp, kviknakinn. Í guðanna bænum, hugsaði hann, ekki núna! Vissulega var sérstakt, jafnvel einstakt, að frelsarinn talaði til hans. En Herrann kunni sig ekki og valdi hin vandræðalegustu augnablik.
„Eigi er ég kominn að kalla til réttláta, heldur syndara,“ hélt Jesús áfram flauelsröddu, sem minnti mest á G-streng á sellói, strokinn með boga.
Andrési hætti augnablik að skaka á kvenmannsbelgnum og skotraði augum gramur upp á róðukrossinn. Gætirðu ekki þagað bara núna, Herra? hugsaði hann ergilega. Núna. Bara núna!
„Nei, nei!“ emjaði Dedda undir Andrési, allsber fyrir utan sokkabandabeltið. „Ekki hætta núna, ástin! Ég finn svo vel fyrir þér!“
„Elska skaltu náunga þinn eins og sjálfan þig,“ hélt Jesús áfram að tauta ofan af róðunni. „Ekkert annað boðorð er æðra.“
Betra, herra. Andrés herti á. Meiri elska, minni boðskapur. Þetta myndi hjálpa honum yfir síðasta hjallann. Viðarrúmið skjökti með braki og brestum, lakið vöðlað undir þeim, sængin út á gólfi. Hann fann áfengisremmu úr munni Deddu. Holdlegt samneyti við ástkonurnar var næstum af trúarlegum toga, hans eigin svitastorkin píslarganga upp Golgatahæð.
„Já! Já!“ rumdi hann og gaf frá sér geldingatenórsgól.
„Já! Já!“ emjaði Dedda.
Og þegar stundin rann upp, stóra stundin, máske eina stundin sem er þess virði að lifa fyrir, sá hann fyrir hugskotssjónum skuggamynd af manni krossfestum á svörtu felli andspænis blóðrauðu sólarlagi, uns allt sprakk og leystist upp fyrir augum hans. Líkaminn stífnaði, hver einasta taug þanin til hins ýtrasta eins og fiðlustrengir sem komnir eru að því að bresta. Síðan komu ósjálfráðir krampakippirnir, eins og dauðateygjur krossfests manns. „Jesús Kristur!“ hrópaði hann. Og bylgjur flæddu um hann frá kálfum upp í hvirfil; líkaminn líkastur vatni sem rafstraumi er hleypt á.
„Já, ástin mín! Já!“ heyrði hann rödd Deddu úr fjarska, gegnum dunandi nið fyrir eyrum, og hann fann hana læsa nöglum í bakið. „Láttu vaða! Láttu vaða!“
Og svo var það búið. Eins og það hefði aldrei gerst. Hann velti sér á bakið, opnaði augun og sá kunnuglega sjón, upp undir iljarnar á krosshanganum, beint yfir höfðagafli rúmsins. Og þótt hann sæi ekki andlit líkneskisins, þá vissi hann að Kristur brosti við honum. Var það hæðnisglott? velti Andrés fyrir sér og fann vart fyrir Deddu, sem hjúfraði sig að honum, heyrði ekki blíðuorð hennar nema í holum fjarska. Hann var sjálfur kominn yfir hjallann, yfir sína Hausaskeljahæð, og var á niðurleiðinni hinum megin. Kominn yfir fertugt, stöðugt erfiðara að gera ástkonunum til hæfis og sjálfum sér til fróunar. Andinn var ætíð reiðubúinn, en núorðið var holdið stundum ekki ýkja viljugt. Alla vega ekki jafn viljugt og áður. Þráin var til staðar, en ekki þrekið. Og hann heyrði ekki blíðuhót ástkonunnar, því að hugurinn, undarlegast allra verkfæra, var tekinn að móta orð og leika sér að rími. Alþjóð hefur ekki fengið að vita það fyrr, en það var einmitt eftir þennan ástarfund með Deddu að Andrés á Björtubrekku orti landskunna stöku:
Böl að tendra bál með grút,
blossinn deyr að kveldi.
Þegar lostinn þynnist út
er þrengt að lífsins eldi.
„Færi ég þér gleði?“ spurði hún ofurblíðlega og Andrés áttaði sig á að hún var sest upp, búin að klæða sig í nærhaldið og tekin til við silkisokkana, sem hún vöðlaði niðurúr, smeygði tánni í og dró svo þokkafullt upp með fætinum. Rödd hennar var dálítið drafandi; eins og alltaf var Bakkus með í för. Þau voru ekki bara tvö við þessa þokkaiðju, heldur Jesús og Bakkus líka. Þokkalegur selskapur atarna, öll fjögur saman í rúminu.
„Þú færir mér alltaf gleði,“ svaraði hann ljúfmannlega og litaðist um í svefnherbergi sínu. Annars staðar í húsinu hlóð hann bókum, en hér í svefnherberginu í Björtubrekku vildi hann hafa allt einfalt í sniðum, jafnvel meinlætalegt: Fataskapur, stóll, rúm, ævaforni róðukrossinn sem Lórenz bróðir hans hafði keypt suður á Ítalíu og fært honum að gjöf. Sólargeisli lýsti upp krossinn núna; sólin braut sér leið með skjannabirtu meðfram jaðri samandreginna gardína: Sjálfsögð varúðarráðstöfun; jafnvel á svona afskekktum stað gat alltaf borið gest að garði, meira að segja afbrýðisama eiginmenn. Og þótt það gæti vart talist rómantísk hugsun fékk Andrés ekki varist því að fyllast áhyggjum út af sprungunni sem lá skáhallt yfir steinsteyptan útvegginn; byggingin átti jú að teljast nánast ný. Of ung fyrir sprungur. En endum við ekki öll þakin sprungum, molnuð, nöguð af tímans tönn?
„Meiri en hinar?“ Hún stóð á fætur og festi sokkakrækjurnar í sokkabandabeltið.
„Þú veist að ég get ekki svarað þessu.“ Hann hafði reynt að halda þeim aðskildum, en ekki var hjá því komist til lengdar að kvis kæmist á stjá. Hinar tvær vissu samt ekki af Deddu – þótt hún vissi af þeim. „Þið eruð mér allar jafn nauðsynlegar. Karíturnar mínar þrjár.“
„Eða refsinornirnar þrjár, hinar hræðilegu fúríur úr Oresteiu.“ Dedda var ekki með öllu ómenntuð; hún hafði lokið stúdentsprófi frá Hinum almenna menntaskóla syðra og lært sína grísku goðafræði. Og norræna líka „Eða örlaganornirnar. Veistu hvað ég held?“ Hún tók blússu sína af stólnum og brá sér í hana, þó án þess að hneppa. „Ég held að ástarljóðin, sem þú sendir mér, notir þú líka í bréfum til hinna. Ég held að þú þaulnýtir ljóðin.“
Nú var hann líka risinn úr rekkju og kominn í buxurnar, án föðurlandsins þó. Hann staðnæmdist með höndina sem var í þann mund að teygja sig eftir skyrtunni. Hún hafði hitt á viðkvæman streng, jafnvel þann viðkvæmasta. En hún skar hann niður úr snörunni áður en hann þurfti að svara.
„Það er í lagi,“ sagði hún glaðlega, þó ekki fölskvalaust, ögn blandið beiskju. „Ég deili þér með öðrum ef nauðsyn ber til. Mér er sama þótt ég eigi bara brot af þér. Þriðjungur af þjóðskáldi er meira en flestar eiga.“
Til allrar hamingju var hún umburðarlyndust af ástkonufélaginu, eins og hann kallaði það stundum kaldhæðnislega í huganum. Þess vegna drakk hún með honum, til að horfast í augu við að hún ætti hann ekki ein og ætti hann aldrei óskiptan, um alla eilífð. Þess vegna drakk hún. Hún var sú sem vissi – og þurfti að drekka til að gleyma.
Hann klæddist skyrtunni, brá þumlum undir axlaböndin og lét þau falla á herðar sér með smelli. Svo kyssti hann hana á kinnina. „Þú ert gersemi, Dedda.“ Um leið velti hann því fyrir sér hvort hún hefði verið með Breta. Fjandakornið, hann hafði engan rétt á að velta því fyrir sér.
Þau fóru fram í eldhúsið, þar sem kolaeldavélin var. Þetta var hlýjasta herbergi hússins, þarna undi Andrés sér oft við skriftir á köldum og myrkum nóttum. En nú voru þau bæði hálfklædd, hann í skyrtunni óhnepptri, með axlabönd, án sokka, og hún í blúndublússu sem var nógu síð til að ná niður á mið lærin. Sólin lék í heiði og skein inn um eldhúsgluggann, sinnulaus um þann vægðarlausa hildarleik sem hrellti milljónir í útlöndum. Á eldhúsborðinu stóðu enn viskíglösin hálffull; White Horse-flaskan, sem Lórenz hafði sent honum í afmælisgjöf, komin í neðsta fjórðung. Dedda hellti upp á kaffi og drýgði með extrakt meðan Andrés fór niður í dimman og kaldan kjallarann með mjólkurkönnu í hendi og sótti þar dreitil úr brúsanum sem hann fékk sendan vikulega utan frá Steinkirkju. Í hálfrökkri kjallarans sá hann mús hlaupa yfir moldargólfið og hverfa á bak við trékassa. Honum stóð á sama – líf var líf. En hann velti því fyrir sér hvort músargreyið vissi af sumarblíðunni úti við; hvort hún ætti ekki frekar heima í haga en húsi, að minnsta kosti þegar hlýjustu mánuðir ársins voru að ganga í garð.
Án þess að mæla orð af vörum settust þau við eldhúsborðið með kaffi í bollum og viskí í glösum og horfðu út um eldhúsgluggann, yfir breiðu af baldursbrám sem óx skammt frá húsveggnum, niður að Fnjóská, yfir skógarnefnuna og út að Vaglafjalli og Lundsfjalli. Handan skarðs lá Fornastaðafjall eins og eilífðin sjálf. Sólböðuð íslensk náttúran var svo gróðurvana að skógurinn var nánast dónalegur; eins og græn hárpjatla á líkama landsins, skapahár sitt hvoru megin við ána.
Lengi vel höfðu þau ekkert að segja, eins og títt er um pör eftir ástaratlot. Umhverfið minnti á hógláta kyrralífsstemningu, eldhús með tveimur hreyfingarlausum hálfklæddum persónum sem mændu út um glugga, fölgulir veggirnir, ar svífandi í sólargeislum, dós af Freyju-kaffibæti, kolaeldavélin, útvarpsviðtækið sem ekki náði útsendingu nema með ógurlegum skruðningum. Þetta hefði Jan Vermeer viljað mála eða Pieter de Hooch. Hér leið elskendum vel, hér voru þau óhult gegn hremmingum heimsins.
Þá heyrðist gnýr í fjarska. Vafalítið Bretaflugvél í eftirlitsflugi; landar áttu næsta fáar rellur.
„Við bein Jónasar! Aldrei mun ég venjast þessu bannsetta skrölti,“ sagði hann. „Og þetta er margfalt verra síðan bresku dátarnir löguðu flötina inni á Melgerðiseyrum. Þessi dómadags háreysti er eins og prump í miðjum Brandenborgarkonserti!“
„Þetta er það sem koma skal.“ Dedda sötraði kaffið dreymin. „Stórar flugvélar sem draga yfir úthafið. Einhvern tíma á næstu árum hættum við að þurfa að stíga á skipsfjöl til að sigla utan. Við munum bara hverfa í silfraðan magann á svona fugli sem ber okkur alla leið.“
Þetta þótti honum erfiðast: Þegar hún reyndi að gerast skáldleg til að þóknast honum. Í henni bjó í reynd varla snefill af skáldlegri taug.
„Núna eru eingöngu ránfuglar á flugi,“ umlaði hann. „Og ránfiskar á höfunum.“
„Já, hræðilegt hvernig þeir hafa skotið niður fiskiskipin okkar með þessum kafbátum. Eða breska orrustuskipið sem þeir sökktu fyrir sunnan. Hugsaðu þér bara. Fjórtán hundruð Bretar sendir í einu í vota gröf.“
„Ég er heppnari en Dabbi. Hann er með legíó af soldátum í túnfætinum á Fagraskógi, en hér erum við þó í friði fyrir slíku.“
„Um stundarsakir. Hver veit hvernig það breiðir úr sér, þetta stríð.“ Þetta var ein ástæðan fyrir sambandi þeirra: Óvissutímar, efinn, örvæntingin, eftirvæntingin – allt sem fékk blóðið til að ólga. Hvað ef morgundagurinn kæmi aldrei? „Og engum er treystandi. Nú hefur Hitler ráðist á Stalín. Og þeir áttu víst að heita félagar.“ Hún hvarflaði augum að ref, sem hljóp þvert yfir hlaðið, laumulegur og var um sig. „Hvernig heldurðu að það verði?“
„Hvað þá?“ Hann horfði beint í augu hennar. Dedda tók því þegjandi að deila honum með öðrum, en síst mundi hún sætta sig við ef hann tæki sér einhverja henni yngri. Konur – svo óútreiknanlegar í elsku sinni og afbrýðisemi. Og sjálf var hún tíu árum yngri en hann, hvorki fögur né ljót, bara venjuleg, fyrst og fremst venjuleg. Fölbrúnt hárið var stuttklippt og lagt eftir einhverri filmstjörnutísku innan frá Akureyri. Eins og Claudette Colbert. En það var bara hárið sem kom frá útlöndum. Varir hennar voru þunnar, andlitsfallið kantað, augnsvipurinn hundslegur. Birna, sem var fegurst í ástkvennafélaginu, líktist örlítið Hedy Lamarr, en hafði gáfur á við heimalning.
„Eftir að Þjóðverjar hafa lagt undir sig næstum alla Evrópu. Þeir virðast óstöðvandi.“
„Spyrjum að leikslokum. Auk þess þarf það ekki að vera svo slæmt fyrir okkur á Íslandi, þeim er mörgum hlýtt til landsins.“ Eldhúsið var baðað birtu, en stakt ský dró fyrir sólu og skyggði kaffibollann í hendi hans. Andrés fann fyrir snert af þeirri einu tegund afbrýðisemi sem skáld fundu fyrir: Nú hafði Gunni víst farið á fund við sjálfan Hitler og tekið í spaðann á honum, sisvona prívat og persónulega. „Það er helst að þeir gætu refsað okkur fyrir að hafa ekki tekið verr á móti Bretum. Annars er kvittur í gangi um að Bandaríkjamenn sendi hingað herlið til að leysa Bretann af hólmi.“
„Hvers vegna ættu þeir að gera það? Þeir eiga ekki í stríði.“
„Kannski vilja þeir ekki hafa Þjóðverjann of nálægt sér. Enda: Hver vill það, eins og Þjóðverjar eru orðnir? Að hugsa sér, hvernig komið er fyrir þjóð Beethovens og Goethe.“
„Ég held að við ættum frekar að hafa áhyggjur af byssuhreiðrunum sem verið er að koma fyrir hér uppi í óbyggðum. Hugsaðu þér, hvernig farið getur fyrir gangnamönnum í haust, þegar þeir fara á fjöll, og enskurinn heldur að þeir séu þýskarar að gera innrás.“
Andrés brosti að þessari mynd. „Verðum við ekki að gera ráð fyrir að þeir þekkist af skjátunum sem þeir reka?“
Hann hugleiddi hvernig það væri, ef hann tæki sér kvenmann til að hugsa um sig til frambúðar. Inn í ellina. Eins og Einsi gamli hafði gert, dauður í fyrra, blessuð sé minning hans. Sá hafði líka drukkið heima hjá sér, heldur betur. Dedda hafði ráðskonuna í sér. Eitt hið fyrsta sem hún gerði undantekningarlítið, þegar hún kom inn fyrir hússins dyr að Björtubrekku, eftir koss í anddyrinu, var að sjóða vatn og vaska upp allt óþvegna leirtauið sem hlaðist hafði upp; fyrr fóru þau ekki í bólið. Já, Dedda gæti hugsað um hann vandkvæðalaust og var reiðubúin til þess, á því lék enginn vafi.
Þetta var svo undarlegt. Þegar hann var hér einn, jafnvel meðan hann orti af kappi, þráði hann konurnar eins og funi léki um æðar, en fljótt eftir komu þeirra, eiginlega strax eftir að hann hafði svalað fýsnum sínum, gat hann vart beðið eftir því að þær færu svo hann kæmist aftur til að vinna. Ef hann fengi kvensu inn á sig til frambúðar, þá myndi yfirgefa hann eina ástkonan, sem hafði skipt hann máli í lífinu: Músan.
Sem kom núna, í sömu svifum og honum varð litið út um gluggann. Hann dró snöggt til sín blýantsstubb og hvíta örk og skrifaði viðstöðulaust:
Baldursbrá
björt að sjá
breiðir faðm af lífsins þrá
í hvítum kjól,
með kjarna sól,
kær hún prýðir ból.
Hm. Þetta mætti kannski syngja við lagið við Signir sól.
II. hluti: 1942
Í vöku talaði Jesús til hans, en í draumi var það Júdas.
„Trúðu ekki orði af því sem krosshanginn þvaðrar,“ hvæsti Júdas eins og snákur í aldingarði. „Hann veit ekki út á hvað lífið gengur, hann þusar beint upp úr bókinni.“
Undarlegast þótti Andrési að vita aldrei hvernig Júdas leit út. Mætavel þekkti hann mynd Krists á róðukrossinum, í ætt við hefðbundnar Kristsmyndir mótaðar í anda Guido Reni, af þyrnikrýndum síðhærðum manni með snyrt alskegg, mænandi til himins. En engar myndir höfðu fest sig í sessi sem útlitsfyrirmyndir af Júdasi; máske frægust sú, sem Leonardo málaði á Heilaga kvöldmáltíð, þar sem hinn tortryggni postuli hallar sér fram á borðið, sagður mótaður eftir ábótanum í Santa Maria della Grazie, sem kvartaði undan seinagangi Leonardos við verkið. Svo var líka allfrægur Júdas í Getsemane-freskunni hans Giottos í kapellunni í Padúa og þar með upp talið. Allir þekktu Jesús í útliti, enginn Júdas.
Enda eru draummyndir hverfular og hvikular; í draumum geta menn tekið á sig mynd hvers sem er. Í þetta skipti leit Júdas, af ókunnri ástæðu, út eins og myndir sem Andrés hafði í æsku séð af Benedikti gamla Sveinssyni sýslumanni, föður Einsa, með rytjulegt geithafursskegg.
„Þú átt að þrá eitthvað meira,“ sagði Bensi-Júdas. Hann hélt á silfurskeftri hestasvipu í draumnum og gekk hjólbeinóttan þúfnagang. „Alltaf. Aldrei að sætta þig við það sem þú hefur. Alltaf að þrá eitthvað meira. Eitthvað betra. Einhverja betri.“
Stóð heima. Hann fékk prýðisgóða konu í faðm, fallega og gáfaða, konu sem elskaði hann – og þráði samt aðra. Engin nógu góð, sagði Júdas, þú getur ætíð nælt í einhverja vænni.
Lóló var sú hæga og rólega. Að sigra hana var eins og hægfara landvinningastríð. Hún veitti blíðu sína með eftirgangsmunum, það kostaði sitt stapp, en á endanum lét hún eftir. Stíf og stjörf eins og nýsigrað land. Fyrir bólfarir kraup hún við rúmstokkinn, spennti greipar, hneigði höfuð og baðst fyrir undir róðukrossinum.
„Hvers vegna í ósköpunum biðstu fyrir?“
Hún svaraði ekki strax og tautaði bænina til enda. Hann var ekki viss um hvort það væri með ráðum gert, til að skaprauna honum eða æsa hann upp, enda sneri hún í hann rassinum og ávalar línurnar mýktust þegar hvíti silkinærkjóllinn strekktist. Að endingu leit hún upp. „Karlmenn myndu ekki skilja það, væni minn.“
„Láttu reyna á það.“ Hvernig gat hún gert honum þetta, þegar hann beið með bísperrtan bólgna blóðkeppinn í brókinni, bleika beljakann, bústna bjúgað, blárauða bitstálið?
„Ég bið um fyrirgefningu.“
„Fyrirgefningu á hverju?“
„Á þeirri synd sem ég er að fara að drýgja.“ Andrés var nógu glöggur að sjá að hún orðaði þetta ekki sem synd beggja.
„Er það synd? Þú ert ekki einu sinni kaþólsk.“
„Já, það er synd.“ Hún var gift. „Rögnvaldur bíður mín heima á Akureyri. Með börnin.“
Þetta var næstum nóg til að slökkva brímann.„En þú gengur fús í leikinn.“
„Guð skóp mig breyska, væni.“
„Þú gætir alltaf skilið við hann.“ Hægara sagt en gert. Þetta voru þannig tímar. Fráskilin kona var útskúfuð kona.
„Vilt þú taka við mér mér? Og börnunum?“
Vomur komu á Andrés. „Allt annað mál.“ Eitthvað betra. Alltaf von um eitthvað betra.
„Eins og ég hélt.“ Hún reis á fætur á undirkjólnum – hún fór aldrei úr honum við hvílubrögðin, stóð aldrei kviknakin frammi fyrir ástmanni sínum – og lagðist á bakið í rúmið. „Eins og segir í Markúsarguðspjallinu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert annað boðorð er þessu meira.“ Hún dró faldinn upp á læri, rétt mátulega svo að ekkert óviðurkvæmilegt sæist.
Eitthvað var ónáttúrulegt við kringumstæðurnar, eitthvað sjúkt og dauðalegt. Undirkjóll Lólóar var úr líkhvítu silki og ekki alveg hreinn, enda nánast ómögulegt fyrir alþýðukonu að þvo slíka flík tandurhreina – og ekki hafði hún efni á efnalauginni, eiginkona verkamanns. Hún var líka litlaus á sýnilegt hörund útlima, eins og útþynnt vatnslitamynd. Andrés lét axlaböndin falla af síðerma nærskyrtunni, hneppti frá buxnastrengnum og buxnalokunni og dró Gefjunarbrækurnar ásamt föðurlandinu niður á læri. Lóló gaf frá sér stutt andvarp og þandi nasavængi þegar kjötsveðjan smjó sína leið, en lá annars hreyfingarlítil undir honum, umlandi eins og hún færi með hljóða bæn. Andrés rumdi, röddin blásandi hás og dapurleg, eins og óbó í dýpsta tóni, raddböndin titrandi eins og tvö aðlæg tréblástursblöð. Krosshanginn mælti ekki orð.
Og svo var allt búið. Þetta var brauð án bragðs, rósagarður án ilms, rússibanareið án fiðrings. Nauðsynleg og samt svo tilgangslaus. Konan smjó undan honum og fór fram að ná sér í þvottastykki. Svo klæddi hún sig í kjólinn, sem var bleksvartur og alsettur óreglulegum hárauðum doppum; eins og berklasjúklingur hefði hóstað hraustlega á prestshempu, hugsaði Andrés. Lóló brá um sig svuntu og tók til við matargerð fyrir hann; þetta gerði hún ætíð áður en hún hvarf aftur inn til Akureyrar. Ef hún mælti eitthvað, þá var það lágróma, og mest lofgjörð til hinnar glæstu nýju kirkju, sem hún sagði að yrði einkennistákn kaupstaðarins um ókomna tíð. Andrés hlýddi á með hálfum huga, rödd hennar varð fjarlæg, vísa fæddist – eða kannski andvísa.
Illt að greina orðaskil,
orðin líkjast dimmum hyl.
Allt það sem ég yrkja vil
ort var fyrr – og meira til.
En hin blíðlynda og guðhrædda Lóló kunni líka að gantast. Yfir kvöldmatnum – saltkjötsspað, kartöflur, soðnar rófur – sagði hún frá því hvernig allir væru farnir að segja olræt inni á Akureyri. Og hún reykti með honum enskar sígarettur úr pakka merktum Player´s og hafði það eftir enskum dáta að skælbrosandi skeggjaður sjóliðinn á pappírspakkanum, umlukinn björgunarhring, héti John Player, alveg eins og einn enskurinn á Eyrinni, og að sígarettupökkunum fylgdu myndaspjöld af bílum og flugvélum. Svo voru aðrir, sem reyktu frekar Góldfleik, og nýkomnir Kanarnir færðu mörlandanum Spödd með mentólkeim.
Þegar Lóló vildi ganga til náða þurfti Andrés að vaka lengur. „Mér þykir best að vinna að næturlagi.“
„Ó fyrirgefðu, væni, ég skal ekki trufla.“
Hann kyssti hana á ennið. „Ég vakna í fyrramálið til að fylgja þér úr hlaði. En ég verð að festa á blað allt sem ég get á þeim tímum sólarhringsins þegar andinn blæs í brjóst.“
Hún fór að sofa, en hann hélt áfram með leikritið sitt. Það verk sóttist honum hægt; það byggði á þjóðsögunni um Húsavíkur-Jón, dólginn sem Kölski sjálfur þorði ekki að hýsa af ótta við að missa völdin í víti, en sendi í þess stað enn neðar með neista og móköggul til að stofna eigið athvarf. Melurinn hann Dabbi, sem hafði fengið glimrandi dóma fyrir Sólon í fyrra, var alltaf að viðra hugmynd um að skrifa annað leikrit og sagði hraflið um Möðruvallamunkana bara hafa verið tilraun hjá honum; en nú vildi Andrés verða fyrri til, enda þreyttur á að standa í skugga vinar síns. Núna sat hann með pappírsörk og opna blekbyttu við eldhúsborðið, nagaði pennaenda og starði út um gluggann á nætursortann. Honum hugnaðist hvernig myrkrið reis undir nafni hér utan þéttbýlis, ekki eyðilagt af þessum rafurmögnuðu mýrarljósum mannanna sem lýstu upp þorp og kaupstaði. En myrkrið, sem reynst hafði svo mörgu skáldinu innblástur, brást honum núna. Nú, þegar dró nær fyrsta vetrardegi, liðu dagar og nætur hratt, líkt og augum væri deplað ótt og títt, bjart-svart, bjart-svart, bjart-svart. Það var einmitt sú hugsun sem færði honum titilinn að næstu ljóðabók, Þegar nóttin deplar sínu svarta auga. Og eitthvað í líkingu við myrkt ljóð fæddist:
Er syrtir yfir sést að lævíst lífið
er langur sveigður kuti, búksins ormur.
Hve tóm er ævin, hversu hvikult vífið!
Já, hvað er lognið ef ei dulinn stormur?
Þessa nótt dreymdi hann aftur að Júdas kæmi til hans, fyrst sem gyllt hnoða, sem mótaðist út úr myrkri og tók á sig mynd síra Matthíasar, og Andrés hugsaði í draumnum að það hlyti að vera vegna þess að Akureyrarkirkja hefði verið nefnd, en mundi um leið að síra Matthías hafði aldrei þjónað nýju kirkjunni, bara þeirri gömlu í Aðalstrætinu.
„Hvað sagði ég ekki?“ mælti Matti-Júdas. „Það er alltaf til eitthvað betra.“
„Þið eruð einn og hinn sami, er það ekki?“ svaraði Andrés í draumnum. „Jesjúdas. Eða Júdjesús. Annar vitjar í vöku og hinn í svefni.“
„Hvor er nú betri, ári fæddur á himni eða engill borinn í víti?“ svaraði Matti-Júdas. Hann var uppáklæddur, í sjakkett og lafafrakka, með stromphatt á höfði og hélt á montpriki. „Margtugginn, það er ég.“ Og Andrés skildi að hann vísaði til þess hvernig botnfrosinn Lúsífer japlaði endalaust á Júdasi í neðsta hring Vítis samkvæmt Dante.
„Og samt get ég ekki treyst því að þið séuð einn og hinn sami,“ sagði Andrés beisklega. Í draumnum var sviðsmyndin orðin allir hringir vítis Dantes, með margvíslegum baugunum eins og víðáttumiklum svölum með sálum fordæmdra, þar sem hver reis upp af öðrum líkt og á pöllum gríðarstórs íþróttaleikvangs, sem leysast upp í óendanlegt móskumettað myrkur með auknum fjarska. „Samt gætir þú verið freistarinn að villa um fyrir mér.“
„Trúðu því sem þú vilt,“ sagði Matti-Júdas fjörlega. Syndin var ætíð gleðileg, dyggðin leiðinleg. „En þú veist, hvernig sem á er litið, að ég hef rétt fyrir mér.“
„Ég er tómur,“ kvartaði Andrés í svefninum. „Mig skortir innblástur.“
„Þú getur alltaf skrifað um afkomendur þína,“ svaraði Matthías Júdas.
„Ég á enga afkomendur.“
„Æ. það var leitt.“ Kaldhæðnin leyndi sér ekki í rómi Matta-Júdasar.
„En Lórenz á þrjár dætur. Á ég að skrifa um þær? Þær eru á barnsaldri ennþá.“
„Þrjár systur – góður titill á bók. En hann hefur verið notaður. Á ég að kenna þér vísu? Hvíldarlaus í hverri viku / hvika ei við nokkra villu, / vaki yfir Veróniku / og verndaʼ hana frá myrkri illu.“
„Hver er Verónika? Það er útlenskulegt nafn.“ Var hægt að skrifa sögu ókominna niðja annarra?
„Æ, farðu bara að sofa, Andrés. Þér er ekki viðbjargandi.“
„Ég er sofandi.“
„Þú heldur það.“
III. hluti: 1945
Svefnleysi, uppfinning andskotans, um óttubilið er verst.
Gat verið seinnipartur vísu, en hvernig var þá sá fyrri?
Drottin lofaðu, dýrð sé hans, í draumheimi allt getur gerst.
Bannsettir aukastuðlar! Við bein Jónasar! Vond vísa var eins og ófullnægð ástkona.
Vaglir, Fnjósk, Vaðlar: Undarleg, hún íslenskan. Hvað þýddu eiginlega þessi orð? Hér sat hann andspænis myrkvuðum Vaglaskógi og horfði á dimma Fnjóská sleikja bakka. Hvað ætli fnjósk þýði? Bar kannski einhver landnámsmaður viðurnefnið fnjóski? Að húsabaki lá Vaðlaheiði. Sem hét væntanlega áður Vöðlaheiði. Var þar vísað í vöð yfir illfær fljót? Átti hann ekki að hafa þekkinguna á takteinum, hann sem hafði íslensku að atvinnu?
Nú hafði hann ekki sofið ærlega í þrjár nætur. Þrjár mjólkurhvítar mörlenskar miðsumarnætur.
Nei, ekki mjólkurhvítar lengur. Komið var inn í heyannir og rökkvað yfir hánóttina, þótt farið væri að birta að nýju þennan morgun og þunglamalegar útlínur hins eilífa Fornastaðafjalls væru ekki lengur blakkar. Héðan sást í átt að fáförnum heiðaveginum með öllum sínum bugðum og hlykkjum. Að degi til hristust og skröngluðust þar á mölinni mjólkurbílar, áður en þeir óku enn verri vegi innansveitar og skiptu á galvaniseruðum blikkbrúsum á brúsapöllum við heimtraðir, norðan frá Draflastöðum og Dæli suður að Sellandi og Reykjum. Búskapurinn lá frekar hér vestan ár, þar sem skóglendi var lítið, en austan gat að líta Vaglaskóg og Lundsskóg, næstum svartan í hverfulli næturbirtunni, og fjær í suðaustri Þórðarstaðarskóg og Bakkaselsskóg. Sumpart voru þetta leifar af skóglendi sem hafði mætt landnámsmönnum og tekist hafði í aldanna rás að verjast ágangi manna og fjár, en annars fyrsta meðvitaða viðleitni landsstjórnarinnar til að rækta upp landið. Héðan sá líka yfir bogabrúna, sem á sínum tíma var sögð lengsta steinhlaðna brú á Norðurlöndum.
Svefnleysi var uppfinning andskotans til að verjast kjaftavaðlinum í félaga hans Júdasi. Þannig sigraði hið illa alltaf.
Andrés nagaði hornskeftan enda á gömlum stíl og mændi hugsi út um norðurvísandi eldhúsglugga Björtubrekku. Við fætur hans, í skoti sínu nærri kamínunni, hringaði sig tíkin Perla. Hún gat þó sofið. Sólarupprásin var blæðandi sár, konunglegt pell og purpuri, guðdómlegt himinskautaljóð ritað með blóði krosshangans. Skáldið stakk stílnum aftur í blekbyttuna til að yrkja, en úr jóðsótt fjallsins fæddist mús:
Ég ligg, þótt deyfð og dofi
ei drauminn blekki.
Ég læt sem ég sofi,
en sofna ekki.
Andrési varð hugsað til Katla-Nesa sem hristi slíkar stökur fram úr erminni í sinni hugljúfustu mynd, enda barnakennari. Nesi var auðvitað í hinu rithöfundafélaginu, því róttæka, þar sem menn sváfu svefni hinna réttlátu, í fullvissu um flokk og fyrirheit, ráðstjórn og ríkisafskipti. Sovét-Ísland, óskalandið – hvenær kemur þú? Öðlingur, einstakt valmenni. Fyrstur til að leyfa sér að losa um rímið. Eins og menn voru löngu farnir að gera í útlandinu. Var ekki Rimbaud fyrstur?
Hvað var sumar annað en árstíð í helvíti? Nú var Kristur á róðunni hættur að nenna að tala við hann, enda ein ástkonan látin og hinar tvær vildu varla þýðast hann lengur. Nú beið hans ekkert annað en vist í víti.
Helvíti hlaut að felast í því að kútveltast um með sálina skekna á fjaðradýnu í biksvörtu myrkri, nei, í hvítbjörtu myrkri, og hrökkva upp við minnsta þrusk, heyra músagang magnast í landskjálftastærð, finna vængjaþyt lóuunga vaxa upp í óbærilega síbylju, álíta álftakvak ýlfur afturgöngu.
Jafnvel búrtíkur gátu sofið.
Andrés sat með tár af koníaki í kvörnuðum kaffibolla, en dreypti ekki á. Doktor Steingrímur þjóðskáldssonur hafði á sínum tíma, áður en hann fór til Danmerkur, amast við drykkju og sagst ekki geta mælt sérstaklega með áfengi sem ráði við svefnleysi. Og Andrés var orðinn frábitinn solli, átti æ erfiðara með að gera skemmtan úr drykkju. Ef hann gutlaði í seinni tíð varð hann bara þungur í skapi. Það gat gerst að hann skenkti sér slurk í glas að kveldi og hellti óhreyfðu í vaskinn næsta morgun. Eina nautnin núorðið var að yrkja. Fyrir hvern? Ljóð? Hvað voru þau annað en uppröðuð orð þar sem oft kom fyrir orðasambandið eins og? Fyrir hvern skrifar maður eiginlega? Mestmegnis fyrir sjálfan sig, ákvað hann. Gott var ef aðrir fengju einnig notið þess. Skemmtilegast væri, ef honum tækist að yrkja kvæði, sem hlyti náð fyrir augum tónskáldanna, svo að þau semdu stef og úr yrði sönglag. Þetta voru menn farnir að gera í ríkum mæli við ljóðin hans Dabba vinar og líklega yrðu bráðlega samin lög við kvæði Tomma, þau voru svo fjári lagvæn. Ólíklegt þó að nokkurn tíma yrði til lag úr ljóði eftir Dóra – þau voru ekki beint til þess sniðin …
Bíðum við, hér fæddist annað vísukorn:
Kollurinn er að klofna,
kemur út staka.
Ég reyni svo að sofna,
samt mun ég vaka
Þessar andvökur fóru andskotalega í hann. Hann var orðinn eins og lafði Makbeð, hálfgeggjaður af svefnleysi. Eins og? Of mörg eins og, hann var lafði Makbeð. Það var einmitt faðir doktorsins sem hafði þýtt Makbeð, ekki satt? Déskotans vitleysa hvernig hugurinn lét eins og áflogagjarn hundur og tengdi undarlegustu hluti saman, þegar maður hafði ekki sofið.
Andrés dæsti. Helst hefði hann viljað að næsta ljóðabók hans héti Andvökur, en sá titill var frátekinn af Klettafjallaskáldinu, sem hafði stritað í búskap frá rismálum til aftans og bætt síðan við dagsverki í kveðskap á nóttunni. Og þrátt fyrir meintar andvökur bugaðist Stephan G aldrei; kveðskapur hans var oftast upplífgandi, sjaldnast þungur. Nema í tilvikum sonanna, sem hann missti unga. Eins og Egill sterki. Sem sýndi að varla var ástæða til að eignast börn. Íslendingar áttu eitt fjallaskáld og annað Klettafjallaskáld, í senn heimóttarlegir og heimsborgaralegir. En einhver varð að sinna kúnum, hvort sem voru bændur, mjólkurbílsstjórar eða skáld í útlenskum fjöllum. Ekki Andrés þó, ónei! Hann var á skáldalaunum Alþingis. Eins og Dabbi, Gunni, Dóri og Nesi; kynslóð skálda sem hafði fengið sína fylli af hjarðljóðum og hjásetuvísum, fjalldælsku og fjólukveðskap. Stríði var nýlokið og Japanir sprengdir til andskotans með vítisvélum. Nú skyldi ort um helsprengjur og her, um atóm og óöld, um borgir og bílagargan. Einsi Ben hafði ort um Fimmtutröð í Nýju Jórvík í Vesturheimi. Hvers vegna hafði kveðskapur annars lifað með þjóðinni? Kannski vegna þess að þeir nenntu ekki að sinna búskap, enda í illbyggilegu landi. Þannig var með Þormóð Kolbrúnarskáld. Og Símon Dalaskáld. Útlendingar eins og Auden bentu á að Íslendingar, einir þjóða í Evrópu, hefðu ekki skilið eftir sig nein mannvirki úr steini í þúsund ára sögu sinni, meðan aðrir hlutar álfunnar moruðu í köstulum og mikilfenglegum dómkirkjum. Óþjóð í ólandi. Andrés hafði hitt Auden – monthana og stelpustrák, sem kom gagngert til Íslands til að geta gortað sig af því og skrifað um það bók. Eins og Morris. Eða Collingwood. Allir í leit að hetjuslóðum fornsagnanna – og fundu ekki annað en nauðaómerkilega mela og gróðursnautt eyðiland.
Helfró – hafði einhver notað það nafn? Ekki svo hann myndi fyrir víst. Andrés rámaði að vísu í smásögu með þessu nafni eftir Kobba Tór, en annað var það ekki. Titillinn hæfði næstu ljóðabók. Þeim mun frekar viðeigandi þar sem hann var laus við ástkonufarganið. Enda gagnaðist hann varla konu lengur.
Hann hafði verið óþarflega hranalegur við Birnu í síðasta skiptið sem hún kom í vor. Hann hafði setið við eldhúsborðið og reynt að yrkja, meðan hún sat í þykkbólstruðum dýjagrænum hægindastól inni í stofu og stagaði í háleist við rafljósaskin, hummandi gamlan revíusöng, en stældi jafnframt leikrödd, hvort sem þetta átti að vera Brynjólfur Jó, Bjarni Bö eða Haraldur Á:
Alltaf þegar ég á frí
og mér leiðist bænum í,
þá suður í Hafnarfjörð ég flý
og fer á kennderí.
„Hættu þessu gauli,“ hafði hann hvæst úr eldhúsinu. „Maður nær ekki að hugsa fyrir sönglinu í þér.“
Hann heyrði á snöggri og ískaldri þögn hennar að hún firrtist við.
Hann hefði átt að biðjast afsökunar. Hann hafði ekki ætlað sér að vera hastur, þetta hrökk bara upp úr honum. Svona var að eldast; allt kom öfugt upp úr manni. Hvassyrðin voru ekki meint eins illa og þau voru sögð.
En hann hafði ekki fengið sig til að biðjast fyrirgefningar og Birna hafði kvatt hann kuldalega fáum klukkustundum síðar og fengið far með mjólkurbíl sem renndi hjá hlaði. Andrés hafði ekki séð hana síðan.
Þetta voru endalok tímabils. Dagar víns og rósa taldir.
Hann hafði fengið sér búrtík í staðinn.
Ojæja. Klerkurinn yfir á Urðarlæk yrði vísast feginn að kvennastússinu væri lokið.
Þegar Birna var farin hafði hann fyllst eftirsjá og párað afmorsvísu á spássíuna. Dálítið eins og munkaklám í miðaldahandriti:
Til að banga brag til þín
bogann hátt ég spenni.
Eitilharður, ástin mín,
Amors lindarpenni.
En það sem Andrés vissi ekki og tíminn einn átti eftir að leiða í ljós var að hann hafði á þeirri stundu, meðan hann skammaði Birnu, verið að yrkja eitt sitt ástkærasta ljóð, Bráðum, bráðum, þar sem er að finna hin þjóðkunnu erindi:
Ég aðeins ráð eitt öllum kann og vil,
að elska, lifa, syngja, kneyfa og dansa.
Við, elskan, skulum, meðan tími er til,
tína okkur blóm og vefja kransa.
Já, tímans njótum, tryllt og ólm í fasi,
og teygum vín og elskumst, lyftum glasi,
því veik rós dauðans vex á okkur báðum
og vígaþyrnum nístir – bráðum, bráðum.
Alþjóð vissi aldrei hve holur tónn var í kvæðinu, jafnvel ekki eftir að það varð vinsælt sönglag. Andrés hafði verið algáður og ástlaus, þegar hann orti, í þann mund að gera sig kvenmannslausan til lífstíðar. Dagar víns og rósa liðnir. Bókmenntafræðingar seinni áratuga áttu eftir að lesa út úr kvæðinu lífsgleðiáhrif úr Rubayyat Ómars Khayaams, enda fannst áritað eintak af þýðingu Magnúsar í bókaherbergi Andrésar að honum látnum. En einnig þóttust spekingarnir að sunnan greina vott af bölsýni Williams Blake í hinni veiku rós og enn aðrir bentu á að ort væri stakhent að hætti Shakespeares.
IV. hluti: 1946
Litla sveitakirkjan að Urðarlæk tók ekki marga gesti í sæti og því var þéttsetið við útförina. Á fremsta bekk sat eftirlifandi eiginmaður hinnar látnu, svartklæddur, starandi í gaupnir sér, veltandi milli fingra steinsvörtum Fedora-hatti með bleksvartari silkiborða, steinrunninn á svip. Við hlið ekkilsins sátu börn hans þrjú, öll á skólaaldri, drengirnir kjökrandi og snöktandi, stúlkan hágrátandi.
Það var ósk hinnar látnu að vera grafin þarna, á æskuslóðum.
Kirkjan var ekki hlý og frá mannfólkinu stafaði frekar raki en varmi. Innandyra var saggasamt og utandyra var hráslagalegt haustveður, rigningarslagi sem jaðraði við slyddu, svo að fátæklegar trjáhríslurnar hristust lauflausar í litlum sveitakirkjugarðinum er sást í mýflugumynd út um gluggaborurnar í suðuráttina. Í forarsvaðinu á hlaðinu voru niðurrigndir hestar bundnir við hestastein og hafði reiðfólkið vart gefið sér tóm til að spretta frá; montnustu bændurnir höfðu komið á dráttarvélum, einn með aftanívagn tengdan, og einnig stóðu þarna tveir eða þrír bílar og einn til viðbótar kom hægfara akandi upp hála forartröðina. Einhverjir gestir höfðu skrölt með áætlunarbílnum innan frá Akureyri og sumir innansveitungar höfðu komið fótgangandi, eins og sjá mátti á forugu kirkjugólfinu. Fremur rökkvað var innandyra, enda farið spart með olíu og kerti, ennþá skortur á vörum að afloknu stríði. Veggir kirkjunnar voru málaðir í fölgrænum lit sem sums staðar var flagnaður. Innan við gráturnar var afar þröngt og aldurhniginn, hempuklæddur presturinn komst þar varla fyrir. Það var einnig með erfiðismunum að tekist hafði að koma kistunni inn í kirkjuna; sumir höfðu talið hyggilegra að geyma hana yfir á prestsetrinu. Belgurinn á orgelgarminum var óþéttur og þurfti Mangi gamli, með hvítt hárið strítt í allar áttir, að stíga látlaust til að laða fram tóna sem líktust mest hvískri í mæðiveikri rollu.
Klerkurinn var nýstiginn í stólinn með líkræðuna þegar útidyrunum var svipt upp svo gustaði um. Allt kirkjuskipið sneri sig úr hálsliðnum og horfði frakkaklæddan mann koma slagandi í gættina með blautan hatt á höfði.
„Við bein Jónasar! Ég finn alla meinbugi á þessari athöfn,“ hrópaði hann drykkjumannslega, eins og um hjónavígslu væri að ræða.
„Hér er engu að mótmæla, herra minn.“ Þótt gamli presturinn væri í miðri ræðu fipaðist hann varla. „Dauðinn vinnur sín verk, óháð vilja lifenda, því miður. Ef herrann vildi vera svo vænn að setjast og hafa hljótt,“ Honum láðist að nefna að setið var í hverju rúmi og fyllt vel út í hornin.
„Þá mótmæli ég dauðanum!“ Drukkni aðkomumaðurinn vagaði þannig að hann steig ýmist í tærnar eða hælana. Votan hattinn hafði hann þó tekið ofan og hélt honum milli fingra.
Að baki aðkomumanns í gættinni kom nú í ljós annar maður, undirgefnari og bláedrú. Sá leit vandræðalega og afsakandi í kringum sig, vitandi vits að jarðarför væri raskað. Þeir, sem höfðu komið alla leið innan frá Akureyri, þekktu leigubílstjóra á góðum bíl, hann Fúsa taxa. Hann sagði við þann drukkna: „Komið þér nú, herra Andrés. Ég sagði yður að það væri ekki skynsamlegt …“
En drukkni maðurinn í gættinni lét ekki segjast. Hann seildist djúpt í frakkavasann, dró þaðan upp upp gulbrúnt pilluglas og hélt því hátt á lofti.
„Dauðinn,“ kallaði hann í átt að prestinum. „Þetta er dauðinn.“
Kliður fór um raðir kirkjugesta. Skandall í uppsiglingu. Er þetta ekki skáldið að Björtubrekku? Jú. Það er sagt að hann hafi haldið við hana Lóló. Jafnvel að hann hafi rekið hana út í … Ekki segja svona. Ekki fyrir framan börnin. Börn hinnar látnu voru sjálf hætt að gráta, höfðu snúið höfði á bekknum og mændu forviða á aðkomumanninn.
Þá greip Rögnvaldur faðir þeirra til eigin ráða. Hann stökk á fætur, arkaði út kirkjugólfið og æddi að drykkjumanninum. „Það voruð þér sem drápuð hana, Drési djöfull.“ Rögnvaldur ýtti af fullu afli á brjóstið á kokkál sínum. „Hvernig dirfist þér að dúkka upp hérna, helvítið yðar?“
Andrés frá Björtubrekku sýndi engin viðbrögð í þá veru að verja sig. Hann hrökklaðist út úr kirkjunni og niður þrepin tvö og átti erfitt með að halda jafnvægi.
Bílstjóri Andrésar reyndi að ganga á milli, en ekkillinn var fílefldur og hrinti eklinum til hliðar.
„Já, sýndu hvað í þér býr, Röggi,“ sagði Andrés, bograndi, varla standandi í lappirnar. „Lemdu mig endilega. Eins og þú gerðir við hana.“
Hann uppskar það sem við mátti búast: Rögnvaldur rumdi eins og tarfur, kýldi hann fyrra höggið í síðuna og hið síðara á kjálkann. „Hvað á annað að gera við ræfil sem rænir börn móður sinni?“ umlaði hann slefandi á meðan. Andrés valt aftur fyrir sig í svaðið og missti pilluglasið í úruga forina. Andstæðingurinn kastaði sér yfir hann og reyndi að koma á hann höggi.
Ýmsir kirkjugestir voru komnir í dyragættina og jafnvel út á tröppur, en veigruðu sér við að leita út í rigninguna. Í gluggum prestsetursins mátti sjá gardínur bærast og forvitin kvenmannsandlit birtast, meðal annars gráhærða prestsmaddömuna. Sumir karlarnir komu út, en skiptust í tvo hópa: Þá sem vildu standa álengdar og njóta áfloganna og hina sem vildu aðskilja áflogaseggina – sem reyndar var bara annar maðurinn, því að hinn sýndi lítil merki þess að bera hönd fyrir höfuð sér.
Þótt menn veigruðu sér við því að óhreinka sig stigu einhverjir út í rigninguna og drógu syrgjandi eiginmanninn ofan af hinum ósvífna kokkál. Engin afsökun við þessar kringumstæður að vera þjóðfrægur; þeir sem meira máttu sín í samfélaginu þurftu að sýna öðrum lágmarksvirðingu.
Rögnvaldur, með sparifötin útbíuð í leðjuslettum, reis á fætur.. „Hann er ekki þess virði,“ hreytti hann út úr sér.
„Alveg rétt,“ tók einn undir úr hópi þeirra sem sefuðu hann, „hann er ekki þess virði.“
Andrés brölti á fætur, með forarleðju bókstaflega drjúpandi af frakka sínum, en fáir virtust vilja aðstoða hann. „En hún var þó þess virði.“
Orðin hittu beint í mark, Rögnvaldur rak aftur upp öskur, hljóp að honum, þreif í frakkaboðungana og keyrði skáldið á undan sér út af hlaðinu og um sáluhliðið inn í aðliggjandi kirkjugarðinn. Drukkið fórnarlambið átti erfitt með að fóta sig, rann í hálu grasinu og var nánast dreginn af eljara sínum síðasta spölinn. Halarófa karlmanna fylgdi á eftir og reyndi árangurslaust að stöðva Rögnvald, sem var fílefldur og henti Andrési í nýtekna og opna gröfina.
„Þarna eigið þér best heima,“ öskraði hann á eftir kokkálnum, þreif eina rekuna úr moldarbingnum, mokaði klaufalegri skóflufylli í bræðiskasti og hefði hent verkfærinu í gröfina á eftir drykkjuraftinum ef tveir vinnumenn prestsins hefðu ekki loks náð að stöðva hann og fjarlægja áhaldið.
„Svona, Röggi, róaðu þig.“
„Ekki gera illt verra.“
„Eins og ég sagði áðan, hann er ekki þess virði.“
Rögnvaldur horfði á Andrés liggjandi á hlið í gröfinni. „Best væri að henda helvítis kistunni beint ofan á kvikindið,“ hreytti hann út úr sér. „Þá gæti hún legið á honum til eilífðarnóns. Hún drap sig jú út af honum.“ Og hann hrækti í gröfina.
Allstór þvaga hafði nú myndast í húðarrigningunni í kirkjugarðinum og samúð flestra, ef ekki allra, lá hjá eiginmanninum, sem sat uppi með þrjú móðurlaus börn. Enda var hann farinn að gráta þegar hann var leiddur aftur upp í kirkjuna til þriggja grátandi barna sinna.
Það kom í hlut bílstjórans að hjálpa hinu dauðadrukkna skáldi upp úr gröfinni og stumra yfir því. Báðir voru þeir holdvotir og hærur Andrésar lögðust í gráhvítum henglum niður kollinn. Skáldið hrópaði á eftir gestunum sem voru að hverfa aftur inn í kirkjuna til athafnar sem sett hafði verið í uppnám: „Hér, í Herrans jurtagarði, hefur Drottinn sáð fræjum sínum og þau sálarblómin munu upp spretta á Dómsdegi sem ormétnir náir, verðugir þess að fylla öll sæti í sölum Himnaríkis.“ En orð hans hlutu enga athygli og kirkjudyrunum var lokað á eftir síðasta manni. Og heyra mátti smellinn á eftir þeim þegar Mangi gamli læsti með pípulykli sínum.
„Ég sagði yður, herra Andrés, að þessi ráðagerð væri ekki hyggileg.“ Bílstjórinn reyndi að þurrka óhreinindin af frakka skáldsins með tvisti, en það var kjánalegt uppátæki sem skilaði litlu, en makaði jafnvel aurnum enn frekar í flíkina.
„Gallinn við mig, Fúsi,“ drafaði Andrés, „er sá að ég hlíti aldrei skynsamlegum ráðum. Þess vegna er svona komið fyrir mér. Og nú er ég orðinn eins og sjálfur Kristur.“
„Nú?“ Bílstjórinn var ekki hættur að reyna að þurrka með tvistinum.
„Já, ég hef verið til grafar lagður og risið þaðan upp. Ertu með flöskuna á þér, Fúsi?“
„Ég skildi hana eftir í bílnum. Ella væri hún brotin.“ Fúsi leit á skáldið. „Eruð þér örugglega í lagi? Þér þurfið ekki til læknis?“ Þetta hljómaði næstum eins og hann teldi þurfa að koma farþega sínum í hendurnar á mönnum sem gætu metið andlegt ástand hans.
Andrés hristi höfuðið. Þeir röltu áleiðis að sáluhlaðinu og voru brátt komnir á kirkjuhlaðið þar sem Fúsi teygði sig eftir hatti skáldsins sem flaut í polli. „Þér viljið varla fara þarna inn aftur?“ Hann kinkaði kolli í átt að kirkjunni. „En kannski leyfir prestsmaddaman yður að snyrta yður?“
„Varla að ég þori. Ætli yrði ekki á svipstundu héraðsfleygt um allt Vöðlaþing að þjóðskáldið hafi kássast upp á kerlingu klerksins?“ Andrés fór úr frakkanum og vöðlaði hann saman. Hann sá á svip bílstjórans að honum leist ekki á að fá farþegan útataðan í aftursætið. Bíllinn var afgamall Humber Super Snipe, sem Bretar höfðu skilið hér eftir, módel frá því fyrir stríð, enda höfðu þeir ekki framleitt fólksbíla í neinum mæli á stríðsárunum. „Nei, Fúsi minn, við höfum ekki fleira að gera hérna. Hún er farin að eilífu og ég hef tekið út mína refsingu. Hvar er sopinn?“
Bílstjórinn teygði sig í aftursætið eftir flöskunni og rétti skáldinu, en meðan það saup á fór Fúsi í bílskottið, sótti þar nokkur gömul eintök af Alþýðublaðinu og dreifði úr þeim í sæti bíls síns til að óhreinka hann ekki umfram nauðsyn. Síðustu tveimur örkunum kom hann fyrir í bílstjórasætinu, enda sjálfur holdvotur. Síðan setti hann upp kaskeiti sitt og bauð farþeganum að setjast aftur í. „Viljið þér nú ekki fara aftur heim að Björtubrekku?“
„Heim? Óekki! Ég vil fara í aðra kirkju.“
„Aðra kirkju?“
„Aftur vestur um Vaðlaheiði og út í Öxnadal. Ég hef heyrt því fleygt að úti á Bakka hafi síðustu daga legið kista með kollega mínum. Önnur útför. Skál.“ Beinin, sem hann sór svo oft við, voru sögð liggja þar.
„Það verða engin, umm, leiðindi þar?“
„Leiðindi?“ Andrés hló stórkarlalega í aftursætinu. „Fráleitt, elsku vinur. Ef þú ekur hægt og vaggandi sofna ég eflaust eins og barn.“ Og á leiðinni niður foruga tröðina hóf hann að rausa, meðan bílstjórinn rýndi í gegnum regnvatnið sem viðstöðulítið rann niður framrúðuna svo að vinnukonurnar höfðu vart undan: „Er hægt að skrifa sögu ættar sinnar ókominnar, Fúsi? Er það ekki nokkuð geggjuð hugmynd? Ég er viss um að skrattakollinum honum Dabba hefur ekki flogið það í hug. Hver ætti að vera sögumaður og frá hvaða sjónarhorni ætti að segja? Mörgum? Ætti þá ekki að hafa hana margræða, í ýmsum lögum og frá ýmsum tímum? Ekki beint rússneska – ég kæri mig ekkert um línulega frásögn, það er ómódern. Ekki breiða samfélagslýsingu eins og Stríð og frið eða heimspekilega skáldsögu á borð við Karamazov-bræður, þótt eflaust kæmu fyrir þrír bræður. Engir Mitya, Vanya eða Alojsja hér, samt. Þrír er töfratala í bókmenntum, Fúsi, vissirðu það? Bakkabræður. Ása, Signý og Helga. Örlaganornirnar. Karíturnar. Þrjár systur Tsékovs. Nornirnar í Macbeth. Og ástkonurnar mínar.“
Og Fúsi bílstjóri mátti hlýða á rausið í honum alla leið yfir í Öxnadalinn, ósáttur við að þurfa að aka foruga og hægfarna þjóðvegina sem allir voru í holum.
Þegar kom vestur á Bakka tveimur klukkutímum síðar var löngu búið úr bokkunni og einnig tekið að stytta upp þótt þungbúið væri. Andrés hafði sofið langleiðina og var ekki eins rykugur og fyrr. Þór bóndi sem þarna réði húsum leit tortryggnu hornauga til hans, en veitti honum samt leyfið til að fara yfir lækjarbrúna og út í kirkju. Fúsi varð eftir innandyra á bænum til að þurrka betur rök föt sín, þáði þar kaffisopa og bað leyfis að fá að nota sveitasímann til að hringja eitt símtal inn á Akureyri. Andrés fór yfir að ólæstri og lágreistri kirkjunni, gekk inn kirkjugólfið, smeygði sér framhjá hvítlakkaðri líkkistunni sem stóð þar á búkkum og settist á fremsta bekk. Vængir altaristöflunnar stóðu opnir, þótt engin væri messan, og kveikt var á kertum í tveimur stjökum á altarinu. Rétt við hlið kistu frægasta stéttarbróður síns laut Andrés höfði í virðingarskyni – og steinsofnaði síðan álútur.
„Eins og hundur hjá leiði látins húsbónda.“ Karlmannleg röddin barst að baki og vakti hann af værum blundi; fótatakið brast með dálitlu bergmáli undan fornfálegum gólfborðunum í mannauðu guðshúsinu. „Eða ertu bara orðinn svona déskoti kirkjurækinn? Tvær kirkjur á sama degi, skilst mér.“
Andrés sneri sér undrandi við þótt hann þekkti vel djúpa röddina. „Dabbi? Hvílík tilviljun að þú skulir koma hingað á sama degi!“
Davíð settist við hlið hans á fremsta bekk, hávaxinn og herðabreiður. Hann var klæddur í splunkunýjan ullarfrakka og bar hatt sinn í hendi. Hann hafði bilið allsæmilegt á milli þeirra þegar hann sá forugan frakka Andrésar.
„Engin tilviljun. Fúsi hringdi í mig og sagði mér að þú værir ekki upp á þitt besta í dag. En þú ert væntanlega að tigna viðbeinið hans?“ Davíð kinkaði kolli í átt að líkkistunni.
„Viðbeinið hans?“
„Er það ekki það sem þú segir alltaf? Viðbein Jónasar?“ Hann brosti að eigin kímni, en gaut svo aftur auga að kistunni alvarlegri í bragði. „Hérna á hann heima. En þeir vilja hrifsa hann til sín og hola honum niður fyrir sunnan.“ Hann kímdi aftur. „Guð forði okkur frá því, Drési, að við verðum svo mikil þjóðskáld að þeir heimti sálarhylkin okkar suður. Við skulum hemja okkur og stilla andagiftinni í hóf.“
„Það er vandamál, sem þú þarft við að glíma, Dabbi, en varla ég.“
Þeir sátu um tíma þögulir og niðurlútir, eins og til að votta kistunni virðingu sína. Að endingu spurði Davíð: „Hefurðu séð beinin? Hefur einhver kíkt í kistuna?“
Andrés hristi höfuðið. „Við verðum bara að hafa það fyrir satt. Það þyrfti ribbaldaflokk vopnaðan kúbeinum til að opna hana. Sigurjón lét geirnegla hana áður en hann hélt aftur suður. Ég held að hann hafi óttast að einhver kynni að lauma beinunum burt eða skipta á þeim.“
„Og þú situr bara hérna eins og varðmaður?“
Andrés yppti öxlum. „Varðmaður eða vökumaður – ég sit hérna og læt renna af mér, punktur. Annars koma fáir, þetta er of mikið úr alfaraleið. Helst að sveitungar álpist víst hingað, Öxndælir sjálfir. Þeir segjast eiga hann. Bóndinn hér á Bakka hefur lykla og leyfir kirkjunni að standa opinni að fyrirmælum séra Sigurðar á Möðruvöllum. Svo er alltaf einstaka rati sem nennir að leggja á sig ferðalag innan frá Akureyri. Eins og þú.“ Andrés leit loks almennilega á skáldbróður sinn. „Helvíti ertu draugfínn, maður.“
„Ég er nýkominn heim frá Svíþjóð. Heimsótti hann Árna í Tullinge. Og í Ynglingaríki er hægt að kaupa varning; þeir þurfa þó ekki að endurreisa atvinnulíf sitt eftir stríð af því að þeir tóku ekki þátt.“
„Ég heyrði að Per Albin Hanson væri dauður.“
„Já, en það var ekki ég sem drap hann,“ svaraði Davíð glettinn. „Nema hann hafi heyrt eitthvert ljóðið mitt og drepist úr leiðindum.“
Það krimti í Andrési og Davíð skynjaði að hann hafði náð til ljósari hliðar sálar vinar síns. Hann virti svo fyrir sér altaristöfluna; kertin höfðu brunnið nokkuð niður. Kirkjan var óvenju björt af guðshúsi að vera, með allmörgum gluggum, nokkuð stórum og ósteindum. Davíð tók ofan gleraugun, þurrkaði hvarmana og renndi augum yfir skeifulaga gráturnar með sínum renndu pílárum. Þá loks virti hann betur fyrir sér kremhvítu einföldu kistuna, sem stóð þar þvert fyrir framan. Á fótagafli hennar hafði verið festur silfurskjöldur með grafinni áletrun, á lokinu var einfaldur upphleyptur kross, við höfðalagið hafði verið komið fyrir tveimur íslenskum fánum á lágum slútandi látúnsstöngum.
„Þeir vilja víst hola henni niður á Þingvöllum,“ mælti Andrés. „Segja að Einsi karlinn sé að verða einmana þar.“
„Ætli Einsi kysi ekki fremur kvenmannsbelg við hliðina til að ylja sér?“ Nú hlógu þeir báðir og Davíð hélt áfram og lyfti hendinni með hattinum í átt að kistunni: „Gárungar segja að þetta sé ekkert Jónas, heldur bara ósamstætt aldagamalt beinarusl úr dönskum slátrurum og bökurum.“
„Væri ekki mátulegt á sagnaþjóðina að grafa útlenskan slátrara í misgripum fyrir sinn besta son?“
„Sussum suss, Drési, svona nokkuð segjum við ekki. Að minnsta kosti ekki upphátt. Kannski seinna, en ekki núna. Lýðveldið er ungt og eyru þess viðkvæm.“
„Er það ekki aðallega Hriflu-Júdas sem stendur fyrir að koma kistunni fyrir á Þingvöllum? Ætti snepjumennið ekki að standa með heimamönnum í þessu máli? Hann er jú héðan úr héraði. Kvislingur – þótt ég mæli ekki með því að hann hljóti sömu örlög og sá norski í fyrra.“
„Kvislingur?“ Davíð hagræddi gleraugunum sem voru í hinni landsfrægu svörtu kringlóttu umgjörð. Augun voru tárvot og roði í augnlokunum; hann átti við sívaxandi hvarmabólgu að stríða. „Ja, þar ertu kominn með skemmtilegt nýyrði. Brúkhæft til ríms líka. Kvislingur, mislingur, nei, bara í fleirtölu, kvislingar, mislingar.“ Hann varð fjarrænn á svip, eins og oft þegar hann velti fyrir sér hlutunum – eða bara merkingu orða. „Hm, mislingar, skrítið orð. Af hverju ætli það sé í fleirtölu? Og hvað skyldi það merkja?“
„Og gríslingur sem gæti þýtt lítill grís …“ Andrés var að hníga saman í sætinu, en settist nú reffilega upp og rétti úr bakinu þegar hann sá hve samræðurnar voru að þróast í kjánalega átt. „Varst þú sendur til að sækja mig?“
„Ég frétti af uppákomunni úti á Urðarlæk,“ viðurkenndi Davíð. „Fúsi taxi hringdi í mig inn á Akureyri og sagðist hafa áhyggjur af þér – og ég svona nýkominn að utan. Ég fékk hann til að skjótast eftir mér og við komum beint hingað. Hann bíður enn hinum megin við ána.“ Davíð lagði lófann á framhandlegg Andrésar. „Væri nú ekki heillaráð að koma með okkur inn í bæ? Ég skal sýna þér nýja húsið mitt.“
„Sýna mér það? Ég hef nú komið þangað.“
„Já, einu sinni, en það var í hittiðfyrra og þá var ég ekki almennilega fluttur inn. Núna hefur öllu verið komið fyrir á sinn stað.“
Andrés leit á vin sinn með vonarglampa í augum. „Býðurðu upp á einn?“
Það dimmdi yfir svip Davíðs. „Ég er orðinn óttalega latur til drykkjunnar í seinni tíð, nenni varla að draga tappa úr flösku. Ekki bara af því að doksinn segir að ég þurfi að halda blóðþrýstingnum niðri, heldur bara … heldur bara … sé ég ekki almennilega tilganginn í því lengur. En,“ hann sá vonbrigðin í svip vinar síns, „hvað gerir maður ekki þegar týndur sonur snýr heim? Að sjálfsögðu slátrar maður alikálfinum.“
Andrés stóð á fætur. „Mér er sagt að þeir ætli að halda minningarathöfn hérna í kirkjunni á morgun. Síðan verði kistan flutt suður, með sýslumannsvaldi ef til þarf.“
„Meinarðu að þú viljir vera viðstaddur athöfnina?“
Andrés hristi höfuðið. „Ég hef varið nægum tíma með dönskum slátrara hérna. Hann þolir betur en ég gestanauð og múgæsing morgundagsins.“ Hann reis snöggt á fætur og gekk rösklega af stað svo Davíð stökk líka upp og hljóp við fót til að halda í við vin sinn.
„Já, drífum okkur,“ sagði sá síðarnefndi. „Við skulum fríska upp á þig. Það er baðherbergi í nýja húsinu. Öll nýmóðins þægindi.“
Þeir komu út úr forkirkjunni í haustkulið. Dumbungur var enn í lofti, en úrkoman hætt, og þokkalega sá um sveitir inn á fjörð þótt þokubakkar léku um tinda; Hraundranginn með öllu hulinn. Handan Öxnadalsárinnar, úti á Steinsstöðum, virtist bóndinn hafa fest vörubíl í haustsvaði. Á hlaðinu kvöddu skáldbræðurnir Þór kirkjubónda með handabandi og virktum, en hann hafði slegið bústörfum á frest og vappað utan við kirkjuna á meðan tveir skáldjöfrar lifandi og sá þriðji látinn voru þar inni.
„Þér vitið að foreldrar hans og systir eru grafin hér í garðinum?“ spurði bóndinn óframhleypinn.
Andrés var heldur fáskiptinn, enda hafði hann sofið í kirkjunni drjúgan dagspart. Það kom því í hlut Davíðs að svara.
„Við komum seinna að vitja þeirra,“ sagði hann vingjarnlega, „þegar öll fjölskyldan hefur sameinast þar. Haf þökk fyrir þína aðstoð.“
Frakkaklæddu vinirnir röltu arm í arm niður að göngubrúnni, en handan hennar beið leigubíllinn og Fúsi taxi sveiflaðist snöggt út, þegar hann sá þá nálgast. Gamli Humberinn var forugur upp um dekk og bretti og miðjar hurðir, en Fúsi tók sér stöðu teinréttur, opnaði afturdyrnar, heilsaði innvirðulega og bar fingur að stéli þótt tuska væri enn í hendi. Andrés kinkaði kolli kumpánlega en orðalaust til hans og Davíð mælti mynduglega: „Þakka þér fyrir, Vigfús,“ um leið og hann aðstoðaði félaga sinn inn í baksætið sem hafði augljóslega verið þrifið.
Fúsi settist í bílstjórasætið og spurði: „Hvert skal aka, herramenn?“
„Heim til mín,“ svaraði Davíð. „Það er ágætur áfangastaður fyrsta veifið.“