Svo hulunni sé flett af fundahöldum í ritstjórn Stelks, þá ræðum við oft um það hvort einstök tölublöð hafi eitthvert ákveðið þema. Yfirleitt þykja okkur sögurnar tengjast á einhvern hátt, en sjálfsagt er hægt að finna tengingar milli hvaða fjögurra smásagna sem er. Fólk sér þó það sem það sér, og þegar öðrum er bent á slík mynstur, þá blasa þau oft við.
Stundum koma þemun til okkar á silfurfati, og þó ekki. Það var hvorki planið að þetta tölublað kæmi út 19. júní, né að í því væru bara sögur eftir konur. Við ætlum þó ekki að halda því fram hér séu sögur sem fjalli um kosningarétt eða aldalanga baráttu fyrir réttindum kvenna, heldur eru þetta fjórar sögur eftir ólíka kvenkyns höfunda með mismunandi hugðarefni.
Í sögunni Hvarfið segir Krista Alexandersdóttir frá manni sem upplifir það að meginþorri mannkynsins hverfi af óútskýrðum orsökum. Sagan veltir upp áleitnum spurningum um raunveruleikann og samband manneskjunnar við sínar eigin skynjanir.
Drapp eftir Kristínu Eiríksdóttur fjallar um konu sem gerist sálfræðingur eftir að hafa gefið leiklistardraumana upp á bátinn. Þegar lýst er eftir fyrrum skjólstæðingi hennar, sem er dramatúrg, fer hún að sjá líf sitt í nýju ljósi eins og leikari sem fær nótur frá dramatúrg.
Söguhetja Kyrra lífs eftir Karólínu Rós Ólafsdóttur er jafn tengd því ómennska í umhverfi sínu og því mannlega. Hún reynir að henda reiður á tilveru þar sem sambönd hennar við mannfólk falla smátt og smátt í skuggann af einhverju frumstæðara og óhugnanlegra.
Hamur eftir annan ritstjóra Stelks, Þórdísi Helgadóttur, er nokkurs konar draugasaga. Hún fjallar um skepnu sem bæði er og er ekki geirfugl, er og er ekki útdauð, og stúlku sem bæði er og er ekki þessa heims.
Stelkur fagnar deginum, stendur ævinlega með kvennabaráttu og óskar ykkur öllum ánægjulegra lestrarstunda.