Annar ritstjórnarpistill

Samskipti foreldra og barna hafa verið skáldum ótæmandi uppspretta sagna, frá forngrísku harmleikjunum til okkar eigin Íslendingasagna, og eru það enn í dag. Það þarf ekki að koma á óvart, enda höfum við öll upplifað þetta samband með einum eða öðrum hætti og gjarnan mátað fleira en eitt hlutverk innan þess.

Tvær af sögum þessa tölublaðs, Sumarbúðir eftir Gerði Kristnýju og Gæludýramissir eftir Jakub Stachowiak, eru sagðar frá sjónarhóli barns en í Snælenju eftir Kára Tulinius er sjónarhornið foreldrisins. Þótt minna fari fyrir þessu þema í Skyrtunni eftir Braga Ólafsson, verður þó óvænt fregn í símtali barns til foreldris kveikjan að ófyrirséðri og afdrifaríkri atburðarás í sögunni.

Nú er jólabókaflóð síðasta árs afstaðið en í augum Stelksins er engin ástæða til annars en að halda veislunni áfram og því bætum við hér eins og hálfri jólabókarfylli af sagnalist út í elginn. Nú þegar köldustu mánuðir ársins eru framundan er ærið tilefni til þess að ferðast með þessum sögum inn í sunnlenska sumarið, Akureyri og Eldlandið, Vesturbæ Reykjavíkur, Öskjuhlíðina og sögufrægan pöbb í Prag.