Fimmti ritstjórnapistill

Norðan sextugustu breiddargráðu, og þó sunnar væri leitað, eru jólin óhjákvæmilega tími inniveru. Þótt einhverjir grilli eflaust jólamatinn á þessari eyju okkar, þá eru garðveislur og útihátíðir víst ákaflega fátíðar á Íslandi í desember. Það er því við hæfi að Stelkur bjóði upp á fjórar sögur sem snúast á einn eða annan hátt um hús og híbýli.

Í Nýju eldhúsi eftir máli eftir Friðgeir Einarsson lætur söguhetjan sig dreyma um innréttinguna sem muni koma tilveru hans á réttan kjöl. Gamall sumarbústaður, með innbúi sem hefur staðið ósnert í árafjöld, verður aðalpersónu Ragnheiðar Hörpu Leifsdóttur tilefni til að gera upp samband sitt við foreldra sína í Heiðlóu, gráþresti, álku, jaðrakan. Ófyrirséð heimsókn í heimahús á Arnarnesi er þrep á leið til glötunar fyrir ungan föður í Slóða eftir Hauk Ingvarsson. Og í Bragakaffi eftir Mao Alheimsdóttur leitast söguhetjan við að skapa tengsl í almannarými, í veruleika heimsfaraldurs þar sem heimboð er örlagarík ákvörðun.

Stelkur vill þakka lesendum okkar til sjávar og sveita fyrir samfylgdina á árinu, sem og öllum höfundum sem treystu okkur fyrir sögunum sínum, sem hægt er að finna í eldri tölublöðum vefritsins. Hafið það öll gott um jólin og við sjáumst aftur þegar næsti stelkur lendir.