Sumarið er tíminn þegar stelknum líður best. Hann flýgur frjáls um loftin blá – kannski ekki alveg frjáls. Það þarf að gæta að eggjum og ungum, veiða sér í gogginn og verjast ógnum.
Þegar allt kemur til alls er frelsið flókin skepna.
Í fjórða tölublaði Stelks birtast fjórar magnaðar sögur sem kafa á dýptina í mannssálinni, fullar af frelsisþrá og ást.
Datsja eftir Kristínu Ómarsdóttur sýnir okkur víðmynd af löngum sumarmorgni í sveitinni þar sem kynslóðirnar snæða saman undir berum himni og textinn glitrar eins og sól á spenntum strengjum ástar og togstreitu.
Í Hesed eftir lomma er sögumaður ástfanginn af konu á bak við lás og slá. Fangavistin veitir honum í senn frelsi til að upplifa hið fullkomna ástarsamband og afsökun til að reisa múra gagnvart heiminum.
Útsýnið af fjórðu hæð eftir Hólmfríði Helgu Sigurðardóttur segir frá rótinu í lífi ungra kvenna þar sem stóra skrefið út í frelsið er bara byrjunin, því böndin sem halda þeim föngnum eru ósýnileg og margflækt.
Í Töfravendinum eftir Evu Rún Snorradóttur er völundarhúsið sem umlykur söguhetjuna einnig ósýnilegt og raunar alls óljóst hver hefur sett upp hvaða veggi. En eitt er víst: Leiðin út er í sjónmáli og hún liggur í gegnum kynferðislega fullnægingu.
Með þessu fjórða tölublaði lýkur Stelkurinn fyrsta útgáfuári sínu. Við horfum til baka stolt, dálítið hrærð yfir viðtökunum og innilega þakklát öllum höfundunum sem hafa treyst okkur fyrir verkum sínum. Um leið horfum við fram á veginn full eftirvæntingar fyrir nýjum ævintýrum, innblásin af því sem hlýtur að mega kalla blómaskeið í ritun íslenskra smásagna.
Njótið vel!