Áttundi ritstjórnarpistill

Manneskjan er hópdýr. Heimsmynd okkar og jafnvel sjálfsmynd mótast að miklu leyti í samskiptum við annað fólk. Þess vegna hriktir stundum í stoðunum þegar samskiptin verða erfið, sambönd breytast eða það kemur á daginn að þau voru kannski aldrei alveg eins og við ímynduðum okkur. Þetta er með einum eða öðrum hætti umfjöllunarefnið í áttunda tölublaði Stelks.

Titilpersónan í Er sem var, Ívar, eftir Soffíu Bjarnadóttur, er dularfullur náungi sem birtist óvænt í lífi sögukonunnar á umbreytingatímum, eins og sendur úr gömlu dægurlagi.

Í sögu Péturs Gunnarssonar, Inga og Kötu, reyna persónurnar að fóta sig eftir skilnað þar sem línur aðdráttarafls og fráhrindikrafts liggja þvers og kruss eins og fuglafit.

Fnjósk, eftir Helga Ingólfsson, fjallar um hið gleymda skáld Andrés frá Björtubrekku og ástkonurnar þrjár sem hann kemur æði misvel fram við, þar sem hugur hans er alltaf hjá músunni.

Loks fjallar Skurn, eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur, um vináttusamband sem er ógnað þegar annar vinurinn fer yfir mörk hins ásættanlega – en hvor vinurinn er það sem gerst hefur brotlegur?

Með þessu áttunda tölublaði lýkur Stelkur sínu öðru útgáfuári. Ritstjórnin þakkar innilega fyrir viðtökurnar, sem hafa verið okkur framar vonum. Við leyfum okkur jafnframt að vona að þið lesendur smásagna haldið áfram að heimsækja vefinn og lesa nýjar og eldri sögur. Einnig viljum við þakka skáldunum sem hafa treyst okkur fyrir hugverkum sínu, samskiptin við þau hafa verið allt annað en erfið.