Fyrsti ritstjórnarpistill

Bókmenntir veita okkur fjarlægð á eigin líf. Við gleymum eigin vandamálum og hugsum um vandamál annarra, írsks munks sem flýr undan syndum sínum út á haf, þýskukennara á fertugsaldri sem kemst ekki fram úr rúminu, konu sem tekur að sér villidýr, eða nemanda í tölvunarfræði sem getur ekki skrifað meistararitgerð.

Smásögur, öfugt við lengri prósaform, eru oftast lesnar í einum rikk. Lesandi sest niður, stígur inn í annað líf, og þegar sagan er á enda hefur hugurinn verið í öðrum líkama, öðrum heimi, og öðrum tíma. Þær eru vökudraumur, hlið inn í aðra veröld, og hvíld frá raunveruleikanum. Við leyfum öðrum að hugsa fyrir okkur í smástund, og hugsanir okkar fara inn á aðrar brautir.

Smásögur eru frábært bókmenntaform, en undanfarin ár hefur sífellt fækkað tímaritum, dagblöðum og vefritum, og þar af leiðandi eru sífellt færri leiðir fyrir smásögur til að hitta fyrir lesendur sína. Ætlunin er að Stelkur komi út ársfjórðungslega, og í hverju tölublaði verða fjórar smásögur á bilinu fjögur til tíu þúsund orð. Þannig að hvert tölublað verði eins og hálf jólabók. Við í ritstjórninni erum þakklát Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO fyrir að styrkja okkur, og vonum að lesendur hafi jafn mikla ánægju af þessum smásögum og við.