Sjötti ritstjórnarpistill

Skáldskapur er alltaf í afstöðu til raunveruleikans, og bera margir undirflokkar hans heiti sem kemur þeim fyrir á þessu rófi. Raunsæisbókmenntir skilgreina sig þannig að þær séu trúverðugasta formið, meðan staðleysan auglýsir það að hún gerist utan okkar veruleika. Í þessu sjötta tölublaði Stelks förum við frá einum enda þessa rófs til annars.

Við birtum í fyrsta skipti sannsögu, magnaðan texta Vilborgar Ólafsdóttur, Um það sem er hvorki slétt og fellt né klippt og skorið, sem fjallar á næman og margbrotinn hátt um ótímabæran dauða og missi. Öll okkar sem misst hafa náinn vin geta speglað sig í þessari frásögn, sem þrátt fyrir að vera kunnugleg okkur flestum, hverfist um gullfalleg smáatriði.

Saga Þorvaldar Sigurbjörns Helgasonar, Sjö hafnanir Steingríms Sturlu, er skörp satíra á það hvernig er að vera skáld í nútímanum. Aðalpersónan glatar á einum degi öllu því sem hann hefur byggt sjálfsskilning sinn á hingað til. Margt í þessari meinfyndnu og hæðnu hrakfallasögu er óþægilega kunnuglegt hverjum þeim sem hefur reynt að elta drauma sína í Reykjavík samtímans.

Þaðan förum við út úr veruleikanum inn í annarleikann. Litli strákur, eftir Steinar Braga, segir frá manni sem virðist hafa týnt sjálfum sér og hafnað í heimi sem gengur ekki upp. Þessi skáldaða veröld er gerð óþægilega raunveruleg með því að fylla hana af hversdagslegum hlutum og fólki sem virðist hversdagslegt þangað til annað kemur í ljós.

Loks er Hverjum Feneyjum sinn ferðalangur eftir annan ritstjóra Stelks, Kára Tulinius, eins konar kviksjá sem hverfist um tvö listaverk sem er að finna í Feneyjum og segir sögur fólks sem tengist þeim með einum eða öðrum hætti, hver þeirra í mismunandi afstöðu til raunveruleikans.