Apríl er, eins og allir vita, grimmastur mánaða. Fyrirheit hækkandi sólar eru ómótstæðileg, fyrirheit um betri tíð með blóm í haga. Fyrirheit um nýtt upphaf.
En enn er allra veðra von.
Stelkurinn er engin lóa. Í þessu tölublaði flytur hann ykkur fjórar margslungnar sögur um leitina að nýju upphafi. Óvæntar, áhrifamiklar sögur, fyndnar og ljúfsárar – og stundum sannarlega grimmar.
Hvalreki, verðlaunasaga Védísar Evu Guðmundsdóttur, er full af spriklandi furðum en fjallar undir niðri um „einsemd og þrá eftir nánd og samskiptum,“ eins og segir í umsögn dómnefndar Júlíönu, hátíðar sögu og bóka á Stykkishólmi, þar sem sagan hreppti á dögunum fyrstu verðlaun. Það gleður okkur mikið að fá að frumbirta hana hér.
Í Hverfa á milli eftir Þórdísi Þúfu Björnsdóttur kynnumst við sögupersónu sem hefur afrekað það sem við þráum öll – að finna fullkomið jafnvægi í lífinu – og er ekki tilbúin að láta óvænt áfall hrifsa það frá sér.
Enn ófundinn eftir Ísak Regal segir frá ungum manni á barmi þess að slá í gegn, á barmi þess að finna ástina og lífsleyndardóminn viðsjála sem öllu á eftir að breyta.
Söguhetja Almannaróms eftir Hall Þór Halldórsson hefur hins vegar þegar upplifað velgengni, ósigra og nýtt upphaf – en baráttunni við fjandsamleg öfl er aldrei lokið.
Stelkurinn er stoltur af því að fá að kynna fyrir lesendum ferskar nýjar raddir í íslenskum bókmenntum í bland við höfunda sem eru að leita á nýjar slóðir og vonar að þriðja tölublaðið stytti ykkur stundir á meðan við bíðum þess að ósvikið sumar gangi í garð.